Rafa Benitez
Rafa Benitez
La-la-la-la Benitez
Chancel Mbemba, Gino Wijnaldum, Shelvey & Perez
Svona kyrjuðu áhangendur Newcastle á Anfield síðast þegar við mættum þeim vorið 2016. Ástæðan var ástfengni þeirra á nýja stjóranum sínum og taktíska meistaranum frá Madrid. Þeir voru orðnir hugfangnir af Rafalution byltingunni . Við Púlarar þekktum þessa tilfinningu mætavel eftir byltingarkennt og árangursríkt ástarsamband og höfðum ekkert á móti því þó að söngnum okkar hefði verið stolið norður í land til að hylla Rafa “okkar” Benitez. Reyndar keyptum við Wijnaldum úr erindinu stuttu síðar þannig að tónskáldin þurftu eitthvað að uppfæra söngtextann en því miður fyrir okkur þá svínvirkaði söngurinn sem áður var sunginn af ástríðu í The Kop og liðsstýring yrkisefnisins var formúlan til að ná í 2-2 jafntefli á þessum vordegi eftir að Liverpool hafði komist tveimur yfir. Þau úrslit dugðu Rafa til að vera áfram ósigraður í leikjum sem hann hefur stýrt gegn Liverpool en áður hafði hann náð nákvæmlega sömu úrslitum í einum leik með Chelsea og unnið tvo CL-leiki með Valencia.
En næsta sunnudag verður söngurinn mun háværari og sunginn af um það bil 50 þúsund upptjúnuðum Norðanmönnum. Og taktíski espanjólinn okkar fyrrverandi hefur unnið heimavinnuna sína samviskusamlega upp á 10,0 að vanda og mun mæta þýska þungarokkaranum okkar í þungum þönkum. Það verða því stálin stinn í fuglabardaga svarthvítu Skjóanna við eldrauða Liverfuglinn!
Hefjum upphitunina!
Sagan
Einvígi Liverpool og Newcastle hafa yfir sér áru sókndirfsku og sögulegra úrslita eftir marga frábæra leiki síðustu áratugina. Þar er auðvitað efst á blaði sá leikur sem oft er nefndur besti leikurinn í sögu Úrvalsdeildarinnar þegar meistaraefni Kevin Keegan lutu í gras 4-3 gegn mörkum Fowler og Stan the Man í apríl árið 1996. Upphitunarritari var svo lukkulegur að hafa einmitt farið á þann leik á Anfield í sínum fyrsta Liverpool-leik og séð berum augum þann kamakazi-fótbolta sem spilaður var það kvöldið. Meistari Beardsley var að sjálfsögðu í byrjunarliðinu fyrir þá röndóttu og hann er einn af fjölmörgum leikmönnum sem spilað hafa fyrir bæði lið. Viðskiptasamband liðanna er það sterkt að það skákar næstum tíðum innkaupaferðum okkar í Suðurhafnartúnum en á síðustu tveimur áratugum hefur Liverpool keypt leikmenn frá Newcastle fyrir yfir 75 milljónir punda samtals og tvívegis var keyptur þáverandi dýrasti leikmaður í sögu Liverpool.
Styrkleiki þeirra sem spilað hafa fyrir bæði lið er slíkur að ekki er annað hægt en að stilla upp í geysiöflugt sameiginlegt lið LiverCastle United FC. Taktíkin er að sjálfsögðu sókndirfska í ætt við kamakazi-fótbolta 4-3 leiksins og varnarleikurinn algert aukaatriði. Byrjunarliðið yrði svona:
Mike Hooper fær hanskana verandi eini markvörðurinn í boði og í hafsentastöðunum er bakvarðafílingur með Alan Kennedy, James Milner og Jose Enrique en sá síðastnefndi hefur reyndar hnykklað vöðvana í miðvarðarstöðunni í eitt skipti fyrir LFC. Varnartengiliðirnir eru ekki af verri taginu með keisarann Didi Hamann og og meistara Terry McDermott að verja baklínuna. Fram á við fer að færast fjör í leikinn með Digger Barnes á vinstri væng og Peter Beardsley fórnar sér fyrir málstaðinn að vanda með því að taka hægri vængframherjastöðuna. Keegan er settur í holuna til að mata markamaskínurnar Rush og Owen. Á bekknum er svo nóg af mönnum til að breyta gangi leiksins eða að lenda í tómu tjóni með golfkylfu. Þetta lið gæti spilað hinn líflegasta sóknarbolta með alla leikmenn upp á sitt besta og með grjótharða gutta aftar á vellinum til að strauja mann og annan. Ég yrði illa svikinn ef svona lið gæti ekki skilað 4-3 í flestum leikjum sínum.
En að sagnfræðilegum dagdraumum slepptum þá höfum við bara unnið 1 af síðustu 6 leikjum á St James’ Park og í heildina er sigurhlutfall Liverpool á þeim velli eingöngu 28% en þar höfum við tapað 44% af okkar leikjum. Nokkrir eftirminnilegir stórir sigrar hafa komið inn á milli eins og 0-6 árið 2013 og 1-5 árið 2008 en heilt yfir er þetta ekkert sérlega auðveldur útivöllur fyrir okkur þó að við tökum Newcastle oft í bakaríið á Anfield. Það er því engin sérstök ástæða til að vera sigurviss miðað við fyrri tíð.
Mótherjinn
Newcastle byrjaði tímabilið með tveimur töpum í deild og einum í deildarbikar og við það fór smá skjálftahrina í gang, sérstaklega sökum þess að Rafa hafði ekki fengið frjálsar hendur eða fjármagn til að annast sumarinnkaupin með aurapúkann Mike Ashley á handbremsunni. Aðgerða var þörf og Rafa fór í nýrnaaðgerð sem hafði svona aldeilis góð áhrif á liðið og það vann næstu 3 leiki í röð. Síðustu helgi tapaði liðið 1-0 fyrir Brighton en þeir sitja í 8.-10. sæti í deildinni með 9 stig og yrðu eflaust hæstánægðir með slíka niðurstöðu í deildinni næsta vor.
Þetta væri ekki lið undir Rafa ef það væri ekki vel skipulagt varnarlega og vörnin hjá Newcastle hefur eingöngu hleypt 5 mörkum í gegn í þessum 6 deildarleikjum. Enda eru varnarmennirnir í liðinu hæstir á einkunnalistanum skv. tölfræðinni hjá Whoscored og þar er bakvörðurinn Chancel Mbemba, varnartengiliðurinn Mikel Merino og hafsentinn Jamaal Lescalles efstir á blaði. Sprækastur fram á við er hinn skoski Matt Ritchie með 4 stoðsendingar en því miður fyrir okkur þá er hann lunkinn í föstum leikatriðum sem er alræmdur akkilesarhæll okkar. Það kæmi mér ekki á óvart ef Rafa myndi stíla inn á að fá sem flestar hornspyrnur til að gefa okkur hroll af stressi og reyna að pota inn marki eftir mistök.
Uppleggið hjá Newcastle er kunnugleg uppskrift með að liggja þéttir og skipulagðir aftarlega með snögga sóknarmenn sem bíða færis að sprengja fram á við. Þeir eru varla að fara að leggja langferðarbílnum á heimavelli en við getum gert ráð fyrir að þeir verði í kringum sitt 43% meðaltal með boltann. Í takt við það þá eru þeir rétt með eitt mark að meðaltali í leik og varla von á flugeldasýningum í sóknarleiknum. Undir Rafa er sigurhlutfall Newcastle 55,7% en allan hans tíma með Liverpool þá var það 55,4% og því er hann kominn með þá á gott sigurról þó að vissulega megi rýna í deildir og andstæðinga í þessum samanburði. Þeir verða því ekkert lamb að leika sér við nema það sé þá helst úlfur í þeirri sauðagæru sem bíður í dans.
Liverpool
Það er sem einhver tilvistarkreppa sé að hefta framþróun Liverpool þessa dagana. Fornir draugar fyrri jóla eru mættir aftur til að valda vandræðum í vörn og markvörslu en núna er ný afturganga í formi færanýtingar mætt á svæðið til að hrella sóknarmenn rauðliða. Eitthvað virðist vefjast fyrir okkur að skjóta síldina í tunnunni vopnaðir hríðskotabyssu og skæðadrífu af sóknarfærum dugar ekki til. Í síðustu 5 leikjum í öllum keppnum höfum við átt 119 skot að marki en það hefur eingöngu skilað okkur 7 mörkum sem er engan veginn nógu mikið þegar við getum sjaldnast haldið hreinu marki í hinum enda vallarins. Reyndar hafa gæðin ekki alltaf verið í takt við magnið en í þessum aragrúa af skotum leynast samt vannýttar vítaspyrnur, skot í tréverkið og markmannslausir galopnir markrammar sem illa gengur að hitta.
Heimspeki Klopp í knattspyrnulegri aðferðarfræði er rock & roll & go for goal og því er grundvallaratriði að nýta sóknarlega yfirburði þegar við erum að ná að skapa færin. Mörk breyta gangi leikja og 2-3 vel tímasett mörk af mýmörgum skotum á þessu tímabili hefðu klárað leiki sem við höfum misst í ósanngjörn jafntefli. Það má svo sem líka horfa á glasið ögn fyllra með því að benda á að við höfum eingöngu tapað 2 leikjum af 11 í öllum keppnum það sem af er tímabili og við erum í seilingarfjarlægð frá toppnum. Sóknarleikurinn hefur verið líflegur og herslumuninn hefur vantað til að vinna fleiri leiki. Það þýðir því ekki að gráta Björn Tore Kvarme bónda og átta sig á að í næsta leik eru 3 stig í boði sem þarf að heyja af túni.
Einhver rótering mun eiga sér stað eftir Rússkí-karamba-ferðalagið og Klopp gæti komið eitthvað á óvart með liðsvalinu. Ég ætla að spá því að hann gefi Karius annan séns og að Skotinn Robertson fái leik í námunda við landamæri heimalandsins. Að mínu mati verður byrjunarliðið svona:
Spaks manns spádómur
Rafa hefur ekki tapað fyrir Liverpool, söguleg tölfræði er gegn okkur og hingað til hafa allir mínir upphitunarspádómar endað með jafntefli. Eina skynsamlega niðurstaðan er því að leikurinn endi í jafntefli en þar sem ég er meira þrjóskur en skynsamur þá spái ég okkur 1-2 útisigri með mörkum frá Mané og fyrsta útivallarmarki Wijnaldum á Englandi.
Frábær upphitun, þvílík orðsnilld! Takk fyrir mig, er að vinna með einum tjalla frá Newcastle og Liverpool verður bara að vinna þennan leik annars verður Chris óþolandi næstu vikurnar.
Það er ekki hægt annað en að brosa og hlægja til skiptis þegar maður les svona upphitun.
Frábær penni.
Liverpoolhjartað spáir alltaf sigri en sjaldan spáir maður rétt þessa dagana. Ætla samt að prófa að spá 2-4 gegn öllum lögmálum Rafa.
Mané, Coutinho, Salah og Firmino.
Gaman að lesa þetta.
Ég vil sjá Firmino á bekkinn og Sturridge framm, hann er miklu betri slúttari og það þarf að spila honum á meðan hann er heill heilsu.
Spái þessu 2-4
Ég skil ekki hvað Klopp er að spá varðandi Ox. Afhverju er hann ekki búinn að nota hann meira í síðustu leikjum.? Það hafa komið góð tækifæri til að skipta honum inná en hann hefur ekki gert það. Sama á eiginlega við um Robertson, afhverju hefur hann ekki spilað meira? #vangaveltur
Sælir félagar
Takk fyrir líflega upphitun. Að mínu mati er þrennt í stöðunni og steindautt 0 – 0 jafntefli er líklegasta niðurstaðan. Rökin fyrir því eru; Benitez hleypir fáum mörkum í gegn, Við erum í markaþurrðar tímabili og bæði lið munu ekki vilja tapa þessum leik hvað sem það kostar. Því mun Rafa loka leiknum algerlega og aldrei þessu vant mun vörnin halda enda sóknartilburðir anstæðinganna fái og fátæklegir.
Annar kostur sem er jafn líklegur og sá þriðji er Benitez vinnur. Það er tölfræðin og taktískur skilningur Rafa á leiknum, útpældur varnarleikur sem hleypir engu í gegn og ein skyndisókna af þremur sem skilar einu marki 1 – 0. Þetta lið Rafa skorar lítið af mörkum en fær heldur ekki á sig mörg. Þannig að þessi möguleiki er ekki ólíklegu því miður.
3. möguleikinn og sá sem ég er hrifnastur af og er að mínu mati jafn líklegur og möguleiki 2 og hann er sá að Liverpool vinnur. Ef svo fer þá vinnur Liverpool stórt. Það er að segja ef Liverpool tekst að koma marki á Rafa snemma þá verða Newcastle menn að koma upp úr skotgröfum lokaðs varnarleiks og munu þá opna sig fyrir hröðum sóknum Liverpool. Það mun skila þeim einu til tveimur mörkum en okkar mönnum fjórum til sex.
Sem sagt 2 – 5 og tímabilið byrjar loksins hjá okkar mönnum. Það er öllum frjálst að velja einn m0guleikann af þessum nú eða eitthvað annað sem mönnum dettur í hug. Hitt er ljóst að ef leikurinn vinnst ekki þá fer hann annað tveggja í jafntefli eða tap. Mína spá er þriðji kostur og ég segi því 2 – 5
Það er nú þannig
YNWA
Flott upphitun!
Held upplegg Newcastle henti Liverpool ágætlega og ættla ég að spá 0-1 sigri okkar manna. Wijnaldum með markið.
Stigin þrjú sem í boði eru skipta öllu máli.
Áfram Klopp, áfram Liverpool.
Mjög ljóðræn og skemmtileg upphitun. Takk fyrir það.
Ég ætla að spá því að minn maður Salah skori ekkert og athuga hvort sú spá sé nóg til að koma honum almennilega í gang…reverse psycology sjáðu til…hver veit !
;O)
YNWA
#4 það sem þú ættir frekar að vera spyrja til hvers í andskotanum voru þeir að kaupa OX.
Sæl og blessuð.
Yfirveguð vörn og hreint lak. Mark á 47. mínútu og eftir það opnast gáttir hjá þeim röndóttu.
Spá ekki meira í dag.
Bið ekki um mikið bara 3 stig
0-2
Ef Karius byrjar þá er kallinn að missa það.
Á ekki von á því.
Leikurinn verður skemmtilegur og við vinnum.
Það er næsta víst.
Upphitunin klassi, takk fyrir það.
YNWA
Ég bið líka bara um 3 stig, því ekki höldum við hreinu í leik í dag !
#12 Við höldum hreinu í dag og á morgunn því leikurinn er ekki fyrr en á sunnudaginn!
Djö… er ég fyndinn. 🙂
YNWA
Frábær upphitun takk fyrir mig.
Líst mjög vel á þessa vörn, held að þarna sé hún einmitt.
Spái miklu nöldri hér ef við töpum en minna nöldri ef við vinnum.
Ágæt upphitun, en maður á alls ekki von á Karius í marki, ef svo er hoppa ég á Kloppout vagninn.
Migno verður í markinu, Karius var nú ekki að raða inn stigum í síðasta leik.
Þetta verður skemmtilegur leikur, en ekkert markaregn að þessu sinni.
1 eða 2 mörk hjá okkur, og ekkert frá þeim eftir traustan varnarleik okkar manna!
Stundum veit maður ekki alveg hvað er að gerast bakvið tjöldinn.
Ég er viss um að Klopp sé ekki of ánægður að þurfa að nota stundum Klavan en það var ástæða fyrir því.
Dejan Lovren has revealed that he’s taking up to five painkillers before each Liverpool game in order to cope with his injury woes.
“I am taking pills so I can play, five before every game.
“I play but I cannot train at all. That’s why I skipped matches against Manchester City and Burnley.”
I wanted to play, the coach put me in the team, but it is not good.
Takk fyrir frábæra upphitun!
Ég vona að Sturridge fái sénsinn en treysti Klopp fyrir sínu liðsvali. Þetta verður erfiður leikur en ég trúi því að okkar menn fari að finna grasfjölina sína og hitti annað en beint á markmanninn eða framhjá… vinnum 2-4
Er Lovren farinn að verða eins og Agger http://433.pressan.is/enski-boltinn/lovren-getur-ekkert-aeft-tekur-fimm-verkjatoflur-fyrir-leiki/ Hefðum átt að styrkja vörnina í sumar. # áhyggjuefni
Ef þetta er málið með Lovren er enn furðulegra að við höfum ekki styrkt þessa stöðu í sumar. En svona er þetta!
Djöfull er súrt að horfa á þetta Utd lið sem er eins og vél. Þvílík kaup í þessum Romelu Lukaku. Að pæla í því að við höfum verið ofar en þeir í fyrra en glugginn þeirra í sumar svo margfalt betri.
Það bara hlýtur að vera eitthvað samkomulag við Dijk í Janúar eða næsta sumar. Þetta var klúður í sumar og gert heiðursamkomulag að hætta eltast við leikmanninn…í glugganum. En það ætti ekki að eiga við í næsta glugga.
Liðið okkar ætti að vera nógu gott til að halda út að jólum. En með Lovren í vandræðum og Clyne game over þá er heldur betur verið að treysta á Gomez og Arnold…sem er hið besta mál þangað til annað kemur í ljós.
Sigur gegn Newcastle og takk fyrir upphitunina.
Frábær grein um Rafa og ástæðan fyrir því að hann valdi Newcasle. Elskaður í Liverpool og Newcastle.
http://www.chroniclelive.co.uk/sport/football/football-news/story-behind-rafa-benitezs-love-13694571
YNWA Rafa
Án þess að gera lítið úr united þá eru þeir búnir með neðstu liðin í deildinni. Efsta liðið sem þeir hafa mætt er í 12 sætinu.
Dæmi þá eftir Liverpool leikinn.
#24 Já ég er ekki alveg að nenna þessu United rúnki, sjáum til þegar þeir fara mæta stóru klúbbunum.
Þeir klára allavega minni liðinn!
verð bara að segja að það er kjánalegt þegar menn eru að tala um að united sé bara buið að spila við “litlu” liðin, þetta eru einmitt leikirnir sem vinna deildina og leikirnir sem við höfum verið að drulla á okkur í undanfarin ár.. það er eðlilegt að við berum okkur saman við hin topp liðin og eins og staðan er þá eru manchester liðin i algjörum sérflokki i þessari deild
Bara svo það sé sagt þá fengum við tíu stig úr sömu sex leikjum og við höfum fengið 11 stig á þessu tímabili.
Vá, frábær upphitun…takk fyrir mig.
Sammála #27, þó að manutd sé ekki búið að mæta stóru liðunum þá eru þeir að gera akkúrat það sem þarf til þess að fara langt í þessari deild. Góður árangur gegn minni liðum gefur svigrúm til að spila mjög varnarsinnað á móti betri liðunum og það er leikstíll sem móri hefur masterað.
Hvað varðar lfc þá er greinilegt hikst í gangi hjá liðinu en almennt séð ætti spilamennskan í t.d. sevilla og spartak leiknum að skila sigri í hús og vonandi slípast þetta. Ferlegt hvað Firmino hefur verið slakur eftir síðasta landsleikjahlé, eins og hann var góður í upphafi…við verðum að fá meira útúr honum.
Hættiði að skrifa svona flottar upphitanir. Ég hef ekki tíma í þetta. Einhvern tímann verð ég að vinna!
Ég er sammála mönnum sem eru sammála um það að utd rúnk má vera úti.
Spila á móti neðri eða efri eða hvernig sem menn líta á það, skiptir ekki máli.
Við þurfum að vinna næsta leik og svo leikinn þar á eftir (sem er reyndar utd) og taka okkar stöðu þaðan.
City p?kkuðu Chelsea saman og verða erfiðir. Hef engar áhyggjur af hinu liðinu.
Okkar stríðsmenn þurfa að rísa upp og stinga.
Það gerist á móti þeim svarthvítu. Það er næsta víst.
YNWA
Æðisleg upphitun. Þessi síða sko!
Ég er nú bara þannig gerður að mér verður hálf óglatt þegar ég sé kjaftfora ógeðið ná svona góðum úrslitum með þessu liði sínu. Við verðum að vinna leikinn í dag, get ekki skallað veggi mikið lengur!!
Mikið rosalega þurfum við sannfærandi sigur.. ég ætla að spá honum í dag …. spái 1-4 sigri okkar manna
Coutinho með 2 og Sturridge 2 takk fyrir..?
Rosalega pressa á okkar mönnum þar sem Manchester-liðin vinna bara alla leiki!
Verðum að vinna þennan leik, það er ekkert öðruvísi. Spá naumum 1-2 sigri, Mane með bæði.
Margaret Aspinall er heiðursgestur í boði Rafa í dag, mikill höfðingi hann Rafa.
#32 kjaftfora ògeðið! Sýnum nù smá þroska og gleymum því ekki að Klopp tuðar í aðstoðar dòmaranum í 90 min og er hann þá líka kjaftfor ògeð?Höldum þessu á gòðir plani og berum virðingu fyrir öðrum því við höfum ekkert efni á að vera með skitkast út í aðra.
Rökrétt byrjunarlið. Can og Firmino teknir út en þeir voru daprir í síðasta leik.
Mignolet,
Gomez, Matip, Lovren, Moreno,
Henderson, Wijnaldum, Coutinho,
Salah,Sturridge, Mane
Bekkur: Karius, Klavan, Milner, Can, Oxlade-Chamberlain, Firmino, Solanke.
Ég ætla að spá þessu 1-1