(Minnum á upphitun Ingimars fyrir lokaleik karlaliðsins hér að neðan)
Í dag fór fram lokaleikur kvennaliðs Liverpool í deildinni. Eins og áður hefur komið fram var ekki að neinu að keppa fyrir stelpurnar okkar varðandi stöðuna í deildinni, því það varð ljóst eftir síðustu umferð að liðið yrði í 8. sæti. Nema hvað að þessi leikur var gegn bláklæddu stelpunum úr Liverpool borg, og við vitum að leikir Liverpool við Everton eru aldrei ómerkilegir. Leikurinn fór fram á Prenton Park, og Vicky Jepson stillti svona upp:
Á bekknum voru eftirtaldir leikmenn: Preuss, Matthews, Hodson, Kearns, Babajide
Það var fátt sem kom á óvart í uppstillingu liðsins, annað en e.t.v. að Niamh Charles var í framlínunni í fyrsta skiptið í langan tíma eftir að hafa verið frá vegna meiðsla. Charles var m.a. framarlega í flokki þegar nýji búningurinn var kynntur á dögunum.
Okkar stúlkur gerðu sér lítið fyrir og unnu Everton 3-1. Courtney Sweetman-Kirk (eða Captain Kirk eins og hún verður örugglega kölluð ef hún verður fyrirliði) braut ísinn á 26. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu frá Christie Murray, og skoraði þar hjá sínu gamla félagi. Niamh Charles bætti svo öðru marki við aðeins fjórum mínútum síðar, aftur eftir aukaspyrnu frá Murray. Everton náðu að minnka muninn skömmu fyrir leikhlé. Í hálfleik fór Yana Daniels út af og Rinsola Babajide kom inná. Ashley Hodson kom svo inná fyrir Niamh Charles þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum, en þar var einn framherji nýstiginn upp úr meiðslum að koma inná fyrir annan framherja nýstiginn upp úr meiðslum. Það var svo Amy Rodgers sem opnaði markareikning sinn fyrir félagið með skalla eftir hornspyrnu á 88. mínútu, enn eftir sendingu frá Christie Murray. Murray fór svo út af fyrir Bo Kearns mínútu síðar, en fleiri mörk voru ekki skoruð. Semsagt, góður sigur á Everton, og við fögnum ætíð slíku.
Lokastaðan í deildinni er því þessi:
Eins og sést þá enda okkar konur í 8. sæti deildarinnar, á nokkuð lygnum sjó, þó það sé nú ekki langt í næstu lið fyrir ofan. Arsenal stúlkur unnu öruggan sigur, voru tryggar með fyrsta sætið fyrir síðustu umferð, og það kom ekki í veg fyrir að þær myndu vinna City 1-0.
Það er ljóst að þetta var erfitt tímabil fyrir liðið okkar. Nánast alger endurnýjun á leikmannahópnum, nýr þjálfari sem sagði starfi sínu lausu eftir einn leik, og svo heilmikið um meiðsli. Sem dæmi hefur Jess Clarke ekkert sést á vellinum eftir að hún skrifaði undir nýjan samning.
Nú er spurningin: hvað er framundan hjá stelpunum okkar? Það er vonandi að liðið styrki sig skynsamlega í sumar. Það er óhætt að segja að það er heilmikið af ungum og hæfileikaríkum stelpum í liðinu. Sem dæmi þá er Amy Rodgers – sem skoraði fyrsta mark sitt fyrir liðið í dag – aðeins 19 ára. Babajide verður 21 árs í júní, og hún leikur með enska U21 landsliðinu. Þá erum við með ungan og hæfileikaríkan stjóra sem er óhrædd við að gefa stelpum úr akademíunni tækifæri, sem sést á því hve oft Bo Kearns hefur komið inná í síðustu umferðum, en hún er nýorðin 18 ára. Niamh Charles er 20 ára, og svona mætti lengi telja. Svo erum við með reynslumiklar konur þar fyrir utan sem eru nær þrítugu, eins og Niam Fahey, Sophie Bradley-Auckland, Laura Coombs o.fl. Courtney Sweetman-Kirk er einnig um þrítugt, og hún var meðal markahæstu leikmanna deildarinnar. Leighanne Robe átti á tímabili (og hugsanlega ennþá) flestar tæklingar í deildinni. Það er því fullt af hæfileikum í liðinu, og verður gaman að sjá hvernig liðinu gengur á næstu leiktíð, með meiri stöðugleika í leikmannahópnum, með hóp sem hefur núna spilað saman í eitt tímabil, og vonandi með hæfilegu magni af styrkingum í sumar, en við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með því hér á kop.is.
Þess má geta að leikurinn var sýndur á Facebook, og hann virðist vera aðgengilegur þar ennþá:
https://www.facebook.com/LiverpoolFCW/videos/851971485157183/