Liverpool hefur á langri sögu myndað sterk tengsl við nokkur lið með einum eða öðrum hætti. Utan Englands flokkast Celtic í Skotlandi líklega sem nánasti vinaklúbbur Liverpool og eru tengsl félaganna margvísleg.
Á meginlandi Evrópu hefur líklega ekkert lið sterkari tengsl við Liverpool en Borussia Monchengladbach og ná tengsl félaganna allt aftur til ársins 1973 og lifa enn. Mörg fleiri lið koma til greina, oft í tengslum við sögufrægar viðureignir.
Undanfarin ár hefur annað Borussia lið verið að bætast við þennan hóp en það er staðsett tæplega 100 km frá Monchengladbach. Tengsl Liverpool og Dortmund ná þó miklu lengra aftur en marga grunar því þessi lið mættust fyrst í fyrsta úrslitaleik í sögu beggja liða í Evrópukeppni. Það var árið 1966 í keppni sem hét þá Evrópukeppni bikarhafa en sú keppni rann síðar inn í það sem nú er kallað Europa League. Til að komast í úrslit þeirrar keppni vann Liverpool einmitt Celtic í undanúrslitum og mættust þar stórvinirnir Bill Shankly og Jock Stein.
Dortmund og Liverpool eru á margan hátt svipaðar borgir. Báðar eru miklar verkamannaborgir og er t.a.m. oft talað um Dortmund sem hjarta SPD (flokkur sósíal-demókrata sem er annar af stóru flokkunum í Þýskalandi) á meðan Íhaldsflokkurinn er (nánast) blótsyrði meðal meginþorra heimamanna í Liverpool og náðu þeir t.a.m. ekki inn manni í síðustu borgarstjórnarkosningum.
Borgirnar eru svipað stórar, íbúafjöldi Liverpool er talinn vera tæplega hálf milljón og er borgin sjöunda fjölmennasta borg Bretlandseyja. Dortmund telur um 600.þúsund manns og er sú áttunda fjölmennasta í Þýskalandi. Báðar eru þó á mjög fjölmennum svæðum og segir skráður íbúafjöldi kannski ekki alveg alla söguna.
Báðar voru miklar iðnaðarborgir í upphafi síðustu aldar, báðar gengu í gegnum sambærilega erfiðleika undir lok síðustu aldar en hafa verið að rísa sterkar upp aftur undanfarin ár.
Kop vs Yellow Wall
Fótbolti eru einu raunverulegu trúarbrögð beggja borga og það er líklega helst á pöllunum sem hægt er að líkja stuðningsmönnum Liverpool og Dortmund saman og er virðing þessara hópa fyrir hvor öðrum gríðarleg og hefur verið lengi. Westfalenstadion og Anfield Road eru meðal frægustu íþróttaleikvanga í heiminum. Stúkurnar fyrir aftan annað markið á báðum völlum þar sem harðasti kjarni stuðningsmanna beggja liða safnast saman eru líklega frægustu stúkur í heiminum. Guli veggurinn svokallaði á Westfalenstadion og auðvitað Kop stúkan á Anfield.
Það verður rosalega gaman að sjá stuðningshópa þessara liða mætast á fimmtudagskvöldi undir flóðljósum. Undanfarin ár hafa stuðningsmenn Dortmund klárlega haft yfirhöndinga en fyrir því eru nokkrar augljósar ástæður.
Fyrir það fyrsta hefur allt gengið í hagin hjá Dortmund undanfarin ár og voru Klopp árin líklega þau skemmtilegustu sem stuðningsmenn liðsins hafa upplifað. Völlurinn þeirra tekur rúmlega 80.000 manns og ekki bara er hann að mestu fullur af heimamönnum þá er einnig boðið upp á eitthvað sem kallast safe standing. Með því fyrirkomulagi er hægt að koma mun fleiri áhorfendum á völlinn og stemmingin er miklu betri. Guli veggurinn er hannaður svona og komast tæplega 25.þúsund manns fyrir á deildarleikjum í þeirri stúku, ekki ósvipað og Kop tók á sínum tíma. Safe standing er hinsvegar bannað á Evrópuleikjum og tekur Westfalen þá um 65.þús í stað 80.þús. Þessi fækkun er nánast öll í Gula veggnum og tekur stúkan þannig svipað marga og Kop stúkan gerir nú.
Þetta er viðkvæmt umræðuefni á Englandi, hvergi þó eins viðkvæmt og í Liverpool borg en er klárlega til umræðu. Anfield Wrap komu inn á þetta í Podcast þætti á dögunum og töluðu fyrir safe standing en töldu ólíklegt að farið yrði í baráttu fyrir því fyrr en búið er að dæma endanlega í Hillsborough málaferlunum. Safe-standing eins og er víða í Evrópu er þó ekkert í líkingu við það sem sást á völlum fyrir Taylor skýrsluna sem kvað á um að banna ætti stæði.
Að lokum þá er meðal aldur áhorfenda á Westfalen líklega 10 árum yngri að meðaltali heldur en á Anfield. Þetta er ágiskun og á við um muninn í heild milli deildanna á Englandi og í Þýskalandi og helgast aðallega af fáránlegu miðaverði á Englandi. Eftirspurnin er auðvitað mun meiri á Englandi en hugsunarhátturinn í Englandi og Þýskalandi er eins og svart og hvítt hvað þetta varðar.
Leikurinn gegn United var engu að síður fín æfing og sýndi að það er ennþá líf á Anfield á Evrópuleikjum. Þar tókst loksins að mynda alvöru Evrópuleikja stemmingu sem aldrei tókst á síðasta tímabili er liðið komst aftur í Meistaradeildina. Eins sýndi tímabilið 2013/14 að Anfield er langt í frá dauður úr öllum æðum.
YNWA
Rétt eins og hjá Celtic er You´ll Never Walk Alone einkennislag beggja liða. Það er hætt við því að gæsahúðin verði varanleg eftir 7.apríl n.k. er liðin mætast á Westfalen og hárin á hausnum fara líklega á flug 14.apríl er liðin mætast á Anfield. Sá leikur er daginn fyrir síðustu Hillsborough minningarathöfnina sem haldin verður á Anfield Road.
Einn stuðningsmanna Dortmund fékk hjartaáfall og lést á dögnum er liðið mætti Mainz, hans var minnst með þessum hætti strax eftir leik.
Jurgen Klopp
Eftir að Jurgen Klopp var ráðinn stjóri Liverpool er líklega hægt að bæta Dortmund varanlega á þennan lista fyrir vinaklúbba Liverpool, hann verður vonandi hetja hjá báðum liðum ekki ósvipað og Dalglish var hjá Liverpool og Celtic sem tengdi félögin enn betur saman.
Stuðningsmenn Liverpool voru engu að síður fyrir löngu búnir að falla fyrir bæði Klopp og stuðningsmönnum Dortmund áður en hann var ráðin til Liverpool. Það er t.a.m. mikið við hæfi að mæta Dortmund daginn fyrir síðustu Hillsborough minningarathöfnina því er Dortmund var í hæstu hæðum undir stjórn Klopp árið 2012 gerði harðasti kjarni stuðningsmanna liðsins þetta í miðjum gula veggnum.
Hillsborough málið var þarna aftur komið í hámæli og voru stuðningsmenn Dortmund langt í frá þeir einu sem sýndu samstöðu með þessum hætti, en þetta fór svo sannarlega ekki fram hjá neinum í Liverpool og Kop þakkaði fyrir sig við fyrsta tækifæri.
Fyrri viðureignir liðanna
Eins og áður segir mættust þessi lið í úrslitaleik Evrópukeppni bikarhafa árið 1966. Dortmund vann þann leik 2-1 eftir framlengingu en það var verðandi heimsmeistarinn Roger Hunt sem skoraði mark Liverpool og jafnaði metin á Hampten Park í Glasgow. Raunar skoraði Ron Yates fyrirliði Liverpool einnig og kláraði einvígið því seinna mark Dortmund var sjálfsmark hans en hann fékk boltann í sig eftir stangarskot.
Völlurinn tók vel yfir 100.þúsund manns en áhorfendur á þessum leik voru rétt rúmlega 40.þúsund. Bæði var hræðilegt veður þennan dag og eins hafði Celtic fallið úr leik í undanúrslitum. Stuðningsmenn Liverpool voru þó áberandi fleiri og sjálfstraustið mikið enda vann liðið deildina fimm dögum áður. Stuðningsmenn Celtic voru ekki hrifnari af Liverpool en það að þeir studdu flestir Dortmund í leiknum enda ekki búnir að fyrirgefa tapið í undanúrslitum.
Liverpool var mun sterkari aðilinn í leiknum og mun meira með boltann en skyndisóknir Dortmund dugðu þeim til sigurs. Bill Shankly var hreint ekki sáttur að leik loknum.
“We were beaten by a team of frightened men. It was obviously their plan from the start simply to keep us in subjection. They had no real attacking plan but they won and I am quite sincere when I say they are the worst team we met in the competition this season. “If Tommy Smith and Roger Hunt would have been fully fit we would have won easily. Smith injured an ankle six weeks ago and aggravated the injury early in the game it early in the game. Hunt injured his ankle again midway through the first half.”
2001
Síðast þegar Liverpool vann UEFA Cup (í dag Europa League) var árið 2001. Úrslitaleikurinn sem var sögulegur í meira lagi fór fram á Westfalenstadion og eiga stuðningsmenn Liverpool því extra góðar minningar frá þeim velli. Liðið spilaði þó aftur á þessum velli nokkrum mánuðum síðar en Dortmund var með Liverpool í riðli í Meistaradeildinni tímabilið 2001/02.
Eins og nú fór fyrri leikurinn fram á Westfalen og endaði með markalausu jafntefli fyrir framan 50.þúsund manns. Skömmu áður hafði England rústað Þýskalandi 5-0 með mörkum frá Gerrard, Owen og Heskey sem allir spiluðu með Liverpool.
Seinni leikurinn fór 2-0 og vann Liverpool riðilinn með þeim sigri og fór áfram ásamt Boavista. Dortmund sat eftir í 3.sæti.
Æfingaleikir
Það er svo kannski til marks um tengsl liðanna að þau hafa fjórum sinnim mæst í æfingaleikjum. Fyrst árið 1975 á Westfalen níu árum eftir úrslitaleik liðanna. Þau mættust aftur á Westfalen níu árum síðar og var sá leikur partur af 75.ára afmæli Dortmund. Liverpool vann báða leikina.
Næsti leikur var átta árum síðar eða 1992, það var 2-3 tapleikur í París á æfingamóti þar sem bæði lið tóku þátt.
Síðast mættust þessu lið svo árið 2014 er Klopp kom með Dortmund á Anfield sælla minninga. Svona orðaði ég þetta þá undir myndinni af því er hann snerti Anfield merkið.
Sá leikur gat ekki gefið mikið rangari fyrirheit fyrir því sem koma skildi á tímabilinu, Liverpool vann 4-0 og liðið leit frábærlega út. Þetta er leikurinn sem Klopp er að tala um hjá Lovren núna er hann segist alltaf hafa vitað hvað í honum bjó enda var Lovren frábær í æfingaleiknum gegn Dortmund. Coutinho þó hinsvegar afgerandi bestur á vellinum
Leikmenn
Fjórir leikmenn hafa leikið fyrir bæði liðin. Karl-Heinz Riedle er ein af hetjum Dortmund enda skoraði hann tvisvar í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 1997. Hann kom til Liverpool tveimur mánuðum seinna en náði sér því miður aldrei á strik á Anfield og varð undir í samkeppni um stöður við Fowler og Owen.
Árið áður en Riedle kom hafði Roy Evans keypt Patrick Berger frá Dortmund og var hann hjá Liverpool í sjö ár. Hann kom í kjölfar frammistöðu Tékka á EM 1996 og var öllu betri fengur en Riedle.
Þetta eru einu leikmennirnir sem hafa farið beint á milli þessara liða og óskandi að þeim fjölgi eitthvað strax næsta sumar.
Að auki hafa þeir Philippe Degen og Nuri Sahin spilað fyrir bæði lið. Sahin er reyndar kominn aftur til Dortmund og spilaði í febrúar sinn fyrsta leik eftir um ár á meiðslalistanum. Nuri Sahin var besti leikmaður deildarinnar tímabilið sem Dortmund fann titilinn fyrst undir stjórn Klopp. Hann er uppalinn hjá Dortmund og var keyptur til Real Madríd þá um sumarið og kom þaðan á láni til Liverpool. Ég er ennþá á því að Rodgers hafi ekki verið á bakvið þann lánssamning og hann sýndi það svo sannarlega að hann vissi ekkert hvernig hann ætti að ná því besta út úr Sahn. Klopp tók honum fagnandi aftur til Dortmund er færi til þess gafst.
Það er magnað að fá Dortmund í Evrópu strax árið eftir að Klopp yfirgaf félagið. Hann er stærsta ástæða þess að fótboltaheimurinn féll fyrir Dortmund og hann gerir þessa viðureign sérstaka. Það er meiri spenna fyrir Liverpool – Dortmund en er fyrir flestum Meistaradeildar viðureingum 8-liða úrslita. Þessi félög eiga reyndar ekkert að vera í Europa League en það er önnur saga. En það er ekki bara Klopp sem gerir þessa viðureign sérstaka og saga félaganna nær miklu lengra aftur en 2008 er hann tók við Dortmund.
Tíu dagar í fyrri viðureignina við Dortmund. Til að hita upp fyrir þennan leik brjótum við þetta niður í 2-3 færslur (og líklega podcast þátt) í stað þess að hafa eina stóra.
Takk fyrir þetta Einar. Þu ert nattúrulega lang skemmtilegasti fótbolta penni á Íslandi. En þu veist það
Takk fyrir þennan pistil, alltaf gaman lesa þessa Evrópu pistla. 🙂
Sælir félagar
Vil bara segja það sama og Teddi#2, Annað var það svo sem ekki nema ef til vill að nefna það að Dortmund er mitt lið í Þýskalandi en það breytir því ekki að Liverpool verður mitt lið í þessari keppni. Því fær ekkert breytt.
Það er nú þannig
YNWA
Takk fyrir pistilinn Einar. Götze til Liverpool væru nú aldeilis tenging við Dortmund en spurning er hvort leikmaður sem kemst ekki að í byrjunarliði Bayern sé nógu góður til að lyfta livarpool í efstu hæðir. Vonandi er hann bara í lægð og springur út á nýjan leik undir stjórn Klopp, þ.e.a.s. ef hann kemur. Ég held að lykillinn að sigri gegn Dormund í leikjunum tveimur verði að skella í lás á Anfield og sýna af hverju völlurinn var lengi vel kallaður erfiðasti útivöllur í Evrópu. Hinir frábæru stuðningsmenn Liverpool eiga svo sannarlega skilið að liðið blómstri á heimavelli, Anfield á að vera óvinnandi vígi.
*England vann Þýskaland 5-1.
Eftir skituna i sidasta leik er eiginlega komin krafa ad taka bangsann af Dortmund.