Framfarir milli ára

Eru stuðningsmenn Liverpool að taka spilamennsku liðsins undanfarið full mikið sem sjálfsögðum hlut var fyrsta spurning í síðasta podcast þætti. Erum við almennt að átta okkur á því hversu miklu betra liðið er orðið en það sem við höfum verið að horfa á undanfarin ár og hversu hratt það er að bæta sig? Helstu áhyggjuefnin okkar í sumar snerust um hryggsúluna og engum þeirra var í raun svarað að manni fannst:
– Nýr miðvöður
– 20 marka sóknarmaður
– Nýr miðjumaður
– Nýr markmaður

“Nýr” Markmaður

Umræðan um nýjan markmann var ekkert svo hávær í sumar, snemma varð ljóst að Klopp ætlaði ekki að kaupa markmann, Karius hafði lítið fengið séns og Mignolet hafði bæði endað síðasta tímabil vel og fengið nýjan fimm ára samning. Mignolet kemur afskaplega illa út á flestum tölfræðimælikvörðum fyrir markmenn og líklega hefði hann allra manna mest þurft miðvörð á við Van Dijk strax í sumar.

Liverpool fékk á sig 23 mörk í fyrri hálfleik þessa tímabils eða 1,2 mörk að meðaltali í leik. Það er svipað og liðið hefur verið að fá á sig öll ár Mignolet í markinu hjá Liverpool, ekki að það sé hægt að skrifa þá tölfræði á hann einan.

Karius hefur ekkert sannað ennþá þrátt fyrir að hafa loksins tekið sæti Mignolet í markinu, nema þá kannski það að hann er ekki nærri því jafn vonlaus og af var látið af flestum áður en hann fékk traustið endanlega og almennilega. Hann hefur spilað vel undanfarið og ef við horfum á síðustu 19 deildarleiki þá hefur Liverpool fengið á sig aðeins 14 mörk eða 0,78 mörk í leik. Aðeins tvö lið hafa skorað meira en eitt mark, Arsenal og City sem dugðu hvorugu þeirra til sigurs.

Þessi viðsnúningur snýst ekkert bara um Karius og Van Dijk, margir þessara leikja voru án Van Dijk og með Mignolet í markinu. 0,78 mörk fengin á sig að meðaltali yfir heilt tímabil væri undir 30 mörkum sem er allt í lagi tölfræði, miklu betri en við eigum að venjast hjá Liverpool undanfarið, en hjá liði sem er að skora 50 mörk á móti eins og Liverpool hefur gert í þessum sömu 19 leikjum eða 2,63 mörk að meðaltali í leik þá er þetta frábær tölfræði. Það er eðlilegt að svona sóknarsinnað lið fái eitthvað á sig á móti. Liverpool náði ekki að skora í aðeins tveimur þessara leikja, auðvitað gegn verstu liðinum (Swansea og W.B.A.) sem er reyndar eins dæmigert fyrir Liverpool og hugsast getur.

Líklega er nýr markmaður á innkaupalistanum næsta sumar, sérstaklega ef Mignolet fer og Danny Ward vill meiri spilatíma. Á móti er Karius að spila þannig núna að engin þörf er á að skipta honum út og eftir 1-2 ár gæti Kamil Grabara farið að banka að fullri alvöru á aðalliðsdyrnar. Myndi ekki útiloka það að svona efnilegir leikmenn séu á radarnum hjá Klopp, jafnvel frekar en £90 markmaður.

Líklega tækjum við samt öll heljarstökk komi leikmaður Allison frá Roma, sérstaklega m.v. formið sem hann hefur verið í undanfarið.

Van Dijk

Fyrstu kynni af Van Dijk eru þannig að hann er svo gott sem standa undir öllum væntingum sem maður gerði til hans til að byrja með. Liverpool hefur ekki átt svona öflugan leikmann í loftinu síðan Hyypia hætti og líklega er meiri kraftur í Van Dijk en Hyypia. Hann er klárlega meiri leiðtogi en Lovren og Matip sem á móti virka báðir mikið betri leikmenn við hliðina á honum heldur en hverjum öðrum. Clean Sheet Klavan er svo orðinn góður fjórði kostur í stöðu miðvarðar í stað þess að spila ca. annan hvern leik.

Með endurkomu Clyne aukast svo líkurnar á því að efnilegasti miðvörður Englendinga og einn efnilegasti varnarmaður í heimi fái að spila sína stöðu. Ef einhver er ekki sammála því að Joe Gomez sé svona hátt skrifaður þá má endilega benda má á jafnaldra hans sem er að gera merkilegri hluti en hann í vetur. Hér er ekki lengur bráðnauðsynlegt að kaupa nýjan leikmann en mögulega hægt að gera það í rólegheitum ef betri kostur bíðst en Lovren, Matip eða Klavan.

Van Dijk var ekki tilbúinn í byrjun tímabilsins og var mjög ryðgaður í byrjun mótsins. Liverpool tapaði fyrir Tottenham 4-1 í 9.umferð þann 22.október og mjög líklega hefði hann hjálpað liðinu verulega í þeim leik. Mikið fyrir þann leik er ekki víst að hann hefði skipt sköpum enda ekki í formi sjálfur þannig að líklega hefur það ekki komið svo rosalega mikið niður á liðinu að bíða með að kaupa hann fram í janúar. Van Dijk í því formi sem hann er núna frá fyrsta leik hefði hinsvegar getað skipt töluverðu máli.

Eftir þennan Spurs leik í 9.umferð hefur Liverpool spilað þessa 19 leiki sem komið var inná áðan og fengið á sig aðeins 0,78 mörk. (Nota bene, eftir þennan Spurs leik í 9.umferð var Liverpool búið að fá sig 1,8 mörk að meðaltali í leik þannig að viðsnúningurinn á vörninni síðan er rosalegur).

Nýr miðjumaður

Hér hefur Liverpool verið of veikt í vetur og það er ennþá mjög skrítin ákvörðun að samþykkja að veikja liðið enn frekar í janúar og selja okkar besta sóknarmiðjumann. Óvænt er miðjan orðin hvað veikasti hlekkur liðsins. Hinsvegar er nú þegar búið að kaupa leikmanninn sem vantar mest á miðjuna.

Eftir því sem ég sé meira af N´Golo Kanté hjá Chelsea sannfærist ég um að Naby Keita sé líkari honum en ég hélt í fyrstu. Kanté er ekki þessi ultra varnartengiliður sem ég taldi í fyrstu heldur hentar honum best að spila með öðrum varnartengilið/miðjumanni (Bakayoku, Drinkwater eða Matic). Keita og Kanté eru auðvitað ólíkir leikmenn en m.v. það litla sem maður hefur séð af Keita virkar hann svipað á mann varnarlega. Stundum er eins og þetta séu tveir leikmenn þegar kemur að pressuvörn og báðir fullkomlega óþolandi fyrir andstæðingana. Báðir geta spilað sem sexa eða átta en líklega hefur Keita það fram yfir Kanté að vera líka notaður sem tía. Maður slefar við tilhugsunina hvernig Klopp getur notað svona leikmann því leikmaður með svona vinnusemi býr bara til enn meiri tíma fyrir sóknartríóið okkar.

Miðjan hjá Liverpool er samt alls ekkert slæm, það vantar bara heimsklassan eftir að Coutinho fór. Breiddin er líklega ein sú besta sem gerist í deildinni nú þegar Lallana er kominn aftur. Fjarvera hans og tíð meiðsli Henderson veikja liðið gríðarlega sem eðlilegt er. Núna eftir áramót hefur það einnig styrkt liðið að Ox hefur fundið sig almennilega hjá Liverpool og Milner er farinn að sýna gamla takta á miðjunni við og við. Áður en hann kom til Liverpool var þetta auðvitað gríðarlega vinnusamur box-to-box miðjumaður.

Hérna vantar Keita í pússlið, komi einn til viðbótar sem er betri en þeir sex sem við eigum fyrir styrkist liðið auðvitað bara enn frekar. Helst þá leikmaður sem spilar fyrir aftan Keita og takmarkar mikilvægi Henderson.

20 marka sóknarmaður

Klopp bætir flesta leikmenn sem spila undir hans stjórn, líklega hefur enginn stjóri undanfarin 10 ár gert eins marga óþekkta eða lítið þekkta leikmenn að heimsklassa leikmönnum og Klopp gerði hjá Dortmund. Eitt það allra besta sem hann gerði hjá Dortmund hefur vantað í pússlið hjá Liverpool þessi fyrstu tvö tímabil hans, þ.e. að búa til afgerandi markaskorara.

Alveg frá því hann tók við hefur maður velt því fyrir sér hver það yrði sem myndi springa út. Origi hafði allt til að bera (og hefur mögulega enn), Benteke var undir smásjánni hjá Dortmund þegar Klopp var þar. Firmino er eins og skapaður fyrir Klopp. Ings hefur aldrei fengið séns á að sanna sig og Sturridge fannst mér reyndar aldrei líklegur í Klopp fótbolta, það var vitað frá upphafi að hann hefur ekki skrokk í það. En ekkert gerðist, Klopp keypti ekki sóknarmann fyrstu þrjá leikmannagluggana og engin sprakk almennilega út.

Fyrir mótið var ég töluvert spenntur fyrir Mo Salah og fagnaði þeim kaupum gríðarlega, einmitt sú tegund af leikmanni sem vantaði. En að það yrði hann sem myndi fyrstur springa út sem heimsklassa sóknarmaður á tíma Klopp hjá Liverpool sá ég ekki fyrir. Hvað þá á svona svakalega skömmum tíma. Hann skoraði samt alveg 15 mörk og lagði upp 11 í Seria A í fyrra.

Það að Firmino sé kominn með 22 mörk og níu stoðsendingar kemur í raun minna á óvart. Hann sá maður alveg fyrir að gæti tvöfaldað allar tölur sinar hjá Liverpool. Best við þá er samt að markaskorun er bara partur af því sem þeir gefa liðinu. Vinnusemin er fullkomlega í ands stjórans og Firmino er með flottari tölfræði varnarlega en flestir varnarmenn. Klárlega besti sóknarvarnarmaður Liverpool síðan Ian Rush. (Með þessu er ég að halda því fram að hann sé betri varnarlega en Suarez var og hann var klikkaður).

Fyrir utan þá er svo einn til viðbótar sem skoraði þrennu í síðasta Meistaradeildarleik og hefur í raun alla burði til að springa út fyrir framan markið líkt og Salah hefur gert. Fyrir tímabilið hefði maður ekkert frekar giskað á Salah frekar en Mané.

Þetta gerði Klopp einnig hjá Dortmund, fyrsta árið var hann með Alexander Frei frammi sem skoraði 12 mörk. Árið eftir keypti hann Lucas Barrios frá Colo-Colo í Chile á €4.2m, hann var kannski ekki í heimsklassa en skilaði 21 og 23 mörkum á mótunarárum Dortmund undir stjórn Klopp og var markahæstur tímabilið sem þeir unnu deildina. Leikmaður sem enginn hafði heyrt um áður i Evrópu og hann hefur ekkert gert merkilegt síðan.

Árið eftir að Barrios var keyptur kom Robert Lewandowski 22 ára sóknarmaður frá Poznan í Póllandi á €4.5m. Fyrra árið var hann í skugganum af Barrios og spilaði fyrir aftan hann og fékk þar tíma til að aðlagast liðinu. Árið eftir meiddist Barrios og Lewandowski var tilbúinn að taka af honum stöðuna. Hefði Lewndowski orðið sá sóknarmaður sem hann er í dag ef hann hefði ekki hitt Klopp 22 ára? Höfum líka í huga að hann var 22 ára þegar hann kom til Dortmund og 23 ára þegar hann varð aðalframherji liðsins, fullkomlega óþekktur utan Póllands. Til samanburðar er Origi er 22 ára núna, Woodburn er 18 ára, Solanke er 19 ára og allir í miklu stærra liði en Dortmund var 2010.

Aubameyang var svo 24 ára og kom frá Saint-Eténne þegar Dortmund keypti hann 2013. Hann var sem unglingur gríðarlegt efni og var mjög góður í Frakklandi. Hann varð hinsvegar heimsklassa sóknarmaður hjá Dortmund og fór að skora 25-41 mark á tímabili. Líklega er hvað mest hægt að líkja Salah fyrir Aubameyang, svipaðar týpur af kantmönnum á yngri árum, svipað fáránlega fljótir og enda báðir sem sóknarmenn. Næsta verk hjá Salah er að vera eins stöðugur og Auba hefur verið.

Hryggsúlan hefur því breyst gríðarlega nú þegar og liðið í heild miklu sterkara en fyrir 12 mánuðum. Klopp er þar fyrir utan langt í frá búinn að fullmóta liðið.

Bakverðir

Mesta breytingin í vetur hefur þó verið í þeirri stöðu sem var veikasti hlekkurinn í fyrra (ásamt markmannsstöðunni). Alberto Moreno átti frábæra endurkomu í liðið í byrjun tímabilsins og stóð uppúr í annars lélegri vörn, hann var augljós bæting á því sem Milner var að bjóða uppá eftir áramót í fyrra og miklu betri sóknarlega. Maður óttaðist því mikið þegar hann meiddist seint í haust. Síðan þá hefur Andy Robertson ekki bara eignað sér stöðuna heldur sprungið loksins út eins og efni stóðu til þegar hann var einn efnilegasti leikmaður Skotlands fyrir svona fimm árum. Þá voru allir á því að hann væri einmitt nógu góður til að spila fyrir eitt af stóru liðunum.

Moreno er 25 ára og Robertson er aðeins 23 ára. Ég hugsa að báðir hefðu alltaf komist í byrjunarlið Liverpool sem vinstri bakverðir undanfarin svona 28 ár. Þetta er ekkert rosalega stór fullyrðing enda mikil vandræðastaða hjá Liverpool en gríðarlega jákvætt að sjá loksins spennandi lausn þarna. Mögulega á Riise skilið meiri virðingu en eini vinstri bakvörður Liverpool sem ég held að hafi verið virkilega betri leikmaður en Moreno og Robertson var Fabio Aurelio sem því miður var ekkert hægt að treysta á vegna meiðsla. Haldist Robertson heill verður hann partur af varnarlínu Liverpool næstu árin með þessu áframhaldi. Að hafa Moreno að keppa við hann um stöðuna er bara jákvætt fyrir Liverpool meðan á því varir.

Ótrúlegt en satt hefur hægri bakvarðarstaðan verið meira til vandræða í vetur. Eitthvað held ég að maður hefði nú óttast tímabilið hefði maður vitað að Clyne væri ekki ennþá búinn að spila eina mínútu í mars. Joe Gomez spilaði ekki eina mínútu á síðasta tímabili og aðeins sjö leiki timabilið þar á undan, engan af þeim undir stjórn Klopp. Ofan á þetta varð hann aðeins 20 ára í maí. Að ætla að treysta á hann heilan vetur á Meistaradeildartímabili er fáránleg áhætta.

Trent Alexander-Arnold er svo 18 ára þegar tímabilið hefst með 166 mínútna reynslu af Úrvalsdeildarfótbolta. Þeir hafa líklega verið veikustu hlekkirnir í liðinu heilt yfir tímabilið en þessi veikleiki er hratt að breytast í styrkleika núna því góðu leikjunum fjölgar mjög hratt og báðir hafa fengið gríðarlega reynslu í vetur sem líklega sparar Liverpool gríðarlegar fjárhæðir sem undanfarin ár hafa farið í kaup á squad leikmönnum sem þurfa svo sínar mínútur með sínum miðlungs frammistöðum. Líklega er of harkalegt að tala um þá sem veika hlekki enda báðir vaxið þannig að maður sér enga þörf á því núna að hraða komu Clyne í byrjunarliðið.

En endurkoma Clyne breikkar hópinn töluvert og ekki endilega bara í hægri bakverði. Framtíð Joe Gomez er klárlega sem miðvörður, hvort sem það verði í þriggja manna vörn með hann hægra megin eða tveggja manna vörn (vonandi við hlið Van Dijk). Framtíð Trent gæti alveg verið áfram í hægri bakverði, hann hefur allt að bera til að verða heimsklassa leikmaður í þeirri stöðu og líklega er það hans einfaldasta leið inn í byrjunarlið Liverpool á næstu árum. En upp yngri flokka og að ég held fyrir yngri landsliðin hefur þetta verið djúpur miðjumaður eða box-to-box miðjumaður og jafnvel ennþá meira efni þar. Hver veit nema Alexander-Arnold verði þessi varnartengiliður sem við höfum verið að óska eftir undanfarin ár? Báðir held ég að séu a.m.k. það mikil efni núna að erfitt verði að halda þeim lengi á bekknum. Bæði Gomez og TAA finnst mér vera eins og Gerrard og Carragher á sínum tíma, leikmenn sem fundið er hlutverk fyrir þó það sé ekki alveg í þeirra bestu stöðu strax.

Woodburn gæti mögulega bæst við þann hóp fljótlega, það sér það auðvitað hver heilvita maður að það er miklu auðveldara að brjóta sér leið inn í Liverpool liðið sem varnarmaður heldur en sóknarmaður. (Reyndar ætti Grabara nú þegar að vera orðin aðalmarkmaður m.v. þessi rök).

Hvað næst?

Mögulega er full mikið í glasinu hjá okkur um þessar mundir og allt fer á versta veg núna á lokasprettinum. Það er samt ekkert sem bendir til þess og gaman þegar maður sér liðið augljóslega vera bæta sig hægt og rólega. Höfum ekki séð merki um slíkt á þriðja tímabili stjóra Liverpool síðan Hollier og Benitez voru við stjórnvölin. Klopp er búinn að bæta nokkrum pússlum við í vetur sem við höfðum áhyggjur af í sumar og er kominn vel á veg með næsta sumar einnig.

Liðið er á frábærum aldri og eins og staðan er í dag hefur maður bara áhyggjur af því að missa einn leikmann, Emre Can. Það væri mjög svekkjandi að missa hann á frjálsri sölu eftir að hann hefur tekið út sín mótunarár hjá Liverpool. Þetta er byrjunarliðsmaður í landsliði Þjóðverja og hefur allt að bera til að verða heimsklassa leikmaður. Engu að síður hefur maður einnig þá tilfinningu að hann muni sakna Liverpool og þá sérstaklega Klopp mun meira en Liverpool mun sakna hans. Með Keita á leiðinni og hvernig Klopp er að bæta aðra leikmenn missir maður ekki svefn yfir því hvernig skarð Emre Can verði fyllt. Reyndar man ég ekki eftir stjóra sem ég treysti betur til að fylla skarð hvaða leikmanns sem er. Þegar hann tók við var engin augljós heimsklassaleikmaður í liðinu. Þeir voru orðnir fjórir í byrjun janúar og eru það ennþá þó við skiptum Coutinho út fyrir Van Dijk.

Auðvitað eru sex lið í baráttunni um fjögur sæti. Man City er út úr myndinni á toppnum og Arsenal er við það að hellast úr lestinni. Liverpool þarf því núna “bara” að enda fyrir ofan eitt af United, Chelsea eða Tottenham. Ég held að við hefðum tekið þessari stöðu fyrir mót með 10 leiki eftir og Liverpool að spila eins og liðið er að gera. Hvað þá með liðið svo gott sem öruggt í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar og til alls líklegt þar. Það er ekki eins og Liverpool hafi eitthvað haltrað áfram í þeirri keppni. Til að vinna riðilinn varð Liverpool að vinna síðasta heimaleikinn, það tókst 7-0. Fyrsti leikur liðsins í 16-liða úrslitum í 9 ár endaði 0-5 á útivelli, jafn mörg mörk og liðið skoraði í sex ömurlegum Meistaradeildarleikjum árið 2014.

Formið sem liðið er í núna er líkara því sem við sáum á sama tíma 2013/14 heldur en t.d. í fyrra þegar liðið haltraði í 4.sætið og náði aldrei almennilega takti eftir áramótin.

Lán (í óláni) að detta snemma úr leik í bikarkeppnum

Það að detta snemma úr bikarkeppnum hefur klárlega hjálpað okkur, sama hvað Steini vinur minn og aðrir reyna að þræta fyrir það. Á þessum tímapunkti i fyrra var Liverpool búið að spila níu bikarleiki án þess að komast svo mikið sem í úrslit í hvorugri helvítis keppninni. Samtals var liðið búið að spila 35 leiki og marga þeirra fullkomlega á hnjánum vegna álags, sérstaklega í janúar þegar liðið vann aðeins einn leik. Meiðslalistinn var í takti við álagið.

Núna hefur Liverpool spilað 40 leiki nú þegar í öllum keppnum, fimm fleiri en á sama tíma í fyrra. Þrír af þeim hafa verið bikarleikir og allt leikir gegn Úrvalsdeildarliðum, ekki leikir til að hvíla byrjunarliðið. Ég fullyrði að Liverpool væri ekki þar sem það er í deildinni núna ef þetta væru núna 46 leikir sem liðið hefði spilað. Þessir sex aukaleikir í bikar (miðað við síðasta tímabil) hefðu flestir verið á tímabilinu desember-febrúar þegar leikjaálagið er nú þegar svakalegt. Þetta þarf ekki að kosta nema 3-6 stig til að kosta okkur Meistaradeildarsæti og það er of dýrt. (Liverpool komst í Meistaradeild í fyrra með því að enda með stigi meira en Arsenal svo dæmi sé tekið).

Frekar vill ég hafa Liverpool með engan á meiðslalista líkt og við erum vonandi að upplifa í fyrsta skipti núna og með liðið úthvílt fyrir mikilvæga leiki í deild og Meistaradeild.

Auðvitað held ég með Liverpool á meðan þessum bikarleikjum stendur og vill að liðið fari áfram, sérstaklega í FA Cup. Eins sé ég alveg hvað deildarbikarleikir hefðu getað gefið leikmönnum sem alla jafna eru ekki í byrjunarliðinu. En mikið rosalega er ég fljótur að jafna mig þegar liðið dettur út. Sérstaklega þegar baráttan um Meistaradeildarsæti er þetta tvísýn og hörð. Hvað þá þegar liðið er til alls líklegt í sjálfri Meistaradeildinni.

Það að komast í Meistaradeildina aftur á næsta tímabili er miklu mikilvægara fyrir Liverpool núna en sigur í FA Cup eða Deildarbikar væri. Hundful nútíma staðreynd og ég held að hópurinn hjá Liverpool núna sé ekki nógu breiður til að fara langt í öllum fjórum keppnunum.

Hrikalega vona ég að þessi pistill nái að eldast vel þrátt fyrir að næstu leikir séu gegn Rafa Benitez og Jose Mourinho, líklega þeim stjórum sem ég myndi hvað allra síst vilja eiga i næstu umferðum.

Treysti samt Klopp vel til að vinna skákina gegn þeim báðum.

8 Comments

  1. Ég velti fyrir mér hvort Van Dijk var nákvæmlega púslið sem Liverpool þurfti og það þurfi ekkert endilega að fjárfesta í öðrum miðverði eins og margir tala um. Allavega get ég tekið undir það í þessum pistli að hann virðist gera bæði Lovren og Matip betri og vörnina almennt mun sterkari sem var reyndar orðin mjög góð áður en hann kom.

    Hvað sóknarleik varðar, spyr ég mig hvort það gæti verið sniðugt að fjárfesta í framherja með gæði á við Griezmann og færa Firmino niður á miðjuna. Ég er aðallega að hugsa þetta út frá því að vinnusemi hans er fáranlega mikil og það kæmi mér ekkert á óvart að hún gæti nýst betur á miðjunni.

    Ég held að ef liðið nær að fjárfesta í sirka tveimur til þremur gæðaleikmönnum til viðbótar þá er augljóst að liðið á virkilega góða möguleika á fara í titilbaráttu á næsta ári.

  2. Grípbara ætti nú þegar að vera orðin aðalmarkmaður m.v. öll rök.

  3. Mikið er þetta skrifað af mikilli ástríðu fyrir okkar ástkæra liði, Einar Matthías. Margt sem ég tek undir hér.

    Biðin eftir City-breidd verður áfram einhver en liðið lítur mjög vel út núna og leikmenn sem voru lítið annað en uppfyllingarefni eru orðnir fáránlega góðir á nokkrum mánuðum.

    Þarna liggur styrkur Klopps. Fáir hafa orku til að fylgja planinu hans til lengri tíma, og því meiðast leikmenn eða ná ekki að springa út innan kerfisins. Þetta er líklega ástæða þess að væni Sturridge hefur ekki náð sér almennilega á strik í nýjum bolta Klopps. Þeir sem geta spilað þennan bolta bætast hins vegar á heimslistann nokkuð fljótt.

    Við eigum gæðastjóra sem kann líka að gefa leikmönnum breik þegar á þarf að halda. Það er ekki sjálfgefið að hafa skilning á mannskap sínum á þennan hátt, og maður sér stjóra annarra liða stundum ofnota eða vannota liðið sitt með verri árangri en næst hjá fyrrum stóra Freiburg.

    Við hljótum að vera virkilega stolt um þessar mundir af okkar leikmönnum. Það er hreint út sagt til fyrirmyndar hversu mikið er lagt á sig. Allt endurspeglast þetta í gæðum okkar tveggja bestu, Salah og Firmino, en hinir elta þá og eru sjálfum sér til hróss.

    Gæðalið.

    Great times.

    YNWA

  4. Takk fyrir þessa stórgóðu greiningu. Er að flestu leiti sammála nema með að bakverkirnir hafi verið slakasta staðan sl vetur. Því fer víðsfjarri enda bæði miðverðir og markvarsla slakari ef tímabilið er gert upp. Bakverðir er vandasöm staða þar sem hápressubakverðir virka meira sem miðjukanttenglar sem setur aukaálag á miðverðina sem verða að geta höndlað hraðar skyndisóknir hinna liðanna. Við höfum séð hvað liðið hefur fengið á sig mörkum eftir slíkar aðstæður svo og eftir föst leikatriði sem var, ég segi var, sér kapítuli útaf fyrir sig. Miðverðir í kerfi Klopp þurfa líka að vera sérstakar týpur að ég held.

  5. Sælir félagar

    Takk fyrir pistilinn Einar Matthías og ég er flestu sammála um úttektina á liðinu. Hvað hægri bak varðar er ég líka sammála og hefði áhuga á að fá heimsklassa bakvörð þar því ég held að TAA verði miðjumaður í framtíðinni en ekki bakvörður. Gomes er miðvörður að upplagi og Clyne er fyrst og fremst varnarmaður og hefir að mínu mati mikla veikleika sem sóknarbakvörður.

    Nú er staðan þannig hjá klúbbnum að hann hefur gífurlegan tekjuafgang og t.d. bara stækkunin á leikvanginum skilaði 12 mill.punda gróða það sem af er. Þeir sem um véla hjá Liverpool segja að miklu fé verði varið í að styrkja liðið í sumar. Þar sé ég fyrir mér hægri bakvörð, markmann, miðjumann (tilviðbótar við Keita) heimsklassa sóknarmann því hugmynd Bynjars hér að ofan þar sem hann talar um Firmino sem sóknartengilið er áhugaverð.

    Efalaust eru ekki allir sammála mér um þetta sérstaklega hvað varðar Clyne. Ég hefi ekki verið eins hrifinn af honum eins og margir aðrir. Mér finnst hann ágætur varnarbakvörður en langt frá því að vera í þeim klassa sem þarf til að gera atlögu að meistaratitli því miður. Sérstaklega á þetta við um sóknargetu hans. Við þurfum miklu sterkari mann þar inn en Clyne er ef við eigum að eiga séns þeim megin. Hann er aftur á móti mjög góður upp á breiddina til að gera.

    En takk fyrir umræðuna og ég mun ekki taka því illa þó einhverjir verði mér ósammála. Það er alveg óhætt fyrir okkur að ræða málin og segja hvað menn eru að hugsa í þessum málum fyrir komandi leiktíð.

    Það er nú þannig

    YNWA

  6. Sigkarl ekki orð um það meir 🙂 ég er bæði sammála þér og pistlahöfundi og það gerist ekki á hverjum degi.

  7. Þegar fólk er að velta fyrir sér leikmannavali, taktík og mögulegum leikmanna auðum Klopp þá þarf að skilja Klopp. Bókin “Bring the noise” gefur frábæra innsýn inn í persónu hans og hvernig hann vinnur. Td eftir lestur bókarinnar efast ég um að hann kaupi nokkurn af fyrrum leikmönnum sínum og leikmenn sem eru helst yngri en 23 ára. Hann vill fá unga, hungraða leikmenn sem gefa sig alltaf 110% fyrir “The Klopp-way”.

    Mæli með bókinni ?

Podcast – tactical genius

Benitez kemur í heimsókn