Á sunnudaginn verður einn stærsti leikur tímabilsins leikinn á Anfield þegar núverandi meistarar, Manchester City, mæta til Liverpool en fyrir tímabilið var búist við að þetta yrðu liðin tvö sem myndu berjast um titilinn í ár og eftir sjö leiki eru þau jöfn á toppnum með nítján stig af tuttugu og einu mögulegu. Þegar þessum leik lýkur kemur landsleikjahlé og þessu gríðarlega erfiða leikjaprógrami sem okkur var úthlutað milli september og október landsleikjanna lokið. Eftir góða byrjun eftir síðasta hlé hefur aðeins fjarað undan velgengninni og eru nú komnir þrír leikir án sigurs hjá liðinu, meðal annars þessi afleiti leikur gegn Napoli í vikunni. Nú þarf liðið að sýna að það geti svarað þegar á móti blæs eftir að hafa verið að sækja sigra þrátt fyrir að vera ekki komnir á fullt skrið í byrjun tímabils.
Andstæðingurinn
Andstæðingurinn á sunnudaginn er þó alls ekki lúalegur en eftir góðan árangur á sjöunda áratugnum hrundi City liðið töluvert og eyddi næstu áratugum á flakki milli efstu tveggja deilda Englands með viðkomu í þriðju efstu deild í eitt ár. Þeir náðu svo loks að festa sig í sessi í efstu deild frá árinu 2002 svo eins og flestir sem þetta lesa vita breyttist allt 2008 þegar Abu Dhabi United Group keypti liðið, ári sienna voru þeir hársbreydd frá því að komast í meistaradeildina en þeir hafa ekki endað neðar en fjórða sæti síðan þá. Liverpool hefur þó haft ágætis tak á City frá því að Abu Dhabi keypti liðið en liðin hafa mæst 25 sinnum síðan þeir keyptu en City hefur aðeins unnið 5 af þeim viðureignum meðan Liverpool hefur unnið ellefu.
Manchester City er með valinn mann í hverri stöðu en eiga þó í smá vandræðum fyrir leikinn á sunnudaginn því vinstri bakvörður liðsins, Benjamin Mendy, hefur verið frá vegna meiðsla og Fabian Delph, sem hefur leyst stöðuna í fjarveru Mendy er einnig frá. Það er því líklegt að Aymeric Laporte færi sig úr miðverðinum yfir í bakvörðin líkt og í leiknum gegn Hoffenheim í vikunni. Hinn valkosturinn væri að Oleksandr Zinchenko spili, en hann gerði þaðgegn Brighton um síðustu helgi. Hann er þó töluvert sóknarsinnaðari og ólíklegt að Guardiola stilli honum upp gegn Mo Salah þrátt fyrir að sá síðarnefndi sé ekki í sínu besta formi. Á miðjunni eru Gundogan og De Bruyne tæpir, Gundogan meiddist lítillega í leiknum gegn Hoffenheim í vikunni en verður líklegast í leikmannahóp hinsvegar var ekki búist við De Bruyne fyrr en í byrjun nóvember en hann er þó byrjaður að æfa með liðinu. Leikurinn um helgina kemur þó líklega aðeins of snemma fyrir hann og býst ég ekki við að sjá hann í leikmannahópnum um helgina.
Aðeins minni spurning fyrir Guardiola fyrir þennan leik er Raheem Sterling. Sterling byggir leik sinn mikið á sjálfstrausti og þegar hann kemst í gír á hann yfirleitt nokkra stórkostlega leiki í röð og er í þannig formi eins og er. Hann hefur spilað sex deildarleiki í ár og komið að sex mörkum. Hinsvegar virðist hann eiga erfitt með að mæta Liverpool, sérstaklega á Anfield. Það er yfirleitt baulað mikið á hann og það virðist komast undir skinnið á honum því hann hefur ekki náð að sýna sitt rétt andlit gegn sínu gamla liði. Guardiola hefur á bekknum dýrasta leikmann í sögu City Riyad Mahrez en hann breytir þó dínamíkinni í sóknarlínunni töluvert. Mér þykir því líklegt að City stilli svona upp
Ederson
Walker – Otamendi – Kompany – Laporte
B.Silva – Fernandinho – D.Silva
Sterling – Aguero – Sane
Liverpool
Liverpool átti mjög slakan leik gegn Napoli í vikunni og það eru nokkrir leikmenn sem gætu átt skilið að setjast á bekkinn fyrir leikinn gegn City þó mér þyki ólíklegt að Klopp muni gera margar breytingar fyrir þennan leik. Daniel Sturridge og Xherdan Shaqiri hafa báðir komið vel inn í liðið þegar þeir hafa fengið tækifæri og mun allavega annar þeirra líklega spila hluta af þessum leik en þrátt fyrir núverandi form væri það risastór ákvörðun ef Klopp tæki annan þeirra inn fyrir einn af fremstu þremur. Því finnst mér líklegra að við sjáum hefbundna sóknarlínu en vona innilega að breytingar komi fyrr en í Napoli leiknum ef þetta er ekki að ganga. Einnig hefur Trent ekki verið sannfærandi í undanförnum leikjum og ég gæti trúað að ef við værum ekki að fara í einn stærsta leik tímabilsins myndi Nathaniel Clyne fá að spreyta sig. Geri hinsvegar ráð fyrir að Trent byrji og vonandi að hann verði með hugan við þessa viðureign en ekki mánudagsviðureignina þar sem hann mætir stórmeistaranum Magnus Carlsen í skák.
Miðsvæðið velur sig nánast sjálft. Naby Keita fór meiddur af velli í Napoli en gæti þó náð leiknum á sunnudaginn en þykir líklegt að hann verði á bekknum ef hann verður með yfirhöfuð. Fabinho hefur ekki fengið mikinn spiltíma og því ólíklegt að honum verði hennt í djúpu laugina í þessum leik. Líklegasta niðurstaðan er því Milner, Henderson og Wijnaldum sem er kannski ekki mest skapandi miðjan en áttu góðan leik saman gegn París og geta vonandi sýnt það sama gegn City.
TAA – Gomez – Van Dijk – Robertson
Wijnaldum – Henderson – Milner
Salah – Firmino – Mané
Spá
Ég spái mjög fjörugum leik, held að Liverpool komi mjög grimmir til leiks eftir frammistöðuna gegn Napoli og vilji sýna að það hafi verið “one off” og komist yfir snemma leiks ætla að spá 3-2 Liverpool í vil. 2-0 í hálfleik en City verði svo mun betri aðilinn í seinni hálfleik þegar fer að draga af okkar mönnum eftir kraftmikinn fyrri hálfleik en náum að galdra fram eitt mark sem tryggir leikinn. Skýt á mörk frá Firmino, Van Dijk og Milner setji eitt gegn sínum gömlu félögum.
Takk fyrir þessa upphitun. Andstæðingurinn vissulega í sterkara lagi og ætti því ekki að vera neitt vanmat í gangi. Mér finnst einhvernveginn að okkar góða lið hafi verið að spara sig í siðustu leikjum en törnin mikla hefur bara alls ekki verið góð til þessa. Ef menn hafa verið að spara sig ætti að vera næg orka í MC leikinn. Annars er liðið á verri stað en vonir standa til. Ekki nóg breidd, menn ekki í formi eða andleysi. Vonandi er ekkert af þessu í gangi og liðið rífur sig af stað aftur. 1-0 sannfærir mig ekki alveg um að allt sé í lagi frekar tveggja til þriggja marka öruggur sigur og fullt af færum. Trúi ekki öðru enn að Shagiri og Sturrigde fái fleiri mínútur en undanfarið annars er ekki hægt að túlka það öðruvísi en að Klopp treysti þeim bara alls ekki nógu vel. Kemur allt í ljós.
Þetta er fótboltaveisla og ekkert annað.
Eftir að hafa horft á alla Man City leikina í vetur þá verð ég að viðurkenna það að þeir eru með aðeins meiri gæði en við og þá sérstaklega á miðsvæðinu. Þeir eru oft að skapa fleiri færi en við og opna varnir betur en á móti þá finnst mér varnarleikur Liverpool vera traustari og við gefum færri færi á okkur gegn lakari liðum.
Þetta er ekki flókinn leikinn og til þess að vinna Man City þá þurfum við að halda okkur við hápressuna okkar og ná að stopa þeira hraða spila. Þeir munu færa liðið sitt framar en flestir okkar andstæðingar á Anfield og gæti það verið draumur fyrir Salah/Mane að stíga sér í gegn.
Varnarlegar þá er þetta spurning um að reyna að loka á svæðið milli miðvarðar og bakvarðar en einhver tölfræði sýndi að á því svæði eru City menn klókastir að opna varnir.
Það er ekki hægt að segja að tímabilið sé undir í þessum eina leik en djöfull væri gott að skapa smá bil á milli okkar sem gefur okkur tækifæri að klúðra leik án þess að detta af toppnum.
Spáum 2-2 þvílíkum leik þar sem Salah kemur sér í gang með tveimur mörkum.
Ég er mjög svo sammála hþ varðandi Shaqiri og Sturridge. Ég vil sjá mun meira af þeim. Klopp verður að vera duglegri að rótera liðinu og skiptingar verða að eiga sér stað fyrr í leikjum. Milner hefur virkað dauðþreyttur í síðustu leikjum og Salah verður að hrökkva sem fyrst í gang eða þá bara að fá einhverja hvíld frá leikjum. Man City er ekki árennilegt lið og töpuð stig gegn þeim á heimavelli myndi vera afleit niðurstaða.
Shaqiri spái ég að verði settur í liðið í stað Salah sem verður á bekknum og Sturridge fær 30 mínútur að þessu sinni. Liverpool vinnur síðan með tveggja marka mun.
Sælir félagar
Þessi leikur verður einn ad hápunktum leiktíðarinnar. Klopp veit hvernig á að vinna City og hann veit líka hvernig er að tapa fyrir þeim. Upplegg beggja liða verður að vinna leikinn og það býður uppá taumlausa skemmtun. Ég vona að sigurinn falli okkar meginn þó ég viðurkenni að tap fyrir þessu liði hans Guardiola er hvorki skömm né heimsendir. Þetta er eitt besta fótboltalið í heimi og þó Klopp hafi bætt Liverpool liðið verulega er City að flestra dómi betra lið. En liðið okkar hefir verið að nálgast þá ískyggilega í gæðum. Vonandi nægir það og heimavöllurinn til sigurs. Spái því 2 – 1
Það er nú þannig
YNWA
Sigur í þessum leik myndi setja okkur í ansi góða stöðu og rífa menn upp í sjálfstrausti sem virðist hafa fengið smá skell undanfarið.
Salah, Mane og Firmino einfaldlega verða að rífa sig í gang og draga liðið áfram, ég vona að Klopp meti það rétt hvort að Milner sé í raun svona þreyttur eins og hann lýtur út fyrir að vera og ef svo er þá verður einfaldlega að setja Fabinho í staðinn.
Jafntefli í þessum leik væri ekki slæm niðurstaða en tap væri stór skellur.
Spái mínum mönnum tæpum sigri með marki frá Sturridge í lokin.
Laporte var út á túni í vinstri bakverðinum í síðasta leik. Mendy er í agaveseni og síðan eru þeir með Zaichenko á bekknum. Vinstri bakvarðastaðan hjá þeim er ekki sú traustasta í augnablikinu.
Sæl og blessuð.
Nú er rétti tíminn til að kveðja hægaganginn og kynda á öllum kötlum í vélarrúminu. Það er mikil blessun hvað tekist hefur að innbyrða af stigum það sem af er á haustvertíðinni og nú þarf að setja í þann stóra. Ég játa, að ég er langt frá því bjartsýnn. Þeir fölbláu eru ægilegir viðureignar og því miður höfum við ekki enn séð okkar hóp spila eins og hann á að sér að gera.
Mér fyndist það eðlilegt að spila þeim Sturridge og Shaq í byrjun. Gefa þeim Mané og Salah smá hungurverki á bekknum áður en þeim er sleppt lausum á beitilöndin grænu. Spurning hvernig ástandið á Keita, karlinum er. Þetta ætti að vera leikur þar sem hann fengi að ólmast fyrir framan teig andstæðinganna og halda þeim á hælunum. Til þess var hann nú keyptur.
Jamm… við þurfum alla strokka í gang ef útkoman á að verða góð.
kvLS
ps. Sáuð þið markið hjá Gylfaginningunni? mmmmama…
Jæja strákar nú er það alvaran áfram. Búið að fá smá nasaþef af verulega góðum andstæðingum og niðurstaðan því miður ekki góð, 1 stig í þremur leikjum. En hvað um það, þeir leikir að baki og keppnirnar færri framundan. Nú er bara að girða sig í brók og ná upp ákafanum sem var svo áberandi í byrjun tímabils. Ætli slæmi kaflinn í vetur sé ekki bara búinn? Klopp veit vonandi hvað hann er að gera. Hvernig stillir hann upp. Vörnin á sínum stað sem hefur að vísu lekið örlítið upp á síðkastið. Miðjan, hum, hum, hún var ekki með í síðasta leik og Milner virkar örþreyttir. Hlutirnir breytast mjög hratt, allt í einu er það miðjan sem maður hefur mestar áhyggjur af. Keita hálfmeiddur, Brassinn ekki klár, Uxinn meiddur, Lallana bara lala, Henderson mætti vera ákafari framávið og Milner þreyttur. Sóknin, ja sóknin nú hrekkur hún í gang á ný. Og svo það verður að nota verulega hungraða Sturrigde og Shagiri í þessum leik nokkuð mikið.
Þessi leikur er vatnaskil.
Spái 2-1. Ég er með 10 pund. Vill einhver veðja?
Liverpool aðdáendur. Ekki þessa neikvæðni ! Liverpool er eina liðið í deildinni sem getur auðveldlega unnið City. Það veit Gardiola og hann er skíthræddur. Neikvæðni er skaðleg og að halda það að allur vindur sé úr liðinu þrátt fyrir mótlæti að undanförnu er ekki gott veganesti í leikinn fyrir okkur aðdáendur. Við verðum að hafa trú á þeim. Ég er sannfærður um að liðið gefur allt í leikinn og þeir vinna. Er að leggja af stað út á völl með fjölskyldu minni. Miklar umferðartafir út af heimsókn “The Giants” til Liverpool þessa helgi sem hefur fyllt miðbæinn og hafnarsvæðið af fólki frá morgni til kvölds (risa strengjabrúður sem aka um götur borgarinnar á bílum). .
Takk fyrir upphitunina.
Þessi leikur mun skera úr um hvort Liverpool kemur vel út úr þessari 7 leikja hrinu eða ekki. Ef Liverpool vinnur ekki leikinn þýðir það 4. leikurinn í röð án sigurs, sem á ekki að gerast ef við ætlum að vera eitt af sterkustu liðum Evrópu. Nú þarf sóknarlínan að setja í næsta gír, 2 mörk í síðustu 3 leikjum er ekki nægilega gott. Þetta tímabil hefur farið frábærlega af stað, en það þýðir ekki að það sé í lagi að slaka á núna, virkilega mikilvægt að halda áfram á sigurbrautinni og fá aðeins ego-boost með sigri í dag.
Eitt er öruggt.
Þetta verður frábær fótboltaleikur.
Anfield verður í topp formi.
Líkurnar eru okkar megin en ekkert má út af bregða.
Byrjaður að naga neglurnar.
YNWA
Shit hvað ég get ekki beðið eftir þessum leik.
Arsenal og Chelsea að gera sína vinnu í dag.
Fyrir LEIKINN skilja tvö stig Chelsea i efsta sæti og Tottenham í fimmta sæti.
Liðin í fimm efstu skera sig soldið úr. Ennþá mikilvægari leikur fyrir vikið.
Ég er spenntur og smeykur þar sem Man City eru ógnarsterkir.
Ég vona eftir sigri, alveg sama hvernig spilamennsku okkar menn sýna.
YNWA
P.s klukkan í athugasemdum er eitthvað hress. Mín athugasemd kemur eins og hún hafi verið sett inn fyrir 2 tímum þegar 2 mínútur er nærri lagi.