Upphitun: Chelsea á Brúnni

Svo fór um deildarbikar-sjóferð þá. Súrt í broti að tapa eftir að hafa verið komnir með forystu á heimavelli og með góð færi til að klára dæmið. En þessi vínber eru hvort sem er súr á bragðið og eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði og hefna. Það er komið að seinni hluta tvíleiksins gegn Chelsea þessa vikuna og tímabært að hita upp. Þetta er alvaran!

Mótherjinn

Sarri fær seint verðlaun fyrir fatastíl á hliðarlínunni en hann bætir það upp með stórglæsilegum leikstíl og tóbakslausum filter.

Eftir getgátuleik síðustu daga um liðsuppstillingu bláliða í deildarbikarnum er von á hefðbundnari mannavali í þetta skiptið. Chelsea munu stilla upp sínu allra sterkasta liði á heimavelli og reyna að spila Sarri-sóknarleik til sigurs. Ef eitthvað er þá voru fleiri lykilmenn í byrjunarliðinu í miðri viku en búist var við en Willain, Kovacic, Cahill og Azpilicueta eru allir líklegir til að halda sæti sínu á laugardaginn. Þeim tveimur fyrstnefndu var reyndar skipt útaf í fyrri hluta seinni hálfleiks en vonandi munu einhverjar harðsperrur herja á þá sem mest hafa spilað í síðustu leikjum.

Það þarf vart að fjölyrða um hversu miklum breytingum Maurizio Sarri hefur náð á stuttum tíma með hina áður massífu varnarmaskínu sem var undir járnaga Mourinho og Conte. Þeir þjálfarar náðu vissulega frábærum árangri með sitt hvorn Englandsmeistaratitil á síðustu 4 árum en áferðafallegur og leiftrandi fótbolti var ekki þeirra aðalsmerki. Það er sem Sarri sé að hleypa beljunum út á vorin og leikmenn að njóta þess að sletta úr klaufunum með sókndjörfu leikkerfi þar sem boltanum er ríghaldið innan liðsins.

Svo vel að Chelsea er núna með næsthæsta possession í úrvalsdeildinni með 65,7% og einungis Man City eru rétt fyrir ofan þá með 66,3%. Í fyrra voru Chelsea 54,4% með boltann yfir tímabilið þannig að þetta er gríðarleg breyting á leikstíl á milli ára. Til samanburðar þá hafa Liverpool verið með 55,4% possession það sem af er þessu tímabili og heldur hógværir miðað við mótherja sína í þessum efnum. Enda voru það Chelsea sem voru meira með boltann á miðvikudagskvöldið í deildarbikarnum eða með 53,8% en það var þó Liverpool sem átti  fleiri skot að marki enda erum við ögn beinskeyttari með mörgum hraðaupphlaupum og minna að klappa boltanum út í hið óendanlega. Við megum vel gera ráð fyrir að þetta verði raunin á Stamford Bridge þar sem við treystum á að okkar sterkasta varnaruppstilling haldi aftur af heimamönnum og svo sækjum við hratt á þá með okkar sprækustu sóknarlínu.

Á síðustu 10 árum hefur Liverpool náð betri tökum á því að spila á Brúnni og við höfum unnið síðustu 5 af 11 úrvalsdeildarleikjum þar frá árinu 2008. Þrír af þessum 11 voru jafntefli og einungis 3 enduðu með sigri heimaliðsins en þar á meðal var síðasti leikur liðanna síðastliðið vor. Á þeim tíma hélt sá sigur lífi í von Chelsea um að ná Liverpool í kapphlaupi um 4.sætið en á endanum höfðum við blessunarlega betur í þeim stólaleik. Núna er annað og meira uppi á teningunum og að þessu sinni er þeim kastaði í sannkölluðum stórleik og uppgjöri toppliðanna í deildinni. “Alea iacta est” mælti Caesar er hann hélt með her sinn yfir Rubicon-fljót og hið sama þarf keisari Klopp að predika fyrir sínum Rauða her er við marserum yfir ánna Thames.

Svona verður óvinaherinn væntanlega uppstilltur:

Líklegt byrjunarlið Chelsea í leikkerfinu 4-3-3

Liverpool

Það þýðir ekki að hengja haus þrátt fyrir hálf klaufalegt tap í miðri viku þar sem enginn VAR vinur okkar (looking at you Kevin Friend). Nú þarf bara að þurrka blóðið úr munnvikunum og henda sér aftur í bardagann með eld í æðum. Í síðasta leik skelltum við okkur í DeLorean-tímavélina og ferðuðumst 2 ár aftur í tímann með varnarlínuna en því miður var ekki hægt að breyta sögunni hvað þau gömlu varnarvandamál varðar. Þá eru Keita og Fabinho enn í starfsnámi og ekki búnir að klára Klopp-fræðin varðandi að loka á réttu svæðin á miðjunni þannig að úr varð opnari leikur en við höfum fengið að venjast frá andstæðingum okkar síðustu misseri. Shaqiri var aftur okkar besti maður annan leikinn í röð en hann verður í ofurhetju-hlutverkinu sem super-sub af bekknum.

Fyrir 2 árum og 12 dögum lék Liverpool á Stamford Bridge og sigraði 1-2. Sama varnarlína og í deildarbikarnum nema með Milner í vinstri bakverði.

Inn mun koma varnarlína með næstdýrasta markvörð heims sem hefur fengið á sig fæst mörk í deildinni með hið grunsamlega kunnuglega hlutfall 14-2 í markatölu. Þeirri vörn mun stýra dýrasti varnarverkstjóri í heimi og munar um minna að fá meistara VVD að nýju við stjórnvölinn. Fyrir framan verður samhent miðja sem þekkir sitt hlutverk í Klopp-kerfinu og okkar magnaða sóknarlína á fullum hraða í framlínunni. Þetta verður ekki sami leikur og á Anfield í vikunni þar sem hálft liðið var að spila sinn fyrsta leik á timabilinu með tilheyrandi ryðblettum og taktleysi.

Það má líka gera ráð fyrir að Klopp hafi sparað einn ás eða tvo uppí sinni ermi hvað taktík varðar og þó að ávallt sé hamrað á möntrunni um einn leik í einu þá hefur stjórinn verið að spá í sín spil lengur en það ef við þekkjum hann rétt. Hið hættulega við þennan leik er að fyrirfram er jafntefli alveg ágæt úrslit fyrir Liverpool en sú nálgun er alltaf vandasöm og vonandi spilum við einfaldlega upp á þau 3 stig sem eru í boði og sjáum hvert það leiðir okkur. Við sýndum það gegn Tottenham í höfuðborginni hversu öflugir við getum verið á okkar degi og nú þarf að endurtaka leikinn.

Í uppstillingunni verður ekkert óvænt og öllu fínasta pússinu til tjaldað:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Blaðamannafundi Klopp var rétt í þessu að ljúka og engar stórfréttir komu þar fram. Þeir byrjunarliðsmenn sem hafa verið tæpir í vikunni eru komnir í lag; VVD með sitt högg í rifbeinin, TAA með veikindi og Wijnaldum æfði eðlilega. Klopp lagði áherslu á að hann væri svekktur með að detta út úr deildarbikarnum þó að margir teldu það blessun í dulargervi varðandi minna leikjaálag. Hann lagði sérstaka áherslu á að þrátt fyrir fréttir um annað að þá var hann alls ekki að rífast við Shaqiri beint eftir leikinn og lofaði hans framlag í hástert. Mikið var spurt um gæðin í Hazard og Klopp gerði vel í að svara misgáfulegum spurningum blaðamanna um hvernig ætti að reyna að stoppa hann og aðra öfluga leikmenn Chelsea. Þó vildi hann taka það fram að ef að Liverpool hefði nýtt sín færi sem nóg var af að þá hefði sigur unnist og umræðan væri ögn á annan veg í dag.

Eins og ávallt er unun að horfa á Klopp tala og hér er blaðamannafundurinn í heild sinni (hefst eftir 10 mínútur):

Spakra manna spádómur

Þetta verður hnífjafn leikur sem mun ráðast af því hvort liðið gerir afdrifaríkari mistök. Ég vil sjá okkar menn láta reyna á Luiz í tveggja hafsenta kerfi en það er ekki hans sterkasta hlutverk. Að sama skapi verður lykilatriði hvernig okkur frábæru bakvörðum gengur með að hemja Hazard og Willain en þeir eru stórhættulegir eins og dæmin sanna. Vonandi gaf leikurinn í deildarbikarnum Chelsea falsvonir og okkar beittustu menn mæta með blóð á milli tannanna til að svara fyrir sig.

Ég ætla að spá því að við launum þeim lambið “bláa” og svörum fyrir okkur með 1-2 útisigri í höfuðborginni. Markaskorun munu annast Mohamed Salah og Virgil van Dijk.

YNWA

16 Comments

  1. Erum að breyta aðeins um útlit á síðunni og þetta kemur til með að taka einhvern tíma. Eigum eftir að laga nokkra hluti smátt og smá.

  2. Vönduð upphitun – og flott útlit.
    Mér fannst Klopp ekki svara því á fundinum hvort VVD væri klár á morgun – það myndi koma í ljós. Misheyrðist mér eitthvað?

  3. Takk fyrir þessa fínu upphitun. Er ekki ennþá búinn að ná mér eftir tapið um daginn sem skrifast fyrst og fremst á helv klaufaskap og klúður. Það er bara alls ekki ásættanlegt að tapa leik á heimavelli og sama hvað hver segir. Þar fyrir utan tel ég B lið Liverpool vera betra en A-B lið Chelsea, punktur. En það kemur nýr dagur og nýr leikur í annarri keppni. Nú er bara að sjá hvort Kloppinn hafa reiknað dæmið rétt ma með því að hvíla marga lykilmenn. Ef Liverpool tapar þá er dæmið ekki að ganga upp og Klopp fær mínus í kladdann. Upp með buxur og sokka og valta yfir þetta Chelsea lið. Sturridge skorar aftur að ég held.

  4. Sæl og blessuð.

    Til hamingju með nýtt útlit þó ég skilji aldrei af hverju síður þurfa að breyta um ásjónu, en það er líklega bara ég. Takk líka fyrir stormandi flotta upphitun. Andagift púlara ríður ekki við einteyming.

    Held við hefðum ekki tapað síðasta leik með einhvern annan í bakvörslunni en hinn mistæka Moreno. Það sem sá piltur hefur kostað okkur! Eins og fram kom í leikskýrslu og ég hef reyndar bent á – þá er hann í besta falli réttur maður á röngum stað. Það er amk alveg á hreinu að hann er ekki á réttum stað. Kauði gæti mögulega verið á kantinum, ef ekki á bekknum – helst vildi ég hafa hann í láni einhvers staðar þar sem hann gæti þroskað sparkfærni sína á öðrum stöðum vallarins.

    Leikurinn á morgun verður ögurleikur. Allt verður lagt undir og spennustigið óbærilegt. Stafnfurðubrú verður ekki söm.

  5. Þetta verður rosalegur leikur. Chelsea eru velskipulagðir varnarlega og með frábærasóknarlínu sem við munum eiga í fullu fangi með að stöðva en þeir eru líklega að segja það sama um okkur.
    Spái því að Mane og Millner verða þeir einu sem halda sæti sínu frá síðasta leik og gætum við séð þéttari miðsvæði með Millner, Winjaldum og Henderson sem eru allir miklir hlauparar og baráttu kallar.

    Ég reikna ekki með opnum leik en segjum 1-1 þar sem Salah skorar fyrir okkur í síðarihálfleik þegar hann jafnar leikinn. jafntefli gegn Chelsea úti væri fín niðurstaða en Klopp mun sækja til sigurs á öllum völlum og þess vegna dýrka maður hann 🙂

    p.s Það mun taka tíma að venjast þessu nýja útliti því að manni fannst ekkert að hinu 🙂

  6. Sælir félagar

    Ég ætla ekki að tjá mig um breytingar á síðunnu fyrr en þær eru frágengnar og niðurstaða fengin. Hvað leikinn varðar þá verður þetta stál í stál og það getur einfaldlega munað því hvort VvD verður frískur eða ekki. Robertson í vinstri bak verður uppfærsla og Alisson í markinu líka. Ef allir verða leikfærir munum við merja þennan leik með 1 til 2 mörkum. Spái 1 – 3 í þungum og erfiðum leik þar sem varnartaktík Chelsea mun ekki halda og við setjum 2 (Salah og Mané) þeir 1 (grasmaðkurinn) og við 1 (Salah). Lokatölur 1 – 3.

    Það er nú þannig

    YNWA

  7. Flott úttekt hjá Magnúsi. En menn vinna ekki á móti Sarri og frábærri taktík hans með því að brenna af dauðafærum trekk í trekk einsog á miðvikudagskvöldið!

  8. Ég ber kvíðboga gagnvart þessum leik. Cheslea er með fanta gott lið og með innanborðs besta leikmann heims í dag. Gríðarlega vel spilandi lið. En það er Liverpool líka og vonandi skipta þeir í fjórða eða fimmta gír í þessum leik (farið max í 3ja). Að vörn og miðja sjái um að halda þeim niðri. Í leiknum á Anfield var Liverpool í bölvuðu basli með Chelsea en náði virkilega góðum tökum á þeim í seinni hálfleik. Ólöglegt mark og geggjað einstaklingsframtak (hjálpaði reyndar Hazard talsvert að hann var mikið til að fara framhjá mönnum sem voru á gulu og máttu því ekki brjóta á honum) sá um Liverpool. Spái engu en vona það besta.

  9. Sælir drengir! Endilega höldum okkur meira við rauða litinn á vefsíðunni. Sumt á að vera conservative.

  10. Sammála að það vantar meira rautt en ég er samt að fíla layoutið. En hvað varðar leikinn þá hefur Liverpool ekki haldið hreinu á móti Chelsea í 14 leiki í röð. Ég man ekki hvort það var bara á Stamford Bridge eða líka á Anfield.

    Giroud skorar eitt eins og hann gerir oft á móti Liverpool en við skorum tvö og vinnum þetta naumlega.

  11. Lipur og skemmtilegur texti í upphituninni, gáfulegur í þokkabót, það fer ekki alltaf saman.
    Þetta verður mikil barátta og lukku láki gæti ráðið úrslitum.
    Hvort liðið verður á stönginni inn og hvort á stönginni út?
    Vonandi verðum við á nær en ekki fjær.

    Verðum að pressa hátt og keyra á miðverðina.

    Tvöfalda strax á Hazard og draga fót skjótt til baka þegar hann hendir sér niður svo það verði dómaranum ljóst að hann reynir að svindla.

    Ef þetta gengur eftir vinnum við 1-3, annars 1-2

    YNWA

  12. Hef engar áhyggjur af tapinu, það er þessi leikur sem skiptir máli og reikna með umbreitingu til hins betra. Reikna með sigri, hvernig hann verður skiptir ekki máli, né hverjir skori, vil þó sjá Salah fara að setja puskas mörk á ný þau koma liðinu og okkur í stemmingu.

    YNWA

  13. Virkilega erfitt og stórt prófverkefni framundan hjá Herr Jurgen Klopp.

  14. Liverpool team: Alisson, Alexander-Arnold, Van Dijk, Gomez, Robertson, Henderson, Wijnaldum, Milner, Mane, Salah, Firmino.
    Substitutes: Mignolet, Fabinho, Keita, Sturridge, Moreno, Shaqiri, Matip

  15. Ekki góðar breitingar á síðunni annars besta síða í heiminum, getum alveg hætt að hafa áhyggjur af mansteftir united móri er næst besti þjálfari í heiminum 🙂

Nýtt útlit á síðunni

Liðið gegn Chelsea er klárt!