Það verður skammt stórra högga á milli núna næstu vikurnar, og eitthvað af minni höggum sömuleiðis inn á milli. Á laugardaginn leggja Klopp og lærisveinar hans land undir fót og heimsækja hina ágætu borg Brighton & Hove, en eins og glöggir lesendur muna sjálfsagt frá ágætri upphitun Einars Matthíasar síðan í deildarbikarnum 2011, þá varð sú borg til rétt um aldamótin þegar bæirnir Brighton og Hove sameinuðust og úr varð þessi borg. Nóg um það, saga borgarinnar og liðsins var rakin þar og ekki stórkostleg ástæða til að endurtaka það hér, enda erfitt að toppa pistlana hans Einars.
Eins og gefur að skilja hafa liðin ekki verið að mætast neitt mjög ört undanfarin ár, þar sem þetta er í fyrsta skiptið í langan tíma sem þau eru saman í deild. Í reynd er það stórfurðulegt að þau skyldu dragast saman tvö ár í röð í bikarkeppnunum, því árið 2012 mættust þau einmitt síðast, og þá unnu okkar menn sannfærandi.
Gengi okkar manna gegn suðurstrendingum er ágætt: þrettán sigar, 8 jafntefli og 4 töp. Reyndar er það svo að til að finna úrslit sem eru okkar mönnum í óhag gegn Brighton þarf að fara aftur til ársins 1984, þegar rauði herinn datt úr FA bikarnum, síðan þá hafa liðin leikið 5 sinnum, ýmist í bikar eða deildarbikar, og Liverpool hrósað sigri á endanum (eitt replay árið 1991).
En þessi saga segir okkur lítið núna, enda allt önnur lið sem munu spila á laugardaginn heldur en þau sem spiluðu síðast. Til gamans má geta þess að árið 2012 var þetta liðið sem spilaði gegn Brighton:
Johnson – Carragher – Skrtel – Enrique
Henderson – Adam – Gerrard – Downing
Carroll – Suarez
Semsagt, Henderson er sá eini sem er líklegur til að vera í liðinu á laugardaginn af þeim sem þá spiluðu. Já ég held ég geti bara fullyrt að þeir verði ekki fleiri. (Suarez: vertu velkominn heim, hvenær sem þú vilt).
Hvað gengi liðanna í síðustu leikjum varðar (í öllum keppnum), þá má segja að þar halli heldur á nýliðana. Þeir hafa gert 3 jafntefli, tapað einum og unnið tvo, á meðan okkar menn hafa unnið 4 og gert 2 jafntefli. Það er líka athyglisvert að skoða frammistöðu Liverpool eftir sneypuförina á Wembley, því síðan þá hefur liðið aðeins tapað stigum gegn Chelsea í deildinni, á meðan Tottenham hafa fengið 4 stig af 15 mögulegum og eru nú komnir niður fyrir Burnley í töflunni. Átti einhver von á því eftir þann leik? Ekki ég a.m.k.
Semsagt, ef marka má stöðu liðanna í deildinni, leikformið, og fyrri úrslit þessara liða, þá má slá því föstu að Rauði herinn eigi sigurinn vísan. Það virkar þó ekki þannig eins og við ættum að vera löngu búin að læra, stigin þrjú eru ekki í hendi, og það er hlutverk piltanna okkar að tryggja að þau lendi hjá okkur.
En hverjir munu spila? Það er góð spurning. Klopp ætlar greinilega ekki að enda með örþreyttan (og meiðslahrjáðan) hóp í lok desember, og hefur því greinilega hugsað sér að nota hópinn vel. Í síðasta leik komu t.d. Coutinho og Firmino ekkert við sögu, undirritaður telur fullvíst að þeir verði í byrjunarliðinu á laugardaginn. Fleiri breytingar eru mjög líklegar. Mér kæmi ekki á óvart að Gomez fái smá hvíld enda búinn að leika nokkra leiki í röð og Alexander-Arnold brennur sjálfsagt í skinninu að fá að spreyta sig. Mögulega gefur hann Moreno pásu og hleypir Robertson inn á, jú ég ætla að spá því. Ég hugsa að Matip og Lovren spili í miðverðinum, en vonandi verður Klavan búinn að jafna sig á veikindunum og getur því a.m.k. komið á bekkinn. Hver veit, kannski kemur hann inn í staðinn fyrir Matip í nafni róteringar.
Það er einna helst að miðjan sé spurningamerki. Fyrirliðinn hefur verið í eldlínunni upp á síðkastið og mikið gagnrýndur fyrir sína frammistöðu, og kom bara rétt svo inná í lokin í Stoke leiknum. Ég reikna nú frekar með að hann spili á laugardaginn, en það er samt alveg 50/50, kannski vill Klopp gefa Hendo aðeins meira andrými til að íhuga sinn leik. Lallana var ekki í hóp síðast, og það var víst bara einhver varúðarráðstöfun, ég ætla bara rétt að vona að það hafi ekki verið neitt meira en það. Hvort honum verði hent í byrjunarliðið er svo annað mál. Can spilaði síðasta leik, og var þar bara líkur sjálfum sér: með ágætis vinnslu en hann er ekki sá hættulegasti fram á við. Maður spyr sig hvað samningamálin hafa að segja um það hvort hann verði valinn: ef ég væri Klopp og ég vissi að þarna væri leikmaður sem væri á útleið gæti ég alveg freistast til að afskrifa hann einfaldlega og gefa öðrum leikmönnum sénsinn, eins og t.d. Grujic. Klopp virðist þó enn halda í vonina að geta haldið Can áfram, og það virðist svosem ekki vera útilokað þó svo að líkurnar minnki með hverjum deginum.
Eins og áður sagði er líklegt að Coutinho og Firmino byrji, hafandi ekki komið inn á í síðasta leik.
Allavega, hér kemur mín spá, en eins og áður hefur komið fram, þá verða þessar spár alltaf svolítið skot í myrkri í ljósi þess hve mikið er verið að nota hópinn þessa dagana.
TAA – Matip – Lovren – Robertson
Can – Henderson – Winjaldum
Coutinho – Firmino – Salah
Bekkur: Karius, Klavan, Gomez, Milner, Mané, Sturridge, Oxlade-Chamberlain
Semsagt, hér er t.d. hvorki pláss fyrir Moreno, Solanke né Lallana, hvað þá stráka eins og Woodburn eða Grujic. Kemur í ljós að það er bara alveg ágætt að hafa smá breidd. Og svo það sé nú sagt, þá á ég fastlega von á því að skeika um a.m.k. 3 leikmenn í þessari spá, jafnvel fleiri. Og jú, ég spái því líka að Mignolet verði ekki fyrirliði, þrátt fyrir 100% vinningshlutfall sem slíkur.
Ég ætla að gerast svo kræfur að spá því að liðið haldi áfram að setja a.m.k. 3 mörk í leik, og að þessi fari 1-3 eða 1-4. Salah með a.m.k. eitt – en ekki hvað!
YNWA!
Firmino spilaði síðasta leik.
Góð upphitun og gaman að lesa pistil Einars aftur um liðið og borgina. Lið þeirra er þétt en spái 3-1 fyrir okkar mönnum. Leiðrétting. Firmino var í síðasta leik en góð upphitun samt.
Flott upphitun. ég er samt ekki viss um að hann róteri þannig í vörninni að hann taki báða bakverðina út, hef trú á að hann róteri miðju og sókn vel en ætla að spá því að Gomes hvíli en Moreno spili.
Hah! Auðvitað var Firmino í síðasta leik. Veit ekki af hverju ég var búinn að blokkera hann út. Hann meira að segja hefði getað stolið markinu hans Mané. Jæja, þetta fær að standa svona til marks um hvað minnið getur verið gloppótt hjá manni.
Ætli Chambo verði ekki aftur í byrjunarliði, spilaði bara 60 mín. síðast og Sturridge fær næstsíðasta sénsinn til að blómstra í framlínunni. Firminó fær pásu og einhver annar á miðjunni, Can líkl. Gæti trúað að Milner fái að byrja eftir 30 mín. Spurning hvað hann gerir með afturhaldssegginn Henderson. Þarf hann að hugsa sinn gang eins og pistlahöfundur spyr. Gæti verið.
EF ég væri Klopp, þá myndi ég byrja með alla okkar sterkustu menn og ljúka leiknum amk í fyrri hálfleik. Skipta síðan út eins og hægt er, með CL leikinn í huga. því báðir þessir leikir eru verulega mikilvægir, sérstaklega leikurinn við Brighton, til þess að hanga á rönninu í deildini. Ég spái 0-4, skiptir engu hver skorar, en vil sjá amk 1 frá Salah, bara til þess að vera yfir þessum Tottenham fígúru(joke).
http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/brighton-defender-highlights-liverpools-big-13980140
þessi gaur meikar sens fyrir mér. Það vantar heimsklassa varnartengilið. Henderson og Can eru báðir frábærir leikmenn en þetta er ekki þeirra eiginlega staða.
Getur verið að Nabi Keita sé hugsaður í þetta nr 6 hlutverk ? Sem sagt leikmaður sem getur brotið niður sóknir andstæðinsins og á sama tíma verið að gera fullt af öðrum hlutum eins og t.d að vera í hápressu og verið í hlaupum sem auka sendingamöguleika samherjans sem er með boltann.
Ég er allavega sammála honum. Vörnin ein sem slík er ekki vandamálið heldur hvernig liðið í heild sinni verst. Það er einfeldni að halda Klavan t.d sé allt of veikur til að spila fyrir Liverpool. Ef svo væri þá væri Klavan ekki einu sinni í hópnum eða hvað þá í byrjunarliðinu.
Horfði að Man utd keppa um daginn við þetta Brighton lið og þeir voru stálheppnir að vinna þá með sjálfsmarki.
Brighton liðið spilar boltan vel á milli sín og vill fara með liðið framar á völlinn og þurfum við að vera tilbúnir að mæta liði sem er ekki bara að senda háa og langa bolta fram eins og Stoke gerðu mikið gegn okkur.
Ég held að margir hérna líta á þetta sem auðveldari leik en gegn Stoke en ég er viss um að svo sé ekki þar sem Brighton eru einfaldlega með betur spilandi lið en Stoke þótt að það séu ekki eins mörg þekkt nöfn.
Þetta verður hörkuleikur og spái ég okkur 1-2 sigur. Coutinho og Salah með mörkin.
Jæja það tók ekki langan tíma fyrir liðsspána að fara í vaskinn, Matip er úti:
http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/joel-matip-misses-liverpools-trip-13981797
Þá er það bara Clean-sheet Klavan…
Sælir félagar
Þetta verður erfiður leikur þar sem Brighton er betra lið en Stoke og við vorum í vandræðum á köflum með Stokarana. Spái samt sigri í erfiðum leik og ef til vill dálitlu af mörkum 2 – 4 er ekki ólíkleg niðurstaða.
Það er nú þannig
YNWA
Hreint-lak-frá-Eistlandi er búinn að vera veikur…og er það kannski enn.
Gomez í CB takk fyrir! TAA í bakk. Framtíðarmenn í þessum stöðum.
Held að við vunnum þetta sannfærandi. Hentar vel að spila við lið sem spila boltanum og koma svoldið framalega.
3-1 Salah Firmino og Mane.
Ooooooog Matip gæti verið frá í mánuð. Frábært. #Not
Lovren var sjálfur tæpur fyrir Stoke leikinn og Klavan veikur í vikunni. Grilljón leikir framundan.
Emre Can og Joe Gomez geta léttilega spilað þessa stöðu en það væri samt gríðarlegt högg að missa Matip út í mánuð.
Hvað er samt málið með þessa miðverði, þeir ná aldrei að spila nokkra leiki í röð.
Fá alvöru nagla í þessa stöðu í jan og gefa Gomez nokkra leiki í röð þangað til.
Klopp hlýtur að henda Gomez í miðvörðinn, sjaldan séð annað eins efni í varnarmann hjá liverpool.
Liverpool: Mignolet, Alexander-Arnold, Lovren, Can, Robertson, Milner, Henderson, Wijnaldum, Coutinho, Salah, Firmino.
Subs: Karius, Sturridge, Grujic, Klavan, Mane, Oxlade-Chamberlain, Solanke. Liðið í dag spái tapi því henderson er í liðinu ömmurlegur leik maður sém ég vona að verði seldur en can er þá vændalega í miðverði