Hicks segir allt það rétta

Tom Hicks, annar eigenda Liverpool FC, var í útvarpsviðtali í morgun þar sem hann tjáði sig á opinskáan hátt um öll þau málefni sem hafa verið í eldlínunni hjá Liverpool FC undanfarið.

Ég mæli með að þið lesið allt viðtalið. Í stuttu máli, þá segir Hicks eftirfarandi:

  • Þeir Gillett hafa lokið við fjármögnunina á eign klúbbsins.
  • Það er stutt í að framkvæmdir í Stanley Park vegna nýja vallarins hefjist.
  • Hann ætlar sér ekki að selja klúbbinn og segist munu verða enn eigandi eftir 5 ár.
  • Hann talaði við D.I.C. einhvern tímann á síðasta ári um 10-15% minnihlutafjárfestingu í klúbbnum en þeim fannst hann verðleggja þann hlut allt of hátt og því varð ekkert af því. Að öðru leyti hefur hann (og Gillett) ekki rætt við D.I.C.
  • Hann segir í tvígang að Rafa Benítez njóti fulls trausts og að hann sjái Benítez fyrir sér stjórna liðinu næstu tvö árin, „og helst lengur“.
  • Aðspurður um fyrirhuguð kaup á Mascherano segir hann, einfaldlega: „Absolutely.“ Mascherano verður sem sagt pottþétt keyptur.
  • Hann og Gillett eru þegar byrjaðir að ræða við Benítez um leikmannakaup fyrir sumarið. Hann tjáir sig þó ekkert um það hvort fleiri komi í janúarglugganum.

Þetta er svona það helsta í þessu ítarlega viðtali við annan eigendanna. Það má lýsa þessu viðtali á mjög einfaldan hátt: Tom Hicks segir allt það rétta í þessu viðtali. Hann segir allt sem við höfum beðið hann um; hann ætlar ekki að selja klúbbinn, hann styður Benítez algjörlega (segir það tvisvar), hann ætlar að kaupa Mascherano og er að vinna í fleiri leikmönnum fyrir sumarið, hann er búinn að læra ansi mikla lexíu varðandi breska fjölmiðla síðustu mánuðina, og að bygging vallarins er rétt handan við hornið.

Þetta viðtal er fínt og jákvætt að sjá eigandann segja allt það rétta. Ég hef bara tvö vandamál við þessi orð hans; eigendurnir hafa áður sagt allt það rétta og svo svikið nánast öll loforð sín, og, hvar í fjandanum er George Gillett?

Þegar þeir keyptu klúbbinn var talað um að Gillett ætti að vera andlit eigendanna útávið, sá sem sæi um fjölmiðlahliðina, á meðan Hicks átti að vera fjárhagskrafturinn í sambandinu. Þetta hefur alls ekki verið raunin; á meðan Hicks hefur átt hvert glappaskotið á fætur öðru í fjölmiðlum hefur Gillett verið þögull sem gröfin í einhverja mánuði núna. Ef við leyfum Hicks að njóta vafans í þessum málum og gefum honum það að hann hafi einfaldlega ekki áttað sig á því hversu hættuleg ummælin um Klinsmann væru, og hann er þá búinn að bæta fyrir það núna með því að segjast styðja Rafa heilshugar og sjá eftir ummælum sínum um Klinsmann, hvernig í fjandanum útskýrum við þá þögn Gillett?

Mig langar til að trúa að þetta sé allt að lagast. Mig langar að ímynda mér að Mascherano verði keyptur á næstu vikunni, áður en janúarglugginn er úti, og að Rafa verði áfram við stjórnvölinn eftir þetta tímabil og að hann fái nægilegt fé til að geta keppt við Chelsea og Man Utd á markaðnum í sumar. Ég veit ekki hvort menn átta sig á því eða ekki en Chelsea hafa eytt meira, nettó, í þessum janúarglugga en við gerðum allt síðasta sumar. Mig langar einnig að trúa því að völlurinn verði virkilega byggður í þetta sinn, en ekki endurskoðaður vegna kostnaðar eftir hálft ár eins og gerðist síðast. Mig langar að trúa því að þetta hafi allt verið vegna menningarmismunar og vanþekkingar af hálfu Hicks & Gillett í garð fótboltans í Englandi og fjölmiðlanna í kringum hann.

En á meðan Gillett ekki tjáir sig um málið bara get ég ekki annað en haldið að hlutirnir séu ekki eins ánægjulegir og skýrir og Hicks reynir að telja okkur trú um. Eins mikið og mig langar til að þessu rugli sé bara lokið og að við getum aftur farið að einbeita okkur að því að styðja liðið á vellinum og hugsa til framtíðar varðandi leikmannakaup og -sölur, get ég ekki annað en átt von á að það eigi sitthvað fleira eftir að koma í ljós í þessu máli áður en þessu tímabili er lokið.

Við sjáum til. Ég er ekki týpan sem panikkar fyrirfram yfir hlutunum, en ég er heldur ekki einhver sem lætur orð manns sem hefur áður svikið öll loforð þægja mig. Hicks segir allt það rétta, nú er kominn tími á að hann þegi og framkvæmi samkvæmt eigin loforðum.

Hvað Gillett varðar, hins vegar, er kominn tími á að sá maður tali.

53 Comments

  1. Mig langar að stökkva af gleði yfir því sem hann segir, en það er samt eitthvað inni í mér sem segir mér að taka þessum fréttum með fyrirvara. Kannski er ég bara svona svartsýnn en mér finnst einhvern veginn eins og þetta sé bara til að friða eigin samvisku frekar en aðdáendur, veit ekki afhverju. Vona bara að ég hafi rangt fyrir mér og að þessir eigendur fari að standa sig almennilega 🙂

  2. Já sammála Anton. Sum svörin eru líka svolítið skrítin. Eins og þegar hann svar spurningunni um hvort einhver annar en Klismann sé í viðbragðsstöðu varðandi framkvæmdastjórastöðunna. Þá svar hann bara að hann (Klinsmann) sé kominn með annan samning og því sé hann ekki lengur hluti af okkar plönum. Svar í raun ekki spurningunni.
    Mig langar ekkert að var svartsýn en það er einhvað loðið við þetta allt saman.

  3. maður heyrði allt jákvætt frá þessum manni þegar hann keypti klúbbinn þannig ég ætla ekki að trúa orði fyrr en hann stendur við þetta.

    en hvað er málið með þessa TVO eigendur, er hinn mállaus eða??

  4. Setningar eins og: “Talk is cheap”, “all talk, no action” og “put the money where your mouth is” (eða hvernig sem hún var) hoppa skyndilega upp í huga minn eftir að hafa lesið þennan ágætis pistil hjá K.A. Maðurinn hlýtur allavega að vera meira en minna heilaskaddaður ef hann hefði ekki sagt alla réttu hlutina eins og hann gerði í þessu viðtali. Nóg er nú fjaðrafokið og lætin eftir síðustu glappaskot hans. Við erum 100m frá því að vera með lið sem getur verið með í toppbaráttunni um 1.sætið sem samsvarar 5 leikmönnum.

  5. Eigum við ekki forkaupsrétt á Mascherano þangað til láninu lýkur??? Ég held að við getum alveg verið rólegir yfir því öllu saman þó að kaupin gerist ekki á næstu dögum.
    Eins og ég skil þetta þá getum við bara gengið frá kaupunum 2 dögum áður en lánstíminn rennur út…

  6. Hvaða fárviðri er þetta……af hverju þarf Gillett eitthvað sérstaklega að tjá sig!!?? Ég sé bara ekkert dúbíus við það að Hicks svari fyrir það sem hefur verið í gangi og það skiptir engu máli hvort Gillett segir orð.

    Það sem kemur út úr þessu máli er að:
    – Kanarnir hafa greinilega ekki áttað sig á muninum á Bandaríkjunum þar sem fólk gleypir við nánast hverju sem er á meðan bretar mótmæla. Þeir hafa örugglega lært af því núna heyrist mér á þessu viðtali.
    – Ef hann segir að Mascherano verði keyptur þá verður hann keyptur….annað væri heimska.
    – Að bresku fjölmiðlarnir hafa farið offari á könunum og það hefur virkað frábærlega hjá þeim þar sem Liverpool aðdáendur hafa trúað nánast öllu af þessu kjaftæði.
    – Ef hann segir að framkvæmdir á nýja vellinum séu að byrja þá er engin ástæða að efast um það….annars hefði hann líklega ekki sagt þetta.
    – Hicks er greinilega maðurinn með völdin í þessu tvíeiki og því er ekkert óeðlilegt að hann tali fyrir fjárfestunum.

    Nú geta menn og konur farið að einbeita sér að liðinu sjálfu….fullt af stórleikjum framundan og meistaradeildin nálgast!!!

  7. Sá nokkrar greinar í morgun sem staðfesta þá trú mína að kanarnir séu komnir í öngstræti með eignarhaldi sínu á Liverpool Fc.
    Hérna eru þrjár greinar sem segja allar það sama. Ruglið ríkir á Anfield!
    Og áður en að menn slá það út af borðinu sem Bascombe er að segja vill ég minna á að Hicks er núna búinn að staðfesta allt það sem að hann hefur skrifað um klúbbinn. Jafnvel þó að hann vinni nú fyrir News Of The World.
    http://football.guardian.co.uk/News_Story/0,,2247768,00.html
    http://liverpoolfc.co.za/eve/forums/a/tpc/f/1126051643/m/3071021974
    http://www.telegraph.co.uk/sport/main.jhtml?xml=/sport/2008/01/27/sfngue127.xml

    YNWA.

  8. Afsakaðu þessa yfirsjón Einar. Þetta með Mourinho gæti allt eins ræst næsta sumar svo mikil eru lætin í kringum klúbbinn þessa dagana. Tók þetta fram með Bascombe vegna þess að menn hafa viljað slá hann út af borðinu vegna þess að hann er í vinnu hjá NOTW. Af þeim greinum sem ég hef lesið þá virðist hann enn hafa ágætis kontakta í kringum klúbbinn. Greinarnar setti ég inn vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af framtíð klúbbsins. Ég get ekki skilið hvernig Hicks og Gillett ætla að reka klúbbinn á þessum forsendum sem liggja fyrir. Lánin sem þeir voru að tryggja sér í síðustu viku voru t.a.m. eingöngu til 18 mánaða. Hvað þýðir það? Erum við að fara í gegnum annan rússíbana eftir 12 mánuði? Hvernig ætla félagarnir að fá lán fyrir nýja vellinum þegar við horfum upp á erfiðleikana við að endurfjármagna upphaflegu lánin? Ég sagði líka að þeir væru komnir í öngstræti af því að þeir virðast ,eftir því sem blaðamennirnir tala um, vera að taka lán fyrir vöxtum sem koma til af “fjárfestingu” þeirra í klúbbnum. Sem sagt algjör vítahringur. Ég er líka algjörlega sammála KAR varðandi þögn Gillett. Maðurinn verður að stíga fram og segja hvað honum finnst um málefni klúbbsins. Það mætti ætla að hann væri búinn að selja Hicks sinn hlut í félaginu.
    Ég tek það samt sérstaklega fram að ég er algjörlega á móti því að fá Mourinho sem stjóra liðsins.
    YNWA.

  9. Skemmtileg skrif hjá þér Kristján Atli en verð þó að vera sammála Júlla… Maðurinn hlýtur að hafa lært af fyrri mistökum! Annars held ég að öll kurl séu ekki komin til baka og álíka fjaðrafok og verið hefur muni aftur verða raunin innan 18 mánaða.
    Sá þessi skrif í morgun: http://www.bbc.co.uk/blogs/thereporters/mihirbose/2008/01/liverpool_deal_not_the_end_of.html
    Mæli með að þið tjekkið á þessu…
    Er Gillett búinn að skila inn læknisvottorði??? Maður spyr sig…

  10. DavíðGuð, ekkert mál. Öll skrifin hjá Bascombe gengu út á það að þetta væri allt að gerast strax með Mourinho. Það hafa allir geta séð að hlutirnir milli Rafa og eigendanna voru í rugli og ég tel mig hafa getað skrifað alveg jafn merkilegar greinar og Bascombe.

    Ég held einfaldlega að hann hafi takmörkuð sambönd í klúbbnum.

    Varðandi efni pistilsins, þá er ég sammála KAR að þetta hljómar allt mjög vel, en ég er samt mjög skeptískur á þetta allt saman. En það er allavegana skemmtileg tilbreyting að heyra smá góðar fréttir, þó ég efist um að einn einasti Liverpool stuðningsmaður stökkvi til og hefji þá G&H upp til skýjanna fyrir þetta eitt.

  11. Hljómar vel, en er það nóg?

    Ég er að lesa að klúbburinn þurfi að borga 28milljónir punda í vexti á ári út af þessu láni. Hvað er það? Það er nákvæmlega ein stórstjarna á ári eða 2-3 mjög góðir leikmenn. Ég gæti verið svo svartsýnn að segja að þetta sé peningur sem gæti frestað atlögu okkar að titli næstu árin, a.m.k. þangað til að peningurinn fyrir nýja völlinn byrjar að rúlla inn.

  12. Snilldargrein eins og við var að búast. Hjartanlega, ákaflega sammála öllu sem þar kemur fram.
    Benitez er auðvitað ekki ósnertanlegur, nú er bara einfaldlega komið að honum og leikmönnunum að sanna sig. Hicks er búinn að segja það sem þeir vildu og ÖLLU máli skiptir að völlurinn fari í gang.
    En Gillett þarf að tala, hjartanlega sammála því.

  13. Hvaða rugl er þetta hjá ykkur varðandi þögnina hjá Gillett? Hver segir að báðir þurfi að tala? Bakkavararbræður eru tvær og annar þeirra talar. Hinn þegir. Með fínum árangri. Hvað viljið þið annars að Gillett segi? Það sama og Hicks? Því minna sem menn tala því betra; þá hafa þeir kannski tíma til að gera eitthvað annað. Ég trúi því – amk þangað til annað kemur í ljós – að þetta séu alvöru bisnissmenn sem horfa langt fram í tímann.

  14. Þessi sápuópera er ekki búin og það er nokkuð ljóst.
    Vonandi geta kanarnir komið manni á óvart en ég trúi ekki orði sem þeir eða réttara sagt Hicks segir – því miður.
    Vonandi fara samt hlutirnir að ganga betur á vellinum og það er það sem skiptir mestu.

  15. Ég trúi varla að menn séu að kippa sér upp við þetta tal, hvað búist þið eiginlega við að maðurinn segi? Að þeir séu að fara á hausinn og engir leikmenn komi í sumar?

  16. Djöfull er ég sammála Magga #15. Nú þarf Benitez og leikmennirnir að vinna sér inn rétt til þess að vera í liðinu á næstu leiktíð. Nú þarf að byggja upp. Tryggja gott Cup run. Stinga af hin liðin í baráttunni um 4. sætið og gera það sem við getum í meistaradeildinni.
    Nú er búið að gefa honum VOC og því ætti ekkert að trufla hann (þetta er auðvitað óskhyggja). En nú snýst þetta um árangur inná vellinum. Ef að formið á liðinu verður eitthvað viðlíka út tímabilið og það hefur verið hingað til þá er ekkert annað í stöðunni en að fá nýjan mann í brúnna. G&H eru búnir að gefa honum traustið í fjölmiðlum sem hann hefur ekki fengið hingað til. Þeir hafa lagt út fyrir dýrasta varnarmanni í sögu Liverpool og nú þarf að sýna það á vellinum að Benitez sé á réttri leið með þetta lið. Miðað við mannskapinn sem hann er með og kröfuna um 4. sætið (þetta er miðaða við núverandi aðstæður ekki fyrir tímabilið) þá á það ekki aðv era neitt mál.

  17. Góður pistill að vanda KAR og er ég sammála ansi mörgu. Ég, eins og greinilega aðrir, trúi ekki lengur fyrr en ég sé hlutina framkvæmda. Orð eru bara orð og þeim þarf að fylgja eftir með aðgerðum. Þangað til það gerist, þá ætla ég að gefa þeim the benefit of the doubt, allavega í smá tíma.

    Það sem ég er aftur á mót ekki sammála mörgum hérna um er þögnin hjá Gillett. Ég sé akkúrat enga ástæðu fyrir hann að tjá sig líka um sömu hluti. Það var Hicks sem kom sér í steypu um daginn með illa ígrunduðum setningum, og það er hans að reyna að koma sér út úr þeirri klípu. Ég hefði helst kosið að þeir myndu báðir þegja núna í nokkra mánuði og láta verkin tala. Já, vonandi grjóthalda þeir kjafti núna sem lengst, kaupi Javier, hefji framkvæmdir við völlinn, framlengi samninginn við Rafa um 2 ár og bakka hann fullkomlega upp næsta sumar.

  18. Finnst þér í alvöru Steini tímabært að framlengja samninginn við Rafa um tvö ár núna? Það er tvö og hálft ár eftir af samningi hans, liðið spilar heilt yfir leiðinlegan og tilvijlunarkendan bolta og árangurinn heimafyrir er ekki betri en þegar Houllier var með liðið. Viltu í alvöru verðlauna það með tveimur árum í viðbót við hann? Er ekki viturlegra að klára þetta tímabil og sjá til í sumar, láta hann fjúka ef viðunnandi árangur næst ekki eða gefa honum ár enn ef hann nær að hrista eitthvað fram úr erminni núna á seinni hluta tímabilsins.

    Eins og staðan er núna er klárt mál að Rafa á að fara af mínu viti, en það er sjálfsagt skynsamlegast að halda sig við það sem maður talaði um í upphafi, meta tímabilið í lok þess. Til að Rafa eigi að fá séns áfram, allavega hjá mér, þarf hann að sýna okkur að liðið er ekki bara tilviljunarkent og að það sé í raun einhver framför frá Houllier tímanum. Þrjú ár af ‘standa í stað’ á ekki að verðlauna með áframhaldandi samning. Rafa er ekki Liverpool og að standa blint á bakvið hann finnst mér í besta falli kjánalegt.

    Ég vil árangur umfram allt annað. Ef Rafa sýnir það núna að hann er maður í starfið, þá flott mál. Ef hann heldur áfram í meðalmennskunni, þá á hann að fara í sumar.

  19. Strákar, ég segi að Gillett þurfi að tala til þess að við þurfum ekki að þola svona fréttir eins og Chris Bascombe birti í NOTW í gær. Á meðan við hin lásum orð Hicks sem tímabæra stuðningsyfirlýsingu við Rafa var Bascombe fljótur að benda á hið augljósa: af hverju er bara Hicks að segja þessa hluti?

    Gillett þarf ekki að segja mikið. Stutt, hnitmiðuð setning myndi duga til: “Hi, I’m George Gillett and I agree with what Tom Hicks said.” Á meðan hann ekki segir þetta getur maður ekki annað en trúað því að það sé eitthvað til í meintu ósætti eigendanna. Og á meðan þeir ekki taka af allan vafa um það mun slúðrið um DIC, rifrildi Hicks & Gillett og annað slíkt sem kemur knattspyrnunni innan vallar lítið við halda áfram.

    Þess vegna þarf Gillett að tala. Hann þarf ekki að segja mikið, en hann þarf að segja eitthvað.

  20. Já Benni, það getur vel verið að þér finnist það ekki meika sens, en ég er nú engu síður á þessu. Ég er ekki fylgjandi “spænsku veikinni” og finnst sú fílósófía ekki virka. Það er alveg ljóst að menn eru með plan um liðið og það hefur verið í gangi mikil uppbygging undanfarið. Því miður höfum við ekki getað keppt um stærstu nöfnin á markaðnum, og því við ekki nær markmiðinu heldur en raun ber vitni. Þú talar líka um leiðinlegan og tilviljanakenndan bolta, og stundum er það rétt. Ég man líka vel eftir ferlinu hjá Rafa með Valencia. Það var kannski ekki ósvipað að því leiti að fyrst var Valencia rosalegt varnarlið og ekki mjög skemmtilegt á að horfa. Síðasta árið hans þar var reyndar svolítið annað uppi á teningnum. Það er eitt skemmtilegasta knattspyrnulið sem ég hef séð síðari ár.

    Það er líka annað í þessu sem ég kýs og það er stöðugleiki. Ég er þannig Þenkjandi að ég hef ekki trú á því að menn nái að klára sína hluti nema menn fái til þess vinnufrið. Þann vinnufrið tel ég Rafa ekki hafa fengið. Þar fyrir utan þá hreinlega sé ég ekki kantídat sem telst hæfari en hann í starfið. Ég trúi ekki á það að breyta bara til að breyta. Þá hefst ný uppbygging, nýr maður með nýjar áherslur og vill koma inn með sína eigin menn. Ég kalla þetta ekki að standa blint á bakvið Rafa, sem þér finnst í besta falli kjánalegt. Mér finnst einnig í besta falli kjánalegt að vilja bara breyta til að breyta.

    Þetta er ástæðan fyrir því að ég vil að eigendurnir komi fram, bakki sinn mann 100% upp. Það gera menn ekki með því að láta hlutina vera í óvissu um lengri eða skemmri tíma. Annað hvort er þetta þeirra maður eða ekki.

    Varðandi Gillett og þögn hans. Ekkert hefur komið fram til að breyta skoðun minni á því. Hicks er búinn að tala fyrir hönd eigendanna og það á ekki að þurfa að vera að koma báðir fram í hvert skipti sem menn eins og Bascombe slúðra, til að neita því. Stend við fyrri orð um að þeir eiga bara að þegja núna og framkvæma.

  21. Flott hjá KAR og algerlega sammála honum nema hvað Gellett varðar. Það er ekki nauðsynlegt að það heyrist í honum. Það er nóg að Hicks tali og svo verði efndir í framhaldinu. Mér finnst hinsvegar Júlli #8 vera ótrúlega bláeygur að halda að þeir standi bara við allt og allt sé gott. Þessir menn hafa verið staðnir að litlu öðru en svikum og ósannindum og það kemur mér á óvart að nokkur skuli ætla að taka þá trúanlega allt í einu núna. En hitt er annað að vonandi er Hicks að segja satt í þetta skipti og vinnufriður og árangur fylgi í kjölfarið.
    Bennijón #22 talar illa um Rb eins og venjulega. Auðvitað er árangur liðsins ekki eins og við vonuðum en benda má á tvennt. Vinnufriður og andlegur aðbúnaður Rb og liðsins alls hefur verið ömulegur og þess vegna stundum nánast óvinnandi fyrir leiðindum.
    Hitt er svo líka eftir tektarvert að menn hafa verið að taka liðið út eftir undanfarna leiki og komist að þeirri niðurstöðu að í því sé of mikið af leikmönnum sem ná ekki máli. Lið sem hefur jafnmarga meðalskussa og liðið okkar getur ekki náð árangri. Þetta er niðurstaða umræðu undanfartinna vikna.
    Þess vegna er ekki árangur að vænta fyrr en hægt er að skipta þessum mönnum út fyrir aðra betri (og dýrari) Standi kanblækurnar við orð sín og gerð verði leikmannakaup sem verða alvöru þá er annað uppi á teningnum. Því8 finnst mér að Rb eigi að fá lengri tíma með nýjum mönnum (leikmönnum) og þá er hægt að taka hann af lífi eða heiðra hann eftir atvikum. Fyrr ekki.
    Þetta sjá allir menn

    YNWA

  22. Friðjón hvað viltu gefa Rafa langan tíma? Hann virðist hafa fengið nánast allan þann stuðning sem hann þurfti í sumar. Auðvitað hvorki honum né G&H að kenna að Heinze kom ekki, en þess fyrir utan var liðið að styrkja sig svo um munar.
    Árangurinn hefur samt ekki verið eitthvað sem hægt er að hrópa húrra yfir. Liðið er skipað betri leikmönnum en 17 önnur lið í deildinni hafa yfir að ráða og Crouch var að segja það í viðtali um daginn að hann hafi búist við því að á þessu tímabili gæti liðið gert atlögu að titlinum.
    Eftir stendur að liðið er í sama basli og undanfarin ár, nema að nú er það komið í það miklar skuldir og með vanhæfa stjórnendur í öllum stöðum að við blasir að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík stendur styrkari fótum.

    Já glasið er hálftómt þessa daganna hjá mér en ég er handviss um að það fer ekki allt á versta veg. En það þarf mikið að breytast til batnaðar.

  23. Steini, það á ekki að breyta bara til að breyta. Það á að breyta því árangur Rafa er óásættanlegur heimafyrir. Þetta er eitthvað sem hann verður að laga núna til að kaupa sér annað tímabil af mínu mati.

    Ég er hjartanlega sammála um að og miklar breytingar og rót séu ekki af hinu góða en við þurfum ekki að horfa lengra en Chelsea til að sjá að oft eru breytingar mjög jákvæðar. Jose var í basli, var látinn fara og Grant hefur gert hlutina hljóðlega og af viti, enda gengur Chelsea mun betur nú en í upphafi móts. Það þarf ekkert að taka allt í gegn hjá okkur, Rafa hefur byggt ákveðinn grunn en því miður virðist hann ekki ná að byggja ofaná hann, ekki ennþá allavega. Nýr maður gæti hugsanlega gert það, eða það er allavega hugmyndin.

    Sambandi við spilastíl Valencia, þá bara hreinlega veit ég ekki hvort hann var svona slæmur eins og hjá okkur þar til undir lokin. Ég man bara mjög vel eftir einum leik með Valencia undir stjórn Rafa og það var þegar þeir kaffærðu okkur á Anfield. Eitt er víst að svoleiðis spilamennska er allt of sjaldséð hjá okkar mönnum.

    …og það að ég tali illa um Rafa og að það sé ekkert nýtt er varla svaravert. Ég tala aldrei illa um Rafa og ber mikla virðingu fyrir honum. Ég bara er um það bil að missa trúna á honum sem okkar stjóra. Held að svona gæjar eins og þú Friðþjófur ættuð að gera smá ransóknarvinnu áður en þið sláið einhverju svona fram.

  24. Ástæðan að við erum ekki nær toppliðunum í dag er ekki sú að við höfum minni fjárráð en þau.

    Staðreyndin er sú að sum leikmannakaup Liverpool hafa verið léleg undanfarin ár, annars værum við klárlega að berjast við efstu liðin. Auðvitað hafa liðin í kringum okkur gert léleg leikmannakaup en þau hafa haft efni á því. Við höfum einfaldlega ekki efni á kaupum eins og ég skrifa hér að neðan.

    Jermain Pennant
    Peter Crouch
    Dirk Kuyt

    Við hefðum getað notað þessar 25 milljónir punda í eitthvað betra.
    En auðvitað hefur Man. Utd yfir meiri pening að ráða og hafa getað keypt leikmenn fyrir mjög háar fjárhæðir en samt sem áður tel ég að við hefðum getað notað okkar pening betur og einnig spilað betur úr þeim mannskap sem við höfum haft undanfarin ár.

    Benitez hefur gert góða hluti fyrir Liverpool og landað frábærum sigri í Meistaradeildinni og unnið bikarinn. Hans tími er liðinn og ég tel að hann nái ekki meira úr liðinu, því miður.

  25. Grolsi… er það þess vegna sem David Moyes og félagar í Everton eru fyrir ofan okkur? Útaf því að þeir hafa meiri peninga heldur en við og geta þá keypt Phil Jagielka og Yakubu?

  26. Að mínu mati eru greinileg tengsl milli slæms gengis og þessara vandamála varðandi eigendamálin. Þetta kom allt fram í kringum Newcastle leikinn þegar að liðið hafði unnið 3 leiki í röð. Að mínu mati fór liðið ekki að spila verulega illa fyrr en allt vesenið var komið á fullt.

    Og varðandi Grant og Mourinho, þá er ég einfaldlega ekki sammála því að allt sé í svona ljómandi lagi eftir að Grant tók við. Chelsea hefur t.a.m. tapað bæði fyrir Man U og Arsenal og besti leikmaðurinn þeirra hefur lýst því yfir að hann vilji fara frá félaginu í kjölfar þjálfaraskiptanna. Og miðað við þá leiki, sem að ég hef séð með Chelsea, þá er Chelsea alls ekki að spila skemmtilegri bolta eftir skiptin.

  27. Grolsi… er það þess vegna sem David Moyes og félagar í Everton eru fyrir ofan okkur?

    Nei, en Everton mega eiga það að þeir halda tryggð og stuðningi við þjálfarann sinn, sem er ólíkt því sem hefur verið í gangi að undanförnu hjá Liverpool.

  28. Einar Örn #31:
    Gæti það verið vegna þess að Moyes nær því allra besta út úr sínum leikmönnum fyrir þá peninga og aðstöðu sem hann hefur úr að moða? Og því séu þeir bara ánægðir með hann?

  29. Daði, hann er að ná því núna – en hann hefur líka lent í miklum lægðum með liðið. Þeir hafa hins vegar alltaf staðið á bakvið hann.

  30. Daði, það er stórfenglega ósanngjarnt að ætla að nota stöðuna í deildinni akkúrat núna sem ótvíræða sönnun þess að Moyes sé að gera betri hluti en Benítez. Það er svipað og ef Tottenham-menn hefðu viljað frysta tímann eftir 5-1 sigurinn á Arsenal í síðustu viku og spyrja hvort væri betra liðið, eða ef Man City-menn hefðu haldið því fram í haust, strax í kjölfar 1-0 sigursins í deildinni gegn Man Utd, að þeir væru sterkara liðið.

    Gengi liða er sveiflukennt. Hefur alltaf verið, verður alltaf. Á meðan við vorum að ná 3. sætinu í deildinni sátu Everton um miðja deild með allt niðrum sig eftir misheppnaða tilraun til að komast í Meistaradeildina haustið áður. Nú er hins vegar allt í niðursveiflu hjá Liverpool en allt eins og það best verður á kosið hjá Everton … og þeir eru tveimur stigum á undan og hafa leikið einum leik fleira.

    Gengur ekki upp. Bara gerir það ekki. Menn mega gagnrýna Benítez eins og þeir vilja, enda ber hann sem framkvæmdarstjóri alltaf ábyrgð á gengi liðsins innan vallar (þótt vesenið utan vallar sé stór hluti af ástæðunni er það ekki öll ástæðan), en það verður að vera á málefnalegum nótum, og það að benda á David Moyes sem eitthvert dæmi um mann sem er að gera betri hluti en Benítez með takmörkuð fjárráð er að mínu mati ekkert sérstaklega málefnalegt.

  31. Kristján Atli, ég er mjög málefnalegur í þessari gagnrýni. Ég er að svara þeim sem tala um það að það eina sem vanti eru peningar. Það sé raunverulega það sem skiptir máli og ef þeir væru til staðar þá væri allt í himnalagi.

    Nú er hinsvegar uppi sú staða að Rafa gæti lent í því í annað skiptið á fjórum árum að David Moyes og Everton endi fyrir ofan hann í deildinni. Auðvitað er nóg eftir, en þetta er ekkert út úr korti…hefur gerst áður. Þannig að minn punktur er að þetta snýst ekki bara um peninga þó auðvitað hjálpi þeir til.

    Þetta Tottenham – Arsenal dæmi er ekki samanburðarhæft. Það eru níu ár síðan Spurs unnu Arsenal síðast. En ef og það er stór EF…. Everton verður fyrir ofan Liverpool í deildinni í lok tímabilsins þá er það í annað skipti á fjórum árum. Það er þá hætt að vera einstök tilviljun og frekar orðin óþolandi regla.

    Nú er ég ekki að tala um Meistaradeildina, enda kemur þar í ljós að styrkleikamunur á milli Everton og Liverpool er gífurlegur. En samanburður á árangri í deild í Englandi EF miðað er við pening EF Everton endar fyrir ofan Liverpool í vor gefur sterklega til kynna að annar þjálfarinn nær betri árangri en hinn miðað við efnivið.

    Það má ekki stilla öllu upp í dag þannig að maður sé annað hvort með Rafa eða H&G. Ég er hundóánægður með þá alla saman. Rafa fyrir árangurinn inni á vellinum og H&G fyrir klúðrið fyrir utan völlinn. Og ég spyr, haldið þið virkilega að frammistaða liðsins hingað til í vetur bendi til þess að það fari nú á blússandi siglingu, vinni bikara og Rafa standi uppi sem þvílík hetja sem stóð af sér einhvern storm sem H&G bjuggu bara til útaf engu?

    Síðan liðið vann FA bikarinn í maí 2006 hefur það aðeins unnið annan hvern leik sem það hefur keppt í í deildinni og ekki unnið einn einasta bikar. Þetta hljómar bara nákvæmlega eins og árangur sem Everton á að venjast, nema á örlítið meira…nei afsakið MIKLU meira budgeti.

    Nú var þetta ekkert sem ég fann upp hjá sjálfum mér að bera þá tvo saman. Rafa gerir það sjálfur með því að vera sífellt að tala um hversu litlu hann hefur úr að moða miðað við “stóru” liðin. Hann verður þá að þola svona samanburð sjálfur.

  32. En er það ekki bara málið ? Moyes hefur verið að kaupa menn á svipaðar upphæðir og Rafa (Fyrir utan Torres og Babel auðvitað). Þessir menn hljóta því að vera svipaðir í gæðum en samt er Moyes að ná svo miklu meiru út úr þeim. Hann er nú t.d. ekki með neinn Gerrard, Alonso, Carra eða Mascherano og engin fjárráð til að kaupa menn eins og Torres. Hvernig stendur þá á því að Moyes hefur þegar verið einu sinni fyrir ofan Rafa í deildinni og er á þessum tímapunkti fyrir ofan ? Tímabilið sem Rafa átti að vera að búinn að safna saman nógu góðu liði til að berjast um titilinn.

    Annað dæmi um þetta er Eriksson sem er btw á sínu fyrsta tímabili með liðið Hann hefur keypt menn á þessu týpíska Liverpool verði en er að ná hundrað sinnum meira út úr þeim mönnum en Rafa er að gera með sína menn. Og Rafa er þegar með Gerrard, Torres, Carra, Mascherano og Alonso svo einhverjir séu nefndir. Af hverju eru menn eins og Kuyt (sem kostaði meira en flestir leikmenn City og Everton) í tómu bulli á vellinum ?

    Enn eitt dæmið er Harry Redknapp. Hann hefur jafnvel verið að kaupa menn í ódýrari klassa en Liverpool, samt er hann að ná því allra besta úr þessu liði. Hvernig stendur á því að Ferguson nái svona miklu út úr Fletcher, O´Shea og Brown meðan Riise, Kuyt, Voronin og Pennant eru bara í einhverju djóki hjá okkur ?

    Að mínu mati mun þetta vor og í allra allra mesta lagi næsta tímabil ráða úrslitum um framtíð Rafa. Ef hann nær að hrista eitthvað magnað (t.d. CL bikar) út úr erminni í vor er það ekkert nema gott en það verður að koma almennilegt title challenge næsta tímabil. Menn verða að gera sér grein fyrir því að þegar þeir vilja Rafa í burtu eru þeir að ekki bara að biðja um að afhausa manninn heldur vilja þeir það besta fyrir klúbbinn.

  33. Ekki missa þig Kristján, kallar Daða ómálefnalegan? Sýndu okkur fram á það skýrt og skilmerkilega. Hef sjaldan séð málefnalegri gæja hér á blogginu en einmitt Daða.

  34. Skil ekki allt sem er hér rætt varðandi leikmannakaup Benitez. Þegar menn eru farnir að tala um Pennant og Crouch sem slök kaup skil ég nú ekki alveg hvað verið er að ræða. Veit ekki hvað Crouch karlinn þarf að gera til að öðlast virðingu og fyrir 6 millur er Pennant búinn að standa sig vel að mínu viti, hans hefur t.d. verið sárt saknað að undanförnu.
    Ég er afar ósáttur við Dirk Kuyt en við skulum nú ekki gleyma því að við vorum öll glöð þegar hann kom. Þá hafði hann slegið Van Nistelrooy út úr hollenska landsliðinu og skoraði fullkominn haug af mörkum í Hollandi eins og Ruud. Því miður varð Kuyt svo nýr Kezman, en ekki nýr Ruud.
    Ég er líka sannfærður um það að Voronin hefði ekki verið keyptur ef Rafa hefði verið viss um að fá pening í sumar. Auðvitað hefur Rafa gert slæm kaup, eins og ALLIR stjórar. Skulum nú ekki gleyma t.d. Francis Jeffers hjá Arsenal og Veron karlinn hjá United.
    Hins vegar finnst mér of fáir tala um snilldarkaup Benitez, sem eru mörg. T.d. Daniel Agger sem var keyptur hrár frá Danmörku, frelsunin á Mascherano, let’s face it – við vissum ekkert nema það að hann komst ekki í lið hjá West Ham, Babel sem var klárlega á leið til Arsenal, Reina sem við þekktum ekki og svo náðum við í gulldrengina Alonso og Torres.
    Það sem mér finnst vanta núna í þetta lið eru 2 – 3 heimsklassaleikmenn sem komast strax inn í dæmið eins og Torres hefur gert. Er t.d. handviss um að Heinze hefði breytt mjög miklu.
    Þegar menn fara svo að tala um Fletcher, O’Shea og Brown sem ástæðu þess að United standi sig er ég algerlega ósammála. O’Shea og Brown voru HRYLLILEGIR t.d. í gær, og eru ekki nægilega góðir til að leika í toppliði. United er bara með snilldarsóknarmenn (Ronaldo sem Houllier vildi ekki, Tevez sem við höfðum ekki efni á og Rooney sem myndi ALDREI spila með LFC) sem klára leikina fyrir þá.
    Ef þessir þrír slóðar væru í lykilhlutverkum á Trafford þyrftum við ekki að hafa áhyggjur.
    En ég vill sjá meiri árangur en þann sem við erum að tala um á Anfield akkúrat þessa dagana, frá 1.desember. Ég er alveg tilbúinn að fallast á það að menn eigi að halda í stöðugleikann og það að þetta rugl allt að undanförnu hafi dregið úr mönnum. En það er frumskilyrði að þetta lið bæti sig milli ára og verði nær toppnum en í fyrra, annars þarf að setja spurningamerki við frammistöðuna í vor og sjá til þess að slíkur vetur endurtaki sig ekki!

  35. Dóri, ég útskýrði það alveg í ummælum mínum. Daði tók þessu ekki illa, óþarfi fyrir þig að taka því eitthvað verr en hann.

    Daði, ég er sammála þér í því að það er leitt þegar menn leiðast út á þær götur að tala um annað hvort eða í málum Benítez og G&H. Eins og þú getir ekki bæði blöskrað meðferð þeirra á Benítez og viljað hann burt. En umræðan leiðist allt of oft út í þessa hluti, engu að síður.

    Hvað Moyes-samanburðinn varðar þá skildi ég upprunalegu ummælin þín þannig að þú værir að gefa það í skyn að Moyes væri betri en Benítez af því að hann er að ná meira út úr sínu liði þessa stundina. Það fannst mér vera villan í þeim samanburði – þessa stundina – og því benti ég á það.

    Annars veit ég ekki hvað mér á að finnast um Benítez. Ef einhver hefði í upphafi tímabils sagt mér að við værum í 6. sæti, 15 stigum frá toppnum og að elta Everton, Aston Villa og Man City í baráttunni um fjórða sætið, í lok janúar, hefði ég sagt afdráttarlaust að slík frammistaða í deildinni í vetur myndi umsvifalaust þýða að Benítez væri kominn í þrot með þetta lið. Hins vegar hafa atburðir utan vallar meira og minna allt tímabilið – allt frá brotthvarfi Pako til erfiðra meiðsla lykilmanna í haust og svo þessarar Hicks/Benítez/Klinsmann-sápuóperu allrar – haft a.m.k. það mikil áhrif á leik liðsins að það er erfitt að ætla að leggja alla skuldina á herðar stjórans.

    Ef ég ætti að gera upp hug minn núna myndi ég segja að ég vildi helst geta „afskrifað“ þetta tímabil hvað Benítez varðar og gefa honum næsta tímabil með sömu kröfur og hann hafði fyrir þetta tímabil, þ.e. að vera að minnsta kosti í harðri baráttu um titilinn fram á síðustu vikurnar. Mér fyndist allavega andskoti hart af eigendum sem eiga að megninu til sökina á þessari sápuóperu að ætla að láta Benítez fara í sumar fyrir að hafa ekki náð að halda dampi í vetur, þegar það eru gjörðir eigendanna sjálfra sem eyðilögðu mikið fyrir honum.

  36. Ég vil benda Daða á að lesa allt mitt comment áður en hann svara út í loftið.

    Ég talaði aldrei að það þyrfti meiri pening. Ég sagði hins vegar að að við hefðum getað spilað BETUR úr þeim mannskap sem við höfum haft í gegnum tíðina ásamt því að segja að við hefðum getað nýtt peningana betur en við höfum gert.

    Lesa áður Daði.

    Ég er hvergi að biðja um meiri pening enda er það ekki ástæðan slælegs gengi liðsins.

  37. Benitez hefur líka lent tvisvar fyrir ofan Arsenal á sínum ferli, þótt fáir virðist vilja gefa honum kredit fyrir það (samanber allt talið um að við séum enn einu sinni að berjast um fjórða sætið, þrátt fyrir að við höfum lent í þriðja sætinu tvö síðustu tímabil).

    Ég er sammála þessu sem Kristján segir. Árangurinn er algjörlega óafsakanlegur, en ég er einfaldlega ekki tilbúinn að skella allri skuldinni á Benitez (þótt ég sé verulega svekktur yfir þessu öllu). Átökin utan vallar hafa skemmt fyrir og ég held að ekki einu sinni Benitez hafi getað látið sér detta í hug að sóknarmaður númer 2 yrði svona stjarnfræðilega lélegur á þessu tímabili.

  38. Ég sé nú ekki marga hér sem eru að skella skuldinni allri á Benitez. Menn eru einfaldlega að velta upp af hverju hann sé ekki að ná eins miklu út úr eigin leikmönnum eins og til dæmis Moyes. Og þó að Benitez hafi náð betri árangri en Wenger einhvern tímann þá er það bara ekki nóg. Alls ekki. Ég mundi frekar vilja láta aðra bera sig saman við okkur, þó það hafi reynst erfitt undanfarin ár(eða áratug, eða jafnvel áratugi:))Við hljótum að gera meiri kröfur en það. Kröfurnar á Everton eru allt aðrar og Moyes er að standast þær og vel það. Er Benitez að standast okkar kröfur?

  39. En hver annar en Benitez ber ábyrgðina yfir andleysinu sem er yfir liðinu leik eftir leik(og ekki bara núna undanfarið) og fáránlega lélegum sóknarleik? Það er aðal ástæða lélegs gengi okkar, ekki bullið í könunum.

  40. Ég sé nú ekki marga hér sem eru að skella skuldinni allri á Benitez

    Rafn, ef þetta var svar við mínu kommenti, þá ætlaði ég ekki að gefa það í skyn að aðrir væru að skella öllu á Benitez, eingöngu að ég vildi ekki gera það.

  41. Benni Jón, þú getur ekki staðið þarna (eða setið, væntanlega) og reynt að halda því fram að jafn dramatísk utan-vallar-málefni og við höfum séð undanfarin misseri hafi engin áhrif á sjálfstraust og einbeitningu leikmanna. Þú bara getur það ekki. Auðvitað er það engin afsökun, en þessir hlutir gerast bara samt, og það hjá fleiri klúbbum en okkur. Þetta hefur áhrif, hvort sem þér líkar betur eða verr.

    Benítez er auðvitað alltaf ábyrgur fyrir þessu á endanum. “The buck stops here”, eins og Texasbúar myndu segja. En það er bara ekki fræðilegur möguleiki að þú kennir honum einum algjörlega um þetta allt saman þegar þú sérð hvers lags sápuópera hefur truflað hann við sín störf og truflað einbeitningu leikmanna.

    Ég skal setja upp einfalt dæmi fyrir þig. Fyrir leikinn gegn Aston Villa sáum við allt verða vitlaust í nokkra daga yfir ummælum Hicks um Klinsmann. Telurðu líklegt að leikmennirnir hafi á dögunum fram að Villa-leiknum getað einbeitt sér 100% að því að æfa fyrir þann leik og einbeitt öllum sínum hugsunum að leiknum? Heldurðu að þeir hafi ekkert hugsað um það hvort að Benítez væri að fara, hvað væri að gerast með eigendurna, og svo framvegis? Og svo þegar menn mæta á völlinn og sjá mótmælaskilti í hverri stúku þar sem Könunum er úthúðað og biðlað er til DIC að koma inn, heldurðu að þetta hafi engin áhrif þegar menn eru að hita upp?

    Við skulum orða það þannig. Ef þú ert að teygja, hálftíma fyrir leik, og horfa í kringum þig á auglýsingaskilti eða hlusta á mótmælasöngva hins háværa meirihluta Kop-stúkunnar, þá ertu ekki að hugsa um andstæðingana á meðan.

    Þetta er bara eitt dæmi, og einföldun í sjálfri sér, en þú hlýtur að sjá það svart á hvítu að það er meira en bara frammistaða Benítez í starfi sem hefur áhrif á spilamennsku liðsins undanfarna mánuði. Ég trúi bara ekki öðru en að þú sjáir það.

  42. Þetta hjálpar ekki svo mikið er víst.

    En hver var ástæðan fyrir andleysinu og sóknargetuleysinu í haust? Málið er að þó utanvallarmálin hjálpi auðvitað ekki þá reyna menn að fela sig allt of mikið á bakvið þau. Andleysi og sóknargetuleysi var komið áður en G&H málið fór í háaloft.

  43. Ég vil gefa honum næsta tímabil skuldlaust… Með skilyrði um atlögu að titlinum! Hef fulla trú á því að hann sigli þessu tímabili í höfn, svo lengi sem öldurnar fari að róast… Leikmenn eru að koma til baka úr meiðslum, Benitez kominn með traustsyfirlýsingu (a.m.k. í orði) og vonandi fara menn einsog Kuyt að spilast í form (nógu andskoti vinnur hann vel á vellinum, ekki hægt að taka það frá honum).
    Þori eiginlega ekki að hugsa til þess að við náum ekki CL sæti… svo ég sleppi því.

  44. Maggi, ég var klárlega ekki að meina að Brown (sem er búinn að eiga mjög gott tímabil yfir allt) og félagar væru lykilmenn en takmarkanir þeirra bitna ekki á öllu liðinu trekk í trekk líkt og takmarkanir okkar meðalskussa gera. Menn mega ekki gleyma að t.d. Carra var nú engin sérstök hetja á Anfield fyrir mörgum árum (2 sjálfsmörk gegn Manjú anyone ?) og að þessir menn geta allir státað af a.m.k 3 Englandsmeistaratitlum.

    Menn geta sagt að Liverpool komist aldrei langt með meðalmenn í liðinu sínu, en hvað hefur Manjú gert ? Það er bara staðreynd sem verður ekki litið framhjá. Tímabilið 05-06 náði Liverpool 82 stigum og 3 sætinu. Þessi stigafjöldi hefði unnið deildina í öll þau skipti sem Liverpool vann deildina. Frábær árangur. Þetta sama tímabil endaði Manjú í 2. sæti með 83 og John O´Shea sem byrjunarliðsmann á miðri miðjunni. Það er eitthvað sem segir mér a.m.k. að Ferguson sé að ná einhverju þó það sé ekki nema aðeins meira en Rafa út úr sínum meðalskussum.

    Þar er ekki bara hægt að kenna peningaleysi um. Þetta er einfaldlega spurning um hvatningu og vilja. Rafa er ekki að ná því besta úr mönnum og verður að svara fyrir það. Vonandi gerist það sem fyrst. Eins og margir hafa sagt, andleysi og getuleysi sóknarlega var komið löngu áður en allt fór í háaloft.

  45. En er þetta ekki einfalt…..ef Liverpool nær ekki meistaradeildarsæti og kemst ekki í undanúrslit í meistardeildinni þá er ekki hægt að réttlæta að hann verði með Liverpool næsta tímabil líka.

    Auðvitað hafa lætin utan vallar áhrif en ég trúi ekki að leikmenn séu svo ó-prófessional að þeir spili illa marga leiki í röð út af þessum málum. Það er of mikil einföldun eins og Kristján Atli segir. Benítez verður ekkert rekinn á þessu tímabili…..hann verður dæmdur eftir þetta tímabil.

    Og Friðþjófur #25 ég tel það ekkert vera ótrúleg bjartsýni að allt sé gott og rétt sem Hicks sagði í þessu viðtali. Það sem er öðruvísi við svör hans núna en áður er að hann talar mjög skýrt. Hann segir að Mascherano verði keyptur, hann segir að byrjað verði á vellinum fljótlega.
    Þetta er eins skýrt og hægt er að hafa þetta…..og ég er einfaldlega að segja að ef hann ætlar að svíkja þessa hluti eftir allt havaríið undanfarið þá er þetta algjör hálviti…..sem ég held að hann sé ekki. Þeir hafa einfaldlega viljað bíða eftir að þessi fjármögnun gengi í gegn áður en þeir gætu farið að hugsa um leikmannakaup og nýja völlinn…..sem er mjög skiljanlegt. Þetta með Klinsmann var hins vegar mjög bjánalegt.

  46. Grolsi #41, ég var eiginlega á klaufalegan hátt að taka undir með þér og gagnrýna þá tyggja peningatugguna í sífellu, ekki þig en sé að það er auðvelt að skilja það þannig. 🙂

    Ég held að þessi vetur hafi reynt ansi mikið á menn, okkur aðdáendur og hvað þá leikmenn og starfsfólk klúbbsins. Ég verð hinsvegar að játa að ég hef haft efasemdir um Benitez alveg frá öðru tímabili og í fyrra var ég kominn á það stig sem mér sýnist margir vera komnir á núna, með miklar efasemdir um stjórann en samt til í að gefa honum séns.

    Ég bara því miður hef ekki lengur trú á að Rafa nái að gera Liverpool samkeppnishæft við Manchester United sem er eina liðið sem við eigum að bera okkur saman við í Englandi. Þó hann sé fínn kall og hann eigi allt hrós skilið fyrir bikarana tvo þá hef ég bara ekki lengur trú á honum…ekki frekar en að Keegan eigi eftir að rífa Newcastle upp. Þetta tel ég vera útaf takmörkunum í honum sjálfum, stíl hans og áherslum burtséð frá því hver eigi klúbbinn og hvað hefur gengið á utan vallar.

  47. Takk Júlli 50#ég tek skýringu þína gilda og er sammála þér með það að ef þeir svíkja þetta þá eru þeir fyrsta klassa fífl ef ekki eitthvað þaðan af verra.
    Ég er algjörlega sammála Einari 30# og málflutningi Kristjáns Atla út í gegn. Benites verður að fá frið til að vinna sína vinnu og leikmenn ásamt honum að einbeita sér að viðfangsefni sínu.
    Það sjá allir menn

  48. Þakka þér Friðþjófur fyrir að segja mér fyrir um hvað ég sé og hvað ég ekki sé, veit ekki hvað ég myndi gera án þín.

    En það sjá líka allir að andleysið og sóknargetuleysið er ekkert nýtt af nálinni og því spurning hversu mikið hægt sé að fela sig á bakvið utanvallarmálin.

    En eigum við ekki bara að vera sammála um að vonast eftir góðu gengi fram á vor og sjá svo til í sumar, held að það sé málið á þessu augnabliki.

Liverpool – Havant & Waterlooville = 5 – 2

Liverpool mætir Barnsley heima í FA-bikarnum.