Upphitun: Meistadeildarslagur á Drekavöllum

Á miðvikudaginn munu okkar ástkæru rauðliðar ferðast til Portúgal og mæta þar Porto í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Einar Mattías skrifaði ítarlega upphitun fyrir leik liðanna í sextán liða úrslitum í fyrra og hana má finna hér, en þar er farið vel yfir sögu Porto.

Nú þegar við erum í gríðarlegri titilbaráttu við City og ekkert má fara úrskeiðis í deildinni og hjartað er í buxunum í hverjum leik er það nánast þannig að Meistaradeildin er orðinn nokkurskonar frí. Stressið er mikið enda langt komið í keppnina en öðruvísi en það sem er í deildinni. Fyrri leikur þessara liða fór 2-0 fyrir Liverpool og erum við því í góðri stöðu til að fara áfram enda þurfa Porto að sækja í þessum leik og gæti það opnað svæði fyrir sóknarlínu Liverpool og mark frá okkur mun nánast gera út um leikinn.

Andstæðingarnir

Porto liðið sýndi í fyrri leiknum á Anfield og í leikjunum gegn Roma að þetta er alveg frambærilegt lið. Þeir eru í harðri titilbaráttu sjálfir en eru jafnir Benfica á stigum með slakara markahlutfall þegar fimm leikir eru eftir af portúgölsku deildinni.

Frá því í fyrri leik liðanna koma tveir leikmenn inn í lið Porto, fyrirliðinn Hector Herrera og ólátabelgurinn Pepe. Um helgina fór Porto á útivöll gegn Portimonense og sigraði þar 3-0 þar sem Moussa Marega var maður leiksins. Hann skoraði eitt mark í leiknum og er þá búinn að skora jafn mörg mörk í deildinni og meistaradeildinni með átta mörk í báðum keppnum.

Sóknarlína Porto er mjög góð, við sáum Marega í fyrri leiknum fara illa með góð færi en hann og Tiquinho hafa myndað saman eitrað sóknartvíeiki í fjarveru Vincent Abubakar sem raðaði inn mörkunum í fyrra. Það þarf því að nýta þá sénsa sem við fáum í leiknum því Porto liðið getur alveg skorað mörk.

Casillas

M.Pereira – Pepe – Militao – Telles

Corona – Hererra – D.Pereira – Brahimi

Taquinho – Marega

Þetta er talið vera líklegt byrjunarlið Porto-manna og koma þar mennirnir inn úr leikbanni sem og Brahimi sem átti stórleik um helgina, en hann kæmi þá inn fyrir Otávio sem var hypaður upp fyrir viðureign liðanna í fyrra en það hefur farið mjög lítið fyrir honum í þessum þremur leikjum.

Okkar menn

Liverpool hefur nú unnið 7 leiki í röð í öllum keppnum og ekki tapað leik frá því í byrjun janúar megi það halda áfram sem lengst! Ég hef ekki séð fréttir um leikmannahópin sem ferðaðist til Portugal en Klopp hefur úr nánast öllum leikmannahópnum úr að velja. Lallana hefur verið eitthvað tæpur undanfarið og Henderson fór lítillega meiddur útaf gegn Chelsea og er ólíklegt að þeir ásamt Chamberlain og Gomez muni ekki spila þennan leik þó þeir tveir síðarnefndu hafi spilað U23 ára leik um síðustu helgi.

Ég býst við þessu byrjunarliði, að Robertson og Wijnaldum komi inn í byrjunarliðið frá því í fyrri leiknum og Milner og Henderson detti út en Milner verði fyrsti leikmaðurinn til að koma inn á miðjunna ef leikurinn er ekki 100% búinn eftir um 60. mínútur. Svo fær Dejan Lovren aftur mínútur í lappirnar til að hafa hann kláran fyrir lokakaflan á tímabilinu ef eitthvað kemur upp í vörninni.

Spá

Ég hef fulla trú á að við höldum sigurgöngunni áfram og vinnum þennan leik 3-0 þeir munu reyna að sækja og fá það í bakið og einvígið fer því 5-0 líkt og í fyrra!

22 Comments

  1. Klopp róterar smá og Lovren/Milner/Winjaldum detta inn Matip/Henderson/ Keita detta út. Svo er spurning um hvort að hann komi ekki smá á óvart og láti Origi eða Shaqiri byrja leik á kostað eins af top þremur(kannski Firmino og Salah fer fremst).

    Þetta einvígi er langt í frá búið og ef við værum að upplifa venjulegt Liverpool tímabil þar sem titilbarátta væri ekki á þessum tímapunkti og aðeins barátta um meistaradeildarsæti í gangi þá væri maður að drepast úr spennu. Núna er svo skrítið að segja það að leikur í 8.liða úrslitum meistaradeildar er smá afslöpun í áhorfi miða við deildina en djöfull langar manni að sjá strákana okkar berjast við Messi og félaga í næstu umferð.

    YNWA – Spái 1-1 þar sem heimamenn komast yfir í fyrirhálfleik en opna sig of mikið í þeim síðari sem lætur okkur skora mikilvægt útivallar mark.

    3
  2. Sæl og blessuð.

    Tek undir, að það væri mikilvægt að leyfa þeim Origi og Shaq að byrja því um leið og okkur tekst að skora verður róðurinn enn þyngri fyrir Portverja. Þeir hafa nú verið markheppnir og takist þeim að setj’ann snemma þá mætti hægja á ferðinni og halda sjó án þess að leggja of mikið á sig.

    Höfum vissulega verið frekar óvarkár í vörninni. Bæði Chelsea og Porto fengu óþægilega góð færi. Það verður að loka vörninni betur.

    3
  3. Er ég galinn að vilja hvíla Van Dijk í þessum leik, hann hefur spilað gríðarlega mikið í vetur og það væri áfall ef eitthvað kæmi fyrir hann á móti Porto.
    Ég held að Matip og Lovren geti alveg séð um þetta Porto lið og gefið Van Dijk smá pásu.
    Einnig myndi ég vilja sjá Salah og Firmino fá sæti á bekknum og Origi og Shaqiri á köntunum og Mane fremstur.
    Deildin er algjör forgangur og við erum með góðan hóp sem ætti vel að geta klárað þennan leik með 2 marka forystu. Nýta hópinn vel og passa að menn séu ferskir fyrir Cardiff.

    4
  4. Ég býst við að Klopp stilli upp sínu sterkasta liði. Lovren i stað Matip. Fab, Keita og Gini á miðjunni. Henderson hvíldur svo hann verði klár í síðustu 7 leiki timabilsins.

    Leikurinn endar 1-1 fyrir Liverpool.

    4
  5. Takk fyrir upphitunina.

    Þetta Porto lið er víst ekki eins gott og það lítur út fyrir. Þeir kaupa menn frá miðlungsliðum í Portúgal, þ.m.t. einn frá Portimonense, og setja klásúlur í kaupsamningana uppá háar bónusgreiðslur til seljandanna ef Porto vinna deildina. Þetta fer mikið í taugarnar á Benfica mönnum því það er augljóst að þessi minni lið leggja sig meira fram gegn þeim en Porto. Þetta er eitthvað sem fer ekki hátt um, en ein ástæðan fyrir því að fótboltinn er farinn að snúast mikið um business.

    En að leiknum. Ég hef tröllatrú á okkar mönnum. Ef planið verður að halda hreinu og beita skyndisóknum þá tekst okkur það. Ef planið verður að halda boltanum og drepa leikinn snemma þá tekst okkur það líka – m.a.s. þó vip mundum gera 4-5 skiptingar frá Chelsea leiknum.

    Ég tippa á 0-2 sigur. Shaq og Fabinho með mörkin.

    3
  6. Sko, norskur vinur minn segist alltaf vita það að við vinnum næsta leik ef hann vaknar upp á morgnana með vininn uppreistann. Annað hvort er hann að ljúga eða þá að hann hlýtur að vera orðinn aumur í vininum!

    6
  7. Vissi ekki að þetta færðist inn þegar ég ýti á enter.

    Ég veit að Klopp er hafinn yfir gagnrýni og tölfræðin sannar það! Ég veit líka að KOP.is er hafin yfir gagnrýni en má ég spyrja út í eitt hér… Væri ekki hægt að hafa umræðuþráðinn meira nytsamlegan, eins og t.d. að maður gæti svarað ákveðnu kommenti og að þar myndi skapast pínu svona nýr leggur? Þessi síða er algjörlega frábær en ég hef milljón sinnum upplifað það að það er ópraktískt að svara ákveðnum kommentum því það er ekkert hlaupið að því.

    Annars bara helvíti góður og vona innilega að Suarez bíti hausinn af (ekki bókstaflega) óla gunnari í kvöld. Norðmennirnir eru margir hverjir byrjaðir að efast um að hann sé rétti maðurinn eftir allt saman hahahhaha… Hann fær sparkið eftir 6 mánuði.

    Að okkar liði að þá fyndist mér glæpur að hafa ekki Matip í næstu leikjum. Hann var á pari við VVD (besta leikmann PL 2018/19) á móti olíufélaginu um síðustu helgi. Lovren er ágætur og mikill stríðsmaður en VVD og Matip voru geggjaðir og því vil ég alls ekki breyta.

    Skorum eitt í fyrri hálfleik og þá verður þetta dálítið amen á eftir efninu…

    11
  8. Porto menn voru mjög opnir tilbaka í fyrri hálfleik er þeir reyndu að sækja á okkur,en settu í bremsu í seinni til að takmarka tjónið og reyna til þrautar á á heimavelli.

    Ef þeir fara með sama upplegg í þennan leik,þá erum við alltaf að fara að skora gegn þeim og ég ætla að tippa á 4-1 sigur.

    Firmino og Mané deila mörkunum og við fáum Barca í næstu umferð – það verður rosaleg rimma.

    3
  9. Sælir félagar

    Mér líður eins og fleirum að Meistaradeildin sé svona bónus og allt gott með hana en ekkert mál ef við dettum út. Enska deildin er málið allt annað aukatriði. Samt væri tröllslega gaman að slá Barca út úr Meistaradeildinni þó ekki væri annað. Leikurinn annað kvöld er því svona auka skemmtun fyrir mér og ég hefi engar áhyggjur af honum. Spái að við förum léttilega áfram án þess að leggja mikið á liðið. Hann fer að líkindum 1 – 1 og ekkert nema gott um það að segja.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  10. Allt annað en stórslys og við erum áfram úr þessu einvígi. Porto þarf að sækja og öfugt við Bayern Munchen þá dugar ekki eitt mark og pakka svo í vörn, Porto þarf þrjú mörk til að klára þetta einvígi, að því gefnu að Liverpool skori ekki. Síðast þegar Porto ætlaði að sækja á þetta Liverpool lið fengu þeir 5 mörk í andlitið þannig að þeir munu líklega ekki mæta með eitthvað gung-ho leikplan.

    Verður ekki síður forvitnilegt að sjá hvað Barcelona gerir í kvöld. Mér fannst þeir ekki merkilegur pappír í fyrri leiknum og miðað við það sem maður sá í þeim leik þá fannst mér Barcelona í semi final ekki eins ógnvekjandi og oft áður. En þeir hljóta að stíga upp á heimavelli, trúi ekki öðru.

    3
  11. Ég er ekkert sammála að meistaradeildin sé einhver bónus. Við ætlum auðvitað að vinna hana. Við erum ennþá bara í farþegasætinu í deildinni og ekkert komið í hús þar. Liverpool á að reyna vinna allar keppnir. Sterkasta byrjunarliðið í kvöld- Punktur.

    14
  12. Er sammála Svavari hér að ofan, væri sniðugt að prófa það að hægt væri að svara hverju kommenti fyrir sig. Held að umræðurnar yrðu mun betri fyrir vikið.

    Annars hef ég engar áhyggjur yfir Porto leiknum, 0-3 skytturnar þrjár með mörkin.

    5
  13. Það eru fullt af möguleikum gegn þessu Barcelona liði ég held að ef að við förum áfram gegn Porto, sem hlýtur að teljast nokkuð líklegt. Vörnin og varnarleikurinn hjá þeim er ekkert frábær og þeir gefa færi á sér og það var eiginlega ótrúlegt að United hafi ekki nýtt það betur í fyrri leiknum. En að sjálfsögðu eru Barca með rosalega gott lið og sóknarleikurinn hjá þeim og hvernig þeir halda boltanum innan liðsins í stuttu snöggu spili er ennþá með því besta sem við sjáum í boltanum. En ég held samt við sláum þá út og förum í úrslitaleikinn í Madrid!

    YNWA

    4
  14. Magnað að fylgjast með þessu Ajax liði, ótrúlega skemmtilegt lið sem er búið að sundurspila Juve fyrstu 70 mín. Það er engin tilviljun að ekki nokkur maður hefur ákallað Emre Can í vetur þrátt fyrir að miðjan hjá Liverpool hefur oft verið gagnrýnd. Af þessum leik að dæma þá er hann klárlega einn helsti veikleiki Juve. Lítil vinnsla, þungur og lítið skapandi. Ajax-menn eru að keyra stanslaust í svæðið hans og skapa færi þaðan.

    Annars dásamlegt að sjá Man Utd kjöldregna í Barcelona. Þeir þurfa væntanlega að skila tilbaka Meistaradeildarbikarnum sem þeir fögnuðu eftir sigurinn á móti París. Nú verður Liverpool bara að klára sitt dæmi. Liverpool-Barcelona, yrði þvílíkt konfekt.

    15
  15. Mikið væri gaman að sjá Liverpool spila við Ajax, skemtilegustu liðin í dag. Hef reyndar bara séð Ajax spila við Real og Juve, en vá hvað er gaman að horfa á liðið spila.

    6
  16. Klárum þetta í Portúgal og þá verður það einvígi aldarinnar!

    2
  17. liverpool – ajax í úrslitum.

    þessi úrslit barcelona endurspegla ekkert, þeir voru að spila við skítllélegt lið sem er í 6 sæti í ensku deildinni.

    9
  18. Sorry en Þetta United lið er aldrei að fara að taka neitt af City.

    3
  19. Er sammála því að þetta manhú-lið er skítlélegt og núna eru hveitibrauðsdagarnir hans óla gunnars fyrir löngu liðnir og við tekur harðsoðinn veruleiki með timburmönnum og gyllinæð. Hann mun fá sparkið eftir nokkra mánuði því þessi klúbbur mun ekki ná 4.sætinu og leikmenn vilja fara, skiljanlega.

    Hins vegar þá geta þeir alveg náð úrslitum annað veifið og allir vita að svona borgarslagir eru ekkert venjulegir leikir og töflustaðan segir aldrei neitt um slagsmálin sem þessir leikir innihalda. Þetta þekkjum við á móti miðlungsliðinu everton sem fagna 0-0 á heimavelli á móti okkur eins og um heimsmeistaratitilll væri kominn í hús.

    Ég gæti alveg trúað því að spurs og manhú gætu náð úrslitum á móti city núna í næstu tveimur leikjum. Ég þori samt ekki að hugsa svo langt því þá tekur fósturstellingin við hjá mér og það er ákaflega óþægilegt í viðurvist margmennis.

    8
  20. Vill ekkert vanmat á Porto bara ekki einu heyrt minnst á það hvíla þennan og hinn ..deildin er að verða búinn þeir geta alveg lagt þetta á sig og munu gera það VVD myndi ekki sætta sig að sitja á bekk í 8 liða leik í meistaradeild bara neita trúa því.

    Ég skil hvað menn eru að fara en ef við ætlum að fara haga okkur eins og PSG gerði gegn slöku liði United þá gætum við endað með það sama í andlitið nei ég vill sjá okkar sterkasta lið nema menn séu tæpir á meiðslum. Ef að staðan er mjög góð þá er í fínu lagi að skipta mönnum inná snemma en að henda lykilmönnum á bekkinn vill ég ekki sjá á þessu stigi keppninar.
    YNWA

    5
  21. Það þarf ekkert að hvíla þessa menn ! bara vill ekki heyra þetta.
    YNWA.

    3

Liverpool 2-0 Chelsea

Gullkastið – Yfir til ykkar Man City