Everton á morgun!

Þegar leikjaskipulagið fyrir ensku Úrvalsdeildina er gefið út á hverju sumri horfa nær allir Liverpool-menn fyrst til fjögurra viðureigna; heima og úti gegn Manchester United og Everton. Þetta eru erkifjendurnir, þetta er rígurinn, þetta eru leikirnir sem skipta einfaldlega meira máli en hinir leikirnir. Hér er meira í boði en bara stigin þrjú.

Með þetta í huga má segja að okkar menn hafi byrjað deildina fullkomlega með því að leggja United af velli fyrir tveimur vikum í fyrsta af þessum fjóru stóru hatursleikjum. Nú er komið að þeim næsta, en í hádeginu á morgun ferðast okkar menn alla leið yfir á Goodison Park og spila gegn Everton í Úrvalsdeildinni.

Hvað byrjunarliðin varðar er það helst að frétta Everton-megin að menn eru ekki vissir hvort Tim Cahill og Louis Saha eru orðnir nógu góðir til að geta byrjað leikinn, en reiknað er með að aðrir verði með. Everton-liðið hefur verið upp og ofan í byrjun tímabilsins – skorað nokkuð vel en ekki með jafn stöðuga vörn og oft áður. Þeirra heitasti maður um þessar mundir er framherjinn Yakubu en sem fyrr má gera ráð fyrir að frammistaða þeirra velti að miklu leyti á spænska leikstjórnandanum Mikel Arteta.

Liverpool-megin er Degen meiddur eins og venjulega og Mascherano og Benayoun tæpir en annars ætti Rafa að hafa úr fullum leikmannahópi að velja. Spurningin er hins vegar; hvernig getur hann stillt upp liðinu til að eiga sem mestar líkur á að ná að skora mörk í þessum leik? Þeir Torres, Babel og Kuyt hafa ekki beint verið að tendra bálkesti í framlínunni það sem af er tímabili með aðeins eitt mark hver í öllum keppnum, á meðan stórkaup sumarsins, Robbie Keane, hefur ekki enn komist á blað frekar en aðrir. Okkar markaskorun í vetur hefur nær alfarið komið með góðum langskotum Steven Gerrard og ýmissa annarra. Að því gefnu að Gerrard virðist vera sá eini sem er að spila af einhverri getu sóknarlega held ég að Rafa muni leggja liðið upp með það fyrir augum að nýta fyrirliðann sem best í sókninni.

Ég spái því að Rafa stilli upp eftirfarandi liði á morgun:

Reina

Arbeloa – Carragher – Skrtel – Dossena

Mascherano – Alonso
Kuyt – Gerrard – Keane
Torres

**Bekkur:** Cavalieri, Agger, Aurelio, Lucas, Riera, Babel, Benayoun.

Ef Mascherano nær ekki að byrja sé ég Lucas fyrir mér koma inn í hans stað og Pennant, Hyypiä eða Ngog þá inn á bekkinn í stað hans eða Benayoun.

Þetta er lið sem á hæglega að geta lokað á alla sóknartilburði Everton-manna og svo reynst þeim bláu skaðlegt í skyndisóknum á móti. Það er nú einu sinni svo með viðureignir þessara liða að staða í deildinni segir yfirleitt ekki mikið. Þetta eru styrjaldir og dagsformið ræður yfirleitt öllu um það hvorum megin sigurinn lendir. Því munum við sem fyrr sjá Everton-liðið byrja af krafti á morgun og pressa, stutt áfram af sínum aðdáendum á heimavelli, þannig að það veltur mikið á því að okkar menn haldi haus, loki snemma á sóknartilburði Everton-liðsins og byggi svo upp sínar sóknir á þeirri byrjun.

**Mín spá:** Ég held að við fáum markaleik á morgun. Everton-menn selja sig dýrt í þessum leik en vörnin þeirra hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið. Ég ætla að vera bjartsýnn og skjóta á að Torres og Keane nýti sér leka vörn Everton-manna til að hrista báðir af sér slenið og tryggja okkur **2-1 sigur** með sitt hvoru markinu. Maður leiksins verður þó Pepe Reina sem fær nóg að gera á morgun.

Ég vona að ég hafi rétt fyrir mér. Í þessum leikjum skiptir öllu að tapa ekki, helst sigra en jafntefli í lagi (og vinna þá svo á Anfield). Bara ekki tapa montréttinum sem liðið vann sér inn með tveimur sigrum á síðustu leiktíð.

YNWA!

21 Comments

  1. Er 2-1 markaleikur? En allavega, hlakka verulega til þessa leiks, á von á að Dirk nokkur Kuyt eigi stórleik í pressuvörninni og taki Lescott í landhelgi allavega tvisvar og upp úr því komi mörk. Sammála með byrjunarliðið nema hvað ég á frekar von á Gerrard á miðjunni ef Mascherano er ekki klár og þá annað hvort Babel eða Benayoun (hope not) inn. Og Keane fyrir aftan Torres. Svo gæti líka Kuyt farið vinstra megin og Gerrard hægra megin. En þá er maður næstum því hættur að spá.
    http://www.knattspyrna.bloggar.is

  2. sammála því að gerrard verði í holunni, en ég held að riera verði á kantinum og að keane verði hreinlega á bekknum.

    fyrir utan það er ég sammála upphituninni í einu og öllu 🙂

  3. Það er bara lykilatriði að Mascherano verði heill, hann er að verða einn af 3 mikilvægustu leikmönnum. En þetta verður skemmtilegur leikur, það er víst.
    Svo er það bara áfram Keflavík á morgun…. 🙂

  4. Mike Riley dæmir á morgun………………………………………………………. boðar ekki gott enda er hann með verstu dómurum sem ég veit um. Myndi frekar vilja Kristinn Jak heldur en Mike Riley

  5. Mascherano og Benayoun eru víst tæpir þannig að ég held að við spilum með Gerrard og Xabi á miðjunni, Riera og Kuyt á köntunum og Keane fyrir aftan eða með Torres frammi, og svo með vörnina og markamanninn að sjálfsögðu eins og þú hafðir liðið fyrir ofan 🙂

  6. Kar segir;

    Í þessum leikjum skiptir öllu að tapa ekki, helst sigra en jafntefli í lagi

    Ég er ansi hræddur um að Rafa sé einmitt að hugsa það sama, og því verði liðið ekki nægilega sókndjarft á morgun. Því miður þá kæmi það mér ekki á óvart þó svo að margir liverpool stuðningsmenn yrðu vonsviknir með morgundaginn, og margir færu að tala um punginn á Rafa.

    En ég er sem betur fer ekki einn af þeim, er bjartsýnn að vanda og spái okkur 0-3 sigri. Þetta verður ekkert mál.

    svo minni ég Liverpool stuðningsmenn á, að það er FÁNADAGUR Á AKUREYRI á morgun.. mæting klukkutíma fyrir leik, á Allann Akureyri.

    sjáumst…Carl Berg

  7. Ef Mascherano verður ekki með, þá færa Gerrard þangað og Keane í holuna eða öfugt, Riera á kantinn. Annars mundi ég vilja Agger í stað Masch, ef hann verður ekki með, Keane á bekkinn, Riera á kantinn að sjálfsögðu, og taka þettað 3- 0. Ég er viss um að Agger mundi plumma sig þarna, og skjóta og skora…..Koma svo Livrpoooooool

  8. Enga huglausa uppstillingu takk Rafael.

    Reina
    Arbeloa, Skrtel, Carra, Dossena
    Mascherano, Alonso
    Babel, Gerrard, Rieira
    Torres

    Ef Masch er ekki með þá vil ég Gerrard niður og Keane í holuna.

  9. í guðanna bænum hættu að spá því að Keane skori… það er greinilega óhappa!!! Ég held að hann skori ekki 😉

  10. Endar 1-1…..Riley á slakan leik, dæmir víti á Liverpool og sleppir augljósu víti á Everton. Torres skorar loksins.

  11. Það er fínt að fá þær upplýsingar að Riley dæmi leikinn. Þá getur maður búið sig undir allt milli himins og jarðar og vonbrigðin verða minni eftirá… Maður getur jafnvel leyft huganum að reika, að því hverju hann tekur uppá á morgun. Ferskt bet…
    0-0

  12. Ég held að Rafa setji Agger í liðið og færi Carra í hægri bakvörð og setji Arbeloa vinstra megin. Dossena ekki að gera sig og Arbeloa hefur spilað vinstra megin áður. Hef einhvern þessa trú.

  13. Ætla að vona það, þ.e.a.s. að Agger spili. Annað hvort í vinstri bak, sem hann hefur leist áður með ágætum eða eins og Hörður segir með Carra í hægri… Djö…. væri ég til í að sjá Nemeth, Pacheco og Eccelston fara að láta sjá sig á bekknum. Benítez hvernig væri að fara að nota eitthvað af unglingunum sem þú kaupir, þeir eru tilbúnir !!!

  14. Það er ekki séns að hann fari að færa Carra í bakvörðinn meðan liðið er bara búið að fá á sig 2 mörk í 5 leikjum í deildinni. Dossena fær meiri tíma til að sanna sig.

    Og hversu góður er Mascherano Höddi 🙂

    Held að KAR hafi tippað á nánast rétt byrjunarlið nema Babel gæti hugsanlega komið inn í stað Alonso og Gerrard færst aftar (hans óskastaða) og Keane í holuna fyrir aftan Torres. Enda fer Keane að hrökkva í gang í þeirri stöðu sama hvað efasemdamennirnir segja.

    1-2 Torres og Kyut

  15. Torres skorar en ég vil að Keane skori en ég vil sjá Agger spil meira og verður inná með carra og Arbeloa og Aurelio á kantinum í vörn en Babel
    verður að spila meira en mig hefur vilja sjá Agger spil miklu meir en ekki á Bekknum. en mig lángar að torres komist í gáng og líka Keane.

  16. Torres skorar en ég vil að Keane skori en ég vil sjá Agger spil meira og verður inná með carra og Arbeloa og Aurelio á kantinum í vörn en Babel
    verður að spila meira en mig hefur vilja sjá Agger spil miklu meir en ekki á Bekknum. en mig lángar að torres komist í gáng og líka Keane. en
    listi sem ég vil liverpool kaupir. David Villa,Berbatov, Barry,Cesc Fabregas
    eða staðin fyrir Berbatov þá Aguero

  17. Mascherano er frábær leikmaður Brynjar aldrei sagt annað en ég skildi aldrei og geri ekki enn þetta Ól dæmi það munaði litlu að Liverpool kæmist ekki í CL.

  18. Mascherano er geðveikur leikmaður, hann hleypur hratt og er sterkur. Vinnum þennan leik 1-0 og Torres skorar….

    Áfram svo Keflavík!!

  19. Liðið er komið, óbreytt frá Stoke-leiknum: Reina, Arbeloa, Dossena, Carragher, Skrtel, Alonso, Gerrard, Kuyt, Riera, Keane, Torres. Bekkur: Cavalieri, Agger, Hyypia, Aurelio, Pennant, Babel, Lucas. Mascherano og Benayoun ekki leikfærir.

kop.is á facebook! (uppfært)

Liðið gegn Everton