Upphitun: Lokaleikur gegn Brighton & Hove Albion á Anfield

Hvítu mávar, segið þið Brighton.
Að mitt hjarta slái aðeins fyrir stig.

Hér erum við komin að loknum 37 deildarleikjum í vetur og hin stórfína staða er sú að Liverpool þarf aðeins jafntefli á heimavelli gegn nýliðum Brighton & Hove Albion til að tryggja okkur í Meistaradeildina á næsta tímabili. Í fótbolta er ekkert sjálfgefið frekar en fyrri daginn og þrátt fyrir að við hefðum óskað okkur að topp 4 sæti hefði verið gulltryggt fyrir nokkrum vikum síðan að þá er þetta kjörstaða fyrir okkar menn. Hefði okkur verið boðið þetta dauðafæri í byrjun tímabils með útréttri hendi þá hefðum við gleypt gylliboðið upp að öxl. Til viðbótar eigum við úrslitaleik í Meistaradeildinni sem er stærsta kirsuber sem hægt er að setja á kökutoppinn.

Vinargreiði svaramannsins Wagner fyrir úrvalsvin sinn Klopp var kærkominn og létti þeirri pressu á Liverpool að verða að vinna Brighton í síðasta leiknum ellegar gætu Chelsea stolist upp fyrir þá með sigri á St. James’ Park. En að sama skapi er alltaf hættuspil ef spila á upp á jafntefli þar sem eitt slysamark á lokasekúndum gæti haft hörmulegar afleiðingar. Því trúi ég því að Klopp muni áfram láta sem ekkert hafi breyst varðandi sigurþörfina og spili vonandi glymrandi sóknarbolta á heimavelli til að ná sigurstöðu sem fyrst í leiknum. Þar getur Anfield líka haft sinn þátt að spila með því að hafa stuðningsstemmningu í staðinn fyrir stress í stúkunni. En skoðum liðin.

Mótherjinn

Mávarnir frá Brighton & Hove geta vel við unað eftir sitt fyrsta tímabil í efstu deild enskrar knattspyrnu síðan 1983. Rúmri þrjátíu ára þrautagöngu um hinar ýmsu neðri deildir er lokið með niðurstöðu sem fæstir hefðu gert ráð fyrir í byrjun tímabils. Liðið var aldrei í fallsæti í vetur, reyndi ávallt að spila sæmilegan fótbolta og það hefur skilað þeim virðingarverðri stöðu í 14.sæti deildarinnar. Leikmenn og stuðningsmenn geta því verið stoltir af sinni frammistöðu í vetur og farið að velta fyrir sér liðsstyrk í sumar fyrir næsta vetur í úrvalsdeildinni.

Reyndar hefur útivallarformið þeirra verið eitt það versta í deildinni og af einungis tveimur útisigrum BHA þá var sá síðasti þeirra í byrjun nóvember. Það að Brighton hefur ekki unnið útileik á árinu 2018 ætti að kæta okkur Púlara í leik sem við megum ekki tapa en hins vegar hafa þeir verið að stríða stórliðunum upp á síðkastið með heimasigrum á Man Utd og Arsenal að viðbættu jafntefli gegn Tottenham. Liðinu hefur gengið illa að skora og eru með innan við mark að meðaltali í leik eða 33 mörk í 37 leikjum en að sama skapi hefur vörnin verið nokkuð traust miðað við nýliða og t.d. fengið á sig einu færra mark en Arsenal eða bara 50 mörk fengin á sig.

Pascal Groß hefur vakið mesta athygli í vetur með sín 7 mörk og 8 stoðsendingar og hefur átt sína bestu leiki sem framliggjandi sókndjarfur miðjumaður. Sigurmarkið gegn Man Utd um daginn gerir hann bæði að auðfúsugest allra Púlara en einnig að hættulegasta leikmanni gestanna. En þó að Groß hafi unnið vel fyrir sínum fyrirsögnum þá hefur hávaxna hafsentaparið Shane Duffy og Lewis Dunk verið bestu leikmenn liðsins í vetur með flottar frammistöður og góðar tölfræðilegar einkunnir skv. WhoScored (7,19 og 7,04). Þeir félagar misstu samanlagt bara úr einn leik í vetur, samstarf þeirra verið sérlega stabílt og t.d. toppar einkunn Duffy mörg stærri nöfn í sömu leikstöðu eins og Otamendi, Koscielny og Azpilicueta.

Brighton hafa verið heppnir með fá meiðsli í vetur og það hefur hjálpað liðinu í að geta oftast stillt upp sína sterkasta liði og sú verður raunin á sunnudaginn á Anfield. Hin fallega föðurnefnda varnarlína Bong-Dunk-Duffy-Bruno verður væntanlega á sínum stað. Liðið mun líklega verða stillt upp svona með einni breytingu frá tapinu í miðri viku gegn Man City þar sem sóknarmaðurinn Murray kemur inn fyrir Ulloa:

Líklegt byrjunarlið Brighton í leikkerfinu 4-4-1-1

Liverpool

Klopp og hans kátu kappar hafa haft þann lúxus að geta safnað kröftum og stillt saman strengi alla vikuna. Að öllum líkindum munum við stilla upp okkar sterkasta liði til að koma í veg fyrir katastrófu, vitandi það að við höfum svo tvær vikur fram að úrslitaleiknum í Kænugarði. Vikan hefur verið notuð í taktískar æfingar á Melwood en einnig í verðlaunaafhendingar þar sem Liverpool úthlutuðu sínum viðurkenningum fyrir tímabilið á fimmtudagskvöldinu. Engum kom á óvart að Mohamed Salah var leikmaður ársins hjá klúbbnum og meðal leikmanna enda hefur egypski snillingurinn orðið hlutskarpastur í vali á Liverpool-leikmanni mánaðarins í heil sjö skipti í vetur. Trent Alexander-Arnold hlaut nafnbótina besti ungi leikmaður ársins og Harry Wilson besti akademíuleikmaðurinn. Mark ársins var þrumufleygur Alexander Oxlade-Chamberlain gegn Man City í Meistaradeildinni og það er vel þessi virði að endurnýja gæsahúðina sem maður fær við að sjá það mark aftur.

Kvöldinu var þó ekki lokið hjá Mohamed Salah sem brunaði til höfuðborgarinnar til að taka við verðlaunum frá Football Writers Association sem besti leikmaður ársins. Með þessu fullkomnar Mo Salah þrennuna í þeirri ágætu nafnbót og á ennþá möguleika á að næla í gullskóinn til viðbótar. Bjartsýnustu spekingar og faraóar hefðu ekki geta spáð svona mögnuðu fyrsta tímabili hjá Egyptanum elskulega og við þurfum allir að finna okkur viðeigandi höfuðfat til að taka hatt okkar að ofan fyrir meistaratöktum Mo Salah á þessu tímabili.

Mohamed Salah er leikmaður ársins hjá Football Writers Association

Vonandi hefur þessi vika gert sitt gagn fyrir leikmenn í að hvíla lúin bein og fyrir Klopp til að fara yfir taktískar áherslur fyrir næsta leik eftir tapið gegn Chelsea. Sú neikvæðni og gildishlöðnu ofsögur af aumingjaskap okkar manna var reyndar full mikið fyrir minn smekk þar sem mér fannst við ekki alslæmir í þeim leik. Leikmenn voru aðallega uppgefnir á líkama og sál eftir afrekið í Rómaveldi og þungir fætur eru ekki heppilegir fyrir gegenpressen eða til að brjóta niður ítalskættaðan varnarmúr fráfarandi Englandsmeistara á þeirra eigin heimavelli.

Meiðslastaðan hefur lítið skánað nema hvað að Adam Lallana ætti kannski séns á sæti á bekknum eftir að hafa verið í leikmannahópnum sem flaug til Rómaborgar. Gomez fór í aðgerð í vikunni og Emre Can er ekki að braggast nógu hratt þannig að hvorugur verður í boði um helgina né í Kiev. Gróusögurnar í greipvíninu hafa reyndar verið að hvísla í eyra hinna alheyrandi að Buvac the Brain sé á leiðinni aftur á Anfield en enn sem komið er hefur það ekki verið staðfest. Það væru þó kærkomnir endurfundir hans og Klopp ef svo væri og vel tímasett lyftistöng fyrir þessa síðustu tvo leiki tímabilsins.

Mín tilfinning fyrir þennan leik er að Klopp muni stilla upp sínu sterkasta liði og það liðsval er nokkurn veginn sjálfvalið miðað við meiðslalistann. Hér er uppkast að mínum töflufundi og liðsuppstillingu í lokaleiknum:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Liverpool mun ekki láta þetta happ sér úr hendi sleppa og munu klára þennan úrslitaleik um Meistaradeildarsætið á sama hátt og árið áður. Ég spái sömu markatölu og í fyrra eða 3-0 lokaniðurstaða með tveimur mörkum frá Mo Salah og einu marki frá Firmino. Það ætti að duga þreföldum leikmanni ársins til að fá gylltan fótabúnað, nema ef ske kynni að Harry Kane krefjist allra marka sem skoruð verða í lokaumferðinni.

YNWA

19 Comments

  1. Takk fyrir góða upphitun Magnús.
    Eftir áratuga tilfinninga rússibana sem aðdáandi Liverpool er maður aldrei rólegur þegar okkur ástkæri klúppur er að spila en vissulega erum við í góðri stöðu og óvenju bjartsýnir a

  2. Það er eins og ég sé sá eini á Stór-Liverpool svæðinu sem er með hnút í maganum. Hvernig leysir maður hnút? Var samt einu sinni skáti.

  3. Maður á að vera með hnút í maganum þegar svona mikið er undir. Þetta er samt ekki flókið hver lið spilar 38 leiki og þú endar í því sæti sem þú átt skilið. Það er bæði hægt að finna sigra á síðustu stundu og svo stig sem töpuðust mjög klaufalega en þú hefur 38 leiki til að tryggja þér í top 4.
    Ef það tekst = Gott tímabil í deildinni. Ekki draumatímabil (það er titil) en gott að stimpla sig inn sem meistaradeildarlið annað tímabilið í röð.
    Ef það tekst ekki = Þá var þetta ekki merkilegt tímabil(nema að við vinnum meistaradeildina þá er þetta stórkostlegt).

    Maður er drullu stressaður en Klopp bað okkur að hafa trú á liðinu og ég hef trú á að þeir klára þetta verkefni en þetta verður erfiðara en margir halda. Segjum 2-1 sigur með mörkum frá Firmino og Milner úr víti

  4. Þetta verður sigur 3-0, Salah með tvö og Lovren eitt.
    Þið lesið um þetta á Kop.is eftir leik á sunnudag.

  5. Þetta verður 0-0 með svoleiðis lifrarskemmandi lokamínútur að maður endar í lifrarpolli eftir leik. Hef annars ekki miklar ãhyggjur ef að við töpum þessum leik þar sem ég ætlast til að þeir vinni meistaradeildarleikinn.

  6. Spurning hvort Mané verði leikfær. Svo væri gaman að vita hvort Harry Wilson sé orðinn löglegur hjá okkar mönnum þar sem veru hans hjá Hull er lokið og hann kominn aftur á Melwood.

  7. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun MÞ. Ég er staddur í okkar ástkæru Liverpool og þar eru menn sigurvissir en samt ekki lausir við áhyggjur og þannig á það að vera Ég spái 4-1 og stórkostlegri skemmtun í síðasta heimaleiknum á þessari leiktíð og um leið síðasta leik leiktíðarnnar.

    Það er nú þannig

    YNWA

  8. #8 Sigkarl.
    Eigum við ekki að segja að leiktíðin klárist 26 maí með einni feitri dollu, flugeldasýningu og svona 30 bjórum á mann?

  9. Það er gaman að vera Bliki þessa dagana. Ég hef tvær hjartagáttir. Önnur spýtir grænu og hin rauðu. Á morgun og í Kiev spýta báðar rauðu. Ég er Liverpoolmaður. Þessi leikur í Kiev verður eitthvað. Hef farið þangað einu sinni. Vara fólki við þjófnaði, í hótelherbergjum þar. Þegar ég fór þangað var kona sem er með afskaplega brún vingarnleg augu. Hún var á afar flottum rauðum háhæluðum skóm. Virtist hvergi mega höfði sínu að halla. Bauð henni upp á herbergi. Ég var með úttroðið verski af seðlum en þegar ég vaknaði var það eina sem hún stal var passamynd af mér.

  10. Takk fyrir þessa upphitun. Ef okkar lið skorar fleiri mörk en lið BHA þá eru allar líkur á sigri. Nú eru 14 dagar í leikinn mikilvæga og trúlega geta menn tekið á næstum því öllu á þess þó að stefna heilsunni í voða. Trúi samt ekki öðru en að Lallana blöðrufótur fái eitthvaða að sprikkla ásamt Ings nema þeir séu eitthvað tæpir. BHA er býsna gott lið en þó ætti vörnin að geta haldið hreinu enda hefur verið nokkur létt skita þar að undanförnu en menn vilja væntanlega ekki láta sjást í neitt brúnt svona í seinasta leik í deildinni. Í heild er ég gríðarlega sáttur við veturinn þó vissulega hefðu nokkrir jafnteflisleikir mátt vera sigurleikir. Reyndar alveg ótrúlegt hvað Liverpool gerir mikið af jafnteflum, ekki bara í vetur heldur til margra ára. Áfram Liverpool.

  11. Milner er ekki í hóp í dag sem er áhygjuefni

    Karius, TAA, Djik, Lovren, Robertson – Winjaldum/Henderson og svo kemur Mane, Salah, Firminho með Solanke svo að einn af þessum verður líklega á miðsvæðinu(líklega Firmino)

    Athyglisvert lið hjá okkur í dag með meiri sóknarkraft.

  12. Liðið: Karius, TAA, Lovren, Dijk, Robertsson, Wijnaldum, Henderson, Mane, Salah, Firmino, Solanke.

Podcast – Já Ráðherra

Liðið gegn Brighton á Anfield