Lovren og vörn Liverpool

Það er verulega margt hægt að segja um Dejan Lovren og líklega er nú þegar búið að segja um 87% af því. Þetta er vægast sagt misjafn leikmaður og umdeildur eftir því en eitt verður hann aldrei sakaður um og það er að gefast upp. Hann hefur lent í ótrúlegu mótlæti mest allan sinn feril sem knattspyrnumaður en það er ekkert á við það sem hann gekk í gegnum sem krakki.

Króatía mun líklega komast töluvert meira í sviðsljósið núna eftir árangur liðsins á HM og þessi velgengni þeirra er kannski sérstaklega skemmtileg fyrir okkur íslendinga enda þekkjum við fá landslið orðið betur en þetta lið Króata. Hinsvegar höfum við lítið velt fyrir okkur sögunni á bak við flesta leikmenn liðsins, sérstaklega eldri leikmenn liðsins sem voru að alast upp á stríðsárunum í Júgóslavíu og ólust jafnvel upp sem flóttamenn í öðrum löndum. Líklega er þarna að finna part ástæðunnar fyrir því afhverju þetta land gefur af sér þennan ótrúlega fjölda afreks íþróttamanna á heimsmælikvarða og nær árangri bæði í hópíþróttum og einstaklingsíþróttum.

Smá dæmi um hversu mögnuð þessi þjóð er íþróttalega:

Saga Króatíu er töluvert eldri en íslands en tæknilega séð varð landið í þeirri mynd sem við þekkjum í dag ekki til fyrr en 1991 er Júgóslavía var að leysast upp og Króatar lýstu yfir sjálfstæði. Það spiluðu Króatar með sameiginlegu landsliði Júgóslavíu til ársins 1992 en engu að síður voru Króatar farnir að spila landsleiki undir merkjum Króatíu þegar árið 1990. FIFA samþykkti Króatíu ekki formlega fyrr en 1993 og var það því of seint til að þeir gætu tekið þátt í undankeppni HM 1994.

M.ö.o. þá hefur þessi fjögurra milljón manna þjóð aðeins verið gjaldgeng á sex heimsmeistaramót og nú þegar komist í undanúrslit og úrslit á þessum tíma. Króatar hafa að meðaltali verið í 21.sæti á styrkleikalista FIFA frá upphafi sem er ansi gott fyrir ekki fjölmennari þjóð.

Auðvitað var landslið þeirra samt gott frá upphafi enda uppstaðan í mjög sterku liði Júgga fyrir stríð.

Dejan Lovren er alls ekkert eini leikmaður liðsins sem átti erfiða æsku, það á líklega við um flesta í núverandi liði án þess að við (flest) getum mögulega sett okkur í spor einhverra sem alast upp í stríðshrjáðu landi eða sem flóttamenn í öðru landi með allt í upplausn í heimalandinu.

Heimili Luka Modric var brennt og afi hans ásamt sex ættingjum voru myrtir. Hann bjó í um sjö ár á ódýrum hótelum við afar bág kjör er hann var að alast upp. Verði Króatar Heimsmeistarar um helgina yrði kvikmyndin um afrek þeirra líklega með hann sem aðalpersónu. Auðvitað einnig á þeim forsendum að hann er besti leikmaður liðsins og líklega Króatíu frá upphafi.

Fjölskylda Corluka flúði einnig heimili sitt (sem nú tilheyrir Bosníu) og fór til Zagreb á stríðsárunum. Mario Mandzukic fór eins og Lovren sem flóttamaður til Þýskalands og var þar í nokkur ár áður en hann flutti aftur heim til Króatíu. Danijel Subasic var sjö ára þegar stríðið byrjaði og man vel eftir því er hann þurfti að fara í öruggt stjól fyrir sprenjuregni í Zadar þar sem hann bjó. Ivan Rakitic er fæddur og uppalinn í Sviss þar sem fjölskylda hans hafði sest að aðeins fyrir stríðið. Hann fékk morðhótanir þegar hann valdi að spila fyrir landslið Króatíu frekar en Sviss en hann spilaði með Sviss upp öll yngri landsliðin. Án þess að vera búinn að kynna sér sögu leikmanna liðsins nærri því nógu vel liggjur fyrir að margir leikmenn liðsins hafa þurft að hafa fyrir hlutunum alla tíð.

Fyrir það fyrsta er Dejan Lovren ekkert frá Króatíu og bjó aldrei þar fyrr en eftir stríð. Hann kemur frá smábænum Kraljeva Sutjeska sem nú tilheyrir Bosníu, ekki langt frá Sarajevo. Pabbi Lovren ásamt foreldrum móður hans flúðu til Þýskalands árið 1992 og voru því þar þegar Lovren ásamt móður sinni, bróður hennar og hans konu flúði í gríðarlegum flýti árið 1993. Daginn áður höfðu þau falið sig í kjallara meðan sprengjum ringdi yfir borgina og hefur Lovren lýst 17 tíma bílferð til Þýskalands í kjölfarið. 19 apríl 1993 létust 15 manns og 50 særðust í þorpi sem var um 15 km frá heimabæ Lovren.

Fjölskyldan fékk aldrei fullt búsetuleyfi í Þýskalandi heldur þurftu þau að endurnýja það árlega. Þau bjuggu 11 saman í litlu húsi ömmu hans og afa í þrjú ár. Lovren ólst því upp í Þýskalandi frá því hann var þriggja ára þar til hann varð 10 ára. Hann lærði auðvitað tungumálið, spilaði fótbolta og var kominn vel inn í samfélagið þar er fjölskyldan fékk ekki lengur framlengingu á landsvistarleyfi sínu árið 1999 og var send “heim” til Króatíu.

Ekki veit ég afhverju Karlovac rétt suður af Zagreb varð fyrir valinu en þangað flutti fjölskyldan um sjö árum eftir að þau flúðu. 419 km frá þeim stað sem þau bjuggu fyrir stríð.

Lovren kunni tungumálið en talaði alls ekkert fullkomna króatísku og var t.a.m. ekki skrifandi á króatísku. Hann segist ennþá tala Króatísku með þýskum hreim. Honum var strítt í skóla, gekk ekki vel í náminu og segist oft hafa lent í slagsmálum til að byrja með.

“It’s the age of 10, and you understand everything, you see everything what’s happening around you. The kids were just having fun, they didn’t mean to hurt my feelings on purpose, but for me after everything I went through it was a problem for me, and of course I had problems in the school because of that. Something in me didn’t allow for people to laugh about me, and then I had the school fights – I was fighting, I was fighting. I will fight until the end, that’s me. The teachers explained that, ‘he’s come from another country, you need to have more understanding.”

(Úr viðtali við Lovren á LFCTV 2016)

Fjölskyldan þurfti auðvitað að byrja nánast frá grunni á nýjum stað og einn mánuðin var fjárhagsstaðan svo tæp að pabbi hans seldi skautana hans til að ná endum saman þann mánuðin.

Fótbolti er það sem Lovren hefur alltaf haft með sér og hjálpað honum að aðlagast nýjum aðstæðum. Hann fór að taka fótbolta alvarlega eftir að hann flutti til Króatíu og stóð sig það vel með NK Karlovac að honum var boðið að æfa með Dynamo Zagreb sem var um 50km frá heimili hans. Lovren var sóknarmaður sem krakki og fór ekki að spila sem miðvörður fyrr en hann var um 16 ára. Það tímabil kom hann við sögu í einum leik Dynamo og fór næstu tvö tímabil á láni til 2.deildarliðs þar sem hann spilaði helling. 19 ára varð hann stór partur af liði Dynamo Zagreb og gat valið á milli Lyon og Chelsea þegar hann var tvítugur og valdi að fara til Frakklands.

Lovren minntist einhverntíma á það þegar verið var að gangrýna hann sem mest hjá Liverpool að svona hefði þetta líka verið hjá Lyon (og fannst það ósanngjarnt). Hann varð aldrei sérstaklega í uppáhaldi hjá Frökkunum en spilaði yfir hundrað leiki (þar af nítján Meistaradeildarleiki) þau fjögur tímabil sem hann var þar. Ekkert óvænt að miðvörður sé misjafn á þessum aldri (20-24 ára).

Southampton var eitt besta lið leikmannamarkaðarins þegar Lovren var sigtaður út og keyptur sumarið 2013. Hann spilaði þar undir stjórn Pochettino og segist hafa lært helling af honum og þróast sem leikmaður. Eftir aðeins eitt tímabil var hann talinn einn besti miðvörður deildarinnar og keyptur til Liverpool á þremfalda þá upphæð sem Southampton borgaði fyrir hann ári áður. Pochettiono var sagður vilja hann líka til síns nýja liðs en Liverpool í Meistaradeildinni varð ofan á.

Hversu góður er hann?

2014/15

Liverpool keypti Lovren auðvitað vegna þess að varnarleikur liðsins var ömurlegur. Sama sumar komu m.a. Moreno, Can og Lallana og hafa þeir flestir verið gagnrýndir fyrir að bæta litlu við varnarlega. Brendan Rodgers virtist ekki hafa hugmynd um varnarleik yfirhöfuð þann tíma sem hann stjórnaði liðinu og eftir á að hyggja var það líklega algjör martröð fyrir miðvörð að ganga til liðs við Liverpool sumarið 2014. Sá hefði betur átt að halda áfram hjá Pochettino, nú í Tottenham.

Þetta fyrsta tímabil er Lovren töluvert að glíma við meiðsli og spilar ekki nema 22 leiki, sjaldnast með sama miðverðinum. Þetta var að skiptast á milli þess að vera með Skrtel, Sakho eða Kolo Toure, allt menn sem við tengjum alls ekkert við stöðugleika. Stöðugleikinn var jafnvel verri hjá bakvörðunum, Moreno spilaði 26 leiki og Glen Johnson 15 leiki. Gerrard sýndur hægt var að “verja” vörnina sem aftasti maður á miðjunni og Simon Mignolet var í markinu.

Lovren var auðvitað alveg partur af vandamálinu þetta tímabil, liðið fékk reyndar örlítið færri mörk á sig en skoraði næstum helmingi minna. Hann átti nokkra skrautlega leiki með fáránlegum mistökum enda var hann trekk í trekk að lenda maður á mann á móti bestu sóknarmönnum andstæðinganna. Hjá Southampton hafði hann myndað solid par með Jose Fonte, spilaði nánast alltaf með sömu bakverði með sér og hafði alltaf 2-3 miðjumenn fyrir framan sig sem voru sterkir varnarlega (Schneiderlin og Wanyama).

Hroðalegt tímabil hjá Lovren sem hefur satt að segja átt erfitt uppdráttar hjá stuðningsmönnum Liverpool síðan. Ég held því samt ennþá fram að það er ekki miðvörður til sem hefði staðið sig vel í þessum hrærigraut, sagði það þá líka.

2015/16

Sumarið eftir kom Clyne inn fyrir Johnson sem kom a.m.k. stöðugleika á eina stöðu í kringum Lovren. Moreno varð einnig fastamaður sem bætti stöðugleikan vinstra megin ekkert sérstaklega. Lovren var aftur of mikið meiddur (spilaði bara 22 deildarleiki) og það var nákvæmlega enginn stöðugleiki í miðvarðastöðunni. Nánast aldrei sama miðvarðapar meira en þrjá leiki í röð.  Eins fáránlegt og það hljómar þá var Lovren með 22 leiki leikjahæsti miðvörður Liverpool þetta tímabil. Hann var í tíunda sæti yfir flestar mínútur spilaðar. Ekki bara var bullandi óstöðugleiki heldur voru kollegar hans ennþá Skrtel, Sakho og Toure. Undir lok tímabilsins eftir að Klopp hafði tekið við af Rodgers fóru Lovren og Sakho loksins að ná vel saman og mynda vísi af solid miðvarðapari. Það klúðraðist þegar Sakho féll á lyfjaprófi sem hann samt féll svo ekki á. Hann hefur btw aldrei náð ferli sínum af stað síðan og missti af EM og úrslitaleik Europa League út af þessu kjaftæði.

Lovren var aftur ímynd óstöðugleikans og átti nokkrar vel skrautlegar frammistöður en var inn á milli gríðarlega öflugur. Árangur í deild var ömurlegur og liðið fékk 50 mörk á sig. Mest allt púðrið fór auðvitað í Evrópu. Hjá landsliðinu var hann líka í veseni og sakaði þáverandi landsliðsþjálfari hann um að líta of stórt á sig og tók hann úr hópnum.

2016/17

Jurgen Klopp nær örlitlum vott af stöðugleika á vörnina eftir fyrsta sumarguggan sinn og liðið fær á sig átta mörkum minna og nær Meistaradeildarsæti á ný. Matip og Klavan koma inn fyrir samtals 4m á meðan Sakho fer endanlega ásamt Skrtel og Toure. Klopp fækkar samt miðvörðum sem er auðvitað galið m.v. árin á undan í þessari stöðu. Stöðugleikinn var ekki meiri en svo að Klavan kom við sögu í 20 leikjum og Lovren missti af alveg 10 deildarleikjum. Matip missti af 11 deildarleikjum. Lovren og Matip náðu þvi aldrei að mynda þetta solid miðvarðapar sem við höfum þráð. Miðjan var heldur ekkert að verja vörnina eins vel og við viljum sjá ásamt því að Mignolet var enn á ný aðalmarkmaður. Karius klúðraði sínum séns með stæl eftir að hafa spilað 10 leiki.

Þessi þrjú fyrstu tímabil fengum við oft að sjá leiki þar sem Lovren hefur verið frábær og jafnvel lengri kafla þar sem ekkert er yfir honum að kvarta. Vandamál liðsins hefur bara verið svo miklu stærra en bara miðvarðastaðan undanfarin 8-9 ár. Klopp hefur mjög hægt og rólega verið að bæta liðið aftar á vellinum og með betri samherjum batnar leikur Lovren. Hann held ég að haldi alveg sæti sínu áfram og batni með betri leikmönnum frekar en að verða skilin eftir, hann hefur verið að sýna það undanfarið.

Það var réttilega ekki nokkur maður að tala um Lovren sem einn besta miðvörð í heimi eftir þessi fyrstu þrjú tímabil hans hjá Liverpool. Hann var langt frá því að vera eina vandamál Liverpool en höldum alveg til haga að með nokkrum rosalegum mistökum sínum var hann alveg partur af vandamálinu. Hann hefur aldrei veið sá leiðtogi sem hann kannski upplyfir sig og var seldur okkur þegar hann kom frá Southampton. Lovren hefur líka haft þá reglu að þegar hann gerir mistök eru þau skrautleg og helst í stórleik.

2017/18

Lovren varð 28 ára síðasta sumar og er því kominn á aldur sem við sjáum miðverði oft vera toppa. Það sem við fengum að sjá frá Lovren á síðasta tímabili gefur til kynna að hann sé á hátindi ferilsins og það sem við höfum séð frá honum undanfarna 8-9 mánuði hefur verið í heimsklassa.

Liverpool var búið að fá á sig 16 deildarmörk eftir níu umferðir á síðasta tímabili. Fimm af þeim komu gegn Man City, fjögur gegn Tottenham og þrjú gegn Watford. Leikurinn gegn Tottenham var sá níundi og líklega hans versti hjá Liverpool. Næstu 13 leiki spilaði Liverpool áfram án Van Dijk og fékk á sig níu mörk sem verður að skoðast í samhengi við að liðið skoraði 36 mörk á þessum kafla. Níu sigrar og fjögur jafntefli.  Liverpool var búið að spila 22 deildarleiki áður en Van Dijk kom til liðsins.

Meistaradeildin tók sinn toll auðvitað en enn á ný spilaði Lovren ekki nema um 24 deildarleiki heilt yfir tímabilið sem þýðir að hann kom ekkert við sögu í 14 leikjum. Það gera of marga Klavan leiki og of lítin stöðugleika í miðvarðastöðunni. Matip heldur þó í hefðir kollega Lovren í þessari stöðu og spilaði ennþá færri deildarleiki.

Clyne var ekkert með og skiptu Alexander-Arnold og Gomez því með sér hægri bakverði á meðan Moreno spilaði 14 leiki í vinstri bakverði. Mignolet missti einnig sæti sitt til Karius. Enn eitt árið var engin á miðjunni sem er fyrst og fremst skilgreindur sem varnartengiliður.

Það var því enn eitt tímabilið ekki nokkur einasti stöðugleiki  var á vörninni. Ekki nema helst í restina og þar sáum við vonandi vott af því  sem koma skal. Dejan Lovren spilaði 12 Meistaradeildarleiki síðasta tímabil og að ég held alla stórleikina. Þar sáum við líklega hvað helst stöðugleika á vörninni, aðallega vegna þess að allir aðrir voru orðnir meiddir undir restina.

Dejan Lovren var lykilmaður í underdogs liði sem fór alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar og er núna leiðtogi í ennþá meira underdogs liði sem er komið í úrslit á HM. Tveimur árum eftir að hann var tekin úr liðinu. Eins og við ræddum í Podcasti er væntanlega ekki hægt að horfa framhjá Lovren þegar lið mótsins verður valið. Hann ætti að vera við hlið Varane í vörninni.

Það hjálpar auðvitað ekki Liverpool að Lovren sé að spila mest allt þetta sumar og verði líklega ekki klár í fyrsta leik og jafnvel leiki. Við verðum að fá stöðugleiki í vörnina og sjáum loksins loksins framá að vera með tvo alvöru góða miðverði saman í liðinu. Matip er einnig öflugur þegar hann spilar með Van Dijk.

Lovren er í alvöru einn besti miðvörður í heimi í dag

Það skiptir engu hvað Lovren hefur gert undanfarin ár hjá Liverpool og líklega er ekki hægt að finna marga stuðningsmenn liðsins sem hafa verið að flokka hann meðal bestu varnarmanna í heimi fyrir þetta ár. En núna sérstaklega árið 2018 og raunar megnið af síðasta tímabili var Lovren einn besti varnarmaður Meistaradeildarinnar og ætti klárlega að verða valinn annar af bestu miðvörður HM 2018. Þetta kemur honum klárlega í flokk með þeim bestu. Vonandi nær hann að viðhalda þeim standard. Maður fær það stundum á tilfinninguna að stuðningsmenn Liverpool haldi að miðverðir annarra liða séu allt að því gallalausir. Það er ekkert lið sem spilar eins sókndjarfan fótbolta og Liverpool með miðverði sem ekki gera mistök. Real Madríd með sína frábæru miðverði fékk meira af mörkum á sig en Liverpool í vetur svo dæmi sé tekið.

Ekki misskilja samt, það er enginn að segja að hann sé besti varnarmaður í heimi, fyrir mér er hann ennþá afgerandi næstbestur í liði Liverpool. Þar er hann samt að keppa við dýrasta miðvörð sögunnar og leikmann sem var hverrar krónu virði.

Aðeins til að árétta aðstæður hjá Liverpool þá hafa miðverðir Liverpool alls ekkert verið þeir leikmenn sem spilað hafa flestar mínútur yfir tímabilið undanfarin ár. Ef allt væru eðlilegt eru þessir menn jafnan a.m.k. á topp fimm þar og þegar vörn Liverpool var upp á sitt besta með Hyppia og Henchoz eða Hyypia og Carragher voru þeir jafnan að spila lungað úr öllu tímabilinu.

Ef við skoðum t.a.m. Real Madríd síðasta vetur þá var  varnartengiliðurinn Casimiro með flestar spilaðar mínútur í deild, Navas er næstur og þar á eftir koma Varane og Ramos á milli Ronaldo. Marcelo og Carvajal  eru svo í sjöunda og áttunda sæti yfir flestar spilaðar mínútur með Kroos fyrir framan sig. Allir spiluðu þessir einnig megnið af Meistaradeildarleikjunum. Real gat hvílt af og til sem fækkar mínútum á vissum stöðum.

Munurinn á stöðugleika hjá þeim í vetur og Liverpool undanfarin ár er ævintýralegur. Ég fullyrði að Lovren væri töluvert hærra skrifaður og minna þekktur fyrir skrautleg mistök hefði hann spilað fyrir þá en ekki Liverpool undanfarin ár. Eins held ég að Varane og Ramos hefðu heldur betur upplifað töluvert af þeim mistökum sem Lovren hefur gert sig sekan um. Samt fékk Real Madríd með þetta lið og þennan stöðugleika aftast sex mörkum meira á sig í deildinni í vetur heldur en Liverpool eða 44 mörk.

Frá því Lovren kom til Liverpool hefur hann spilað fyrir sóknarsinnaða stjóra í liðum sem eru verulega veik varnarlega. Fyrir utan Henderson er enginn byrjunarliðsmaður eftir í liði Liverpool úr liðinu sem hann gekk til liðs við 2014 sem segir sitt um stöðugleikann. Á síðasta tímabili komu þrír nýjir inn í varnarlínuna auk þess sem skipt var um markmann. Það tekur jafnan smá tíma að skipta alveg um varnarlínu og slípa hana saman. Fabinho bætist svo við í sumar til að verja vörnina.

Hvað er raunhæft takmark í vetur

Ef að Liverpool ætlar að komast nær því að vinna titilinn þarf Klopp fyrst og fremst að fækka þeim mörkum sem liðið fær á sig. Auðvitað skiptir það ekki öllu máli ef jafnvægið er gott en lið sem vinna titilinn er oftast með undir 30 mörk fengin á sig.  Liverpool hefur mest allan þennan áratug verið allt of nálægt 50 mörkum.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að Jurgen Klopp hefur snarlagað sóknarleik liðsins undanfarin tvö tímabil. Það sem færri átta sig líklega á er að hann hefur einnig bætt liðið varnarlega milli ára.

Þegar Klopp tók við 2015 var liðið í töluverðu ströggli og fókusinn fór jafnt og þétt á Evrópudeildina. Liðið fékk á sig 48 mörk en skoraði aðeins 52 mörk sem er hroðalegt og skilaði enda bara 8.sæti. Markatalan lagaðist aðeins árið eftir en alls ekki nóg og liðið lak ennþá fleiri mörkum (50).

Til að tryggja sæti í Meistaradeildinni á ný skoraði Liverpool fimmtán mörkum meira (78) en tímabilið á undan (63) og fékk á sig átta mörkum minna eða 42 mörk. Þetta er ekki góð tölfræði varnarlega en bæting um átta mörk á einu tímabili er töluvert stökk engu að síður.

Síðasta vetur með liðið á fullu gasi í Meistaradeildinni hélt Liverpool samt áfram að bæta sig á báðum vígstöðum. Núna var skorað sex mörkum meira (84) og fengið á sig fjórum mörkum minna (38). Þetta er mun nær þeim liðum sem hafa verið að landa titlum og dugar  a.m.k. í Meistaradeildarsæti.

Það sem gerir nýtt tímabil gríðarlega spennandi varnarlega er fjölmargt. Aðalatriði er að Van Dijk tekur fullt æfingatímabil með Liverpool í stað þess að koma vel ryðgaður í janúarglugganum ennþá að ná sér af langtímameiðslum. Þetta eitt og sér gæti fækkað mörkum fengið á sig um 5-10 mörk.

Andy Robertson hefur eignað sér vinstri bakvarðarstöðuna og hefur Moreno sem back-up. Þeir voru vissulega báðir hjá okkur í fyrra en Robertson kom frekar seint. Hann sást varla fyrr en í nóvember og sló ekki í gegn fyrr en í desember. Það gæti sparað einhver mörk að hafa hann frá byrjun.

Clyne er kominn til baka og fer núna vonandi í töluvert stöðugra lið. Hann var búinn að vera nánast eins og vél þar til hann tók upp á því að meiðast alveg heilt tímabil. Eins dýrmætt og þetta var fyrir Gomez og Alexander-Arnold í fyrra þá voru þeir klárlega að gera sig seka um mistök af og til sem Clyne er líklega búinn að taka út í sínum þroska. Ef hann kemur inn í 100% standi á ný styrkir það klárlega vörnina auk þess sem við eigum núna Gomez og TAA miklu nær því að vera tilbúna í slagin en þeir voru fyrir ári.

Lovren heldur vonandi áfram uppteknum hætti og ef Matip nær sér af sínum meiðslum er það gott back-up. Því færri leikir sem Klavan fær því betri er stöðugleikinn í vörninni.

Aðalatriði fyrir utan Van Dijk er samt að fá loksins hreinræktaðan varnartengilið. Hávaxinn og grjótharðan brassa sem vonandi snarbætir liðið einnig í föstum leikatriðum á báðum endum vallarins. Ef að Fabinho nær takti strax og smellur inn í liðið held ég að þar sé klárlega bæting varnarlega upp á 8-10 mörk.

Ef að Keita og Henderson verða svo þar fyrir framan er pressuvörnin af miðsvæðinu töluvert öflugri og yfirferðin á miðjunni mjög öflug. Það myndi klárlega hjálpa varnarlega ef við náum að kæfa miðsvæðið og ráða loksins við háa bolta aftast.

Auðvitað vitum við ekkert hvað gerist varðandi meiðsli eða hvernig nýjir menn aðlagast en fyrirfram geri ég mér klárlega vonir um að Liverpool fái minna en 30 mörk á sig á næsta tímabili. Hvort sem keyptur verði nýr markmaður eða ekki. Ég veit að það er bannað að hugsa það til enda að Karius verði áfram og hann er að gera einmitt svona Lovren-esq mistök en liðið stórbatnaði þegar hann kom inn á síðasta tímabili og  hann stóð sig ágætlega fram að úrslitaleiknum. Vonandi kemur nýr markmaður eða t.d. Ward eignar sér stöðuna með stæl en hvað svo sem gerist þarna held ég samt að það sé vel innistaða fyrir stórbætingu varnarlega.

Dortmund liðin hjá Klopp sem urðu Meistarar voru að fá á sig 22 og 25 mörk (34 leikir). Dortmund fór úr því að fá á sig 42 mörk 2009/10 í það að fá á sig aðeins 22 mörk árið eftir. Það var ekki gert með neinum Van Dijk kaupum. Þetta er level sem við þurfum að sjá hjá Liverpool og skora vonandi áfram svipað mikið af mörkum hinumegin.

 

14 Comments

  1. Er sammála flestu en finnst samt aðeins liverpool gleraugun vera uppi hérna. Lovren getur verið drullugóður en of mistækur og gerir of mikið af röngum hlutum er alltaf að bjóða uppá víti eða að lesa leikinn vitlaust og bjóða hættunni heim. Og með Karius.. jú hann stóð sig ágætlega í flestum leikjum en var líka steinheppinn að kosta ekki fleiri mörk með heimskulegum mistökum sem fólk kannski gleymir afþví það endaði ekki með marki (fyrri leikurinn gegn roma t.d sem hefði kostað okkur sætið í úrslitaleiknum) og þarf varla að minna neinn á úrslitaleikinn eða byrjun hans á undirbúningstímabilinu.

    Mín skoðun: klárlega til í að gefa Lovren annað tímabil með hollenska tröllinu og sjá hvort hann bætir sig ekki ennþá meira en vil ekki sjá mistækan markmann með 0 sjálfstraust í markinu í vetur. Skellum 100milljona tilboði i Donnarumma og neglum þessa stöðu niður næstu 15 árin 😀

  2. Virkilega flott, áhugaverð yfirferð á Króatíu og Lovren og síðan er ég mikið til sammmála þér með möguleikana á mörkum fengnum á okkur.

  3. Sæl og blessuð.

    Það má ekki gleyma þætti Danijels Subasic í góðri vörn Króata núna á hm. Vissulega er kappinn orðin svolítið roskinn f. 1984 – en það væri nú samt ekki amalegt að hafa hann þarna milli stanganna og svo landa hans í miðverðinum. Króatískur varnarmúr er eitthvað sem ég gæti hugsað mér í okkar hóp. En hann er víst 34ra ára gamall sem gefur honum ekki mörg tímabil í viðbót, þótt markvörður sé. Gæti samt verið millibilsástand í einhvern tíma áður en hinn rétti kemur í ljós.

    En hvað um það? takk fyrir þennan frábæra pistil og podcast. Það er ljóst að engin undankoma er úr fótboltanum. HM að klárast og þá byrjar fjörið á Englandi!

    Hlakka til að henda inn spá fyrir tímabilið þegar síðuhaldarar opna fyrir hana! Bjartsýni mín stendur samt og fellur með markmannsstöðunni!

  4. Sælir félagar

    Ég þakka fyrir frábæran pistil Einar Matthías og tek undir hvert orð. Engar efasemdir eru í mínum huga og toppbarátta framundan allt næsta tímabil.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. Varðandi markmannsstöðuna tel ég einungis einn koma til greina það er oblak. Skil ekki af hverju menn vilja Donaruma hann er ekki skárri en karíus. Ward verður bara vonandi í markinu í vetur enda við ekki að að fara að kaupa dýrann markvörð. Annars flott grein

  6. Lovren er einfaldlega solid leikmaður og fannst mér hann og Van Dijk ná vel saman(betra en Matip og Dijk).
    Það er bara oft þannig að leikmaður sem er umdeildur lætur alla setja smásjá á sig og þegar hann gerir misstök þá benda menn á segja Sko ég sagði þér að hann væri lélegur á meðan að t.d Dijk gerir líka misstök(stundum sömu) en hann er framtíðarfyrirliði liðsins og þá er það fyrirgefið á staðnum(ath ég dýrka Dijk svo að það sé á hreinu).

    Lovren er harðjaxl sem er mjög gott að og ef hann og Dijk ná enþá betur saman þá verður þessi varnarleikur ekkert vandamál en ég hef smá áhuggjur af manninum fyrir aftan þá og ég tel að það sé erfitt að spila með markmanni sem miðverðir treysta ekki 100%.

    Annars er þetta líklega nýjasti kallinn okkar og hérna eru hans kostir og gallar. Ég er ekki alltof spenntur fyrir honum en ég treysti Klopp og félögum.
    https://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/transfer-news/liverpool-xherdan-shaqiri-transfer-stoke-14756581

  7. Nr1. Róbert

    Ertu til í 2-4 ár af mistökum hjá ungum Donnarumma? Ég hef alls ekki séð mikið af honum og geri mér grein fyrir að hann er eitt mesta efnið í boltanum um þessar mundir en ef þú skoðar hans tölfræði undanfarin tímabil sérðu að hann er líka verulega mistækur, meira en t.d. Karius. Ég held að hann kosti aldrei neitt í nálægð við 100m btw og ef Liverpool vill hann ætti ekki að vera stórmál að fá hann. AC Milan er í tómu rugli. Persónulega veit ég ekki nóg um hann til að meta hvort hann væri málið núna eða ekki.

    Sama á við um Lovren, ég held að þú finnir ekki marga miðverði sem ekki gera slæm mistök inn á milli. Eins og Sigurður Einar bendir á hefur Van Dijk líka gert sig sekan um mistök en þau gleymast jafn óðum enda allt annað viðhorf gagnvart honum.

    Eru t.d Stones og Otamendi þessir mistakalausu miðverðir? Klárlega ekki Cahill og Luz hjá Chelsea (eða Christiansen). Það hafa allir United menn tuðað yfir sínum miðvörðum eftir að Ferdinand og Vidic hættu, samt spilar liðið mjög þéttan varnarleik. Arsenal telst varla með undanfarin 1-2 tímabil. Tottenham hefur verið með hvað bestu vörnina undanfarin ár. Bæði er liðið jafnan nokkuð solid yfir tímabilið (aftasta lína spilar marga leiki saman) og eins er Pochettino alltaf með mjög gott cover fyrir þá á miðsvæðinu rétt eins og Lovren fékk að kynnast þegar hann spilaði fyrir hann og þrefaldaðist í verði.

  8. Mér finnst að menn eigi að hugsa stórt og til framtíðar.

    — Fá Alisson sem markmann nr. 1 og Donnarumma sem markmann nr. 2 —

  9. Í fullri hreinskilni vissi ég ekki að hann væri alveg svona mistækur en jú vil frekar gefa honum 2-3 ár afþví hann er svo fáranlega ungur og hefur verið að bæta sig ár eftir ár og þó Karius hafi sýnt góða takta inná milli þá er hann mjög mistækur og hefur ekkert bætt það í 2 ár og svo hefur sjálfstraust mjög mikið að segja og hann á eftir að leka inn fullt af mörkum þangað til það lagast. Örugglega hægt að finna betri kost en bæði Karius og Donnarumma samt, draumurinn væri auðvitað að lokka Courtois eða Lloris frá Tottenham/Chelsea en sé það ekki gerast.

    Og með Lovren þá sagði ég að hann væri drullugóður inná milli en gerði mikið af mistökum hef ekki séð Van Dijk gera jafn mikið en jú auðvitað eithver og svo hefur hann einungis verið með Klopp í hálft ár og veit ekki jafn vel og Lovren hvernig liðið er að verjast og hvernig hann á að spila svo það mun minnka með tímanum en veit ekki alveg hvort það gerist hjá Lovren en hef alveg trú á því að það gerist með mann eins og Dijk við hliðina á sér. Svo var ég aðallega að meina að mér finnst hann ekki einn af þeim bestu í heiminum og miðvarða pörin hjá Chelsea og United hafa ekkert verið það heldur í nokkur ár og United spilar þéttan varnarleik afþví fremstu leikmennirnir þeirra og miðjan er mun meira að pæla í vörn en sókn algjörlega ólíkt hjá okkur í Liverpool.

    Eins og ég sagði sammála langflestu en treysti ekki Karius og held að vörnin okkar geri það ekki heldur sem er MJÖG slæmt. Og að Lovren er enginn Ramos eða Varane en hef samt alveg trú á honum en mundi vilja sjá miðvarðarkaup og smá aukna samkeppni og helst ekki hafa Klavan næstan inn á meðan Matip er meiddur hálft árið.

  10. Horfði sjálfur reglulega á ítalska boltann í vetur og á líka fanatískan félaga sem veit allt um deildina. Sá segir að það sé verið að “grooma” Donnarumma til að taka við af Buffon hjá Juventus. Hann sé í þeim klassa og hafi potential að verða besti markmaður allra tíma. Ítalar þekkja góða markmenn þegar þeir sjá þá. Hann er skíthræddur við að Liverpool veifi seðlunum og borgi uppsett verð. Hann er algjörlega the real deal. Við værum svakalega heppnir að fá kappann.

    Ég held að Liverpool eigi þó lítinn sem engan séns á að fá hann. Hann er enn ungur spagettíbossi og vill búa á Ítalíu með þeim lífstíl sem tíðkast þar. Er ekki að fara fíla rigninguna á Englandi.

    Varðandi Lovren þá er hann bara sannarlega mjög góður miðvörður í dag. Myndi segja að Varane sé klárlega sá besti. Frammistaðan gegn Englandi ætti að sýna að Lovren getur vel haldið mönnum eins og Harry Kane vel niðri og eigi heima á hæsta leveli. Væri hann ekki þegar leikmaður Liverpool værum slefandi yfir að fá hann til okkar útfrá frammistöðunni á HM. Þetta væri drengur sem smellpassaði inní enska boltann. Stór og líkamlega sterkur, agressívur, frábær skallmaður og fljótur. Hann á þó til að vera of árásargjarn og fá algjört brainfart af og til þegar einbeitingin fer skyndilega í sumarfrí. Næsta heila ár við hliðina á Van Dijk í toppbaráttu mun skera úr um gildi hans fyrir Liverpool.

  11. Ef að seðlar væru ekk7 vandamál hvað með að fá Oblak alvöru markmaður þar á ferð

  12. Nr:12 Oblak er með eina bestu vörn í heimi fyrir fram sig og liðið í heild er eitt það besta í heiminum í að verjast þannig að það er ekki víst að Oblak standi sig nokkuð betur en þeirra markmenn sem við höfum.

  13. Þú nærð merkilega oft að hitta naglann á höfuðið á mér. Frábær pistill og svo miklar og góðar pælingar. Cudos á þig Einar

Podcast – Loksins

Xherdan Shaqiri til Liverpool (Staðfest)