Byrjunarliðið gegn Burnley á Anfield

Þá erum við mætt til leiks á Anfield á hvíldardeginum sem hefði átt að vera en forheimska hins forkastanlega F.A. lætur okkur spila í dag þrátt fyrir stórleik í Bæjaralandi á miðvikudaginn. Okkur er því neitað um auka dag í hvíld og undirbúning af því að F.A. nenna ekki að gæta hagsmuna enskra liða í Evrópukeppninni. Klopp lét enda orð falla um þennan kjánaskap knattspyrnuvitringanna í höfuðstöðvunum á blaðamannafundi gærdagsins og fyrir áhugasama er hægt að hlýða á það meðan tíminn er drepinn fram að upphafsflauti:

Forskot Man City jókst í 4 stig eftir dómaraskandal gærdagsins í viku þar sem knattspyrnusambönd allra koppagrunda hefja rannsókn á svindli Englandsmeistaranna á fjármálareglum EPL, CL, FFP, Seðlabanka Íslands, Matador o.fl. Púlarar ættu þó ekki að binda of miklar vonir við að neitt meira en handarbakshögg komi út úr því og við treystum þessum samböndum algerlega til klúðra því af sinni einstöku snilld að taka á þessu svindli. Sem er sorglegt því að vísvitandi og forhert svindl sem þetta skemmir fótboltann og auðvitað ætti að taka grjóthart á því. Svindl er svindl er svindl.

En aftur að verkefni dagsins sem er að fá smábæjarliðið Burnley í heimsókn en það er hálfgert úthverfalið í Manchester og rétt hjá Blackburn. Sean Dyche hefur verið að vinna í því upp á síðkastið að komast upp óvinsældalistann yfir leiðinlega starfandi stjóra og átti sitt Warnock-móment í jólaleik liðanna með argaþrasi við meistara Klopp. Þar var Gomez beinbrotinn í ljótu broti í leik þar sem tæklingarnar flugu þegar “Allar-Dyche” ákvað að fara nokkra áratugi aftur í tímann með enska fornaldartaktík. Sem betur fer varð honum ekki kápan úr því klæðinu og liðið sem nennti að spila alvöru fótbolta vann leikinn. Spurningin í dag er því hvort að sama nálgun verði á boðstólunum en Dyche var ögn að bera klæði á vopnin með því að þykjast vera Púlari innst inni. Ef það er eitthvað satt í því þá ætti hann glaður að geta hætt að beinbrjóta leikmennina okkar og samglaðst ef Rauði herinn fær öll 3 stigin í boði í dag!

Sean Dyche hefur rangt fyrir sér í rifrildi við Herr Klopp

En Klopp hefur klárað að kvitta undir liðsskýrsluna og uppstillingin er eftirfarandi.

Bekkurinn: Mignolet, Lovren, Henderson, Keita, Shaqiri, Origi, Sturridge.

Mest megnis okkar sterkasta lið en Adam Lallana fær sénsinn í dag og það verður eflaust lífleg umræða um þá ákvörðun. Bekkurinn sterkur ef þarf að bregðast við og gera breytingar.

Dyche hefur einnig skilað inn sinni skýrslu og hún er svona:

Jói Berg bíður á bekknum ásamt stórPúlaranum Peter Crouch sem fær eflaust vinalegt klapp frá The Kop.

Upphitunarlag dagsins er hið djúpfjólubláa brunalag til að taka á móti Burnley með eldi og brennistein. Vonandi kveikir það hressilega í leikmönnum og stuðningsmönnum innan Anfield sem víðar. Hækkið í græjunum!!

 

Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


 

49 Comments

  1. Guð minn góður Klopp er að breytast í rodgers. Annaðhvort er hann búinn að missa vitið eða hann er að trolla okkur. Lallana virkilega við ætlum að spila með 10 menn semsagt. Yrði ekki hissa ef hann fer útaf meiddur innan við 60 mín eftir að hafa dottið nokkrum sinnum útaf vindinum. Það er spáð miklum vind og haglél þannig við erum í vondum málum. ég veit að ég veit ekki meira en Klopp en vá hvað maður er reiður yfir að sjá þetta í titilbaráttu 2019

  2. Þetta gæti orðið erfiður leikur. Það er mikið rok í Englandi og við sáum þó nokkur mörk í gær eftir utspörk frá markmanni. Það er einmitt sterkasta hlið Burnley þeir eru með tvo lunkna stóra framherja. En fyrst og fremst þarf Liverpool að fara skora. Spái að Salah fari í gang.

    1
  3. Finnst mikið betri hugmynd að nota Lallana á miðjunni en frammi ef það á að nota hann á annað borð. Ég hefði ekki haft hann í liðinu en hann er sóknarsinnaðari en margir af hinum miðjumönnunum og ef til vill hefur hann verið frískur á æfingum undanfarið.
    Ég styð Klopp heilshugar og vona að Lallana stígi upp og troði sokk í marga með góðum leik.
    Ég spái 3-0 sigri þar sem Lallana leggur upp eitt mark og Salah skorar eitt. Spái því að Mané skori eitt markanna og ætli Shaqiri komi ekki bara inn í seinni hálfleik og setji síðasta.
    YNWA

    8
  4. Hef fulla trú á liðinu í dag og já líka Lallana. Lallana var eitt sinn einn af okkar bestu leikmönum og einn af bestu leikmönum Englands(lykilmaður í landsliðinu) en meiðsli hafa gjörsamlega skemmt fyrir honum undanfarinn ár en EF(ath stórt) hann nær að halda sé heilum þá er þetta einfaldlega góður leikmaður en það er ekki auðvelt að vera í og úr liði og í og úr meiðslum undanfarinn 3 ár.

    Spái 2-0 sigri hjá Liverpool

    8
  5. Ég stend með herra Klopp, Liverpool og Lalla.
    Hef enga trú á öðru en Lalli troði sokk upp í efasemdar raddir og ef ekki skal ég dapur japla á sokk. Ég hef smá áhyggjur af litla svissneska köglinum okkar hann virðist ekki ná að heilla stjórann okkar. Keita og Hendó koma svo sprækir inn í liðið á móti bæjurum og sjá til þess að við komumst áfram.

    7
  6. ja hérna þá er þetta búið mark beint úr hornspyrnu jesús kristur.

    1
  7. Djöfulli er maður orðinn ógeðslega þreyttur á hvað dómarar i englandi eru arfaslakir og bara algjörlega til skammar hvernig i andskotanum getur þetta verið löglegt að 2 leikmenn haldi markverði niðri

    1
  8. Þá byrjar mótlætið, Matip skallar klaufalega í horn og við fáum á okkur klaufalegt og ólöglegt mark.

    P.s er í VAR í þessum leik?

    2
  9. Ha ha ha dómarinn er ALDREI að fara hjálpa Liverpool hættið þessu væli 🙂

  10. Guð minn almáttugur hvað þessi deild er oft illa dæmd, þetta var allann daginn aukaspyrna það var brotið á Alisson!
    Big Shaq í frystinum hjá Klopp, mætti halda að hann hafi sofið hjá konunni hans Klopp eða eitthvað álíka.
    Koma svo áfram rauðir YNWA!

    3
  11. Ég bara trúi þessu ekki, það var svo augljóslega brotið á Alisson! Hvers konar dómgæsla er þetta??

    3
  12. Dómararnir ætla einfaldlega að gefa city titilinn… hafa verið hræðinlegir í okkar leikjum undanfarið og á sama tíma dæma þeir allt city í vil (t.d. fyrsta mark Sterling í gær og vítið sem þeir fengu á móti west ham).

    7
  13. Við höfum nú allavega nógan tíma til að skora eins og 4 mörk 🙂 KOMA SVO !

    6
  14. “Welcome back, Adam Lallana”, sagði þulurinn hjá mér. Bara að segja…

    21
  15. Sæl og blessuð.

    Hef þetta frá bbc: ,,Oliver Gradwell: Lallana has been brilliant so far. So much for those armchair managers moaning about his inclusion. Greg Henderson: Where are all the Lallana critics hiding now. Guys doing a great job out there.”

    Það ekkert minna en stórbrotið ef ,,hinn enski Cruyff” stígur upp nú á lokametrunum! Svo þurfum við að fá hinn ,,gíneska Joe Allen” í gang að nýju og ekki væri nú verra ef þrumarinn frá Sviss færi líka að jafna sig af hverju sem er annars að hrjá hann.

    En þetta lið fær ekki mikið frí fyrir rimmuna á miðvikudaginn. Svo mikið er ljóst.

    3
  16. 45 mín búnar og okkar menn eru miklu betri.
    Fengum mark í andlitið þar sem klárlega var brotið á Alisson og er það eiginlega rannsóknarefni hvernig var ekki hægt að sjá það.
    Eftir markið var eins og okkar menn einfaldlega skiptu um gír og slátruðu gestunum út á vellinum og voru mjög ógnandi og skorðuðum við tvö mörk.
    Matip/Trent ásamt dómara leiksins búnir að eiga lélegan dag en hjá okkur hefur Lallana verið að tropa sokk uppí nokkra með frábærum fyrirhálfleik þar sem hann vinnur boltan, skilar honum vel frá sér og er með mikla vinnslu sem var grunnur að marki númer 2.
    Menn mega alveg gera grín af umælum Klopp um vind um daginn en hann hefur áhrif í dag eins og sést.
    Nú þarf bara að halda áfram og passa að við gefum ekki mikið af aukaspyrnum eða hornspyrnum þar sem þeir eru stórhættulegir(og ég tala nú ekki um ef það má halda í Alisson).

    Það sem stendur samt uppúr er hvernig okkar menn brugðust vel við eftir að hafa lent marki undir en það mátti lesa skrif nokkra á þessu spjalli að þeir gáfust upp eftir 6 mín leik og þakka ég fyrir að þeir aðilar eru ekki inná vellinum í Liverpool búning

    YNWA

    18
  17. Var á leiknum í dag frábær skemmtun, skrítið veður, rigning,hagl,sól til skiptis og nokkur vindur.
    Jói að skora og Liv að spila flottan bolta. Fékk allt fyrir peninginn

    2
  18. Einhver með tips hvernig er best að éta sokk? Á maður að bleyta hann eða er betra að hann sé þurr?

    1

Burnley á sunnudaginn

Liverpool 4-2 Burnley