Kuyt og nokkur video

Jæja félagar, enn eitt derhúfuhléð í gangi. Þetta eru mest óþolandi vikur sem ég veit um, ekkert að gerast, og úrslit landsleikja eitthvað sem skiptir mig nákvæmlega engu máli. En mig langar aðeins að ræða málin hér við ykkur elskurnar mínar og stytta mér stundir og vonandi ykkur líka.

Í ljósi umræðna hér á blogginu um Dirk Kuyt þá vill byrja þennan pistil á að ræða sjómannssoninn frá Hollandi ögn betur. Þegar Kuyt var keyptur á sínum tíma frá Feyenoord þá er óhætt að segja að maður hafi átt von á rosalegum markahrók, 83 mörk í 122 leikjum með Feyenoord telst ekki slæmur árangur. Hann byrjaði vel með Liverpool í stöðu framherja, setti nokkrar lummur og virkaði nokkuð vel á stuðningsmennina. En það sem gerir Kuyt að þeim leikmanni sem hann er í dag er ekki markaskorun, þrátt fyrir að hann hafi raðað inn mörkum í Eredivise á sínum tíma. Það er vinnusemi hans sem gerir hann að fastamanni í Liverpool liðinu í dag. Ég viðurkenni það að sumt í leik hans fer í taugarnar á mér stundum. Til dæmis er ekkert um rosalega auðugan garð að gresja þegar kemur að hraða hjá honum, hann hefur ekki mjög góðar móttökur og tæknin mætti vera betri. Það verður því seint sagt um Kuyt að hann sé eitthvað sérstaklega upptekinn við að taka menn á, skora mörg mörk eða koma með skemmtilegar krúsidúllur eins og hinn dæmigerði kantmaður. En hann bætir það upp með öðrum kostum og í dag er hann að mínu mati mjög mikilvægur hlekkur í liðinu.
Rafa setti hann á hægri kantinn, stöðu sem hann lék áður með FC Utrecht í Hollandi og þar nýtir stjórinn helstu kosti hans sem leikmanns og nær því besta úr honum að mínu mati. Ég var mjög mótfallinn þessu hjá þeim spænska til að byrja með og hugsaði með sjálfum mér að nú myndi enn einn framherjinn týnast út á kanti og enda í ruglinu. Fyrst um sinn virkaði Kuyt engan veginn í þessari stöðu og pirringur stuðningsmanna leyndi sér ekki. Sá pirringur einhvern veginn festist á honum og mér finnst menn oft gleyma hvert hlutverk Kuyt er hjá Liverpool þegar þeir fara að gagnrýna hann. En undir lok síðasta tímabils og nú í upphafi nýs tímabils hefur þetta virkað mjög vel hjá Rafa og Kuyt að mínum dómi og vildi ég helst ekki missa hann af kantinum vegna þess að…

Sóknarlega: Hann skorar mjög mikilvæg mörk (þegar hann tekur upp á því að skora þ.e.a.s), hann leggur upp nokkur og á oft góð upphlaup með Arbeloa. Karakter hans og seigla kemur oft í ljós í stóru leikjunum þegar hann tekur sig til og skorar. Svo finnst mér hann líka gera oftast einfalda hluti, sem hann veit að hann ræður við og það er eitthvað sem margir leikmenn mættu taka sér til fyrirmyndar.

Varnarlega: Ótrúleg vinnusemi, fljótur að bakka, góður að loka á sendingar, sterkur líkamlega og gríðarlega öflugur í að vinna skallabolta. Sumsé lokar oft umferð upp vinstri kant andstæðinganna, myndi Quaresma eða Ronaldo gera það?

Þegar Kuyt er ekki á kantinum þá finnst mér leikur Liverpool vera opnari. Hann kemur með ákveðna festu sem ég tel vera mjög mikilvæga og vera svolítið einkennandi fyrir varnarleik okkar manna. Rosalega taktískt hjá Rafa að setja Kuyt á kantinn og í raun snilldarlausn. Það er ótrúlegt ef maður fer að hugsa út í það að kantmaður í 4-2-3-1 kerfi geti haft svona mikil áhrif varnarlega, en með því sýnir Kuyt hversu sérstakur leikmaður hann er. Rafa er greinilega mjög ánægður með Kuyt og tjáir sig um þann hollenska í stuttu og skemmtilegu viðtali á opinberu síðunni sem menn ættu að skoða nánar.

Til að draga þessar pælingar saman þá er ég á þeirri skoðun að smalahundurinn sé að virka vel á hægri kantinum og að þetta sé mjög taktíkst og vel gert hjá Rafa.

En eins og áður segir þá eru þessi derhúfuhlé átakanleg og því ætla ég að koma með nokkur hressandi video sem ættu að stytta mönnum stundir og fríska svolítið upp á menn fyrir helgina.

GuðOwenBabelTorres GerrardStevie G

Svo er bara að bíða eftir leiknum á móti Wigan sem fer fram á Anfield á laugardaginn 🙂

22 Comments

  1. Flottur pistill um vin minn Kuyt Olli

    Ég held að þetta sé komið gott í kvöld hjá mér á þessari síðu og segi því pass á að tjá mig um Kuyt enn einu sinni 😉

    Bíð frekar bara eftir að t.d. Benni Jón svari þessu og verð svo eflaust sammála því, hann varð líka svo sjúklega gamall í dag kallinn. :p

  2. Æji úff, það er hoppað til og drullað yfir alla sem voga sér að gagnrýna Kuyt(oftar en ekki réttilega) en síðan er reynt í einhverjum úber rembingi að hífa hann upp til skýjanna og hann dásamaður á alla kannta. Sorry Siguróli, en þessi grein er langt frá því að vera minn tebolli.

    Það fékk mig þó til að brosa þegar þú talaðir um varnarvinnu hans og spurðir síðan hvort Quaresma eða Ronaldo myndu gera það sama, hehe. Held að það sé nokkuð ljóst ef valið stæði á milli þessarra þriggja hver útkoman yrði. Klassamunurinn er þvílíkur!

    Ég vil þó spyrja, ef Rafa vill spila 4-2-3-1…afhverju þurfum við 4 varnarsinnaða menn af þeim sex sem spila fyrir framan vörnina? Þessir tveir fyrir framan vörnina hafa miklar varnarskyldur(Masch/Alonso/Gerrard), Kuyt hefur varnarskyldu, Keane vinnur fáránlega vel og ef menn ætla að hrósa Kuyt en ekki Keane fyrir eljusemi og varnarvinnu þá er bara eitthvað að. Þetta er bara ALLT OF mikið af mönnum með miklar varnarskyldur. Einhver þarf að koma orðinu SÓKNARLEIKUR inní hausinn á Rafa. Liðið mætti alveg vera án Kuyt, og fá “alvöru” kanntmann á hægri.

    Vil bara hrósa Babu fyrir að vera snöggur að koma með annan pistil og koma þessum niður af toppnum!

    …þetta er ekkert persónulegt Siguróli, þú skrifar oftar en ekki mjög fína pistla hérna, en þessi var svo sannarlega ekki einn af þeim, langt því frá.

  3. “Einhver þarf að koma orðinu SÓKNARLEIKUR inní hausinn á Rafa.”
    Oh, já. Fótbolti er svo einfaldur, farið bara í sókn strákar!!!
    Hvar var liðið aftur á listanum yfir fjölda marka síðasta tímabil?

    “Liðið mætti alveg vera án Kuyt, og fá “alvöru” kanntmann á hægri.”
    Já og alvöru leikmenn í allar hinar stöðurnar líka, alvöru stjóra o.s.frv.
    Hvað heita þeir aftur? Eru þeir á lausu? Eru þeir endilega allir eins augljóslega betri en Kuyt og þú vilt meina?

    Ef eitthvað hérna var rembingur þá var þessi athugasemd þín í heild. Ekki hefur hún mikið með innihald pistilsins að gera.

    Kuyt er alvöru.

  4. Hehehe….veit ekki alveg hvað ég á að segja eftir að hafa lesið þeta Reynir…er eiginlega orðlaus af undrun, en á sama tíma skemmt, man ekki eftir að fafa fengið jafn kjánalegt svar.

    Ætla ekki einu sinni að eyða tíma í að svara þér, enda lítill tilgangur þar sem þú rembist við að snúa útúr eða misskylja það sem ég sagði. Ætla eyða mínum tíma í að njóta dagsins míns. Hafðu það gott fyrir framan Kuyt altarið þitt í dag!

    PS. Hvergi hef ég sagt að Kuyt sé lélegur leikmaður eða neitt því um líkt…aðeins að ég vil frekar “alvöru” kantmann í þessa stöðu. Hægrifótar Rieira væri t.d. vel þegin ef Rafa vissi um þannig leikmann. Kuyt hefur staðið sig mjög vel að undanförnu og hefur fengið mikið lof hjá mér sem og öðrum, en hann er samt alls ekki leikmaður sem ég vil hafa sem fyrsta kost á hægri kantinn, enganvegin.

    • Vil bara hrósa Babu fyrir að vera snöggur að koma með annan pistil og koma þessum niður af toppnum!

    Þetta var reyndar alveg svakalega óvart og hamlar vonandi ekki hressilegu Kuyt rifrildi, Benni og Reynir gefa góð fyrirheit og enn einu sinni virðist Kuyt skapa einhverskonar hugarástand hjá mönnum sem gerir það að verkum að þeir lesa bara það sem þeir vilja lesa út úr þeim pistlum sem hampa ekki Kuyt út í eitt 😉

    ….en pistillinn er fínn þó ég sé ekki sammála öllu í honum (mörgu samt)

  5. Frekar vill ég Kuyt en Krúsídúllur, styð Reynir. Benni Jón er sjálfsagt sá eini sem situr við altari, and-Kuyt-altarið. Liverpool menn með hjartað á réttum stað sem aldrei gefast upp hafa í mínum bókum alltaf notið mestrar hilli stuðningsmanna, á hvaða stalli er Carra t.d. En einhverra hluta vegna þá getur Hollendingurinn sem státar einmitt af þessum kostum í miklum mæli enganvegin notið sannmælis.

  6. Sammála Reyni líka. Mikilvægi Kuyt hefur komið fram að undanförnu í liðinu og þrátt fyrir að spila á kantinum þá dúkkar hann oft upp og skorar eða er kominn í færi fyrir framan markið.

    Það virðist vera svo nauðsynlegt að festa menn í ákveðnum leikstöðum. Hjá Liverpool og Rafa finnst mér ansi oft gerast að menn róteri um stöður í flæði leiksins. Þegar miðjumenn fara of framarlega þá detta aðrir menn niður og hjálpa til.

    Því miður er vinnusemi Kuyt frekar aðhlátursefni en eitthvað til að hrósa hjá mörgum og er smalahundakommentið ansi vinsælt.

    Benni Jón. Eru alltof miklar varnarskyldur á leikmönnum?? Er sóknarleikur í miklum minnihluta?? Þessi pressa/varnarleikur leikmanna sem spila framar á vellinum leiðir til þess að Liverpool er oftar en ekki miklu meira með boltann en andstæðingurinn og er meðal annars ástæðan fyrir því að Liverpool var miklu, miklu betri en Manchester í leiknum um daginn.

    Ef þú vilt bara blússandi sóknarbolta þá er tilvalið fyrir þig að fylgjast með Arsenal. Það gengur stundum hjá þeim en hvað er langt síðan þangað kom titill??

  7. Er alveg 100% sammála Benna Jóns, er ekkert frekar en hann að segja að Kuyt sé slæmur leikmaður en hann er mjög takmarkaður sem sóknarkantmaður. Skil það t.d. tæplega hvers vegna að það er ekki keyptur svipaður leikmaður hægra megin og reynt hefur verið að fá í vinstri kantstöðuna þar sem að þeir hafa allir verið frekar sóknar en varnar þenkjandi.

    Kuyt er ekki vondur kostur á útivöllum þegar að þarf að verjast en á heimavelli þegar að þarf að komast aftur fyrir varnirnar eða taka menn á einn á einn að þá er hann ekki fyrsta val, varla hjá nokkrum Liverpoolmanni eða hvað??

  8. Þetta er alltaf skemmtileg umræða. Ég myndi auðvitað vilja leikmann með dugnað og varnarelement Kuyt og sóknarhæfileika Riera. Staðreyndin er hins vegar sú að slíkir menn eru fáséðir og fáheyrðir í fótbolta. Kannski að Keane, Gerrard, Torres
    Í grunninn er ég ánægður með Kuyt sem slíkan en ekki endilega alltaf ánægður með að Benítez spili honum stöðugt, t.d. gegn Stoke. Þá þurfum við krúsidúlluleikmann (Ég myndi fíla Luis Garcia týpu) sem alternative við Kuyt í þessum leikjum gegn rútubílaliðunum.
    Kuyt gegnir, eins og Olli og FDM benda réttilega á, mjög mikilvægu hlutverki fyrir liðið og er bráðnauðsynlegur í flestum leikjum þess.
    Bendi líka á greinarstúf um hann á http://www.knattspyrna.bloggar.is

  9. “Skil það t.d. tæplega hvers vegna að það er ekki keyptur svipaður leikmaður hægra megin og reynt hefur verið að fá í vinstri kantstöðuna þar sem að þeir hafa allir verið frekar sóknar en varnar þenkjandi.” (Stjáni)

    Hvað er svona erfitt að skilja?
    Rafa hefur 1 leikinn og teknískan leikmann vinstra megin til að vega upp á móti vinnusemi Kuyt hægra megin. Ef þú ætlar að vinna meistaratitla þarftu JAFNVÆGI í liðinu(ólíkir leikmenn sem mynda sterka heild) og matchwinnera sem geta brotið leikinn upp með einstaklingsframtökum ásamt vinnusamri miðju og sterkri vörn. Liðið þarf að geta sótt og varist sem ein heild.
    Ef þú ert með einhverja sprelligosa á báðum köntum sem halda illa stöðum og sinna lítillri varnarvinnu þá raskast jafnvægið og andstæðingar geta spilað auðveldlega útúr vörninni og keyrt í bakið á okkur með skyndisóknum.

    Annars er maður að lesa fréttir að Rafa sé að spá í sölu á Dirk Kuyt til að kaupa argentíska landsliðsmanninn Cavenaghi. Hvað svo sem til er í því.
    Stórefast samt að Rafa vilji selja jafn afburða fyrirmynd fyrir ungu strákana og Kuyt er. Kuyt spilaði vel fyrsta tímabilið sem striker og skorar mörg mikilvæg mörk, sérstaklega í úrslitakeppni CL(er þar löngu búinn að borga kaupverðið tilbaka). Kuyt hefur mjög góðar staðsetningar, góðan fótboltaskilning og er frábær drífandi persónuleiki sem er mjög mikilvægt uppá liðsmóralinn. Þegar þú bætir ómennskri vinnuseminni við þá ertu með fótboltamann sem á fyllilega skilið að vera leikmaður Liverpool sama hvað einhverjar öfundarraddir segja.

    Mun líklegra að Rafa selji Pennant og álíka meðalskussa til að eiga fyrir Cavenaghi.

  10. Ég er ekki mesti aðdáðandi Kuyt í heimi, held að það hafi m.a komið nokkrum sinnum fram á þessari síðu. Þannig að Benni Jón, ég er alveg skoðanabróðir þinn hvað leikmanninn varðar. Ég vil samt taka það fram að mér finnst Kuyt hafa byrjað þetta tímabil mjög vel og ss. lítið hægt að setja út á frammistöðu hans. Hinsvegar er allur samanburður við heimsklassa leikmenn líkt og Ronaldo fráleitur (í hvaða formi sem er).

    En svona í hnotskurn, þá finnst mér þetta um Kuyt;
    Kostir- vinnusamur og fylginn sér, ósérhlífinn, 100% liðsmaður með hjartað á réttum stað.
    Ókostir- tæknileg geta, móttaka, markaskorun, hraði eða réttara sagt skortur á honum, klaufagangur.

    Eflaust er það engin mýta að Kuyt nýtist betur á útivelli, eða þegar liðið þarf að sinna meiri varnarskyldu, enda þarf ekki annað en skoða það sem leikmaðurinn hefur upp á að bjóða til að færa sönnur fyrir því. Þess vegna tel ég mikilvægt að liðið hafi aðra kosti fram að færa (að Pennant og Benayoun meðtöldum), varðandi sóknarleikinn. Hægri vængurinn hefur lengi verið einn helsti höfuðverkur liðsins, sérstaklega sóknarlega séð.
    Kuyt býður upp á margt en kannski ekki alveg nógu margt og hentar ekki á móti öllum mótherjum, eins og t.d á móti Stoke þegar þörfin fyrir góðan “dribblara” sem getur tekið menn á og komið með sendingar inn í teig kom bersýnislega í ljós. Með tilkomu Riera er þessi vídd kominn í sóknarleikinn, enda er hann búinn að vera frábær það sem af er og liðið orðið sterkara með hann innanborðs. Þess vegna finnst mér hugmynd Benna um hægri fótar Riera alls ekki svo vitlaus enda gæti það gefið okkur fleiri möguleika sóknarlega séð. Spurning hvort það sé hægt að klóna hann? Er kindin Dollý ennþá á lífi?

    • Þess vegna finnst mér hugmynd Benna um hægri fótar Riera alls ekki svo vitlaus enda gæti það gefið okkur fleiri möguleika sóknarlega séð

    Mér dettur nú bara strax í hug Ryan Babel sem kost á hægri vængnum í stað Kuyt í leikjum þar sem andstæðingurinn pakkar í vörn og opna þarf varnir (og stundum Pennant).

  11. Sammála Babu, ekkert af því að prófa Babel þar þó svo að Benitez hafi hingað til bara séð not fyrir hann vinstra megin. Fyrir utan Babel dettur mér hinsvegar ekki margir aðrir kostir í hug. Pennant er einfaldlega ekki nógu góður og virðist ekki vera með rétt hugafar. Benayoun finnst mér nýtast betur nær miðjunni eða í free role hlutverki fyrir aftan sóknarmennina. Mikilvægast er að möguleikinn sé fyrir hendi hvort sem Babel leysi það hlutverk eða e-r nýr leikmaður í komandi framtíð.

  12. Ávalt skemtileg umræða. En aftur vil ég benda á það sem mér finnst allmargir vera gersamlega blindir á. Það eru nefnilega sóknarhlaup Kuyt, hann virðist eingöngu fá hrós fyrir varnarhlaup sín. Eljusemi hans nær ekki aðeins til varnarleiks, þegar við höfum boltann ætti það að segja sig sjálft að hreyfing þarf að vera innan liðsins, sérstaklega hjá þeim sem eru
    án bolta. Fáir í Liverpool liðinu í dag eru jafn gjarnir á að “bjóða” sig án bolta eða taka ó-eigingjörn hlaup og þar með taka varnarmenn með sér úr stöðum og opna glufur fyrir aðra. Afar óeigingjarnt hlutverk sem of oft virðist ósýnilegt í augum fólks.

    Þetta sást bersýnilega í fyrri hálfleik á móti City fannst mér. Kuyt og Riera virtust vera einu mennirnir í þeim hálfleik sem vildu fá boltann og reyndu eitthvað! Þeir voru að bjóða sig, fá boltann, skila honum og voru svo yfirleitt roknir af stað aftur í önnur hlaup. Stjörnurnar okkar (Torres og Gerrard) voru staðir allan hálfleikinn og áhugalausari en dúfan sem flaug yfir völlinn! Minnistætt er mér atvik í þessum títtnefnda hálfleik þar sem Riera náði “cross” fyrir og Kuyt kom á hlaupinu inn í teiginn en náði ekki boltanum á fjærstöng. Þar fékk hann blótsyrði frá mörgum og heyrðist m.a á players að maðurinn væri alltaf of seinn. Í endursýningu sást svo að hvorki Torres né Gerrard nentu svo mikið sem að koma sér inná teig. Nokkuð ójafnt hvernig menn fá gagnrýni á sig oft á tíðum ekki satt?

    Ég er svo auðvitað ekki að reyna að benda á að Kuyt sé betri en þessir tveir eða mér líki illa við þá, enda er sannleikurinn að sjálfsögðu gagnstæður. Mér finnst menn bara of oft fá of ólíkan hljómgrunn fyrir verk sín.

    Kuyt er að mínu mati alger lykilmaður liðsins í dag, og megi hann halda þessari stöðu það sem eftir er tímabilsins ef hann heldur uppteknum hætti.

  13. Sælir félagar
    Fínn pistill og fín umræða en – er ekki búið að ræða þetta allt í þaula fram og aftur mörgum sinnum og allt það.

    Menn skiptast nokkuð í tvö horn í afstöðunni til Kuyt. Þó fer þeim fjölgandi sem eru á hans bandi virðist mér. Hann hefur marga kosti sem leikmaður og einnig galla sem slíkur. Spurningin er hvort kostirnir vegi gallana upp og vel það.

    Enginn leikmaður er gallalaus (nema Zidan á sínum dögum) og spurningin er því alltaf hvort sé þyngra á metaskálum stjóranna og fylgismann.

    Hinsvegar væri ég alveg til í umræðu um Fabio Aurelio. Það er leikmaður sem hefur afar fáa kosti en gallarnir eru ferlegir. 😉

    Það er nú þannig

    YNWA

  14. það voru einhverjir á undan mér að bera saman Rieria og Kuyt eða vildu fá hægri fótar Rieria til að spila hægrikant.
    Ef við fáum hægri fótar leikmann sem hagar sér eins og Riera á vellinum þá þýðir það að liðið er að fara að spila hefðbundið 442 leikkerfi. Vegna þess að Riera er hefðbundin kantmaður sem heldur sig á miðjunni og sækir upp að endalínu.
    Mér hefur fundist Kuyt hins vegar stillt upp sem framherja hægra megin sem sæki niður á miðju eða svipað og Keane, sem sækir niður á miðja miðjun, gerir kuyt það hægramegin á miðjunni. Ég held að það sem ruglar fólk er hversu stórt hlaupasvæði hann gefur sér, man eftir að hafa sé hann koma og hjálpa til í vinstri bakvarðar stöðuni. Vegna þess lítur hann oft út sem kanntmaður. Ég myndi því segja að það sé enginn hægri kantur í liðinu eða enginn hægra megin á miðjunni líkt og vinstara megin á miðjunni þar sem Riera er stillt upp. Mér hefur fundist að á vinstri vængnum spilar liverpool eins og í 442 kerfinu en hægramegin eins og kannski í 433 kerfinu.
    Kuyt spilar mikla sóknar rullu í liðinu. Hann er sóknar sinnaður og sækir á valt á markið með eða án boltans. Hann er mikið inní teig mun meira en Riera t.d. og því skil ég ekki að hann sé eingöngu séður hér sem varnarmaður eða varnar sinnarður kantamaður. Kuyt er framherji og spilar sem slíkur en jú hann hefur varnar skyldur. Þessi sérstað gerir Kuyt að einum mikilvægasta hlekk í leikkerfi Rafa

  15. Í kerfinu sem Rafa spilar núna, þ.e 4-2-3-1 er Riera stillt upp sem vængmanni og Kuyt líka hægra megin. Það má svo deila um það hvort hlutverk Riera sé í raun í eðli sínu meira sem kantmaður eða Kuyt sem framherji hægra megin, enda margt sem mælir með því. Gott og vel. Tilgangurinn með umræðunni var ekki að gera lítið úr sóknarhlaupum Kuyt sem hafa oft verið til fyrirmyndar á þessari leiktíð eða reyna grafa undan mikilvægi hans í liðinu. Heldur benda á þá staðreynd að upplagi er Kuyt hvorki kant-né vængmaður og nýtist því ekki alltaf í þeirri stöðu, t.d á móti varnarsinnuðum liðum eða liðum með sterkar varnir sem þarf að brjóta niður. Á móti slíkum andstæðingum er mjög mikilvægt að hafa skapandi leikmann sem getur teygt á vörninni og opnað hana með hlaupum upp kantinn og hættulegum fyrirgjöfum. Það var nú bara punkturinn sem mig langaði að koma í gegn. Annars missi ég svo sem ekkert svefn yfir því þótt menn fatti ekki hvað ég er að fara.

  16. Ég legg til að við sláum saman í söfnun og gefum Sigkarli myndband af leik Liverpool og Arsenal þegar Aurelio gaf 3 stoðsendingar og átti sinn langbesta leik í liverpool treyju. Ef hann horfir á þann leik getur hann alla vega hætt þessu endalausa væli um að Aurelio hafi aldrei getað neitt í leik með Liverpool.
    Reyndar meiddist Aurelio mjög illa í þeim leik en það gefur líka ágæta mynd af honum og ferli hans hjá Liverpool

  17. HAHAHA, snildar mynd Steini. En tek heilshugar undir með Babu, comment nr. 5 þarna er eins og talað út frá mínu hjarta.

One Ping

  1. Pingback:

Carra, basic drengur!

Vinsældir eigenda enskra liða