Leicester á morgun

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD Í NÓVEMBER! SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR

Það er skollið á félagsliðahlé, nú missa landsliðin leikmenn sína til félagsliða í heilar þrjár vikur áður en þeir snúa aftur heim til knattspyrnusambandanna. Þetta hlé hefst á 4. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar á morgun en á meðan augu flestra beinast að Manchesterborg fá okkar menn ríkjandi Englandsmeistara … eh … Leicester City! … í heimsókn. Og eftir tuttugu ára þref og tafir og svik og þjófstart getum við loksins sagt þetta: liðin munu leika á nýstækkuðum Anfield!

Anfield

Nýja stúkan verður auðvitað í aðalhlutverki á morgun en búið er að ljúka framkvæmdum á Main Stand fyrir tímabilið. Völlurinn tekur nú auka átta þúsund rassa í sæti sem ætti að skila sér í meiri hávaða og krafti niður á völlinn. Og við sjáum myndband:

Það verður gaman að sjá þetta í „aksjón“ á morgun. Það á svo eftir að stækka Anfield Road End, stúkuna bak við markið gegnt Kop-stúkunni, og þótt ekki sé búið að tilkynna það formlega skilst fólki að farið verði í það á næstu 1-3 árum þegar leyfi og aðrir pappírar liggja fyrir.

Okkar fókus á morgun verður þó aðallega á leikmönnunum sem munu brokka um grasið, tuttugu og tveir í einu. Við skulum kíkja aðeins á andstæðingana.

Leicester

Heyrðu þetta gerðist bara í alvöru í vor! Leicester unnu Englandsmeistaratitilinn. Það var frábært að sjá, ekki síst hressandi að sjá að einhver önnur en þrjú langríkustu liðin gætu unnið dolluna, sem hafði ekki gerst síðan Arsenal vann vorið 2004 eða í tólf ár. Ekki það að slíkt hafi neina þýðingu fyrir önnur lið en Leicester en … samt … það var gaman að sjá ólíklegt lið vinna þetta. Sigur Leicester-manna var ekki síst sætur af því að þeir leiddu deildina mest allan veturinn, áttu leikmann ársins í Ryad Mahrez og þann næstmarkahæsta í Jamie Vardy, en báðir höfðu komið upp úr neðri deildum með liðinu.

Og hver er svo staðan á meisturunum í dag? Eftir naumt tap gegn Man Utd í Samfélagsskildinum í byrjun ágúst hafa þeir farið rólega af stað í deildinni, en þó verið vaxandi. Í fyrstu umferð töpuðu þeir óvænt fyrir Hull City, í þeirri næstu náðu þeir jafntefli heima gegn Arsenal og fyrir hálfum mánuði höfðu þeir svo 2-1 sigur á Swansea í Leicester og sitja því á sama stað og okkar menn í töflunni, með 4 stig eftir 3 umferðir og þegar aðeins á eftir forystusauðunum.

Lið þeirra tók ekki miklum breytingum í sumar og eflaust átti margur von á að þeir yrðu duglegri að kaupa leikmenn til liðsins með tilkomu Meistaradeildarþátttöku. Þeir misstu N’Golo Kanté til Chelsea en tókst að halda í Jamie Vardy þrátt fyrir tilraunir Arsenal-manna til að ná honum. Þá bættu þeir við sig markverðinum Ron-Robert Zieler frá Hannover í Þýskalandi, miðverðinum Luis Hernández frá Sporting Gijon á Spáni, miðjumönnunum Daniel Amartey frá FC Kaupmannahöfn, Nampalys Mendy frá Nice og Bartosz Kapustka frá Póllandi og sóknarmönnunum Demarai Gray frá Birmingham, Ahmed Musa frá CSKA Moskvu og samlanda Mahrez, hinum alsírska Islam Slimani frá Sporting í Portúgal.

Enginn þessara leikmanna hefur þó átt fast sæti í liðinu í upphafi tímabils og flestir þeirra spilað aðeins einn leik eða færra með liðinu hingað til, þannig að það er erfitt að ætla að þeir hafi endilega styrkt byrjunarliðið sitt frá því í vor og með brotthvarfi Kanté því mögulega um veikara Leicester-lið að ræða, þótt breiddin sé eflaust meiri.

Mendy frá Nice, sá sem var líklegast keyptur til að fylla í skarð Kanté, er frá vegna meiðsla sem og Jeff Schlupp en aðrir ættu að geta verið með á morgun og því ljóst að um sterkt lið meistaranna verður að ræða.

Liverpool

Leikmannahóp Liverpool þekkjum við betur og þurfum ekki að hafa fleiri orð um sumarið í bili hér. Úr sjúkraherberginu er það helst að frétta að Loris Karius er orðinn heill eftir handarbrot og farinn að æfa á ný þótt þessi leikur komi líklega of snemma fyrir byrjunarlið hans. Emre Can og Ragnar Klavan eru frá vegna meiðsla, sem og Joe Gomez sem er enn að jafna sig tæpu ári eftir skelfileg meiðsli sín. Þá eru smá efasemdir um hvort Phil Coutinho geti byrjað leikinn en hann lék fyrir Brasilíu í Manaus seint á þriðjudagskvöld og hefur því sennilega komið seint á miðvikudegi til baka og misst af megninu af æfingum vikunnar fyrir þennan leik.

Ég ætla að spá því að Coutinho verði á bekk og að Daniel Sturridge komi inn í staðinn en að liðið verði að öðru leyti óbreytt frá því fyrir hálfum mánuði:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Lallana – Henderson – Wijnaldum

Mané – Sturridge – Firmino

Bekkur: Karius, Moreno, Lucas, Stewart, Grujic, Origi, Ings Coutinho.

Mín spá

Þetta verður opinn og skemmtilegur leikur. Leicester verða að hugsa þetta eins og lið í titilbaráttu og það er því varla í boði fyrir þá að mæta og liggja í vörn til að halda stiginu. Þeir hafa eflaust trú á að leikmenn eins og Vardy, Mahrez, Gray og Drinkwater geti staðið jafnfætis okkar mönnum á Anfield og munu því reyna að loka svæðum án boltans og sækja svo hratt þegar þeir vinna hann, eitthvað sem þeir gerðu best allra liða í deildinni á síðustu leiktíð.

Þetta hentar held ég okkar mönnum ágætlega. Hætturnar í skyndisóknum Leicester eru klárar og ég sé þá fyrir mér sækja svolítið stíft á Milner í vinstri bakverðinum, sem hefur ekki sama hraða til að kóvera svæðið hratt til baka og Moreno, en á móti kemur að ef þeir liggja ekki í vörn munu okkar menn finna glufurnar.

Ég er bjartsýnn fyrir morgundaginn. Anfield skartar sínu fegursta, nýja stúkan verður iðandi af lífi, sólin mun skína og okkar menn munu finna netmöskvana. Ég spái því að okkar menn komist yfir snemma en gestirnir jafni fyrir hálfleik. Coutinho og Origi koma svo inná og hjálpa okkar mönnum að innbyrða 4-1 sigur í seinni hálfleik. Sturridge (2), Origi og Coutinho skora mörkin.

Koma svo, áfram Liverpool!

YNWA

15 Comments

  1. Coutinho getur verið mikll töframaður með boltann en þetta verður erfitt fyrir jafnvel hann.

  2. Ég er þeirrar skoðunar að Karius eigi ekki að fá tækifæri í byrjunarliðinu fyrr en Mignolet gerir mistök.

    Þá erum við ekkert að fara að sjá Karius á næstunni.

  3. Þú ert altént með veðurspána rétta. Það spáir 16° hita og hægum vindi í Liverpoolborg á morgun.

    En leikurinn verður erfiður, við vitum auðvitað ekkert hvaða Liverpool-lið mætir til leiks. Ég vona sannarlega að það verði góða liðið okkar sem gerir þá eins og höfundur spáir og vinnur 4-1 eða eitthvað slíkt. Einhverjir fleiri en Coutinho voru að spila landsleiki í vikunni en núna er gefinn aðeins meiri tími til að koma til baka, enska liðið spilaði á sunnudag t.d. þannig að menn hafa verið við æfingar alla vikuna meira og minna. Það er auðvitað hið besta mál og eykur líkurnar á að góða liðið okkar spili leikinn.

  4. Það er lítil pressa á Leicester í þessum leik, frekar mikil á okkar mönnum. Fyrsti heimaleikurinn, nýja stúkan, la la byrjun á tímabilinu osfr

    Spái því að Leicester haldi sig aftarlega á vellinum og beiti sínum baneitruðu skyndisóknum. Við verðum miklu meira með boltan en eigum erfitt með að skapa færi. Gömul saga því miður.

    En af tómri óskhyggju þá spái ég leiknum 2-1 fyrir okkar mönnum.

  5. Ég held það sé einmitt pressa á Leicester. Það er aftur á móti hætta á því að við prestum leikinn upp í hendurnar á þeim.

  6. Leichester skorar 2 mörk og við náum vonandi sárabótarmarki í lokin 2-1 tap verður staðreind !
    Við verðum mikið meira með boltan en það telur því miður ekki, annars hefði Liverpool orðið meistari ár eftir ár undanfarinn áratug. þetta er mín spá eins sár og hún er. En það sem ræður úrslitum er hvaða Leicester lið mætir til leiks verður það liðið sem varð meistari í vor eða liðið sem er búið að spila síðustu leiki þeirra !

  7. Mikið svakalega hlakka ég til að sjá fyrsta leikinn með nýjustu viðbótina. En ég var að horfa á viðtöl við Ranieri, og ætla að kveða sömu vísuna og allir aðrir. Þvílíkur snilldar karl og þjálfari sem hann er, og oh boy hversu feginn ég er að hann vann titilinn í fyrra en ekki einhver sjálfmiðaði og síspreðandi hrokagikkurinn.

  8. Er bjartsýnn, enda geri ég eðlilega kröfu að Liverpool vinni heimaleik gegn Leicester (já þeir eru meistarar en eru samt Leicester)
    Mín spá er 3-1 (höldum aldrei hreinu)

    Annars er það í fréttum að eigendur Liverpool halda áfram að kveða niður þennan Kína orðróm, því er nú ver og miður. Tom Werner gerði þetta ljóst í viðtali í vikunni þegar nýja stúkan var vígð. Mike Gordon forseti FSG sagði svo í öðru viðtali svart á hvítu að Liverpool ætlaði sér ekki að keppa á leikmannamarkaðnum við City, United og Chelsea.

    “Fenway Sports Group president Mike Gordon has described the new-look Anfield as a “very large step forward” – but says increased revenues won’t lead to a change in Liverpool’s transfer strategy.

    The new Main Stand is expected to generate an extra £25million per year with the 8,500 extra seats increasing capacity to 54,074.

    However, Gordon says it’s not about trying to match the spending power of clubs like Manchester United, Manchester City and Chelsea. He’s more interested in seeing talent develop”

    Við verðum sem sagt ennþá þessi “developing” klúbbur.

    Vandinn er FSG, það sést skýrar á hverjum degi sem líður.

  9. Takk fyrir hlaðvarpið og allt annað sem birtist hér.

    Líst betur á að hafa Studge frammi með bobby og Mané sitt hvorum megin að ógna og skapa. Trúlega flottasta tríóið í deildinni. Mun hafa áhyggjur af bakinu hans Klopps og gleraugunum hans líka þegar þetta tríó fer að ná vel saman!

    Höfum spilað mjög vel so far á þessu tímabili og tíminn mun vinna með okkur, sjáið bara til!

    Sammála með Raneiri, flottur karl og otrulegur árangur hja honum. Ber virðingu fyrir honum.

    Vinnum þetta 3-1. Studge með eitt, Mané eitt og Matip með skalla ur horni.

    KOMA SVO LIVERPOOL!!

  10. Sælir félagar

    Hvað skal segja, snýst þetta ekki bara um að hafa trú á Klopp og liðinu? Ég held það. Það hefi ég og því er mín spá 3 – 1 og Mane með 2 og Sturridge 1. Vardy sér um mark andstæðinganna í byrjun fyrri hálfleiks og þá fer hrollur um okkur en við jöfnum fyrir leikhlé (Sturridge) og setjum svo 2 á þá í byrjun seinni. Sem sagt sigur og 3 stig og erum þar með farnir að narta í hælana á MU sem tapar fyrir MC.

    Það er nú þannig

    YNWA

  11. Takk fyrir ábendingarnar með Coutinho. Ég ætlaði að setja hann á bekkinn í stað Danny Ings en klikkaði á því þegar ég uppfærði liðið (ég set lið og bekk frá síðustu leikskýrslu inn og geri svo breytingar þegar ég hef skrifað upphitun).

    Búinn að laga það núna. Coutinho verður á bekk í dag.

  12. Vá hvað City er að valta yfir United í þessum fyrri hálfleik og það án Aguero. Ég verð að segja það að það er rosalega gaman að horfa á City spila fótbolta undir Pep.

    Mourinho er eini þjálfarinn sem hefur unnið deildartitil í keppni við Pep þegar að hann vann la liga með Real árið 2012 annars hefur Pep unnið alla deildartitla sem hann hefur keppt um síðan 2008.

Sala hafin í hópferð Kop.is!

Leikdagur: Leicester á Anfield