Reading á morgun

Æj ég verð að viðurkenna það að það er erfitt fyrir mann að setja sig í gír fyrir þennann Reading leik á morgun. Prógrammið eftir hann er svo rosalegt að hann er hálfpartinn fyrir þessi leikur. Þetta er akkúrat hugsunarháttur sem má EKKI vera í hausnum á leikmönnum og stjórnendum liðsins, þó þetta sé því miður þannig með mig. Þessi leikur er ekki síður mikilvægur en síðasti leikur í deild, sem og sá næsti. Leikurinn á morgun er einfaldlega leikur sem verður að vinnast, annað er tómt mál að tala um. Leikjaprógrammið eftir hann er svona:

Man.Utd (Ú)
Everton (H)
Arsenal (Ú)
Arsenal (Ú)
Arsenal (H)
Blackburn (H)

Sem sagt svaðalegur pakki. Lið Reading hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu eftir frábært tímabil í fyrra. Þeir eru þó lið sem er oft á tíðum afar erfitt að brjóta á bak aftur og það hafa önnur lið reynt í vetur. Þeir hafa til að mynda farið á Old Trafford og haldið jöfnu þar, unnið Everton á heimavelli og unnið okkur á sínum heimavelli. Þeir eru því svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin. Þeir eru þó að koma á Anfield á morgun og þar verðum við að vinna. Í þeirra liði hafa þeir Hunt og Kitson verið þeirra helstu menn. Þetta er samþjappaður hópur baráttujaxla sem ekkert gefur eftir. Þeir sakna þó greinilega miðjumótorsins frá því á síðasta tímabili, Steve Sidwell. Kitson hefur skorað 9 kvikindi fyrir þá á tímabilinu, en svo hafa þeir Hunt, Doyle og Harper skorað 5 stykki hver. Það er þó aðallega vörnin þeirra sem hefur verið að mígleka. Þeir hafa fengið á sig 55 mörk, þriðji versti árangurinn á tímabilinu og þeir sitja eins og er í 14 sætinu, en samt í bullandi fallbaráttu. Þeir eru aðeins 3 stigum frá fallsæti eins og staðan er núna. Þeir munu því væntanlega selja sig dýrt. En það skiptir akkúrat engu máli hvernig þeir ætla að selja sig. Það sem skiptir máli er hvers lags kúnnar við erum.

Við höfum verið á rosalegu skriði undanfarið og unnið 4 síðustu leiki okkar í deild, og síðustu 6 leiki sem við höfum spilað. Reading hafa reyndar unnið síðustu tvo leiki sína, en töpuðu heilum 8 leikjum í röð þar á undan. Rafa virðist vera að ná að láta liðið smella saman á ögurstundu og það má því ekkert klikka á morgun. Torres getur slegið besta árangur Michael Owen í markaskorun í deild með því að skora eitt mark, og með hann í forminu sem hann hefur verið, þá ættum við að klára leikinn. Torres er þó ekki einn í þessu liði. Stevie G hefur verið að fara á kostum undanfarið, enda fengið um frjálst höfuð að strjúka. Það kemur þó ekki sjálfkrafa því það er búið að planta afar kraftmikilli ryksugu upp fyrir aftan hann. Hann þarf einungis að passa sig að vera ekki nærri henni til að sogast ekki líka þar inn (nei, ég segi svona). Þessir þrír leikmenn, ásamt Pepe Reina, hafa verið að leggja grunninn að þessu skriði sem við höfum verið á undanfarið og ég segi bara “long may it continue”.

Þá að liðinu. Það er af sem áður var því nú er orðið erfiðast fyrir mann að stilla upp vörninni. Ég er þó nokkuð pottþéttur á því að Arbeloa komi inn í hægri bakvörðinn. Við erum á heimavelli og þurfum sóknarþunga frá bakvörðunum og því reikna ég með honum þar og Carra aftur inn á miðsvæðið. Ég er á því að Sami verði hvíldur núna og Skrtel veiti Carra félagsskap. Rafa vill eflaust láta Skrtel spila sem flesta leiki núna til að koma honum að krafti inn í liðið. Vandamálið verður svo vinstra megin. Ég vil sjá Aurelio þar til að auka á sóknina og ég er hreinlega á því að Rafa muni gera það og setja Riise inn gegn Man.Utd. Þó gæti verið að Riise kæmi þarna inn þar sem Aurelio spilaði gegn Inter.

Á miðjunni vil ég fara aftur í pakkann sem hefur gefist svo vel. Hafa þá Xabi og Jav þar saman með Stevie fyrir framan sig og svo Hollendingana tvo úti á “köntunum”. Nenni ekki að útskýra það frekar, þetta hefur skítvirkað og ég vil bara halda áfram að láta það virka. Eina sem ég sé að gæti komið í veg fyrir þessa uppstillingu er yfirvofandi leikur gegn Man.Utd en þar sem það er rúm vika í hann, þá á ég bara von á þessu svona. Torres mun svo leiða hópinn og bjóða Reading velkomna í sláturhúsið Anfield. Svona verður þetta sem sagt:

Reina

Arbeloa – Carragher – Skrtel – Aurelio

Javier – Xabi
Kuyt – Gerrard – Babel
Torres

Bekkurinn: Itandje, Hyypia, Riise, Crouch, Pennant/Benayoun

Þá eru það bara úrslitin. Ég ætla að reikna áfram með markaleikjum okkar manna og spá því að við vinnum 3-0. Segjum bara að Torres skori, Kuyt bætir við það og svo verði það Skrtel sem setji sitt fyrsta fyrir liðið.

17 Comments

  1. Thetta er algjor must leikur ad vinna! Vonum svo ad Everton missi stig i London a sunnudaginn.
    Annars segi eg 4-0, Torres setur 2, Gerrard 1 og Crouch 1

    Kvedja fra Liverpool!

  2. Sammála flestu þarna, en er alveg sannfærður að Reading á erfiðan dag fyrir höndum.
    Þetta Reading lið er þó ekki nein auðveld veiði, hið nýja Wimbledon að mínu mati, reyna að sparka menn frá því að spila fótbolta og verjast á 10 leikmönnum alveg frá byrjun. Svo eru þeir með vel skipulögð set-piece atriði sem við þurfum að varast.
    En á morgun þarf að vinna almennilega! Svo byrjar gamanið!!!!!

  3. verð á þessum leik og reyndar man city – tottenham líka. Torres var búin að lofa mér að skora

  4. Þetta er must win! algjörlega. Og mér líst líka rosalega vel á að Crouch skori. Ég sé reyndar ekki alveg hvernig hann passar inní þetta eitraða leikskipulag sem að Benitez er að nota þessa dagana og virkar svo vel.
    En það nægir mér nú bara að Liverpool vinni – punktur.

  5. Ég er að pæla hvort að það sé kominn tími til að gefa Carra frí? Það er rosaleg törn framundan og það yrði skelfilegt að hafa hann ekki í toppformi. Liðið er samt svo gott núna að það á kannski ekk að hrófla við því og vanmat er líka hættulegt.

  6. Flott leikskýrsla Steini, já vona að okkar menn fari ekki að flækjast í tæklingu við litla dýrið á miðjuni.

    Hlakka mikið til leiksinns á morgun, því svo þarf maður að bíða í 8 daga að deyja úr spenningi fyrir leiknum á móti Man Utd.
    Við vorum að fá miðana á þann leik í hendurnar í gærkvöldi, usss hvað manni hlakkar til.

    Kv. Andri.

  7. Ég persónulega held að hann spili einhverjum af eftirfarandi : Pennant, Crouch, Benayoun, Arbeloa, Riise. þessir menn þurfa að hafa spilað eitthvað ef þeir ætla að vera eitthvað með í Stóru törninni.
    Ég myndi að sjálfsögðu vilja hafa liðið eins og það hefur verið undarfarið en einhvernvegin held ég að hann spili smá breyttu liði.

  8. Það er óhætt að hrósa Rafa Benitez núna enda liðið að spila sig glæsilega saman á hárréttum tíma( þökk sé þessari squad rotation m.a.)
    Á meðan önnur lið eru að missa menn í meiðsli eða úr leikformi eru leikmenn Liverpool fyrir utan Agger og Kewell fullfrískir og virka einbeittari en andstæðingurinn á velli.

    Rafa er einnig loksins búinn að finna sitt besta 11manna lið og Babel verið að sýna jafnari og betri spilamennsku í lok tímabilsins ásamt Kuyt.

    Held að Pennant, Benayoun og aðrir varamenn hljóti að fá spila í þessum leik. Það er svaka stórleikjatörn frammundan þar sem Rafa vill hafa sem oftast sitt besta XI inná. Torres og Gerrard byrja inná en fara útaf í hálfleik ef við höfum góða forystu þá.

    Gæti tekið smá tíma að fá fyrsta markið en þegar það kemur verður allt auðveldara. Verður fremur aðveldur 3-1 sigur.

  9. Eigum við ekki að segja að Torres muni a.m.k jafna C. Ronaldo í markafjölda á morgun? 🙂

    Eitthvað segir mér að það sé ansi líklegt …. jafnvel að hann hirði markakóngs-titilinn.

  10. Hvað með Lucas Leiva.Vantar ekki hann á bekkinn??????.Já já, ég er hættur að blogga, en smá skot.Vinnum þettað 4-0

  11. Við verðum að vinna þennan leik og við gerum það einnig. Eina sem ég hræðist er að ef Rafa breyti liðinu of mikið frá því undanfarið þe. Torres eða Gerrard verði hvídlir.

  12. Það versta við Liverpool er óstöðugleikinn. Liðið virðist hafa náð upp ágætis stöðugleika og er örugglega með frábært sjálfstraust, en það er í svona leikjum sem allt hrynur eins og spilaborg. Leikjum sem allir búast við að þeir fari létt með.
    Ég vona innilega að Rafa breyti ekkert allt of miklu, þótt ég óttist það eilítið að hann muni gera það. Hann vill kannski hvíla Torres og Gerrard en ég vona að hann láti þá byrja inná og taki þá frekar bara utaf þegar sigur er í höfn.

    Þetta verður spennandi viðureign og það má alls ekki vanmeta Ívar og félaga sem eru að vakna eftir langan svefn.

  13. Flott upphitun og ég er sammála með uppstillingu á liðinu. Ég vil fá rúst í þennan leik, miðað við skriðið sem við erum á – og sálfræðilega séð megum við ekki hiksta. Það er PRÓGRAM framundan og með martröðina frá því í janúar í fyrra í huga … leikirnir við Arse… þá verður með hugsað til þessarar hrikalegu viku gegn þeim núna í apríl. Mun heita því að hlaupa nakinn í kringum Akurgerðið hér fyrir norðan ef allir þessir Arse-leikir vinnast!

    Spái 5:1 sigri á morgun þar sem Torres skorar tvö, Stevie eitt, Mascherano eitt og Babel eitt.

  14. Þetta er stórhættulegur leikur og það getur gerst sem segir í þessari ágætu upphitun að menn séu með hugann við þessa rosalegu törn sem er framundan. Egóið í liðinu er hins vegar mikið og ég er á því að í svona leiki eigi menn að mæta með hæfilegan hroka, algjörlega klárir á að þeir geti ekki tapað. Bara hafa það á hreinu að menn þurfa að leggja sig fram. Kæmi mér ekki á óvart að Rafa myndi gera e-r óútreiknanlegar breytingar á liðinu – það er eins og það sé bara í eðli hans. En á meðan kjarninn/mænan í liðinu er inn á þá á þetta að vera seif. Reina, Carra, Mascherano, Gerrard og Torres. Sjáum til með rest.

    Ef hæfilegur hroki er til staðar fer þetta 5 – 1

Agger í aðgerð, tímabilið búið

Liðið komið!