Sjötti Evróputitillinn í höfn

Liverpool eru sigurvegarar Meistardeildarinnar 2019. Sá sjötti er í höfn!

Mörkin

0-1 Salah (2. mín., víti)
0-2 Origi (87. mín)

Gangur leiksins

Það voru líklega ansi margir rétt svo búnir að koma sér fyrir og kannski einhverjir enn að sækja snakkið eða Ribena safann þegar dró til tíðina. Liverpool tók miðju, eftir örfáar snertingar fékk Henderson boltann á miðjunni, vippaði inn fyrir á Mané sem lék inn í vítateiginn, þar var Sissoko að gefa einhverjar bendingar til annarra í vörninni. Fyrirgjöfin frá Mané fór semsagt í handarkrikann á Sissoko og rúllaði svo eftir höndinni á honum, og dómarinn gat einfaldlega ekki annað en dæmt víti. Það verður seint hægt að halda því fram að höndin á Sissoko hafi verið í eðlilegri stöðu, enda kíkti VAR á þetta sömuleiðis og sá ekki ástæðu til að breyta dómnum. Þar sem Milner var ekki inná var Salah kallaður til. Spyrnan var föst, en hvorki mjög há né mjög fjarri miðjunni. Lloris fór í rétt horn en kom ekki hönd á boltann sem söng í netinu. 1-0 eftir rúma mínútu! Þetta setti vissulega svip sinn á leikinn, því það var eins og okkar menn bökkuðu og leyfðu Spurs að hafa frumkvæðið. Ekki það að þeim hafi tekist að gera neitt við það frumkvæði, því þeir náðu ekki skoti á markið. Trent átti hins vegar mjög efnilegt skot á 17. mínútu af 25-30 metra færi sem fór rétt framhjá markinu. Skömmu síðar þurfti svo að gera örstutt hlé á leiknum þegar léttklædd kona hljóp inn á völlinn, að því er virtist til að auglýsa einhverja Youtube rás hjá rússneskum grínista. Þessi stúlka reyndist vera sú eina sem komst framhjá Virgil van Dijk í leiknum, og verður sjálfsagt komin í leikmannahóp einhvers úrvalsdeildarliðsins á næstu leiktíð fyrir vikið. Á 38. mínútu fékk svo Robertson boltann á miðjum eigin vallarhelmingi með nokkuð auða flugbraut fyrir framan sig, hljóp upp að vítateig og hlóð þar í skot sem Lloris varði yfir. Fleira markvert gerðist líklega ekki í þessum hálfleik, sem má segja að hafi einkennst af góðum varnarleik hjá okkar mönnum og mögulega af yfirspenntum taugum.

Seinni hálfleikur byrjaði svipað eins og sá síðari, þ.e. Spurs voru meira með boltann án þess að gera neinar sérstakar rósir. Eftir tæpan stundarfjórðung fór svo Firmino út af og Origi kom inn á í staðinn, og skömmu síðar kom Milner inná fyrir Wijanldum. Þeir tveir sem fóru útaf höfðu líklega verið sístir af annars jöfnu liði, og nokkuð ljóst að Firmino var ekki búinn að ná upp leikæfingu, en var þó sá leikmaður sem hljóp mest af okkar mönnum í fyrri hálfleik. Milner var ekki búinn að vera lengi inná þegar hann rak endahnútinn á góða sókn en skot hans smaug naumlega framhjá. Pressan frá Spurs fór nú að aukast, og síðasta korterið gerðu þeir harða atlögu að marki okkar en lentu þar á vegg sem heitir Alisson Becker. Á 75. mínútu átti Son gott hlaup í gegnum vörnina, og var nálægt því að komast framhjá Virgil, en hann náði að hreinsa í horn þegar þeir voru báðir komnir inn í teig. Fimm mínútum síðar átti Son gott skot fyrir utan teig sem Alisson varði til hliðar, boltinn barst aftur inn á teig þar sem Lucas Moura var staddur nálægt vítateigspunktinum en náði ekki mjög föstu skoti svo Alisson varði aftur. Fjórum mínútum síðar fengu Spurs aukaspyrnu alveg upp við vítateig vinstra megin, Eriksson átti mjög gott skot en Alisson varði fimlega í horn.

Það var svo á 87. mínútu sem okkar menn gerðu í raun út um leikinn. Milner tók hornspyrnu, varnarmenn Spurs reyndu að skalla frá en boltinn lenti fyrir fætur Matip sem renndi honum á Origi sem var óvaldaður vinstra megin í teignum. Færið sem hann fékk var fjarri því að vera eitthvað auðvelt, en hann átti frábært og hnitmiðað skot í fjærhornið, óverjandi fyrir Lloris. Staðan 2-0, og jafnvel þó svo Spurs hafi náð að vinna upp tveggja marka forskot Ajax í seinni undanúrslitaleiknum, þá áttu þeir einfaldlega ekki roð í vörn Liverpool. Gomez kom inná fyrir Mané og fór í hægri bakvörðinn, sem þýddi að Trent fór framar. Gomez var ögn ryðgaður og missti einn mann framhjá sér en því var bjargað af restinni af vörninni. Það voru 5 mínútur í uppbótartíma en það kom ekkert færi sem Alisson réð ekki nokkuð auðveldlega við, og þegar dómarinn flautaði til leiksloka brutust út gríðarleg fagnaðarlæti hjá okkar mönnum og áhangendum á pöllunum og líklega um allan heim.

Menn leiksins

Það er erfitt að taka einhvern einn leikmann út úr þessari gríðarlega sterku liðsheild. Þeir einu sem hafa hugsanlega átt betri leik voru Firmino og Wijnaldum, en þeir voru samt að vinna fyrir alla liðsheildina. Vörnin var að spila upp á 9,5 eins og svo oft áður. Eigum við eitthvað að ræða þetta bakvarðarpar okkar? Trent átti t.d. frábæra varnarvinnu einn á móti Son í fyrri hálfleik, átti svo skot sem hefði með smá heppni getað endað í netinu, og var síógnandi. Svipað má segja um Robertson, vann vel varnarlega, átti gott skot, og átti líka fína fyrirgjöf í seinni hálfleik sem Lloris gerði vel að fara út í teig og hirða því sú var á leiðinni á tærnar á Mané. Miðvarðarparið okkar var líka að eiga afskaplega góðan leik, Matip átti jú stoðsendingu í seinna markinu og var afskaplega traustur varnarlega þar fyrir utan. Satt að segja er erfitt að sjá þetta miðvarðarpar fara eitthvað á næstunni, Klopp segist vera ánægður með það mannaval sem hann hefur í þessa stöðu, og það má segja að það sé alveg rétt hjá honum, bara svo lengi sem þeir haldast heilir #krossafingur. Nú og svo var það Alisson. Ekki nóg með að hann varði allt sem á markið kom, heldur gerði hann það á þann hátt að annaðhvort greip hann boltann, eða þá að hann blakaði honum yfir í svæði þar sem enginn sóknarmaður Tottenham var staddur. Þetta sáum við reyndar líka í leiknum á móti Barcelona á Anfield, og því ekkert nýtt þar svosem. Ég tilnefni því Alisson sem mann leiksins. Að sjálfsögðu þarf að minnast á sóknarlínuna sömuleiðis. Salah og Mané voru síógnandi, og Origi heldur áfram að stimpla sig inn sem költ-hetja í Liverpool. Að lokum er svo rétt að tala um Fabinho og Milner, sem báðir voru sérlega áreiðanlegir eins og svo oft áður.

Rétt er að minnast sérstaklega á tvo aðra einstaklinga.

Jordan Henderson hefur þurft að þola alls konar gagnrýni, stundum réttmæta en lang oftast ósanngjarna. Hann var núna að lyfta Meistaradeildarbikarnum sem fyrirliði Liverpool. Hann var sívinnandi allan leikinn, bæði í vörn og sókn, og hafi einhver einstaklingur átt það skilið að lyfta þessum bikar þá var það Hendo.

Hinn einstaklingurinn er Jürgen Norbert Klopp. Eftir 6 úrslitaleiki, þrjá með Dormund og þrjá með Liverpool, þá kom loksins sigur. Sjaldan hefur nokkur knattspyrnustjóri átt jafn mikið skilið að vinna úrslitaleik eins og þennan. Því miður er fótboltinn ekki sanngjörn íþróttagrein, því Klopp hefði átt að vera löngu búinn að vinna bikara. En í kvöld réð sanngirnin ríkjum. Það er líka rétt að minnast á að í kvöld var Klopp fljótur að bregðast við og gera breytingar á liðinu. Við höfum oft séð hann halda sig við þá leikmenn sem byrja leikinn og ekki skipta fyrr en í rauðan dauðann, en í kvöld var ekki liðinn klukkutími þegar Firmino var kominn út af.

Umræðan eftir leik

Nú verður fagnað í einhverja daga og jafnvel vikur. Við þurfum að skipta út “we won it five times” söngnum fyrir nýjan, og vonandi getum við svo skipt þeim út aftur fljótlega. Það er a.m.k. trú undirritaðs að þetta lið eigi eftir að sækja einhverjar dollur á næsta tímabili. Það er ljóst að liðið fær næg tækifæri til þess, því það verða 6 bikarar í boði á næsta tímabili: Enska deildin, enski bikarinn, enski deildarbikarinn, meistaradeildin, góðgerðarskjöldurinn, og meistarar meistaranna.

Liverpool hefur of oft þurft að þola það að missa einhvern af sínum bestu leikmönnum eftir að hafa verið á barmi þess að komast á toppinn. Núna er maður ekki að sjá það gerast. Af hverju ættu leikmenn að fara frá Liverpool til að vinna bikara? Því nú er það ljóst að það eru fá lið með meiri möguleika til að vinna bikara en einmitt Liverpool. Svo getum við bara spurt menn eins og Coutinho hversu vel það hafi gefist að fara frá klúbbnum.

Það er líka gaman að liðið hafi náð þessum bikar í hús, þó ekki sé nema fyrir leikmenn sem hafa verið í aukahlutverki í vetur, eins og Sturridge, Moreno og Mignolet. Þeir tveir fyrstnefndu fara í sumar þar sem samningarnir við þá renna út, og ekki útséð með Mignolet. En allir hafa þeir spilað sína rullu, sem hefur verið sú að vera tilbúnir að koma inn þegar þess hefur verið krafist, og gleymum ekki að Sturridge skoraði t.d. mark á móti PSG á Anfield í haust. Án þess marks hefði liðið ekki komist í úrslitaleikinn. Þeir hafa líka sinnt sínu hlutverki án þess að vera með eitthvað vesen, og gleymum ekki heldur að þessi bikar er afrakstur vinnu síðustu þriggja ára, þar sem þeir hafa á köflum spilað mun stærra hlutverk en í vetur.

Gefum líka Tottenham kredit fyrir sína spilamennsku. Það var engin Ramos-frammistaða hjá þeim, heldur voru menn einfaldlega að spila sinn fótbolta.

Nú tekur við langþráð frí hjá okkar mönnum, og við sjáum liðið ekki aftur fyrr en á undirbúningstímabilinu sem hefst einhverntímann í júlí. Gleymum samt ekki að glugginn er opinn, og það kæmi svakalega lítið á óvart þó við sæjum einhverjar tilkynningar á næstu dögum eða vikum um leikmannakaup. Það þarf jú að fylla þau skörð sem Moreno og Sturridge skilja eftir sig, og svosem ekki ólíklegt að það verði einhverjir leikmenn seldir, þó ekki sé nema þeir leikmenn sem verið hafa á láni undanfarið: Ojo, Kent, Wilson, Ings, Karius, Clyne og fleiri.

Þó tímabilinu sé formlega lokið verður nóg að gera hjá okkur hér á kop.is á næstunni, það þarf að gera upp þennan meistardeildarsigur, sem og tímabilið í heild sinni, og svo munum við skoða vel og vandlega hvað er framundan hjá liðinu.

En í augnablikinu skulum við njóta þess að LIVERPOOL ER SIGURVEGARI MEISTARADEILDARINNAR!

59 Comments

  1. Til hamingju þið frábæra Liverpool fólk!!!

    11
    • Djöfull þoli ég ekki stöð 2 sport

      Til hamingju allir…..geðveikt

      10
  2. Gaman að sjá Tottenham fá afhenta silvurpeninga beint fyrir framan aðal bikarinn ?

    6
    • Hahaha… það er sárt en við áttum þetta svo sannarlega skilið!

      3
  3. Vill þakka KOP mönnum svo fyrir þessa yndislegu síðu sem hefur verið toppurinn í áraraðir þið eruð meistarar allir sem einn.

    40
  4. Svona á að lyfta bikar þvílíkt passion hjá okkar skipper!

    Hendo#14

    17
  5. Allison maður leiksins ekki spurning og vörnin, til hamingju félagar nær og fjær.

    12
  6. Ég bíð bara spenntur eftir styttunni af Origi fyrir utan Anfield. Þvílíkt legend sem hann er orðinn!

    YNWA

    13
    • Nákvæmlega! Hvernig er annars hægt að gagnrýna þetta lið okkar? Hvað þá þjálfarann. Nú eða eigendurna.

      7
  7. Til hamingju allir Poollarar !!! Ég hef ekki skemmt mér betur yfir fótboltaleik síðan 2005.
    Við getum svo sannarlega sagt að Liverpool sé besta knattspyrnulið í heimi í dag – njótum þess !

    10
  8. Sæl og blessuð.

    Stórbrotið og hversu laaaangþráð var þetta?

    Átti von á sterkara hvítliðaliði í kvöld. Sú ákvörðun að láta Kane byrja fremur en Lucas held ég að hafi ekki reynst þeim vel. Enginn dregur úr færni hins enska en það var ljóst að hraðinn hjá þeim varð minni. Með sama hætti var Alli heppilega slakur. Son var ásamt Lucas sá sem ég óttaðist mest fyrir þennan leik en það tókst að fyrirbyggja að hann ylli tjóni. Virgill á þar mikið lof!

    Hvað okkar menn varðaði þá var þetta stórbrotið í alla staði þótt spileríið hafi ekki verið nógu gott. Svona leikir eru alltaf cordisólkokteill, leikmenn skíthræddir um að verða blórabögglar og svo ótrúlega margt sem getur farið úrskeiðis.

    Alison er minn maður leiksins. Virgill fylgir fast á hæla honum, Matip og bakverðirnir. Gef Hendó prik fyrir að vera andlegur leiðtogi í þessum spennupolli. Miðjan og sóknin var svo ekki að heilla. Maður hefði getað séð fyrir sér snarpari skyndisóknir og meiri yfirferð. En svona eru þessir stóru leikir.

    Já, hverum er ekki saman: Bölvuninni hefur verið aflétt, þurrkurinn er á enda, fastan er liðin, gleðin tekur við. Og nú situr ,,litli töframaðurinn” heima í stofu og skrollar á milli sjónvarpsstöðva.

    Liverpool er Evrópumeistari 2019!!!

    24
  9. Ferð Klopp með Liverpool hefur frá fyrsta degi verið til sigurs. Við hljótum öll að gleðjast yfir þessum geggjaða árangri.

    Besta lið í Evrópu!

    Einhver gæti reynt að tala það niður en þá má sá sækja rök sín í öldu. Hún brotnar í fjöruborði og kann ekki önnur svör.

    Takk líka Kopparar fyrir útthaldið, ástríðuna og ófrávíkjanlegan stuðning.

    Án svona síðu myndi þetta líklega ekki gerast.

    22
  10. Guð minn góður hvað þetta er langþráð. Þetta gæti ekki verið mikið meira sætt

    28
  11. Sölvi akkurat án stuðningsmanna og ástríðu þeirra fyrir Liverpool væri þetta ekki möguleiki ! við erum í þessu saman og við styðjum okkar klúbb no matter what við erum búin að ganga í gegn um súrt og sætt og alltof miklu af því súra í of langan tíma það var komið að þessu !
    YNWA !

    12
  12. Við erum bestir í Evrópu. Það eru margir landsmeistarar bakvið okkur. Spánn,Þýskaland,Portúgal, síðan unnum við liðið sem vann Ensku meistarana, Hollensku. Við er bara bestir og erum að vakna.

    4
  13. við erum sexfaldir Meistaradeildarmeistarar. Ef ég man rétt þá hafa manhjur bara unnið þá deild tvisvar eða þrisvar. Þetta gerir okkur aftur að sigursælasta liði sögunnar í ensku grassspyrnusögunni. Eitthvað segir mér samt að við munum vinna eitthvað meira á næstu árum. Það sama get ég ekki séð gerast hjá Óla Gunnari og hans leikbrúðum.

    Geggjað kvöld í Ósló en erfitt. Backstreet boys voru góðir, sennilega betri en spurs. Það er samt þannig að Liverpool eru óhugnanlega sterkir og við getum látið andstæðinga okkar líta illa út.

    Til hamingju með sjötta CL-titilinn okkar!! Vonandi verður ekki 14 ára bið í næsta og núna er bara að auka breiddina aðeins og halda geðveikinni áfram!

    9
    • Enskt lið hefur unnið 13 sinnum , þar af Liverpool 6 sinnum 🙂

      6
  14. Algerlega geggjað.
    Unnum úrslitaleik meistaradeildarinnar í öðrum gír.
    Til lukku poolarar nær og fjær.
    Við erum rétt að byrja á nýjum sigurkafla í stórbrotinni sögu Liverpool.

    4
  15. Þvílíkur dagur, þvílíkt tímabil og þvílíkt lið. Jürgen Klopp, þvílíkur happafengur og þvílíkur djöfulsins meistari! Hvílíkt og annað eins! ;D

    Til hamingju með þann sjötta, púlarar nær og fjær. Þetta er bara geggjað!

    YNWA!

    5
  16. Sorry Mussi sá ekki að þetta var farið út það var eitthvað nr 30 sem hefur verið tekið út !

  17. Mmm ha ég var bara að pósta video-i sem átti vel við hérna , ég skil ekki neitt
    “Lets talk about Six baby”

    3
    • Það var eitthvað þarna nr 30 sem hefur verið fjarlægt ég sver það hef ekkert nema gott um góða stuðningsmenn að segja og þetta hjá Klopp sínir svo klárlega að hann er the Normal one segir og gerir nákvæmlega það sem honum listir og langar til og það er nákvæmlega það sem við elskum við hann er hvað hann er mikið Normal og hann sjálfur.

  18. Mér var meinað um afgreiðslu á barnum Í Lundi því ég söng Alles alles alles. Það var samt þess virði.

    6
  19. We won it six times 🙂

    Þetta var ekki flottasti leikur Liverpool á tímabilinu en hverjum er ekki drullu sama á meðan dolla dettur í hús og sú fyrsta stóra síðan 2006 FA CUP .

    YNWA – Ég er á því að þetta hafi verið ákveðin ísbrjótur og fleiri dollur munu koma í bikarskápinn á Anfield á næstu árum.

    3
  20. Við Liverpoolfólk erum svo vön stórum leikjum, t.d. að vinna Barca 4-0 heima þegar engin þorði að vona slíkt. Svo fáum við get ég sagt venjulegan leik, vinnum “bara” 2-0 og erum meistarar allra meistara. Það sem ég er að reyna að koma út úr mér er að við verðum að komast út úr þeirri minntu að vinna stóru leikina á tradegiskan hátt, taka þessa leiki eazzzzzy, ekki endalausar taugatoganir. Viðurkenni samt að taugatoganir eru eftirminnilegustu stundirnar, en fyrr má nú rota en dauðrota.
    Til hamingju allt Liverpool fólk, we are the champions.

    YNWA

    7
  21. Við erum Evrópumeistarar í meistaradeldinni og það sér ekkert fyrir endann á þessu. Við hljótum að fara upp í pott tvö núna og fáum þ.a.l. þægilegri drætti í riðlunum. Svo töpum við aldrei tvíhöfðarimmum. Hvar verður næsti úrslitaleikur?

    Gratulerað með fallega liðið okkar! Það verður gaman að mæta í vinnuna á mánudaginn!

    • Istanbúl og því skrifað í skýinn að okkar lið verði þar og jöfnum AC Mílan 7 titlar þetta getur ekki klikkað.

      1
  22. Þess má til gamans geta að hin svokölluðu topp 6 lið hafa unnið CL/Evrópubikarinn samtals 10x þar af Liverpool 6x!!!!!! þetta er stærsta félagsliða keppni í heimi og dæmið því ekki flókið, algjörir yfirburðir!
    European Fucking Royalty!!!!!!

    1
  23. Það myndi vera Istanbul aftur 2020, tilvalið að rifja upp gamla daga þar

    2
  24. Rosalega mikilvægt að fá hreint lak í þessum leik því eins og skáldið kvað:

    Dívaninn er þarfaþing,
    þreyttum hvíld hann gefur
    Efni í margan Íslending
    Í hann farið hefur.

    Hvað kvað skáldið? Hver gerði gerði Hveragerði. Humm, hefði alltaf verið til í að taka 2-0 fyrirfram. Sælar stelpur.

    2
  25. Sæl og blessuð.

    Líklega fer þessi leikskýrsla í hóp þeirra bestu sem ritaðar hafa verið hér á þessari góðu síðu. Allt er satt og rétt sem hér stendur. Ég hendi hér inn nokkrum þönkum í númeraðri röð:

    1. Tottenham: Sem púlari til áratuga eru efasemdir inngrónar í DNA-ið mitt þegar mikið stendur til og ég óttaðist það versta frá hvítliðum í þessum leik. Þess á milli þakkaði ég mínum sæla fyrir að við vorum ekki að fara að etja kappi við Aguero, Sané, Fernandinho og þá alla fölbláu sem kunna svo sannarlega til verka á stóra sviðinu. Það kom svo á daginn að Tottenham réði enn síður við pressuna en okkar menn (sem voru þó drullustressaðir á löngum köflum!). Liðið á líka þakkir skildar fyrir heiðarlegan leik. Óþokkabrögð á pari við þau sem við sáum í fyrra voru ekki á leikskipulagi þeirra og fyrir það má þakka. Fyrst og fremst kom í ljós að á þessum tveimur liðum er einmitt sá reginmunur á gæðum sem stigafjöldinn í ensku deildinni ber með sér. Í þeim efnum, hjálpaði það þeim lítið að vera með slöttólfinn Kane í fremstu víglínu fremur en þann baneitraða Lucas. Alli var líka herfilegur. Ekkert varð úr frjálsum æfingum Son, á gólfi. Sissoko, sem er einn þeirra beittasti hnífur, var í hálfgerðu sprengilosti eftir handapatið fræga en oft kom í ljós hversu magnaður leikmaður þar er á ferð. Þeir höfðu að endingu ekki úthald í þessa hakkavél sem hápressan okkar var.

    2. Varamenn: Það er í anda þessa liðs að þeir leikmenn sem við viljum einmitt að fari ALDREI af bekknum fá sinn skerf af lofi og prís. Hófsemd er mikil dygð og það gerir ekki litlar kröfur til leikmanna að mæta hvað eftir annað ,,til leiks” í von og óvon um að þeir verði kallaðir inn á völlinn. Mignó og Moreno (sem fer á kostum í myndböndum sem nú ganga af gleðilátum þeirra!) eru miklir dáðadrengir. Eins og Daníel rekur þá á nafni hans Sturridge að sama skapi mikinn þátt í því að liðið náði svo langt.

    3. Áhorfendur: Hversu magnað er það fyrir leikmenn að vera umkringdir hópi sem úðar yfir þá kærleika og orku frá því áður en leikurinn hefst og þar til völlurinn er tómur og mannlaus?

    4. Liðið: Að vinna ,,ljótan sigur” er eitt það fallegasta í boltanum. Slíka leiki höfum við séð – t.a.m. viðureign Chelsea og Bayern frá 2012 þegar Drogba skoraði í blálokin eftir töflufundarhorn. Til þess að hægt sé að vinna leiki sem eru í raun óttalegt klafs og boltinn er meira út af en inn á vellinum (eins og í gær) þarf granítharða vörn og mikla agressjón. Ég geri orð síðuhaldara að mínum sem dró þetta saman á aðdáunarverðan hátt: ,,Skömmu síðar þurfti svo að gera örstutt hlé á leiknum þegar léttklædd kona hljóp inn á völlinn, að því er virtist til að auglýsa einhverja Youtube rás hjá rússneskum grínista. Þessi stúlka reyndist vera sú eina sem komst framhjá Virgil van Dijk í leiknum, og verður sjálfsagt komin í leikmannahóp einhvers úrvalsdeildarliðsins á næstu leiktíð fyrir vikið.” Amen.

    5. Origi!!!

    6. Þurrkatíð á enda. Eyrnastór verður fyrir allra augum á Anfield næsta tímabil og sá innblástur mun geirnegla þá listasmíði sem Klopp hefur unnið hörðum höndum að því að reisa. Nú verður ekki aftur snúið. Titlarnir munu koma fleiri og þau lið sem við höfum hingað til staðið í harðri samkeppni við, eða mænt á úr nokkurri fjarlægð ofar í töflum, munu verða í aukahlutverki næstu árin. Þetta verða tveggja liða rimmur þar sem við berjumst með kjafti og klóm við þá fölbláu. Til þess þurfum við auðvitað enn meiri breidd – fleiri eðalmenn sem geta unað sér á bekk og mætt svo til að breyta leikjum ef með þarf. Höfum það ekki lengra að sinni: ,,Buckle your seatbelts Dorothy, ’cause Kansas is going bye bye.”

    16
  26. Eru ekki 7 bikarar í boði? Keppir Liverpool ekki í heimsmeistarakeppni félagsliða líka?
    Væri til í þann tiril er enn pirraður yfir að Liverpool klúðraði því síðast.

    Annars bara YNWA LIVERPOOL ERU CL MEISTARAR!!!

    5
  27. Sælir félagar

    Stórkostlegt lið, stórkoslegir leikmenn og stókostlegur stjóri Junrgen Norbert Klopp. Takk fyrir mig fyrir alla skemmtunina á þessari leiktíð og framtíðin er björt.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  28. Væri hægt að biðja um að festa þessa frábæru mynd inná síðuna þannig maður sjái hana sem lengst ef það koma nýjir þræðir.
    Takk fyrir mig meistarar !

    3
  29. Heimsmeistarar félagsliða er núna á 4ja ára fresti, næst 2021. Las þetta einhverstaðar.

    1
    • Skv. nýjustu fréttum verður HM félagsliða i desember eins og undanfarin ár… þ.a. okkar menn geta unnið einn titilinn til viðbótar i ár.

      1
  30. Takk fyrir þetta og til hamingju allir Liverpool stuðningsmenn nær og fjær. Stór stund í sögu félagsins. Okkar lið lék ekki endilega sinn besta bolta en nógu góðan samt til að sigra. Ég skrifaði einhverntímann hérna á síðunni eftir að riðlakeppnin var búin að staðan þá minnti þægilega mikið á 2005 æfintýrið sem kom svo á daginn. 2005 lenti Liverpool í 2, sæti í riðlakeppninni og komst áfram á markatölu, 2019 lenti Liverpool í 2. sæti riðlakeppninni og komst áfram á markatölu. Þýsk lið í 16 liða í bæði skiptin. Þessi uppskrift eða tilviljun gat ekki klikkað og var þetta skrifað í hinu víðfrægu ský fyrir margt löngu og meira að segja gat nánast ómöguleg staða gegn Barcelona ekki komið í veg fyrir það.
    Nú er bara að njóta þessa árangurs, sperra brjóst og stél eins og segir í textanum og bíða spenntur eftir næsta tímabili.

    4
  31. Ég er gersamlega alsæll yfir gærkvöldinu, er enn að rifja upp leikinn meira en tólf tímum eftir hann…
    Fyrir mér voru Matip og Alisson menn leiksins. Ómeiddur Matip er svo sannarlega betri en enginn og búinn að vera góður makker með Virgil. Annars er Virgil bara svakalegur.

    Svo finnst mér liðið heilt yfir vera búið “að læra” að vinna leiki. Í fyrra var þetta rocknroll fótbolti í hverjum leik, ef það gekk ekki upp endaði leikurinn oftast sem tap/jafntefli. Á þessu tímabili hefur maður séð liðið skipta yfir í rocknroll fótbolta (desember 2018) þegar mögulegt og svo í effective fótbolta þegar þess gerist þörf, til þess þurfa lið traustan markvörð og trausta vörn…

    #YNWA

    1
  32. Það hefur engin stjóri Liverpool síðan að Shankley mætti á svæðið breytt eins miklu á skömmum tíma.

    Hann hefur gjörbreytt okkar leikstíl, hann hefur bætt þá leikmenn sem fyrir voru og kaupinn hans hafa verið ótrúleg.

    Hérna er nöfnin á þeim leikmönum sem voru í Liverpool liðinu tímabilið á undan Klopp(s.s tímabilið á undan ekki á því tímabili sem hann tekur við) og eru enþá nálagt liðinu.
    Mignolet – varamarkvörður í dag
    Henderson – Fyrirliðinn okkar og ekki gleyma King Kenny keypti þennan strák.
    Lallana – Meiðslapésin okkkar en enþá solid
    Moreno – spilar ekkert
    Sturridge – algjör aukaleikari í ár, takk samt fyrir Chelsea markið 🙂

    = Fyrir utan Henderson þá hefur Klopp byggt nýtt lið alveg frá grunni.

    Evrópumeistara 2019 og 2.sætið í deild með 97 stig = Besta lið Liverpool síðan að Úrvaldsdeildinn var stofnuð og viti menn þetta er bara byrjun á einhverju góðu.
    Lykilmenn á góðum aldri með langtímasamninga, nóg af penning ef það þarf að versla og stemmninginn í klúbbnum hefur ekki verið eins góð og síðan að við tókum þrennuna 2001(er 100% viss um að Klopp mun ekki fylgja þessu tímabili eftir með skitu eins og Diouf/Diao kaupinn voru).

    YNWA

    2

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar – liðið gegn Tottenham

Besti dagur internetsins…