Watford – Liverpool: upphitun + leikþráður

UPPFÆRT: liðið klárt

Ágiskunin frá því fyrr í morgun var ekkert svo fjarri lagi. Wijnaldum er þó á miðjunni í stað Fabinho:

Alisson

Trent – Lovren – Virgil – Robertson

Henderson – Wijnaldum

Shaqiri – Firmino – Mané
Salah

Bekkur: Mignolet, Matip, Clyne, Milner, Fabinho, Keita, Sturridge

Líklega var þó pælingin að láta Gomez spila, en hann fékk högg á hné á æfingu. Það á víst ekki að vera neitt alvarlegt.

Vonum bara að menn gefi ekkert eftir og sæki 3 stig.

KOMA SVO!


Nei, titillinn er ekki stærðfræðileg jafna, heldur verður þetta innlegg sameiginleg upphitun og byrjunarliðsþráður. Færslan verður uppfærð kl. 14 þegar liðið verður tilkynnt.

Okkar menn eru væntanlega komnir suðureftir, og munu spila við Watford kl. 15 á Wicarage Road, heimavelli þeirra. Þessi völlur hefur í seinni tíð alls ekki verið nein sérstök matarhola fyrir okkar menn, í þrem síðustu leikjum hafa liðin skipt stigunum bróðurlega á milli sín með einu jafntefli og einum sigri hjá hvoru liði. Skemmst er að minnast sigursins frá 2016-2017 þegar Emre Can skoraði eitt fallegasta mark leiktíðarinnar eftir stoðsendingu frá Lucas. Síðast þegar þessi lið mættust á heimavelli Watford var það í opnunarleik tímabilsins í fyrra, þar sem heimamenn náðu að jafna á lokamínútunum með rangstöðumarki og sá leikur fór 3-3. Við skulum svo ekkert vera að rifja upp 0-3 tapið í desember 2015, skömmu eftir að Klopp var tekinn við og var enn að læra inn á liðið sitt.

Það má reikna með alveg drulluerfiðum leik á eftir. Watford hafa staðið sig með ágætum í deildinni í vetur, eru í 7. sæti fyrir ofan lið eins og United og Everton, og unnu t.d. Spurs 2-1 í byrjun september. Í síðustu leikjum hafa þeir aðeins verið að hiksta, gerðu jafntefli við Saints í síðasta leik og töpuðu fyrir Rafa í leiknum þar á undan. Þetta er því lið sem er alveg hægt að ná úrslitum á móti, en það verður örugglega enginn hægðarleikur.

Á blaðamannafundi í gær kom fram að Klopp getur valið úr nokkurnveginn öllum sínum leikmönnum, það er aðeins Lallana sem er frá eftir eitthvað smá hnjask. Meira að segja Henderson sem var ekki í liði Englendinga í vikunni er til í slaginn. Klopp tók líka fram að törnin sem nú er framundan (10 leikir fram að áramótum) bjóði í raun ekki upp á neinar æfingar, heldur fari allur tíminn sem er í boði milli leikja í endurheimt, og að nú sé komið að leikmönnum sem standi fyrir utan fyrstu 11 að stíga upp.

Það er því spurning hvernig Klopp stillir þessu upp á eftir. Hann er örugglega með leikinn við PSG í vikunni aðeins í huga, og því kæmi ekki á óvart ef hann hvíldi einhverja sem annars væru fastamenn. Hins vegar er alveg ljóst að Klopp vill ekki missa City eitthvað lengra frá sér, og mun því örugglega stilla upp liði sem hann telur að verði fært um að vinna leikinn.

Ég ætla að veðja á þetta:

Alisson

Trent – Lovren – Virgil – Robertson

Henderson – Fabinho

Shaqiri – Firmino – Mané
Salah

Þetta er auðvitað alveg skot í myrkri, hér er ég að gera ráð fyrir að hann hvíli menn eins og Gomez, Milner og Winjaldum, en það er engin leið að segja hvað Klopp er að hugsa.

Spáin er að liðið verði áfram ósigrað í deild eftir þennan leik, og við vonum auðvitað að 3 stig hafi bæst í sarpinn. Segjum að Mané haldi upp á nýja samninginn með þrennu.

24 Comments

  1. Þetta verður smá snúið tafl hjá Klopp því þetta verður örugglega töff leikur, svo PSG á miðvikudag sem eru eins og þeir eru. En næsta víst er að Klopp mun skipta út fljótlega 3 í seinni, sem hann örugglega vill nota á miðvikudag sé það möguleiki. Spái 0-2. Skiptir engu hver skorar, en vil sjá Salah setjann.

    YNWA

  2. Sælir félagar

    Þetta verður örugglega erfiður leikur og enginn stórsigur í vændum. Spái 1 – 2 í þungum og mjög töff leik þar sem ekkert verður gefið né selt ódýrt.

    Það er nú þannig

    YNWA

  3. Hvar eða hvernig get eg horft a leikinn þar sem stöð 2 sport er að drulla ??

  4. Ef þið eruð á eftir bestu streams hverju sinni þá er lang best að fara á reddit soccer streams. Hvar hann er sýndur víðsvegar um landið er annað mál.

  5. Á förnum vegi var ég spurður út í það hvers vegna svo fáir eru meiddir í Liverpool-liðinu. Nú auðvitað svaraði ég að bragði að það væru allavega þrír sem bera á sig andarnefjuolíu. Agi verður að vera í hernum. Og nú og jæja þannig verður það bara að vera. Ætli þetta verði ekki 0-3 en ef það verður 1-3 þá sveiattann.

  6. Eftir 35 mín eru City 0-3 yfir og við ekki með skot á mark. Þeir eru að fara að leika sér að þessari deild.

  7. Aldrei fyrr séð kerfið 9-1-0
    Watford spilar með 5 CB, 2 RB og 2 LB…

  8. Afhverju er aldrei dæmt á þegar sóknarmenn eru með peysutog eins og þegar henderson fékk spjaldið þvílíkt augljóst og þreytandi.

  9. Fáránleg ákvörðun hjá fyrirliðanum þarna en set líka spurningarmerki við afhverju klopp skipti honum ekki útaf hann hlýtur að hafa séð það að hann var á algerlega siðaðra séns hjá dómaranum

  10. Glórulaust og algjörlega tilgangslaust brot hjá Hendo, fær samt plús hjá mér fyrir að labba bara beint í göngin, ekkert að röfla við dómarann, vissi upp á sig skömmina.

Mané skrifar undir nýjan samning

Watford 0 – 3 Liverpool