Bayern mæta á Anfield í Meistaradeildinni

Enn og aftur hafa okkar menn látið lítið á sér kræla í meira en viku, og höfðu meira að segja tök á því að skreppa suður til Marbella á Spáni í sólina í sólarleysið, og æfðu þar í nokkra daga. En næsta verkefni er ekki af verri endanum: sjálfir Þýskalandsmeistaranir í Bayern München mæta á Anfield í 16 liða úrslitum meistaradeildarinnar, og hefjast leikar kl. 20:00 á þriðjudaginn.

Sagan

Það kemur e.t.v. örlítið á óvart að þessi tvö stórveldi hafi aðeins mæst sjö sinnum í Evrópu, svona opinberlega a.m.k. Fyrstu viðureignir liðanna fóru fram í “Fairs Cup” (undanfari UEFA Cup sem var sjálft undanfari Evrópudeildarinnar) 1970-1971, fyrri leikurinn fór fram á Anfield og vannst 3-0, en seinni leikurinn fór 1-1. Næstu viðureignir fóru fram í “European Cup Winners’ Cup” vertíðina 1971-1972, þá voru það hinir þýsku sem unnu samanlagt eftir 0-0 jafntefli á Anfield en 3-1 sigur í München. Sigurvegarar þeirrar keppni það árið urðu svo Rangers. Afar gleymanlegt allt saman.

Næstu tvær viðureignir voru ögn eftirminnilegri. Þær áttu sér stað í undanúrslitum Evrópukeppninnar 1980-1981, en þá voru það okkar menn sem höfðu sigur samanlagt með útivallarmarki sem Ray Kennedy skoraði í Þýskalandi í seinni leiknum, það var sjálfur Rummenigge sem skoraði mark Bayern. Fyrri leiknum á Anfield hafði lokið með 0-0 jafntefli, svo þetta dugði til að koma Rauða hernum í úrslitaleikinn, þar sem þeir mættu Real Madrid og unnu sællar minningar. Staðan þá minnir að hluta til á stöðuna núna, því Bob Paisley gat ekki stillt upp sinni sterkustu varnarlínu í leiknum úti í Þýskalandi, því Phil Thompson og Alan Kennedy voru báðir fjarri góðu gamni. Ekki batnaði staðan eftir að leikurinn hófst því Kenny Dalglish meiddist og þurfti að fara af velli. En þeir leikmenn sem komu í staðinn stigu upp, komust í úrslit, og “the rest is history” eins og skáldið sagði.

Að lokum fór svo einn leikur fram í ágúst 2001 þar sem Bayern mættu sem sigurvegarar meistaradeildarinnar annars vegar, og Liverpool mættu sem sigurvegarar Evrópudeildarinnar hins vegar. Bæði lið höfðu unnið spænsk lið í úrslitunum um vorið, og báðir leikir höfðu farið 5-4, þó svo að Bæjarar hefðu reyndar þurft að fara í vítakeppni til að ná þeirri markatölu. Þann leik unnu Liverpool 3-2.

Semsagt, 7 leikir, tveir sigrar hjá Liverpool, einn hjá Bayern, og fjögur jafntefli, þar af tvö 0-0 jafntefli á Anfield. Já, Bayern hefur sumsé aldrei skorað á Anfield.

En nú er staðan þannig að við erum með knattspyrnustjóra nokkurn sem ber nafnið Jürgen Klopp, og sá hefur nú aldeilis att kappi við Bayern München í gegnum tíðina. Við getum því varla farið í gegnum svona sögustund án þess að skoða það hvernig Klopp hefur gengið sem stjóra gegn Bæjurum í gegnum tíðina. Ef við skoðum hvernig honum sem þjálfara hefur gengið gegn Bayern, þá hefur hann 29 sinnum att kappi við Bæjara, 9 sinnum unnið, 4 leikir hafa endað með jafntefli, og 16 sinnum hafa leikirnir tapast. Reyndar er Bayern München það lið sem hann hefur oftast spilað gegn. Það sem skiptir auðvitað mestu máli í þessu samhengi er samt að Klopp tókst að sigra lið Bayern tvö ár í röð í deildinni, og mætti þeim svo í úrslitum meistaradeildarinnar 2013. Það er því fátt sem gleður Klopp meira en að sigra Bayern, og fátt sem fer meira í taugarnar á honum en að tapa fyrir þeim.

Sameiginlegt lið

Eins og oft vill verða þegar svona stórlið mætast, þá fer maður að skoða hversu margir leikmenn hafi spilað með báðum liðum. Í þessu tilfelli er um allnokkra leikmenn að ræða, en þó ekki nógu marga til að ná í 11 manna lið. Við munum því kasta netinu ögn víðar, og taka með í reikninginn leikmenn sem hafa spilað undir stjórn Klopp hjá Dortmund,auk þess að hafa spilað fyrir Bayern.

Og þá verður niðurstaðan þessi:

Reina

Babbel – Hummels – Kovac – Ziege

Can – Hamann – Alonso

Shaqiri – Lewandowski – Götze

Af þessum leikmönnum þá eru það Hummels, Kovac, Lewandovski og Götze sem léku undir stjórn Klopp hjá Dortmund, en aðrir hafa leikið bæði með Liverpool og Bayern. Can og Reina léku vissulega ekki marga leiki með Bayern, en þeir eru þó fleiri en 1 í báðum tilfellum. Ég held að við gætum alveg verið nokkuð sátt við svona lið, þ.e. ef við gerum ráð fyrir að þarna sé hver leikmaður á hátindi ferils síns.

Andstæðingarnir

Það vill svo skemmtilega til að í þessari viðureign mætast liðin sem eru í sæti nr. 2 í efstu deildum í Þýskalandi og Englandi. Okkar menn eiga vissulega leik til góða á City, en Bayern eru einmitt búnir að leika einum leik meira en Dortmund, og eru þar að auki tveim stigum á eftir þeim. Við getum því sagt að staða Bayern sé ögn lakari, og þá má líka færa rök fyrir því að baráttan á toppinum í Englandi sé harðari en í Þýskalandi, a.m.k. um þessar mundir.

Lið Bayern þykir hafa dalað upp á síðkastið, og er t.d. búið að fá á sig 26 mörk í deildinni í vetur, en fengu á sig 28 mörk allt síðasta tímabil. Það skal þó ekki af þeim tekið að þeir unnu sinn riðil í meistaradeildinni, og eru með gæðaleikmenn í öllum stöðum. Semsagt, engin ástæða til að gera ráð fyrir að þetta verði eitthvað auðvelt.

Það er ljóst að Bayern verða án eins sinna besta leikmanns, en Thomas Müller verður í leikbanni eftir að hafa fengið beint rautt spjald í síðasta leik riðlakeppninnar gegn Ajax. Þá komu fréttir um það að hvorki Ribery né Boateng hefðu ferðast með liðinu til Englands, en það þykir þó líklegt að Ribery komi til móts við liðið þar sem konan hans var víst að eignast barn.

Um síðustu helgi stillti Kovac liðinu svona upp gegn Augsburg:

Neuer

Kimmich – Süle – Hummels – Alaba

Goretzka – Alcántara – James

Gnabry – Lewandowski – Coman

Eitthvað var óljóst með stöðuna á Coman þó hann hafi spilað um helgina, hann virðist ennþá vera að glíma við einhver óþægindi. Annars er líklegt að það verði svipað lið sem mæti á Anfield eins og lék á föstudaginn.

Okkar menn

Það var vitað síðan í lokaleik riðlakeppninnar gegn Napoli að van Dijk yrði í leikbanni í þessum leik. Á þeim tíma hugsuðu flestir “jæja það getur varla verið svo slæmt, við erum með Gomez, Lovren og Matip”. En nei, svo þurfti Gomez að meiðast og kemur alveg örugglega ekki til baka fyrr en í lok mars úr þessu. Lovren er búinn að vera tæpur síðustu daga, og svosem ekki 100% öruggt að hann missi af leiknum á morgun, en það þykir þó alltaf líklegra en hitt. Matip er semsagt sjálfvalinn, og svo er það í raun bara spurning hver þeirra Fabinho, Henderson eða Wijnaldum muni taka að sér að hoppa í miðvarðarstöðuna við hlið Matip. Þá er ég að gera ráð fyrir að Wijnaldum verði leikfær, en það lítur sem betur fer út fyrir að svo verði. Að lokum er Shaqiri búinn að vera að glíma við eitthvað hnjask, og óljóst hvort hann verði leikfær.

Að framansögðu ætla ég að spá liðinu svona:

Alisson

Trent – Henderson – Matip – Robertson

Wijnaldum – Fabinho – Keita

Salah – Firmino – Mané

Hér fær stoðsendingarkóngurinn Milner að tylla sér á bekkinn, en mögulega ákveður Klopp að tefla honum fram frekar en Keita.

Spá

Segjum að leikurinn fari 3-1 fyrir Liverpool. Þær forsendur sem við leggjum til grundvallar þeim spádómi eru að báðar varnir eru ögn vængbrotnar, og báðar sóknarlínur eru öflugar. Það má því reikna með mörkum á báða bóga. Auðvitað myndi maður kjósa að sleppa við útivallarmörk, en aðalatriðið er auðvitað bara að vinna leikinn.

KOMA SVO!

17 Comments

  1. Verður svona trikkí leikur. Fer eftir viljanum og hversu mótiveraðir okkar menn verða, sem ég efast ekki um eitt augnablik að sé jákvætt. Eins hvort skipti meira máli að Muller eða VvD séu frá, mín skoðun er sú að tapið er okkar. VvD er svo margfallt mikilvægari en Muller, svo einfalt er það, en sjáum hvað setur, spái 2-0.

    YNWA

  2. Guð hjálpi okkur ef Henderson verður í miðverði með Matip :-/. Ég vona að Fab verði þar og Milner eða Hendo á miðjunni. Þar sem þeir eiga heima.

  3. Sælir félagar

    Þetta verður leikur hinna löskuðu liða og okkar lið er laskaðra en BM. Þó vonar maður að heimavöllurinn dugi til sigurs. Ég er svo áhyggjufullur fyrir þennan leik að ég þori ekki að spá.

    Það er nú þannig

    YNWA

  4. Sælir félagar er að fara á leikinn, er í fyrsta skipti sem ég fer á Anfield er að deyja úr spenningi. Vonum að þetta fari vel. Er að vonast eftir 3-1 sigri. Kær kveðja YNWA

  5. Fabinho í miðverð með Matip. Hendo, Wijnaldum og Shaqiri á miðjunni.

  6. Sæl og blessuð.

    2016-17 voru það krossböndin.
    2018-19 var það vírusinn: Gini, Virgill og nú Firmino.

    Man einhver eftir öðru eins?

    Nema hvað, að leikurinn í kvöld verður mikil prófraun á Alison og Matip sem þurfa að halda mænu varnarinnar í lagi. Verðum að halda hreinu en það verður ekki auðvelt gegn Lewandowsky og félögum.

  7. Þessar ferðir til Dubai og Spánar eru að kosta okkur þessi veikindi. Breytt loftslag, flug, herbergisfélagar osfr er ekki góð uppskrift ef maður vill forðast vírus.

    En þetta verður mjög spennandi í kvöld, spái þessu 2-1 fyrir okkur, svo förum við til Bayern med VVD og vinnum þá 1-0 þar.

    Svo væri ég til í Real í 8 liða.

  8. Vona bara að menn haldist heilir. Eigum margfalt mikilvægari leik á sunnudaginn.

  9. Firmino klár í leikinn….leikurinn i kvöld er mikilvægari en leikurinn á sunnudaginn vegna þess að hann er í kvöld…

  10. Svona víst að Reddit soccerstreams er hætt að virka þá væri vel þegið ef einhver myndi henda inn link á leikinn í kvöld. YNWA.

  11. Fuck, er stressaður, vill bara sigur í næstu tveimur leikjum. Það verður massív svartsýnisböl ef við klárum ekki þessa leiki.

  12. Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, Fabinho, Robertson, Wijnaldum, Henderson, Keita, Mane, Salah, Firmino.

    Subs: Mignolet, Milner, Sturridge, Moreno, Lallana, Shaqiri, Origi.

Kvennaliðið mætir Milwall í 16 liða úrslitum FA bikarsins

Liðið gegn Bayern