Páskahelgar heimsókn á Selhurst Park

Í hádeginu á laugardegi páskahelgar lýkur loks þessi gríðarlega langa landsleikjafríi. Sjálfur er ég mikill aðdáandi landsleikja en í þetta skipti líður mér eins og það sé ár og öld síðan Liverpool spilaði síðast. Það ætti að vera hægt að fresta landsleikjahléum eftir stórsigra Liverpool. Á morgun verður andstæðingurinn enginn annar en fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool, Roy Hodgson, og ernirnir hans í Crystal Palace. Sumarið 2010 tók Roy við Liverpool og var ég þá að skrifa upphitanir á Liverpool.is og gerði þar pistil um Roy og reyndi ég að vera jákvæður þrátt fyrir að hafa verið á móti ráðningunni. Ég benti á að hann hefði gert vel með minni lið líkt og þegar hann vann Allsvenskuna með Halmstads og komist í úrslit Evrópudeildarinnar með Fulham og einnig gert ágætlega þegar hann væri með stórt lið þegar hann vann deildirnar með Kaupmannahöfn og Malmö ásamt því að vera velliðinn hjá Inter Milan eftir stutta stjóratíð þar. Þrátt fyrir að hafa nánast náð að skrifa inn í mig jákvæðni á sínum tíma þá er sorglegt að horfa yfir þetta í dag að Roy hafi virkilega fengið starfið. Roy stýrði Liverpool í 31 leik vann 13 gerði 9 jafntefli og tapaði 9. Þegar Roy var látinn fara í janúar sat Liverpool í 12 sæti deildarinnar og var þetta versta ár sem ég hef upplifað með Liverpool.

Roy og Palace

Nú mætir hann hinsvegar sem stjóri andstæðinganna og Roy sem andstæðingur hefur reynst Liverpool nánast jafn illa og Roy sem samherji en hann hefur átta sinnum mætt Liverpool þar af fimm sinnum sem stjóri Fulham og þrisvar sem stjóri West Brom og hefur hann sigrað þrisvar tapað þrisvar og gert tvö jafntefli og er markatalan milli Liverpool og Roy 7-7. Palace eru í mikilli fallbaráttu eins og er en þeir sitja í 16.sæti með 30 stig en hafa spila einum leik fleiri en Southampton og West Ham sem elta þá. Palace þurfa því að sækja sér nokkur stig í síðustu átta leikjunum til að halda sér uppi en liðið er í nokkrum meiðslavandræðum. Markmaðurinn Speroni, hafsentinn Scott Dann, kantmennirnir Schlupp, Sako og Puncheon ásamt sóknarmanninum Conor Wickham eru allir frá en Zaha, Tomkins og Joel Ward eru allir tæpir en ég gæti séð Roy stilla svona upp.

Hennessey

Bissaka – Sahko – Tomkins – Van Aanholt

McArthur – Milivojevic

Townsend – Cabaye – Zaha

Benteke

Ef þetta verður raunin verða tveir fyrrum Poolarar í byrjunarliði Palace í Sahko og Benteke en gætum einnig séð Martin Kelly spila ef Tomkins missir af leiknum. Vonum að þessir menn eigi ekki góðan dag á morgun þó það sé ólíklegt hjá Benteke sem finnst ekkert skemmtilegra en að spila gegn Liverpool og hefur skorað sjö mörk í níu leikjum gegn okkur. Hann er þó að eiga slakan vetur fyrir framan markið með aðeins 2 mörk í 25 leikjum.

Liverpool

Á páskadag mætast Chelsea og Tottenham en það eru liðin í fjórða og fimmta sæti að mætast innbyrgðis og því með sigri á morgun værum við pottþétt að koma okkur í þægilega stöðu fyrir meistaradeildarsæti á næsta tímabili. Auðvitað eru líkur á því að Klopp verði með hálfan hug við leikinn næsta miðvikudag í Meistaradeildinni gegn City á Anfield, sérstaklega þar sem nokkrir leikmenn komu tæpir heim eftir landsleikina. Það er ljóst að Joe Gomez verður ekki með í leiknum en hann meiddist í leik með Englendingum og verður frá í ca mánuð. Þá eru einnig Dejan Lovren, Emre Can, Andy Robertson og Solanke tæpir fyrir þennan leik. Í dag snýst þó flest um skytturnar okkar þrjár Mané, Salah og Firmino en í seinni leik landsleikjahlésins voru bæði Firmino og Salah hvíldir en Sadio Mané spilaði 87 mínútur á þriðjudaginn fyrir Senegal gegn Bosníu. Þeir snéru allir aftur til Liverpool í gær ég gæti því hugsanlega séð Klopp hvíla Mané en hinir tveir munu án efa spila.

Nú eru sjö leikir eftir af deildinni Palace úti, Everton úti, Bournemouth heima, West Brom úti, Stoke heima, Chelsea úti og Brighton heima ef farið er eftir leikjum Liverpool við sömu eða sambærilega andstæðinga í fyrra náðum við í nítján stig, unnum alla nema Bournemouth heima sem endaði í jafntefli. Ef sama verður uppi á teningnum í ár endar liðið með 82 stig en á síðustu tíu árum hefði það tvisvar dugað til sigurs í deildinni. Hinsvegar eru stóru leikirnir í ár gegn City næstu tvær vikurnar enda væri stórt statement ef liðið myndi ná lengst allra enskra liða í meistaradeildinni eftir langa fjarveru þaðan og þegar komið er í undanúrslit getur allt gerst eins og við sáum árið 2005. Því gætum við séð einhverja hvílda á morgun en ekki marga. Gæti séð liðið í þessa áttina.

Karius

TAA – Lovren – Van Dijk – Moreno

Wijnaldum – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Chamberlain

Ég býst ekki við að hann taki áhættuna á mönnunum sem eru tæpir og geri ráð fyrir að Mané sitji á bekknum. Lallana gæti einnig dottið inn fyrir Chamberlain en veit ekki hvort hann sé orðinn nægilega heill til að byrja leiki, finnst líklegra að hann muni koma inn á í leiknum.

Spá

Ég geri ráð fyrir að menn mæti af miklum krafti og vilji tryggja sér byrjunarliðssæti gegn City og við vinnum leikinn 3-0 með mörkum frá Salah, Chamberlain og Milner.

8 Comments

  1. Einfaldlega of mikilvægur leikur til að hvíla nokkurn mann.
    Ef Mane er ekki meiddur þá tel ég að hann byrjar þennan leik.

    Palace liðið er eiginlega tvö lið eitt án Zaha og eitt með Zaha. Þessi lið eru gjörólík. Zaha er einfaldlega það góður að hann getur búið til mörk eða færi upp úr engu og Benteke elskar að skora gegn Liverpool svo má ekki gleyma að Sakho er líklegur einnig en hver mann ekki þegar hann fagnaði marki palace á Anfield þegar hann var lánsmaður hjá þeim.

    Við erum að fara í gegnum erfitt prógram og því mjög mikilvægt að byrja það vel og ná í 3 stig hérna.

    YNWA – Spáum 1-2 sigri þar sem Firmino og Djik skora okkar mörk en Benteke auðvita fyrir heimamenn.

  2. Ég held að Mane byrji alltaf. Þessir menn eru í toppformi og geta vel spilað tvo leiki í viku. Menn geta ekkert leyft sér að hvíla svona stóra pósta en þetta er bara mín spá 🙂

  3. Ég hef ekkert allt of góða tilfinningu fyrir þessum leik. Ástæðan fyrir áhyggjum mínum er að nánast allur leikmannahópur Liverpool er að koma úr því að spila með landsliðum sínum og framundan er tryllt leikjatörn á meðan örfáir af leikmönnum Palace fengu kallið.

    Palace er með gott lið og það kæmi mér ekkert á óvart ef leikmaður á borð við Zaha yrði keyptur til stórliða á næstu árum. Allavega fiinnst mér margt í hann spunnið.

    Ég er ekki að sjá fyrir mér að Chamberlain sé hugsaður sem vængmaður hjá Klopp og því held ég að Mane byrjar eða það verði breytt í einhverskonar form af 4-4-2. Hef ekki einustu hugmynd um hvernig liðinu verður stillt upp en tek undir að það mætti nýta breiddina til hins ítrasta í leikjum sem þessum, þar sem margir stórleikir eru framundan.

    Ég spái mínum mönnum samt sigri en held að þessi leikur verði í þyngri kantinum.

  4. Sælir félagar

    Einhverra hluta vegna fer þessi leikur fyrir brjóstið á mér. Ég veit ekki af hverju en það er eitthvað sem nagar mig. Vonandi er það bara áunnin bölsýni manns sem hefur horft á og haldið með þessu liði í 50 ár eða svo. Mér finnst að leikurinn fari í jafntefli 2 -2 og það sama gerist hjá Tottenham og Chelsea. Þannig að eftir leiki helgarinnar verður ekkert breytt hjá efstu 4 nema MU tapar sínum leik frekar óvænt fyrir stuðningmenn þess liðs en ekki fyrir aðra.

    Nei hver fjandinn. Hverslags bölsýni er þetta. Ég tek þetta allt aftur nema síðustu setninguna. Við vinnum þennan leik 0 – 4 og tott og Chelsea gera jafntefli 1 – 1. leikur MU og Swansea fer aftur á móti 0 – 1 og bilið styttist aftur verulega milli okkar og MU. Að lokum í enda leiktíðar verða bæði Liverpool og Tottenham komin uppfyrir MU og baráttan um 4. sætið verður á milli Chelsea og MU.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. Sammála Sigurkarl (Sigkarli) 0-4 en bara nenni ekki að ræð ManU eru með svo leiðinlegt lið og hvað þá þjálfara að þeir eru ekki umræðu verðir en eins og ég hef komið inn á áður þá lendum við í 2 sæti í deildinni og ManU sem er að fara niðurávið næstu daga verðu í basli með að halda 4 sætinu.

  6. Liverpool á að vinna Palace þó svo okkur mundi vanta 6 byrjunarliðsmenn. Klopp er að fara að keyra á blönduðu aðalvaraliði og tekur Salah, Bobby og Hendo útaf snemma seinni hálfleiks þegar Salah verður búinn að skora 2 og leggja upp 2.

    6-1 fyrir okkur á morgun.

  7. Það er bara svo gaman hjá þessum strákum að eftir fagnaðarfundi á Melwood eru menn gíraðir í næstu törn.
    Leikurinn við Palace verður þó snúinn en agaður og þolinmóður leikur okkar klárar þetta.
    YNWA

  8. Mikilvægt að byrja þennan leik vel og klára hann helst í fyrri hálfleik
    Vill alls ekki sjá Moreno byrja en honum má skipta inn á þegar sigur er komið í hús, ekki fyrr ?

Podcast – Tottenham umræða með Hjamma

Liðið gegn Palace.