Loksins leikur á ný. Þetta hefur verið löng og erfið bið fyrir mann og mér finnst eins og mánuðir hafi liðið frá því að við spiluðum leikinn gegn Derby. Einn af erfiðari útileikjum liðsins er framundan, ferð til syðsta leikvangsins í deildinni. Portsmouth eru afar erfiðir heim að sækja og þeir hafa alltaf náð að skora gegn okkur á heimavelli sínum. Nú reynir á. Þetta er enn einn leikurinn þar sem menn geta sýnt hvort þeir eru menn eða mýs, hvort þeir ætli sér að halda áfram að koma út þeim skilaboðum að menn ætli sér að berjast hart um titilinn góða. Bæði Man.Utd og Arsenal eiga erfiða útileiki í þessari umferð og því væri mikilvægt að nýta sér það vel ef þau misstíga sig.
Portsmouth liðið hefur verið í mikilli uppbyggingu eftir að Harry Redknapp tók við þeim. Liðið er nánast óþekkjanlegt ef borið er saman við liðið sem var að ströggla fyrir þremur árum. Þeir byggja upp á sterkum varnarleik og eru með menn sem hafa svo verið að poppa upp og klára þau fáu færi sem þeir eru að fá. Vörnin þarf bara að halda, því ég reikna ekki með mörgum dauðafærum á mark Portsmouth. Sol Campbell er víst klár í slaginn hjá þeim á ný, og það sama má segja um Benjani. Við gætum líka átt von á því að sjá Papa Bouba Diop leika sinn fyrsta leik eftir að hafa komið frá Fulham nýlega. Þar er á ferðinni sterkur miðjumaður sem oft á tíðum er erfitt að eiga við. Primus er víst ennþá meiddur hjá þeim, en allir aðrir eiga að vera heilir.
Þá að okkar mönnum. Enn og aftur eru líkurnar á því að giska á rétt lið, svipaðar og að vinna í Lottó, sem sagt afar litlar. Það breytir því þó aldrei að menn þreytast seint á að reyna að giska á þetta hjá Rafa. Steve Finnan missti af báðum leikjum Írlands í landsleikjahléinu vegna hnémeiðsla og finnst mér afar hæpið að Rafa taki einhvern séns með hann. Ég spái því að Arbeloa verði í hægri bakvarðarstöðunni. Carra er búinn að ná sér af sínum meiðslum og Agger spilaði einungis 28 mínútur með Dönum á miðvikudaginn. Þeir munu því væntanlega spila miðvarðarstöðurnar. Aurelio er ekki í standi fyrir þennann leik, enda ný kominn tilbaka úr meiðslum og því mun Riise væntanlega taka vinstri bakvörðinn. Javier Maschareno var að spila í Ástralíu og er því pottþétt ekki í hópnum (ef hann er á annað borð kominn tilbaka) og Xabi er ferskur eftir að hafa náð að koma sér í leikbann með landsliðinu. Ég reikna því með að sjá þá Xabi og Stevie inná miðri miðjunni í þessum leik (finnst ekki líklegt að Stevie verði hvíldur á kostnað Momo). Pennant mun svo halda áfram hægra megin, en það er vinstri kanturinn og framherjastöðurnar sem mér finnst erfiðast að ráða í. Þeir Pennant og Benayoun stóðu sig vel á köntunum í síðasta leik, svissuðu um stöður og það var eiginlega alveg sama hvor var hvar. Ég ætla því að giska á að þeir byrji aftur á köntunum, mér finnst hreinlega ósennilegt að Leto verði hent inn í liðið í svona útileik þar sem baráttan verður í fyrirrúmi. Reyndar er það spurning hvort Rafa setji hreinlega traust sitt á Ryan Babel og ætli sér að byggja upp á hraða hans. Kewell er byrjaður að æfa aftur, en líklega kemur þessi leikur of snemma fyrir hann. Ég ætla svo bara að fara eftir óskhyggjunni með framherjana, set þá Kuyt og Torres þar. Mér finnst þeir einfaldlega ná best saman af framherjunum og Torres nýtur virkilega góðs af vinnusemi þess hollenska.
Liðið verður því svona samkvæmt minni spá:
Arbeloa – Carragher – Agger – Riise
Pennant – Gerrard – Alonso – Benayoun
Kuyt – Torres
Bekkurinn:
Itandje, Hyypia, Sissoko, Babel og Crouch
Þriðji útileikurinn sem sagt framundan og það væri alveg hrikalega öflugt að fara með 3 stig út úr honum. Með því að vinna leikinn, þá eru okkar menn hálfnaðir í fjölda sigurleikja á útivelli miðað við síðasta tímabil. Þá sigruðum við samtals 6 útileiki. Væri það ekki ljúft að vera með 3/3? En þetta verður erfitt, mjög erfitt. Það þarf að mæta þessu liði með sama krafti og þeir munu mæta okkur. Mark snemma gæti brotið þá niður, en ég býst við mjög jöfnum baráttuleik og segi að við sigrum þetta með einu marki. Eigum við ekki bara að segja að þetta verði fyrsti leikurinn þar sem Portsmouth nái ekki að setja mark á okkur á sínum heimavelli. Stevie setur markið.
ef Benni mun nota 4-4-2 þá er ég sammála þér með flest í þessari uppstillingu en eitthvað segir mér að hann eigi eftir að byrja i 4-5-1!! þar sem Sissoko kemur sem djúpur miðjumaður Gerrard verður fyrir aftan strikerinn.
Einnig gæti ég alveg trúað því að Torres byrjaði á bekknum þar sem hann er búinn að vera í ferðalögum og gæti verið þreyttari að aðrir strikerar. Kuyt spilaði ekkert með Hollendingum og ætti að vera úthvíldur sem og Crouch en hann spilaði aðeins nokkra mín á móti Rússum. Þannig að mín spá er svona
Bekkurinn: Itandje, Hyypia, Torres, Benayoun, Crouch
Ég á von á því að Portsmouth haldi þeirri hefð áfram að setja eitt á okkur en við setjum tvö, Babbel setur fyrra markið og Torres kemur inn og setur seinna
spá: 1-2
áfram Liverpool
Það er samt eitthvað sem segir mér í undirmeðvitundinni að Crouch hefji leikinn við hlið Torres í framlínunni. Ég vona samt að það verði Kuyt.
Já ég er nokkurn veginn sammála þessari uppstillingu hjá þér, nema hvað mig grunar að Rafa muni koma Momo Sissoko fyrir þarna einhvers staðar. Miðjan sem við erum að fara að mæta er með menn eins og Lauren, Diop og Faye innan sinnan raða þannig að það þarf að mínu mati eins og einn ‘destroyer’ til að þeir kaffæri okkur ekki í baráttu og hörku. Ég gæti ímyndað mér að Rafa noti Pennant og Gerrard sem kantmenn (sem svissa á milli kanta, eins og JP og Yossi gerðu gegn Derby) á meðan Sissoko hjálpar Alonso í baráttunni inná miðjunni.
Þessi leikur leggst ágætlega í mig, enda ekki ástæða til annars en bjartsýni eftir byrjunina í haust. Ég sætti mig fyllilega við jafntefli en vill helst sjá sigur. Ef við töpum er hætt við að einhverjir tapi sér í svartsýni, en það væri ekki heimsendir að mínu mati.
Ég hlakka til. LOKSINS er boltinn að byrja aftur!
Reyndar voru það Pennant og Babel (NB ekki Babbel 🙂 ) sem svissuðu á milli kanta. Benayoun kom svo inn á fyrir Pennant í kringum 60. mínútu.
Ég er sammála Kristjáni Atla að Sissoko muni verða í byrjunarliðinu. Á móti svona trölli eins og Diop held ég að það sé nauðsynlegt að svara með öðrum eins trukki. Ég var staddur á Craven Cottage í fyrra þegar Liverpool tapaði og það var hrein unun að horfa á baráttu þessara kalla. Þvílíkir jálkar.
Með framherjana þá held ég að það sé kominn tími á Crouch að fá að prófa sig með Torres. Benitez verður jú að leyfa honum að fá einhverja leiki ef hann ætlar ekki að missa hann næsta sumar.
Ég spái þessu því svona:
——————Reina———————-
Arbeloa—Carragher—-Agger——-Riise
Pennant—Gerrard—–Sissoko—Benayoun
————Torres—–Crouch—————
Ég spái þessum leik 1-1 jafntefli.
Liðið verður líklega svona:
——————Reina
—Arbeloa – Carra – Agger – Riise
————- Sissoko Alonso
—Pennant—–Gerrard ——- Babel
——————-Torres
Þetta verður okkar erfiðasti leikur til þessa í deildini.
Við töpuðum þarna í fyrra og á ég von á hörkuleik. Chelsea voru í vandræðum með þá á sínum eigin heimavelli.
Ég spái 1-1 leik en öll stóruliðinn tapa stigum í þessari umferð.
Chelsea og Man utd gera líka jafntefli og Arsenal tapar.
Held að Rafa spili 4-3-3/4-5-1. Arbelona, CarrAgger og Riise, Alonso djúpur með Sissoko fyrir framan sig. Gerrard verður þar fyrir framan og á að hjálpa Torres sem verður einn frammi. Á könntunum verða síðan Babel og Pennant sem eiga að mynda sóknarleikinn ásamt Gerrard og auðvitað Torres.
það er eins og þið hafið gleymt Voronin hann verður frammi eða á bekknum , að hann sé bara heima …bull liv vinnur en ég ætla ekki að segja hverjir skora ,það hafa margir sagt að hverjir munu skora en það hefur aldrei gengið upp ,nema liv 3 por 1
Sammála Einsa Kalda hafið þið félagar gleymt Voronin ?Er sammála ykkur í flestar stöður en mitt mat er að besta sóknarparið er Torres og Voronin…………………………………………………………………………….
vinnum 3-0 Torres, Pennant, Gerrard !!
Mín tilfinning segir 1-2. Crouchino og Kuyt setjann. Ekki spurning.