Ungliðarnir okkar (uppfært)

**(EÖE): Svo virðist sem ekki hafi verið hægt að kommenta á greinina hans Steina, en ég set hana aftur inn. SSteinn skrifaði semsagt þessa grein í gær.**

Rafa talaði í dag um ungliðana sína á opinberu heimasíðu liðsins. Hann hvetur þá til stærri verka og vonast eftir meira frá þeim á tímabilinu. Hann tekur það þó skýrt fram að hann sé ekki að gagnrýna þá, að hann hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum, en það sé klárlega mikið meira sem koma skal frá þeim. Gott og vel og er ég hjartanlega sammála honum þar. Hann nefnir þrjá þeirra á nafn; Lucas, Leto og Babel. Ég gæti alveg hent inn nafni eins og Hobbs og Insúa líka, þó svo að það sé vitað að þeir muni fá færri tækifæri en hinir. Allt eru þetta afar hæfileikaríkir strákar og eiga framtíðina fyrir sér.

Það er akkúrat það sem ég hef verið að spá í. Oft hefur maður spurt sig að því af hverju þessir strákar séu bara ekki settir í liðið og látnir standa sig. Hvað vill maður í rauninni? Viljum við árangur NÚNA eða viljum við byggja upp fyrir næstu árin? Við þessu er ekkert eitt rétt svar og því er ég á því að Rafa sé að gera nokkurn veginn rétt í dag. Hann er að leyfa þeim að spila leik og leik (sumir fá fleiri en aðrir) og þar með að byggja upp reynslu hjá þeim. Arsene Wenger fór aðra leið og hafði efni á því að fórna tímabilum í uppbyggingu, þar sem hann átti mikið inni hjá stjórn félagsins og ekki síður hjá stuðningsmönnum. Það er bara ekki þannig hjá Rafa, og það þrátt fyrir að hafa fært okkur margar gleðistundir og frábæra titla. Enski Meistarabikarinn er það sem allir vilja og það er grunnt á þolinmæði stuðningsmanna þegar kemur að því að vinna hann. Rafa er undir mikilli pressu þrátt fyrir að hafa tekið þriðja sætið 2 ár í röð á meðan Arsenal hefur strögglað á sinn mælikvarða (miðað við árin þar á undan). Menn vilja berjast um bikarinn allt til enda og vera virkilegir “challengers”.

En hvað vilja menn? Það leynist engum að þessir strákar eru bráðefnilegir og bara talsvert reyndir miðað við aldur. Vilja menn fórna hugsanlegri endurkomu Kewell fyrir Leto? Vilja menn að Lucas fái leiki á kostnað Alonso eða Gerrard? Hobbs fyrir Hyypia (í fjarveru Agger)? Insúa fyrir Riise? Á Babel að byrja inná á kostnað hægri kantmanns eða framherja? Ég veit reyndar að margir myndu játa síðustu spurningunni, en hver yrði þolinmæðin? Þetta krefst nefninlega mikillar þolinmæði. Auðvitað er þetta mikil einföldun á þessu, en engu að síður þá er þetta að mörgu leiti staðan. Væru menn tilbúnir að taka sénsinn og setja þessa stráka inn sem lykilmenn, þrátt fyrir að tímabilið yrði þá væntanlega vonbrigði? Auðvitað gæti það samt orðið vonbrigði, eða hreinlega að þetta myndi bara ganga strax upp, það er akkúrat það sem ég er að meina með sénsinum.

Eins og áður sagði, þá er ég á því að Rafa sé að gera þetta nokkurn veginn rétt. Hann er ekkert að setja of mikla pressu á þessa stráka, þeir fá færi á að sýna sig og sanna í leikjum, en hann er samt spar á þá. Svo bíða afar margir enn yngri og mjög efnilegir menn í unglingaliðum og leikmenn sem eru á láni hingað og þangað. Ég er allavega ekki í nokkrum vafa með það að framtíðin hjá okkur er afar björt, þetta snýst fyrst og fremst um það hversu lengi þarf að bíða og hvort við höfum þolinmæði í það.

6 Comments

  1. Fín pæling þarna á ferð.
    Ég hef verið duglegur að skoða upptökur varaliðinu í leikjum vetrarins sem koma inn á heimasíðuna.
    Þar ber Leto af, sýnir ótrúlega frammistöðu leik eftir leik, Hobbs virðist frábær og Insúa afar traustur. Þessir þrír eru farnir að banka fast á dyrnar, en vissulega er það alltaf spurning hvað gerist í aðalliðinu.
    Leto hefur þar virkað utangátta og Insúa átti erfitt í vor varnarlega. Hobbs kom reyndar ágætlega út gegn Cardiff og ég vona að hann verði látinn spila gegn Chelsea.
    Ég persónulega held að það verði að spila úr þessu á þann hátt sem Rafa er að gera. Hann hefur ekki það óskoraða traust sem Wenger hefur, hann einn hefur þolinmæði yfirboðara sinna til að tapa leikjum og keppnum með ungum mönnum. Þess vegna munum við sjá Leto, Lucas og Babel annað slagið í vetur, en ekki Insúa eða Hobbs nema í leikjum sem skipta minna máli.
    En ég er sannfærður um að þessir 5 leikmenn verða í aðalliðinu á næstu árum.

  2. Virkilega góð pæling þarna á ferð.
    Kemur þarna með ágætan punkt inn í dæmið viljum við að þessar ungu “stjörnur” verði betri núna, eða bestir eftir nokkur ár. Held að Rafa sé að gera rétt í stöðunni eins og þú komst inná þ.e.a.s. leyfa þeim að spila einn og einn leik í minni keppnum eða í lok tímabils ef síðustu 2-3 leikirnir skipta kannski engu máli (vonandi afþví þá verðum við búnir að tryggja okkur titillinn :D), sé mikið efni í þeim öllum en af þessum 5 sýnist mér Babel vera sá eini sem á svona raunhæfan möguleika að spila mest og Lucas þar á eftir en hinir verða bara að sýna þolinmæði og nýta sín færi.

  3. Það sem Arsenal og Scums hafa umfram okkur varðandi unglingana er sú einfalda staðreynd, að þjálfarinn hefur verið opnari fyrir því að hleypa þeim inn í einn og einn A-leik á meðan þeir síðan spila alla bikarleikina.

    Rafa hefur verið að fjárfesta í heilum bílförmunum af efniviði sem síðan hefur sturtað sem hverju öðru hlassi í vara- og unglingalið félagsins og þar hafa þeir endað. Mér finnst stærsta sökin í þessu máli vera þjálfarinn hverju sinni því hann hefur pressuna á bakinu með allar ákvarðanir sem hann gerir.

    Þetta með að leyfa ungum leikmönnum að spila einn og einn leik var mikið gert þegar Souness var með liðið. Hver man ekki eftir þegar Gerrard, Owen, Fowler, McNamminamm ofl. fengu að spila einn og einn leik með Liverpool. Nú man ég ekkert hvort þessir allir urðu frægir undir stjórn Souness en í gegnum tíðina hefur liðið haft þann sið að henda inn efnilegum leikmönnum til að þjálfa þá til frekari afreka síðar meir.

    Við vitum það allir/öll að það er mun auðveldara fyrir efnilegan unglingspilt að koma inn í lið sem gengur vel en hjá liði sem gengur illa. Arsenal hefur verið að standa sig vel undanfarin árin undir Wenger og hann hefur hent inn ungu strákunum á meðan þetta tímabil gekk yfir (og varir enn vil ég meina) og þeir eru að koma til baka núna sem sterkari einstaklingar eins og sést hefur í töflunni. Hann hefur meira að segja geta leyft sér að selja stórstjörnur á borð við Vieira og Henry vegna stefnu hans í unglingamálunum.

    Ef Benitez þarf aðstoð við uppbygginguna er betra að vera ekki að tjá sig í fjölmiðlum heldur hringja í Wenger og spyrja hann nánar. Hann veit númerið. Ég hef ekkert nema gott um Wenger að segja þrátt fyrir að vera LFC fan.

  4. Owen fékk sitt tækifæri undir stjórn Evans og Gerrard fékk sitt tækifæri hjá Houllier.Fowler hjá Souness

  5. Ég held að ef fjöldi varamanna yrði breytt í 7 þá yrði auðveldara fyrir stjórana að hafa efnilega leikmenn á bekknum. Benítez hefur nefnt þetta sjálfur líka, þá gæti t.d. Lucas verið á bekknum reglulega og komið inn og fengið að spreyta sig. Og Leto líka, hann gæti fengið oftar að vera á bekknum. Með því að koma inn á í 15-20 mín reglulega þá myndu þeir fá dýrmæta reynslu og tækifæri til að sanna sig á meðal þeirra bestu.

  6. “Oft hefur maður spurt sig að því af hverju þessir strákar séu bara ekki settir í liðið og látnir standa sig.”
    Var það ekki Fabregas sem sagði að um leið og Henry fór að þá var enginn “regnhlíf” sem hélt yfir þeim verndarvæng. Þeir þurftu einfaldlega að stíga upp og gera hlutina sjálfir. Wenger hefur kannski vísvitandi losað sig við þeirra “kóng” til að “prinsarnir” gætu stigið upp. Það er spurning hvort að Rafa sé með eitthvert slíkt framtíðarplan í gangi. Það hefur sennilega ekki verið neitt grín fyrir Lucas að koma inná fyrir Gerrard á móti Everton!!!

Crouch og Sissoko á leið burt í janúar?

Búningurinn