Mourinho hættur! (Uppfært x2)

Ath.: Færslan sem Einar Örn setti inn fyrir klukkutíma skráðist ekki rétt í kerfinu og því var ekki hægt að kommenta. Hér kemur hún inn aftur, með mínum ummælum fyrir neðan frétt Einars:

mourinho.jpg

Ja hérna hér. Þetta eru eiginlega of stórar fréttir til að fjalla ekki um hérna á blogginu:

**Jose Mourinho er hættur sem stjóri hjá Chelsea.**

Ég er svo sem of þreyttur til að tjá mig um þetta, en ég er viss um að margir vilja ræða þetta svo ég set þessa frétt inn hérna núna. Það verður verulega spennandi að heyra orsakir þess að hann sé hættur og hver taki við. Mourinho er gaurinn, sem við elskum að hata svo það verður sjónarsviptir af honum ef hann fer alveg úr enska boltanum.


Uppfært 01:19 (Kristján Atli): Hólí shjitt!!! Ég sagði við einn félaga minn í vinnunni í morgun – United-aðdáanda – að ef Mourinho næði ekki að snúa liði sínu við á næstu dögum myndi Abramovich láta hann fara, jafnvel strax á næsta mánudag ef hann tapaði á Old Trafford um helgina. Félagi minn sagði að það væri fullmikil bjartsýni, en mig grunaði aldrei að hann myndi fara rétt fyrir þann leik!

Sögurnar segja að Mourinho hafi hætt vegna ósættis við Abramovich vegna leikmannakaupa í sumar. Hann hefur sennilega ekki talið sig geta sinnt starfi sínu með sóma nema hann fengi 200+ milljónir punda í viðbót, fjórða sumarið í röð. 😉

En í fullri alvöru, þá var alveg ljóst fyrir nokkrum mánuðum síðan að samband eigandans og framkvæmdarstjórans hjá Chelsea var að deyja hægum dauðdaga. Þegar menn geta ekki unnið lengur saman, þá bara geta menn ekki lengur unnið saman og einhver verður að víkja. Abramovich á liðið, þannig að þetta þarf ekki að koma neinum á óvart. Við sáum þetta gerast, en engan grunaði að þetta myndi gerast svona fljótt.

Ég ætla ekki að gerast hræsnari og segja að ég muni sakna Mourinho. Hann hefur of oft pirrað mig með skorti á háttvísi, prúðmennsku eða almennri kurteisi í garð annarra liða og stjóra (sérstaklega Benítez) til að ég harmi brotthvarf hans. Hitt er samt alveg klárt í mínum huga að Chelsea-liðið veikist mikið við brottför hans. Eins og Real Madríd hafa sýnt heiminum síðustu árin skiptir nákvæmlega engu máli að vera ríkur klúbbur með margar stjörnur innanborðs ef stjórnin – bæði klúbbsins og liðsins – er ekki í lagi. Chelsea eru ennþá ofurveldi í enska boltanum en það ræður algjörlega öllu hver næsti stjóri verður. Ef Abramovich klúðrar þessari ráðningu gæti klúbburinn lent í nokkurra ára vitleysu eins og Real (hey, maður má láta sig dreyma). Ef hann er hins vegar sniðugur og ræður einn af þeim fáu í heiminum sem er betri en Mourinho (hóstHiddinkhóst) þá gætu Chelsea orðið jafnvel sterkari – og svei mér þá, skemmtilegri líka – fyrir vikið.

Næstu dagar verða mjöööög áhugaverðir. Að lokum mæli ég með þessari umræðu á Chelsea-bloggi, þar sem menn eru skiljanlega í sjokki. Ég finn til með stuðningsmönnum liðsins (setjið ykkur í þeirra spor og ímyndið ykkur Benítez segja af sér í dag, án fyrirvara) en ég get vart annað en hlegið að þessu öllu saman. Abramovich tók sparibaukinn af Mourinho og sá portúgalski fór í fýlu! Hahahaaaaa! 🙂


Uppfært 07:24 (Kristján Atli): Nýjustu fréttir benda til þess að Mourinho hafi ekki sagt upp, heldur hafi hann verið boðaður á neyðarfund með Abramovich og öðrum yfirmönnum klúbbsins seint í gær, eftir eitthvað boð þar sem nýr DVD-diskur á vegum Chelsea FC var kynntur, og þar hafi honum verið formlega tilkynnt að hann væri rekinn.

Í kjölfarið koma (óvenju fljótt) þær fréttir að Chelsea muni í dag kynna Ísraelann **Avram Grant** sem nýjan knattspyrnustjóra sinn. Grant þessi er góðvinur Abramovich, kom frá Portsmouth í sumar þar sem hann var tæknilegur ráðgjafi og hefur gegnt þeirri stöðu hjá Chelsea. Ef þessi ráðning reynist rétt, og ef hún kemur svona strax eftir brottför Mourinho, hlýtur sá portúgalski að hljóta uppreisn æru að vissu leyti því þegar Grant kom til Chelsea í sumar gaf Mourinho svona óljóst í skyn að Abramovich ætlaði að skipta sér út fyrir þann ísraelska og skipaði Grant að skipta sér ekki af liðsvali og/eða þjálfun liðsins.

En nú virðist Grant vera kominn í stjórasætið og Mourinho farinn í frí. Það verður ansi hreint fróðlegt að sjá hvernig Chelsea-liðið tekur á þessu í næstu leikjum. Nær Grant t.d. því sama út úr Frank Lampard og Mourinho gerði? Verður Drogba í aðalhlutverki hjá honum eins og Mourinho, eða verður þetta *The Schevchenko Show* samkvæmt óskum Abramovich? Þetta verður einstaklega fróðlegur sirkus.

25 Comments

  1. Ég verð nú að viðurkenna að ég græt ekkert voðalega hátt. 🙂 Stóra spurningin er hvort hann var rekinn eða sagði upp.

    Nú verður mjög forvitnilegt að sjá hver mun taka við þessu liði. Ef ég ætti að veðja öllum mínum peningum þá mundi ég veðja annaðhvort á Capello eða Lippi. Þetta eru tveir stjórar sem eru á lausu og hafa áður lýst yfir áhuga á að þjálfa á Englandi. Hiddink er vissulega annar möguleiki og hugsanlega Juande Ramos ef hann fær sig lausn…. hmmmm…. nokkur pund til Sevilla ætti að leysa þann vanda. Hmmmmmm…. ég skýt á að Fabio Capello verði næsti stjóri Chel$ki.

  2. össssss…….þetta er rosalegt. Ég fann það á mér að dagurinn í dag ætti eftir að verða góður.

  3. Ég veit ekki hvort við ættum nokkuð að afskrifa Chelsea sem lið alveg strax en djöf…. er ég ánægður að losna við þennan leiðinlegasta knatsspyrnustjóra Ensku deildarinnar. Hrokafullasti persónuleiki sem maður hefur séð í langan tíma, svo voru kommentinn hans nú ekki upp á marga fiska. Ég spái að nú eiga þeir eftir að verða reknir í röðum hjá Chelsea. Alveg þangað til að þeir vinna meistaradeildina, Roman ætti kannski að bjóða Benítes starfið.

  4. hann er búinn að vera að mála sig út í horn , en hann er búinn að vera ansi lengi að því ,ekki græt ég

  5. Mikið hrikalega er þetta góð byrjun á annars votviðrasömum degi hérna í Rotterdam. Jose hættur 🙂 Ég er svo hrikalega ánægður með þetta og vona svo sannarlega að hann komi ekki aftur í enska boltann. Ég vona hreinlega að hann sé orðinn svo ríkur að hann leggist bara í sólbað í Portúgal og komi ekki nálægt knattspyrnu framar. Og nei, enski boltinn tapar ekki neinu á því að hann sé hættur, sá enski græðir bara. Svona bullustertir skemma fyrir fótboltanum. Það eru fáir einstaklingar í boltanum sem ég ber minni virðingu fyrir en Jose Mourinho, good riddance, no way Jose.

  6. Hjartanlega sammála þeim sem gráta engan veginn brottför þessarar mannveru. Ég bar ekki virðingu fyrir honum hvorki sem knattspyrnustjóra né manneskju.
    Manni er slétt sama um það að hann eigi að hafa verið hvers manns hugljúfi utan vallar. Ömurlegi fótboltinn sem hann lét Chelsea spila og alger skortur á sæmd og heiðri gerðu hann að krabbameini fótboltans.
    Hann koma sér útúr húsi í Portúgal og úr enska boltanum með einskærum hroka og leiðindum.

    Ég vona að Jose Mourinho endi núna í verksmiðju að skrufa hausa á Barbie-dúkkur.

  7. Þar lýkur ansi áhugaverðu tímabili sem hófst þegar Mourinhog og Benitez tóku við Liverpool og Chelsea hafa mæst tvöþúsund sinnum síðan.
    Pælið í því, liðin okkar hafa mæst í tveimur undanúrslitum í CL, úrslitaleik í deildarbikar, góðgerðarskildinum og óteljandi skipti í deildinni og þetta hafa alltaf verið umdeildir leikir með óteljandi uppákomum og vitleysu.
    Eftir leikinn í haust hugsaði ég með mér, fjandinn hafi það, ég yrði ánægður ef Liverpool myndi aldrei nokkurn tíman spila við Chelsea aftur, svo mikil áhrif hafa þessir leikir haft á mann. Vítaspyrnur sem voru aldrei, rauð spjöld, “draugamörk”, mörk með hendi og ég veit ekki hvað. Þegar þeir komust upp með vítið á Anfield var manni hreinlega illt í maganum.

    Minni menn á það á sínum tíma voru menn að vonast eftir því að Mourinho kæmi á Anfield og af honum verður ekki tekið að hann er snjall stjóri með afbrigðum. En guð hjálpi þessum manni, hann getur startað slagsmálum í nunnuklaustri.

    Most likely destination: Juventus, Barcelona, AC Milan…Manchester United???
    Least likely destination: Middle-East peace envoy

  8. Æi ég ætla nú samt að gerast “hrokafullur” og segja að það sé sjónarsviptir af kallinum. Ég man enn þegar hann mætti á fyrsta blaðamannafundinn eftir að hafa verið ráðinn stjóri Chelsea og fór að blaðra um að hann væri the special one. Man að ég hugsaði með mér að enska pressan ætt nú eftir að éta þennan peyja lifandi. Ég hafði nú alltaf lúmskt gaman af ruglinu í honum og ekki spurning að hann er lunkinn manager. Það var náttúrulega helst í eitthvað af þessum miljón skiptum sem hann mætti Rafa sem maður lét hann pirra sig eitthvað að ráði. Mætti kannski segja að Rafa hafi haft nokkuð um það að segja að hann sé látinn fjúka með því að neita honum um úrslitaleik í CL tvisvar sinnum. Mér skilst á enskum fjölmiðlum að það sé ekki lítill partur af þeim pirringi sem safnast hefur upp hjá Abramovitch að hann skuli ekki hafa náð lengra með lið sitt í evrópu en raun ber vitni.

    En þetta eru stórar fréttir og ég tel skarð hans mjög vandfyllt hjá Chelsea. Verður fróðlegt að sjá hvert hann fer næst. Verður líka mjög spennandi að sjá hvernig leikmenn Chelsea taka þessu, hvort einhverjir fylgi honum í janúar eða fari eitthvað annað. Mér segir svo hugur að Lampard og Terry séu ekkert allt of ánægðir með að missa kallinn. Og að sjálfsögðu hvort ísraelinn taki við til frambúðar eða einhver annar. En þetta gerir leikinn gegn manu að skylduáhorfi.

  9. Ef Mourinho var rekinn fyrir að spila of leiðinlegan bolta fyrir Abramovich þá veit ég ekki hver væri tilgangurinn í að fá Capello sem þjálfara sem er sennilega einn af fáum þjálfurum í heiminum sem spilar jafnvel enn leiðinlegri bolta en Portúgalinn.

  10. Þrátt fyrir alla umfjöllunina um ósætti á milli Roman og Móra þá finnst manni þetta samt svolítið ótrúlegt. En þetta sýnir bara að með Ísraelsmanninum er Roman kominn með mann sem framfylgir hans skipunum og það er auðvitað betra þegar verið er að leika sér í Championship Manager líkt og Roman er að gera.

    Ég vorkenni Mourinho ekki neitt og mun sakna hans enn minna!

  11. Kallinn fær 25 milljónir punda í starfslokasamning. Ég held að það sé engin ástæða til að vorkenna kappanum að neinu leyti. ef ég man rétt þá eru þetta 5föld árslaun hans á einum feitum silfurbakka. Hann fer bara og chillar með Portúgalska landsliðið eftir að Scolari skeit upp á bak um daginn.

  12. Ég á ofsalega erfitt með að þurrka brosið sem breiddist út um mitt “íðilfagra” andlit við þessar fréttir. Bara verst að ég þekki engan Chelsea aðdáanda, mér hefði þótt svoooo gaman að spjalla um þetta við hann/hana. En samt til að vera sanngjörn þá eru þetta rosalegar fréttir fyrir Chelsea aðdáendur. Ég myndi vera miður mín ef Rafa myndi hætta svona.

  13. Ég fór að spá í eftir að hafa lesið svarið hans Steina hérna að ofan(#12), spilar Rafa skemmtilegan bolta og skemmtilegri en Jose gerði?

    Ég veit það ekki, mér finnst við spila alveg grútleiðinlega allt of oft. Hugmyndaleysið uppmálað(tvö skot að marki gegn Porto svo dæmi sé tekið) og það er eins og alla leikgleði vanti oft. Miðið sóknarleik Liverpool við sóknarleik Real Madrid, Barcelona, Man Utd og fleirri liða(ég veit vel að Man Utd hefur strögglað fyrir framan markið í haust en undanfarin ár hafa þeir verið ljósárum á undan okkur í góðum og árangursríkum sóknarleik).

    Ég er ekki í neinum “rekum Rafa” hugleyðingum eða neitt þannig, alls ekki. Bara benda mönnum á, sem segja Jose spili leiðinlegan bolta, að staldra aðeins við og spá í boltan sem við erum að spila. Ég persónulega er heilt yfir mjög hrifinn af Rafa og því sem hann er að gera. Það er einna helst þetta, sóknarleikur okkar, sem ég gegnrýni hann fyrir….sem og að einblína ekki á ensku deildina númer eitt, tvö og þrjú núna í ár og setja CL í annað sætið…sérstaklega í ljósi “Birgittu Haukdal riðils” sem við erum í.

  14. “Ömurlegi fótboltinn sem hann lét Chelsea spila og alger skortur á sæmd og heiðri gerðu hann að krabbameini fótboltans.”

    Menn hafa oft sagt að knattspyrna liða eins og Liverpool sé ekki ólík Chelsea, enda sagði Chris Waddle í dálki hjá BBC um daginn að það væri bara gaman að horfa á tvö lið í ensku deildinni, Man Utd og Arsenal. Og ekki hefur hann tengsl til hvorugra liða sem fyrrum leikmaður Newcastle og Tottenham (og svo verri liða).

    Annars verð ég að segja að maður mun sakna hans. Menn verða að átta sig á því að Mourinho er það klár, að hann vissi alltaf nákvæmlega hvað hann var að segja þegar hann var aðeins að kveikja í fólki, þannig að þetta voru aldrei “heimskuleg ummæli” ef svo má að orði komast hjá honum. Menn mega svo reyna að gagnrýna hann fyrir það að eyða miklum pening. Oft voru þetta leikmenn, sem voru keyptir á allt of háu verði af því að Chelsea var kaupandinn. Shaun Wright-Phillips hefði aldrei kostað 21 milljón ef hann hefði farið til annars liðs. Sama má segja um Damien Duff og Drogba. Um leið og Chelsea kom inn í myndina hjá liðum, þá nánast tvöfaldaðist verðmiðinn, því á þeim tíma var Abramovich sama hversu miklu hann eyddi í leikmenn, þar sem að 10m punda fyrir honum er alls ekki mikill peningur. Síðan má alveg nefna að Mourinho vildi hvorki fá dýrasta leikmann liðsins, Shevchenko, né Ballack. Hann var aldrei að kaupa neinar súperstjörnur, að reyna að fá menn eins og Nedved eða eitthvað, sem Ranieri gerði þegar hann stjórnaði liðinu eftir að Abramovich kom.

    Nú er bara spurningin samt hvort að þetta komi Liverpool til góða eða ekki, þar sem að það væri nú skárra að hafa Chelsea til að hirða stig af Man Utd og Arsenal í staðinn fyrir að tapa þessum leikjum.

  15. “Abramovich tók sparibaukinn af Mourinho og sá portúgalski fór í fýlu!”

    Þetta er algjört kjaftæði. Mourinho var hugsanlega ósáttur í janúar síðastliðnum þar sem hann fékk ekki pening til að kaupa nýjan varnarmann…en annars hef ekki ég vitað að neinu ósætti þegar kemur að þessum málum.

    Ástæðan fyrir því að Chelsea og Mourinho hættu samstarfi er ekki út af því að Mourinho fékk ekki fötu fulla af peningum til að kaupa uppáhaldsleikmenn sína. Ég trúi því bara ekki…og á erfitt með að trúa því að einhver trúi því.

  16. Jæja gott að dóninn fékk loksins að finna fyrir tevatninu. Dæmigert fyrir hann að krefjast afsökunar dómarans í leik Chelsea-Blackburn um daginn þegar mark var dæmt af, en þegar Chelsea fékk rusl víti gegn Liverpool, hver baðst þá afsökunar? Enginn.

    Nú bíður maður bara eftir því að ferguson gerist whisky bóndi í skotlandi og utd súpi hveljur.

  17. Ööö, ekki að ég sé hrifinn af Mourinho en það baðst reyndar einhver afsökunar á vítinu á Anfield 🙂

  18. Þetta er snilldar framkvæmdarstjóri sem setti mikið líf í Ensku úrvaldsdeildina og mun maður sakna þess að fá ekki að hlusta í bullið í honum.
    Þessar fréttir munu án efa veikja Chelsea og á ég von á að nokkra stjörnur láta sig svo hverfa t.d Drogba og Lampard.

  19. Jú rétt Kjartan að dómarinn ´baðst afsökunar´ á chelsea víti á anfield um daginn, en ég var með ónákvæmum orðum að vísa til þess að enga auðmýkt var að finna hjá móra eftir þann leik. Stundum fá lið víti að gjöf, stundum fá lið mörk dæmd af, Morinho vælir alltaf að hann sé lagður í einelti og allir séu á móti honum.

  20. Takið út þessa ógeðslegu mynd af síðunni af honum Mora – Nýr dagur og Mori er gleymdur hahahahahah.
    YNWA

One Ping

  1. Pingback:

Agger og Alonso lengi frá?

Úffff