Leið Liverpool til Madrídar

Nú fer loks að koma að því að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar muni fara fram og á næstu dögum munum við hita vel upp fyrir leikinn frá hinum ýmsum sjónarhornum. Við byrjum á því að renna aðeins yfir leiðina sem Liverpool fór til að komast í annan úrslitaleikinn í röð.

Riðlakeppnin
Það var enn ákveðið hype í kringum Liverpool og Meistaradeildina eftir árið áður og það sem hafði gerst var svo sannarlega ofarlega í huga allra þegar dregið var í riðlana fyrir leiktíðina. Liverpool var í potti númer þrjú og að dragast gegn Liverpool var ekki ofarlega á óskalista hinna liðana í keppninni.

Liverpool dróst á móti PSG, Napoli og Rauðu Stjörnunni. Forseti Napoli fór til að mynda á flug með allskonar samsæriskenningar og óréttlæti þess að þeir skuli hafa dregist gegn Liverpool sem átti ekki að hafa verið í potti númer þrjú og þess háttar.

Riðlakeppnin hófst með góðu kvöldi á Anfield þegar Liverpool vann dramatískan 3-2 sigur á PSG. Daniel Sturridge og James Milner komu Liverpool í 2-0 og Liverpool var að rúlla yfir PSG, Thomas Meunier náði að koma marki inn fyrir PSG rétt fyrir hálfleik. Liverpool var nálægt því að klára leikinn þegar Kylian Mbappe sleppur í gegn og jafnar í 2-2 á 83. mínútu. Hrikalega fúlt og jafntefli í augsýn en eineygður Roberto Firmino kom inn á sem varamaður og skoraði laglegt mark á 92.mínútu sem tryggði Liverpool sigurinn.

Embed from Getty Images

Í næsta leik fór Liverpool til Ítalíu og mætti Napoli. Þetta var líklega einn léleagsti leikur Liverpool í vetur og það var ekkert sem gekk upp hjá Liverpool. Vörnin var slök, miðjan var hreinlega ekki með og sóknin var eins og bitlaus skeið. Það stefndi í afar ósanngjarnt jafntefli fyrir Napoli þegar Lorenzo Insigne skoraði sigurmark þeirra á 90.mínútu.

Þá tóku við tveir leikir gegn Rauðu Stjörnunni og sá fyrri var á Anfield. Klopp stillti upp sókndjörfu liði sem rúllaði yfir Serbana og vann 4-0 með tveimur mörkum frá Salah og sitt hvoru frá Mane og Firmino. Seinni leikurinn í Serbíu var hins vegar ekki alveg af sama toganum og eflaust ákveðið vanmat í gangi hjá Liverpool og Serbarnir ansi ákveðnir í að bæta upp fyrir rasskellinguna úr fyrri leiknum. Klopp róteraði aðeins í leiknum og Liverpool tapaði öðrum útileiknum í röð, 2-0.

Þrátt fyrir tvö töp þá var Liverpool í góðum séns á að tryggja sig upp úr riðlinum og jafnvel tryggja sér fyrsta sætið í riðlinum þegar liðið mætti til Parísar. Úrslitin voru ekkert rosalega positív og Liverpool tapaði 2-1, PSG komust í 2-0 og James Milner minnkaði muninn úr vítaspyrnu en lengra komst Liverpool ekki og því ljóst að Liverpool átti hreinan og beinan úrslitaleik í lokaleik riðilsins um að komast áfram.

Í síðasta leiknum mætti Napoli á Anfield og Liverpool þurfti að vinna leikinn til að komast áfram og það var alls konar útivallarmarkaflækja í þessu svo hvaða sigur sem er skipti . Leikur Liverpool var frábær og Salah skoraði stórglæsilegt mark sem kom Liverpool yfir. Liðið fékk fullt af færum í leiknum en tókst ekki að gera algjörlega út um leikinn. Vörnin og miðjan var virkilega öflug og Napoli leit aldrei út fyrir að vera líklegt til að skora fyrr en í blálok leiksins þegar boltinn fer inn fyrir vörn Liverpool og Alisson átti frábæra markvörslu eftir skot Milik, framherja Napoli. Þessi varsla var gífurlega mikilvæg og Liverpool komst upp úr riðlinum og var í seinni pottinum þegar dregið var í sextán liða úrslitin.

Embed from Getty Images

Sextán liða úrslitin
Þar sem Liverpool var í potti númer tvö þá var ansi líklegt að Liverpool gæti fengið erfiðan drátt sem hefði til dæmis getað verið Barcelona, Juventus, Dortmund, Atletico eða Bayern Munchen. Enginn vildi fá Liverpool og var meðal annars fjallað um það í stórum miðlum í Barcelona að þeir vildu fá allt nema Liverpool.

Liverpool dróst á móti Bayern Munchen og fyrri leikurinn var á Anfield. Virgil van Dijk var í banni í þeim leik og mikil miðvarðarkrísa að herja á liðið. Joel Matip var tiltölulega nýkominn til baka úr meiðslum og var í miðverði með Joel Matip í leiknum. Robert Lewandowski? Er það eitthvað ofan á brauð? Þeir félagar héldu honum alveg í skefjum og þrátt fyrir mikla yfirburði Liverpool í leiknum þá tókst Liverpool ekki að skora í leiknum en fengu nokkur fín færi til þess. Rimman þó enn í fínu jafnvægi og í höndum Liverpool sem fékk ekki á sig útivallarmark.

Seinni leikurinn í Bayern var töluvert meira rokk og ról en sá fyrri og ég er viss um að við þurfum ekki að leita langt til að fá staðfestingu fyrir því hve mögnuð stemmingin var á leiknum og hve flott frammistaða Liverpool var í þeim leik.

Sadio Mane kom Liverpool yfir um miðjan fyrri hálfleik með frábæru marki og kom Liverpool í ansi góða stöðu og skoraði ansi mikilvægt útivallarmark sem breytti landslagi einvígisins ansi mikið. Joel Matip varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Virgil van Dijk og Sadio Mane sáu svo um að gera út um einvígið með sitt hvoru markinu. Það er ekki oft sem Bayern tapar leikjum á heimavelli og hvað þá 3-1 og á svona rosalega sannfærandi hátt. Áfram heldur Liverpool í næstu umferð.

Embed from Getty Images

Átta liða úrsltin
Kunnuleg andlit drógust gegn Liverpool í átta liða úrslitunum en Liverpool fékk nokkurs konar draumadrátt þegar nafn Porto kom upp úr pottinum. Liðin mættust í sextán liða úrslitunum í fyrra og rúllaði Liverpool yfir Porto í fyrri viðureigninni í Portúgal 5-0 áður en liðin gerðu markalaust jafntefli á Anfield.

Liverpool vann fyrri leikinn á Anfield 2-0 með mörkum frá Naby Keita og Roberto Firmino og það var ansi þægileg staða til að fara með til Portúgal. Í seinni viðureigninni gerði Sadio Mane svo gott sem út um rimmuna þegar hann skoraði útivallarmark og Salah bætti við öðru marki. Eder Militao minnkaði muninn eftir fast leikatriði en Virgil van Dijk og Roberto Firmino bættu við tveimur mörkum og Liverpool rúllaði upp þessari rimmu 6-1. Líkt og árið áður var Porto ekki mikil fyrirstaða fyrir Liverpool.

Embed from Getty Images

Undanúrslitin
Liverpool var að fara að mæta sigurvegaranum úr rimmu Barcelona og Man Utd svo það var ljóst að það væri ansi áhugaverð en mjög ólík verkefni framundan hjá Liverpool. Erkifjendurnir í Man Utd eða spænsku meistararnir með tvo fyrrum leikmenn Liverpool í sínum röðum. Það var Barcelona sem fór nokkuð auðveldlega í gegnum rimmuna og þá ljóst að þeir Luis Suarez og Phil Coutinho væru á leið aftur á Anfield í litum Barcelona.

Rétt fyrir fyrri leik liðana í Barcelona þá lendir Liverpool í því að Roberto Firmino meiðist og var tæpur fyrir leikinn en náði plássi á bekknum. Klopp ákvað að bregðast við því og setja Gini Wijnaldum í strikerinn með þeim Mane og Salah og setur Joe Gomez inn í hægri bakvörðinn fyrir Trent Alexander-Arnold.

Leikur Liverpool var góður í fyrri viðureigninni á Nou Camp en á einhvern hálf furðulegan hátt tapast leikurinn 3-0. Luis Suarez og Leo Messi nýta sér smá mistök í vörn Liverpool og skora tvö fyrstu mörk þeirra og fáranlega flott aukaspyrna Messi virðist ætla að gera út um allar vonir Liverpool um að komast áfram. Mo Salah klúðrar dauðfæri í lok leiksins og mistókst Liverpool að fá mikilvægt útivallarmark.

Seinni leikurinn fer fram á Anfield og Liverpool í ansi vondri og vonlausri stöðu verandi þremur mörkum undir og með Roberto Firmino og Mo Salah meidda í þokkabót. Það að Liverpool þurfti að skora allavega þrjú eða fjögur mörk til að eiga séns án þess að fá á sig mark var ansi ólíklegt og raunhæft á litið frekar ólíklegt.

Shaqiri og Origi komu inn í framlínuna í stað Salah og Firmino, Milner byrjaði á miðjunni og Wijnaldum settist á bekkinn og Trent Alexander-Arnold fékk aftur sæti sitt í byrjunarliðinu. Það var því töluvert af róteringum á liðinu á milli leikja og það var nú ansi gott bara!

Stemmingin á Anfield var upp á sitt allra, allra besta og minnkaði hún nú ekkert þegar Divock Origi kom Liverpool yfir á 7.mínútu þegar hann hirti frákast inn í teig Barcelona eftir góða sókn. Liverpool komið með veika von um kraftaverk og gáfu í en tókst ekki að bæta við mörkum fyrir hálfleik. Liðið byrjaði af gífurlegum krafti en Barcelona tókst að komast ögn betur í leikinn en Liverpool þó alltaf ógnandi.

Andy Robertson fór meiddur út af í hálfleik eftir fautaskap Suarez skömmu áður og þá litu hlutirnir nú ekki vel út. Wijnaldum kom inn af bekknum og Milner tók við í vinstri bakverðinum. Wijnaldum átti nú heldur betur eftir að koma við sögu!

Á 54.mínútu á Alexander-Arnold fyrirgjöf í teiginn sem ratar beint á Wijnaldum sem neglir boltanum netið og staðan orðin 2-0. Gæti það gerst?!?

Barcelona tekur miðju og Liverpool vinnur strax boltann af þeim og setur upp sókn sem endar með því að Wijnaldum stangar inn fyrirgjöf Shaqiri og staðan orðin 3-0 og allt jafnt í viðureigninni! Holy shit! Þakið ætlaði að rifna af Anfield og leikmenn Barcelona voru eitt stórt spurningarmerki, voru þeir að fara að lenda aftur í því sama og þeir lentu í gegn Roma árið áður?

Gestirnir þurftu samt aðeins bara eitt mark til að drepa niður neistann hjá Liverpool en þeir virkuðu aldrei í raun líklegir til þess. Á 79.mínútu á Liverpool horn hægra megin á vellinum, Trent stendur við boltann en er að fara að rölta frá til að láta Shaqiri taka spyrnuna, hann tekur eftir að varnarmenn Barcelona eru uppteknir af því að reyna að stilla sér upp og hann sér að Origi er einn og óvaldaður á teignum. Hann hleypur aftur að boltanum, kemur honum inn í teiginn og kallar á Origi sem rétt nær að átta sig á aðstæðum og neglir boltanum upp í skeytina. Liverpool komið í 4-0 og maður á ekki til eitt aukatekið orð.

Liverpool sér leikinn út á virkilega góðan og sannfærandi hátt og það ætlar allt um koll að keyra þegar flautað var til leiksloka. Liverpool nær að snúa við ótrúlegri stöðu og tryggja sér farseðilinn í annan úrslitaleik Meistaradeildarinnar í röð!

Embed from Getty Images

Samanburður við síðustu leiktíð
Liverpool mætir í tvo úrslitaleiki í röð en vegferðin þangað hefur verið töluvert öðruvísi og hefur leikur liðsins í ár verið mjög ólíkur því sem við sáum heilt yfir í fyrra.

Fyrir það fyrsta þá þurfti Liverpool að mæta til leiks í forkeppni Meistaradeildarinnar og drógust þar á móti þýska liðinu Hoffenheim sem er nokkuð sprækt lið. Liverpool fór frekar auðveldlega í gegnum þá rimmu með því að vinna 1-2 og 4-2 sigra og fóru samanlagt áfram á 6-3 sigri. Þar skoraði til að mynda Emre Can tvö mörk og Trent Alexander-Arnold opnaði markareikning sinn með Liverpool eftir flott mark úr aukaspyrnu.

Riðlakeppnin spilaðist allt öðruvísi og Liverpool í erfiðari riðli í ár. Sevilla, Spartak Moskva og Maribor er töluvert auðveldari riðill en PSG, Napoli og Rauða Stjarnan. Liðið byrjaði á tveimur jafnteflum við Sevilla og Spartak Moskvo, það voru svekkjandi jafntefli og komu smá flashback til þess þegar Liverpool var síðast í keppninni fyrir það og duttu út í riðlakeppninni.

Eftir þessa tvo leiki setti Liverpool í fluggírinn og rústuðu Maribor 7-0 á útivelli og svo aftur 3-0 á Anfield. Það varð svo dramatískt 3-3 jafntefli við Sevilla þar sem þeir jöfnuðu í uppbótatíma og svo vann Liverpool annan 7-0 sigur í riðlinum þegar liðið rúllaði yfir Spartak Moskvu á Anfield. Liverpool skoraði 23 mörk og fékk á sig 6 í riðlakeppninni, það er töluvert annað en í ár þegar liðið skoraði 10 og fékk á sig 7.

Liverpool mætti Porto í 16 liða úrslitum og kláraði einvígið í fyrri leiknum með 5-0 sigri, það er kannski ekki ósvipað og þegar liðið mætti þeim í vetur í átta liða úrslitunum. Liverpool vann fyrri leikinn 5-0 úti í Portúgal og viðureignin var búin. Byrjuðu snemma af miklum krafti og rétt eftir að síðari hálfleikur hófst var staðan orðin 3-0.

Það kom ansi áhugaverður kafli í átta liða úrslitunum þegar Liverpool drógst á móti Man City og áttu líka deildarleik við þá á svipuðum tíma. Liverpool byrjaði leikinn á Anfield af svo miklum krafti með Alex Oxlade-Chamberlain í lykilhlutverki að Man City vissi bara ekki hvað á þá stóð veðrið. Chamberlain, Salah og Mane komu Liverpool í 3-0 eftir 31.mínútu á Anfield og þar við sat. Í seinni leiknum byrjaði City af krafti og komust yfir strax á annari mínútu og svo var dæmt af þeim mark rétt fyrir hálfleik. Skömmu eftir að síðari hálfleikur var flautaður á skoraði Salah markið sem drap viðureignina og kom með útivalarmark og á 81.mínútu skoraði Firmino. 5-1 sigur á Man City staðreynd og mótbyrinn með Liverpool gífurlegur.

Barcelona höfðu lent í ansi svipuðu og þeir lentu í gegn Liverpool þegar Roma snéri við vonlausri stöðu og slógu þá út. Rómverjarnir voru því mótherjar Liverpool í undanúrslitunum sem var einkar áhugaverð rimma þar sem nýbúið að kaupa Mo Salah frá þeim og það var búið að koma reglulega fram að Liverpool hefði mikinn áhuga á frábærum markverði þeirra, Alisson Becker.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og frá 36.mínútu og 69.mínútu skoraði Liverpool fimm mörk. Þrjátíu mínútna kafli, fimm mörk! Tvö mörk frá Salah og Firmino og eitt frá Mane, James Milner setti einnig Meistaradeildarmetið í stoðsendingum í þessum leik. Þvílíkt rokk og ról sem það var en Roma náði að troða inn tveimur mörkum undir lok leiksins sem gaf þeim smá líflínu fyrir seinni leikinn. Liverpool varð fyrir skell snemma í leiknum þegar Chamberlain þurfti að fara út af eftir að hafa slitið liðbönd í hné sínu sem héldu honum út að mestu alla þessa leiktíð.

Seinni leikurinn byrjaði með miklum látum þegar Mane kemur Liverpool yfir á 9.mínútu. James MIlner verður fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 15.mínútu og Wijnaldum skorar aftur fyrir Liverpool á 25.mínútu. Þarna fékk Liverpool tvö mikilvæg útivallarmörk sem gaf þeim ákveðna yfirhönd eftir að hafa klúðrað forystunni í fyrri leiknum og fengið á sig þessi tvö mörk. Með þessum mörkum tryggði liðið sig ágætlega gegn því að verða fyrir því sama og Barcelona varð fyrir þegar Roma sló þá út.

Dzeko jafnaði metin fyrir Roma á 52.mínútu og það stefndi í að Liverpool gæti haldið þetta út en tvö mörk frá Roma á 86. og 94.mínútu settu smá hroll í Liverpool liðið sem hélt þó sem betur fer út síðustu sekúndur leiksins og komust áfram eftir 7-6 sigur í rimmunni, sem er ansi galið að hugsa til þar sem liðið var komið í 5-0 á 70.mínútu einvígisins. Þarna má súmmera ágætlega upp Liverpool liðið frá því í fyrra, algjört rokk og ról. Sóknarleikurinn var algjörlega í fyrirrúmi og vörnin leið svolítið fyrir það, liðinu gekk frekar illa að halda út forystum og gáfu of oft færi á sér.

Liðið í dag er svo ólíkt liðinu í fyrra og í raun fáranlegt hve mikið liðið hefur vaxið frá því í fyrra á svo ótrúlega margan hátt. Liðið er orðið mikið yfirvegaðra, öflugra til baka en enn með þetta púður í sókninni sem getur kaffært nær hvaða mótherja sem er. Liðið er orðið þolinmæðara og fullorðnara en það var og er farið að líta út eins og Evrópskt stórveldi á að líta út.

Síðast þá varð þetta lið Liverpool eins og villtur unglingur sem náði ekki að standast loka prófið gegn reynda meistaraliðinu Real Madrid, það er annað lið sem Klopp hefur í höndunum í dag og vonandi getur það lið tryggt sér farsælan endi á þessu ævintýri.

19 Comments

  1. Ólíkt Bayer og Barca þá vita Tottenham nákvæmlega hvað þeir eru að fara í þegar þeir spila við Liverpool. Þess vegna var maður að vonast eftir Ajax en svona er þetta í boltanum og maður fær ekki að velja sér andstæðinga í svona sterkri keppni

    Við erum að fara í 50-50 leik um stærsta bikar Evrópu og verður þetta annað hvort stórkostlegt tímabil en næstum því tímabil.

    Ég efast samt ekki um að Klopp mun gíra okkar menn í gang hann bað um trú á liðið og hana fær hann að minnstakosti frá mér.

    YNWA

    7
  2. Nu les madur ad buid se ad selja Newcastle til Dubai og Rafa ad skrifa undir nyjann samming. Ekki minkar samkepnin vid tad.

    1
  3. Frábær lesning!

    Það er alveg magnað að við skulum vera komnir í úrslitaleikinn annað árið í röð og núna er bara að vona að við bætum þeim sjötta við. Hversu yndislegt yrði það nú!?!

    Þetta verður eitthvað…

    2
  4. Ætla mér ekkert að vera með hroka gagnvart Tottenham, sem eru með gott lið, en allan tímann eigum við að vinna þá. Unnum þá í vetur heima og heiman, tæpt, þessi leikur verður þannig. Það verður allt lagt í sölurnar af okkar mönnum, þegar þannig er, þá er ekkert lið sem vinnur okkur.

    YNWA

  5. Úr því að deildin tapaðist þá er þetta gríðarlega mikilvægur leikur. Tímabilið getur breyst úr því að vera næstum því titla vetur í titlavetur. Á því er mikill munur, 2. sætið heillar mig ekkert óskaplega eftir mörg slík undanfarin
    ár án þess að fyrsta sætið hafi komið. Svo er það staða Klopp. Ef leikurinn tapast þá fer 2.sætið að festast við hann, maðurinn sem vinnur alltaf næstum því. Bestu stjórarnir ná nefnilega að vinna titla líka tímabilin sem þeir eru ekki með besta liðið eins og Ferguson sýndi margoft. Tottenham er með gott lið og þeir hafa gert vonbrigða seinni hluta tímabilsins í deildinni að sigurgöngu í CL. Hlutlaust myndi ég telja að sveiflan væri meiri hjá þeim en á móti held ég að okkar lið sé betra. Síðan er það dagsformið eins og endalaust er bent á. Sennilega er okkar lið yfirspenntara fyrir þennan leik því aldrei þessu vant í úrslitum CL er Liverpool fyrirfram sterkara liðið. Nú er bara að biðja til Guðs að leikmenn verði heilir, Klopp fari ekki á taugum og leikmenn nái sýnu besta fram.

    3
  6. Sælir félagar

    3 – 1 fyrir Liverpool og ég ræði það ekkert frekar

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  7. Sæl og blessuð.

    Hafi ég einhvern tímann haft slæman beyg fyrir leik þá er það einmitt núna. Tottenham standa uppi sem spútniklið CL – og troðast þar fram fyrir Ajax. Þeir hafa engu að tapa en allt að vinna. Engin leikmannakaup, enginn heimavöllur (lengst af vetri), engar væntingar. Þeir þekkja okkar lið eins og lófann á sér, vita hvað frústrasjónin verður ofboðsleg ef þetta gengur ekki hjá okkur í enn eitt skiptið. Þeir eiga eftir að stríða okkur við hvert tækifæri og nú eru Lucas Mora, Son, Eriksen að blómstra sem aldrei fyrr. Ég hálfpartinn vona að Kane verði klár í slaginn því þeim hefur, merkilegt nokk, gengið síður með þann skankalanga í fremstu. Þegar þeir eru upp á sitt besta er varla veikur hlekkur í liðinu og þannig held ég að formið á þeim verði eftir þetta ógnarlanga frí sitt. Vítakeppni væri þeim mjög að skapi og ég gæti alveg trúað þeim til að tefja. Svo eiga þeir plön a, b og c – þeir sýndu það á Anfield í marslok hversu skæðir þeir geta verið.

    Okkar menn, aftur á móti eru með bakið upp við vegginn og við vitum hvað þessar löngu pásur gera afspyrnu lítið fyrir þetta lið okkar, sem virðist una sér best þegar akkorðið er sem mest. Draugar liðinna úrslitarimma voma yfir okkur. Bikarleikir gegn City hér um árið þar sem vítaskyttur brugðust, Moreno á hælunum, að ógleymdum harmleiknum í Kiev. Svona fortíð getur auðvitað verið kennslustund og eflt einstaklinga og lið. En það er ekki sjálfgefið. Jafnvægið verður viðkvæmt og hættan er sú að allt riðlist og verði skakkt. Menn nenna ekki miklu lengur að horfa á næsta tímabil með vonarbliki í auga. Nú verður dolla að komast á hillu í okkar húsi.

    Í stuttu máli þá getur laugardagurinn orðið eitt herfilegt worst case scenario. Glottandi hvítliðar í banastuði en fagurrauðir á sömu nótum og í Katalóníu þarna forðum daga. Nú er enginn annar leikur til að bæta fyrir ólukkuna. Þetta verður að ganga í þessum leik.

    Svo ég ætla að leyfa mér að vera svartsýnn fyrir Madridarleikinn. Sú kennd tók að gera vart við sig undireins og Lucas Mora skoraði þriðja markið gegn Ajax. Hvað ég hefði frekar viljað mæta þeim guttum.

    3
  8. Mikið sammála Lúðvík Sverriz – ógleði gerði vart við sig þegar þriðja mark Spurs kom á 95:20 eða hvað það var……… ég vildi Ajax. Ég óttast………

    1
    • Ég skil ykkur, hefði líka viljað Ajax. Spurs eru stórhættulegir en ég kýs að trúa og svo ætla ég líka að njóta þess að horfa á okkar menn spila skemmtilegasta fótbolta sem sést þessi misserin.

      3
  9. Spurs eru stórhættulegir já en við erum ennþá hættulegri, reyndar miklu hættulegri og því til viðbótar erum við með besta markmanninn á milli stanganna og besta miðvörðinn og besta sóparann og markahæstu menninga og þann þjálfara sem er hvað bestur í að búa til það sigurvegarahugarfar hjá leikmönnum. Svo erum við reynsluna, ekki smur… spurs. Við tökum þetta og það verður geðveikt!

    13
      • Ekki bara út með kassann heldur líka inn með magann og upp með hökuna og ennið. Svo er ekkert vitlaust að temja sér jákvæðni og brjálað stuðningshugarfar því þetta lið okkar er sjúklega sterkt. Vissulega getur allt gerst í þessu eina leik en á venjulegum degi þá erum við betri!

        Hvað sagði sjeffinn okkar fyrir þremur árum? Við þurfum að breytast úr efasemdarfólki yfir í þá sem trúa. Ég hef trú á okkar mönnum!

        Annars varð ég fyrir andlegu áfalli þegar ég komst að því að ég var búinn að bóka kvöldið þann 1.júní . Tónleikar með Back Street Boys í Osló… I want it that way, baby! Show me the meaning og allt það. Ég treysti á að liðið okkar og að stuðningurinn okkar verði eins og óstöðvandi eimreið sem ekkert getur stöðvað.

        4
      • Bara selja miðann, Svavar, sleppur ekki að horfa á þennan leik 🙂

        2

One Ping

  1. Pingback:

Gullkastið – Lognið á undan storminum

Gullkastið – Lokaleikurinn!