Evrópuglugginn lokast

Þrátt fyrir að glugginn í Englandi hafi lokast fyrir upphaf leiktíðarinnar, þá var ennþá rifa á Evrópuglugganum, sem þýðir að ensku félagsliðin hafa áfram getað selt eða lánað leikmenn til liða utan Bretlands. Og jafnvel þó svo að þessi gluggi sé nú að lokast í flestum Evrópudeildunum, þá verður t.d. hægt að selja/lána leikmenn til Rúmeníu fram til 3. september, Búlgaría og Slóvakía lokast 6. september, og Portúgal 21. september.

Það hafa svosem engar stórkostlegar breytingar orðið hjá okkar mönnum á þessum síðustu dögum:

  • Loris Karius fór að láni til Besiktas eins og áður hefur verið talað um
  • Sheyi Ojo skrifaði undir nýjan samning við klúbbinn, og var svo lánaður til Reims í Frakklandi.
  • Corey Whelan fór til Crewe að láni
  • Caoimhin Kelleher (fornafnið er borið fram svipað og Kevin, eða Kweveen) skrifaði undir nýjan samning við félagið, og er ekki að fara neitt, enda hefur hann víst heillað Klopp og er jafnvel kominn fram fyrir Grabara í röðinni.
  • Að lokum virðist ferill Lazar Markovic hjá Liverpool loksins vera á enda, og þar með lýkur epísku veðmáli milli Kristjáns Atla og Einar Arnar um það hvort hann myndi spila leik fyrir liðið aftur. Síðustu fréttir frá Pearce segja að það sé búið að semja um að hann fari til Anderlecht fyrir 2.9 millur.

Orðið er annars laust, og við bíðum spennt eftir Leicester leiknum á morgun.

8 Comments

  1. Spes að sjá hvorki Solanke né Origi á leiðinni á lán amk. Samt ánægður með Liverpool að standa í lappirnar og heimta sitt fyrir Origi. Ótrúlega svekkjandi hvernig hans ferill hefur farið hjá Liverpool. Þetta er/var leikmaður sem getur/gat komist í heimsklassa.
    Þegar Sturridge meiðist mynda þeir tveir svo sem ágætis backup, ég saknaði stundum Origi í fyrra.
    Það er samt ljóst að líklegast fer Origi í janúar.

  2. Við erum að fá minni pening fyrir undrabarnið Lazar heldur en við fengum fyrir 32ja ára (að verða 33ja) gamla Klavan. Segir mikið til um hversu slæm brotlending hefur orðið á ferli hans.

    Annars held ég að Origi sé að fara að fá kannski 6-8 sénsa fram að áramótum sem hann bara verður að gjöra svo vel að nýta ef han ætlar ekki að fara í eitthvað miðlungslið í Frakklandi.

  3. Markovic hefur reynst einn mesti köttur í sekk í sögu Liverpool og ágætt að fá svosem smá klink fyrir hann. ég hafði aldrei heyrt um þetta “gríðarlega efni” sem hann átti að vera og flokkast hann undir álíka goð kaup og kaup M** U** á Bebe um árið.

  4. Alberto Aquilani er samt nafn sem kemur upp í hugann yfir vonbrigði miðað við hvað hann átti að vera svakalegt númer.

  5. Sæl og blessuð.

    Brendan karlinn Rogers fékk fúlgur fjár til að höndla með og hafði þar að auki Aspas og Louis Alberto sem báðir hafa staðið sig prýðisvel á Spáni. Þeir blómstruðu aldrei undir hans stjórn og voru látnir fara. Þá er ótalinn hinn velski Xavi og Borini sem báðir voru í dýrari kantinum en voru lítils megnugir þegar á reyndir. Sakho átti svo sem spretti en hann var þó burðarás í vörn sem var skelfileg. Síðar átti eftir að koma í ljós hversu slappur hann var. Migno er enn eitt dæmið um kött í sekk!

    Jamm og þegar hann fékk aurana fyrir nafna þá er óhætt að segja að ekkert bitastætt hafi komið út úr þeim kaupum. Þessi 90% verðrýrnun á hinum serbneska messi (eða hvað hann var kallaður) er lýsandi fyrir ruglið sem var í gangi á þessum tíma. Ræðum ekki B-in tvö eða fleira sem hleypir bólgu í kinnar, æði í augun og gjörir mann að hálfgerðri ókind.

  6. Fagna því að ekki hafi tekist að losna við Origi í sumar. Liverpool veitir ekkert af breiddinni og hann hefur sýnt það einu sinni hjá Liverpool að það er góður leikmaður þarna einhversstaðar. Hann virtist vera á góðri leið með að verða sá leikmaður sem spáð var þar til þetta gerpi hjá Everton braut á honum og fagnaði því að hafa meitt hann er hann fór útaf með rautt. Líklega kemur ekki til þess að leitað verði til hans en bara á síðasta tímabili hefði hann líklega spilað töluvert eftir áramót hjá Liverpool. Hann er lengra á veg kominn en Solanke.

    Hvað eiginlega gerðist hjá Markovic er rannsóknarefni, hann var í alvöru gríðarlegt efni þegar Liverpool keypti hann og var ekkert það rosalega afleitur þegar hann fékk sénsinn. Reyndar var Rodgers að spila honum á ólíklegustu stöðum sem ekki hjálpaði. Síðan þá hefur eitthvað undarlegt gerst og ferillinn er fullkomlega farinn. Maður hélt t.a.m. að koma Buvac samlanda hans myndi eitthvað hjálpa Markovic en svo var alls ekki. Hann verður aldrei meira en efnilegur, það eru miklu fleiri dæmi til um slíka leikmenn heldur en þá sem meika það. Hann fékk samning hjá Liverpool m.v. að hann væri 20m leikmaður. GLÆTAN að hann sé að fara áður en sá samningur er búinn m.v. hvað ferillinn hefur hrapað rosalega. Bjóst nú a.m.k. við að hann væri samt á láni til að fá spilatíma einhversstaðar.

    Mignolet er líka dæmi um leikmann sem fékk allt of góðan samning m.v. gæði og það verður líklega ekki létt að losna við hann eins og við erum að sjá í sumar. Hann virðist þó hafa öllu meiri metnað en Markovic og vill spilatíma.

    Reyndar hefur Sturridge líka verið dæmi um leikmann sem er með allt of góðan samning m.v. framlag. Hann er ennþá hjá Liverpool vegna þess að það vill enginn snerta núverandi samning hans með priki. Hrökkvi hann í gang í vetur og spilar eitthvað hlutverk í stórum titli verða þessi ár gleymd og grafin a la Smicer.

Upphitun: Leicester á útivelli

Liðið gegn Leicester