Hugleiðingar um Kuyt, Cavalieri og Barbie

Í kjölfar smá umræðu fyrir ekki svo löngu sem skapaðist á síðunni um varnarleik Liverpool þá langar mig aðeins að ræða getu liðsins framar á vellinum.
Það voru vægast sagt skiptar skoðanir á síðasta tímabili þegar kom að ræða sóknarleik liðsins.
Í byrjun árs 2008 var ég orðinn verulega pirraður á getuleysi liðsins fram á við og hvað kantmenn okkar voru að spila eins og bakverðir og bakverðirnir líktust helst hornfánum. Janúar var erfiður vægast sagt. Þetta var í einu orði sagt viðbjóður oft á tíðum og það var einn maður sem ég hafði lítið sem ekkert álit á, á þessum tímapunkti. Hann skilaði varnarhlutverkinu vel og það voru fáir vinstri bakverðir að taka þátt í sóknum andstæðinganna, en fram á við virtist hann geldur (jafnvel kynfæralaus). Ég er auðvitað að tala um Dirk Kuyt og lægð hans á síðasta tímabili sem hann svo reif sig heldur betur upp úr í lok þess.
Það stóð ekki steinn yfir steini hjá Kuyt framan af tímabili og einfaldir hlutir eins og móttökur og stuttar sendingar klúðruðust. Menn voru strax í janúar glugganum farnir að orða hann við önnur félög og vildu hann burt. En þegar lítið lifði af tímabilinu þá vaknaði nýr Dirk Kuyt um morguninn að heimili sínu í Liverpool. Varnarleikur hans breyttist svo sem ekkert mikið, hann var jafn duglegur og skilaði varnarhlutverki sínu frábærlega, en sóknarleikur hans tók algjörum stakkaskiptum. Hann fór að skora mörk og leggja upp líka og var einn besti maður liðsins í Meistaradeildinni. Hann átti hvern stórleikinn af fætur öðrum og allt í einu var maðurinn sem maður þoldi ekki orðinn einn af uppáhöldunum. Hann virtist vera miklu ferskari, með meiri yfirsýn á sóknarleikinn og einbeitingin var orðin meiri og betri. Eftir góðan endi á misgóðu tímabili Kuyt þá var hann valinn í hollenska landsliðið fyrir EM og þar lék hann mjög vel að mínu mati og hélt uppteknum hætti þar sem frá var horfið úr enska boltanum.

Persónulega þá er ég á þeirri skoðun að Kuyt eigi að vera á hægri kantinum í vetur. Það er lítið pláss fyrir hann í framlínuna á meðan að Torres er einn á toppnum. Svo finnst mér Kuyt vera miklu meiri kantmaður heldur en framlínumaður, ég held að það sé vegna þess hversu duglegur hann er. Varnarvinna hans og dugnaður nýtist mun betur á kantinum heldur en á toppnum. En hann er fyrsta val að mínu mati á hægri kantinn eins og staðan er í dag. Ef hann heldur áfram á þeirri braut sem hann er á þá er þetta sennilega duglegasti kantmaður deildarinnar og í leiðinni marksækinn og frískur fram á við.

Svo langar mig að fjalla aðeins um stöðu tveggja manna í liðinu. Annar er nýr en hinn olli töluverðum vonbrigðum í fyrra eftir ágætis byrjun. Hér á ég að sjálfsögðu við Diego Cavalieri og Barbie.

Ég þarf svo sem ekkert að fjölyrða frekar um stöðu Diego Cavalieri. Hann er að etja að kappi við einn albesta markmann heims og besta markmann síðustu tvö tímabil í enska boltanum að mínu mati. Við gerum okkur flest grein fyrir því að Cavalieri er einungis að fara að spila bikarleiki og ef Reina meiðist eða fær bann mun hann væntanlega fá að spila í öðrum keppnum. Þrátt fyrir að hafa lítið séð til brasilíska markvarðarins þá tel ég hann vera öflugri leikmann heldur en Charles Itandje sem virkaði óöruggur, klaufskur og ósparkviss í fyrra. Þrátt fyrir að Cavalieri sé ekki að fara að henda Reina út úr byrjunarliðinu þá er Reina að fá öflugri varamarkmann heldur en í fyrra og það eflir hann tvímælalaust. Samkeppni af slíku tagi ætti að vera öllum aðilum til hagnaðar sem eru innanbúðarmenn í Liverpool liðinu og Rafa gerði góð kaup þarna að mínu mati.

Svo ef við snúum okkur að Barbie, a.k.a. Andriy Voronin. Er einhver Liverpool aðdáandi hrifinn af leikstíl og knattspyrnulegri getu Úkraínumannsins? Þrátt fyrir að hann hafi komið fríkeypis síðasta sumar þá er ég bara sorglega langt frá því að vera sáttur við hans framlag síðasta vetur. Voronin virtist ætla að blómstra eftir fína byrjun á síðasta tímabili, skoraði nokkur mörk og spilaði þokkalega. Ég svo sem var ekkert að missa legvatnið yfir frammistöðu kappans en ég ákvað að sýna honum þolinmæði og átti von á stíganda í leik hans á meðan hann aðlagaðist. En annað kom heldur betur á daginn. Undirbúningur hans fyrir leiki liðsins snérist líklega frekar um hvernig hárteygju hann ætti að nota heldur en hugafarslegan undirbúning því Voronin var oftar en ekki upp í stúku að horfa á leikina og komst ekki í hóp. Hann hvarf úr liðinu og var lítið sem ekkert notaður. Þegar maður sér menn spila knattspyrnu sér maður fljótlega hvort þeir kunni eitthvað fyrir sér í íþróttinni eða ekki. Að mínu mati er Voronin ágætis leikmaður, en ekki í lið eins og Liverpool, hann á ekki heima í svo góðu liði. Af hverju ætti Rafa að nota hann á bekkinn sem næsta mann á eftir Torres í stað Daniel Pacheco t.d.? Pacheco er vissulega ungur en ég vona að Rafa eigi eftir að gefa honum sénsinn í stað Voronin, ég tel það mun betri kost. Strákurinn hefur verið að brillera í fyrstu æfingaleikjunum og verið maður leiksins í bæði skiptin að mati opinberu heimasíðunnar.

Mitt mat: Selja Voronin og nota ungu strákana Pacheco eða Nemeth. En það gæti vel verið að Rafa kaupi svo framherja á næstu dögum og þá tel ég Voronin endanlega gagnslausan fyrir Liverpool.

Orðið er ykkar.

21 Comments

  1. Ég er innilega sammála þér með það þrot sem liðið var komið í síðasta vetur. Það sem vantar í þessa annars fínu greiningu er það sem Kuyt gefur liðinu sóknarlega. Það er stórfurðulegt í fótbolta almennt að yfirleitt eru þeir sem eru flinkir og naskir með boltann húðlatir og nenna ekki að verjast. Auðvitað eru til undantekningar eins og við höfum í okkar liði, t.d. Torres og Gerrard. En meðan við finnum ekki leikmann sem hefur dugnað og klókindi Kuyt í varnarleiknum, þá verður hann í liðinu. Hann skapar okkur fjöldann allan af sóknum og færum með skynsamlegri og mjög öflugri pressuvörn.
    Nú keppast menn við að benda á hina og þessa leikmenn sem gætu verið frábærir á hægri kantinum í 4-3-3 en ég minni menn á það að sá maður þarf að vera fjandanum duglegri auk þess að vera öflugri sóknarmaður en Kuyt. Ég er efins um að Rafa sé að hugsa um að bæta við sig í þessari stöðu.

  2. sma draumur, TD Silva vinstra kantinu, kuyt haegri, gerrard og aguero a bakvid torres ad mata hann, torres a toppnum ad skora endalaust og masch ad passa aftarlegu midjuna :D. EN eg vaeri til i ad sja sergio ramos eda eihva tannig i haegri bakverdi. BARRY? kannski :), turfum ekkert endilega david villa

  3. Ég hef alltaf átt erfitt með að mynda mér skoðun um Voronin. Var búinn að afskrifa hann 100% þangað til um daginn (vitni um stutt minni) þegar ég settist niður og horfði á Rafa í Season Review og áttaði mig á því að Voronin var að spila fantavel í byrjun leiktíðar. Þá sérstaklega í meistaradeildinni sem second striker. Vandamálið er bara að Gerrard og Kuyt eru betri til þess að taka það hlutverk.
    Hinsvegar er ég alveg sammála þér um að fara að nota ungu strákana í staðinn fyrir austur-evrópska álið.

  4. Flottar hugleiðingar Olli og ég er hjartanlega sammála þér varðandi Kuyt. Hins vegar er ég á því að við ættum að sýna Voronin þolinmæði. Við verðum að hafa eldri og reyndari leikmenn til staðar ef við lendum í meiðslum sem og hann getur gefið mikið af sér til yngri leikmanna. Ég veit ekkert hvernig karakter Voronin hefur að geyma og það er klárt mál að útlitið getur blekkt mann 🙂 en ég treysti ákvörðun Rafa og held að Nemeth/Pacheco eigi að fá frítt spil í eitt tímabil í viðbót í varaliðinu.

  5. Góð grein. Persónulega er ég alveg sammála þér með Kuyt og væntanlega aðrir líka því þetta er hvað gerðist. Hann var bara útað skíta fyrir jól og endurfæddist í Liverpool borg um janúar. Hann spilaði mjög vel á EM og allir almennir fótboltastuðningsmenn tóku virkilega eftir því hversu duglegur hann er og að hann er að þróast í mjög góðan knattspyrnumann.

    Ég verð hins vegar að taka undir með þér líka með Nemeth og Pacheco. Væri til í að sjá Barbie fara þar sem hann hefur ekki heillað mig. Virtist sprækur í gær en svo líka virðist sem Robbie Keane sé nálægur og þá færist Voronin enn aftar í goggunarröðina.
    Væri alveg til í að sjá hann fara og frekar að leyfa Rafa að gefa þeim ungu séns.

    Síðan sá ég tvö frábær mörk sem Adam Hammill átti með varaliðinu um helgina í 3-1 sigri á Southport. Miðað við hvernig þessi mörk voru þá gæti þetta verið enn einn unglingurinn sem Rafa gæti gefið séns en þau voru sérstaklega flott.

  6. Eitt af því sem ekki á að gleymast er að í vetur verða 7 leikmenn á varamannabekknum í leikjum. Ég er alveg sannfærður að það mun verða til þess að við sjáum fleiri unglinga fá sénsinn.
    Ég aftur á móti styð þá hugsun Benitez að leyfa ungum mönnum að fara og spila frekar en að sitja á bekknum. Reyndar sýnist manni að Pacheco sé nærri því nógu góður til að fá fullt af mínútum og Nemeth leit virkilega vel út með varaliðinu í fyrra. Hins vegar er róðurinn þeim erfiður að fá leiki með Torres í liðinu og vonlaus fyrir þá báða.
    Voronin leit afar illa út í fyrra, en mér fannst hann reyndar byrja ágætlega. Muniði Toulouse úti? Eins og virðist vera í æfingaleikjunum núna. Ef við erum að fá Keane er ljóst að Andriy karlinn er aftur á móti óþarfur og ætti að fara…..
    Dirk Kuyt er afar ákveðinn í að standa sig, fékk t.d. í gegn að spila nokkrar mínútur í gær á fyrsta degi sínum á æfingum! Lék mjög vel sína kantsenterstöðu með Hollandi og verður örugglega mikið í liðinu í vetur! Mér fannst Leto líka sprækur í gær og gaman verður að sjá hvort hann sýnir eitthvað í næstu leikjum. Rafa afar spenntur fyrir honum……
    Gaman að þetta er byrjað aftur maður minn lifandi!!!!

  7. Ekki að ég vilji vera með leiðindi þá hljómar þetta smá eins og copy/paste frá úmræðu síðasta tímabils.

    Ég allavega nenni ekki að ræða Kuyt einu sinni enn

    Varðandi markvörðinn þá virkaði hann frekar villtur í gær en það er ekki hægt að dæma kallgreyið út frá þessum fyrstu leikjum hans enda ennþá að kynnast vörninni. Held að þetta sé keppnis markvörður alveg, en á ekki glætu í Reina.

    Með Voronin þá vil ég nú frekar hafa hann í hópnum heldur en að treysta á kjúllana tvo. Það býr augljóslega gríðarlega mikið í þessum Pacheco en ég efa að hann fái neitt yfirgengilega margar mínútur í vetur. Voronin er alls ekki alveg vonlaus en hann þyrfti að ná tímabili án meiðsla. Ef það tekst held ég að það sleppi alveg að hafa hann þarna sem þriðja (eða fjórða) kost enda höfum við eiginlega bara einn sóknarmann í okkar leikkerfi.
    Mind you, þegar ég segi að það sé í lagi að hafa Voronin áfram þá er ég klárlega að miða við að það sé annar sóknarmaður að koma (Keane eða einhver).

  8. Ég sé lítinn tilgang í að selja Voronin. Við fáum sennilega ekki háa upphæð fyrir hann og hann gæti vel reynst ágætlega af bekknum.

    Ég vil hins vegar ekki að hann haldi algjörlega þessum ungu strákum fyrir utan liðið. Við vitum öll að geta Voronin er takmörkuð, en hann skoraði þó nokkur mörk á síðasta tímabili, og kom með ákveðna vídd inní sóknarleikinn þrátt fyrir að hann hefði horfið á öðrum tímum. Pacheco og Nemeth gætu hins vegar hugsanlega orðið verulega góðir framherjar og því er maður miklu spenntari fyrir að sjá þá spreyta sig.

  9. eigum við ekki að gefa Voronin eitt season í viðbót hann kom nú á free transfer og er ágætis squad player var ágætur í fyrra þar til hann meidddis á ökla og var frá í 3 mán og átti lítin séns í liðið þá en strákar það er allt annað að spila einhverja pre season leiki eða spila í urvalsdeildinni en vissulega eru þeir svaka efni Pacheco og Nemeth og fá vonandi einhverja leiki voandi í League Cup en það er smá tími í þá ennþá

  10. Það er gífurlega mikilvægt að menn fái sénsinn um leið og þeir eru tilbúnir óháð því hversu menn eru gamlir. Sumir strákar eru bara einfaldlega orðnir það þroskaðir knattspyrnumenn rétt um 17, 18 ára. Ég held t.d. að Rooney væri nú ekkert á þeim stað sem hann er núna ef það væru alltaf einhverjir miðlungsleikmenn á þrítugsaldrinum að bola honum út úr hóp þegar hann var hjá Everton. Rooney var einfaldlega bara orðinn það þroskaður leikmaður 17 eða 18 ára þó það hafi að sjálfsögðu vantað eitthvað upp á reynsluna hjá honum, en hann varð að fá sénsinn svona snemma og nýtti hann.

    Alveg eins með Torres hann væri ekki orðinn svona reynslumikill aðeins 24 ára ef hann hefði ekki fengið sénsinn snemma. Það er mikilvægt að þessir ungu strákar fari að afla sér reynslu á meðal þeirra bestu snemma. Ef menn hafa talent og styrk til þess að spila. Inná með þá !

  11. Vá hvað mér finnst menn vera að ofmeta Kuyt hérna enn og aftur. Var ömurlegur talsvert fram yfir áramót í fyrra en vaknaði síðan upp og var fínn eftir það….ekkert frábær, bara fín. Fyrir 9m punda er það bara sjálfsögð krafa að menn séu í það allra minnsta fínir. Sama með EM í sumar, hann var fínn þar, ekkert meira. Það var ástæða fyrir því að hann var alltaf tekinn fyrstur útaf hjá van Basten og ástæðan er ekki sökum þess hve frábær hann var í leikjunum.

    Ég er þó alveg á því að halda Kuyt, hann gefur okkur fína möguleika, sérstaklega á móti stórum liðum þar sem við þurfum að verjast, en vá hvað við þurfum lífsnauðsynlega á betri manni að halda í þessa stöðu ef við ætlum okkur einhverjar rósir í vetur. Eins og staðan er núna finnst mér David Silva eini maðurinn sem einhver smá von er að fá þarna á kantinn en vonandi kaupir Rafa eitthvað…

    …ekki nema Keane eigi að taka stöðuna hans Gerrard og Gerrard fer í stöðuna hans Kuyt. Allavega, eitthvað þarf að gerast því við gerum aldrei miklar rósir með Dirk Kuyt sem fyrsta valkost í byrjunarliðinu.

    Ég er einnig ennþá að bíða eftir stórum kaupum í sumar. Ég vil ennþá fá tvo alvöru leikmenn fyrir utan Barry(ef hann þá kemur). Okkur vantar kantmann eins og ég sagði áðan og svo annan framherja. Robbie Keane og David Silva og þá er ég mjög sáttur. Ég hefði reyndar helst af öllu viljað fá Ronaldinho, en hann er víst kominn til AC Milan. Maðurinn er með frábært jafnvægi á fótunum, það besta síðan Maradona var og hét þori ég að fullyrða. Þó hann hafi átt lélegt tímabil í fyrra meiga menn ekki gleyma því að hann var sá besti í heimi einhver 3 tímabil á undan því og menn missa ekkert svona hæfileika einn tveir og þrír. Hvernig ætli treyju- og varningarsala myndi vera ef hann kæmi? Ég heyrði einhverstaðar að djammið hefði tekið sinn toll hjá honum en það yrði nú ekki vandamál í Liverpool, enda ekkert fancy djammlíf þar…það erum bara við almúginn sem getum djammað þar og hefur maður nú látið reyna á það þónokkuð oft 🙂

    Allavega, ég bíð ennþá eftir stórum kaupum hjá okkur þetta sumarið og vona svo innilega að þau komi svo við getum verið samkeppnishæfir í vetur.

  12. Ég sé lítinn tilgang í að halda voronin hjá klúbbnum í eitt tímabil í viðbót. Hann er ekki byrjunarliðsmaður, verður ekki einu sinni fyrsti varamaður ef Keane kemur og þá vil ég frekar gefa Pacheco/Nemeth sénsinn í þeim örfáu leikjum sem við erum að nota þriðja varamanninn heldur en að gefa voronin einhverjar mínútur. Þar fyrir utan er hann svo að taka eitt útlendingapláss í meistaradeildarhópnum sem þarf að losa ef við ætlum að ná okkur í einhvern prýðilegan kantmann.

    Benitez hefur áður sýnt að hann er miskunarlaus gagnvart þeim sem ekki standa sig og er ekkert að gefa þeim fleiri sénsa en hann telur þörf (Josemi, Kromkamp, Gonzales, Nunez og Morientes svona til að nefna einhverja) og ég sé ekki afhverju hann ætti að vera eitthvað vægari við Voronin. Fjölmiðlar hafa þó ekki verið neitt ýkja duglegir við að orða hann við brottför svo flest bendir sennilega til að hann fái allavega hálft ár í viðbót hjá liðinu, ég verð þó mjög hissa ef hann verður ennþá á launaskrá liðsins tímabilið 2009-2010.

  13. Voronin gerir ekkert hjá okkur nema hirða launin sín sem væri betur varið í einhvern annan. Menn gleyma því að Kuyt átti í miklum persónulegum hermmingum á síðasta tímabili þegar hann missti föður sinn og að sjálfsögðu hefur það haft mikil áhrif á leik hans. Og það að kaupa Brasilískan markvörð á 4 kúlur er harmleikur. Brassar aldrei átt frambærilega markverði.

  14. ég er alveg til í að gefa kuyt séns, menn gleyma að hann setti 14 kvikindi á fyrsta seasoninu, og annað getur oft verið erfiðara, plús því að hann missti pabba sinn sem hefur tekið sinn toll á hann. kláraði tímabilið frábærlega, og átti mjög fínt em. leikmaður sem er algjörlega verðugur “squad” player einsog það kallast, og fínn á hægri sóknarkantinn ef rafa spilar áfram 4-3-3

  15. Hef alltaf verið talsmaður þess að gefa ungum leikmönnum tækifæri, ekki síst á kostnað manna eins og Voronin. Vil frekar gefa þessum strákum tækifæri og eitthvað hlýtur það að telja sá frábæri árangur sem varaliðið náði á sl. tímabili. Þurfum við t.d. svona squad-player eins og Voronin ef við fáum 2 öfluga í viðbót sem styrkja byrjunarliðið? Vil þá frekar koma kjúllunum á bekkinn. Væri t.a.m. flott ef Leto kæmi til þar sem hann er í vinstrikant stöðunni – hann var ekkert að standa undir væntingum í byrjun þessa fáu leiki sem hann fékk fyrir vandræðin með atvinnuleyfið.
    Hef sagt það áður og segi það enn að það mætti taka Wenger til fyrirmyndar hvað þetta varðar, þ.e. að setja inn unga og efnilega og treysta þeim. Vona að þeir fái tækifæri í vetur til að sanna sig. Sýnist ég því bara vera sammála öllum hérna með þetta.
    Svo var mér hugsað til Pennant í Kyut umræðunni. Höfum þar hreinræktaðan hægri kant, sem mér fannst nú bara standa sig vel þegar hann spilaði – var t.d. öflugur í byrjun tímabils. Menn að orða hann við landsliðsstöðuna og læti. Held a.m.k. að hann sé öflugri í fyrirgjöfunum en Kuyt en spurning hvort það sé nóg.

  16. Veit einhver, en var t.d. Sissoko ekki bara um 18 ára þegar hann komst í liðiðhjá Valencia?

    Ég gæti alveg trúað að Rafa treysti kjúllum til að spila og hann hefur reynt að gefa ungum mönnum séns, vandamálið hefur bara verið að þeir hafa alls ekki verið nógu góðir, skiljanlega auðvitað enda ekkert grín að komast inn í liðið hjá Liverpool, ekki frekar en öðrum topp liðum. Það hefur margoft tekið Wenger tíma til að gera þessa kjúlla góða en hann má auðvitað eiga það að þeir eru fjandi góðir hjá honum.

    En á móti kemur þá var hann bara ekkert fljótari að þessu hjá Arsenal en Rafa er hjá okkur, þ.e. fyrstu árin hans hjá Arsenal var hann ekkert bara með einhver börn í liðinu, hann lagði áherslu á að kaupa mjög efnilega leikmenn sem hann síðan slípaði til og gerði (marga) frábæra.
    Rafa hefur undanfarið verið að kaupa hraustlega af svona mjög efnilegum kjúllum sem vonandi fara að brjóta sér leið inn í aðalliðið. Það er allavega langt síðan ég sá eins mikið efni og maður sér í þessum Pacheco, þó hann eigi ennþá langt í land. Reglan um 7 varamenn gæti verið crucial hvað þetta varðar.

    Og varðandi t.d. Torres og Rooney þá fengu þeir sénsinn svona ungir vegna þess að þeir voru í Everton (sem var að ströggla ef ég man rétt) og A.Madríd, sem var í annari deild á Spáni. Það er ekkert víst að þeir hefðu fengið sénsinn svona ungir í topp 4 klúbb á Englandi í dag. Þetta er einmitt ástæaðan fyrir því að sumir velja að fara í minna lið til að byrja með og ná sér í reynslu. Einnig voru Rooney og Torres óvenju góð dæmi, strax sem börn.

    Þetta virðist allt vera á ágætri leið hjá Rafa og titlar hjá unglinga og varaliðum eru akkurat engin tilviljun. Næsta skref er að skila nokkurm kvikindum upp í aðalliðshópinn, slíkt getur tekið 1-3 ár.

  17. pennant er ekki næginlega góður fyrir liverpool, engan vegin nógu stabíll leikmaður, á einn frábæran leik og svo 5 slappa. en já varðandi það með að hleypa mönnum af stað í aðallið, þá hafa brassar nú t.d biðlað til ac með að vera ekki að leggja endalausa pressu á pato strax, rooney var auðvitað naut að burðum ungur og átti þarafleiðandi í minna veseni með að aðlagast, en flest lið gefa mönnum í dag lengri tíma áður en það er byrjað að skella þeim beint í aðalliðið

  18. Sælir félagar
    Gaman að umræðan er að komast í gang og vætingar komandi leiktíðar að rísa. Vil minna Bennajón á Zidan þegar hann talar um Ronaldino sem mesta jafnvægissnilling síðan Maradona var á dögum.

    Að mínu viti þurfum við mann eins og Robbie Keane til að vera til staðar bæði ef Torres meiðist (sem guð láti aldrei gerast) og eins í afleysingar og til hvíldar Torres ef til vill.

    Pennant má fara með Voronin hvert sem er mín vegna ásamt Fabio Aurelio. En það munu vera menn 🙂 sem ekki eru mér sammála um Fabio kallinn.

    Mér sýnist að RB sé búinn að gefa Barry upp á bátin amk. ætlar hann ekki að láta teyma sig lengra en orðið er í því máli. Og þar er ég sammála honum. Barry væri góður liðsmaður en stjórinn hans er að teygja of mikið á virði hans og því hætt við að sú teygjan slitni.

    Ég er sammála mönnum um að reyna að gefa kjúklingunum tækifæri eins og hægt er, miðað við stöðu og viðfangsefni liðsins á hverjum tíma. Það er gaman að efnilegum leikmönnum og það þarf að gefa þeim færi á að vaxa og þroskast í verkefnum sínum.

    Það er nú þannig

    YNWA

  19. aurelio er ágætur varamaður, það er must að eiga 2 menn í flestar stöður í vörninni… fínt að hafa valmöguleikann á aurelio/dossena í left back og arbeola/degan í hægri

  20. það eru misvísandi fréttir af verðinu á brassanum en 2 kúlur samt of mikið

Leikur gegn Lucerne í kvöld

Sigur í gær og fimmtudagsslúður.