Arsenal heimsækir Anfield

Seinni partinn á morgun fer fram lokaleikur Liverpool á árinu 2018 þegar Arsenal kemur í heimsókn á Anfield, árið 2018 hefur nú heldur betur verið áhugavert hvað Liverpool varðar og við höfum séð nokkur risa stór skref tekin í átt að því að vera á þeim stað sem við viljum öll að félagið sé á.

1.janúar 2018 varð Virgil van Dijk orðinn löglegur leikmaður Liverpool eftir að hann kom til liðsins frá Southampton fyrir algjört klink – sem telst víst vera metfé sem félag hefur borgað fyrir varnarmann en er samt bara algjört klink miðað við gæði hans og áhrifin sem hann hefur haft á liðið.

Þarna byrjaði boltinn heldur betur að rúlla. Liðið hrökk í gírinn, tryggði sig annað árið í röð sem hafði ekki gerst í alltof langan tíma. Já, og liðið stimplaði sig aftur inn sem eitt af elítu liðum Evrópu og fór eins og stormsveipur í gegnum útsláttarkeppnina í Meistaradeildina en henti því miður frá sér úrslitaleiknum gegn Real Madrid.

Liðið lét ekki deigan síga og byrjaði strax að styrkja sig. Naby Keita kom loksins inn í liðið og örfáum dögum eftir úrslitaleikinn þá keypti félagið Fabinho upp úr engu, tók svo Shaqiri fyrir svo gott sem ekkert fé frá fallliði Stoke og toppaði svo sumarið með því að kaupa dýrasta markvörð í sögunni þegar Alisson kom frá Roma – sá titill var tekinn af honum nokkrum dögum seinna þegar Chelsea kaupir Kepa en áfram með smjörið.

Liverpool byrjaði af krafti í deildinni, komst í gegnum erfiðan riðil í Meistaradeildinni og situr nú taplaust í toppsæti deildarinnar með sex og sjö stiga forystu á Tottenham og City. Liðið hefur fengið á sig sjö mörk í 19 leikjum og er að spila frábærlega.

Árið hefur ekki verið fullkomið en það er margt rosalega jákvætt sem við höfum séð frá liðinu og klúbbnum í heild sinni. Það er þó eitt verkefni eftir á árinu og það er að taka á móti Arsenal þegar þeir mæta á Anfield. Markmiðið er einfalt; ekki missa bilið á toppnum, sækja þessu þrjú stig og enda árið 2018 taplaust í deildinni á leiktíðinni.

Líkt og með hvern einasta leik sem við höfum spilað í deildinni í vetur þá er ég miklu minna smeykur við liðið sem við erum að mæta heldur en maður hefur verið síðustu ár. Arsenal er með öfluga leikmenn sem geta valdið skaða og þá sérstaklega fram á við en ég horfi á þetta Arsenal lið, með fullri virðingu fyrir þeim, og ég bara sé ekki af hverju og hvernig þeir ættu að eiga svör við því sem Liverpool getur gert.

Aubameyang er einn allra besti framherjinn í deildinni og Lacazette er nú enginn skussi heldur, þessir leikmenn skora mörk og þurfa ekki mikið til. Liverpool er hins vegar með öflugustu vörnina það sem af er leiktíðar og það er erfitt að skapa færi á Liverpool.

Arsenal mun líklega spila á þremur varnarsinnuðum miðjumönnum, sem eru orkumiklir og góðir leikmenn en enginn þeirra er einhver leikstjórnandi svo þeir gætu hugsanlega endað í stöðu þar sem miðja og sókn ná ekki að tengjast almennilega.

Það gengur meiðslahryna yfir hjá þeim í vörninni sem er nú almennt ekki rosalega góð. Koscielny er nýkominn til baka úr slæmum meiðslum og ber þess merki, hann virðist ekki geta hoppað og fer hægt yfir. Hugsanlega gæti Xhaka þurft að leysa aftur af í vörninni og þá í vinstri bakverðinum fyrir þá og Liechtensteiner verður hugsanlega í hægri bakverðinum og hann er nú ekkert unglamb lengur. Mustafi, Bellerin og Monreal munu fara í fitness test á morgun en þeir eru tæpir fyrir leikinn og Özil virðist ekki vera í hóp hjá þeim.

Nóg um Arsenal. Þeir eru með fína leikmenn innanborðs sem geta skaðað lið en þeir þurfa að hafa miklu meiri áhyggjur af okkur en við ættum að hafa af þeim. Það kann að vera hrokafullt og hættulegt að segja svona en þannig er bara staðan í dag. Liverpool er á toppnum, taplaust og er rosalega stabílt og gott í öllum sínum aðgerðum. Það er orðið liðið sem allir í deildinni hræðast og ég er nokkuð viss um að Arsenal, leikmenn liðsins og stuðningsmenn hlakka ekki mikið til þessa leiks – sem er frábært.

Tak Liverpool á Arsenal á Anfield hefur verið gott og það er klárlega skjálfti sem virðist vera að festa sig í sessi hjá Arsenal þegar þeir mæta í Bítlaborgina. Vonandi sjáum við þess merki á morgun.

James Milner verður ekki með Liverpool á morgun en hann er enn að glíma við smá meiðsli aftan í læri en verður líklega klár fyrir leikinn gegn Man City eftir áramót. Joel Matip og Joe Gomez eru enn frá vegna meiðsla. Klopp kom með frábærar fréttir af blaðamannafundi sínum í dag en Alex Oxlade-Chamberlain er á undan áætlun í endurkomu sinni og afar líklegt er að hann byrji að æfa að fullu með liðinu í febrúar eða mars. Hann gæti því leikið deildarleiki með Liverpool áður en leiktíðin er liðin. Það eru frábærar fréttir og gæti orðið mikil vítamínsprauta fyrir liðið á lokasprettinum.

Líklega mun Klopp gera nokkrar breytingar á liðinu fyrir leikinn og þá líklegast á miðjunni líkt og hann gerir reglulega.

Alisson

Alexander-Arnold – Lovren – Virgil – Robertson

Fabinho – Wijnaldum

Mane – Firmino – Keita
Salah

Ég ætla að giska á að hann muni leggja upp með sama lið og hann gerði gegn Man Utd fyrir ekki svo löngu síðan. Fabinho var á bekknum í síðasta leik og Wijnaldum var tekinn út af frekar snemma, Henderson byrjaði tvo síðustu leiki og Keita kom ekkert inn á en Shaqiri byrjaði. Ég yrði því ekki hissa ef Wijnaldum og Fabinho byrji saman á miðjunni og Keita komi hugsanlega inn fyrir Shaqiri sem þessi þriðji miðjumaður í liðið þó hann gæti líklega verið á vinstri vængnum eins og gegn Bournemouth og Man Utd.

Shaqiri skoraði í síðasta leik og var nokkuð líflegur en það kæmi mér ekki mikið á óvart ef Klopp myndi frekar vilja eiga hann inni af bekknum líkt og hann gerði gegn Man Utd. Held að hann geri samt ekki margar aðrar rótækar breytingar og það verður fínn tími á milli þessa leiks og leiksins gegn Man City svo það verður tími til að hlaða batteríin á milli. Það verður svo líklega vel róterað fyrir bikarleikinn gegn Wolves áður en alvaran heldur áfram í deildinni.

Það verður áhugavert að sjá hvernig leikurinn mun spilast út en líkt og við höfum séð þá getur Liverpool nálgast leiki á mjög ólíkan hátt og tekið yfir. Það getur verið þolinmæðisnálgunin þar sem liðið leitar eftir því að þreyta Arsenal og bíða eftir tækifærinu til að klára leikinn eða það gæti verið hröð byrjun þar sem liðið keyrir á þá til að klára leikinn snemma og stýra honum út. Seinni aðferðin hefur verið það sem við höfum séð gegn Arsenal á Anfield undanfarið, keyrt á þá í fyrri hálfleik og byggð upp næg forysta til að klára leikinn – þó að vörnin fram að þessari leiktíð hefur oft verið frekar… áhugaverð… svo leikirnir hafa oft endað þannig að Arsenal ná að klóra aðeins í bakkann en ef Liverpool nær góðri forystu á morgun þá held ég að Arsenal takist það ekki í það skiptið.

Er bjartsýnn og fáranlega spenntur fyrir þessum leik. Allt frá því að leikurinn gegn Newcastle var flautaður af hef ég talið niður sekúndurnar þar til að þessi leikur verður flautaður á og svo mun ég telja niður að leiknum gegn City. Þannig verður það næstu vikur og mánuði og hefur verið hingað til í vetur.

Við erum með frábært fótboltalið, frábæran stjóra, klúbburinn er frábær, framtíðin er björt og þetta er svo ógeðslega gaman. Kannski hefur þetta jákvæðan endi og kannski ekki en vegferðin verður allavega góð og ég ætla að njóta hverjar einustu mínútu af því. Næst er Arsenal á Anfield, bring it!

6 Comments

  1. Stel orðum höfundar, bring it, en bæti við beat it. Arsenal er gott lið, málið er bara við erum betra lið, um það sníst málið. 2-0

    YNWA

  2. Þetta hlýtur að vera hættulegasti leikdagur tímabilsins. 2 dagar hvíld. Núna reynir á mannskapinn. Held að Salah sé búinn að brjóta vítamúrinn og tryggir sigurinn. Ef enginn meiðist þá er það líka sigur.

  3. Rosalega spennandi. Gott að Fabinho er kominn á flug m.a. vegna meiðsla Milners. Er Henderson ekki alveg 100%?. Mér líst frábærlega á þetta og gott að geta róterað mannskapnum, sérstaklega á miðjunni þar sem hlaupin eru mest. Shagiri og Sturrigde bíða svo eftirvæntingafullir á hliðarlínunni þ.e. ef annar þeirra byrjar ekki inná. Hefði síðan viljað sjá annaðhvort Salah eða Firmino hvíla eitthvað meira. Firmino hefur virkað frekar þreyttur.
    Á eðlilegum degi er Liverpool betra en Arsenal sem nemur amk tveimur mörkum en eins og við vitum eru ekki allar dagar eðlilegir.

  4. Ekkert víst að þessi bjartsýni klikki. Gott og gaman að lesa svona jákvæða upphitun. Leikurinn byrjar samt núll-núll, fjögur stig úr þessum leik og á móti City væri geggjað!

  5. Maður reynir að njóta en stressið tekur yfir fyrir þennan leik.

    Arsenal þarf að eiga sinn besta leik til að ná jafntefli.

Gullkastið – Hálfleikur

Liðið gegn Arsenal