Liverpool endaði í áttunda sæti á síðasta tímabili, það þýðir að okkar menn þurfa að bæta sig meira en sjö lið næsta vetur og er Chelsea ekki talið með þar. Auðvitað er þetta ekki alveg svona einfalt en mig langar engu að síður aðeins að taka það saman hvað hin liðin hafa verið að gera það sem af er sumri. Höfum auðvitað í huga að leikmannaglugginn er ekki ennþá formlega opnaður. Þessi lið eru rétt eins og Liverpool orðuð við annanhvern leikmann.
Arsenal
Stjórinn:
Ennþá virðast Arsenalmenn ætla að halda sig við Arsene Wenger en það er ljóst hann má ekki við mörgum vondum köflum í vetur. Það er komin gríðarleg þreyta í marga stuðningsmenn Arsenal sem vilja sjá breytingar og fóru ekki leynt með þá skoðun sína. Wenger skilaði þeim þó engu að síður í 2. sæti síðasta vetur sem lítur betur út en það hljómar, furðulegt eins og það nú er. Arsenal átti að vinna titilinn síðasta vetur þegar öll hin liðin voru að gera í brækurnar.
Leikmenn inn/út:
Wenger er með sitt lið hjá Arsenal sem hann hefur byggt upp yfir langan tíma og þarf ekki að breyta of mikið. Hann getur einbeitt sér að því að kaupa fáa og góða leikmenn. Eins eru þeir ekki lengur að missa sína bestu menn sem hjálpar gríðarlega. Núna hafa þeir tryggt sér hinn gríðarlega sterka miðjumann Granít Xakha sem kemur í liðið í stað Arteta og Rosicky. Gríðarleg bæting á miðsvæðinu með þessum skiptum. Jamie Vardy var svo á óskalistanum sem gefur til kynna að Arsenal er tilbúið að borga það sem þarf fyrir sóknarmann og þurfa að gera það.
Líklegt byrjunarlið næsta vetur:
Cech
Bellerin – Koscielny – Gabriel – Monreal
Xakha – Cazorla
Sanchez – Ramsey – Özil
Giroud/nýr sóknarmaður
Ljóst að þeir kaupa líklega inn sóknarmann sem veitir Giroud meiri samkeppni en Welbeck er að gera. Eiga góða breidd á bekknum miðað við þetta byrjunarlið.
Annað:
Þetta verður lokatímabil Wenger og hann mun hafa lið til að berjast alla leið. Lendi liðið í mótlæti gæti pressan frá stuðningsmönnum haft eitrandi áhrif á liðið. Þegar stjórar hafa svona stóran hluta stuðningsmanna á móti sér er aldrei langt eftir.
Tottenham
Stjórinn:
Líklega eru fáir eins öruggir í starfi og Pochettino, hann sýndi það í vetur að þar fer frábær stjóri. Liðið sprakk illa á lokametrunum á síðasta tímabili og endaði frábært tímabil á miklum vonbrigðum, þ.e. í þriðja sæti í tveggja liða kapphlaupi. Næsta vetur þarf að gera ráð fyrir mun stærri Evrópukeppni. Hann hefur ekki verið með lið þar áður og verður fróðlegt að sjá hvernig þeir takast á við auknar væntingar eftir síðasta tímabil.
Leikmenn inn/út:
Rólegt í byrjun sumars hjá Tottenham og svosem ekki líklegt að þeir geri mikið í sumar. Þurfa ekki að kaupa marga og því síður selja eins og þeir hafa þurft mörg undanfarin ár. Victor Wanyama er búinn að skrifa undir en þar fer gríðarlega sterkur varnartengiliður sem stjórinn þekkir mjög vel. Hann gæti reynst þeir gríðarlegur styrkur þó þeir eigi reyndar fyrir Eric Dier í sömu stöðu. Líklegt að þeir kaupi einnig sóknarmann til að þurfa ekki að treysta á Harry Kane einan líkt og síðasta vetur.
Líklegt byrjunarlið næsta vetur:
Lloris
Walker – Alderweireld – Vertongen – Rose
Dier – Dembéle
Lamela – Alli – Eriksen
Kane
Annað:
Eru bara með gríðarlega sterkt lið, vörnin er mjög góð þó hún hafi aðeins dalað undir lok tímabilsins. Wanyama eykur breiddina á miðjunni og fremstu fjórir eru allir mjög góðir á frábærum aldri. Tottenham slapp gríðarlega vel við alvarleg meiðsli lykilmann í fyrra og verður fróðlegt að sjá hvort það gerist aftur með liðið í Meistaradeildinni núna.
Man Utd
Stjórinn:
Óttast að þeir hafi gert rosalega sterka skiptingu í þessari stöðu í sumar. LVG er búinn að byggja upp ágætan grunn fyrir Mourinho tegund af fótbolta. Hann fær svo eins mikinn pening og hann fer fram á til að bæta við sínum mönnum. Mourinho gæti ekki passað betur við Man Utd og ég er ekki að meina þetta jákvætt á neinn hátt. Maður óttast að hann landi hjá þeim titli á 1-2 árum en vonar heitt og innilega að þetta verði eins og þegar Grindavík réði Guðjón Þórðarson. Hann mun a.m.k. fá töluverða samkeppni í vetur, svo mikið er víst.
Leikmenn inn/út:
Fyrsta verk var að landa Eric Balliy frá Villareal. Eðlilegt að fyrsta verk sé að kaupa miðvörð og það sem ég las mig til um Balliy fyrir leik okkar gegn Villareal er ljóst að þar fer gríðarlega sterkur leikmaður. Zlatan er svo sterklega orðaður við United og þar fer karakter sem gæti ekki passað betur við Mourinho og United. Þeir kaupa pottþétt meira í sumar og virðast því miður ætla að halda De Gea.
Líklegt byrjunarlið næsta vetur:
De Gea
Darmian – Balliy – Smalling – Shaw
Schneiderlin – Herrera
Martial – Rooney – Depay
Zlatan?
Tippa á að Mourinho kaupi nýjan hægri bakvörð fljótlega og auðvitað er standið á Shaw spurningarmerki. Eins held ég að Willian tegund af kantmanni sé efst á óskalistanum núna. United á svo gríðarlega góðan bekk og mjög stóran hóp.
Annað:
Takist honum að ná sínum gamla stöðguleika með sigra á minni liðunum og svo leiðinlega 1-0 / 1-1 leiki í stórleikjunum þar sem rútunni er lagt er leiðin greið fyrir United í deild þar sem hin liðin taka væntanlega stig hvert af öðru. United er í Evrópudeildinni og með nýjan stjóra, þar er vonandi tækifæri fyrir okkar menn sem eru það ekki.
Man City
Stjórinn:
Ríkasta lið í heimi fær þann stjóra sem það vill. Líklega er búið að leggja grunn að komu Guardiola í þó nokkuð langan tíma. Hann hefur auðvitað sannað sig á Spáni og í Þýskalandi en fær óneitanlega töluvert meiri samkeppni núna á Englandi. Með Guardiola fylgja alltaf nánast þeir leikmenn sem hann vill fá enda alltaf í ríkasta liðinu í hverju landi.
Leikmenn inn/út:
Guardiola hóf bara leik á Gundogan, bölvaður. Það er ljóst að Man City þarf að endurnýja liðið hjá sér töluvert og Guardiola mun hefjast handa strax í sumar. Eða réttara sagt Txiki Begiristain sem áður var með Guardiola hjá Barcelona.
Líklegt byrjunarlið næsta vetur:
Hart
Zabaleta – Kompany – Otamendi – Kolorov
Fernandinho – Gundogan
Silva – De Druyne – Sterling
Aguero
Annað:
Tökum stöðuna á þessum hóp aftur eftir 2-3 ár. Efast um að það verði margir eftir. Ómögulegt að sjá fyrir hvernig Guardiloa mun leggja þetta upp, hann mun líklega ekki ná að stimpla sína hugmyndafræði strax inn í núverndi hóp. Líklega mun Guardiola endurnýja hópinn með því að kaupa stóra bita í bland við unga leikmenn félagsins. Akademía Man City er ein sú besta á Englandi og flottasta í heiminum. Arabarnir eru pottþétt að reyna búa til sína La Masia með þeirri uppbyggingu og hafa nú ráðið aðalkallana þaðan. Rétt eins og með Mourinho verður fróðlegt að sjá hvað Guardiola gerir þegar hann er að keppa í aðeins meira en tveggja liða deild heimafyrir.
Chelsea
Ættu ekki að vera með í þessari upptalningu liða fyrir ofan Liverpool en þeir koma aftur, það er ljóst.
Stjórinn:
Conte landsliðsþjálfari Ítalíu tekur við eftir EM. Honum hefur stundum verið líkt við Mourinho og verður fróðlegt að sjá hvað hann gerir í öðru landi en á Ítalíu. Hann endurreisti Juventus á Ítalíu frá 2011-2014 og vann deildina þrisvar í röð áður en hann tók við landsliðinu. Mjög taktískur stjóri sem er þekktur fyrir að leggja upp með 3-5-2 leikkerfið. Hann gæti komið með ferska vinda í enska boltann. Hann er gríðarleg bæting á Mourinho enda ekki annað hægt, spurning með Hiddink.
Leikmenn inn/út:
Conte hefur ekki ennþá tekið formlega við liðinu og því ekki byrjaður á leikmannamarkaðnum. Hann þekkir vel til á markaði sem aðrir enskir stjórar eru ekki eins öflugir og mun eflaust nýta sér það seinna í sumar.
Vonlaust að spá fyrir um líklegt byrjunarlið næsta vetur en ljóst að Chelsea er með frábært lið fyrir sem nýr stjóri getur eflaust sparkað í gang.
Annað:
Nýr stjóri á fyrsta ári í nýju landi og nær ekkert að undirbúa sig fyrr en eftir EM. Það mun vonandi taka hann tíma að komast inn í enska boltann en það er ljóst að Chelsea bindur miklar vonir við hann. Þeir hafa reyndar ráðið flest alla aðra mögulega stjóra, röðin var komin að Conte núna. Chelsea verður ekki aftur í 10. sæti, svo mikið er víst. Hjálpar Conte gríðarlega að sleppa við Evrópu í vetur.
Southamton
Stjórinn:
Enn einu sinni skipta þeir um stjóra og aftur missa þeir stjóra til liða sem þeir eru í beinni samkeppni við. Skellur að menn vilji frekar fara til Everton! Pellegrini er helst orðaður við starfið en það er ómögulegt að giska á hver næsti stjóri verður, hafa sannað það undanfarin ár að þeir vita hvað þeir eru að gera bak við tjöldin hjá Southamton.
Leikmenn inn/út:
Helsta fréttin er að Wanyama er farinn til Tottenham og Liverpool er mjög sterklega orðað við Mané. M.ö.o. enn eitt árið fara þeirra lykilmenn til stóru liðanna á Englandi. Væri létt búinn að missa vitið sem stuðningsmaður Southamton, reyndar hafa allir stuðningsmenn liðsins sem ég veit um einmitt gert það.
Líklegt byrjunarlið næsta vetur:
Nenni ekki að spá í því, Liverpool skal bara drullast til að vera vel fyrir ofan Southamton í lok maí.
Leicester
Stjórinn: Hefði hætt núna í vor, Ranieri mun aldrei toppa það sem hann gerði í vetur.
Leikmenn inn/út:
Fyrir utan kaup á mjög öflugum þýskum (vara)markmanni hefur ekkert markvert gerst ennþá á leikmannamarkaðnum. Auðvitað eru allar helstu hetjur liðsins orðaðar við önnur lið en það er ótrúlegt ef þeir gefa liðinu ekki allir annan séns í Meistaradeildinni. Voru allir flokkaðir sem minni spámenn áður en þeir fóru til Leicester. Vardy hefur riðið á vaðið og skrifað undir nýjan samning, gæti orðið erfiðara með Kanté og Mahrez. Já og Ben Chilwell!
Líklegt byrjunarlið næsta vetur:
Sama og með Southamton.
Annað:
Aftur ætla ég að vanmeta Leicester. Með leikjaálagi sem fylgir Meistaradeildinni held ég að liðið muni aldrei halda sömu stemmingu og á þessu tímabili. Eins eru væntingar og pressa allt aðrar núna sem og að liðið getur ekki sloppið eins vel við meiðsli og allt síðasta tímabil. Verða í topp 10 en aldrei topp 4.
West Ham
Stjórinn:
Bilic var frábær með West Ham á síðasta tímabili og klárt upgrade frá Sam Allardyce. Hann hefur svo slegið í gegn yfir EM sem leikgreinandi ekki ósvipað og Klopp gerði á sínum tíma í Þýskalandi. Hann er að byggja upp mjög þétt lið sem gæti alveg blandað sér í toppbaráttuna á næstu árum.
Leikmenn inn/út:
Þétta miðjuna með Havard Nordtveit frá Borussia Moenchengladbach. Arsenal tók Xakha og Liverpool þá vonandi Dahoud. Eins fengu þeir Sofiane Feghouli frítt frá Valencia sem er fjandi góður díll fyrir West Ham. Líklega halda þeir öllu sýnu áfram og geta því byggt ofan á síðasta tímabil.
Annað:
Fá nýjan 60.þúsund manna heimavöll í miðri London allt að því gefins. Það er eitthvað sem gæti hjálpað West Ham svakalega við að taka næsta skref. Höfum t.d. í huga að Liverpool hefur reynt alla þessa öld að byggja svipaðan völl en ekki fundið fjármagn í það (fyrr en núna, hálfpartinn). London klúbbarnir hafa ákveðið forskot á markaðnum og West Ham stefnir hraðbyri í að komast í flokk með Tottenham, Arsenal og Chelsea sem hafa hingað til borðið höfðu og herðar yfir önnur London lið.
Það er því ekki mikið búið að gerast á markaðnum ennþá, ef eitthvað er þá hefur Liverpool gert mun meira en hin liðin.
Brexit settur allar pælingar um þróun næstu ára upp í loft, td. hvað varðar La Masia pælingar City. Erum að horfa á gjörbreytt landslag á næstu árum þegar kröfur um atvinnuleyfi í Englandi verða stífari.
Það verður spennandi að sjá hvað hipsterstjórinn Pep gerir í vetur. Honum verður ekki kápan úr því ullarklæðinu að mæta í Pulisville með enga miðverði og leikkerfið 0-8-2.
Hvað Móra og manutd varðar er óhætt að segja að þar hæfi kjaftur skel… á eins ójákvæðan hátt og hægt að að hugsa sér.
Vona að menn hafa verið að fylgjast með Joe Allen á EM. Maðurinn hefur spilað 4 leiki og verið frábær í þeim öllum. Ég vona bara að Liverpool láta hann ekki fara í sumar. Það er erfit að losna við stimpil og fékk hann á sig svoleiðs snemma og var talað um að hann væri ekki nógu góður fyrir Liverpool.
Hann hefur átt góða spretti með liverpool en alltaf þegar hann hefur verið að ná sér á strik þá hefur hann meiðst. Eftir að Klopp kom þá var hann frábær og hefur sannað það á EM að þetta er einfaldlega frábær miðjumaður sem við ættum að halda í .
Ef það er einhver miðjumaður sem Liverpool ætti að losa sig við þá er það fyrirliðinn okkar Henderson. Mér finnst hann einfaldlega minni tæknilegri útgáfan af Allen sem er mun betri sendingarmaður og tæknilegri. Henderson er duglegur en sendingarnar hans eru ekki merkilegar og fyrsta snerting ekki heldur. Dugnaður og barátta eru samt til fyrirmyndar en maður vill eitthvað meira af fyrirliða Liverpool.
#3.
Ég er sammála þér að það á halda Allen en ekki endilega á kostnað Henderson. við þurfum taka tillit til þess að Henderson var meiddur stóran hluta tímabils og er enn ryðgaður og þarf tíma til koma sér til fyrra form.
Úrslit Brexit þýðir kannski að við þurfum byggja liðið upp á breskum leikmönnum þegar Bretar ganga útúr ESB. Halda þeim báðum væri besta lausnin í mínu mati
Nú er ég ekkert sérstaklega sterkur á pólitíska skviðinu, en hvað hefur brexit áhrif á enskan bolta? Í alvörunni hvað er það nákvæmlega sem mun breytast, eru það tollar á erlendum leikmönnum eða hvað?
#5 Brexit þýðir að Bretar ganga úr ESB og afsala sér þar með bæði rétti og skyldum sem Evrópusambandsríki. Það ferli mun engu að síður taka mörg ár og þ.a.l. getur enginn sagt nákvæmlega hver áhrifin verða á PL til lengri tíma. Það verður líka örugglega gerður tvíhliða samningur en dökkasta sviðsmyndin er að ESB markaðurinn lokist fyrir Breta. Það myndi þýða enda fjórfrelsisins þ.e. frjálst flæði fólks, fjármagns, þjónustu og vöru. Bretar væru þá einangraðir og straumur evrópskra fótboltamanna til að spila í PL gæti varla haldið áfram í óbreyttri mynd t.d. vegna atvinnuleyfa.
Ef pundið fellur er einnig dýrara fyrir ensku liðin að kaupa og laða að erlenda hæfileika o.s.frv. Þessi þróun gæti á hinn bóginn hjálpað enska landsliðinu.
Brexit mun samt ekki hafa nein áhrif til skemmri tíma enda fara Bretar ekki út fyrr en 2018 og margt mun breytast á þeim tíma.
Þeir Bretar sem ég þekki eru í sjokki yfir úrslitunum. 75% af yngri kjósendum vildu vera áfram í ESB og þessi niðurstaða er fengin með miklum hræðsluáróðri sem beindist helst gegn eldri kjósendum sem voru meðal annars sannfærðir um að Bretar héldu upp sambandinu fjárhagslega.
Takk fyrir það #6