Prófraunir og áhersluatriði

Það er gaman að vera stuðningsmaður Liverpool þessa dagana og það verður bara að segjast að flest allir hlutir í kringum félagið er mjög jákvætt og skynjar maður að eitthvað frábært gæti verið í uppsiglingu á næstu misserum.

Án nokkurs vafa eru enn fullt af atriðum sem Jurgen Klopp og félagið í heild sinni þarf að ná að bæta í eða viðhalda til að félagið geti tekið næsta skref upp og vonandi haldið sér í og við toppinn í langan tíma. Það eru nokkur atriði sem dúkka upp í kollinn á mér og ég tel að geti verið afar mikilvæg fyrir félagið til að ná alvöru tökum á.

Að klára dæmið
Augljósasta dæmið sem Jurgen Klopp þarf að ná að í gegn hjá Liverpool er að klára dæmið sem hann var svo nálægt því að takast í tvígang á síðustu leiktíð þegar liðið tók þátt í tveimur úrslitaleikjum. Númer eitt, tvö og þrjú er auðvitað að takast að klára dæmið. Allt er þegar þrennt er, ekki satt?

Liðið var virkilega öflugt í bikarkeppnunum og Evrópudeildinni í fyrra og komst eins og segir í tvo úrslitaleik en tapaði í báðum fyrir tveimur sterkum liðum. Drullu svekkjandi og er þetta klárlega eitthvað sem Liverpool þarf að takast að klára þegar á hólminn er komið, fá tilfinningu fyrir sigri og koma nafni Jurgen Klopp af alvöru í sögubækur Liverpool.

Lið, þjálfarar og leikmenn eru alltaf dæmd eftir árangri og titlum. Jurgen Klopp er frábær stjóri, liðið er fullt af mjög góðum leikmönnum og þetta er risafélag. Það þarf að koma nýrri dollu í húsið sem fyrst. Liðið er á góðu skriði í Deildarbikarnum hingað til og ætti að klára Leeds til að komast í undanúrslit svo það ættu að vera góðar líkur á öðrum úrslitaleik og það þarf að klára hann ef af því verður.

Halda leikmönnum
Liðið sem Jurgen Klopp er með í höndunum er virkilega spennandi lið, eitt mest spennandi sóknarlið Liverpool síðustu ára og þó það sé enginn Suarez í þessu liði þá ætla ég ekki að fara ofan af því að þetta lið sem við erum með í dag sé sterkara fram á við heilt yfir en leiktíðina 2013-2014. Það er í það minnsta töluvert fleiri frambærilegir og góðir sóknarmenn í liðinu í dag en þá þó sá besti í jöfnunni hafi verið á fyrra tímabilinu.

Jafnvægið sem Klopp hefur verið að finna í liðinu er heldur betur að skila sér þessa dagana og er liðið frábærlega sett upp og vænlegt til árangurs. Það besta við þennan hóp er að hann á enn klárlega helling inni svo það er algjört lykilatriði að félaginu takist að halda helsta kjarna þessa liðs saman lengur.

Það er komin mikil pressa á félagið og Philippe Coutinho þessa dagana þar sem hann er talinn mjög ofarlega á óskalista Barcelona og þeir verða nú seint sakaðir um að vera dannaðir og eitthvað sérstaklega faglegir þegar þeir vilja ákveðna leikmenn. Þegar allt stefndi í rétta átt 13/14 þá tóku þeir Luis Suarez frá okkur og tók liðið þrjú skref aftur til baka eftir það. Nú loks er liðið aftur á réttri leið og nú er verið að ógna því að taka Coutinho af okkur og næstu skref félagsins í þeim málum gæti verið afar stór og mikilvæg fyrir framhaldið.

Þetta lið er á frábærum aldri og flest allir lykilmenn liðsins eru yngri en 26 ára svo það virðist sem svo að liðið sé alveg við það að ná hápunkti og liðið líklega sjaldan átt lið á eins góðum aldri og líklegt til árangurs og núna svo það að geta haldið kjarnanum saman í 2-3 ár í viðbót og byggt á því þá gætum við verið að fara að gera magnaða hluti.

Við skulum því bara halda Coutinho lengur þrátt fyrir áhuga Barcelona. Please!

Taka akademíuna upp á næsta stig
Hellings tími, peningur og metnaður hefur verið lagður í unglingastarf Liverpool undanfarin ár og sér maður stöðuga þróun á þessu sviði. Er mjög hrifinn af nýjustu fregnunum af þessum hluta félagsins en það er búið að gefa Alex Inglethorpe, yfirmanni Akademíunnar, nýjan langtíma samning en hann hefur unnið frábært starf hjá félaginu eftir að hann kom frá Tottenham fyrir nokkrum árum.

Hinar fréttirnar eru líklega enn betri en stefnan er sett á að sameina æfingasvæði aðalliðsins og unglingaliðana og er það mjög jákvætt. Batteríið ætti að geta verið enn öflugara ef það er allt undir sama hatti og þetta taldi Klopp vera mjög mikilvægt skref og virðist sem allir innan félagsins hafi verið á sömu blaðsíðu hvað það varðar. Frábært.

Inglethorpe kom til félagsins rétt fyrir áramótin 2012 og síðan þá hafa
fullt af leikmönnum úr unglingastarfinu spilað sínar fyrstu mínútur með aðalliðinu. Sumir eru enn hjá félaginu, sumir eru á láni og aðrir farnir í lið í efstu tveimur deildum Englands. Record-ið hans er gott og síðan Klopp tók við fyrir ári síðan hafa einhverjir átta eða níu strákar spilað sínar fyrstu aðalliðsmínútur hjá félaginu, það er slatti á nokkrum mánuðum.

Klopp fer ekkert leynt með það að akademían skipti félagið miklu máli og hann vill að félagið geti að miklu leiti framleitt sína leikmenn sjálft svo það þurfi ekki að kaupa eins mikið.

Tvær stórar breytingar á akademíunni sem mér hafa fundist mjög áhugaverður og verður spennandi að sjá hvernig mun spilast hjá félaginu. Í fyrsta lagi er búið að setja launaþak á unglingana í akademíunni svo það er enginn leikmaður þar sem fær yfir 40 þúsund pund á ári í samningum sínum. Peningarnir eiga ekki að skipta máli fyrir þá sem þar eru og því á að svara með því að fækka fjölda leikmanna þar til að geta unnið enn nánar og betur með hverjum leikmanni fyrir sig. Hungur í að læra, persónuleg þjálfun og þjálfari sem horfir hiklaust til unglingaliðana. Það er alveg frekar gott sales pitch.

Lengi má gott bæta og vonandi fáum við að sjá fleiri stráka koma inn í hópinn og spila alvöru hlutverk.

Halda einkennum félagsins
Saga FSG og Boston Red Sox gefur okkur fína sýn inn í þeirra hugarheim og þeir hafa nú alveg sagt það sjálfir en áætlanir þeirra með Liverpool er að ná toppnum – og gera það sem er lang mikilvægast og ná að halda sér þar.

Við gætum vel séð einstaka öskubuskuævintýri hér og þar. Leicester getur tekið upp á því að vinna deildina en erfiðasti parturinn er að halda sér þar, við gætum tekið upp á því að vinna deildina en að halda titlinum eða berjast um hann aftur næstu ár eftir getur verið afar erfitt.

Sé planið ekki að kaupa, kaupa og kaupa meira til að bæta alltaf í liðið og taka einhverja Galatico leið á þetta þá held ég að það þurfi klárlega að viðhalda einkenni félagsins og byggja á því sem er gott til að ná árangri til langs tíma. Dortmund, Atletico Madrid, Juventus, Barcelona og Manchester United undir stjórn Ferguson eru meðal félaga sem hafa haldið stalli sínum nokkurn veginn í mörg ár með því að viðhalda ákveðnum einkennum, styrkleikjum og hugmyndum.

Þetta er klárlega það sem þarf að gera til að ná langs tíma árangri og það virðist afar margt í gangi hjá Liverpool sem gefur til kynna að mikið púður sé sett í að reyna að búa til ákveðinn strúktúr sem á að gera félaginu kleyft að halda stefnu sinni í mörg ár fram í tímann.

Liverpool liðið er komið með einkenni á vellinum og það er að skila sér í ágætis árangri, Jurgen Klopp er langstíma hugsuður og horfir lengra en eitt skref áfram í einu, það er kominn yfirmaður knattspyrnumála, akademían er í mikilli bætingu og þess háttar. Þetta er allt að skýrast og lítur vel út, það er afar mikilvægt að félagið haldi þessu áfram. Liðið byggir áfram á sínum styrkleikum, kaupir réttu prófílana af leikmönnum og hugsar ítarlega sínar ákvarðanir.

Fá inn meira í veltu félagsins
Rómantíkin í fótboltanum er í hættu og nú skipta peningarnir leiðinlega miklu máli í þessum leik. Það er erfitt að ætla að snúa á peningamaskínurnar í þessum bransa endalaust því þeir tekjuhæstu, eyðslusömustu og grimmustu hika ekki við að eyða heilu bílförmunum af peningunum til að ná aftur sínum sessi.

Verð leikmanna, launakostnaður þeirra og viðhald er farið að kosta augun úr og fyrir félag sem ætlar sér stóra hluti á toppnum þá skipta peningarnir miklu máli hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

Félagið hefur undanfarin ár verið að fá fullt af mjög góðum auglýsingar- og styrktarsamningum frá hinum og þessum fyrirtækjum út um allan heim og sló persónulegt met þegar þeir sömdu við Warrior – sem er nú í eigu New Balance – um að framleiða búninga félagsins í einhver ár. Það var slatta peningur en sá díll er frekar lítill miðað við það sem margir keppinautana hafa verið að fá undanfarin ár. Það er því klárlega mikilvægt að Liverpool nái að fá enn stærri samning við treyjuframleiðendur þegar þessi rennur út á næstu árum.

Eitthvað tal hefur verið um að selja nafnrétt á nýju stúkunni á Anfield, það er ekki rómantískt en gæti skilað mikilvægu magni af peningum inn í félagið sem gæti þá jafnvel vonandi hjálpað til við enn meiri stækkun á Anfield.

Tekjur félagsins, skuldastaða þess og hagnaður hefur stigmagnandi bæst mikið á síðustu árum og verður vonandi áfram um ókomna tíð. Aukið fé, erfiði og vinna í unglingastarfinu gæti líka skilað sér í töluverðar auka tekjur varðandi “auka” sölu á leikmönnum.

Money, money, money….

6 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir þetta Ólafur Haukur og enn halda kopparar áfram að stytta manni stundir í þessu béaða landsleikjahléi. Það er verulega þakkarvert að eiga aðgang að slíku efni á þessum leiðu dögum. Hvað er annars að frétta af Lallana þeim góða dreng? Sá eða heyrði einhversstaðar að hann væri lítið sem ekkert meiddur.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Takk fyrir þetta. Trúi ekki öðru en allt verði gert til að halda coutinho. Sagan má ekki endurtaka sig aftur og aftur með því að missa toppleikmenn, Alonso, Torres, Suaerz o fl. Nú verður að spyrna fast við fótum og halda okkar bestu leikmönnum. Ef þetta heldur svona áfram þá verð ég hissa ef Henderson, Lallana, Mane og Clyne verða ekki vinsælir næsta sumar.
    Nú er meira en fjórðungur búinn af tímabilinu og staðan er góð. Eins og kom fram í einhverjum pistli hér á síðunni þá hefur Liverpool nokkur skipti á síðustu árum náð efsta sæti deildinni en bara ekki á réttum tíma, þe í lok tímabils. Næstu leikir skipta öllu máli og helst að byggja upp dálítið forskot á önnur lið.
    Í deildarbikarnum gegn Leeds þarf að spila til sigurs án þess að taka séns með meiðsli og helst hvíla lykilmenn sem eru tæpir.

Kop.is Podcast #128

Næsta áhlaup