Roberto Firmino finnst mér afar fróðlegt fyrirbæri og hef ég tjáð mig aðeins um hann og hans leikstíl hér áður og sá mig knúinn í að tala aðeins meira um hann aftur og nú sérstaklega þegar hann er óumdeilanlegur fyrsti valkostur í “níuna” í liðinu.
Firmino hefur heillað marga en líklega fáa eins mikið og Jurgen Klopp sem reynir að velja hann í eins marga leiki og hann mögulega getur og er hann oftar en ekki eitt fyrsta nafnið sem hann ritar á leikskýrsluna. Klopp hreifst af honum þegar hann mætti honum í þýsku deildinni og var mjög spenntur að vinna með honum hjá Liverpool. Það er nær alveg óhætt að fullyrða að hann sé einn af þessum “fullkomnu” leikmönnum fyrir Klopp. Dugnaðurinn, varnarvinnan, útsjónarsemin, fjölhæfnin og frábærir eiginleikar í sókninni gera hann að virkilega mikilvægum bita í púsl Jurgen Klopp.
Mig langar að skoða stöðu hans sem “nía” hjá Liverpool aðeins út frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar þess hve fullkominn leikstíll hans er fyrir þessa stöðu og svo langar mig að skoða hvort hann sé nægilega “góður” til að taka Liverpool næsta skref í þessu hlutverki.
Mikilvægi hlekkurinn
Liverpool liðið leikur betri fótbolta þegar Roberto Firmino er þeirra fremsti maður. Ég ætla bara að segja að það sé staðreynd en ekki smekksatriði. Bláköld staðreynd. Nær allir góðir leikir Liverpool á þessari leiktíð hafa komið með hann sem aðalstriker. Hann er númer eitt, numero uno og með leikstíl sínum nær hann að tengja allt mjög vel.
Hann er go-to leikmaður Klopp og endurspeglar allt sem hann vill sjá frá framherja síns liðs. Hann er að pressa fáranlega vel nær hverja einustu mínútu í hverjum einasta leik, hann les plássið á vellinum mjög vel og hann hefur fáranlega góða fyrstu snertingu og boltarækni. Hann tímasetur sig nokkuð vel oft á tíðum og getur skorað úr ólíkum stöðum og aðstæðum. Hann lætur liðið tikka.
Það var í einhverju myndbands viðtali við Jurgen Klopp, líklega þegar hann var gestur í Monday Night Football ef ég man rétt, þegar hann lýsti hlutverki Firmino í sókninni nokkuð fróðlega. Hann sagði að hlutverk hans frammi væri 50% sóknarhlutverk og 50% varnarhlutverk, sem útskýrir hvers vegna hann er svona rosalega hrifinn af honum.
Frábær leikmaður og þegar hann hefur leikmenn eins og Sadio Mane, Philippe Coutinho, Adam Lallana og fleiri í kringum sig þá smellur liðið virkilega vel saman og nýtast sköpunareiginleikar hans virkilega vel. Sem stendur er hann kominn með átta mörk og þrjár stoðsendingar í deildinni og aðeins Adam Lallana (sjö og sjö) og Sadio Mane (ellefu og fjórar) hafa átt beinan þátt í fleiri mörkum en hann á tímabilinu.
Hæfileikar og mikilvægi Firmino fyrir liðið verður ekki dregið í efa og er hann svo sannarlega lykilmaður í þessu liði.
En…
Getur Liverpool unnið deildina með Firmino sem “níu”?
Þarna vandast svolítið málið fyrir mér. Liðin sem hafa unnið titla og eru að berjast um titilinn í ár eru öll að gera með töluvert öðruvísi sóknarlínu en Liverpool hvað þetta varðar. Þá fer maður að spá; Ef þú ert að gera eitthvað öðruvísi þá ertu annað hvort á undan öllum hinum eða þá að þú ert á eftir – hvort ætli Liverpool sé að gera?
Það er ekkert eins og markaskorun sé eitthvað áberandi vandamál hjá Liverpool í ár og er liðið sem stendur jafnt Arsenal með flest mörk skoruð í deildinni eða 54 talsins. Mane er markahæstur með ellefu mörk en honum fylgja nokkrir fast eftir til að mynda Firmino (8), Lallana (7), Milner (6) og Coutinho (5). Það eru líklega ekki mörg lið sem hafa eins dreifða og jafna markaskorun og Liverpool eins og er, liðið á að gera mörkin en ekki ákveðnir einstaklingar sem spila oftar en ekki í treyju númer 9 – er það leið Liverpool að titlinum?
Sé Firmino borinn saman við helstu framherja mótherjana þá sker hann sig töluvert úr þegar við skoðum hve mörg mörk þeir eru að skora.
Alexis Sanchez – 17 mörk
Zlatan Ibrahimovic – 15 mörk
Romelu Lukaku – 16 mörk
Sergio Aguero – 11 mörk
Diego Costa – 15 mörk
Harry Kane – 14 mörk
Roberto Firmino – 8 mörk
Fernando Llorente – 8 mörk
Cristian Benteke – 9 mörk
Jermaine Defoe – 14 mörk
Oliver Giroud – 8 mörk
Hann er næstur Aguero þarna en hann hefur spilað töluvert færri leiki og mínútur en Firmino. Nokkrir eru með næstum því helmingi fleiri mörk. Les maður kannski fullmikið í þessar tölur, gætu þær kannski verið að ljúga smá?
Öll átta mörk Firmino hafa komið úr “opnum leik”, ekkert úr vítaspyrnum. Ef við tökum mörk úr vítaspyrnum frá þá lítur þetta nokkuð öðruvísi út.
Alexis Sanchez – 15 mörk
Zlatan Ibrahimovic – 14 mörk
Romelu Lukaku – 16 mörk
Sergio Aguero – 8 mörk
Diego Costa – 15 mörk
Harry Kane – 10 mörk
Roberto Firmino – 8 mörk
Fernando Llorente – 8 mörk
Cristian Benteke – 7 mörk
Jermaine Defoe – 9 mörk
Oliver Giroud – 8 mörk
Þá er hann skyndilega kominn nær til dæmis Harry Kane og Sergio Aguero en þá horfir maður til leikmanna eins og Diego Costa, Sanchez, Zlatan og Lukaku sem eru komnir með 14+ mörk úr opnum leik í deildinni á þessum tímapunkti og spyr sig hvort þetta sé eitthvað sem vantar upp á hjá Liverpool.
Getum sett Mane inn í þetta með sín ellefu mörk og þetta lítur mjög vel út en hann spilar mest megnis á kantinum og finnst mér frekar fjarri þessum samanburði – til dæmis mætti þá benda á Alli, Hazard ofl sem eru komnir með tíu mörk úr öðru hlutverki.
Við getum gefið okkur það að Costa, Sanchez, Zlatan og Lukaku munu líklega allir ná í ca. 20 deildarmörk úr opnum leik í vetur, það eru þrettán leikir eftir og ekki ólíklegt að þeir nái því. Þak Firmino virðist hins vegar vera einhvers staðar í kringum þá 15 mörkin – sem í sjálfu sér er bara mjög fínt ef út í það er farið, sérstaklega ef fleiri leikmenn eru líklegir til að ná því í sama liði.
En er hægt að vinna deildina með aðal framherja sem skorar undir tuttugu mörk?
Svarið er já.
Chelsea vann deildina 2009-2010, 2005-2006, 2004-2005. Það var aðeins leiktíðina 2009-2010 sem Didier Drogba skoraði yfir 20 mörk og þeir unnu deildina þá skoraði hann 29 mörk en hin tvö árin skoraði hann aðeins tíu og tólf mörk.
Þegar Man Utd vann 2006-2007 voru þeirra markahæstu menn, Ronaldo og Rooney, með sautján og fjórtán mörk. Þeir unnu aftur 2008-2009 og þá voru þeir sömu með átján og tólf mörk.
City unnu deildina 2013-2014, fjandinn hafi það, og þá var Yaya Toure með tuttugu mörk af miðjunni það árið en þeir Sergio Aguero og Edin Dzeko voru með sautján og sextán mörk sama ár. Það eru frekar mörg mörk á milli þriggja leikmanna!
Þannig að já, þarna eru all nokkur dæmi um það að lið geta unnið deildina án þess að hafa einhvern eiginlegan striker sem skorar vel yfir tuttugu mörk til að vinna deildir og virðist þetta oftar en ekki ráðast oft á því að hafa tvo eða fleiri áreiðanlega markaskorara. Ronaldo og Rooney, Drogba og Lampard, Agero og Toure/Dzeko, Costa og Hazard, Vardy og Mahrez (Suarez og Sturridge, Gerrard og Torres þau ár sem Liverpool hefur komist nálægt). Það virðist vera árangursríkt þegar lið eru að ná að á bilinu 30-40 marka á milli sinna tveggja helstu sóknarmanna. Miðað við það sem við sjáum frá Liverpool hingað til þá gæti maður alveg séð 15 marka Firmino og 18 marka Mane geta fleytt liðinu langt hvað það varðar, tala nú ekki um þegar það eru 2-3 aðrir sem gæla við tíu marka múrinn.
Mitt helsta vandamál við Firmino er að hann er þó kannski ekki að skora nógu reglulega og oft kannski ekki nógu “mikilvæg” mörk. Fimm marka hans hafa komið í leikjum þar sem liðið hefur skorað fjögur mörk eða fleiri, tvö komu í 3-2 tapi og eitt kom í 2-1 sigri. Maður setur því kannski smá spurningarmerki við það hvort hann geti skorað þessi mikilvægu mörk sem framherji þyrfti að skora til að ná árangri eða hvort hann sé bara góður leikmaður sem fyllir út tölfræðina sína í unnum leikjum – svona eins og margir vildu gjarnan meina að Suarez gerði einhverra hluta vegna.
Mín hugmynd
Ég er ekki á þeim buxunum að Liverpool ætti að fara all in í sumar og leita af einhverjum til að taka stöðuna af Firmino þannig séð – þó ég sé alveg 100% á því að ef Klopp byðist að kaupa þekktan og mjög góðan markaskorara eins og (ath. ekki að segja að þeir kæmu bara nefna dæmi) til dæmis Higuain, Lewandowski, Costa, Aubameyang, Lukaku og þar fram eftir götunum þá myndi hann hiklaust stökkva á það og vinna svo út frá því.
Ég er mjög ánægður með Firmino sem fremsta mann því hann lætur liðið spila vel og hentar frábærlega í ákveðnar aðstæður í ákveðnum leikjum. Hann er ekkert einhver veikur blettur en maður setur stundum smá spurningamerki við hann sem “striker” og eru alveg þó nokkur dæmi úr leikjum í vetur þar sem maður óskaði sér að við hefðum haft mann með aðeins meira markanef en hann í þeim stöðum.
Ég sé vandamálið frekar liggja hjá þeim sem á eftir honum koma heldur en frá akkúrat honum. Divock Origi verið svona upp og niður í vetur og er enn svakalega hrár en kominn með einhver átta mörk í öllum keppnum og er mjög efnilegur framherji en líklega ekki tilbúinn í að vera næsti maður inn og Daniel Sturridge, sá sem á að vera á undan hönum í röðinni, hefur ekki verið skugginn af sjálfum sér í vetur og ætti með öllu réttu að vera okkar helsti framherji. Hann er aðeins með tvö deildarmörk – og það fyrsta sem hann skoraði var 42. deildarmark Liverpool á leiktíðinni og kom í 4-1 sigri. Það segir kannski ýmislegt um hvað hefur verið ábótavant hjá honum.
Þarna liggur hundurinn grafinn finnst mér. Liverpool þarf hreinlega að fá fleiri mörk út úr varaframherjunum sínum og ef við förum inn í næstu leiktíð með Firmino sem okkar aðalframherja og góðan mann fyrir aftan hann í röðinni – eða til að spila með honum eða fram fyrir hann í ákveðnum leikjum, þá tæki ég því opnum örmum.
Svo til að súmmera þetta aðeins upp þá já, Liverpool getur unnið titilinn með Firmino sem fremsta mann þó hann skori ekki tuttugu mörk en það þarf þá margt að velta á að aðrir leikmenn liðsins leggi þá sitt af mörkum líka og rúmlega það.
Hefur Firmino samt ekki verið að spila talsvert á kantinum í fjarveru Coutinho? Ekki skoraði hann mörg mörk í þeirri stöðu. Þar af leiðandi smá villandi samanburður. Sé engan af þeim framherjum sem þú skoðaðir hafa þurft að gera það, nema hugsanlega Sanchez. Hef ekki nennt að horfa á það marga leiki með Arsenal.
Það gæti því líka verið ákveðin lausn að bæta úrvalið af leikmönnum sem gætu tekið stöðu Coutinhio og Mane og leyst hana, frekar en að fórna Firmino í þá stöðu, ásamt því að fá fleiri mörk út úr varaframherjanum.
Sælir félagar
Takk fyrir þetta Haukur Óli. Það er gaman að svona pælingum ekki síst þegar liðið er í afslöppun á sólarströnd og ekkert að frétta nema hjólatúramyndir og svona. Ef Chelsea væri ekki í svona fáránlega góðri stöðu þá væru þetta pælingar um hvort það væri raunhæfur möguleiki að vinna deildina með Firmino sem stræker. En eins og staðan er núna þá eru þetta auðvitað fyrst og fremst vangaveltur og allt í lagi með það. Ég er samt á því að Klopp þurfi að finna alvöru stræker, 20+ marka mann fyrir næstu leiktíð.
Það er nú þannig
YNWA
Takk fyrir þetta fína yfirlit. Ég átta mig alls ekki á því ef einhver telur firmino veikan hlekk framávið. Hann skorar að vísu aðeins of lítið fyrir minn smekk en auðvitað er hluti þeirrar ástæðu að hann spilar út úr stöðu. Að mínu mati er hann góður hlekkur í duglegu Liverpool liði en alls ekki sá mikilvægasti. Þar fyrir ofan myndi ég alltaf hafa Couthino og Henderson. Réttilega hefur verið bent á að markaskorun hefur ekki verið heilt yfir vandamál í vetur heldur er það að geta ekki staðið almennilega í lappirnar varnarlega leik eftir leik. Ef kaupa einn leikmann þá myndi ég segja miðvörð, ef kaupa á þrjá leikmenn þá myndi ég segja miðvörð, bakvörð og djúpan miðjumann. Í bili vantar okkur ekki sókndjarfa lipra stráka sem leggja upp og skora mörk, firmino, mane, lallana, couthino geta allir skorað 10+ mörk ásamt því að leggja slatta upp.
…viðbót. Gaman að sjá þig ÓH benda á ekki sé mikilvægast til að vinna deildina að hafa 20+ sóknarmann. Sammála þessu enda held ég að 10+ miðjumaður með 5 til 10 stoðsendingar sé mikilvægari en 20+ sóknarmaður.
Eins og með allt í þessu boltan þá snýst þetta um liðsamvinu og lið verða meistarar en ekki bara einstaklingar.
Framlag einstaklinga til liðsins skiptir máli en ef spurninginn er getur Liverpool unnið deildina með Firminho sem 9? þá er svarið Já.
Ef markvörðurinn bjargar nokkrum stigum
Ef vörninn verður traust
Ef aðrir leikmenn setja inn nokkur mörk.
o.sfrv
Við gætum orðið meistara með Firminho í níuni þótt að hann myndi ekki skora nema 5-10 mörk allt tímabilið á meðan að hans framlag skapar í vörn og sókn verður til þess að loka á sóknarleik andstæðingana og opna þeira varnarleik.
Liverpool undir stjórn Klopp spilað þannig að menn eru að skipta um stöður og það er mikil hreyfanleiki framávið.
Liðið er ekki sett þannig upp að það sé einn alvöru striker fremstur sem við viljum að skori 20+ mörk og svo hinir í kringum með 5-10 mörk.
Við erum frekar með 5-6 leikmen Coutinho, Firminho, Origi, Sturridge, Lallana, Mane(svo Ings) sem dreyfa mörkum á milli sín.
Það getur nefnilega allt gerst í þessum bolta og það þarf ekkert að pæla í ákveðnum framlagi bara eins leikmanns heldur framlagi heildarinar.
p.s þetta er samt stórskemmtileg umræða og vildi ég bara segja mína skoðun sem er ekki sú eina rétta 🙂
Frábær grein og Liverpool getur pottþétt unnið deildina með Firmino sem níu. Ef hann er með rétta leikmenn með sér, bæði á köntunum og á miðjunni. Firmino er alveg örugglega nógu góður í það.
Sóknarvandamál liðsins hafa snúist um að aðeins fjórir leikmenn hafa getað spilað alvöru sóknarleik með einhverjum stöðugleika. Það eru Coutinho, Firmino, Mané og Lallana. Ef einhvern þeirra hefur vantað þá hefur sóknarleikurinn hikstað verulega. Þess vegna er það rétt að til að búa til meistaralið þá þarf örugglega 2-3 leikmenn af þessu kalíberi til viðbótar, bæði til að veita þessum leikmönnum samkeppni og til að geta dílað við meiðsli og aðrar fjarverur þessara leikmanna. Og ef Meistara- eða Evrópudeild bætist við þarf örugglega að bæta því í þennan hóp. Mín skoðun er sú að Origi og Sturridge passa ekki í leikskipulagið og liðið er mun síðra með þá inni á vellinum, sama hversu miklir talentar þeir eru í öðrum kerfum. Ég hef meiri trú á því að Origi geti náð sér upp á þetta kalíber en Sturridge.
Niðurstöðurnar eru því hárréttar. Ef Firmino skorar 15 mörk (líklegra að hann verði með ca. 12-13 á þessu tímabili), hinir tveir sóknarmennirnir svipað og svo miðjumennirnir þrír samtals 25 mörk þá getur þetta alveg gengið upp.
Talandi um 20+ skorara. Ef enginn fer í 20 mörk í vetur í öllum keppnum þá verður það þriðja árið í röð sem það gerist. Liverpool, sem hefur í sögunni verið m.a. þekkt fyrir sína markaskorara, á þessu varla að venjast enda sýnist mér að slíkt (að ná ekki 20 mörkum þrjú tímabil í röð) hafi ekki gerst í yfir 60 ár. Svo nú verður að setja í gírinn.
Frábær pistill og pælingar Óli.
Firmino er það næsta sem við höfum átt í líkingu við Suarez síðan hann fór og er klárlega nógu góður til að leiða sóknarleik eins og Liverpool leggur upp með. Hann er enganvegin stóra vandamál Liverpool á þessu tímabili og sést það best á því að Liverpool hefur skorað flest mörk það sem af er tímabili og spilað langbest þegar Firmino er frammi. Aukaatrði oft hvort hann skori sjálfur eða ekki.
Aðalvandamál Liverpool er eins og aðrir hafa komið inná þegar einhver af byrjunarliðinu getur ekki spilað. Þeir sem við eigum til vara eru annað hvort ekki nógu góðir eða Klopp treystir þeim ekki nógu vel. Erfitt að halda því fram að t.d. Sturridge sé ekki nógu góður en hann passar alls ekki í leikkerfið. Firmino er mikið vinnusamari og skapar tíma og pláss fyrir aðra sem t.d. Origi og Sturridge gera ekki eins vel.
Liverpool þarf helst að kaupa annan Firmino til að takast á við það þegar hann er ekki með eða spilað úr stöðu. Eða bara til að spila með honum frammi.
Varðandi markaskorun þá er hægt að gefa sér að hann væri með um 14 mörk núna tæki hann vítin eins og sumir sóknarmannanna eru að gera. Eins er hann alveg líklegur til að þróast í 20+ marka mann nú þegar hann er að detta inn á hátind ferilsins. Hann skoraði btw 16 mörk í deild með Hoffenheim og lagði upp 11 mörk eitt tímabilið.
Skil ekki hvert greinarhöfundur er að fara. Sveiflast úr og í en tekur enga afstöðu, sennilega skilur hann ekki heldur hvað hann er að fara. Auðvitað líta allir betur út með góða menn með sér. Höfum spilað ótal marga leiki þar sem ekkert hefur komið út úr “níunni” eða öðrum. Skelfilegur að taka við loka sendingu, það hefur sýnt sig að þannig “nía” er ekki til stórræða í okkar bolta í dag.
Mörkin hans á móti Gylfa og co voru ekta 9 mörk. Finnst hann ströggla á mót liðum sem pakka i vörn í þessu hlutverki. Vill Sturridge sem 9 í þeim leikjum með Mane, Kútinn, Wij, Henderson og Lallana.
Ég er ekki beint að taka afstöðu til einhvers í þessari grein heldur meira að velta þessari “óhefðbundnu” stöðu sem Liverpool er í fyrir mér og reyna að skoða hana út frá fleiri en einu sjónarhorni.
Veit ekki hvort þetta sé eitthvað óskýrt enda oft erfitt að sjá eigin mistök 🙂
Í stuttu máli er það þannig að Firmino er frábær leikmaður eins og ég segi, líklega einn af mikilvægustu hlekkjunum í þessu liði en hann er rosalega ólíkur því sem við höfum vanist því að sjá í góðum liðum Liverpool. Það er enginn “stjörnu striker” og þetta er líklega það næsta sem við höfum komist hjá því að byggja liðið í kringum “falska níu”.
Firmino er óhefðbundinn sóknarmaður og oft erfitt að reyna að skilja út á hvað hann gengur í raun og veru. Ég reyni að skoða hann með smá samanburði á öðrum “hefðbundnum” framherjum sem eru í deildinni. Niðurstaða mín úr því var að lið geta náð góðum árangri án þess að vera háð einhverjum “ofur framherjum” og er það góðs viti fyrir Liverpool ef á að byggja í kringum Firmino til langs tíma.
Það eru mörk í honum og hann kemur sér mjög oft í góðar stöður en kannski klúðrar aðeins of oft á ögurstundu. Líkt og Babu bendir á þá skoraði hann 16 mörk og lagði upp 11 hjá Hoffenheim, það er frábært og markaskorun hans á ferlinum er mjög flott:
11-12: 7 mörk, 4 stoðsendingar
12-13: 5 mörk, 3 stoðsendingar
13-14: 16 mörk, 12 stoðsendingar
14-15: 7 mörk, 10 stoðsendingar
15-16: 10 mörk, 8 stoðsendingar
16-17: 8 mörk, 4 stoðsendingar
Allt þetta gerir hann í ca 30 leikjum á tímabili (síðasta tímabil skoraði hann til að mynda ekki fyrr en í nóvember eða eitthvað svo öll mörkin koma eftir þann tíma). Þegar maður horfir á þetta þá eru þetta frábærar “sóknartengiliðs” tölur. Hann er svolítið eins og tía sem hreyfir sig og spilar eins og nía, ef þannig mætti að orði komast.
Óhefðbundið en hugsanlega árangursríkt þegar það eru líka mörk í kringum hann. Ef hann er hins vegar sá sem á að draga vagninn einn og sér í markaskorun eins og maður gæti kannski krafist af t.d. Torres, Suarez, Lewandowski osfrv þá er staðan kannski ekki sérlega björt.
Skoðaði aðeins betur hvað hann er að skora í mörgum leikjum miðað við nokkra aðra framherja og er hann að skora í töluvert færri leikjum en margir aðrir. Segir kannski ekkert mikið en samt áhugavert að sjá þetta:
Firmino – 6
Kane – 8
Sanchez – 11
Lukaku – 11
Costa – 14
Zlatan – 13
Mane – 9
Liðið gengur fyrir og lið vinna titla auðvitað en finnst áhugavert að skoða þetta og velta fyrir mér hve hátt þak Liverpool gæti haft á næstu árum ef það er hægt að gera allt þetta góða sem við höfum verið að gera og einhvern veginn tekist að búa til eða bæta við “ofurframherja” í þetta lið.
Við erum með lið þar sem án djóks þar sem kannski 3-5 leikmenn gætu í fúlustu alvöru skorað í kringum tíu deildarmörk. Mane er kominn yfir það, Firmino er í átta, Lallana er í sjö, Coutinho í fimm og Milner í sex mörkum – það eru þrettán leikir eftir og í fúlustu alvöru, eins og þetta spilaðist framan af leiktíð þá er í raun ekkert sem útilokar það fyrir manni að allir þeirra gætu í raun farið í tíu deildarmörkin. Það er frábært og bætum við 20 marka framherja í viðbót á næstu leiktíð og allir skilja sáttir, ekki satt? 🙂
Fínasta pæling.
Million dollara spurningin okkar er samt þessi ,getur Liverpool unnið deildina með FSG sem eigendur?? Hafa eigendur okkar það bolmagn og þann vilja sem þarf til þess að koma liðinu á “réttan stað” (toppinn, nei 4 sætið er ekki nóg) í Premier League?
Sú spurning er mikilvægust. So far er svarið við henni nei. Þeirra hugmyndarfræði er ekki að duga til þess að Liverpool verði meistari. Leicester púlluðu kraftaverk í fyrra, við Liverpool menn ættum ekki að vera að bíða eftir slíku heldur keppa um titilinn (og alla þá titla sem í boði eru) að fullri alvöru ár hvert.
Firmino hleypur mikið. Gott fyrir hápressu.
Firmino tekur illa við bolta. Vont fyrir breakthrough.
Firmino er linur í skotum. Vont fyrir slútt.
Firmino linkar vel ef hann nær valdi á boltanum.
Gott þegar hann hefur tíma.
Firmino virkar bara stundum og er of háður kringumstæðum. Hann hefur ekki wow faktor.
En hann er samt betri liðsmaður en margur annar í eða við liðið (lesist sóknarmenn)
YNWA
Smá að FSG punktinum án þess að ætla eitthvað djúpt út í það:
Það eru klárlega spurningarmerki og efasemdir í kringum margt sem þeir og félagið hafa verið að gera og í þeirra stjórnartíð höfum við einn titil en ef við skoðum þetta í stóra samhenginu þá höfum við verið nokkrum sinnum mjög nálægt því að vinna hluti.
– Hársbreidd frá titlinum 13/14, ef ekki hefði verið fyrir þetta súper lið hjá City.
– Vítaspyrnukeppni í Deildarbikar gegn City
– Slakur seinni hálfleikur í úrslitum Evrópudeildarinnar gegn margföldum EL sigurvegurum Sevilla
– Þetta í úrslitum FA bikarsins https://www.youtube.com/watch?v=N0nHvnYtufc
– Þrjú skipti í undanúrslit í bikarkeppnum (ok reyndar Villa, Southampton þarna en mark í framlengingu gegn Chelsea í þriðja leiknum)
Ef, var og hefði – auðvitað – en ég meina, það hefur ekki mikið þurft upp á til að hlutirnir hefðu litið töluvert betur út. Óheppni með mótherja? Lélegir að klára ekki? Við getum klárlega unnið hluti undir stjórn FSG en stóra spurningin er þá auðvitað hvort við gætum náð toppnum og haldið okkur þar.
Það er líka hægt að segja að ef FSG hefði fjárfest almennilega í leikmannahópnum síðustu ár hefði liðið kannski unnið flesta af þessum titlum sem voru í boði. Þá er auðvelt hægt að svekkja sig á eigendunum. En eins og þú segir, ef og hefði og allt það. Persónulega er ég vonsvikinn yfir kaupstefnu klúbbsins heilt yfir, hvort sem það er manager eða eigendur. Síðustu ár er tugum milljóna eytt í unga og efnilega sem eru svo seldir fyrir það sama eða með tapi 1-3 árum seinna. Heitustu bitarnir á markaðnum enda trekk í trekk hjá öðrum liðum. Það hefur verið öskrað á markmann, vinstri bakvörð, djúpann miðjumann í fleiri, fleiri ár en ekkert gerst af viti. Maður gæti haldið endalaust áfram. Staðreyndin er sú að síðan liðið vann FA Cup titill 2007 er uppskeran einn skitinn league cup.
Varðandi Firmino er klárt mál, að mínu mati, að hann getur leitt framlínuna. Sérstaklega í ljósi þess, eins og þú bendir réttilega á, að liðið spilar sína bestu leiki þegar hann er frammi. En til þess að maður verði fyllilega sáttur við Firmino sem leikmann þarf hann að æfa stuttu sendingarnar betur. Það fer gífurlega í mig hvað liðið tapar oft boltanum bara af því hann gat ekki sent mjög einfaldlega sendingu. Svo er það grafalvarlegt vandamál að Studge og Origi séu ekki að veita almennilegt cover þarna framm á við. Kæmi ekki á óvart að þeir verði hreinlega báðir seldir í sumar. Vona þó að þeir geri nóg næstu 3 mánuði svo sú skoðun verði endurskoðuð.
Takk fyrir skemmtilegar pælingar Ólafur.
Fínar athugasemdir líka.
Firmino er vissulega enginn Aguero eða Costa, en þeir eru heldur ekki Firmino. Það sem hann skortir í markaskorun vinnur hann upp m.a. með því að leggja upp og sem fremsti varnarmaður.
Ég væri meira en til í að fá 20+ marka mann í sumar en ef það væri á kostnað Firmino þyrfti ég að hugsa mig tvisvar um.
Eins og nafni bendir á í #3 þá er markaskorun ekki stórt vandamál hjá okkur… nema í einstaka leikjum.
Það sem ég held að okkur vanti helst frammi er öflugur sláni sem getur skorað á móti rútuliðunum (m.a. Burnley, Úlfunum og Morinho).
Áfram Firmino!
Það sem Firminio skortir umfram t.d Aguero og Sanchez er hraði, gæinn er með engan hraða. Miðað við hvernig sóknin er hjá okkur í dag þá þurfum við meira explosive striker, sást vel í janúar hvað við söknuðum hraðans í Mane.
Btw þarf ekki að skrifa einhverja rannsóknarskýrslu um afhverju Emre Can er með automatic spot í liðinu alltaf? Hann hlýtur að eiga einhverjar myndir af Klopp í dvergakynlífi, því ekki er hann að fá sæti útá performance, gæinn er alveg vonlaus.
Firminho er eins og heimilislæknirinn þinn…. hann er góður í flestu og kann leikinn uppá 10…. en hann er samt sem áður ekki sérfræðingur í neinu…. samt virkilega solid leikmaður og klárlega minn uppáhalds í liðinu í dag
Af því verið er að ræða þennann dreng þá fannst mér skrýtið að hann fékk ekki neina refsingu frá klúbbnum fyrir að aka fullur einum sólahring fyrir leik.Hann var fullur og fékk eins árs ökuleyfissviftingu,sem þýðir að hann var minimum með 1,5 promil af alkohóli í blóðinu.
Þá er venjulegur maður fullur ekki bara búinn að drekka rauðvinsglas eða einn bjór.
Já hann var meira að segja látinn spila leikinn og þá sennilega þunnur.
En hvort Liverpool vinnur deildina með honum er ekki relevant í ár þar sem ég tel næsta víst að Chelsea vinni í ár og sennilega líka næsta ár.
Ef við gætum lagt Firmino, Coutinho og Mane saman í einn mann, værum við eflaust í góðum málum. Vandamálið er að Neymar er ekki til sölu og ef hann væri það, myndi hann birtast okkur sem andstæðingur.
Ég held mig því við vonina um að Klopp/FSG haldi áfram að búa til öflugt lið á tiltölulega óþekktum mönnum sem springi út og verði ómissandi undir stjórn Klopp. Mane hlýtur að vera uppörvandi dæmi um þetta. Kannski orðin klysja, en krafturinn sem Lallana er að sýna undir Klopp er annað dæmi um að með rétta menn á vellinum sem móti samhent lið, er allt hægt.
Það var kunnuglegt að horfa á Benfica – Dortmund um daginn. Dortmund miklu kraftmeira og sótti mun meira. En náðu þrátt fyrir ágæt færi bara ekki að skora. Sjálfur Aubameyang brenndi af þremur. Þar af einu víti. Dortmund gengur ekki eins vel og áður. Það vantar lykilmenn. Lykilmenn sem Klopp gerði að stjörnum.
Nei munum ekki vinna deildina með hann þar. Hann er flottur leikmaður og allt það en það vatnar svo mikinn stöðuleika í hans leik. Sem dæmi, skorar 2.mörk gegn Swansea, sést ekki í næstu 5-6 leikjum. Annaðhvort á kantinn með hann eða á bekkinn og kaupum nýjan striker sem sýnir mikinn stöðuleika og kann að skora
Firmino kæmist ekki í byrjunarliðið hjá Chelsea, Tottenham, City, Arsenal né Manutd. Öll þessi stóru lið væru með hann á bekknum. Við erum ekki að fara vinna neitt með hann í þessari stöðu. Vill fá hreinræktaðan markaskorara til þess að vera frammi. Firmino er alveg ágætis leikmaður ekki miskilja mig en það er ástæða fyrir því afhverju hann er ekki með fast sæti í landsliðinu. Hann bara meðal leikmaður