Uppgjör helgarinnar – Góð byrjun

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD Í NÓVEMBER! SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR

Fyrir helgina var eina krafan hjá mér að okkar menn myndu ekki enn einu sinni slá okkur hressilega niður á jörðina eftir frábæran sigur gegn Leicester. Vonandi gefur það fyrirheit upp á framhaldið að þeir gerðu það heldur betur ekki. Það er fátt sætara en að vinna Chelsea á útivelli.


Deildin er aldrei búin í ágúst!

Eftir tapið gegn Burnley var Liverpool fimm stigum á eftir öllum ofurríku klúbbunum, bilið nú þegar orðið allt of mikið (í ágúst) og meistarar síðustu tveggja tímabila í næstu umferðum. Liverpool er núna búið að ná Chelsea og komið uppfyrir United. Ef við skoðum leikjaprógrammið hjá þessum liðum hefur Liverpool byrjað miklu betur.

Man Utd, Man City, Tottenham og Chelsea hafa öll bara spilað einn leik gegn þeim liðum sem spáð er efstu sætunum. Arsenal hefur spilað tvo ef við teljum Leicester með sem vissulega eru ríkjandi meistarar. Fyrir utan Burnley leikinn hefur Liverpool bara spilað stóra leiki. Þar af öll bestu London liðin á útivelli án þess að tapa.

Þetta auðvitað gefur ekkert ef við fylgjum þessu ekki eftir með góðum úrslitum gegn liðum eins og Hull og Swansea en tvö stig af þremur mögulegum úr þessu leikjaprógrammi er mjög gott og ef einn af þessum leikjum átti að tapast var best að það var gegn Burnley, enda það ekki sex stiga leikur fyrir Liverpool. (Ekki misskilja, ég er ennþá mjög pirraður yfir þessu Burnley slysi).

Everton er að taka sína bestu byrjun frá 1978 og verða sterkir í vetur en þeir hafa bara spilað við Tottenham af hinum svokölluðu toppliðum.

Man City er svo með fullt hús stiga og virðast ætla að ganga frá þessari deild strax í september. Þeir hafa ekki byrjað svona vel síðan… á síðasta tímabili. Auðvitað verða þeir góðir með Guradiola við stjórnvölin og eitt dýrasta lið sögunnar en sjáum til hvort þeir lendi ekki á einhverjum veggjum í vetur eins og önnur lið.

Stigasöfnunin hjá okkar mönnum er góð eftir þetta prógramm en spilamennslan hjá liðinu er ennþá betri og ætti í raun að verðskulda fleiri stig. Klopp er núna búinn að fá sitt undirbúningstímabil, kaupa þá leikmenn sem hann vildi og fær að þjálfa liðið almennilega milli leikja. Við erum að læra helling um okkar menn í þessum fyrstu umferðum mótsins.


Besta miðvarðapar Liverpool á þessum áratug?

Joel Matip hóf leik á Englandi gegn Harry Kane, James Vardy og Diego Costa. Heitustu sóknarmenn síðasta tímabils og núverandi tímabils. Vissulega skoruðu Costa og Vardy en það er óhætt að segja að eftir þrjá leiki virðist Matip vera rán um hábjartan dag á frjálsri sölu. Verðmiðin gerir það að verkum að menn horfa framhjá því að hann hefur spilað 200 leiki í Þýska boltanum og 46 leiki í Meistaradeildinni (meira en langflestir leikamnna Liverpool). Þýski boltinn hefur ekki verið neitt síðri en sá enski á þessum áratug og einn besti miðvörður deildarinnar ætti ekki að vera í miklu veseni að aðlagast boltanum á Englandi.

Það er nærtækast að horfa á þetta þannig að Matip kemur inn fyrir Martin Skrtel og það virkar svakaleg styrking á liðinu eins og staðan er núna. Háir boltan inn á teiginn eru ekki merki um júdó glímu hjá Matip. Eins er hægt að horfa á þetta þannig að hann komi inn fyrir Sakho og helsti munurinn þar er hversu mikið betri Matip er að koma boltanum í leik úr öftustu varnarlínu. Eins er vesenisstuðullinn (vonandi) töluvert lægri hjá Matip heldur en Sakho, hvort sem um er að ræða meiðsli eða hegðun.

Lovren hefur verið að vaxa mikið undir stjórn Klopp og er klárlega orðinn einn af leiðtogum liðsins, hlutverk sem honum var ætlað frá upphafi.

Það er ekkert miðvarðapar í deildinni sem gerir engin mistök og Matip og Lovren verða klárlega engin undantekning, hvað þá í liði sem spilar jafn hátt á vellinum og Liverpool vill gera. Þetta er engu að síður líklegasta miðvarðapar Liverpool síðan Carragher og Hyypia/Skrtel/Agger voru að spila saman 2008/09. Báðir eru á frábærum aldri og geta ennþá bætt sig töluvert og mótað sitt samstarf.


Milner er 7/10 hvar sem hann spilar

James Milner var eitt heitasta umræðuefnið fyrir tímabilið enda leitun að meira óspennandi lausn á vinstri bakvarðavandræðum Liverpool. Jurgen Klopp virðist hafa vitað hvað hann var að gera þarna!

Milner gæti spilað í marki og hann myndi líklega fá 7 af 10 í hverjum leik (eitthvað sem mætti skoða alvarlega ef Karius meiðist meira). Hann er búinn að vera mjög góður gegn bæði Leicester og Chelsea eftir erfiða byrjun í þessari stöðu. Hann er alls ekkert fullkomin en nægjanlega solid bæði varnarlega og sóknarlega. Það er mikið betra að hafa solid leikmann (7/10) í vinstri bakverði heldur en á hægri kantinum þar sem hann var að spila í fyrra.

Haldist þessi varnarlína sem spilaði gegn Chelsea að mestu meiðslalaus er ekkert því til fyrirstöðu að þeir spili allt tímabilið saman. Slíkur stöðugleiki er auðveldlega mælanlegur í tveggja stafa tölu á stigatöflunni yfir heilt tímabil miðað við það sem við sáum í fyrra. Hvað þá ef við fáum betri markmann inn fyrir aftan þá.

Breiddin er ennþá mjög tæp en þetta er betra en maður óttaðist. Moreno veitir Milner auðvitað samkeppni og Klopp er vonandi með hann í stífum æfingum núna um hlutverk hans varnarlega. Joe Gomez er væntanlegur til æfinga eftir nokkrar vikur en hann hefur verið frá í eitt ár og í unglingaliðinu er 18 ára miðjumaður (Trent Alexander-Arnold) að spila svo vel í bakverði að hann fer að fá sénsinn hvað á hverju í aðalliðinu. Myndi henda honum inn gegn Derby á þriðjudaginn t.a.m.


Endurkoma Henderson

Alltaf þegar leikmenn Liverpool lenda í langtímameiðslum finnst manni það vara fyrir lífstíð hjá þeim. Þess vegna er maður hræddur við að fagna endurkomu Henderson alveg strax enda bara fimm leikir búnir en hann er í svipuðu standi líkamlega núna og hann var 2013/14. Það tímabil keypti ég bol fyrir utan Anfield sem á stóð:

“70% of the earth is covered by water. Jordan Henderson covers the rest”

Það að setja hann aftast í þriggja manna miðju minnir mig mikið á það þegar Rodgers gerði það sama við Gerrard. Hann tók einn hroðalegan leik (gegn Villa) áður en hann náði betur tökum á stöðunni og var frábær í kjölfarið. Vonandi var Burnley leikurinn þessi leikur fyrir Henderson því hann hefur verið frábær í síðustu tveimur leikjum. Hann hefur oft verið sakaður um að skora ekki nóg og því sé ég ekkert að því að setja hann bara eina línu aftar. Hann hefur klárlega orkuna sem við viljum sjá frá djúpum miðjumanni sem og sendingagetuna. Ef hann er kominn aftur í form erum við að fá £30m mann inn á miðjuna, hann var bara skugginn af sjálfum sér undanfarin tvö tímabil vegna meiðsla.

Það verður fróðlegt að sjá hvar Emre Can kemur inn í liðið þegar hann hefur náð sér, ég er ekki viss um að hann verði aftari miðjumaðurinn þegar þeir spila báðir. En það gæti orðið erfitt að eiga við þá þegar þeir skiptast á að taka þátt í sóknarleiknum.


Öll miðjan er að spila einni línu aftar

Það er ekki bara Henderson sem er að blómstra einni línu aftar, Winjaldum hefur jafnan spilað fremst á miðjunni eða á kantinum á meðan Lallana var alltaf partur af sóknartríóinu. Þriggja manna miðja með Henderson, Winjaldum og Lallana virkaði heldur betur léttvæg fyrir mótið en hefur núna hlaupið yfir andstæðinginn fimm leiki í röð. Líklega gott dæmi um Klopp effect því Winjaldum sást aldri á útivelli skv. Newcastle mönnum og Lallana var alltaf búinn á því eftir klukkutíma þegar hann kom til Liverpool.


Besti leikmaður liðsins?

Klopp er að byggja upp svo öfluga liðsheild að líklega er hægt að fá 10 mismunandi svör þegar spurt er hver sé besti leikmaður liðsins. Coutinho hefur reynt að draga vagninn undanfarin ár og er ennþá að skila frábærum mörkum og stoðsendingum. Maður er samt alltaf að bíða eftir því að hann springi almennilega út.

Sá tími er einnig liðin að við séum að treysta á endurkomu Sturridge. Uppleggið er alls ekki byggt í kringum hann einan þó hann sé vissulega frábær kostur að eiga upp í erminni þegar hann er heill. Bæði hann og Coutinho hafa gæðin en ekki dugnaðinn og þess vegna eru þeir líklega að berjast um byrjunarliðssæti þegar allir eru heilir. Hin tvö eru frátekin upp á toppi.

Mané gefur liðinu gríðarlega mikið og hefur í raun alla burði til þess að verða næsta stórstjarna hjá Liverpool. Hann er jafngamall og Suarez var þegar hann kom. Auðvitað er ekki hægt að bera þessa leikmenn saman en þennan hraða eiga öll lið erfitt að eiga við og með góðum leikmönnum í kringum sig skapar Mané svakalega mikið pláss ef hann er ekki að skora eða leggja upp sjálfur. Hann var t.a.m. ekkert sérstakur gegn Chelsea en hann tók töluverðan tíma og orku frá varnarmönnum þeirra. Gleymist hann eitt augnablik er hann farinn, gjörsamlega horfinn. Þetta eru mest spennandi leikmannakaup Liverpool ásamt Suarez og Firmino á þessum áratug að mínu mati.

Fyrsta nafn á blað og besti leikmaður liðsins um þessar mundir að mínu mati er engu að síður Firmino. Hann hefur bæði gæðin og dugnaðinn sem Klopp heimtar frá sínum mönnum og hans var saknað gegn Chelsea. Það er meiri ógn af honum sóknarlega en Coutinho en það er sérstaklega varnarlega sem þá skilur í sundur. Frábært að eiga báða auðvitað en eins og staðan er núna er Firmino fyrr á blað fyrir mér.

En eins og áður segir, liðsheildina er þannig að erfitt (og ósanngjarnt) er að velja einn úr og ómögulegt að allir séu sammála. Skoðum þetta til gamans

Hver er besti leikmaður Liverpool í dag?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

Hópurinn hjá Liverpool er á mjög góðum aldri, mikil reynsla í bland við unga leikmenn sem ættu miðað við aldur að vera nálgast hátind ferilsins. Það að vera ekki í neinni Evrópukeppni eykur líkur á að hægt sé að ná einhverjum stöðugleiki og það að hafa þjálfara sem veit nákvæmlega hvernig hann vill sjá liðið spila skemmir ekki heldur. Það er allt of snemmt að fara skoða töfluna strax enda gæti þetta allt farið fjandans til með tapi í næsta leik, þannig er það alltaf en það er ljóst að Liverpool er með öllu betra lið en ansi margir héldu fyrir mót. Það er ekkert lið sem hlakkar til að mæta Liverpool eftir þessa fyrstu fimm leiki og mótherjar Liverpool hafa margir talað eftir leik um það hversu erfiðir okkar menn voru.


Hópurinn 2013/14 vs 2016/17

Þetta er besta byrjun Liverpool frá 2013/14, þá voru okkar menn búnir að spila þrjá heimaleiki og einn “stórleik”. Liðið núna virkar miklu meira solid í nánast öllum stöðun nema einni. Skarð Suarez er hægt að fylla að einhverju leiti með því að fá ekki á sig 50 mörk, þessi varnarlína er mikið líklegri til að gera einmitt það heldur en vörnin 2013/14 en höfum þó í huga að Liverpool hefur ekkert verið að skora minna núna eftir áramót heldur en liðið var að gera 2013/14. Sem dæmi hefur ekkert lið skorað meira á þessu ári og það sem af er þessu tímabili er liðið búið að skora 11 mörk eftir 5.umferðir en var aðeins með 5 mörk 2013.

GK: Mignolet er tveimur árum reyndari núna og kominn með mjög mikla samkeppni um stöðuna núna.
DL Milner og Moreno eru töluverð bæting frá Cissokho og Flanagan.
DR: Clyne er miklu traustari en Johnson og er mikil bæting frá honum þökk sé stöðugleika.
DC: Skrtel spilaði alla leiki 2013/14 á meðan Sakho, Toure og Agger skiptust á að vera meiddir. Það var ekkert solid miðvarðarpar allt tímabilið. Rosalegt svigrúm fyrir bætingu hvað það varðar núna.
DM: Henderson er átta árum yngri en Gerrard var 2013/14 og Can er mun betri en Lucas (sem við eigum hvort eð er ennþá). Henderson þarf auðvitað að haldast heill enda spilaði Gerrard nánast alla leiki en varnarlega held ég að Henderson/Can veiti miklu meiri vernd en Gerrard gerði.
MCR: Lallana er svipað vinnusamur á miðjunni og Henderson var í sömu stöðu og hættulegri við markið. Henderson getur svosem farið aftur í þessa stöðu líka.
MCL: Winjaldum er líklega meiri alhliða miðjumaður en Coutinho sem var lengst af að spila á miðjunni 2013/14. Mun öflugri varnarlega. Hann er svo miklu betri en Joe Allen.
AML: Coutinho er með annað hlutverk núna en er þremur árum eldri og með alvöru samkeppni um sína stöðu. Hann hefur í raun ekki spilað á miðjunni nema þetta tímabil (2013/14).
AMR: Sterling var mjög öflugur 2013/14 en við tækjum öll Mané langt framyfir hann. Sterling hrökk heldur ekki í gang fyrr en í nóvember 2013.
S: Sturridge er með allt annað hlutverk núna og ekki eins mikilvægur, samkeppni frá Firmino, Origi og Ings er svo aðeins annað en það sem Iago Aspas var að bjóða uppá. Sturridge spilaði svo bara 2/3 af deildarleikjum Liverpool þetta tímabil.

Suarez er svo auðvitað eitthvað sem ekki er hægt að bæta upp fyrir nema með styrkingu á öllu liðinu, einmitt það sem Klopp virðist vera að gera.

Það er auðvitað ekki hægt að bera þessi lið 100% saman og hafa verður í huga að samkeppnin í deildinni er allt önnur. Hinsvegar eru þessi lið ekki það ósvipað sett upp og að mínu mati er liðið núna miklu líklegri sem heild heldur en Suarez og félagar voru.

Tala nú ekki um ef við skiptum Rodgers út fyrir Jurgen Klopp.

19 Comments

  1. Heyr heyr. Sammála þessum pistli í megin atriðum, sérstaklega varðandi vörnina sem er orðin mun sterkari en hefur verið á undanförnum tímabilum.

    Mér fannst gagnrínin á vörnina í byrjun tímabilsins ekki vera sanngjörn og ekki standast skoðun. T.d er Mignolet alveg búinn að vera á pari, sama hver segir og svo er Milner búinn að vera framúrskarandi í undanförnum leikjum.

    En næsti leikur er Hull og ég held að það sé hið besta mál að vera skíthræddur við þá, því þeir hafa verið að spila vel í byrjun tímabilsins og líklegir til þess að standa sig vel í vetur.

  2. Við skuldum aðeins halda í hestinn, hversu of höfum við stuðningsmenn Liverpool verið í þessum sportum að vera búnir að vinna “stóru” liðin og svo stuttu seinna fengið skitu gegn minni spámönnum.
    Þegar Klopp nær að klára leiki eins og gegn Burnley þar sem lið pakka í vörn og nota skyndisóknir til að klára okkur.
    En liðið hefur verið að spila vel og það hefur verið gaman að sjá liðið spila gegn sterkum liðum og klárað þá leiki . Þetta er langhlaup en ekki sprettur og lykilinn að halda jöfnum hraða allt hlaupið.

  3. Nr. 1
    Þetta var ekki óvart.

    Nr. 3
    Er þetta að fara langt framúr sér? Allt í lagi að vera á jákvæðum nótum eftir þessa byrjun, allir vel meðvitaðir um að þetta tímabil er ekkert búið neitt.

  4. Skemmtilegar pælingar, en ég á ekki von á að við séum að fara endurtaka 2013-2104 tímabilið, jafnvel þó liðið sé heilt yfir sennilega sterkara í dag en þá. Ástæðan: Við vorum þá með x-factorinn, Suarez.

    Ekki misskilja mig, liðið lofar svo sannarlega góðu og búið að vera frábært að fylgjast með liðinu fyrir utan Burnley-leikinn. Ég óttast hins vegar að okkur eigi eftir að vanta stöðugleika. Einnig á ég eftir að sjá að við getum brotið lið á bak á aftur eins og Crystal Palace og Watford á útivelli. Sjáum hvar við stöndum eftir 13 umferðir. Svo skiptir gríðarlega miklu máli hvort við munum sleppa mikið við meiðsli lykilmanna.

    Valdi Mane sem okkar sterkasta leikmann. Hefði sennilega sett Firmino í 2. sætið.

    Hvað sem þessum pælingum líður þá er ég rosalega spenntur fyrir framhaldinu. Liðið er búið að spila frábæran bolta undanfarið.

  5. Sæl og blessuð.

    Frábær grein. Allt betra núna en sísonið sem við lentum í 2. sæti að nafna mínum frátöldum og svo auðvitað því að hin stóru liðin eru búin að kaupa eins og bestíur. Það breytir ekki því að það væri melankólískt út úr öllu hófi að vera ekki bjartsýn í þetta skiptið. Góð byrjun og geggjaður þjálfari. Erum ekki eins viðkvæm fyrir því ef lykilmenn detta út en það er stóri munurinn nú og þá að nú kemur maður í manns stað.

  6. Valdi Lallana à þessum tímapunkti. Kannski ekki bestur okkar leikmanna en er búinn að vera fàrànlega duglegur og mikilvægur síðustu leiki, hlaupandi um 8 km í hverjum leik.

  7. Eiríkur Már ég held að Lallana sé að hlaupa “aðeins” meira en 8 km í leik! Hann hljóp 12,5 í Arsenal leiknum og svo 13.1 í Leicester leiknum…! Algjörlega magnað : )

    Erfitt að pikka einn út en ef maður á að gera það , þá set ég Mane nr 1 , Firmino þar rétt á eftir og Lallana í 3…

  8. Ætla að vera ósamála #8
    Mér finnst Lallana hafa verið bestur og ekki bara af því að hann hleypur mikið(og hann er að hlaupa meira en 8 km í leik meira 11-13 km). Hann er að springa úr sjálfstrausti þessa dagana og búinn að vera góður í öllum 4 leikjunum gegn stórliðinum en allir voru lélegir gegn Burnley.

  9. Halló! Eru allir búnir að gleyma því að Rodgers hefur unnið Championship playoffs og er núna með Celtic í efsta sæti skosku deildarinnar! Talandi um karakter!

  10. er það ekki rétt hjá mér að Lallana hafi misst af síðustu tveimur undirbúningstímabilum en nú er hann búin að haldast heill og virkar hrikalega flottur

  11. Núna ætti að vera möguleiki á góðu rönni hjá okkar mönnum.
    12 af þeim leikjum se framundan eru fram að áramótum er gegn þeim liðum sem hafa verið talin til minni spámanna í þessari deild. Southampton hafa reyndar verið að koma sterkir inn þó þeir hafi ekki byrjað vel núna.

    Þetta er samt soldið sem hræðir mann þar sem þetta er sú prófraun sem okkar menn hafa hvað oftast fallið á síðustu leiktíðir. Unnið „stóru“ leikina og tapað þeim „litlu“.
    Tímabilið í ár er hvað skýrasta dæmið um það eins og tapið á móti Burnley sýndi svo glöggt.
    Ef við náum góði rönni núna fram að áramótum sýnum stöðugleika á móti þessum „minni“ liðum að þá er það ástæða til bjartsýni. Síðan eigum við þessi 3 stóru lið sem við erum búin með núna á Anfield eftir áramótin.

    Fyrir mér að þá byrjar alvöru prófið hjá Klopp núna laugardaginn á móti Hull

    Hull City H
    Swansea City Ú
    Manchester United H
    W.B.A H –
    Crystal Palace Ú
    Watford H
    Southampton Ú
    Sunderland H
    Bournemouth Ú
    West Ham United H
    Middlesbrough Ú
    Everton Ú
    Stoke City H
    Manchester City H

  12. Sælir félagar

    Ég er sammála Einari M í flestu og vil þakka honum góða og skemmtilega samantekt. Mér finnst eðlilegt að Minjó sé ekki á vallistanum, til þess hefur hann enga burði. Ég valdi Lallana og er sammála Klopp og Sigurði Einari í mati hans á leikmanninum. Mér finnst framtíðin björt og lífið skemmtilegt, ekki síst eftir sigur Watford á litla liðinu í þeirri ljósbláu Mancester borg.

    Það er nú þannig

    YNWA

  13. Held að þetta tap á móti Burnley hafi verið blessun í dulargerfi. Það gerði það að verkum að menn fóru yfir málin og hafa mögulega stoppað í þessi göt og þá ólíklegra að þetta gerist aftur. Jú vissulega er slæmt að missa 3 stig en ég held að þessi töpuðu stig hafi orðið til þess að við vinnum kannki 12 stig á móti öðrum minni liðum í staðin sem við hefðum kannski tapað síðar?
    skiljið þig mig??

    Svona eins og þegar volvo uppgvötar öryggisgalla áður en bíllinn fer á markað 🙂

  14. Þetta er að vanda flott yfirferð yfir stöðuna hjá Einari. Ég get ekki valið besta leikmanninn hingað til því sá sem stígur upp í næstu tveimur leikjum, gegn Swansea og Hull, verður sá sem á skilið eitthvað hrós.

    Núna er mikilvægt að fá Karius í markið gegn Derby og svo Hull og Swansea. Þá er mjöööög mikilvægt að leikmenn fari ekki að láta Guardiola og leikmenn Chelsea hafa áhrif á hausinn á sér með yfirlýsingum um þvílík gæði sem eru í þessu liði. Þetta er kunnuglegt stef og ef einhverjir af snillingunum í liðið lætur hafa eftir sér að liðið sé tilbúið í toppbaráttu þá er það ávísun á tap gegn Hull. Þannig hefur þetta verið og þannig mun þetta verða þangað til hópurinn tekur til í hausnum á sér.

    Getan er til staðar, engin spurning um það, en þessir næstu 12-13 leikir – sem jú eiga allir að vinnast á pappírunum – eru bara drulluerfiðir. Við höfum 100 sinnum brennt okkur á því að fara að telja stigin fyrirfram gegn lægra skrifuðum andstæðingum og svo kemur bara helmingurinn af þeim í hús. Hættum því, vonum að leikmenn og þjálfari hætti því líka, tökum þrjú stig gegn Hull, hvernig sem við förum að því, og spáum svo í framhaldið eftir það.

    Ég hef grun um að stigasöfnunin í þessum næstu 14 verði áfram 2 stig pr. leik þannig að við verðum með eitthvað í kringum 40 stig eftir fyrri umferðina. Vona það allavega. Það ætti að halda okkur í topp 4 og ekki mjög langt frá toppnum.

  15. Ég er nú ekki að tala um að þetta eru gefin stig á móti þessum liðum sem framundan eru. Frekar að það eru svona leikir sem að liðið hefur átt erfitt með að gíra sig upp í. Ef að Klopp nær að breyta þessu hugarfari leikmanna að þá verður þetta spennandi tímabil.
    Því segi ég að nú byrjar prófið hjá Klopp.

    Tímabilið 2013-2014 töpuðum við 16 stigum á móti þessum minni liðum. Hagstæðari úrslit í tveimur þessara leikja og sagan hefði orðið öðruvísi.

    #15 gætu verið 13 leikir en Everton er alltaf stórleikur út af Derby áhrifunum 🙂

Chelsea – Liverpool 1-2 (Skýrsla)

Derby County á morgun