Það verður fróðlegt að sjá hvort okkar menn og leikmenn Man.City slá í alvöru flugeldasýningu til þess að kveðja árið 2016. Oftar en ekki hafa leikir þessara liða verið bráðskemmtilegir, með fullt af uppákomum og oftast nær slatta af mörkum. Það væri ekki leiðinlegt að kvitta upp á fótboltaárið 2016 með alvöru risaslag á Anfield. Þetta er leikur sem væri algjörlega æðislegt að vinna, en himinn og jörð myndu ekkert farast þótt hann dytti niður í jafntefli. Tap væri alltaf slæmt, eins og reyndar bara öll töp. Eins og staðan er akkúrat núna, þá erum við stigi fyrir ofan Man.City og því myndi sigur í þessum leik setja okkur í fína stöðu gagnvart þeim, eða fjórum stigum yfir þeim. Markahlutfall okkar manna er 5 mörkum betra en hjá þeim og hvert umfram mark í sigri telur tvöfalt. En auðvitað snýst þetta svo við ef menn tapa leiknum. Tapist hann, þá værum við heilum 2 stigum á eftir City og þrátt fyrir ef það gerðist, þá væri það umfram mínar væntingar, þ.e. þær sem ég hafði fyrir tímabilið.
Þetta ár 2016 hefur á margan hátt verið magnað fyrir Liverpool. Það var í rauninni hársbreidd frá því að vera hreinlega frábært ár í nánast alla staði. Tveir úrslitaleikir sem klúðruðust og ef menn hefðu púllað þá, þá hefðum við verið að tala um verulega flott ár, ár þar sem Anfield var stækkaður og settur upp á næsta þrep. Ár þar sem liðið skoraði fleiri deildarmörk en það hefur gert í 31 ár, eða 86 mörk. Fyrir 31 ári síðan skoraði liðið 87 mörk á almanaksárinu og hef ég ekki haft tíma til að grúska í því hvaða ár þar á undan fer yfir þessi 87 mörk. En sem sagt, 2 mörk gegn City, þá setur þetta lið sig á stall með frábærum liðum fyrri tíma þegar kemur að markaskorun. Kannski er þetta bara nýtt met ef við sjáum 2 eða fleiri mörk skoruð. Það mætti alveg segja það að hann Klopp vinur okkar sé að fara ansi hreint vel af stað með þetta lið okkar.
En það eru engir aukvisar á leið á Anfield og það er heldur ekkert no-name við stjórnvölinn hjá þeim. Sjálfur Pep Guardiola mætir á svæðið með skrilljóna lið Manchester City. Þeir hafa á síðustu árum eytt ótrúlegum fjárhæðum í leikmenn og slógu ekkert slöku við síðasta sumar og eyddu mest allra liða í deildinni. Tímabilið byrjaði líka þannig hjá þeim að maður hélt á köflum að þeir ætluðu bara að rúlla þessu móti upp með honum Einari. En tímabilið er langt og strangt og því hefur Pep fengið að kynnast. Mikið hefur verið rætt um þá lægð sem Man.City lenti í eftir þessa sigurhrinu í byrjun, en þrátt fyrir allt tal um slíkt, þá sitja þeir í þriðja sæti deildarinnar, en reyndar 7 stigum á eftir toppliði Chelsea. Höfum það samt hugfast að með þessari umferð sem klárast á Nýjársdag, þá er mótið akkúrat hálfnað. Sem sagt mikið búið af því, en nákvæmlega jafn mikið eftir. Furðuleg fræði þetta.
Auðvitað þurfti leikbannið hjá Kun Aguero að klárast korteri fyrir þennan leik. Ég hefði alveg verið til í að spila við þá án besta framherja deildarinnar (já, mér finnst hann betri en Costa). Þeirra besti miðjumaður er líka snúinn aftur eftir leikbann, Fernandinho hefur verið virkilega öflugur á þessu tímabili. Það vantar samt á Gundogan, Kompany og Delph. Ekki að þeir séu eitthvað óvanir því að spila á þessara þriggja, en þeir sakna engu að síður Kompany mikið. Vörn City hefur klárlega verið þeirra helsti veikleiki á tímabilinu og vonandi heldur hún áfram að leka mörkum. Ef maður horfir á þennan leik fyrirfram, þá bara hljóta að koma mörg mörk í honum. Liverpool það lið sem hefur skorað flest mörk á tímabilinu og City er það lið sem hefur skorað næst flest mörkin. Liðin hafa verið að fá á sig rúmlega mark að meðaltali í hverjum leik. Ef maður horfir til liðs City, þá sér í lagi framarlega á vellinum, þá sér maður alveg af hverju þeir eru að skora mikið. De Bruyne, Sane, Silva, Yaya Toure, Navas, Sterling, Iheanacho, Nolito og Aguero. Það verður ekkert einfalt að hemja þessa stráka, svo mikið er víst. Markvarslan hjá báðum liðum hefur jafnframt verið mikið gagnrýnd á tímabilinu og það er ekkert ólíklegt að sá markvörður sem verður í meira stuði, ráði hreinlega úrslitum í þessum leik. Djúp fræði þetta.
Hjá okkar mönnum er það helst að frétta að hvorki Coutinho, né Matip ná þessum leik. Grujic er líka fjarverandi vegna meiðsla og það vita allir stöðuna á Danny Ings. Svo er það spurningin um hvern maður eigi að tippa á að hafi náð sér í meiðsli núna rétt fyrir leik, því það virðist nánast undantekningalaust gerast að það dettur einhver leikmaður út á síðustu stundu. En við skulum krossleggja fingur og tær og vona að það gerist ekki núna. Ég geng allavega útfrá því að það bætist enginn við meiðslalistann. Ég á ekki von á því að Klopp breyti vörninni hjá sér fyrir þennan leik. Bakverðirnir velja sig orðið sjálfir og þar sem Matip er meiddur, þá er þetta orðið bara spurning um Klavan eða Lucas. Raggi hefur verið að standa sig heilt yfir fínt, þannig að ég reikna með honum á sínum stað. Á miðjunni held ég að valið standi á milli þeirra Can og Wijnaldum og ég hallast einhvern veginn frekar að þeim síðarnefnda. Í honum liggur meiri reynsla og meiri yfirvegun. Mané og Firmino verða klárlega í liðinu, en spurningin er bara hvort Klopp geri breytingu uppi á topp. Setur hann Sturridge inn í liðið eftir innkomuna á móti Stoke? Er hann í standi til að byrja leikinn? Svarið við þessum spurningum veit bara einn maður, Jurgen Klopp. Ég tippa á að hann haldi sig við Origi, en ég gæti alveg séð Daniel koma inn fyrr en vanalega, gangi hlutirnir ekki vel. Ég yrði heldur ekkert hissa á að sjá hann byrja leikinn.
Ég ætla því bara að spá óbreyttu liði frá síðasta leik:
Mignolet
Clyne – Klavan – Lovren – Milner
Lallana – Henderson – Wijnaldum
Mané – Origi – Firmino
Hörkulið að vanda og núna kemur að gamla góða dagsforminu. Það þýðir klárlega ekki að gefa færi á sér fyrsta hálftímann eins og gegn Stoke og Everton. Lið eins og Man.City getur hreinlega slátrað þér á þeim tíma og gert það verulega erfitt að koma tilbaka. Menn þurfa því að byrja leikinn af krafti. Það er líka alltaf erfitt að vera alltaf að elta og vinna upp forystu mótherjanna. Ég hreinlega veit ekki hvað skal segja um taktík og slíkt. Þetta eru tvö góð fótboltalið, sem elska að spila sóknarbolta. Bæði eru með nokkra einstaklinga sem geta unnið leiki á sínar eigin spýtur og bæði eru með þjálfara sem eru meðal þetta bestu í bransanum. Ég hef heldur enga ákveðna tilfinningu fyrir úrslitum þessa leiks, myndi algjörlega setja 1 X 2 á hann ef maður væri í getraunadæminu. Ég leyfi mér samt að vera bara bjartsýnn og ætla því að spá því að við endum þetta ár með stæl, setjum nýtt félagsmet í skoruðum mörkum og sigrum þennan leik 3-2. Saman förum við því skælbrosandi inn í árið 2017 sem tekur okkur vonandi á vit ævintýranna. Lallana mun skora eitt mark, Firmino eitt og Milner setur eitt.
Ég vil svo nota tækifærið í þessari síðustu upphitun ársins 2016 og óska öllum lesendum, hlustendum og ferðafélögum Kop.is fyrir samfylgdina á árinu. Jafnframt vil ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og vonandi verður það fullt af sigrum til handa okkar mönnum í Liverpool FC. Njótum, gleðjumst og höfum það sem allra best.
Vona að Sturridge byrji. Durgurinn heldur boltanum svo skuggalega vel og alltaf sí ógnandi. Það verður svo gott að geta sett Origi inná óþreyttan og hraðan á móti þreyttum varnarmönnum sjhittý.
Annars takk kærlega fyrir enn eitt árið með FRÁBÆRRI síðu kop.is. Megi 2017 færa okkur enn meiri fótboltahamingju en 2016.
Takk fyrir þessa upphitun. Man C ætti að vera nægjanlega gott lið til að taka alvarlega frá fyrstu mínútu. Held að Klaven krafli sig frá þessum leik þó City reyni eflaust að sækja mikið á hann. Hörkuleikur framundan.
4-2 fyrir Liverpool.
Þakka svo koppurum fyrir frábæra Liverpool umfjöllun á árinu.
Ég verð á þessum leik og skal senda ykkur myndir þegar við fögnum mörkum! Verður vonandi spennandi og skemmtilegur leikur. Takk fyrir frábæra skýrslu.
Alveg sama þótt þetta sé City, jafntefli á heimavelli er einfaldlega alltaf óásættanlegt. Liverpool FC er í sögulegum séns á að gera afar gott mót á þessu tímabili. Hættum að stefna bara á topp 4 og stefnum á titilinn. Með því að vera ekki í Evrópu þá hafa Liverpool og Chelsea smá forskot og menn eiga að nýta sér það. Vonandi næst glæstur sigur og svo rífa menn upp veskið í janúar og styrkja liðið um 1-2 leikmenn. Gerð verður alvöru atlaga að þessu en það er líka afar stutt niður í sæti 5-6
Spái 3-1
City eru varnarlega daprir, við tökum þá 3-0 þarna í febrúar á þessu ári (var á þeim leik) og við ættum að geta endurtekið þann leik.
Þetta verður rosalegur leikur. Liverpool mun skora en líka fá á sig mark(já eða mörk). Ef maður skoðar liðinn á pappír þá finnst mér Man City liðið sterkara en leikurinn er ekki spilaður á pappír heldur inná vellinum og þar er hægt að nota dugnað, vinnusemi og skipulag til að vinna gegn liðum sem eru kannski með aðeins meiri hæfileika eða….
Ég er búinn að skipta um skoðun. Dugnaður, vinnusemi og vera í skipulagi eru hæfileikar inn á vellinum og erum við því með betra lið inná vellinum. Þetta er ekki keppni í að halda á lofti eða mestu tæknina þetta er keppni í að skora fleiri mörk og svei mér þá, ég held bara að við séum betri en þeir.
Klopp vildi að við hefðum trú á þeim og þeir hafa öðlast trú hjá mér og mun ég því tippa á liverpool sigur 3-2 í stórskemmtilegum leik.
Gleðilegt ár og YNWA kæru stuðningsmenn.
Takk fyrir árið. Það væri nú ekki vera ef við myndum fá þennan leik í opinni dagskrá með Gumma okkar Ben sem lýsanda.
Sæl öll.
Í mínum huga er þetta mjög einfalt. Í vörn Liverpool vantar aðeins Matip til að þeir geti stillt upp sínu sterkasta varnarliði. Í vörn city vantar a.m.k. 2 þungaviktamenn sem byrja alla leiki ef þeir eru heilir. Sóknarlínur beggja liða eru geggjaðar og það að Coutinho vanti, núllast held ég út á því hvað það vantar marga varnarmenn hjá city. Ég verð illa svikinn ef við fáum ekki að sjá nokkur mörk á morgun í frekar hörðum leik. Mín tilfinning er sú ( núna eftir 4 bjóra) að vörn city verði í meiri vandræðum en Liverpool og leikurinn endar 3-2, Liverpool í vil. Þetta verður hörku leikur og ég held að city komist yfir 0-1. Liverpool kemst svo í 2-1 og eftir að city jafnar á ca. 68. min. kemur 3. mark okkar einhvertíman á síðustu 10 mínútum leiksins þar sem þýska KRUPP stálið kremur spænsku paellu-na.
Að lokum ein pæling: Á að halda uppi hraðaógn á vængnum, þegar Mané fer á CAN 2017, með að stilla upp Moreno á vængnum?
Sæl öll.
Gleymdi í rauninni að segja það sem ég vildi segja. Ef Liverpool vinnur ekki city á Anfield, í þeim vandæðum sem city er í nú um mundir varnarlega, endar Liverpool ekki í topp 3.
NÚ ER LAG AÐ STIMPLA SIG RÆKILEGA Í TOPPBARÁTTUNA!!!!!
Sælir félagar
Takk fyrir góða upphitun SSteinn og góðar kveðjur. Einhvernveginn held ég að við vinnum þennan leik nokkuð örugglega. Þó Kun Aguero sé aftur mættur til leiks verður hann nokkuð ryðgaður eftir þriggja (fjögurra?) leikja hlé og mun ekki ráða úrslitum. Sterling mun vilja sýna sínum fyrrum félögum hvað hann er góður og fer í mikinn stöðugum einleik og tapar boltanum ítrekað. Vörn M. City verður í ruglinu og allt fer úrskeiðis hjá þeim.
Þar með erum við með vinningslíkur okkur í hag. Heimavöllurinn mun verða okkar 12. maður á vellinum og Klopp okkar 13. maður á hliðarlínunni. Með slíka yfirtölu getum við ekki annað en unnið nokkuð öruggt. Origi mun byrja og hlaupa vernarmenn City dauðþreytta og Sturridge kemur svo og lokar leiknum. Spái því 4 – 1 í feikna skemmtilegum og fjörugum leik. Að lokum vil ég óska öllum kop-urum og stuðningsmönnum gleðilegs nýárs og þakka fyrir það gamla.
Það er nú þannig
YNWA
Sonur minn 8 ára segir:
2-1
Mörk
Silva
Mane (20. Min) og Sturridge (80. Min)
Góðan daginn. Ég reikna með hörkuleik og spái 3-3. Gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir frábæra umfjöllun á árinu.
Ég segi 4-2 en norski félaginn minn 7-3.
Sæl og blessuð elskuleg öll sömul.
Allt er þetta í járnum, vonandi ekki helblá heldur glóandi rauð. Er skíthræddur við þennan leik og vildi óska þess að við værum með verju í markinu sem gæti ráðið úrslitum með ómannlegri vörslu, einhvern Neuer, De Gea, Courtouis eða sambærilegan. Ættum að ráða við miðju- og sóknarspilið og ég hef ekki alslæma tilfinningu fyrir vörninni, síður en svo. Þeir eru svo sem með sömu vandræði.
Hallast að því að þetta verði jafntefli og þeir á Stafnfurðubrú fýri upp nokkrum nepalskeytum en við sötrum freyðivínið hnípin að vanda.
Morgundagurinn kemur aldrei. Þabbaraþannig.
Flestir eru á því að mörg mörk verði skoruð í dag, ég er sammála og spái sjö mörkum – hvort leikurinn fer 3-4, 4-3 eða 6-1 verður að koma í ljós.
Ég hallast þó að því síðast nefnda.
vinur minn frá Uganda segir 1-1, en ég er drulluhræddur við þennan leik, mest af því að vörnin hjá okkur er léleg. Spái þessu 1-2.
Haha!
Löglegt mark dæmt af ManUre.
Ég sem hélt að fátt gæti gert 2016 að betra ári!
Sælir félagar og gleðilega hátíð. Nú er pressan á Liverpool að verða eins og í gamla daga. Þessi leikur við City gæti orðið markaleikur. Spennandi verður hann og er ég að fara úr límingunum og kominn í Liverpool-treyju. Áfram Liverpool!!!!!!!!!!!!!
Koma svo Stoke. Reyta Costa til reiði og rétta Hazard einn bjór. Taka þá á taugum!
Vá hvað Boro eru slakir varnarlega, þeir eru í ultra defence en Utd komast samt í gegnum vörnina hjá þeim leikandi.