Upphitun: Watford í fyrsta leik

Þá er komið að því! Þið hafið dundað ykkur í laxveiðiám, á götóttum golfvöllum og skuggalegum diskóbörum á sólarströndum í þeim eina tilgangi að drepa tímann fram að þessari stundu sem senn er komin. Tímaeyðslan hefur gert sitt gagn og stundaglasið er á síðasta snúningi. Alvaran er að byrja!

Hamstrengurinn var blótsyrði ársins 2015 hjá Herr Jürgen Klopp. Tökum því upplýsandi og upplífgandi upphitun og stillum strengi okkar þannig að ekkert alvarlegt togni á ögurstundu í fyrsta leik tímabilsins.

Sagan

Í þeim 20 deildarleikjum sem liðin hafa spilað sín í milli þá höfum við haft gott tak á Watford og LFC er með slétt 75% vinningshlutfall gegn þeim. Merkilegt nokk þá hefur eingöngu einn deildarleikur þessarar liða endað með jafntefli. Þetta er því allt eða ekkert einvígi út frá sagnfræðinni.

Nóg hefur verið um sögulega sykurmola síðustu tvö tímabil og hafa bæði lið hafa unnið sína stærstu sigra á hvort öðru á þeim tíma (3-0 tap úti og 6-1 sigur á Anfield). Ég leyfi mér einnig að fullyrða að því órannsökuðu að fallegasta mark í viðureign þessara tveggja liða var skorað af Emre Can nú á vordögum. Um það þarf varla að deila.

Það er því vel við hæfi að við séum að mæta Watford í þessum ágæta ágústmánuði þar sem að fyrir sléttum 30 árum síðan var John nokkur Barnes að undirbúa sig fyrir sinn fyrsta leik fyrir Liverpool eftir að hafa verið keyptur frá Watford. Barnes hafði brillerað fyrir brilluberandi eiganda sinn Sir Elton John og stuðlað að mesta árangri klúbbsins tímabilið 1982-83 þegar þeir lentu í 2.sæti á eftir Englandsmeisturum Liverpool á síðustu leiktíð Bob Paisley.

 

Litlu munaði að Barnes endaði hjá Man Utd árið 1987 þegar hann fór frá Watford en sem betur fer hafði Sir Alex ofurtrú á Jesper Olsen og hafnaði tækifærinu til að kaupa manninn sem síðar var kenndur við Digger í Dallas. Með innkomu Barnes, Aldridge og Houghton ásamt undarlega útlítandi snillingi með gorkúlugreiðslu frá Newcastle þá vannst titillinn það tímabilið. And the rest is history.

Mótherjinn

Watford skartar nýjum stjóra í byrjun leiktíðar en tíð stjóraskipti hefur verið ítalskt tískufyrirbrigði á Vicarage Road síðan Pozzo fjölskyldan eignaðist klúbbinn fyrir 5 árum. Stjóraskiptin þetta árið voru reyndar röklegri en oft áður þar sem að undir enskuhömluðum Mazzarri var búningsklefinn klofinn og liðið orðið stefnulaust. Frá áramótum tapaði Watford 12 af 20 EPL-leikjum og vann eingöngu 5 leiki og endaði í 17.sæti. Þeir enduðu tímabilið á 6 leikja taphrinu og þar með var silkisæng Signor Walter útbreidd.

Portúgalinn Marco Silva tók við liðinu eftir að hafa vakið athygli fyrir hetjulega björgunartilraun á hinum sökkvandi tígristogara Hull City sem sökk þó engu að síður. Silva þessi er efnilegur og ungur stjóri sem hefur unnið bikar með Sporting frá Lissabon og deildartitil með Olympiakos og er afar áhugaverð ráðning fyrir Watford. Því miður tókst honum einmitt að stýra Hull til sigurs gegn Liverpool í febrúar sl. og við þurfum að vona að það verði undantekning frekar en regla.

Undirbúningstímabilið hjá Watford hefur verið frekar brösótt með eingöngu 5 mörk skoruð í 6 leikjum og bara 2 sigurleiki. Mótherjarnir voru heldur ekkert þeir sterkustu með Real Sociedad, Aston Villa og Glasgow Rangers sem rjómann af rislitlu leikjaprógrammi og þeim tókst ekki að vinna neinn af þeim leikjum.  Þeir hafa verið að þétta sig varnarlega en þó er það á beinan kostnað sóknarleiksins. Þeirra helsti markaskorari, Troy Deeney, hefur verið meiddur í æfingaleikjunum þannig að það hefur háð þeim og Deeney mun missa af leiknum gegn Liverpool. Mauro Zarate er einnig meiddur og Cathcart og Kabasele tæpir en enginn þeirra telst lykilmaður.

En Watford hefur heldur betur verið blásið í herlúðra þessa vikuna þar sem að tveir sóknarmenn hafa bæst í hópinn á síðustu dögum. Hinn brasilíski U-21 árs landsliðsmaður Richarlison fékk atvinnuleyfi í byrjun viku og þar er á ferð fljótur og flinkur vængframherji sem virkar afar efnilegur. Í gær voru svo kaupin á Andre Gray frá Burnley fyrir 18,5 millur punda staðfest en hann skoraði 9 EPL-mörk í fyrra (þ.m.t. gegn Liverpool) og er öflugur á velli. Auðvitað tekur alltaf tíma fyrir nýja leikmenn að aðlagast nýju liði, en í sól og sumaryl á fyrsta leikdegi þegar nóg er af orku og adrenalíni inná velli og uppí stúku þá geta svona sóknarmenn verið afar skeinuhættir.

Fyrr í sumar keyptu Watford einnig efnilegu ensku miðjumennina Nathaniel Chalobah frá Chelsea og Will Hughes frá Derby County, en þeir hafa leikið samanlagt 135 landsleiki fyrir yngri landslið Englands. Sérstaklega hefur Chalobah verið iðinn við enska landsliðskolann frá barnæsku en hann hefur m.a. spilað 40 leiki fyrir England U-21 en eingöngu James Milner með 48 landsleiki hefur spilað meira fyrir England U-21. Glókollurinn Will Hughes ætti að vera slúðursjúkum Púlurum vel kunnugur en hann hefur verið orðaður við LFC að því virðist frá örófi alda. Báðir gætu farið beint í byrjunarliðið og þannig myndað alenska miðju með Tom Cleverley sem á þá alslæmu alslemmu að hafa spilað fyrir bæði Man Utd og Everton.

Allt að ofansögðu leiðir okkur að þeirri niðurstöðu að Watford verða sýnd veiði en ekki gefin.

Líklegt byrjunarlið Watford í taktíkinni 4-2-3-1

Liverpool

Okkar menn hafa verið á góðu róli í aðdraganda móts, spilað fínan fótbolta og ekki tapað leik í venjulegum leiktíma. Sóknarmaskínan hefur mallað vel með 2,4 mörk að meðaltali í leik en varnarvinnan hefur komið skemmtilega á óvart með eingöngu 4 mörk fengin á sig í 8 leikjum. Sérstaklega var sterkt að halda hreinu gegn Bayern München á þeirra heimavelli og þrátt fyrir mikinn spilatíma hjá Gomez, Alexander-Arnold og Moreno. Svo vel hafa þeir tveir síðastnefndu staðið sig að þeir eru líklegir til að vera í byrjunarliðinu gegn Watford.

Það kemur auðvitað líka til vegna þess að Clyne er meiddur og Milner missti af nokkrum leikjum í Þýskalandi og gæti verið sparaður fyrir Hoffenheim í CL í miðri næstu viku. Couthino mun varla byrja eftir að hafa verið þjakaður af bakmeiðslum í rúma viku en kemst vonandi á bekkinn ef þörf krefur á kraftaverkamanni. Sömu sögu má segja af Sturridge sem er tæpur og fær vonandi bekkjarpláss, en Lallana er því miður meiddur næstu 2-3 mánuði.

Nýju mennirnir Solanke og Robertson byrja væntanlega á bekknum en miðað við markaformið á heimsmeistaranum enska þá er maður spenntur að sjá hann fá einhverjar mínútur í innáskiptingu. Sömu sögu má segja um Ryan Kent sem í dag skrifaði undir langtímasamning eftir flottar frammistöður á æfingatímabilinu og sem lánsmaður Barnsley á síðasta tímabili. Kent er uppalinn í LFC akademíunni frá 7 ára aldri og væri frábært ef hann yrði valkostur sem öskufljótur vængframherji  til að létta undir með Mane og Salah. Þarna er nálgun og þjálfaraspeki Klopp upp á sitt besta og frábært fordæmi til að flagga í ljósi eyðsluklónna í nálægri borg og víðar.

Það hefur óneitanlega mikil áhrif á taktíska nálgun liðsins að hafa ekki sköpunarkraft Coutinho til að toga í strengina en við ættum að hafa nógan styrk á miðjunni og hraða á vængjunum og yfirhlaupum bakvarðanna til að setja mörk á þetta Watford lið. Salah verður væntanlega hægra megin í vængframherjastöðunni en hann og Mane munu eflaust skipta um kanta eftir því hvernig leikurinn spilast. Þá er það bara stóra spurningin hvort að vörn og mark halda áfram í sínu góða formi frá undirbúningstímabilinu, en þar er ekki á vísan að róa miðað við fyrra tímabil. Að mínu mati er bráðnauðsynlegt að styrkja stöðu hafsent í formi van Dijk og myndi hann vera frábær yfirverkstjóri til að deila og drottna yfir vörninni.

Ef við höldum sama dampi síðustu leikja og spilum af eðlilegri getu þá eigum við að vinna þennan leik.

Líklegt byrjunarlið Liverpool í taktíkinni 4-3-3

Spaks manns spádómur

1-2 sigur okkar manna með mörkum frá Salah og Mane.

60 Comments

  1. Djöfull er stutt í þetta þegar fyrsta upphitun tímabilsins er komin í loftið.

    Frábær lesning og hjartanlega velkomin hérna megin við borðið Peter Beardsley 🙂

  2. Ég veit að ég er ruglaður en liverpool ætti að kaupa diego costa, og ef við kaupum hann og vvd þá getur liverpool barist um titilinn

  3. @ Einar Matthías

    Kærar þakkir! Mikill heiður að fá að spreyta sig á þessari frábæru síðu 🙂

    YNWA

  4. En þetta var góð lesning og já við verðum vonandi að vinna þennan leik ég spài 4-0 fyrir liverpool mane með 3 hann mun bara vera betri og betri sém líður á tímabilið svo verður það Firmino með 1 og 2 assist

  5. Frábær upphitun. Þvílik innkoma hjá nýjum penna á síðunni.
    Vonast til að sjá meira svona og hlakka sérstaklega til að lesa jómfrúargrein Daníels Brands, en ég sat tíma hjá honum við Háskólann í Reykjavík fyrir nokkrum árum og þar fer mikill meistari, vel máli farinn.

  6. Síðasta vetur voru það ekki stóru áskoranirnar sem voru vandamálið heldur öll þessi bananahýði sem voru í veginum að Englandsmeistaratitlinum og þetta tímabil er ég klár á því að Watford sé eitt þeirra.

    Ég er nokkuð viss um að Watford muni liggja mjög aftarlega og nú reynir á hvort liðið hafi einhver almennileg svör við því. það er meira en að segja það að brjóta aftur vörn sem er með ellefu menn fyrir aftan boltann en ég hef óendanlega trú á Klopp og finnst eins og hans mesti eiginleiki sé sá að hann er stöðugt að þróa bæði lið og leikmenn áfram.
    Ég vonast allavega til þess að okkar hröðu vængmenn séu þeir sem munu virkilega gera útslagið en hef á sama tíma áhyggjur af því að það verði þess valdandi að það verði þétt upp í öll svæði og legið það aftarlega að það verði erfitt að finna glufur.

    Ég leyfi mér samt að vera bjartsýnn og spái okkar mönnum sigri á laugadaginn og meira að segja stórum.

  7. Frábær upphitun. Og merkilegt nokk nákvæmlega sama spá og ég hefði tippað á fyrir þennan leik.

  8. Frabaer upphitun. Takk fyrir. Og nu er komid a hreint ad coutinho er i meistaradeildar hopnum okkar! Fokk barca og oll thessi svokolludu storulid nu tokum vid deildina og meistaradeildina i nefid. Lifi Klopp, lifi Liverpool og, YNWA!

  9. Sælir félagar

    Takk MÞ fyrir skemmtilega jómfrúrupphitun. Verkefnið er afskaplega vel af hendi leyst og gefur góð fyrirheit um framtíðina. Það er ekki miklu við að bæta nema ef til vill spána sjálfa. Ég spái miklu markaregni þar sem leikmenn Liverpool vilja sýna öðrum liðum að það dugir lítið að pakka í 11 manna vörn á móti þeim í vetur. 4 – 0 er mín því spá.

    Það er nú þannig

    YNWA

  10. Sæl öll.

    Frábær upphitun takk fyrir og nú byrjar geðveikin aftur…reyndar byrjaði hún strax eftir síðasta leik þegar silly season fór af stað. Ég vaknaði á hverjum morgni og las að Couthino væri að fara til Barca, um hádegið var þetta alveg að smella og þeir Virgil og Naby voru á leiðinni á Anfield með sömu flugvél og færi með Couthino til Barcelona . Um kvöldmat var ljóst að þeir félagar Virgil og Naby hefði misst af fluginu og Couthino biði enn á vellinum þegar ég fór að sofa voru fréttir um að allir þrír hefðu farið heim að sofa og ætluðu að reyna aftur daginn eftir. Svona hefur þetta verið og líklega gert til að halda okkur við efnið því við erum svo vön að vera í svona upp-og niðursveiflum.

    En á morgun er stóri dagurinn og skytturnar þrjár þeir Virgil,Naby og Couthino sitja bara heima og horfa á leikinn líklega ekkert flug á laugardögum.

    Að sjálfsögðu vinna mínir menn leikinn með því að skora fleiri mörk en andstæðingarnir og fara því heim með stigin 3 í rútunni heim og koma þeim haganlega fyrir á nýja grasinu á Anfield svo að næstu mótherjar detti um þau þegar þeir mæta á Anfield.

    Vona að málin hjá skyttunum þremur skýrist fljótlega svo ég geti fengið smá svefnfrið allavega á milli leikja.

    Þangað til næst
    YNWA

  11. Frábær upphitun, gæði þessarar síðu heldur bara áfram að batna. Þetta endar örugglega með Pulitzer verðlaunun!

    Ég hef fjallatrú á okkar liði og við munum keyra yfir Watford, vinnum kannski ekkert stórt en hef mikla trú á öruggum sigri!

    FSG búnir að senda frá sér tilkynningu og staðfesta að PC10 er EKKI til sölu no matter what!
    Ég myndi helst vilja að okkar menn myndu reyna við Suarez eða einhvern frá þeim. Hef algjöra óbeit á þessu mafíuliði þarna á Spáni, nota fjölmiðla til að æsa aðstæður upp með lygum og skáldskap. Mjög dirty hjá þeim og gott á þá að missa Neymar frá sér.

  12. Þvílíkt debut hjá nýjum liðsmanni Kop.is. Velkominn í hópinn og það er klárt og greinilegt að gæðin aukast bara við þessa innkomu þína.

    Ég spáði 0-4 í Podcasti, ég stend við þá spá.

  13. Frabær upphitun. vita menn hvernig best er að horfa a boltann i vetur? Er eitthvað app sem hægt er að greiða áskrift fyrir og horfa gegnum playstation?

  14. VÁ! Veislan er að hefjast! Og takk fyrir flotta upphitun og manni er bara farið að hlakka til tímabilsins hjá Kop pennunum.

    Það þýðir ekkert annað en að fara bjartsýnn inní fyrsta leik tímabilsins og reikna með að okkar menn komi alveg spólandi inní leikinn.
    Coutinho verður ekki með vegna bakmeiðsla og eru einhverjar í algeru svartnætti vegna þess, sem er eiginlega bara alveg óskiljanlegt þar sem þeir sömu vita hvaða leikmenn við erum með í okkar liði.

    Ég held að liðið verði nákvæmlega eins og MÞ spáir því. Þetta lið á alltaf að taka Watford í kennslustund og sýna þeim hvernig á að spila almennilegan fótbolta.

    Ég ætla að spá 0-3 sigri okkar manna þar sem Salah opnar markareikninginn sinn með tveimur mörkum og Mané með seinasta.
    Can verður með assist (1) og Firmino með tvö.

    YNWA – In Klopp we trust!

  15. Frábær upphitum og velkomin til ritstarfa 🙂
    Þetta er önnur af liðsuppstillingunum sem mér datt i hug (í ljósi meiðsla Coutinho og Lallana) og sú sem er svona meira save/solid.
    Ég mundi samt frekar vilja sjá þríhyrningnum snúið á miðjunni og setja Firmino inn fyrir Wijnaldum og Solanke upp á topp, þá erum við kominn með stórann sterkann í sóknina til að berjast við varnarmúrinn og nýta möguleikanna í hröðu vængjunum okkar 😉

  16. Coutinho er búinn að svara þessu 🙁

    Philippe Coutinho has issued Liverpool with an official transfer request following the owners’ statement that he is not for sale, according to Sky sources.
    On Friday morning, Fenway Sports Group released a statement saying no offers will be considered for Barcelona target Coutinho this summer, with Jurgen Klopp backing the owners’ sentiments.

  17. COUTINHO HANDS IN TRANSFER REQUEST

    Philippe Coutinho has issued Liverpool with an official transfer request, according to Sky sources.

    Ef þetta er satt…… helvítis helvíti

  18. Coutinho óskað eftir sölu. Staða Liverpool er samt sterk. Þeir eiga ekki að beygja sig og bugta undan Barca. Frekar að láta Coutinho sitja fúlan út veturinn. Time to make a stand, ekki láta leikmenn og Barca vaða yfir okkur aftur. Þessi maður verður aldrei partur af legendary Liverpool leikmönnum með svona skíta hegðun. Hann veit að félagið á þessum tíma gluggans fær ekki mann í staðinn.

  19. Nú er staðan hjá Liverpool mjög erfið.
    Eigendurnir nýbúnir að gefa út yfirlýsingu og leikmaður svarar með því að fara fram á sölu.

    Með þessari einu beiðni þá fór Coutinho úr því að eiga möguleika á því að vera Liverpool legend í leikmann sem er einn óvinsælasti hjá liðinu í dag.

    Möguleikarnir eru einfaldlega tveir(við erum orðnir Southamton svo að það sé á hreinu).

    A) Selja Coutinho og fá fullt af penning og reyna að ná í einhverja áður en glugginn lokast.

    B) halda Coutinho og gefa ekkert eftir en hversu góður verður hann í fýlu hjá okkur.

    Sem stuðningsmaður þá vill ég Coutinho í burtu sem fyrst. Það vantar ekki hæfileikana en liverpool á ekki að vera með leikmann innan sinna raða sem langar ekkert að vera þarna og hefur farið fram á sölu. Setja 120 m punda verðmiða og láta Barca borga ef þeim langar í hann.
    Versta við ástandið er að Lallana er líka meiddur en hann er sá sem gæti tekið að sér Coutinho stöðuna að spila fyrir aftan framherjana.

  20. Hef ekki trú á að Coutinho sé svona lítill.
    Vonandi er þetta bara enn ein og síðasta fýlusprengjan sem kemur úr herbúðum Barcelona.

  21. Menn eru nú meira paranoid og smábörn! Í alvöru.

    Er þetta komið inná aðalsíðu Liverpool eða frétt um þetta búin að birtast í Echo?
    Auðvitað mátti búast við því að svona frétt kæmi eftir að klúbburinn tekur það fram að þeir selji hann ekki. SkySports eru að ná sér í svakalega mörg klikk með þessari grein og að menn kaupi þetta svona hratt er alveg sprenghlægilegt!

    Þið eruð jafn trúgjörn og 13 ára strákur sem fær slúðurtilkynningar sendar í símann sinn á 10 mínútna fresti.

  22. Eigendur Liverpool munu ekki selja Coutinho, ekki vegna þess að þeim þyki vænt um klúbinn, eru bara bisnessmenn sem vita ekki hversu margir eru inn á vellinum hvað þá meira, hafa engan áhuga eða vit á fótbolta fremur en flestir lana þeirra. Nei þeir munu ekki selja vegna þess að þeir vita að það verður allt vitlaust ef þeir dirfast að hugsa um það.

    Annars verð ég að segja að mér finnst við vera enn og aftur að drulla í þessum glugga, það sýndi sig í fyrra að við þurfum stærri hóp. Menn gorta sig a því að peningurinn sé til en svo gerist lítið?

    Tel okkur þurfa amk miðvörð og sterkan og kröftugan miðjumann. Keita og V. Dijk flottir leikmenn en þó alveg morgunljóst að þeir eru ekki einu sterku leikmennirnir í sinni stöðu í heimi þessum. Klopp stoltur af því að það sé ekkert plan b, bara þeir eða ekkert. Ef það verður ekkert þá munum við hrynja úr þreytu er líður á tímabilið, gerðum það í fyrra og nú verður álagið meira sökum evrópuleikja.

    Flottur þjálfari, lang flottustu stuðningsmennirnir og flott 11 manna lið framávið þegar allir eru heilir, vantar styrk varnarlega og breidd.

    Við höfum þjálfara sem dregur að, meistaradeild sem dregur að og segjumst eiga pening. Það er nú eða ekki að fá inn stór nöfn og reyna að taka dolluna. Ef þetta verða kaup sumarsins þá verður það ekki.

  23. Klopp var að segja að hann væri ekki með plan B eða C í leikmannamálum. Hann væri bara með plan A. Hann væri með nöfn sem honum langar í og annað hvort koma þau eða ekki.

  24. Þessi helvítis gluggi en það er enginn leikmaður stærri en klúbburinn.
    Með Coutinho eða án hans það verður engin breyting hjá mér því eins og undanfarin ár þá er ég með það á hreinu að þetta verður árið okkar.

  25. Sælir félagar

    Þetta er eitthvað málum blandið með Coutinho, hvort hann hafi farið fram á sölu eða ekki. Ef hann hefur farið fram á sölu á að selja hann en fyrir 120mp og ekkert annað. Segja við skítaliðið Barca að þeir geti fengið hann fyrir 120MP eða ekkert. Ég nenni ekki að hafa aumingja á Anfield sem vill frekar spila einhversstaðar annarsstaðar. Ef það er hinsvegar bull þá bið ég Kútinn afsökunar. Þetta mun koma í ljós.

    Það er nú þannig

    YNWA

  26. Aldrei skilið af hverju leikmannaglugginn er opin í ca. 2 vikur eftir að deildin byrjar. Getur einhver haft samband við FA og breytt þessu takk.

  27. Mikið hlakka ég til þessa leiks, og til hamingju með þessa fyrstu upphitun ! Ég vonast eftir rokk og róli í okkar sóknarleik en hræðist alltaf þennan brothætta varnarleik. Ég spái okkur tæpum sigri 2-3 en er drulluhræddur að þetta endi í jafntefli !

  28. Geiri #36, ég heyrði í þeim og þeir lofuðu að laga þetta fyrir næsta sumar.

    H

  29. Jæja, þá hefur Coutinho farið fram á sölu. Ekki byrjar tímabilið vel.

  30. Sælir félagar.

    Fyrir mér er nokkuð borðliggjandi hvað er í gangi á Anfield í dag:
    LFC setur fram tilkynningu um að þeir muni hafna öllum boðum í Coutinho til að þvinga leikmanninn í að fara fram á sölu, vitandi að hann er að fara.
    Með því eru þeir að fría sig frá þeirri ábyrgð að taka ákvörðun um að selja okkar besta leikmann og óánægju stuðningsmanna gegn stjórninni og þjálfaranum sem fylgir því.
    Ef það er ástæðan (sem mig grunar) þá eru þeir einnig með þessu að rusla þessu í gegn til að hafa smá tíma til að finna arftaka, sem þarf að gerast strax í næstu viku.

    Vona samt svo innilega að ég hafi rangt fyrir mér.

  31. Nokkuð áhugaverðar fréttir. Strákurinn er ekki að fara fet en þetta þýðir að hann fer væntanlega næsta sumar. Spurning hvort klúbburinn hafi ekki vitað þetta allan tímann og kaupin á Keita hafi átt að vera maður í manns stað.

  32. je, je, hann er búinn að biðja um sölu og mun á endanum fara til Barcelona….en ekki fyrr en sumarið 2018.

    Þetta er ekkert flókið. Liverpool getur ekki selt þennan leikmann á þessum tímapunkti. Það er bara algerlega útilokað hvort sem PC líkar betur eða verr. Það er enginn leið þegar svona stutt er í að tímabilið byrjar að fá einhvern í staðinn. Þetta er ekkert flókið. Hvað eigum við að gera við þessi 100 milljón pund ef við seljum Coutinho? Leggja peningana inn á banka? Við fáum engan leikmann í sama caliber núna korter í að tímabilið byrjar.

  33. Það er ekkert víst að plássið sem Coutinho sækist eftir (þ.e. staðan hans Neymars) verði laus á næsta ári. Barca ætla sér sjálfsagt árangur á þessu tímabili og þá þarf að fylla skarðið strax. Ef þau kaupa strákinn frá Dortmund þá verður líklega takmarkaður áhugi á næsta ári. Bara rétt eins og Madrid nenna ekki að eltast við de Gea lengur. Persónulega þá skilur maður alveg að Coutinho vilji fara til Barca á þessum tímapunkti. En ég held líka að það sé rétt sem hann hefur alltaf sagt að honum líði vel í Liverpool.

  34. Sæl….

    Veit einhver númerið í faxtækinu sem Couthino notaði til að faxa sölubeiðnina núna áðan?

    Ég ætla að senda honum eitt gott og kjarnyrt fax á hreinni Íslensku og segja honum hvert hann á að faxa næstu beiðni.

    Takk og bless

  35. Pínu skítt ef satt reynist og kúturinn ætlar að skríða út um leikmannagluggann korter fyrir mót. Vil endilega halda honum út þetta tímabil en ef hann vill fara, so be it, engin stærri en klúbburinn. Hef bullandi trú á hópnum fyrir komandi tímabil með eða án Coutinho.

  36. Getur einhver hèrna skotist upp à Úlfljótsvatn og teki? einn mansa í poka og sent til Barcelona!?

  37. Mikið svakalega er þetta steikt allt saman. Hefði nú ekki verið snjallt að vera aðeins búnir að heyra í Coutinho áður en þeir senda út þessa fréttatilkynningu? Hefði nú ekki verið snjallt að lofa honum því að hann fengi að fara næsta sumar gegn því að menn strykju á sér kviðinn og héldu friðinn í vetur? Er stjórn félagsins, Klopp og Coutinho ekkert að tala saman? …lítur þannig út a.m.k….

    Mikið svakalegt klúður er þetta og enn ein falleinkuninn hjá PR deildinni… …menn eiga að reyna að stjórna atburðarásinni í svona málum – ekki láta bara eitthvað gerast – það er áfangi 101 í PR fræðum… …það er allt sprungið í loft upp á versta tíma og nokkrir klukkutímar í fyrsta leik – bjartsýnin fokin út í veður og vind…

    Kannski verður þetta hvatning til dáða fyrir hina leikmennina og ungu strákana sem hafa verið frábærir… …en enginn stytta af Coutinho á leiðinni upp – það er ljóst.

  38. Mér líður eins og ég hafi verið stunginn í bakið af vini mínum.

    Mig langar að skrifa margt og mikið um barcelona en er hræddur um að verða útilokaður frá kop.is.

  39. Spurning um að neita öllum tilboðum í hann, sama hversu há þau verða. PC10 verður að spila vel í vetur enda HM næsta sumar, ekki satt? Hann er á fimm ára samningi og með enga klásúlú. Vona að LFC standi fastir á sínu. Það á ekki að láta þessa spænsku mafíuklúbba vaða svona fram.

  40. Loksins þegar maður er farinn virkilega að trúa því að LFC sé á uppleið og sé að fara loksins í alvöruni að keppa um titla ekki að keppa um 6ta sætið þá kemur eitthvað svona djufuslins kjaftæði korter fyrir keppni.

  41. Takk fyrir frábæra upphitun! Það fyrsta sem ég hugsaði þegar Kop.is auglýsti eftir pennum var að vonandi myndi Peter Beardsley sækja um, minn uppáhalds kommentari hér. Ég er því mjög sáttur og óska ég þér alls hins besta Magnús Þórarinsons aka Peter Beardsley 🙂 Þetta hefði verið fullkomið ef Sigríður hefði líka bæst í Kop-liðið en hún heldur vonandi áfram að vera virk hér inni.

    Þrátt fyrir leiðindafréttir af völdum Coutinho þá spái ég því að leikmenn og aðstandendur bíti á jaxlinn og standist fyrsta próf tímabilsins. Ég spái 2-3 sigri og Moreno mun skora með neglu…

  42. Takk fyrir þessa upphitun.

    Ég datt í upprifjun á Watford – Liverpool 2015 á sky í gær.
    Munið þið eftir þeim leik?
    Klopp við stýrið, margir af lykilmönnunum okkar núna að spila.
    Ok Bogdan var í markinu, Skrtel og Sakho miðverðir.
    Aðrir voru Clyne, Moreno, Lucas, Henderson, Can, Lallana, Coutinho og Firmino.

    3 – 0 tap í skelfilegum leik.

    Ég er óvenju lítið bjartsýnn fyrir leikinn.
    Sýnd veiði en alls ekki gefin. Hvernig eru menn stemmdir eftir síðustu fréttir. Þjappar það mönnum saman eða eru menn mest í að kjafta á kaffistofunni?

    Upprifjunin á sky í gær og svo fréttir dagsins þyngir þankann fyrir morgundaginn.
    En á morgun er nýr dagur og ég ætla að rífa mig upp í bjartsýniskast.
    Við keyrum í gang frábæra byrjun á frábæru tímabili 🙂

    1 – 3

    YNWA

  43. Glæsileg upphitun frá glæsilegum penna.

    Miðjan á morgun er eina spurningamerkið. Væri til að sjá Hendo djúpan með Can og Grujic fyrir framan. Hef tröllatrú á Grujic og hann er duglegur að koma sér í góðar stöður utarlega í teignum fyrir utan að vera mikil hætta í föstum leikatriðum. Keyrum yfir þetta Watford lið með helmassaða miðju

Spá kop.is – síðari hluti

Coutinho fer fram á sölu.