Liverpool virðist á hverju tímabili ná að setja nýtt viðmið í óstöðugleika frá árinu áður. Fyrstu þrjá mánuði ársins var liðið að spila frábæran fótbolta, þann besta á Englandi að sögn flestra mótherja Liverpool eftir hvern leik. Liðið var á toppnum í byrjun nóvember eftir 11 umferðir. Síðan þá eru komnar 14 umferðir í deildinni plús 98 bikarleikir og liðið hefur bókstaflega verið miðlungslið á þeim kafla.
Ef síðustu fjórtán umferðir hefðu verið fyrstu umferðir tímabilsins væri staðan svona í deildinni
Auðvitað er þetta ekki svona einfalt enda hafa leikjaálag og meiðsli haft mjög mikið að segja um erfitt gengi undanfarið þó ekki allir vilji horfast í augu við það.
Síðasta tímabil var nánast eins á þessum kafla tímabilsins hvað leikjaálag varðar nema bara aðeins meira. Ótrúlegt en satt þá var árangurinn í fyrra miklu verri á þessum kafla en hann var í ár. Stigasöfnun upp á 1,29 stig og 12.sæti
En nei nei leikjaálag er auðvitað engin afsökun og hefur ekkert að segja með svona miklu miklu verri árangur, það eru fake news!
Fylgifiskur mikils leikjaálags eru auðvitað fjarvistir okkar bestu manna. Eins kostar það liðið helling þegar þeim er spilað þrátt fyrir að vera augljóslega búnir á því. Það sem er til vara er aðalvandamál Liverpool og við erum að sjá það eftir því sem líður á tímabilið. “Byrjunarliðið” getur unnið hvern sem er og hefur sýnt það á þessu tímabili sem og því síðasta, oft mjög sannfærandi.
Markaskorun er ekki stóra vandamálið öfugt við undanfarin ár en þó eru töluverðir veikleikar á liðinu sóknarlega sem Klopp þarf að taka á. Nefnilega þegar einhver af fremstu fjórum missir úr leik riðlar það sóknarleik Liverpool allt of mikið. Ef einhver af fremstu fjórum er fjarverandi hefur það tvöföld áhrif því það veikir a.m.k. tvær stöður.
Lallana
Hann hefur stimplað sig inn á þessu tímabili sem lykilmaður og er sérstaklega mikilvægur gegn liðunum í neðri helmingnum. Ef Lallana er frá er vanalega sett inn Can eða Wijnaldum. Þeir tveir með Henderson er rosaleg handbremsa sóknarlega miðað við þegar annaðhvort Lallana eða Coutinho er á miðjunni. Ég skil ekki afhverju Coutinho er ekki færður oftar niður á miðju gegn liðum sem pakka í vörn þegar Lallana er fjarverandi. Liverpool hefur lent í veseni þegar Lallana er ekki á miðjunni hefur hvorugur af Wijnaldum og Can verið að heilla í hans hlutverki. Þjóðverjinn er bara núna í Lucas hlutverkinu sem helsti blórarböggull liðsins.
Coutinho
Ef Coutinho er fjarverandi er Firmino hans næsti varamaður og þar endurspeglast aðalvandamál Liverpool hvað breiddina varðar. Eins er Lallana stundum settur í hans stöðu sem riðlar leik Liverpool ennþá meira. Coutinho getur leyst Lallana af á miðjunni en þetta á ekki nærri því jafn vel við á hinn veginn. Ef hvorugur þeirra er að spila á miðjunni er sóknarbroddurinn svo gott sem tekinn úr henni og tenging við fremstu þrjá sömuleiðis. Takist Klopp að kaupa annan kantmann með gæði og hraða í ætt við Mané held ég að Coutinho verði færður niður á miðjuna líkt og Lallana gerði í fyrra. Hann er góður á vinstri kantinum en svona skapandi leikmaður ætti að vera potturinn og pannan í öllu spili liðsins og rétt eins og með Lallana gæti ég trúað að hann kæmi að fleiri mörkum þaðan.
Mané
Það kemur ekki beint á óvart að Liverpool ræður mjög illa við það að vera án eina kantmannsins í leikmannahópnum. Það er á ábyrgð Klopp að fara bara með einn kantmann inn í þetta tímabil og það hefur reynst rándýr ákvörðun. Vissulega var Mané keyptur í fyrrasumar en höfum í huga að sama vandamál var við líði á síðasta tímabili líka, Ibe var eini kantmaður liðsins. Klopp virðist vera fullkomlega meðvitaður um þetta og flestir þeirra sem orðaðir eru við Liverpool eru kantmenn með hraða í anda Mané. Ef það er ekki nógu slæmt að missa Mané þá er oft látið Lallana fylla hans skarð á kantinum sem riðlar miðjunni ekki síður en þegar Coutinho er frá.
Firmino
Okkar besti sóknarmaður og sá eini að því er virðist sem hentar almennilega í leikkerfi Klopp. Fyrir tímabilið hélt ég að Liverpool væri í gríðarlega góðum málum í þessari stöðu og vissulega riðlar það ekki stöðum Mané, Lallana og Coutinho ef Firmino er fjarverandi. Þeir sakna hinsvegar allir vinnuseminar sem Firmino bíður uppá og ná alls ekki jafn vel saman við Sturridge og Origi. Satt að segja bjóst ég ekki við miklu frá Sturridge fyrir mót enda ekkert hægt að treysta á hann en ég hélt að Origi myndi taka næsta skref og jafnvel springa út. Það er ekki of seint ennþá.
Firmino bæði mætti og mun líklega skora meira en það er ekki tilviljun að liðið sem heild virkar miklu betra sóknarlega með hann upp á toppi, hvort sem hann skorar sjálfur eða ekki er aukaatriði þegar samherjar hans eru að því. Sturridge og Origi eru líklega meira náttúrulegir markaskorarar en það er helst varnarlega sem Firmino tekur sætið af þeim.
Hvort er betra vandamál?
Þessar fjórar stöður skera úr um leiki gegn liðunum sem pakka í vörn gegn Liverpool. Þegar þessir fjórir eru allir á fullu gasi standast fá lið þeim snúning en næsta skref hjá Klopp verður að finna mann sem passar betur inn í þennan hóp og helst bætir hann.
Það hefur ekkert gengið að fá okkar helstu skotmörk undanfarið en þær tegundir leikmanna sem helst er talað um að Liverpool hafi sýnt áhuga lofa góðu. Dembelé (Dortmund), Draxler, Brant, Williams og jafnvel Pulisic sem er reyndar ennþá bara barn.
Talandi um börn þá verður breiddin sóknarlega vonandi meiri á næsta tímabili með Woodburn, Wilson og Ojo árinu eldri. Ojo er að ná sér af meiðslum á meðan hinir tveir hafa verið frábærir með U23 ára liðinu í vetur. Ef Klopp ætlar að byggja Liverpool upp eins og hann byggði Dortmund upp þurfum við að gera ráð fyrir þessum strákum í hans plönum.
Helsta vandamál Liverpool er það sama og Klopp var stundum að glíma við hjá Dortmund. Það er að vinna liðin í neðri helmingi deildarinnar sem pakka í vörn. Liverpool hefur á sama tíma ekki tapað leik gegn efstu liðunum sem er reyndar dæmigerð tölfræði fyrir Liverpool. Tottenham á hinn bóginn virðist oft eiga í vandræðum í stóru leikjunum, sérstaklega á útivelli en þeir slátra jafnan liðunum í neðri hlutanum.
Hvort er betra vandamál? Hvort er auðveldara að laga? Klopp hefur núna verið stjóri Liverpool í 1,5 ár og hefur aðeins keypt þrjá til fjóra byrjunarliðsmenn. Einn þeirra var Mané sem er okkar helsti lykill gegn þéttum vörnun og annar er Matip sem er okkar besti varnarmaður. Þegar Liverpool leggur upp með Klopp fótbolta gegn öðrum toppliðum sem þora að spila sinn fótbolta eru okkar menn jafnan betri.
Persónulega held ég að það sé auðveldara að finna betri lausnir til að vinna minni liðin heldur en ef vandamálið væri öfugt. Aðalatriði þar er að liðið haldi sínum bestu mönnum og bæti við. Liverpool var t.a.m. að skora 2-6 mörk gegn Leicester, Hull, Swansea, Palace og Watford í byrjun tímabilsins, ekkert þessara liða lagði upp með blússandi sóknarleik. Okkar menn voru ferskir í flestum þessara leikja með Lallana, Mané, Coutinho og Firmino fremsta.
Ef við höldum áfram að selja þá leikmenn sem skera úr um svona leiki breytist ekkert. Með það í huga, hversu mikið klink var £75m fyrir Suarez eftir á að hyggja? Núverandi hópur Liverpool vantar einmitt Suarez og t.d. Sterling, ekki í staðin fyrir neinn heldur til viðbótar.
Liverpool hefur ekki nægjanlega breiðan hóp ennþá til að spila Klopp gengenpressing fótbolta í öllum leikjum allt tímabilið. Síðustu fjórtán umferðir hafa sannarlega sýnt okkur það. Liðið virkaði úrvinda í nokkrum leikjum undanfarið sbr. t.d. Sunderland, Swansea og Hull, úrslit og spilamennska voru eftir því í öllum þremur. Þreyta er ekkert eina afsökunin þar en núna þegar lengra líður milli leikja út tímabilið verður fróðlegt að sjá hvort okkar menn verði ekki betri í að opna lið sem pakka í vörn. Leikjaprógrammið mun bjóða upp á fullt af slíkum leikjum.
Hvað gerir Liverpool í þriðja leikhluta tímabilsins?
Flestir af þeim leikjum sem Liverpool á eftir á þessu tímabili voru liðinu erfiðir í fyrra. Ef við tökum Tottenham leikinn með í jöfnuna þá vann Liverpool aðeins fjóra af þessum fjórtán leikjum. Það þarf ekki að koma á óvart að tveir af þessum sigrum voru gegn Everton og Man City. Ofan á það náði liðið í stig gegn Arsenal og Tottenham.
Þessir fjórtán leikir gáfu aðeins 18 stig í fyrra af 42 mögulegum. Meistarar Leicester var einn tapleikurinn af fjórum. Hinir þrír gegn Crystal Palace, Watford og West Ham sem var hver öðrum verri tapleikur en allir á meðan liðið var að spila 2-3 leiki í viku. Ef við tökum út stóru leikina (Man City, Everton, Arsenal og Tottenham) þá fékk Liverpool 10 stig af 30 mögulegum í sambærilegum leikjum í fyrra gegn Leicester, Bournemouth, Newcastle, Stoke, West Brom, Crystal Palace, Southamton, West Ham og Norwich. Eitt stig að meðaltali í leik sem er fall form.
Andskotinn hafi það ef þarna er ekki svigrúm fyrir bætingu þó hafa beri í huga að þessir leikir dreifðust yfir allt tímabilið í fyrra.
Sterkur endasprettur eins og í fyrra?
Liverpool var á toppnum eftir 11 umferðir með 2,4 stig að meðaltali í leik, þetta var þrátt fyrir einhverja erfiðustu byrjun liðsins á pappír sem maður man eftir. Þetta var gríðarleg bæting frá sama kafla frá tímabilinu áður enda liðið þá undir stjórn Rodgers sem var rekinn fyrir vikið.
Næstu fjórtán umferðir gáfu 1,29 stig að meðaltali í fyrra og 1,63 stig núna eins og áður hefur verið komið inná.
Leikjaálagið í fyrra var svakalegt yfir allt mótið en þrátt fyrir það bætti Liverpool sig töluvert síðustu þrettán umferðirnar og var þriðja besta lið deildarinnar á þeim kafla með 1,93 stig að meðaltali eða 25 stig. Það er svosem ekkert sérstakt en mikið betra en fyrr á tímabilinu og hvað þá miðað við aðstæður enda lítið gefið í nokkra af þessum leikjum vegna áherslu á aðrar keppnir. Þarna var samt riðlakeppni Evrópudeildarinnar að ljúka og deildarbikarinn að baki og því stundum næstum því hægt að taka nauðsynlega hvíld milli leikja.
25 stig úr síðustu umferðunum væri sæmilegt, Liverpool væri með 74 stig sem hefur dugað í Meistaradeildarsæti á öllum tímabilum þessa áratugar nema einu. Allt yfir það væri bónus og miðað við það að Liverpool var með 2,4 stig að meðaltali eftir prógrammið í byrjun tímabilsins er ljóst að liðið getur alveg endað þetta leikjaprógramm álíka sterkt.
Vonandi er Klopp að nýta tímann núna sem einskonar vetrarfrí eins og hann er vanur frá Þýskalandi. Dortmund lið Klopp voru jafnan miklu betri eftir vetrarfrí heldur en fyrir þau.
Skemmtileg samantekt. Neðan við bæði Everton og ManU, getur það verið verra. Eins gott að þetta er bara hluti tímabilsins sem er til umræðu. Ég blæs á eitthvað þreytudæmi þó okkar lið hlaupi meira en aðrir. Í mörgum leikjum hafa lykilmenn fengið frí og ekki er Evrópukeppni að þvælast fyrir. Miklu frekar er að kenna smávægileg meiðsli lykilmanna á vondum tíma, ekki nægjanleg breidd í leikmannahópinum og síðan andlegi þátturinn sem er að ég held aðalmálið. Helvítis kæruleysi gegn lakari liðum og síðan er hægt að rífa sig upp og leika eins og heimsmeistarar gegn sterkari liðunum. Það verður að gera eitthvað í þeim málum því liðið sem nú er til staðar er á flestan hátt frábært.
Alltaf gaman að lesa pistlana frá ykkur.
Í mínum huga er bara tímaspursmál hvenær meistari Klopp nær að fullmóta liðið eftir sínu höfði. Núna er mikilvægast af öllu að klára tímabilið með glans, tryggja CL-sæti og fara inn í hrikalega spennandi sumarglugga!
Sælir félagar
Í mínum huga er enginn efi um eftirfarandi:
– Jurgen Klopp er framtíð Liverpool og á eftir að vinna glæsta sigra með liðið okkar.
– Jurgen Klopp mun verða með liðið í þriðja sæti í lok leiktíðar.
– Jurgen Klopp mun næsta sumar versla inní liðið það sem þarf til að gera atlögu að meistaratitli á næstu leiktíð en ekki endilega vinn titilinn þá.
– Jurgen Klopp mun stækka hóp leikmanna sem geta komið af bekknum án þess að liðið veikist marktækt og það er tilhlökkunarefni.
Jurgen Klopp mun gera Liverpool að Englandsmeisturum í knattspyrnu oftar en einu sinni og þannig taka toppsætið af litla liðinu í Manchester.
-Jurgen Klopp er Jurgen Klopp og ekkert fær því breytt og því er hann er sá stjóri sem mestar titilvoni Liverpool stuðningmanna eru bundnar við.
Það er nú þannig
YNWA
Ég held að Klopp þurfi allavega einn sumarglugga í viðbót til þess að geta kallað liðið “hans lið”. Í dag eru alltaf að koma í ljós fleiri dauðyfli í þessu liði og bara leikmenn sem eiga ekki heima í hjá liði sem er að reyn aað ná í topp 4 sæti í úrvalsdeild. Klavan,Moreno,Karius,Mignolet og Lucas komin á síðasta söludag. Þarna þurfum við MIKLA bætingu svo liðið eigi að geta haldið hreinu í eins og 10 -15 leikjum á tímabili. Svo er Sturridge alltof dýr leikmaður að halda, því miður, hann er bara alltof brothættur.
#3 Sigkarl
Hallelúja…. og Amen eftir efninu….
Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta. Þetta hefur verið vandi liðsins í vetur og verður það áfram. Þessir fremstu fjórir eru algjörir lykilmenn í að sprengja upp varnir. Hitt er annað mál að styrkingar sumarsins verða á öllum vígstöðvum.
Varðandi hvort betra sé að eiga við það vandamál að stríða að vinna litlu liðin eða stóru þá er það eiginlega stærra vandamál að vinna litlu liðin því þau eru miklu fleiri. Hitt er annað mál að árangurinn gegn þeim er alveg ágætur á þessu tímabili og þess vegna hittirðu líka naglann þráðbeint á hausinn með kaldhæðnislegu kommenti um að leikjaálag skipti ekki máli.
Í mínum huga er þetta einfalt. Ef liðið spilar 2-3 leiki á viku þá gengur þeim illa. Sama hverjir mótherjarnir eru. Þeir taka þett 1,3-1,7 stig í leik samanborið við allt að 2,5 með einn leik í viku.
Ef liðið væri með mikla breidd og gæti spilað 2-3 leiki á viku þá myndi það samt skemma ryþmann í liðinu að láta suma hvíla en láta t.d. öftustu 5-6 spila flesta leikina. Rótasjón er skemmtilegur leikur en ansi vandasamur.
Ef einn af fjórum fremstu vantar þá gengur illa að sprengja upp varnir andstæðinganna. Sérstaklega gegn þeim sem vilja verjast og sækja hratt.
Ef koma á í veg fyrir töp þá er fínt að eignast aðeins betri varnarmenn og markmenn. Varnarmenn og markmenn vinna hins vegar ekki marga leiki. Þessvegna á Liverpool það til að tapa leikjum sem Chelsea og hin toppliðin ná amk. jafntefli úr.
Ergo: Kaupa 2-3 sóknarmenn/miðjumenn sem eru á pari við þessa fjóra fremstu. Það þarf að vera forgangsatriði. Varnarhluti liðsins þarf ekkert að hafa áhyggjur ef liðið skorar oftast 2 mörk eða meira í leik. Ég minni á að eftir 11 umferðir voru þeir komnir með 30 mörk sem er yfir 2,5 mörk í leik.
Mer sýnist vera nokkrir menn i Monako sem hægt væri að nota i gegenpresning hjá Klopp.
En þeir verða kanske of dýrir í vor eftir svona leiki eins og þeir eru að spila núna.
Það er alla vega slatti til af ungum og flottum spilurum i Evropu sem Klopp gæti notað í sitt lið og ætli hann sé ekki með innkaupalistann klárann nú þegar?
Spurningn er bara hvad fær hann mikinn pening? Hann er ekki farinn að eyða neinu enþá .
Svo ef FSG kaupa ekki það sem hann vil í sumar verður þeim varla statt á að eiga klúbbinn áfram.
En hvílík skemmtun sem leikurinn var á milli City og Monako,minnti mig a leikina á milli
Lirerpool og Newcastle í gamla daga.
Skil ekki hvernig er hægt að tala um leikjaálag þegar að liðið er ekki í evrópukeppni, það meikar engan sens….