Crystal Palace 1-2 Liverpool.

Mörkin

Luka Milivojevic 1-0 víti ’13

Sadio Mane 1-1 ’49

Mohamed Salah 1-2 ’84

Leikurinn

Fyrri hálfleikur var virkilega dapur á allan hátt. Leikurinn byrjaði rólega þar sem menn voru að slípa sig eftir landsleikjahlé og fátt markvert gerðist fram að 8. mínútu þegar Saha komst einn í gegnum vörn Liverpool en Karius gerði sig breiðan og varði virkilega vel. á 11. mínútu skallaði Van Dijk á markið eftir horn en Mané var fyrir og flikkaði honum framhjá. Spurning hvort sá bolti hefði endað í netinu. Strax í næstu sókn kom sending inn fyrir sem Benteke flikkaði á Saha og Karius óð út úr markinu og felldi Saha. Víti réttilega dæmt á Karius en Trent Arnold leit illa út ásamt Matip sem gerði alls ekki nóg til að hjálpa hinum unga bakverði. Uppleggið var greinilega sama uppskrift og Man Utd notuðu um daginn að vinna skallaboltana og flikka inn á fljótan vængmann gegn Trent og af þessu þurfa menn að læra. Trent er virkilega efnilegur en það vantar enn töluvert uppá aga í varnarleiknum. Karius lærir svo vonandi af þessum mistökum sínum því þetta óðagot var algjörlega óþarft. Úr vítinu skoraði Luka Milivojevic örugglega 1-0.

Á 24. mínútu fékk Mané spjald fyrir dýfu en í endurtekningum sást klárlega að hann hefði átt að fá víti en hann dettur klaufalega aðeins eftir að hafa staðið af sér tæklinguna. Mané var svo aftur á ferðinni þegar hann skoraði á 30. mínútu en markið réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Salah reyndi máttlaust skot og Mané átti fínan skalla í lok hálfleiksins sem Hennessey varði vel. Benteke var svo að djöflast í hælunum á Van Dijk og fékk gult en stuttu síðar fór hann aftur aftan í Van Dijk og vildu einhverjir rautt en í það skiptið tel ég um óhapp að ræða. 1-0 var staðan í hálfleik og liðið var hreint út sagt virkilega andlaust í fyrri hálfleik. Miðjan steingeld, einföldustu sendingar rötuðu ekki á samherja og ekkert gekk upp. Trent Arnold átti líklega verstu frammistöðu hálfleiksins en Mané, Van Dijk og Robertson voru okkar menn skárstir.

Seinni hálfleikur byrjaði vel og Liverpool náðu fínum fyrstu tíu mínútum. Milner kom mun ferskari inn eftir dapra frammistöðu í fyrri hálfleik og átti þessa fínu stoðsendingu á Mané á 49. mínútu sem átti ekki í erfiðleikum með að skora og jafnaði þar með Demba Ba í markaskorun yfir Senegala í úrvalsdeildinni, 43 mörk. Salah hefði skorað eitt af mörkum tímabilsins hefði skot hans á lofti gengið upp en boltinn fór vel yfir.  Eftir þessar c.a tíu góðu mínútur komust Crystal Palace aftur inní leikinn og átti Benteke tvö dauðafæri eftir sofandahátt í vörninni og sjaldséð mistök Van Dijk. Sem betur fer fyrir okkur var hann ekki á skotskónum í dag frekar en fyrr í vetur. Mané átti svo að fá rauða spjaldið þegar hann greip boltann til sín. Hann taldi sig fá aukaspyrnu sem og hann átti að fá en dapur dómari leiksins dæmdi ekki og greip Mané í boltann í kæruleysi og átti þar með að fá sitt annað gula spjald. Dómarar á Englandi sýna það í hverri viku hversu vanhæfir þeir eru en í þetta skipti sem betur fer fyrir okkur.  Klopp gerði tvöfalda skiptingu á 64′ mínútu. Mané fór út fyrir Chamberlain og Lallana kom inná fyrir virkilega dapran Wijnaldum. Tveimur mínútum síðar meiddist Lallana aftan í læri og leit það alls ekki vel út. Ég tippa á að tímabilið sé búið hjá honum. Í hans stað kom Lovren inná sem eftir á að hyggja ég tel hafa verið góða ákvörðun til að þétta leik okkar aftast á vellinum. Salah fékk svo dauðafæri á 77. mínútu eftir góðan undirbúning Milner en náði ekki til knattarins. Við eigum svo Egypska kónginn Mohamed Salah sem hafði lítið sést í leiknum. Á 84′ mínútu fékk hann knöttinn í teignum eftir sendingu Robertson, snéri af sér Sakho og lagði hann snyrtilega framhjá Hennessey í markinu 1-2. Leikurinn fjaraði svo út án mikilla tíðinda. Ekki besti fótboltaleikur sem maður hefur séð en gríðarlega mikilvæg þrjú stig í baráttunni um sæti 2-4. Við öndum léttar og þökkum Fowler fyrir að Roy Hodgson hafi ekki eyðilegt fyrir okkur páskana.

 

Bestu menn Liverpool

Það var hreinlega engin neitt frábær í dag og liðið náði ekki að spila sinn frábæra fótbolta gegn þessu Palace liði. Þetta var allt frekar erfitt og spurning hvort leikurinn gegn City á miðvikudaginn hafi verið eitthvað að trufla. Ég held þó ekki og fagna því að liðið hafi troðið inn þremur stigum gegn erfiðu liði í botnbaráttu eftir langt og leiðinlegt landsleikjahlé og mögulega með hugann við miðvikudaginn. Set engan sem besta mann í dag en gef liðinu kredit fyrir vinnusigur. Van Dijk var að mestu góður en átti skelfileg mistök í seinni hálfleik sem hefði getað kostað okkur þessi stig.  Liðið var heilt yfir dapurt og færi ég nánar í að úttala mig um lélegustu menn okkar hefðu úrslitin verið önnur en þrjú stigin eru í húsi og það er það sem skiptir öllu máli. Þó er morgunljóst að liðið þarf að girða sig allverulega í brók fyrir leikina gegn City og deildarleikinn gegn Everton.

 

Umræðan

Fyrirsagnirnar held ég að munu fyrst og fremst snúa að Mo Salah og hversu mikill happafengur drengurinn er fyrir okkur. Apríl er rétt að hefjast og hann hefur skorað 37 mörk í öllum keppnum sem er ótrúleg tölfræði. Til að setja hlutina í samhengi og kannski finna mann til að bera hann saman við samanber stöðuna sem hann spilar gætum við tekið McManaman sem skoraði 66 mörk á níu árum með Liverpool og þótti nú bara frekar góður. Auðvitað er kerfið annað og Salah að spila mun framar en hann er samt ekki senter.

Umræðan verður einnig á dómaranum en það gleymist fljótt því nú fer öll einbeiting á leikinn gegn City í meistaradeild Evrópu.

 

Næsta verkefni

Næst er það Man City á Anfield á miðvikudaginn í átta liða úrslitum meistaradeildar Evrópu. Þessi leikur verður vonandi taumlaus skemmtun og hávaðinn á Anfield í hámarki sem mun leiða okkur til góðra úrslita. Þessi leikur verður svakalegur og allir fótboltaáhugamenn missa ekki af honum. En meira um hann í upphitun eftir helgi. Þangað til YNWA!!

 

27 Comments

  1. mikilvægur sigur á erfiðum velli. maður fer “næstum” að vorkenni Palace þessa stundina, búnir að tapa leikjum við Spurs, united og nú Liverpool á síðustu metrunum.

    Ég vona að fyrirsagnirnar snúist ekki um dómgæsluna eftir leikinn, en það er ljóst að Mané var stálheppinn.

  2. Ekki okkar besti leikur í vetur en 3 stig og við tökum þeim fagnandi.
    Við fengum á okkur mark snemma í leiknum en við stjórnuðum leiknum í fyrirhálfleik og fannst manni þetta bara spurning um hvenær við myndum ná að opna þá.
    Það tókst strax í byrjun síðariháfleik og hélt maður að við mundum halda pressuni áfram og klára þetta.
    Það sem gerðist var að við urðum ótrúlega kærulausir varnarlega Djik með skelfilegmisstök og Benteke fékk tvö dauðafæri til að koma heimamönum yfir en það er ástæða fyrir því að hann er ekki lengur hjá Liverpool.
    Talandi um leikmenn sem eru ekki hjá Liverpool þá var það Sakho með ömurlegan varnarleik þar sem hann ætlaði að renna sér í fyrirgjöf en missti af henni og þar með var Salah alveg aleinn og kláraði vel.

    Þetta var fyrir fram erfiður leikur þar sem þeira leikskipulag hentar okkur illa. Þeir pakka í vörn og eru svo með stórhættulega sóknarmenn til að refsa í flýti.

    Þetta tókst í dag en er ömurlegt að líklega er Lallana úr leik á þessu tímabili og er það mikil vonbrigði fyrir hann sem hefur verið að berjast við meiðsli allt tímabilið og Liverpool sem eru að fara í gegnum leikjatörn en maður hefði tippað á hann í byrjunarliðið gegn Everton.

    Maður spáði 1-2 sigri með mörkum frá Mane/Salah og er ekki á hverjum degi sem það tekst hjá manni en þetta lætur mann anda aðeins rólegra fyrir leik Chelsea – Tottenham á morgun en ég er 100% um að bæði liðinn vinna ekki þennan leik.

    Maður leiksins í dag: Maður fannst engin standa sérstaklega uppúr og er því ekki bara við hæfi að velja Salah sem sást varla en bjargaði stigunum 3 en og aftur.

    P.s dómarnir í dag voru ekki að falla með okkur en þegar maður sigrar þá er maður bara drullu sama.

  3. Sennilega sætasti sigurinn á leiktíðinni……loksins sigur sem við verðskulduðum ekki! Geðveikt!! Getur einhver hérna frætt mig um það hvernig í ósköpunum Mané fékk að hanga inni á vellinum?? OK. hann átti að fá aukaspyrnu því það var brotið á honum, en fyrst dómarinn mat svo að það væri ekki þá átti hann auðvitað að fá gult spjald fyrir að taka upp boltann!

    Djöfull var þetta mikilvægur sigur, vá!

  4. Vill þakka Benteke fyrir drengilegan leik og gjafmild 3 stig.
    Gleðilega páska big Ben?

  5. Bara flott. Eins og einhver sagði, þetta yrði strögl, en 1-2 svoooo ljúft. Svo er næsta rimma, MC í CL , það verður eithvað, verður eithvað geggjað spái ég!

    YNWA

  6. Þetta var erfitt! Mane heppinn að fá ekki seinna gula. En TAA þarf að fá hvíld, hann er ekki búinn að vera að standa sig undanfarið og er mikill veikleiki varnarlega. Bring Clyne in please! En Andy Robertson, þvílíkt byrjunartímabil hjá litla Skotanum. Man varla eftir öðru eins, nema kannski Mo Salah!! En rauði herinn verður að spila betur í næstu þrem leikjum ef þeir ætla að fá eitthvað út úr þeim, það er næsta víst.

  7. Hversu mikið!! áttum við skilið að mane var ekki rekinn utaf. Dómgæslan búin að vera a móti okkur allt tímabilið og sérstaklega línuverðirnir. Áttunda vítaspyrnan í röð í dag sem við fáum ekki. Áttum þetta inni!!

  8. Fyrir þá sem hafa áhyggjur af því að við vinnum ekki city í meistardadeildinni….

    Við þurfum einmitt ekki að vinna þá til að komast áfram.

    Höfum það í huga

  9. Gleymum því ekki að dómarinn hefði auðveldlega gefið víti þegar það var sparkað í Mané innan teigs. Hann lét sig falla með tilþrifum en mv það sem maður hefur séð í vetur hjá andstæðingum Liverpool þá var þetta víti og ekkert annað. Þar með átti hann aldrei að vera á gulu til að byrja með. Kannski spilaði það ósjálfrátt inní hjá dómaranum seinna í leiknum. Úr því sem komið var átti Mané auðvitað að fá rautt.

  10. Sælir félagar

    Þarna var ótrúlega mikilvægur sigur í mjög erfiðum leik. Þetta C. Palace lið er allt annað lið með Zaha innan borðs og fiskaði hann að mínu víti mjög hæpið víti. Hann kom á fullri ferð með sólsann í andlitshæð á móti Karíusi og hefði með réttu átt að dæma aukaspyrnu og gult á hann fyrir háskaleik. En hvað um það CP komst í 1 – 0 og það fór um mann í framhaldinu þar sem okkar menn voru ekki að spila vel.

    En að lokumuppskáru menn fyrir baráttuna en ekki endileg fyrir frábæran fótbolta. En hvaða máli skiptir það. Við þurftum 3 stig út úr þessum leik og fengum þau. Firmino fannst mér bestur í þessum leik ásamt Milner og Mané. Um Salah þarf ekki að fjölyrða. Dásamlegur leikmaður bara. Karíus gerði það sem hægt er að ætlast til. Ég var raunar skíthræddur við þennan leik þó ég reyndi að bera mig mannalega. Því er ég helsáttur við niðurstöðuna.

    Það er nú þannig

    YNWA

  11. Skil ekki menn sem segja að víð séum heppnir að vinna þennan leik. Mér fannst við heilt yfir betri og þar af leiðandi áttum við þetta skilið.
    Vinnan göfgar manninn.
    YNWA

  12. Í þessu víti hjá CP, skiptir ekki máli að Palacemaðurinn var búinn að blaka boltanum áfram með sólann í himinhæð framhjá Karius sem auðvitað gat ekki stöðvað sig nema á andstæðingnum; boltinn fór svo hjálparlaust framhjá markinu, eða hvað? Átti sóknarmaðurinn einhvern séns meira?

  13. Ótrúlega mikilvæg 3 stig í hús! Áttum sigurinn skilinn og cp voru líka að hagnast á lélegri enskri dómgæslu. Engin tilviljun að enskir munu ekki dæma á HM í sumar.

  14. Þù meinar Zaha?

    Dòmarinn ömurlegur og bòkstaflega fyrir leikmönnum.

    Leikurinn hjá lfc frekar dapur og þetta féll með okkur nùna…loksins. Leiðinlegt með Lallana, þetta er alls ekki hans season. Var að vonast eftir að Clyne fengi 20 til 30 min. en kannski vegna meiðsla Lallana var það ekki hægt. Annars bara crucial 3 stig og auðvitað það eina sem skiptir máli.

    P.s. Everton sökkar og má ekki senda bara Gerrard með u19 liðið svo aðalliðið geti einbeitt sér að city ì cl.

  15. Sæl og blessuð.

    Svo sem ekki margt um leikinn að segja. Margir spiluðu undir getu – hvað sem veldur. Ságrætilegt að fá á sig mark eftir sama aðdraganda og gegn scums.

    Svona varnarleikur kostar að lágmarki þrjú mörk gegn liði eins og City. Gerum okkur engar grillur.

    Gæti trúað að Klopp mæti með belti og axlarbönd og hafi þrjá hafsenta enda er TAA enginn bógur til að standa einn í þessum fákum sem þeir hafa úr að spila á kantinum. Hann verður að fá ríkulega þjónustu. Og ekki spilum við Clyne í 90 mín. ef hann skyldi vera orðinn fit for fight. Svo er að dapurlegt að Lallana skyldi ekkert ná að sýna. Er hann að taka við sóttklæðunum af Sturridge?

    Þetta verður rosaleg rimma og augljóst að okkar menn þurfa að sýna allt aðra frammistöðu en þeir gerðu núna. Er, ykkur að segja, ekkert að farast úr bjartsýni.

  16. Tek undir með Tigon. Ég nenni að jafnaði ekki að agnúast út í dómara en karlinn í svarta búningnum í dag bar þess helst merki að dauðinn sjálfur hefði mætt til að dæma.

    Vítið á okkur var líklega rétt (?) og maður var sjálfsagt smá biassed þegar maður horfði á þetta, í því að hugsa strax um ekki mjög ólíkt atvik þar sem okkar maður, Sadio Mane, var rekinn af velli á móti City. Zaha fór hátt með fætur og náði skotinu áður en samstuðið varð. 50/50 kannski. Ég er enginn sérfræðingur í svona.

    Fyrra gula spjaldið á Mané var svo bara virkilega pirrandi. Manni fannst maður sjá það strax, fyrir endursýningu, að þetta var brot. Sem reyndist svo vera. Og hefði því átt að vera víti. Í stað þess var okkar maður spjaldaður.

    Svo toppar dómarinn klaufagang sinn með því að dæma ekki Mané í vil þegar brotið var á honum síðar – en þorir svo ekki að reka hann út af þegar hann handleikur boltann. Af hálfu dómara var brottrekstur það eina í stöðunni til að halda andliti eftir að hafa tekið þessa ákvörðun, en hann var kominn í sálarkitrurnar sínar og kunni ekki lengur að halda utan um öll þessi fjöldamörgu mistök.

    Dómarinn var ofan í mönnum í návígjum og kostaði okkur sókn sem gat orðið að hættulegri skyndisókn úr hinni áttinni. Hann stoppaði nokkrar sóknir hjá LFC þar sem liðið var komið fram yfir miðju og veitti okkur aukaspyrnu við markteig þess í stað. Þetta var ítrekað.

    Og með Benteke – hann var nýbúinn að sleppa við gult þegar hann fékk svo sitt gula og svo líður mínúta og hann neglir Dijk í hælinn… Kannski var það klaufagangur. En mér fannst eins og að á þessum kafla hefði hann átt að fá að fjúka út af.

    Maðurinn í svarta búningnum átti ekki góðan dag. Fannst hann dæma mjög gegn okkur í fyrri hálfleik, var svo eins og undið roð í þeim seinni og vissi vart í hvorn fótinn hann átti að stíga, liggur eflaust undir sæng núna og horfir á House of Cards með te og flösku af hunangi.

    Að því sögðu. Afar mikilvæg þrjú stig. Áfram Mo Salah. Áfram Liverpool.

  17. Get tekið undir flest það sem hér er ritað. Dómarinn átti vondan dag (skilst að þessi hafi oftar en ekki dæmt okkur í hag í sínum vitleysisdómum), eins og margir leikmenn. Veit ekki með mögulega vítaspyrnu hjá Mane, hann dregur til sín fótinn til að detta, mjög tæplega vítaspyrna, þrátt fyrir snertingu. Hann átti svo að fara út af þegar hann handlék knöttinn. Það var þó klárlega einn maður sem átti skilið nafnbótina “maður leiksins” og það var Skotinn knái í vinstri bak. Robertson var allsstaðar, bæði í vörn og sókn, hirðandi upp bolta og í áætlunarferðum upp vinstri vænginn. Í umræðunni um bestu kaup tímabilsins, þá verður hann að teljast ofarlega á blaði þar (þótt allir blikni við hliðina á Salah auðvitað). Moreno var búinn að spila vel framan af, en það er klárt mál hver á þessa stöðu til framtíðar.

  18. Fyrst þegar ég sá þetta hélt ég að Mane hafi látið sig falla. Þannig að ég áfelli ekki dómarann eitthvað sérstaklega. Það er virkilega erfitt að vera inn á vellinum og sjá hvað átti sér stað.

    Hitt er að það mætti vera einhver lína í þessu. Liverpool fékk víti á sig gegn Tottenham og Everton sem eru mjög sambærileg. Raunar fullyrði ég að í báðum þeim tilfellum var miklu minni snerting en þegar Mane fékk gulaspjaldið.

    Ég spyr mig hvort dómarinn hafi séð það í hléi að þetta hafi ekki verið víti og gat því ekki gefið honum annað gullt spjald þegar hann handlék boltann. Reyndar fannst mér brotið á honum en er aftur á móti annað mál. Það var hugsanaleysi hjá honum að taka þarna upp boltann.

  19. Chelsea tapar í dag sem voru frábær úrslit fyrri Liverpool.
    Ég held að flestir fyrir tímabilið myndu vera ánægðir með að ná meistaradeildarsæti annað árið í röð og stimpla okkur inn í þeiri keppni. Því fylgir fjármagn og auðveldar líka að næla í leikmenn.

    Liverpool þarf 12 stig af 18 möguleikum í síðustu 6 leikjunum s.s liðið má tapa tveimur leikjum og vinna 4 og þá er liðið öruggt áfram(Chelsea þarf þá að vinna restina og má ekki misstíga sig í einum leik)
    Everton ú
    Bournmouth H
    WBA ú
    Stoke H
    Chelsea Ú
    Brighton H

    Þetta lýtur vel út en maður hefur lært það að fagna ekki fyrr en árangur hefur náðst.

  20. Souness talaði um að Klopp yrði fyrst og fremst metinn af titlunum sem hann vinnur. Ég spyr mig hvort það sé svona einfallt ?

    Fyrir mér skipta tvær keppnir mestu máli. Meistaradeildin og deildarkeppnin. Að ná að vera eitt af fjórum efstu liðunum í ensku deildinni er fyrir mér ígildi bikars (Wengerbikarinn) og að ná góðum árangri í meistaradeildinni sýnir hvar liðið er statt meðal bestu liða í veröldinni.

    í dag er Liverpool íátta liða úrslitum í Meistaradeildinni og í þriðjasæti í deildinni.

    Fyrir mér er það miklu betri árangur en þegar Kenny Daglish vann bikarkeppni um árið en lenti síðan í 8 sæti í deildinni með 52 stig.

Liðið gegn Palace.

Breytir Karius öllu?