Æji bara ýmislegt, en samt eiginlega ekki neitt

Þið sem lesið síðuna reglulega ættuð að vera farin að þekkja okkur sem skrifum á hana núna. Það ætti til dæmis ekki að koma neinu ykkar á óvart að Einar Örn hefur minna álit en flestir á Dirk Kuyt, né það að Aggi myndi gefa Johnny Riise á tombólu ef hann hefði tök á því. Eins ætti það að koma fæstum ykkar á óvart að ég skrifi pistil á sunnudegi, sérstaklega ef liðið átti slæman dag innan vallar á laugardeginum.

Ég ætlaði að skrifa einhvern ægilegan pistil í dag en kom mér aldrei að því. Málið er að eins og staðan er þessa dagana er svo margt sem hægt er að segja og maður þyrfti í raun að eyða einum pistli í hvert málefni. Ég get hins vegar ómögulega valið um hvað ég vil fjalla fyrst, þannig að ég ætla að koma frá mér nokkrum óskipulögðum hugsunum sem sitja eftir í kjölfar tapsins í gær.

**1:** Mér leiðist þegar lesendur þessarar síðu hrúgast inn í ummæli leikskýrslna, allt að því sigri hrósandi yfir slæmum tapleik, til að gera grín að okkur sem voguðum okkur að hafa einhvern tímann trú á Benítez. Það er einfaldlega óþolandi að þurfa að sitja undir því að vera kallaður Pollýanna, eða líkt við blinda stuðningsmenn, af því að maður vogaði sér að vísa í pistil eftir Paul Tomkins eða verja Benítez einhvern tímann gegn óvæginni gagnrýni.

Þið sem gerið þetta, vinsamlegast hættið þessu. Það er ykkur sjálfum ekki til framdráttar að koma hér inn og hrósa ykkur sjálfum fyrir að hafa nú verið fyrst til að leggjast í þunglyndi yfir vonbrigðum sem þá voru ekki einu sinni orðin að veruleika. „Er nú komið í ljós það sem ég sagði fyrir ári síðan …“ – Í alvöru, hverjum er ekki sama hvenær „þú“ misstir trúna á Benítez? Jafnvel þegar trúin er engin, vonum við ekki samt öll innst inni að maðurinn við stjórnvölinn nái að snúa þessu við og sanna að við höfum rangt fyrir okkur?

Sjálfur veit ég ekki hvar ég stend í dag. Ég veit að ég er hvorki reiðubúinn að lýsa yfir stuðningi við Benítez, né reiðubúinn að kalla eftir tafarlausri afsögn hans. Og nei, það er ekki af því að ‘Liverpool reka ekki menn á miðju tímabili’. Ef ég teldi það liðinu til framdráttar myndi ég kalla eftir því að Benítez hætti strax í dag, en ég einfaldlega er ekki á þeirri skoðun. Ekki ennþá, og ég skal útskýra af hverju:

– Meistaradeild Evrópu. Eftir tæpa tvo sólarhringa hefja okkar menn viðureign gegn núverandi meisturum Ítalíu, Inter, í 16-liða úrslitunum. Og ef staðreyndirnar tala sínu máli í Englandi og segja okkur að Benítez hafi ekki það sem til þarf til að vinna deildina með Liverpool, þá segja staðreyndirnar það líka að ef það er einhver þjálfari í Evrópu sem er líklegastur allra til að fara með lið sitt í úrslitin í vor, þá er það hann. Benítez er einfaldlega bestur í Meistaradeildinni, og því er algjör hálfvitaskapur að halda að liðið sé betur statt án hans á meðan það er enn að berjast um titil í Evrópu.

– Fjórða sætið. Já, fjórða sætið. Þetta eru gífurleg vonbrigði, að liðið sé enn einu sinni að berjast um fjórða sætið, og ég ætla ekki að neita því. En til að væntanlegur næsti þjálfari Liverpool geti komið inn í sumar og tekið við heilbrigðu búi – bæði hvað varðar leikmannahóp og framtíðarhorfur til styttri tíma litið – er algjört möst að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Hvaða þjálfari Liverpool hefur náð að tryggja liðinu þátttökurétt í Meistaradeildinni þrjú tímabil í röð? Jú, það er aðeins einn maður sem hefur afrekað það: Rafael Benítez.

Þess vegna er ég á því, eins og staðan er í dag, að ég treysti Benítez öðrum betur til að reyna að fara í gegnum Inter og lengra í Meistaradeildinni, og sigra Everton í baráttunni um fjórða sæti Úrvalsdeildarinnar. Nota bene, ég sagðist ekki vera reiðubúinn að styðja Benítez, og ég stend við það. Hann mun fá að svara fyrir vonbrigði vetrarins og sína galla sem framkvæmdarstjóri, í sumar. Hann mun væntanlega gjalda fyrir með starfi sínu, og það mun ég ekki verja ef af verður. En ég vill fyrir alla muni sjá hann klára þetta tímabil, hvað sem verður í framhaldinu.

**2:** Já, og varðandi galla hans, þá þurfið þið sem kallið okkur síðupennana Pollýönnur bara að lesa leikskýrslurnar síðustu árin. Það er langt síðan við fórum að agnúast yfir lélegum innáskiptingum Benítez. Það er langt síðan við fórum að væla yfir því að hann setti Crouch alltaf út úr liðinu þótt hann skoraði reglulegar en flestir (Cissé lenti í þessu líka, og nú virðist Babel vera að lenda í þessu sama). Rótering er réttmæt og góð aðferð til að reka stórlið ef hún er rétt framkvæmd. Vandamálið við Benítez er að hann er farinn að gera æ fleiri mistök í róteringunni eftir því sem lengra líður.

**3:** Þá að næstu samhengislausu hugsun. Hér er staðreynd: Manchester United töpuðu á Old Trafford í Deildarbikarnum sl. haust gegn … Coventry. Sir Alex Ferguson hvíldi nokkra lykilmenn og hinir leikmennirnir í hópi hans ollu gífurlegum vonbrigðum. Coventry unnu 0-2.

Pointið er það að svona lagað gerist hjá öllum liðum. Þetta gerist sjaldan, en gerist samt. Í gær lék Liverpool-liðið illa og ég er ekki að gefa í skyn að það eigi að hlífa mönnum við réttmætri gagnrýni bara af því að þetta kom fyrir United líka. En ég er engu að síður að reyna að biðja menn um að róa sig. Þessi eini leikur þýðir ekki að Benítez sé „spænskur aumingi“ eins og einhver miður málefnalegur ummælandinn sagði eftir leikinn í gær, né heldur að leikmennirnir séu allir glataðir og allt ónýtt. Ef liðið vinnur svo Internazionale á þriðjudag, ætla menn þá að lýsa því yfir að Benítez sé ótrúlegur snillingur og liðið algjörlega á heimsmælikvarða?

Staðreyndin er sú að liðið – og stjórinn – eru hvorugt. Því miður. Benítez er ekki glataður, hann er vissulega með færari stjórum Englands um þessar mundir. En hann er ekki gallalaus, og á meðan gallar hans hindra liðið í að vinna Úrvalsdeildina mun hann aldrei fullnægja þörfum stuðningsmanna Liverpool. En það þýðir samt ekki að hann sé ónytjungur. Né heldur þýðir sigur á Inter – skyldi sú niðurstaða verða raunin – að liðið sé stórgott eins og er og engin sé þörf á úrbótum í sumar. Ekki neitt frekar en að léleg frammistaða manna gegn Barnsley þýði að það þurfi að selja alla. Menn verða að anda rólega eftir tapleiki eins og þann sem við sáum í gær og horfa raunsæjum augum á hlutina. Lífið er sjaldnast svart eða hvítt, það er nær alltaf grátt. Mismunandi grátt.

**4:** Fyrir mér, persónulega, hætti þetta tímabil að vera „spennandi“ þegar okkar menn töpuðu fyrir Reading og Man Utd í deildinni með viku millibili í desember. Tapið fyrir Reading var kannski ekkert rothögg, enda fyrsta tapið í Úrvalsdeildinni og það eftir rúmlega þriggja mánaða spilamennsku. En að tapa fyrir United líka þýddi að maður gat ekki lengur vonað að liðið hefði það sem til þarf til að vinna Úrvalsdeildina í ár.

Í kjölfar þessa leikja hef ég einhvern veginn róast og horft á leikina af forvitni frekar en spennu. Það sem mun gerast fram á vorið einfaldlega gerist, og þeir leikir sem eru framundan eru eru í raun bara það sem liðið og stjórinn þurfa að ganga í gegnum áður en sumarið kemur. Sumarið er fyrir mér sá tími sem Liverpool FC fer að verða spennandi aftur, því þá kemur sá tími (enn eitt árið) að menn geta reynt að laga það sem aflaga fór. Þangað til mun ég horfa á leiki Liverpool meira af forvitni en spennu, því þetta tímabil er búið fyrir mér …

… nema að sjálfsögðu, ef okkar menn vinna góðan sigur gegn Inter á Anfield á þriðjudaginn. Þá er þetta tímabil að sjálfsögðu sprelllifandi ennþá og maður fer að leyfa sér að vona, enn á ný.

Til að gera langa sögu stutta: slakið á, horfið á Liverpool án of mikilla væntinga fram á vorið, andið rólega yfir því sem verða (væntanlega) síðustu 15-20 leikir Liverpool undir stjórn Rafael Benítez, biðjið bænirnar ykkar á kvöldin í þeirri von að nýir eigendur verði komnir til Liverpool fyrir páska, og síðast en ekki síst, reynið að muna hvað Benítez hefur gefið ykkur á þremur árum (Istanbúl ’05, Cardiff ’06, Aþena ’07, 8-0, Luis García, Torres, Pepe Reina, bikarsigrar gegn Chelsea, sigurinn á Nou Camp, og svo mætti lengi telja) … maðurinn hefur gefið okkur margar góðar minningar og á ekki skilið, þótt hann sé nokkuð augljóslega á leiðinni að hinum bitru endalokum hjá Liverpool, að vera kallaður öllum illum nöfnum þótt þetta tímabil fjari út í vonbrigðum og óuppfylltum loforðum.

39 Comments

  1. Takk fyrir góðan pistil. Hef sjálfur ekki mikla trú á því að ótímabærum og illa yfirveguðum brottrekstrum framkvæmdarstjóra. Yfirleitt eru ensk lið sem skipta oft um stjóra illa stödd. Berið saman annars vegar Man. U og Arsenal og hins vegar t.d. Newcastle. Gott að halda til haga öllu því góða sem Benitez er búinn að gera fyrir félagið og okkur síðustu árin. Er búinn að halda með liðinu í 40 ár og Istanbul leikurinn við AC Milan er hápunkturinn á því tímabili.

  2. smáleiðrétting. tveim orðum ofaukið í fyrstu setningu.
    “Takk fyrir góðan pistil. Hef sjálfur ekki mikla trú á ótímabærum og illa yfirveguðum brottrekstrum framkvæmdarstjóra. “

  3. Þú ert að grínast með að bera barnsley slysið á móti þegar coventry tók United.

    Við stilltum upp mun sterkari liði en united gerð í sínum leik.

  4. Þetta er reyndar fínasti pistill. En ég held að þessi gamla saga um að Liverpool reki ekki menn á miðjum tímabilum eða á röngum tímapunkti sé bara að verða nokkuð þreytandi. Maður verður að fara að spyrja sig hvort það geti ekki bara verið að við séum hreinlega búnir að vera of linir og látið vitlausa menn stjórna liðinu of lengi í hvert sinn. Það styttist í að það verði 20 ár síðan við unnum þennan titil. Í raun vorum vil einungis nálægt 1 sinni sumir vilja kanski telja in 1 til 2 ár í viðbót. Þetta segir manni bara að þessi Liverpool-way er hreinlega löngu orðin úrelt, því miður.

    Og síðan finnst mér verst af öllu að svona slys einhvernvegin lá í loftinu. Við erum búnir að vera að tapa stigum á móti lakari liðum í deildinni á alveg hrikalega klaufalegan máta, en svo ég haldi mig við bikarinn, Luton, Havan og Waterlooville og nú síðast Barnsley. Ég ætla ekkert að vera að krifja þessa leiki þar sem ég tel að menn sem fylgjast með LIÐINU OKKAR viti um hvað ég tala.

    Hins vegar er það rétt, að við vonum að Benitez nái að snúa þessu við, en það verður að gerast núna, tal um að við séum á réttri leið dugir ekki, við vonum að það gangi vel gegn Inter. En í deildinni eru það stigin sem telja, ekki færin.

    Það gæti allt eins orðið dýrt að bíða of lengi eftir með að láta stjórann fara, eins og að halda að það sé til einhver réttur tími til að reka.

  5. Frábær pistill hjá þér. Ég verð nú líka bara að segja að þótt mér finnist Benítes vera með marga galla, þá er hann samt löngu buin að sanna sig, og ég veit ekki hvern við ættum svosem að fá í staðinn. Ég væri alveg tilbúinn að gefa honum næsta tímabil líka. Meðan að leikmennirnir standa með honum þá á ekki að reka hann. Alex Ferguson varð ekki sigursæll á fyrstu tímabilunum, en sem betur fer fyrir man-u aðdáendur var hann ekki rekinn. Ég segi bara stöndum saman og reynum að standa með Benítes á þessu erfiða tímabili. YNWA

  6. Ég skil af hverju þú minntist á Coventry leikinn, en það er samt ekki sambærilegt að bera saman Deildabikarinn og FA bikarinn 🙂 En þú bendir réttilega á að svona gerist, en auðvitað á B-liðið okkar að vinna Barnsley. A mínus liðið gerði það samt ekki…

    Til gamans er hér liðið sem Man U stillti upp gegn Convetry í september síðastliðnum: Kuszczak, Bardsley (Brown 45), Evans (Carrick 56), Pique, Simpson, Nani, Martin (Campbell 45), O’Shea, Eagles, Dong, Anderson.

    Flottur pistill annars Kristján.

  7. sælir og sælar

    Sammála þessu með ummælin hérna eftir tapleiki. Þau eru alltof of oft út úr öllu korti.

    Rafa á að klára tímabilið! brottrekstur og einhver “panic” ráðnig leysir ekki
    neitt. En ég er að verða sannfærðari og sannfærðari um að hann komist ekki lengra með liðið. Jafnvel sigur í CL myndi ekki breyta því. Ég, eins og svo margir aðrir, vill bara ensku dolluna.
    Staðreyndin er engu að síðu sú að ég er reiður! Reiður og sár. Liverpool skiptir mig öllu máli. Ég er algerlega heltekinn Liverpoo “fan” ég get einfaldlega ekki þolað að tapa fyrir Barnsley í 16-liða úrslitum bikarsins (sérstaklega ekki þegar deildinn er farinn) og ég vil fá svör og ég vil að einhver komi fram og segi að liðið hafi drullað verulega á sig og héðan í frá verði gerðar breytingar!
    Í mestu reiðinni eftir leikinn í gær vildi ég fyrst af öllu að nú yrðu algerlerar hreinsanir. Öllu draslinu yrði skipt út; Leiktimabilið afskrifað og nýtt (algerlega nýtt) þjálfarateymi kæmi, Varaliðs leikmenn myndu klára deildinna að mestu leyti, og menn innan vallar sem utan myndu fá að finna fyrir því! Í raunveruleikanum er þetta ekki hægt.

    Ég hætti aldrei að styðja Liverpool, aldrei nokkurn tíma!!!!!
    Eeeeeen. Þetta er ekki hægt lengur.

    Sigurjón

    p.s.
    Þetta er besta fótboltavefsíða landsins. þrefald húrra fyrir þeim sem halda henni uppi.

  8. Já þetta er frábær pistill !
    Eina sem ég er sár yfir er að mér finnst Liverpool liðið ekki vera að spila nógu skemmtilegan fótbolta undir stjórn Rafa, jú vissulega gera þeir það í stærstu leikjunum og þá finnst mér Liverpool vera besta lið í heimi. En í venjulegum leikjum finnst mér vanta ótrúlega mikið uppá. Það er lítið flæði í leiknum og of mikið af farþegum.

    Höldum þessari síðu áfram sem bestu fótboltasíðu landsins !
    Kveðja Jói

  9. Ég skal lofa ykkur því ef Benítez fer mun ég ávallt styðja hann framm að því og eftir að hann fer(vonandi ekki). Ég treysti honum alveg fullkomlega til að leiða þetta lið til EPL titilsins.

  10. Svo hjartanlega sammála, einn daginn eru Liverpool bestir og Benítes bestur, en það er bara dagurinn sem þeir vinna og helst bursta.. en svo þegar þeir tapa þá og kannski 2 í röð þá alveg brjálast menn. Þetta er einsog með Íslenska landsliðið í Handbolta..

    Ég er ekki frá því að þetta hafi gerst líka þegar fyrri umferð riðlakeppninar var búin, en svo þegar þeir unnu rest og það vel, þá er Benítes aftur orðinn flottastur og liðið alveg að brilla.

    Síðan þegar Benítes vinnur Meistaradeildina í vor þá eiga allir þessir anti-pollyonnur eftir að éta þetta ofan í sig og gleyma þessu um leið og benítes verður flottastur á svipstundu.

  11. Ég nennti ekki að blanda mér í umræðuna eftir leikinn í gær, las bara leikskýrsluna en ekki eitt komment, enda þarf maður ekki að hafa lesið þessa (eða sambærilegar síður) lengi til að fatta um hvað umræðan verður eftir svona hörmung.
    Miðað við væntingar er þetta tímabil einhver mestu vonbrigði sem ég man eftir sem stuðningsmaður Lliverpool og síðustu þrjír bikarleikir hafa einfaldlega verið niðurlaægjandi, ásamt nokkrum leikmönnum þess í allan vetur.
    Það er búið að margræða og pæla í hinum ýmsu ástæðum fyrir þessu gengi (hruni) liðsins og reyndar held ég að þetta vinni allt saman og að vandamálið í ár sé stærra en bara Rafa Benitez.

    Ég er fyrir mitt leiti ennþá svo vitlaus pollýanna að ég vill ekki gefast upp á Rafa og held svei mér þá að þessar pælingar séu einhvað það besta sem ég hef lesið frá KAR.

    Líklega verður Rafa látinn fara en þolinmæðin lítil sem engin fyrir mönnum í hans starfi og við byrjun enn eina ferðina á byrjunarreit, frábært.

  12. Gott að sjá að þú ert hinn raunsæji sunnudagsmaður Kristján! Segir þarna nær allt sem segja þarf, sérstaklega er ég sammála þér í því að það er afar þreytt að svara fyrir það að hafa stutt Benitez. Er á þinni línu, tel tíma hans lokið eftir tímabilið, þetta er svona “deja vu” með síðasta tímabil Houllier, við vissum öll að þetta væri búið. Hann veit það held ég líka núna!
    Ég fagnaði komu Benitez MIKIÐ. Sem starfandi þjálfari á þeim tíma las ég mikið um hann og fylgdist mikið með Valencialiðinu hans. Það var agað, hápressaði og var eitt flottasta liðið sem komið hefur frá Spáni. Fyrstu tvö tímabil hans hjá Liverpool hefði ég verið til í að eiga með honum börn! Og langt fram á það síðasta.
    Því miður held ég að upphaf þess að maður sá að England væri honum ofviða var 3-6 leikurinn gegn Arsenal á Anfield. Ég var á Anfield og á Park kvöldið áður og allir þar voru handvissir um að hann myndi spila góðu liði þar sem við værum dottnir úr FA-bikarnum. En Benitez var ekki haggað og við féllum út með skít og skömm í raun, þó við hefðum öll reynt að verja hann. Síðustu 4 leikirnir í deildinni voru ekki merkilegur pappír eftir að við töpuðum í Istanbúl, en maður var samt til í að skoða dæmið í haust því nú fengjust peningarnir.
    Haustið byrjaði fínt. Ég reyndar var AFAR undrandi á liðskipan Benitez gegn Marseille í CL á heimavelli, fannst þar eitthvað skrýtið á ferð og held jafnvel enn í dag að hann hafi ætlað að stilla CL aftarlega í vetur miðað við uppstillingu þess leiks. Svo einfaldlega hafi hann komist að því að eigendurnir settu keppnina á oddinn. Eins og hann vill sjálfur held ég.
    Ég er svo sammála þér að eftir United á Anfield fór ég tómur heim, sannfærður um það að þar með væri titillinn ekki í augsýn meir. Sem kom svo í ljós fljótlega.
    Þá heimtaði maður langt FA-cup run sem endaði á ömurlegan hátt í gær! Héðan af er tímabilið pressulaust og ég persónulega er ekkert viss um að sæti í CL sé það sem liðið þarf. Ég er meira á því að menn söðli bara um, losi þá leikmenn sem ekkert geta frá og leyfi þeim yngri að spila, þó það þýði neðar en sæti nr. 4. Souness ræfillinn lenti í vandræðum vissulega en hann kom ungum mönnum af stað, McManaman, Redknapp og Fowler af stað, þó við enduðum í 6.sæti. Eitthvað svoleiðis myndi alveg hugnast mér, er með velgju um umræðuna um þessa ofurdeild, Champions League. Vill fá enskan titil.
    Benitez er þrjóskur og stendur og fellur með sínum ákvörðunum. Mikið var talað um það á Spáni að hann tæki allar ákvarðanir fyrir leik, þ.á.m. skiptingar. Sennilega átti það við um helgina. Eins og sást virkar það ekki á Englandi, þó það hafi tekist á Spáni.
    Ég held því að hann falli núna á sverðið sitt. Því miður, hann verður alltaf goðsögn á Anfield fyrir fyrstu 2 tímabilin sín og heimsóknina á pöbbinn í Leverkusen, en ef að hann ætlar að meika eitthvað þarf hann að brjóta upp sínar aðferðir, sem virkuðu á Spáni, og læra meira um það að vinna ensk fótboltalið. Einhvernveginn held ég að það gerist ekki.
    Ég segi svo enn og aftur, ég vill engan fá sem þekkir ekki leiki eins og þann sem við töpuðum um helgina. Ég vill fá þjálfara sem vinnur bardagaleiki sem þekkjast bara í FA cup, ég vill fá mann sem er vanur að fara til Watford á þriðjudagskvöldi í febrúar og vinna leik í drullusvaði og frosti!
    Ég vill ekki fá nýjan meginlandsmann sem ekkert þekkir til enskrar knattspyrnu nema eins og við flest – úr sjónvarpi.
    Breta takk. Sem veit hverjir geta eitthvað í Liverpool og hverjir eiga að taka næstu ferju frá Alberts’ Dock!!!!

  13. Frábær pistill og lýsir miklu af því sem ég hef verið að hugsa. Ég er einmitt líka orðinn hálf tilfinningalaus gagnvart Liverpool eftir að við duttum út úr deildinni. Tapið á móti Barnsley bara kom mér ekkert á óvart miðað við gengi liðsins að undanförnu. Þó þeir hafi verið miklu betri og allt það þá er einfaldlega andinn í herbúðum Liverpool á þann veg að menn hafa enga trú á því sem þeir eru að gera. Ef menn geta svo ekki áttað sig á því að ef Kuyt skorar þá ætti allt að vera hægt og rústa leiknum eftir það þá áttum við ekki betra skilið.
    Það sem fer í taugarnar á mér eru einfaldanir á heimi knattpsyrnunnar sem maður verður oft vitni að í ummælum á þessari síðu sem og öðrum. Að kaupa og selja leikmenn og ráða þjálfara eru flókin viðskipti í alvörunni. Þeir sem heimta nýjan þjálfara eru oft að kalla eftir einhverju sem er auðvitað engan veginn pottþétt að virki. Menn hafa nefnt hér nöfn hinna og þessara þjálfara sem ég er bara ekkert viss um að muni ná betri árangri en Benitez. Það sem er forgangsatriði í dag er að leysa þau vandamál sem eru til staðar og byrja á toppnum. Annað hvort taka kanarnir við sér og fara að reka þennan klúbb eins og menn eða selja hann til enhverra sem hafa actually áhuga á knattspyrnu og smá vit á íþróttinni. Ef menn byrja ekki á að leysa þessi mál þá mun ekkert gerast annars staðar. Hvaða leikmenn haldið þið að myndu vilja koma til Liverpool með svona menn við stjórnvölinn? Þegar búið er að leysa þetta þarf að ræða við Benitez um framtíðarsýn hans, spyrja hann t.d. hvort hann telji að þeir leikmenn sem við vitum allir hverjir eru séu nógu góðir fyrir liðið. Hvað ætlar hann að gera til þess að leysa þennan hugmyndasnauða fótbolta. Svo þarf ekki síður að ræða við Gerrard og Carragher og fleiri lykilmenn á trúnaðarfundum sem þjálfarinn veit helst ekki af. Spyrja þá í alvöru hvað finnst þeim að þurfi að gera svo liðið nái árangri. Þegar þetta er búið er annað hvort haldin tryggð við Benitez í eitt tímabil enn og hann lætur þá frá sér lista af leikmönnum sem þarf að selja og kaupa og setur sér markmið sem þarf að ná eða menn velta fyrir sér eftirmanni sem hefur hugmyndir sem samræmast hugmyndum eigenda liðsins um hvernig árangri skal náð og innan hvaða tímaramma. Þetta tekur allt saman tíma. Ef menn ætla að reka Benitez núna og láta svo einhvern caretaker manager sjá um liðið í einhverja leiki o.s.frv. þá endum við bara í panic ráðningu eins og newcaslte með Keegan og engan árangur.
    Ef Rafa verður rekinn þá á bara nýr þjálfari að segja beint út við verðum meistarar eða allavega í mikilli baráttu um titilinn á næstu þremur árum eða ég hætti með liðið.

  14. Ég ætla alvega að segja “I told you so”, en ekki til að þykjast vera eitthvað betri en aðrir. Alveg eins og þér Kristján leiðast svoleiðis komment, því ég kom með eitt kaldhæðið á þann veginn í gær leiðast mér alveg ferlega komment sem eru eins og eru búin að vera eins í allt of langan tíma. Komment á borð við “þarf að gefa honum tíma”, “ekki honum að kenna, leikmönnum”, “eigendurnir”, “Alex beið í sjö ár”, “bring Pako back”. Mann langar stundum að hrista þessa menn og spyrja, eruð þið blindir?

    Ég þakka Benitez kærlega fyrir Istanbul, Cardiff og að hafa komist til Aþenu. Mér finnst hann hafa keypt góða leikmenn og hef ítrekað þá skoðun hér. En ég er orðinn jafn þreyttur á niðurlægingum eins og Arsenal 3-6, Havant og Waterlooville, Barnsley, Burnley, Fulham og svo nær öllum leikjum við toppliðin þrjú. Ég er orðinn þreyttur á því að tapa og gera jafntefli á Anfield, er orðinn þreyttur á afsökunum eftir leiki og ég er mjög þreyttur á því að heyra háðsglósur frá öðrum stuðningsmönnum og fréttamönnum sem bera enga lifandis virðingu fyrir Rafa og það sem verra er klúbbnum okkar.

    Rafa er fyrir lifandis löngu búinn að mála sig út í horn. Síðan í haust hefur tilfinningin í kringum liðið verið eins og hjá pari sem er að hætta saman og á að hætta saman út af því að þeim líður illa en er bara ekki alveg að klára break-uppið útaf því að einu sinni voru þau svo sæt og góð við hvort annað.

    Hef aldrei álitið ykkur stjórnendurna Pollýönnur. En mér finnst Rafa alls ekki eiga skilið stuðningsmenn eins og Liverpool-menn eru þegar hann ítrekað móðgar okkur með skiptingum á borð við Babel um helgina. Eins og ég spurði bróður minn um helgina, hvaða klúbbur í heiminum hefði sýnt manninum þessa þolinmæði miðað við árangur? Enginn nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík.

    Og Rafa náði ekki sjálfkrafa inn í Meistaradeildina í gegnum deildina eitt árið, honum var hleypt í gegn eftir lobbýisma í UEFA. (Mér fannst nú sjálfsagt að meistararnir verðu titilinn sinn en það breytir ekki því að liðið hans Benitez náði ekki tilsettum árangri í deild)

    Maður styður alltaf liðið sitt því maður vill því vel. Það besta sem ég held að gæti gerst væri að fara að leita að nýjum manni. Þetta er bara orðinn jafn mikill farsi og hjá Villa Vill.

  15. Í staðinn fyrir að segja “það eru allir svo neikvæðir” þá væri áhugavert að velta því fyrir sér “af hverju eru allir svona neikvæðir?”

    Það er hundleiðinlegt að vera neikvæður…alveg ferlega leðinlegt. 🙂

  16. mér finnst þessi pistill slakur. Reynar alveg sorglegur.

    rökstuðningu:
    a. að falla úr deildarbikar og FA bikarnum er einsog að bera saman reykjavíkurmótið og Visa bikarkeppnina.
    b. Man utd stillti upp liði sem ég get ekki haf eftir, eftir að ég las það yfir. Liverpool gerði það ekki.
    c. að banna fólki að hafa skoðun- að segja fólki að hætt að segja að það sé þér ósammála er auðvitað hlægilegt og ólýðræðislegt. Hlægilegra en hvað þið studdið þennan RAFA lengi.
    d. það er öllum sama hvort þú styðjir rafa eða ekki, eða allaveganna jafn sama og þér er um þá sem styðja hann ekki og hafa sagt það í gegnum tíðina.
    e. stuðningsyfirlýsing frá þér hefði sennilega víðtæk áhrif á bretlandi og myndi styrkja stöðu Rafa mikið…..ertu að grínast, ertu ekki viss um hvort þú viljir lýsa yfir stuðningi. Þeim í LFC gæti sennilega verið enn minna sama en þér um skoðanir annara sem eru þér ósámmála. En það gæti samt verð að þú myndir gleðja þá- bara hvað þetta er kjánalegt.
    f. hvað hefur þessi rafa skilið eftir margar óminningar….e-h sem ég vil alls ekki muna, hversu marga leiki sem voru svo leiðinlegir að maður var farinn að rífa í uppvaskið, hversu marga klukkutíma af kuyt, finnan, crouch, RIISE, og hvað þessir aular margir hverjir heita.
    g. hvað eru mörg kaup hjá þessum manni ömurleg, margar skiptingar útúr kú og hversu litlaus og leiðinlegur er hann í viðtölum. Afsakanir á einn veg.

    ég kann varla meira í stafrófinu til að skrifa meira, en í grunninn. Kristján Atli þú bullar en maður getur hlegið að þér, ekki með þér, að þér!!!

  17. Kristján Atli þú bullar en maður getur hlegið að þér, ekki með þér, að þér!!!

    Afhverju í ósköpunum ertu þá að lesa þessa síðu?

    ég kann varla meira í stafrófinu til að skrifa meira

    Þú virðist kunna flesta stafina í stafrófinu en þú ert gjörsamlega vonlaus í að raða þeim saman í heilsteyptar setningar.

  18. Ágætis pælingar um margt en ég hef þrennt sem ég vill koma á framfæri.

    1. sætið.
      Meistaradeildin
      Sumarið.

    Maður heyrir oft frasa eins og ,,enn einu sinni erum við að berjast um fjórða sætið.” ,,Við erum alltaf að berjast um fjórða sætið. Á þetta get ég ekki fallist. Í fyrra og hitti fyrra vorum við að berjast um 2-3 sætið. Fjórða sætið var aldrei í hættu. Þannig að mér finnst sú gagnrýni á Benitez ekki alveg vera réttmæt, Benitez hefur staðið sig betur en það að vera alltaf að berjast um fjórða sætið. Við getum jafnvel farið enn lengra. Evans og Houllier voru yfirleitt tiltölega nálægt(nær) toppnum. Evans barðist iðulega um titilinn en endaði síðan í 3 eða 4. Hann var aldrei að ,,berjast” um fjórða sætið. Houllier sömuleiðis. Einu sinni endaði hann í fimmta og seinasta árið hans var jú, ,,barátta um fjórða sætið”. En ég get ekki betur séð en að á seinustu 12 árum hafi 4. sætið verið, með 3-4 undantekningum, aldrei í hættu.

    Í því ljósi finnst mér árangurinn þetta árið sérstaklega lélegur. Við erum ekki að sigla lignan sjó í 3-4 sætinu eins og yfirleitt á seinastu 10-14 árum heldur erum við að berjast, harða baráttu, við mörg lið um fjórða sætið. Og við erum að tala um fjórða starfsár sitjandi knattspyrnustjóra.

    (Ég held ég sé ekki einn um það að sjá svipaða þróun á knattspyrnustjóraferli Benitez og Houllier. Frábær árangur í útslátarkeppnum en slæmur í deild eitt árið, mikil bæting í deildinni en slakur árangur í útsláttarkeppnum árið eftir, síðan þegar það vantar bara seinasta púslið í meistaraverkið – þá hrynur allt.)

    Mér fannst ósanngjarnt á sínum tíma að taka Houllier það til tekna í samanburði við Evans að Houllier hefði komið okkur í meistaradeildina og mér finnst það ósanngjarnt gagnvart Houllier og Evans að tala um það að Benitez hafi komið okkur í Meistaradeildina þrjú ár í röð. Á þessum árum hefur ,,formatt” Meistaradeildarinnar gjörbreyst. Fleiri lið komast í meistaradeildina. Með núverandi fyrirkomulagi hefði Houllier komið okkur þrjú ár í röð í meistaradeildina. Með núverandi fyrirkomulagi hefði Evans komið okkur fjögur ár í röð í meistaradeildina.

    Þetta er sama afbökunin og ætla að fara gera lítið úr afrekum Kenny Dalglish og hans forverum af því að liðið spilaði aldrei í úrvalsdeildinni á þeim árum.

    Enn eitt árið stendur maður frammi fyrir því í byrjun árs að geta einungis beðið eftir því að tímabilið klárist svo það næsta geti tekið við með nýjum væntingum. Ég veit bara ekki hvort ég þori. Eftir margra ára bið eftir þessu næsta tímabili þá liggur við að maður fari að telja það skynsamlegasta í stöðunni að hætta biðinni og sætta sig við það að þessi eilífa bið er ekki að gera manni neitt gott. Alltaf er byggt upp einungis til þess að brjóta niður aftur og alltaf er brotið niður einungis til þess að byggja upp aftur (þess vegna er ég t.d. alveg viss um að við vinnum Inter á þri, einungis til að gefa manni falsvonir sem verður svo hægt að brjóta niður, Liverpool-starfsmönnum til mikillar skemmtunar virðist vera).
    Kannski er bara best fyrir mann að sætta sig við það að Liverpool er bara fjórða sætis lið. Að það sé okkar rétt staður í töflunni. Allt fyrir ofan það bónus, og allt fyrir neðan það mínus. Með slíkt gengisfall á stoltinu verður það sem eftir er mikilvægara. Sagan, hefðirnar, klúbburinn og hjartað. ,,The Liverpool Way”.

    Sem minnir mig á það, hvenær ætlum við að sparka þessum könum? Og hvort viljum við frekar vera stoltur, frækin og hryggmikill klúbbur með meðalgott lið(skilgreinið að vild) eða sigursæll klúbbur sem undirstöðurnar og sameiningartáknin hafa verið brotin niður í örvæntingarfullri bið eftir frægð og frama.

    Afsakið lengdina – þetta átti aldrei að gerast.

  19. “þá þurfið þið sem kallið okkur síðupennana Pollýönnur bara að lesa leikskýrslurnar síðustu árin. Það er langt síðan við fórum að agnúast yfir lélegum innáskiptingum Benítez.”

    Ég tel Benitez hafa gert ýmisleg mistök í gegnum tíðina, en það að skipta Kewell inn á í staðinn fyrir Babel er ekki ástæðan fyrir gengi Liverpool. Menn hafa oft nefnt það þegar það hentar, en gleyma því síðan stundum að það er ekki að ástæðulausu að hann hefur náð þeim árangri sem hann hefur náð, og hlýtur að vita meira en við sófaspekingar.

    Það er bara þessi helvítis “cup football” hans sem skilar honum langt í meistaradeildinni, sem er bara alls ekki að gera sig í deildinni.

    Svo finnst mér margir Liverpool menn vera aðeins of bjartsýnir alltaf að halda að liðið sé nú að taka þátt í titilbaráttunni. Þótt við höfum núna Torres frammi, þá eru kantmennirnir okkar menn sem eiga að vera að berjast um sæti í Aston Villa eða Portsmouth, en ekki Liverpool. Enginn með réttu ráði getur haldið því fram að Benayoun, Pennant eða Kewell gæti komist í byrjunarliðið hjá “Top 3” liðunum. Babel er að mínu mati sá eini sem gæti gert atlögu að sæti hjá þessum liðum, en hann virðist spila minnst af ofantöldum mönnum.

    Það sem fer þó mest í taugarnar á mér varðandi Benitez er þetta eilífa væl í honum. Hann vældi yfir því að geta ekki keypt nógu dýra unga leikmenn þegar Arsenal var að kaupa menn, og keypti svo Lucas á 8 milljónir. Vælir yfir því að geta ekki eytt peningum í leikmenn og eyðir tæpum 50 milljónum í sumar. Vælir alltaf undan því að menn þurfi að spila landsleiki, þegar þeir eru bara a fact of life.

    P.S. Hvernig væri að hafa orðið Pollyanna automatically censored á síðunni? Fátt meira óþolandi að heyra talað um “pollýönnnupælingar”.

    YNWA

  20. Þoli ekki þessi langloku svör.. en sammála með mörgum góðum minningum og góður pistill.

  21. Jóhann.
    Er sammála þér að mörgu leyti, en samt. Benitez veit allavega núna að pressan liggur á honum, og engin spurning er að hann á að fá spurningar frá blaðamönnum og öllum öðrum sem segir. “Rotation kerfið og innáskiptingaskipulagið þitt virkaði á Spáni, en virkar ekki í Englandi. Ætlarðu samt að halda því áfram, þrátt fyrir að í þriðja skipti í fjórum tilraunum sé árangur þinn í deildinni óásættanlegur”? Þetta allavega finnst mér lykilspurningin til Rafa í dag. Þetta einfaldlega virkar ekki. Ef hann ætlar að þrjóskast við, þrátt fyrir mikla óánægju aðdáenda, er hann að verða stærri en klúbburinn og þarmeð. Bless. Hann verður að fara að breyta. Ef hann breytir ekki þarf breytingin að koma annars staðar frá. Ekkert frá því 3.desember hefur getað sagt manni að hann nái árangri í Englandi. Því miður. Ég fíla mjög margt í honum og er alls ekkert viss um að aðrir standi sig betur, en við þetta ástand verður ekki búið lengur, skulum ekki gleyma því að síðasta vetur lauk enska tímabilinu hjá okkur 10.janúar!
    doddi. Viltu aðeins leyfa mér að vita hvers vegna þú skrifaðir þennan pistil. Er það áhugamál þitt að koma fram á þennan hátt, er þér persónulega illa við Kristján, eða varstu bara í ójafnvægi þegar þú skrifaðir hann? Þegar þú lest hann aftur finnst þér hann á einhvern hátt sanngjarn gagnvart þeim skrifum sem á undan gengu? Græðum mjög lítið finnst mér á svona rifrildum…..

  22. Ágætur pistill hjá þér Kristján eins og svo oft áður. Mörg góð komment líka. Maggi #13 kemur með góða punkta. Sérstaklega varðandi þriðjudagsleikinn í Watford. Manni hefur einmitt fundist Benitez ekki alveg átta sig á svoleiðis leikjum. Doddi #17 er á villigötum og það held ég að allir sjái nema hann sjálfur. En öllum er frjálst að hafa skoðun. Ólíkt Stefáni #21 þá elska ég þegar menn nenna að skrifa ýtarleg komment svo fremi sem menn hafi eitthvað að segja. Það er einmitt þess vegna sem þetta er besta fótboltasíða landsins.

    Þetta er annars stórundarlegt allt saman með þetta blessaða lið. Mér hefur fundist að mannskapurinn sem er á launaskrá hjá klúbbnum sé alveg nógu góður til þess að gera miklu betur. Benitez tel ég vera mjög hæfan stjóra og hann hefur sýnt það nokkrum sinnum að hann getur náð árangri, samanber í meistaradeildinni. Áhangendur eru án nokkurs vafa í hópi þeirra allra bestu í heimi og liðið fær gríðarlegan stuðning þó á móti blási, samanber í hálfleik í istanbul. En það er klárlega eitthvað að því liðið spilar langt undir getu og það þarf ekki annað en að horfa í andlit leikmanna til þess að sjá hversu langt er í leikgleðina.

    Í byrjun tímabils fannst mér liðið spila glimrandi fótbolta. Man þegar dregið var í riðla í fyrstu umferð CL að maður hló að þessum aumingjans liðum sem lentu í riðli með liverpool. En svo gerðist eitthvað með þetta lið sem erfitt er að útskýra. Var það Paco, voru það eigendurnir eða eitthvað annað. Held við getum allir/öll verið sammála um að liðið á miklu meira inni en það er að sýna okkur þessa dagana.
    Ég hef verið þeirrar skoðunar að Benitez sé maðurinn og hef viljað gefa honum meiri tíma. Allaveganna þar til í sumar. En eftir síðasta leik slokknaði soldið á þeirri skoðun þó svo ég vilji ekki reka hann bara til þess að reka hann og eins og Jóhann #14 bendir á lenda í einhverri panic ráðningu með engri bætingu.

    En ef t.d. DIC hópurinn kæmi ríðandi yfir hæðina með fullan poka af peningum á annari öxlinni og Jose fucking Mourinho á hinni þá ætti ég persónulega í nokkrum erfiðleikum með að verða ekki soldið spenntur.

  23. Þessi pistill og flest kommentin hérna gera þessa síðu jafn stórbrotna og hún í rauninni er. KAR, magnað innlegg. Þið hinir, frábær komment (doddi, ekki taka þetta til þín, því þitt innlegg var eitt það allra daprasta sem inn hefur komið).

    Er ekki sammála Stefáni í kommenti #21. Ef þú nennir ekki að lesa innihaldsrík komment, slepptu því þá, ekki kvarta yfir því að menn nenni að leggja smá effort í að koma skoðun sinni á framfæri.

    Ég er sjálfur með mjög mixed feelings, ég vil klárlega ekki skipta um mann bara til að skipta, en engu að síður þá er farið að reyna verulega á þolrifin. Svar Kristins hérna #19 er eitt það besta sem ég hef lesið. Er nú einmitt staddur hérna í Liverpool borg (náði loksins að laga lyklaborðið hjá Sigurði félaga mínum, þannig að ég er næstum skiljanlegur núna) og það eru afar blendnar tilfinningar. Ég hef þó aldrei verið jafn lengi á The Park eins og eftir Barnsley leikinn. Ég hef farið á mjög marga Liverpool leiki í gegnum tíðina, og ég sá fram á stutta dvöl á barnum eftir þessa hörmung. Nei, þess í stað var ég þar með félögum mínum (Pete, Matty, Andy, Mark, Andra, Jonna, Siffa, Ewan….) og söng frá mér allt vit og rænu langt fram á kvöld. Þetta hreinlega setti hlutina í samhengi. Kom upp í íbúð í kringum miðnætti, hás og gjörsamlega búinn að gleyma því að við höfðum verið að tapa í bikarnum. Það er hægt að tapa leikjum, við vitum hvernig það er gert, en við gleymum ALDREI að það er bara eitt sem skiptir máli og það er að styðja liðið okkar. Það er nákvæmlega sama hvaða leikmaður spilar leikina, hver kemur inná, hver er framkvæmdastjóri, hver sér um að skúra gólfin á Melwood, við styðjum liðið.

    Ég er heldur engan veginn sammála um að það að vinna CL yrði skilgreint sem Rafa failure, það dreymir alla um að vinna þessa stærstu keppni sem félagslið taka þátt í. Auðvitað viljum við vinna deildina, eeeen ég væri alveg til í að lyfta eins og einum Evrópubikar. Raunhæft? Líklega ekki. Ég er þó allavega búinn að spara röddina í rúman sólarhring til þess að geta þjösnast á henni þegar við tökum á móti ítölsku meisturunum á morgun. Vinnum við þann leik? Hef ekki hugmynd, en ég mun allavega leggja mitt af mörkum við að styðja liðið, og þá er ég meira að segja að tala um að styðja Riise verði hann inná.

    Koma svooooo

  24. já flott að bera saman man utd-coventry og liverpool-barnsley við vorum með miklu sterkara lið í leiknum okkar plús það að þeir eru að berjast um deildartitilinn meðan að við berjumst um 4.sætið við eigum nánast enga möguleika á að vinna CL eins og liðið er að spila núna í deildinni. svo er benitez að tala um titila sem hann hefur unnið ég meina fortíðinn er liðinn nútíminn sem gildir sem er engin hjá okkar klúbb því miður. hann er búin á ´því

  25. Tommy járnkarl Smith hittir bara naglann á höfuðið. Þú ert ekki með
    Gerrard á bekknum í 75 min. Rafa var ekki með hugann við bikarleikinn.
    Hann hélt að hann gæti komist upp með að hvíla menn fyrir Inter-leikinn.
    Hann er búinn að læra the hard way að slikt kann ekki góðri lukku að stýra.

  26. Góður pistill og málefnalegur.
    Ég er samt ekki sammála því að RB eigi að vera áfram út tímabilið. Ég held að það sem er að á Anfield batni ekki það sem eftir er leiktíðar heldur versni. Því miður. Ástandið er orðið þannig að RB sér enga leið út úr því. leikmennirnir sjá enga leið og því versnar ástandið bara en batnar ekki. Ég held að jafnvel sigur á Inter muni ekki bjarga neinu. Og aftur, því miður.

    Ég held að RB sé kominn á einhverja endastöð með liðið sem hann finnur enga leið frá. Enn og aftur, því miður. Ég á enga ósk heitari en þá að hafa rangt fyrir mér og RB finni leiðina til baka. En eins og hann hefur verið að stjórna liðinu, eins og liðið aktar inn á vellinum og það er engin sköpun , leikgleði eða barátta til staðar þá verður þetta í besta falli eins og það er og í versta falli versnar ennþá meira.

    Þess vegna tel ég að allra hluta vegna sé best að RB hætti strax eftir leikinn á morgun, hvernig sem hann fer.
    Þetta er ekki sagt í neinni bræði eða íllsku út í Rb. Ég hefi fram að þessu verið því fylgjandi að hann klári tímabilið. En ekki lengur. Ég sé ekki neina leið fyrir RB að halda áfram. Ég sé ekki að það sé neinum til góðs að hann haldi áfram. Hvorki honum né liðinu okkar kæra.
    Þess vegna verður hann að fara. Ekki með neinum látum og djöfulgangi. Bara að kveðja og segja; ég kemst ekki lengra þetta er búið. Bless
    Það sjá allir menn.

    YNWA

  27. Bara smá ábending:
    “Eins og ég spurði bróður minn um helgina, hvaða klúbbur í heiminum hefði sýnt manninum þessa þolinmæði miðað við árangur? Enginn nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík.”

    Ég get nefnt einn klúbb: Manchester United.

    Alex Ferguson tekur við haustið 1986, þegar United er einu sæti frá fallsæti.
    Eftir það er árangurinn þessi:
    1987: 11. sæti.
    1988. 2. sæti.
    1989. 11. sæti.
    1990. 13. sæti og sigur í FA-Cup. Sagan segir að Alex Ferguson hafi verið nálægt því að vera rekinn á þessu tímabili, sérstaklega eftir 5-1 tap gegn Man. City.
    1991: 6. sæti og sigur í Evrópukeppni bikarhafa.
    1992. 2. sæti
    1993. Meistarar.

    Mér finnst þetta ansi mikil þolinmæði. Allavega voru flestir stuðningsmenn United á þeirri skoðun þegar Ferguson var búinn að vera jafnlengi með United og Benítez er núna búinn að vera með Liverpool að liðið væri í afturför.
    Ég er ekki að fullyrða að Benítez myndi ná sama árangri en hann fær sama tíma, bara að minna á að stundum getur þolinmæði borgað sig.

  28. Má ekki gleyma því Hallgrímur samt, að þegar Alex Ferguson tekur við Man Utd, þá er liðið í mun verri stöðu en Liverpool. Einnig þá fengu knattspyrnustjórar almennt mun meiri tíma til að ná árangri. Í dag, ef menn hafa ekki bætt liðið af viti innan 2-3 ára þá eru þeir oftast farnir.

  29. Ég mun aldrei skilja hvad menn sáu svona aedislegt í Valencia undir Benítez hvad thá ad thad hafi verid “eitt flottasta lid frá Spáni í sídustu árum”. Tala ekki um thegar somu menn og hotudu Chelsea undir Mourinho enda var Valencia ekkert nema spaensk útgáfa af Chelsea nema ekki eins gódir. Valencia vann deildina á sídasta tímabili Benítez ad miklu leiti thví ad Real Madrid ýttu á sjálfseydingarhnappinn thegar 3/4 af tímabilinu voru búin og Barcelona byrjadi tímabilid illa. Hallast ad thví ad menn sem dást svona rosalega ad thessu lidi hafi bara séd slátrun Valencia á Liverpool á sínum tíma og búid.

    Veit annars einhver um gódan Liverpool-bar í Madrid til ad horfa á leikinn á morgunn? :p

  30. Alveg sammála þér Kjartan með Valencia-liðið hans Benitez, með afspyrnum passívt lið. Solid, en ógeðslega leiðinlegir. Svipað og Liverpool-liðið hefur verið öll þessi ár undir hans stjórn, sérstaklega í Meistaradeildinni.

    Annars tel ég takmarkaðar líkur að þú náir Liverpool-leiknum á morgun í Madrid, Real-leikurinn verður væntanlega á flestum sjónvörpum.

  31. Jamm…hvernig mann vilja menn fá næst til að stjórna okkar ástsæla LFC?
    Ég bara stend á gati með það. Hefði alveg verið til í Klinsmann.

  32. 28 Hallgrímur. Það hefur verið margoft bent á þessa staðreynd að Alex fékk sjö ár. Og þá spyr maður, teljið þið að Rafa vinni deildina eftir þrjú ár ef heldur sem horfir?

    Vonandi hefur Doddi svo róað sig. Skil gremjuna en alveg slakur á blammeringunum. 🙂

  33. Bara rólegir Kjartan og Dóri.
    Vona að þið séuð að grínast varðandi Valencia liðið hans Benitez, hvað þá ef verið er að tala um að þeir hafi verið passívir. Hápressuðu liðin, unnu boltann framarlega á vellinum og fljótir að refsa. Ef liðin brutu pressuna upp féllu þeir til baka. Höfðu reyndar lykilmenn sem náðu að brjóta upp leikaðferðina, nokkuð sem við höfum ekki enn á Anfield. Mourinholiðin hafa spilað 451, ekki 433 leikaðferðina frá því hann tók við Setubal á sínum tíma.
    Hins vegar er ég nýlega búinn að skrifa það hér í pistli að mér finnst spænska leiðin, sem gekk fullkomlega upp á Spáni, virki ekki í Englandi. Þar held ég að mentalitet enskra liða sé svo allt annað en á Spáni. Hvenær sérðu spænsk lið leggjast í vörn, sjáðu bara t.d. Sevilla – Real Madrid nýlega. Jafnvel litlu liðin koma á Nou Camp og til Madrid og reyna að sækja.
    Þar er mikill munur á leikstíl enskra og spænskra, nokkuð sem Rafa ekki ræður við sýnist manni í bili.
    Hins vegar er þetta fínt hjá Hallgrími, menn hér gleyma því að fótbolti er enn uppbyggður á svipaðan hátt og að mínu mati voru 95% aðdáenda United tilbúnir að reka Ferguson 1989 og 99% 1990. Liðið í fullkomnu rugli þann vetur, urðu að treysta því að vinna FA cup til að hann héldi starfinu. Tal um að Liverpoolliðið sem Benitez tók við hafi staðið betur en United þegar Fergie tók við er fullkomið bull. Stjórn United var bara búin að fá nóg af endalausum mannaskiptum og leikmannakaupum út í eitt, fengu Ferguson til að endurskipuleggja liðið, sér í lagi unglingastarfið.
    Kannski er það okkar leið, vissulega er að rofa til þar á Anfield, ég allavega vill ekki fá einhvern sem leggur það allt af, t.d. eins og Mourinho gerði á Stamford Bridge, eða Houllier á Anfield……

  34. Jæja Bolir…
    Nú þarf að hætta þessu rugli. Rafa mun klára tímabilið og við munum enda í topp fjórum enda Rafa topp maður sem hefur komið nýjar hæðir.

    Það er bræla núna en hún mun fara fyrr en þið haldið.

  35. Eins mikid og mér finnst spaensk knattspyrna aedisleg og ad ollu jofnu skemmtilegri en sú enska thá er thad alger thvaettingur ad minni lidin pakki ekki eins mikid í vorn thegar thau maet á Camp Nou og Santiago Bernabéu og ensku lidin gera á móti Liverpool, Man U et al. Varnarknattspyrna er alveg jafn algeng á Spáni og á Englandi, eini munurinn á mentaliteti milli spaenskra lida og enskra er ad á Spáni thora oll lidin ad spila boltanum med jordinni, nokkud sem ekki einu sinni Liverpool thorir ad gera á Englandi, hvad thá minni lidin.

  36. leikaraskapur hjá Torres…. ekkert annað en leikaraskapur hjá spænska þarna.

  37. Ferguson gerði meira og breytti fleiri atriðum bak við tjöldin heldur en menn gera sér grein fyrir. Það stóð aldrei til að láta hann fara. Það sem sagt er að bikartitillinn hafi bjargað starfinu hans er ekki rétt. Þetta kemur fram í ævisögu Ferguson og einnig í viðtölum stjórnarmanna á þeim tíma.
    Svipað gerði Gerrard Houllier hjá Liverpool. Það er ýmislegt bakvið tjöldin sem hann lagaði og tók í gegn sem margir átta sig ekki á og vita ekki um. Kanski hefði hann þurft aðeins meiri tíma.
    En………..það sem mér finnst leiðinlegast við Benitez er: að Liverpool liðið í dag spilar ekki nógu skemmtilegan fótbolta. þá myndi maður kanski frekar sætta sig við gengi liðsins í deildinni.

Liverpool – Barnsley= 1-2

Inter Milan á morgun