Liverpool 2 – Porto 0

Þetta var hressandi leikur. Þetta var ekki “við verðum að finna einhverja leið til að skora” leikur. Þetta var ekki “allir stuðningsmenn með hjartað í brók” leikur. Þetta var “drullið ykkur frá Porto, við erum bara betri en þið” leikur. Það var yndislegt að setjast niður og bara vera afslappaður yfir Liverpool leik, ansi langt síðan það gerðist síðast.

Gangur leiksins

Portúgalarnir byrjuðu leikinn af krafti. Maður átti von á að þeir myndu pakka í vörn en fyrstu mínúturnar sóttu þeir stíft án þess að skapa sér nein alvöru færi. Andartak óttaðist maður að leikmenn Liverpool hefðu komið inn í leikinn með eitthvað vanmat í hjarta, maður óttaðist að Porto í hefndarhug myndu gera þetta að löngu erfiðu kvöldi á Anfield.

Svo skoraði Keita.

Markið átti upphaf sitt á vinstri kantinum þar sem Mané fékk boltann og sótti í átt að teignum. Hann gaf boltann inn á Firmino sem var vinstra megin en full nálægt endalínunni til að reyna að skjóta sjálfur, svo brassinn rúllaði boltanum út á Naby Keita milli vítateigslínurnar og vítapunktsins. Naby okkar tók eina snertingu til að koma boltanum í góða stöðu. Skotið hrökk af varnarmanni Porto og það í netið, Keita okkar komin með tvö mörk í tveim leikjum!

Eftir þetta var eins og maður væri að horfa á Liverpool í Meistaradeildinni, haustið 2018. Pressan var á milljón, Porto reyndi að sækja en misstu boltann aftur og aftur og í hvert sinn sem okkar menn náðu honum voru sturlaðar sendingar fram og til baka sem voru svo nálægt því að skapa marktækfæri. Það var eins og Keita hefði fengið þrjá orkudrykki fyrir leik, hann var út um allt að pressa og þegar hann náði boltann var hans fyrsta hugsun að bruna á vörnina og reyna að skapa færi.

En það flottasta sem gerðist á þessum kafla var enga síður varnarvinna. Eftir Liverpool horn komust Porto í skyndisókn og leikmenn Liverpool flestir hátt upp á velli. Þetta leit út fyrir að geta orðið hættulegt en Mo Salah tók svakalegan sprett, komst fram fyrir sóknarmann Porto um það bil sem hann var að fá boltann, hirti knöttinn og svo var brotið á honum. Að súperstjarnan okkar sé að vinna svona leiðindavinnu fyrir liðið segir margt gott um Salah og liðsandann í liðinu.

Á 25. mínútu tvöfaldaði Firmino svo forystu okkar manna. Porto voru að verjast með átta manns bakvið boltann. Firmino sendi boltann á Henderson og hélt áfram hlaupi sínu inn í markteig. Fyrirliðinn okkar sendi fullkomna stungu sendingu inn á milli Porto mannanna á Trent Alexander-Arnold hægra megin, sem lét boltann ganga áfram á Firmino með laufléttri sendingu. Firmino óvaldaður inn í markteig og slúttaði af öryggi, staðan 2-0 Liverpool og Anfield í mjög góðu skapi.

Skömmu síðar vildu Porto menn fá víti fyrir hendi á Trent inn í teignum. Ég ætla ekki að þykjast skilja hvar línan milli hendi og bolti í hönd er, en dómarinn lét þetta ganga til VAR og ætla að gera ráð fyrir að það hafi verið rétt að dæma það ekki. Það er líka ekki að segja að Porto hafi ekki átt færi í leiknum, Alisson sannaði enn og aftur hví hann var dýrasti markmaður í heimi með flottri handboltavörslu þegar Marega komst í maður á mann, en hann var allt í öllu í sóknarleik Porto manna.

Það er mér fyrirmunað að skilja hvernig þessi leikur endaði 2-0. Í fyrstu tuttugu mínútur seinni hálfleiks réðu Liverpool lögum og lofum á vellinum og Porto komst varla útúr eigin vítateig. Sama mynstrið endurtók sig aftur og aftur: Liverpool byggja upp sókn, Liverpool reyna að koma boltanum á mann í teignum, Porto nær að komast inn í sendingu, Liverpool ná boltanum aftur strax, Liverpool byggja upp sókn. Aftur og aftur en það tókst ekki að skapa dauðafærið til að slútta einvíginu.

Svo rann leikurinn eiginlega út í sandinn. Porto byrjuðu að færa sig upp á skaftið sem Brahimi kom inn á fyrir Soares. En Liverpool menn virtust nokkuð sáttir við að taka leikinn tvö núll þegar á leið seinni hálfleik og Porto þorðu ekki að setja of marga menn í sókn af ótta við skyndisóknir okkar manna.

Einvígið ekki búið en okkar menn í virkilega góðri stöðu fyrir seinni leikinn.

Bestu menn Liverpool

Þetta var Jordan Henderson frá tímabilinu 2013/14. Það hentar honum mun betur að vera aðeins framar á vellinum, hann var geggjaður annan leikinn í röð og átti stóran þátt í seinna markinu. Van Dijk var eins og góður og venjulega og Alisson tók mikilvægar vörslur. Svo má alveg nefna Trent í þessari umræðu. En ég ætla að útnefna Naby Keita mann leiksins. Í fyrsta sinn í vetur sáum við leikmanninn sem við héldum að við værum að kaupa á sínum tíma og það sem hann má halda þessum leik áfram. Hann var frábær í að pressa, sótti á vörnina og svo ekki sé talað um markið sem hann skoraði.

Vondur dagur.

Það var enginn áberandi slæmur í dag, en nokkrir voru mistækir. Mér fannst Fabinho frábær oftar en ekki en inn á milli sendir hann full glæfralega Lovren var síðan klárlega aðeins ryðgaður, gerði ekki nein stór mistök en var nálægt því. Eins og ég sagði, engin áberandi slæmur en þeir tveir eiga meira inni.

Umræðupunktar.

  • Fyrir mér er þetta sterkasta miðja Liverpool, sérstaklega á móti minni liðunum. Þeir eiga eftir að slípa sig saman og ég held að Klopp muni alltaf velja Hendo, Gini og Milner í stóru leikina en móti liðum sem munu liggja í vörn er þetta framtíðin.
  • Matip missti sæti sitt í liðinu, Lovren hefur átt betri daga en enga síður náðum við í hreint lak í fyrsta sinni í nokkra leiki. Held að ef engin meiðist þá sé þetta hafsentaparið út tímabilið.
  • Það er svo fáránlega dýrmætt að vera komin með góða stöðu í þessu einvígi. Klopp þarf lítið að pæla í seinni leiknum þegar hann stillir upp fyrir Chelsea, á meðan helsti keppinautur okkar er í erfiðri stöðu fyrir seinni leikinn gegn Tottenham.
  • VAR mun ekki útrýma dómaramistökum, né sérfræðingum í sjónvarpsþáttum að þræta um ákvarðanir dómaranna. En kerfið er búið að batna mikið síðan það mun prufa og megi það lengi halda áfram.
  • Shaqiri kom næstum inná! Hann var tilbúin og allt í uppbótartíma en boltinn komst ekki úr leik.
  • Origi er mjög fínn sem fyrsti maður af bekknum. Ef hann fer í sumar verð ég virkilega pirraður.

Næst er það Chelsea á sunnudaginn! Bara fimm leikir eftir í deild og max fjórir eftir í Meistaradeildinni, þessu tímabili er alveg að ljúka maður er farin að vera vongóður á að því ljúki með einni eða jafnvel tveim (!) bikurum!

22 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Þriðja mark liverpool hefði verið kærkomið – en þetta á að vera gott vegarnesti fyrir seinni leikinn.

    Vörnin þeirra er mun betri en síðast. Erfitt að komat í gegnum þetta og stundum vildu menn hafa þetta aðeins og flókið, líka.

    Bestu þrír:

    3. Hendó: Svakalegur í leiknum og þeir hafa örugglega verið lafhræddir við hann.
    2. Keita: Æðislegt sjá hvað býr í kauða. Fullt af flottum augnarblikum og markið var bara ljómandi fínt!
    1. Virgill: Mmmmmaðurinn. Það þarf ekki að segja meira. Kóngurinn, keisarinn og einvaldurinn á okkar vallarhelmingi. Allt sem hann gerir ilmar af öryggi, fagmennsku og blómstrandi gæðum.

    25
  2. Frábær fyrri hálfleikur en rólegri seinni hálfleikur. Héldum samt hreinu og settum tvö. Næst er það celski, þeir spila á fimmtudaginn sem er gott fyrir okkur. Flestir góðir hjá okkur og eigum inni Robertson. Hann kemur vel úthvíldur í næsta leik á sunnud. Góð úrslit í hinum leiknum í cl í kvöld 🙂

    4
  3. Mikilvægast var að fá ekki á sig mark vegna þess að þetta lið er skeinuhætt og allrar varúðar er þörf. Hefðum þurft að setja þriðja markið til að geta andað rólegar en þetta er Liverpool sem þýðir astmi, súrefni og innöndunarlyf í næsta leik.

    1
  4. Ekki okkar besti leikur en mjög fagmanlega leikinn leikur þar sem við stjórnuðum honum allan tíman en gestirnir áttu sína spretti.
    2-0 sigur er fín staða fyrir síðarileikinn þar sem heimamenn þurfa að sigra okkur með þriggja marka mun til að komast áfram en ef við hefðum getað náð í 3-0 þá hefði þetta einvígi verið búið.

    Henderson maður leiksins, Dijk heimsklassa eins og alltaf og Keita átti nokkrar fínar rispur.
    Lovren átti solid leik og er líkamlega sterkari en Matip og var það líklega ástæðan fyrir því að hann spilar gegn líkamlega sterkum framherja Porto.
    Fabinho átti í smá basli í þessum leik með því að missa boltan og selja sig nokkrum sinnum.

    Það var engin að meiðast hjá okkur, Lovren fékk 90 mín, Gomez var í hópnum og Mane/Firmino fengu pínu extra hvíld í þessum leik.

    YNWA – Nú er það bara Chelsea og það verður rosaleg barátta.

    4
  5. Henderson aftur frábær, trúi ekki ég lesi aftur fáránleg ummæli eins og hann eigi ekki heima í Liverpool liðinu. Ég er ekki að segja hann eigi alltaf að byrja en fólk verður að meta hvað hann er að spila vel fyrir liðið á þessum mikilvægu tímum.

    Annars frábær leikur hjá sumarkaupunum Keita og Fabinho. Og liðinu öllu sem náði í þessi góðu úrslit.

    8
  6. Fannst miðjumennirnir bera af í þessum leik
    Í þessari röð:

    3.Keita, gott mark og flottur með bolta, hljóp eins og tittlingur og varðist vel líka. Er að fá sjálfstraustið til baka og það sést, þá einna helst þegar hann keyrir inn að marki, fíla það.

    2.Hendo, semi assist á kallinn í marki nr2, frábær bolti og var að bjóða uppá vandaðar sendingar í allt kvöld. Hljóp líka eins og tittlingur og var flottur varnarlega og heilt yfir.

    1.Fabinho, persónulega er ég bara að fíla hvað gæjinn er að vinna hrikalega góða varnarvinnu og vinna marga bolta á miðjunni, þurfti ekki að hlaupa eins og tittlingur staðsetningar hans voru það góðar, les leikinn vel og rólegur á bolta, var hreinlega fab-úlus.

    Þessi leikur vannst á miðjunni, Porto skeinuhættir í nokkrum skyndisóknum en miðjan hjá þeim komst heilt yfir aldrei í neinn takt við þennan leik þannig lagað séð vegna vinnusemi miðjumanna okkar og jú alls liðsins hreinlega sem mér fannst vinna vel varnarlega sem lið.Fleira var það ekki.
    On to the next one. YNWA

    8
  7. Sælir félagar

    Ég er ánægður með niðurstöðu leiksins og okkar menn voru klassa betri meirihluta lhans. Allir voru góðir þó misgóðir væru og Salah virðist ekki geta rifið sig uppúr markaþurrðinni. Ég hafði alveg þegið eitt mark í viðbót frá honum en vanþakka ekki 2 – 0

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  8. Miðjan frábær sérstaklega Keita og Hendo Hefðum átt að klara þetta með þriðja markinu en vel gert án Robbo. Lovren var Lovren lélegur maður er alltaf með áhyggjur þegar hann er inná. Ég bilast ef að hann byrjar á móti Chelski. Ég elska að annað árið í röð er kominn apríl og maður er enn ekki búin að segja “það er alltaf næsta ár”

    5
  9. Skil ekki þetta VAR dæmi … af hverju fékk Mane markið ekki að standa ? Augljóslega var hann réttstæður en Firmino rangstæður.

    5
  10. Þetta var bara alvöru frammistaða í kvöld, frábær úrslit. Ef maður væri í skapi til að tuða yfir einhverju væri það alveg hægt líka, en ég er virkilega sáttur með frammistöðuna og úrslitin.

    Sérstaklega er ég ánægður að sjá framfarir í myndbandsdómgæslu.

    2
  11. Liverpool er aldrei að fara að tapa með 3.mörkum fyrir þessu liði á hvaða velli sem er.

    5
  12. Góður sigur hjá Liverpool gegn slöku Portó liði. En var samt ekki rangstöðulykt af öðru markinu svona ef menn geta tekið niður Liverpool gleraugun?

  13. Þetta lið er stórkostlegt! Hlakka til að fá barca í heimsókn ef planið okkar gengur upp!

    4
  14. Folk sem eru að væla yfir því að Porto fékk ekki vítaspyrnu vita ekkert um fótbolta. ekki blautan. Þetta var aldrei víti á TAA. Boltinn á leiðinni útaf og enginn í kringum hann og höndin er á sínum stað.
    Frábær dómgæsla í dag.

    4
  15. Hvað á maður að segja, nema við vorum tveimur númerum meiri, það vissu það allir, meira að segja þeir sjálfir. Þetta lið okkar er magnað. Að halda Keita svona til hliðar gera bara snillar, núna springur hann út eins og falleg rós að vori.

    YNWA

    6
  16. Frábær frammistaða hjá okkar fallega og skemmtilega liði. Það verður áhugavert að sjá hvernig scums-barca verður í kvöld. Það er veisla hjá okkur og ég held að niðurtúrinn hjá óla gunnari (smígel) sólskjær sé hafinn og að þeir eiga ekki séns í þetta risalið frá barca. Myndi alveg vilja að barca myndi rassskella þá.

    1
  17. Takk fyrir þetta og fínar umræður. Liðið okkar heldur áfram að massa það. Úrslitin koma ekki á óvart og eitt til tvö mörk í viðbót hefðu heldur ekki komið á óvart.
    Núna fjölgar á Hendó vagninum og held ég þeir ættu að þegja sem telja hann ekki nógu góðan fyrir liðið. Helst það sem hrjáir Hendó er að hann hefur verið fulloft í meiðslum undanfarin ár sem hefur gert það að verkum að hann er nokkurn tíma að komast í gírinn á ný. Klopp hefur viðurkennt að hafa spilað Hendó í vitlausri stöðu þ.e. sem djúpan á miðjunni. Það hafi þó fyrst og fremst verið gert af því að ekki var mörgum að dreifa fyrir komu Fabhino sem er vaxa vel inn í hlutverkið sem afturliggjamdi miðjumaður. Ef Hendó heldur áfram eins og í síðustu leikjum þá styrkist miðjan fyrir lokatörnina.
    Varðandi liðið í heild þá er ég rosalega sáttur með hvernig menn hafa unnið sig út úr slæma kaflanum eftir áramót. Klopp hefur náð að hrókera nokkuð á miðjunni enda er lið ekki bara 11 menn heldur er í góðu liði eins og Liverpool amk 14-18 sem geta spilað á svipaðri getu eða sem næst því. Origi, Lallana, Shagiri og Lovren væru sennilega byrjunarliðsmenn í 18 liðum í PL.

    5
  18. Varðandi VAR og markið sem var dæmt af, ég held að línuvörðurinn hafi dæmt ranglega rangstöðu, en fyrir VAR til að snúa dóminum af vellinum þarf það að sjást 100% að dómurinn var rangur, í markinu er Mane samsíða varnarmanni og sem sóknarmaður á að njóta vafanns, en vegna þess að línuvörðurinn dæmir rangstöðu getur VAR dómari ekki snúið þeim dómi vegna þess að það var ekki 100%. sem sagt, ef línuvörður hefði slept því að lyfta flagginu þá hefðu VAR dómararni metið þetta Mane í hag og markið staðið.

    að sama skapi með hendina, þá þorði dómarinn ekki að dæma á Arnold og ætlaði að láta VAR um þetta sem sjá að það eru verulegar líkur á að Arnold væri kominn útaf.

    2
  19. Coutinho og Suarez byrja á öskuhaugunum á eftir væri gaman að sjá þá skora þar….

    1
  20. Fullkominn sólarhringur… Sigur hjá okkur (að venju) og tap hjá manhú og sjætí.

    1
  21. Úrslitin í gær voru góð af því leyti að City mun eiga gríðarlega erfiðan heimaleik gegn Tottenham þar sem öll pressan verður City megin. Detti þeir út er aldrei að vita hvaða sálfræðilegu áhrif það mun hafa á liðið.

    Það var svo ekkert leiðinlegt að fylgjast með Suarez gera sigurmarkið í kvöld. Þvílíkt augnakonfekt fyrir fótboltann væri að fá Liverpool-Barcelona í undanúrslit. Vona bara að bæði lið klári sín verkefni í 8 liða úrslitum.

    2

Liverpool – Porto – Byrjunarliðin klár!

Gullkastið – Mörk frá miðjunni!