Liverpool fór inn í síðasta tímabil með allt of lítinn hóp, enska deildin er sú erfiðasta í heimi og liðið fór í ofanálag alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar þar sem leikmenn liðsins gáfu gjörsamlega allt á leiðinni, það stóðu nánast bara ellefu heilir eftir fyrir síðasta leik.
Stórmót eins og HM strax í kjölfarið er því ekkert það besta upp á undirbúning fyrir næsta tímabil enda þyrftu okkar menn helst að fá góða hvíld í sumar og fullt undirbúningstímabil. Það er augljóst að undirbúningstímabilið er gríðarlega mikilvægt í Kloppfótbolta. Það er því nokkuð ánægulegt að skoða hópinn hjá Liverpool út frá því hverjir fóru á HM og hverjir ættu að vera klárir strax á fyrstu æfingu í sumar.
Þessir eru á HM:
Mo Salah: Ekki með í fyrsta leik en er sagður vera klár í þeim næsta á móti Rússum. Auðvitað gríðarlegt áhyggjuefni að verið sé að taka sénsa með Salah en Egyptar eru ekki með lið sem er líklegt til að fara mikið lengra en upp úr riðlinum í mesta lagi. Tap gegn Rússum í næsta leik og mótið er búið hjá þeim. Við viljum Salah auðvitað betur en það en á móti væri gott fyrir Liverpool að fá hann sem fyrst á Melwood.
Bobby Firmino: Braselía er líklegt til að fara frekar langt í keppninni og Firmino því líklega ekkert á heimleið strax. Firmino byrjaði samt á bekknum í fyrsta leik sem er allt í lagt út frá sjónarhóli Liverpool. Galið samt að hann sé ekki fyrsta nafn á blað.
Sadio Mané: Senegal er í erfiðum riðli og frekar ólíklegir til að fara upp úr honum. Pólland og Kólumbía eru líklegri skv. veðbönkum og Japan er ekkert gefið. Rétt eins og með Salah er mjög ólíklegt að Mané verði í Rússlandi alla keppnina.
Dejan Lovren: Hjartað í vörn Króata sem fara heim eftir slæm töp gegn Argentínu og Íslandi. Ef þeir slysast upp úr riðlinum er þetta lið sem gæti alveg farið a.m.k. í 8-liða úrslit. Það að Lovren sé svona mikilvægur póstur í eins góðu landsliði og Króatar eru ásamt því að vera byrjunarliðsmaður í liði sem fer í úrslit Meistaradeildarinnar sýnir að ég held aðeins hversu vanmetin leikmaður þetta er meðal flestra stuðningsmanna Liverpool.
Trent Alexander-Arnold: Ekki líklegt að Trent komi mikið við sögu í þessu móti ef eitthvað yfir höfuð. Hann spilaði svosem ekki fullt tímabil fyrir Liverpool í vetur og er 12 ára þannig að hann þarf ekkert að jafna sig mikið eftir mót. Clyne fær á móti full pre-season sem er mikilvægt.
Jordan Henderson: Fyrirliðinn verður væntanlega með þeim síðustu sem mæta á Melwood í sumar en það hjálpar mikið að Liverpool er búið að styrkja liðið gríðarlega í hans stöðu.
Simon Mignolet: Spilar væntanlega ekki mínútu fyrir Belga í þessu móti, ekki frekar en Liverpool á næsta tímabili.
Lykilmenn ekki á HM
Naby Keita: Hann kemur frá Gíneu sem hefur aldrei komist á HM sem er frábært mál fyrir Liverpool enda mjög mikilvægt fyrir Klopp að fá nýja leikmenn snemma til æfinga fyrir nýtt tímabil. Á síðasta tímabili komu Ox og Robertson seint í sumarglugganum og fengu varla séns fyrr en í nóvember.
Fabinho: Leikmaður sem hefur spilað aðeins fjóra landleiki á árunum 2015 og 2016. Hann fékk aldrei séns í landsliðinu þegar hann var frábær með Monaco í hittifyrra sem er magnað. Frábært mál fyrir Liverpool í sumar og líklegt að Fabinho verði í byrjunarliðinu strax í fyrsta leik aftastur á miðjunni.
Van Dijk: Annað stórmótið í röð sem Holland missir af. Van Dijk var meiddur helmingin af síðasta tímabili sem og því þarsíðasta. Það er ljómandi gott að hann fái hvíld í sumar og fullt æfingatímabil hjá Liverpool. Eitthvað sem hann hefur aldrei áður gert.
Wijnaldum: Var í þriðja sæti yfir mínútur spilaðar í deildinni á síðasta tímabili og spilaði einnig megnið af Meistaradeildarleikjunum. Fínt að fá hann úthvíldan í næsta tímabil. Hollandi verður ekki aftur í pásu á næsta stórmóti.
Andy Robertson: Ef hann sleppur við meiðsli gætum við alveg verið að horfa í ca 50 leikja tímabil hjá Robertson á næsta tímabili. Undirbúningur fyrir slík átök er crusial og fínt fyrir okkar að Skotar eru ekki sterkari.
Joel Matip: Bæði komst Kamerún ekki á HM og ef ég man rétt er hann hættur í landsliðinu. Ef hann á annað eins tímabil og hann átti í vetur verður þetta líklega hans síðasta tímabil hjá Liverpool. Allt of mikið meiddur og hefur aldrei náð að sannfæra neinn almennilega sem miðvörður.
Joe Gomez: Hrikalega svekkjandi fyrir Gomez að missa af HM vegna meiðsla, hann fór í aðgerð í vor en ætti að vera klár strax á fyrstu æfingu æfingatímabilsins. Ljóst að það þarf að fara mjög varlega með Gomez eftir undanfarin ár hjá honum.
Ox-Chamberlain: Hann væri augljós byrjunarliðsmaður hjá landsliðinu m.v. hvernig hann var að spila hjá Liverpool í vor. Algjör synd að hann missi bæði af HM og úrslitum Meistaradeildarinnar. Verst er að hann kemur líklega ekki aftur fyrr en undir lok ársins og þá er ekkert víst að hann nái takti til að komast inn í liðið.
Lallana: Hann var varamaður hjá Englendingum ef einhver í hópnum myndi meiðast fyrir HM. Sannleikurinn er samt að þetta er leikmaður sem maður er farinn að afskrifa með sama hætti og Daniel Sturridge enda hreinlega alltaf meiddur. Klopp elskar hann en síðasta tímabil var hrein martröð hjá Lallana og gott að mikilvægi hans sé að minnka verulega. Hann er samt ekki meiddur eins og er og ætti að ná æfingatímabilinu.
Clyne og Moreno: Gamla bakvarðaparið er einfaldlega í sumarfríi þrátt fyrir að þeirra lið eru bæði á HM. Brekka hjá báðum að slá TAA og Robertson úr liðinu.
James Milner: Klárt mál að Milner er að lengja líf sitt á efsta leveli með því að gefa ekki kost á sér lengur og ljóst að það fór svakaleg orka í lokakafla síðasta tímabils þar sem hann var frábær og hljóp allaf mest í þeim leikjum sem hann spilaði. Meira en líklegt að hann verði í byrjunarliðinu þegar West Ham mætir á Anfield í ágúst.
Karius og Can: Can er ekki formlega búinn að skrifa undir hjá öðru liði þó við teljum hann ekki lengur með sem leikmann Liverpool. Hann missti af HM vegna meiðsla á vondum tíma. Karius nafnið hefur verið verulega toxic eftir úrslitaleikinn, hann er samt aðalmarkmaður Liverpool þar til annar verður keyptur. Alls ekkert öruggt að það verði gert í sumar. Verði báðir áfram er a.m.k. ágætt að þeir mæta til æfinga strax frá fyrsta degi.
Aðrir, ungir og menn á láni
Harry Wilson: Allt of góður fyrir U23 ára liðið og frábær hjá Hull City er hann fór á láni þangað. Eitthvað stórundarlegt í gangi ef hann fær ekki séns núna á undirbúningstímabilinu og jafnvel næsta vetur. Ef ekki þarf hann að fara frá Liverpool fljótlega til að spila meira af alvöru fótbolta. Hvernig hann verður í sumar gæti vel haft áhrif á leikmannakaup.
Divock Origi: Hann er í svipaðri stöðu og Wilson, sumarið verður mjög mikilvægt fyrir Origi. Hann hefur klárlega hæfileikana til að verða frábær leikmaður og maður hefði haldið að Klopp væri stjórinn sem myndi gera hann að einmitt því. Ferill hans hjá Liverpool hefur verið hræðileg vonbrigði en ekki alveg útilokað að hann nái að bjarga honum. Svona týpa af leikmanni byrjar oft ekki að blómstra fyrr en seinna á ferlinum.
Woodburn, Solanke og Brewster: Allt leikmenn sem verða að fá spilatíma og ekki líklegt að Liverpool geti veitt þeim það, ekki öllum a.m.k. Brewster hefur hótað að fara í sumar og Liverpool nú þegar búið að aflýsa einum æfingaleik vegna óánægju út í þýsk lið sem hafa sýnt honum mikinn áhuga. Woodburn fékk nánast engan séns í vetur sem voru líklega rosaleg vonbrigði fyrir hann enda spilaði hann slatta árið áður. Hjálpaði ekki að Liverpool spilaði engan leik gegn neðrideildarliði eða svona leik þar sem hægt var að nota hópinn. Solanke fékk mikið traust og m.v. færin sem hann var að skapa sér í vetur gæti hann vel sprungið út hjá Jurgen Klopp. Allt eru þetta rosaleg efni.
Daniel Sturridge: Fer þessu ekki að ljúka? Myndi fagna hverri krónu sem félagið tækist að fá fyrir hann í sumar. Þurfum að fá leikmann sem er jafn góður og Sturridge var 2013714 í staðin fyrir Sturridge.
Ragnar Klavan: Engin ástæða til að selja hann í sumar en vonandi verður mikilvægi hans mun minna. Van Dijk verður núna með frá byrjun, Matip ætti að vera heill heilsu og Gomez er bæði árinu eldri og líklegri til að vera hugsaður sem miðvörður á næsta tímabili heldur en bakvörður.
Danny Ings: Mögulega nær hann sínu fyrsta heila undirbúningstímabili með liðinu undir stjórn Klopp. Ljóst samt að hann á töluvert í land til að verða lykilmaður hjá Liverpool.
Marko Grujic: Ágætur lánstími hjá góðu liði, líklegra að það hjálpi honum að komast í stærra lið heldur en að fá sénsinn hjá Liverpool.
Leikmannakaup
Það hefur ekkert verið að frétta á leikmannamarkaðnum eftir að HM byrjaði. Fekir er í hóp hjá Frökkum og ólíklegt að nokkuð meira verði að frétta af þeim díl fyrr en eftir HM. Stórundarlegt mál en tilfinningin er sú að sú saga sé ekki alveg búin.
Sama með Allisson Becker markmann Roma, hann fór ekkert fyrir HM en er mjög líklega að fara til Real Madríd.
Við sjáum samt með Keita og Fabinho að það er ekkert útilokað að Liverpool geri eitthvað meira þó að HM standi yfir. Glugganum lokar fyrr í sumar, fyrir fyrsta leik tímabilsins.
Klopp kemur til með að hafa mjög öflugan hóp strax á fyrstu æfingu í sumar og vonandi koma þeir sem nú eru á HM heilir til baka og flestir ljúka þar leik tiltölulega snemma.
Sælir félagar
Takk fyrir þessa yfirferð Einar Matt. Vandað og upplýsandi að venju þó ef til vill sé lítið nýtt að frétta amk. fyrir okkur sem lítum ekki af liðinu okkar eina einustu mínútu. Tek undir með þér í þessu Fekir máli. Það er stórundarlegt mál og afar líklegt að því sé ekki lokið.
Annars áfram Ísland og Brasilía. Held annars alltaf smá með Frökkum og svo Egyptum en alls ekki með Spánverjum meðan ógeðið hann Ramos er þar innan vébanda. Vona satt að segja að Spánn floppi á þessu “heinstramóti” en það er því miður lítil von til þess enda méð eitt besta liðið á mótinu.
Það er nú þannig
YNWA
Góðar fréttir. Rhian Brewster ætlar að skrifa undir nýjan samning við Liverpool.
https://www.thisisanfield.com/2018/06/liverpool-handed-major-boost-as-prodigious-youngster-agrees-new-deal/
Það er ekki oft að maður leggur nafn unglings á minnið í fyrsta sinn sem maður sér hann í U18 leik en það gerðist með Brewster.
Hef mikla trú á þessum pilti og hann kemur inn í dæmið fyrr en síðar.
YNWA
Mín tilfinning á “Klopp leikmönnum” þeas leikmönnum sem Klopp gerir betri er að það séu allt hungraðir leikmenn sem eru vinnusamir og með drápseðli, vantar kannski upp á gæðin til að byrja með en hugarfarið er held ég það sem Klopp og félagar kaupa leikmenn fyrst og fremst út á.
Mér hefur fundist Origi vanta þetta svona séð utan frá. Mér finnst oft eins og hann gefist dáldið upp og detti á joggið ef eitthvað blæs á móti. Gæti alveg verið vitleysa í mér en þetta er svona mín upplifun af honum. Þess vegna spái ég Origi því miður ekki frama undir Klopp þrátt fyrir óumdeilda hæfileika.
Hendó var nú bara fjári duglegur í dag!
Hendo er frábær leikmaður og myndi vera fastamaður í hvaða úrvalsdeildarliði í ensku deildinni.
Jæja þá er Salah á leiðinni heim. Skelfilega lélegt þetta landslið egypta.
Það sem ég þoli illa við að horfa á Enska landsliðið er þessi blessaði Ashlay Young !!
djöfull fer þessi maður í taugarnar á mér, veit einhver afhverju ?
Veit að þetta er ekki það sem umræðan er um en varð bara koma þessu frá mér.