Standard Liege 0 – Liverpool 0

Það var heldur bragðdaufur fyrsti leikur Liverpool á þessari leiktíð gegn Standard Liege í Belgíu. Ég átti von á að Liverpool myndi ekki hafa mikið fyrir því að klára þennan leik en annað kom heldur betur á daginn.

Byrjum á því að skoða byrjunarliðið.

Reina

Arbeloa – Carragher – Agger – Dossena

Plessis – Alonso
Kuyt – Keane – Benayoun
Torres

Bekkurinn: Cavalieri, Hyypia, Insúa, Gerrard (inn f. Keane ’67), Voronin, Pennant, El Zhar (inn f. Kuyt ´83).

Liverpool hélt boltanum vel á upphafsmínútum leiks og stjórnaði algjörlega öllu sem fór fram á vellinum. En eftir um 10 mínútna leik vöknuðu heimamenn og stressið rann úr þeim. Þeir fengu fljótlega aukaspyrnu við vítateigshornið og uppúr henni kom skalli en hann hafnaði í stönginni og Reina bjargaði því sem bjarga þurfti í framhaldinu af því. Já smá einbeitingarleysi í dekkingu hjá Liverpool. Þetta sáum við oft á síðustu leiktíð vera einn helsta veikleika liðsins, að verjast föstum leikatriðum. En stuttu síðar kom dómarinn heimamönnum til hjálpar þegar hann dæmdi vítaspyrnu á Dossena sem handlék knöttinn vissulega, en hann gerði það utan teigs. En maðurinn sem vann gullhanskann í ensku úrvalsdeildinni í fyrra gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna, Pepe Reina sýnir enn og aftur hversu góður hann er. Eftir þetta gerðist fátt markvert. Liverpool spiluðu boltanum í öftustu línu manna á milli en svo kom oftar en ekki kýling fram á við í átt að fremstu mönnum, sem gékk ekki eftir. Stuttu fyrir hálfleik átti spyrnumeistarinn Alonso aukaspyrnu sem fór hársbreidd yfir. Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik. Tveir nýjir leikmenn ollu mér örlitlum vonbrigðum í fyrri hálfleik og það voru Dossena og Keane. Dossena átti í vandræðum allan hálfleikinn með frískan kantara Standard manna og Keane varla sást í framlínunni. En það er nú algjör óþarfi að dæma þessa leikmenn og liðið eftir 45 mínútur í fyrsta alvöru leik tímabilsins. Ég beið því pollrólegur eftir síðari hálfleik.

En eftir nokkrar mínútur í síðari hálfleik leyst mér ekkert á blikuna. Liverpool gékk illa í uppspilinu og ljótar tæklingar komu í kjölfar þess að þeir misstu boltann. Sóknarleikurinn var lítill sökum langra og hárra kýlinga fram völlinn úr öftustu línu. En vindurinn fór að renna hægt og rólega úr heimamönnum og Liverpool fóru að taka meiri völd inn á vellinum. Gerrard kom inn fyrir Keane og við það hresstist sóknarleikurinn eilítið. Gerrard tók aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn eftir að brotið hafði verið á Alonso en skot fyrirliðans fór rétt yfir. Í næstu sókn kom hár bolti inn fyrir Liverpool vörnina og Standard maður skallaði einn á móti Reina en Reina náði að komast fyrir skotið og Benayoun hreinsaði burt. Leikurinn datt mikið niður eftir þetta og fátt markvert gerðist, Liverpool hélt boltanum betur en lítið sem ekkert kom út úr því. Að lokum flautaði dómarinn bragðdaufan leik af.

Það eru vissulega ekkert slæm úrslit að fara með 0-0 í heimaleik á Anfield en ég lít ekki á málið þeim augum. Ég get ekki hrósað mörgum leikmönnum eftir þennan leik, því miður. Þessi úrslit eru ekki góð miðað við það að Standard Liege er hreint ekki stórlið í evrópskri knattspyrnu og við eigum hreinlega að sigra þá sannfærandi. Í staðinn erum við í bullandi vandræðum með þá og heppnir að tapa ekki leiknum.
Það eru 3 atriði sem mig langar að væla út af eftir þennan leik.
Í fyrsta lagi þá eru varnarmenn okkar í miklum vandræðum með háa bolta sem koma inn fyrir þá. Þó sérstaklega krossa sem koma utan af köntunum. Það er eins og menn sjái ekki mann OG bolta og þetta er klárlega eitthvað sem Rafa og Sammy þurfa að fara yfir með leikmönnum.
Í öðru lagi þá fannst mér við eiga í miklum vandræðum með að skapa almenninleg marktækifæri. Ég veit að leikmenn eru ekkert í formi lífs síns og sumir leikmenn eru nýjir og eiga eftir að komast betur inn í þetta, en að skapa ekki eitt almenninlegt marktækifæri finnst mér slakt.
Í þriðja lagi þá er ég mjög óhress með suma leikmenn hvað varðar hraða og styrk. Báðir bakverðirnir okkar áttu í bullandi vandræðum með fljóta kantmenn Standard og þeir stungu okkur af á fleiri stöðum en bara á köntunum. Ekki nóg með það að þeir hlupu okkur af sér heldur voru þeir að elta okkur uppi og loka á allar sóknarleiðir líka. Ég veit ekki hvort þetta sé bara hausinn á mönnum sem er að klikka eða hvort við séum ekki betri en þetta. Ég vill trúa því að þetta sé hugarástand leikmanna sem þarf að breyta og að menn hafi ekki náð að peppa sig nógu vel upp. Reyndar komu Belgarnir mönnum í opna skjöldu og spiluðu mjög grimmt og spurning hvort að leikmenn Liverpool höfðu bara ekki kraftinn í þetta, maður spyr sig.

En ég ætla svo sem ekkert að missa mig í neikvæðni varðandi þennan leik, þetta er fyrsti leikurinn af löngu tímabili og við skulum halda ró okkar. 0-0 eftir útileikinn, eigum Anfield eftir, þetta er nú ekkert alslæmt þó við höfum oft séð betri leiki hjá okkar mönnum.

Maður leiksins:
Það eru ekki margir sem koma til greina. Mér fannst Carragher spila þokkalega í vörninni en hann gerði nokkur mistök í dekkingu sem kostuðu það að Standard menn komust í ákjósanlega stöðu. Gerrard kom góður inn að mínu mati en var ekkert að brillera. Reina spilaði vel og varði vítið vel en mér fannst einn leikmaður spila betur en Reina í kvöld. Sá leikmaður heitir Plessis. Hann stoppaði oft upphlaup, skilaði boltanum vel frá sér og barðist vel. Margir leikmenn sem spila hans stöðu eru magnaðir tæklarar en vantar oft að geta komið boltanum frá sér eftir að þeir hafa unnið hann. Það getur Plessis gert vel og það gerði hann í kvöld. Hann gerði hlutina einfalt og sýnir mikinn þroska í leik sínum þrátt fyrir að vera ungur útlendingur í stórliði. En hann ásamt öllum öðrum í dag getur hins vegar gert betur. Liðið á helling inni og vonandi að Rafa nái að blása lífi í liðið fyrir komandi átök í úrvalsdeildinni.

Næsti leikur er gegn Sunderland þann 16. ágúst á útivelli. Það verður erfiður leikur og vonandi að menn verði á tánum. En látum þetta duga í bili.

50 Comments

  1. Guð min góður ef þetta er það sem koma skal þá endum við í 16 sæti í Ensku
    ojjj

  2. Lékum eins og við hefðum unnið fyrri leikinn og þetta væri síðari leikurinn. Vorum stálheppnir að fá ekki á okkur mark.

    Dossena fær hérmeð viðurnefnið Quo vadis? Keane og Torres náðu ekkert saman.

    Plessis var ljósi punkturinn.

  3. Hreinn skandall, Áttum ekki færi í leiknum og máttum þakka fyrir að tapa ekki þess vegna 2-0. Hugga mig samt við það að hafa ekki sleppt einhverju skemmtilegu til þess að horfa á leikinn.

  4. Skelfileg frammtistaða! Alonso var hrikalegur, dossena vissi ekkert hvað hann var að gera carra og agger voru á rassgatinu torres og keane sáust voðalítið.. Kuyt? guð minn góður! eins gott að þeir hysji upp um sig buxurnar fyrir næsta leik gegn Sunderland!

  5. Já sammála mönnum hér á ofan .Erum ekki betri en í fyrra.Keane sást ekki í leiknum og Torres varla líka, en þessir menn voru vel dekkaðir svo að við getum ekki dæmt þettað strax svona í byrjun leiktíðar. Mikið um slæmar sendingar og varla almennilegt skot að marki. Reina maður leiksins.

  6. Það er vonandi að menn fari að hyppja upp um sig brækurnar eftir þennan leik. Liðið allt átti frekar dapran dag, Dossena eins og ég var spenntur að sjá hann í kvöld olli hann mér smá vonbrigðum en ég ætla ekki að dæma hann út frá þessum leik.

    Eina góða við leikinn var að plessis og Reina voru að halda lífi í okkar manna og greinilegt að við söknuðum Gerrard – Babel – Macherano alltof mikið í þessum leik :S og by the way er að meina hinn rétta GERRARD 🙂

  7. Þetta var flott! Náðum að halda hreinu gegn góðu liði Standard Liege í ljónagryfju þeirra í kvöld. Þetta voru væntingar mínar til kvöldsins og þær stóðust, þó það munaði litlu í nokkur skipti.
    Skil ekki þessa óánægu spjallverja. Vitið þið eitthvað um mótherjana? Þeir sýndu hvað í þeim býr í stærsta leik þeirra allra til þessa. Og stuðningsmenn þeirra studdu þá á borð við The Kop í kvöld.
    Það verður þó vonandi að okkar menn nái að sýna betri leik gegn Sunderland um helgina.

  8. jam hvílígt rugl torres keane náðu als ekki saman vonadi lagast þetta á móti suderland

  9. Og gleymti líka einu, þá má ekki taka af Standard L….. að þeir voru drullugóðir og börðust vel og vera dekka leikmenn vel. sást greinilega að þeir eru í betra formi og undirbúningstímabilið hjá þeim hefuru svo sannarlega virkað vel…. maður var komin með einhverjar svona hype út af genginu okkar í æfingaleikjum og ég hélt að þetta væri auðunninn leikur sem þyrfti bara að klára.

  10. Sorglega léleg frammistaða, minnir margt á frammistöðu okkar gegn Maccabi Haifa fyrir 2 (?) árum síðan, verðum að hypja upp um okkur fyrir Sunderland á laugardaginn.

  11. já en við hljótum að klára þetta heima við
    vonadi fer keane að skora báðum

  12. Erfiður leikur og við heppnir að tapa honum ekki en eftir allt alls ekki svo slæm úrslit. Við verðum að taka þá heima. Athyglisvert að Alonso skuli hafa spilað og við það minnka líkurnar á því að hann sé að fara og kannski líka miðað við það að Barry verður líklega með gegn FH. Hins vegar komu hvorki Pennant né Voronin inná sem þýðir kannski það að þeir verða seldir fljótlega. Hvað haldið þið um það?

  13. Jæja, 0-0 í þessum fyrri leik sem eru svo sem ágætis úrslit á blaði. Geri ráð fyrir að okkar menn klári dæmið á heimavelli eftir hálfan mánuð.

    Annars var það helst í fréttum að þessi frammistaða var gríðarlega léleg í kvöld. Ég get ekki tekið undir með þér Olli að Plessis hafi verið góður, fannst hann jafn lélegur og allir hinir útispilararnir í kvöld og ef Pepe Reina hefði ekki verið í toppformi hefðum við tapað þessu svona 2-0 eða verra. Hvers vegna þú velur Plessis mann leiksins af því að hann var “skástur” þegar Reina varði vítaspyrnu og nokkur dauða-dauða-dauðafæri skil ég ekki. Hvað þarf Pepe þá að gera til að vera maður leiksins?

    Allavega, fall er fararheill og ég vona að þessi leikur geri menn nógu skelkaða til að þeir mæti tilbúnir til leiks gegn Sunderland. Þeir voru alveg greinilega ekki tilbúnir í kvöld, fannst mér.

  14. Þegar þú spáir í mann leiksins virðistu gleyma Reina sem bjargaði þessum leik alveg fyrir Liverpool og á því fyllilega skilið að vera útnefndur maður leiksins.

  15. Ég trú ekki því sem ég er að lesa hér fyrir ofan, að þetta komi frá “stuðningsmönnum” Liverpool. Ég skrifa ekki oft eftir leiki en ég get ekki annað en fyllst viðbjóð þegar Liverpool spilar leik á útivelli við lið sem er staðráðið í að sanna sig á heimavelli og spilar virkilega vel og er vel skipulagt og líkamlega sterkt.
    Þetta væl um að hysja upp um sig buxur og sérstaklega þetta rugl í kommenti 11: vonandi fer Keane að skora bráðum!!! Eru menn ekki að grínast! Þvílíkt og annað eins væl hef ég ekki lesið, það er eins og þessir einstaklingar séu blaðamenn fyrir The S*n. Þetta fer að minna á spjallið hjá Gras.is þar sem ekkert nema veruleikafirrtir (of mikið af Football Manager) 11 ára strákar heimta að eyða 30 milljónum í hvern einasta leikmann.
    Ég vil hvetja hvern og einasta Liverpool aðdáanda sem vill tjá sig eftir leiki eins og í dag að taka amk 30 mínútur og melta leikinn og kringumstæður aðeins áður en þið ælið á eitt besta og virtasta spjallborð landsins.

  16. Velja mann leiksins útaf því að hann er ungur eða ekki með mikla reynslu. Siguróli er annað hvort skyldur Plessis eða kærasti hans, eða bara klikk. Reina maður leiksins og ekkert djöfulsins rugl.

    Hundleiðinlegur leikur samt.

  17. Sammála plessis var slakur, Reina yfirburðamaður hjá okkur og er því næsta sjálfkjörinn maður leiksinns.
    Verst að þurfa að spila Alonso þar sem að þar með fer hann ekki sem minnkar líkurnar á því að Barry komi. Spái því hins vegar að Voronin og Pennant fari vonandi kaupum við toppspilara í staðinn.

  18. Stefán sagði ég að ég hefði valið Plessis mann leiksins út af því að hann er ungur eða reynslulítill?
    “Hann stoppaði oft upphlaup, skilaði boltanum vel frá sér og barðist vel. ”
    þetta er ástæðan. það að hann sé ungur eða reynslulítill kemur frammistöðu hans í kvöld ekkert við, hann er ekkert valinn út af því, hann ER það bara og ég var einungis að taka það fram.

  19. Reina var góður líka vissulega og spilaði vel, varði víti og stóð vaktina ágætlega. en mér fannst plessis einfaldlega skila sínu mjög vel og standa uppúr. mín skoðun. reina er valinn maður leiksins á opinberu síðunni en ég valdi plessis og ætla ekki að hagga þeirri ákvörðun þar sem það er mín upplifun og mín skoðun.

  20. Svona svona !
    Þetta var flottur leikur hjá Standard og LFC heppnir að tapa ekki. Ekki örvænta því nú er hálfleikur. Keane er rétt að koma sér fyirr á eftir að fá að vera töffari og svona. Torres skorar ekki í hverjum leik þannig að menn og ekki Keane heldur.
    Og hitt með VorOnIn og Pennant það má vel vera að þeir séu að fara en ég held ekki. Vegna þess að það er fínt að hafa Vor þarna á bekknum stundum, ekkert vesen á honum og fæst ekkert það mikill peningur fyrir hann. Varðandi Pennant þá er það bara þannig að þjálfari liðsins spilar ekki með fleiri en 1 blökkumann í einu inn á. Ekki vera að segja að ég hafi fordóma eða eitthvað þannig. Þetta er bara svona, skoðið allt síðasta season. Kannski 1 til 2 leikir sem það kom fyrir að 2 blökkumenn voru inn á, þ.e. á sama tíma.
    Maður leiksins tjaaa eitthvað hafa kop.is menn verið að horfa á annan leik en ég. Því að verja víti jafngildi því að skora mark fyrir mér og ef Torres hefði skorað þá væri hann klárlega verið valinn. Þannig að Reina er augljóslega maðurinn, þar eftir er nú vinur okkar hann carri. En vissulega lofar Frakkinn ungi góðu.

  21. Já ég var að renna gegnum kommentin hér að ofan og tek kannski undir að sum hver eru nú full mikil svartsýni, en hafa verður í huga að þó þetta sé kannski fyrsti leikur af mörgum er þetta líka fyrsti stóri leikurinn okkar á þessu tímabili.Ég þarf ekki einu sinni að segja hvað það væri ömurlegt að tapa þessum rimmum gegn þessu liði og mér er sama þó þetta lið hafi verið að spila vel þá finnst mér það ekki afsaka slakan leik okkar manna.

    Svo annað með vörnina þá er ég mikill Hyypia aðdáandi og hefði verið til í að sjá hann inná því oft þegar hann spilar er hann kannski engin yfirburðar maður í vörninni en mér finnst hann halda betra skipulagi og draga það besta úr hinum í vörninni. En reyndar er spurning um hraðan sem er orðin eitthvað lítll hjá kallinum. En næst eru það svörtu kettirnir á stadium of light tökum þá bara stærra í staðin.

  22. Ekki furða að ég hafi valið Reina í Draumadeildinni!!

    Ég spáði jú 2:1 sigri okkar manna og vissulega var kannski risið lítið og lágt hjá okkar mönnum, en ég tek undir með Sverri (nr. 7), að við vorum þarna að ná jafntefli gegn fínu Liege liði.

    Við getum ekki ætlast til þess að vinna alla leiki, þó svo að við stefnum á það. Og auðvitað eiga og mega menn vera óánægðir með frammistöðuna …

    … æi, hvað er ég að segja??? Úff … þeta var slappt – plain and simple! Bah! Reina maður leiksins!

    (p.s. Kannast einhver við nafnið Gareth Barry? … Mér finnst ég hafi bara ekki heyrt um hann svo lengi… 🙂 )

  23. Btw. Siguróli, þú og allir á síðunni standa sig frábærlega og ég ætti ekki að vera að gagnrýna neitt. Maður hrósar fólki ekki fyrir allt sem er gert vel og hér er allt gert mjög vel. Samt er það algjörlega rangt að Plessis var maður leiksins, en hann stóðst vissulega væntingar.

  24. Fyrir mér var þessi leikur alveg afskaplega líkur fyrri leikjum okkar á þessu stigi, Það er í fyrsta leik ársins og einmitt í undankeppni CL. Helsti munurinn var kannski að í dag mættum við svolítið betra liði en oft áður, sem tilbúið í leikinn, harðskeytt og ákveðið og alveg GRÍÐARLEGA vel stutt allann leikinn. Ég var búinn að lesa mig til að þeið ættu öfluga stuðningsmenn en þessu átti ég ekki von frá Belgísku liði. Eftir spilamennsku Standard í þessum leik held ég að þeir megi alveg óttast að
    missa einhvað að sínum leikmönnum í stærri lið innan skamms.

    Hvað okkar menn varðar var afar lítið um fína drætti, liðið virkaði gjörsamlega á hælunum allann leikinn og alls ekki tilbúið í harða og ferska mótspyrnu hjá vel skipulögðu Lige liði. Það náðist ákaflega sjaldan að senda meira en þrjár sendingar milli manna og við áttum svei mér þá bara eitt skot á markið……og það var gripið. Mikið betur má ef duga skal en þó alls engin ástæða til að pankikka strax og líklega hefst þetta nú fyrir rest, sérstaklega þar sem þeir klúðruðu fjölmörgum sénsum á að skora.

    Varðandi okkar leikmenn þá er það nú fyrir það fyrsta ljóst að maður leiksins kom alls ekki úr ökkar röðum. Reina stóð sig vel í markinu og bjargaði okkur gjörsamlega í kvöld. CarrAgger hafa oft spilað mikið mun betur saman heldur en ég kvöld og ég er ekki frá því að Rafa eigi að setja Carra þau einföldu fyrirmæli fyrir á þessu tímabili að hann megi ekki senda lengri en 15 metra sendingar. Þessar “draumasendngar” hans eru alveg hræðilegar og hafa alltaf verið það. Hann er sterkur á öðrum sviðum. Dossena og Arbeloa voru líka ekki að virka vel varnarlega og lentu oft í basli, eins var Dossena ekki eins frískur fram á við eins og hann var á móti Lazio!! en hey, lítum á björtu hliðarnar, Riise er farinn.
    Miðsvæðið í dag var ekki í eigu Liverpool og ég er hjartanlega ósammála Olla með að hrósa Plessis einhvað sérstaklega fyrir þennan leik. Það var eins og hann saknaði JM mjög mikið og virkaði ákaflega óöruggur í tveggjamanna miðju. Lagaðist svo aðeins þegar loftið fór að dvína í Standard og Gerrard bættist við í miðjuspilið. Engu að síður strákur sem lofar mjög góðu yfir framhaldið, en ég efa að við sjáum hann mikið í liðinu í vetur. Alonso var heldur ekkert augnayndi í dag og t.d. fengu sóknarmennirnir okkar í kvöld úr akkurat engu að moða. Yossi komst eins og aðrir ekki mikið inn í leikinn en átti sín hættulegu hlaup af og til, hinumegin var Kuyt samur við sig, barðist gríðarlega vel og var nokkuð solid varnarlega en gat afar lítið sóknarlega að venju, maður setur smá spurnngarmerki við það hvort það sé mikil þörf á svo varnarsinnuðum kanntara gegn ekki sterkari mótherjum!? Ég hefði allavega haldið að þetta væri akkurat andstæðingur sem Pennant væri maður leiksins gegn.
    Keane og Torres voru síðan bara hreinlega í gjörgæslu í kvöld, Keane sást varla og ekkert kom að viti út úr Torres.

    Arnar Björnsson fær svo sérstakt hrós fyrir kvöldið en ég held að hann hafi náð að segja alltaf vitlaust til um það sem dómarinn var að dæma, kostulegt.

    En fyrsti leikur að baki, ekki tap, enginn meiddur, smá “sjokk” komið á liðið sem ætti bara að vera ágætt mál og gera menn tilbúna fyrir fyrsta leik í deild. Maður er allavega strax farinn að bíða eftir laugardagseftirmiðdeginum.

  25. Sælir félagar

    Frammistaða okkar manna var einfaldlega léleg og stóðu þar fáir framar öðrum. Belgarnir voru góðir og töluvert betri en okkar menn. Ég sé ekki ástæðu til að ætla að þetta verði það sem koma skal. Hinsvegar var fátt sem gladdi augað í leik okkar manna en þetta var fyrsti alvöruleikur þessarar leiktíðar og leiðin hlýtur að liggja uppávið. Reina var auðvitað maður leiksins og liggur í augum uppi. Plessis var alltílagi en ekki nálægt því að hafa þau úrslitaáhrif sem Reina hafði. Carra var að vonum býsna traustur og hafði nóg að gera eftir fyrstu 10 mínútur leiksins. Gerði einhver mistök en líklega færri en flestir aðrir.
    Það er nú þannig.

    YNWA

  26. Leikurinn hjá Liv var glórulaus og tilviljunarkendur, það er eins og að skipun dagsins væri ALLIR AÐ SPILA VÖRN. Standar Liege var vissulega að spila vel, en Liverpool frekar illa. Hvað horfði maður oft upp á það að miðjumenn gáfu boltann aftur í vörn í staðinn fyrir að nota kantana,( kanski vegna þess að við erum ekki með kantmenn),og ef kanturinn var notaður þá kom ekkert út úr því. Liverpool var ekki að spila vel, og þessi leikur var jafnvel verri en versti leikurinn á síðasta tímabili. Enn og aftur Reina maður leiksins.

  27. Hér er highlight úr leiknum og viðtöl við leikmenn.
    http://www.youtube.com/watch?v=aNUGr6C8864

    Leikmenn Liverpool vita uppá sig skömmina og viðurkenna að það eina ásættanlega við leikinn voru úrslitin. Hreint hræðileg frammistaða, eina glætan var innkoma Gerrard og hvernig hann náði saman við Benayoun.

    Held að þessi leikur sýni nauðsyn þess að sjippa Xabi Alonso út, leikur liðsins í kvöld fór í gegnum hann og hann er bara allt alltof hægur til að stjórna leik Liverpool. Hann er einnig hvorki nógu mikill leiðtogi í sér né líkamlega sterkur til að bera leik liðsins uppi með ungling eins og Plessis sér við hlið.

    Það sem vakti þó áhyggjur var vörnin. Agger og Carragher voru að gera 5.flokks mistök eins og að láta boltann skoppa fyrir framan sig, kolrangar staðsetningar o.s.frv. Bakverðirnir voru að missa bolta og menn klaufalega innfyrir sig og héldu oft ekki línunni.

    Við skulum samt slaka á dramadrottningarsyndrominu. (ekkert hafi breyst frá í fyrra og allt glatað).
    Það gerðist líka með íslenska handboltalandsliðið að þeir skíttöpuðu fyrir Egyptum í síðasta æfingaleiknum fyrir ÓL. Síðan byrjaði alvaran og þeir spila núna eins og englar, frábær samvinna og liðsandi.
    Sjáum bara til hvort þetta stórlagist ekki þegar lykilmenn Liverpool koma tilbaka, Gerrard á miðjuna og menn fara að sýna hreðjarnar. Það vantaði alla hreyfingu án bolta í kvöld og leikgleði.

    Er viss um að þetta kvöld virki bara eins og fast spark í rassgatið á leikmönnum Liverpool. Búið að vera alltof mikið fjölmiðlaröfl um að Robbie Keane sé síðasta púslið í leik liðsins. Núna rifja þessir leikmenn bara með sjálfum sér afhverju þeir eru atvinnumenn í fótbolta og koma tvöfaldir í næstu leiki.

    Áfram Liverpool!

  28. Easy…

    Það er einn leikur búinn. Og miðað við ummælin hér fyrir ofan kemur mér á óvart að enginn skuli vera byrjaður að tala um að reka Benítez.

    Ég ætla allavega að sýna þessu aðeins meiri þolinmæði.

  29. við vorum heppnir.En fín úrslit og menn mega ekki alveg gleyma sér.Þetta var fyrsti leikur og við sluppum frá honum.Standard Liege er fínt lið og margir leikmenn þess voru að spila sinn stærsta leik til þessa.
    Ég var á grand Hotel áðan og var að spjalla við marga Aston Villa aðdáendur.Þeir fóru lofsamlegum orðum um G. Barry og töldu hann 18 millj punda virði. Sögðu hann vera gríðarlega góðan tæknilega,líkamlega og andlega.Aðal idolið hjá aðdáendum A.Villa. Aftur á móti fannst þeim verðmiðin á Kean vera alltof háan eins og mér.
    Þeir höfðu mikla trú á Alonso og sögðu að local Liverpool búar vildu ekki að hann yrði seldur. Gleymið ekki að hann var mikið meiddur á síðasta tímabili.

    Að lokum þeir voru hræddir við leikinn á morgun á móti FH. Sögðu að svona leikir yrðu alltaf erfiðir……þess vegna má ekki alveg gleyma sér í svartsýnni. Fall er fararheill…við klárum þetta heima!!!!!!

  30. Er einhver til í að koma með kóðann að fantasy.premierleague deildinni sem var búin til fyrir kop.is? Finn ekki kommentið þar sem þetta kom fram.

  31. Þetta var vondur leikur og liðið langt frá því að vera sannfærandi. EN það er líka á hreinu að þetta Standard Liege lið er gott lið sem ber að taka alvarlega. Ég hef fulla trúa á því að við klárum þetta á Anfield en ég hræðist leikinn á laugardaginn ef þetta er það sem koma skal.

  32. Já, ekki var það burðugt hjá okkar mönnum og lítið af mínu hungri fyrir fótbolta hvarf.

    Hvað eru menn að röfla yfir því að Olli velji Plessis mann leiksins? Eru engin takmörk fyrir nöldri? Minn maður leiksins er klárlega Pepe Reina, en það er ákaflega misjafnt hvernig menn horfa á leiki og menn sjá hann oft frá sitt hvoru sjónarhorninu. Það er reyndar bara tvennt í þessum leik sem ég var sáttur með og það voru einmitt þessir tveir leikmenn, Pepe og Plessis (reyndar Stevie fínn eftir að hann kom innná). Allir hinir þurfa að líta vel í spegil þennann morguninn og spyrja sjálfan sig hvort þetta sé virkilega það besta sem þeir geti gert inni á vellinum.

    Það þýðir ekkert að tuða yfir einstaka leikmönnum, þeir voru bara (hinir) allir á hælunum. Torres ekki til staðar, Keane mætti ekki, Benayoun að búa til vinnu fyrir Björgunarsveitir, Kuyt ennþá að hita upp, Alonso að fagna Evróputitlinum (í öðru landi), CarrAgger (þvílík snilldar samsetning á nafni sem kom fram hér að ofan) að gera við þakið, Arbeloa var að verja eitthvað bak sem var ekki á þessum velli og Dossena í bullinu í fyrri hálfleik en var nokkuð sáttur með hann í þeim seinni. Sem sagt, hörmungarleikur sem getur BARA virkað sem gott drag í rassgatið og kom í rauninni á frábærum tíma.

    Nú er bara að girða sig í brók, hætta að hanga á augnhárunum við þetta og slátra eins og einu Sunderland liði. Ef það gerist, þá var þessi leikur bara frábær sem síðasti leikur á undirbúningstímabilinu.

  33. Kemur lítið á óvart.

    Við erum á eftir hinum þremur liðunum í getu. Hópurinn er sterkur eftir að Riise og Crouch voru látnir fara. Kaupin góð en ef ekki næst árangur í vetur þá er hans tími kominn.

    Ætla að verða sá fyrsti til að segja þetta hérna þó svo að aðrir hugsi það sama.

  34. Ég botna lítið í þessu hjá þér Grolsi, en ef þú ert að ýja að því að það eigi að reka Rafa eftir þetta tímabil þegar einn leikur er búinn á þessu tímabili og vilt vera fyrstur að koma því hér inn. Þá vil ég óska þér til hamingju, sé ekki betur en að þú hafir náð fyrsta sætinu með einstökum hugarlestri og snerpu. 🙂

  35. Ég bjóst nú við því að það kæmi upp “Rekum Rafa” kór hérna á einhverjum tímapunkti í vetur, en ekki átti ég von á að það kæmi einsöngvari og myndi byrja að kyrja strax eftir fyrsta leik og það útileik í undankeppni CL og tímabilið nánast ekki byrjað. En það er svo margt skrítið í þessum heimi.

  36. Og talandi um þennan sérstaka einsöngvara (Nr. 39) þá virkar hann á mig sem frekar falskur, nær ekki háa c-inu nógu vel og ætti svei mér þá að fá sér vinnu þar sem söngs ei krafist er.

    Til að svara Grolsa örlítið þá sé ég nú ekki hversu mikið við eigum að vera á eftir Arsenal í getu? United og Chelsea eiga mikið mun meiri fjárráð en það eru alltaf jafn mikið 11 inná hjá þeim líkt og okkur!!! Þá meina ég að ég sé t.d. ekki fyrir mér að United toppi mikið síðasta season hjá sér, og ekki munaði miklu á okkur og þeim þá.
    Við erum svo búnir að styrkja hópinn ágætlega nú þegar og erum líklega ekki hættir:
    Keane inn
    Agger kominn aftur
    Riise farinn (bara það styrkir okkur umtalsvert)
    Dossena, Degen og N´Gog (jury still out there)
    + einn í viðbót með góðan vinstri fót.
    Þetta bætir okkur umtalsvert. Eigum við svo ekki að sjá hvernig þetta tímabil spilast áður en við förum að hampa okkur fyrir að vera fyrstur til að benda á að liðið er ekki að virka og að reka eigi Rafa.

  37. Auðvita megum við ekki dæma okkar menn strax, en þeir voru mjög slappir, það eru allir sammála með það. Mu voru frekar slappir um síðustu helgi, svo að þettað virðist vera byrjunarvandræði hjá sumum liðum. Margir sem spiluðu í gær voru að byrja með Liv í alvöru leik, svo að það er ekki óeðlilegt að þeir séu stressaðir og klaufskir, en mikið helv*?$##$ voru þeir slappir. KOMA SVO LIVERPOOL

  38. Sammála að Plessis hafi verið góður en maður leiksins er klárlega Reina, við getum þakkað honum að við erum enn líklegra liðið til þess að fara áfram.

  39. Það er fullkomlega augljóst að Alonso veldur því ekki að vera leiðtogi á miðjunni. Leikurinn í gær undirstrikaði það og sýndi fram á það sem Rafa vill þ.e.a.s að fá Barry. Barry er leiðtogi sem getur leyst margar stöður á vellinum þess vegna vill Benitez fá hann.

  40. Þetta var ekki góður leikur okkar manna, en þeir vinna þá heima og komast áfram.

    ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  41. Ég veit nú ekki um mörg lið í evrópu sem hefðu getað mætt þarna og yfirspilað þetta Standard lið.

    Við erum annars vegar að tala um Liverpool sem er að hefja langt og strangt season. Með nýja lykilmenn og meiddan fyrirliða. og hins vegar Lið sem var að leika leik lífs síns, með troðfullan heimavöll. Einu dökku punktanir sem ég sá voru þessi tvö færi SL og svo hefðu auðvitað mátt koma fleiri færi hjá LFC. En heild yfir átti Liverpool bara ljómandi leik.
    Það sagt….
    Xabi er fínn spilari. En hann er aðeins of hægur, og stundum finnst mér vanta pínu greddu í hann. bara smá vilja… Því miður var Lucas ekki tiltækur,hefði verið gott að hafa hann í þessum leik.
    Ég sakna Crouch. Einmitt leikmaður sem hefði getað komið inn og sprengt hlutina pínu upp. svo er hann líka svaka krútt :)))))
    Það verður að búa til plan B ef Gerrard meiðist illa. Ef LFC ætlar að komast alla leið verður að vera hægt að spila leik og leik án hans. Benitez talar um að hann “neyðist” til að setja hann inn á. Mérfinnst það alls ekki gott mál.

    Plessis átti hreint frábæran leik. Öruggur á boltann, tæklaði vel og gaf bakvörðunum fullt af góðum sénsum til að sækja (sem voru e.tv. vannýtt)

    Er ég annars sá eini sem hoppa hæð mína yfir endurkomu aggers?

    YNWA

    Sigurjón

  42. Nr. 48 Sigurjón
    Vá ekki vera drepa okkur niður með þessari neikvæðni þinni 🙂

    …og nei ég held að flest allir hérna hafi lýst yfir ánægju sinni með endurkomu Agger. Veit ekki með að hoppa hæð mína samt, daginn sem þú sérð mig hoppa hæð mína er sami dagurinn og þú verður umvafinn fullt af fólki í hvítum sloppum 😉

One Ping

  1. Pingback:

Liðið gegn Standard Liege

Spá “spekinganna” á Kop.is!