Staðfest leikmannasýsl & annað áhugavert

Liverpool FC eru Evrópumeistarar 2019

Evrópumeistarar alheimsins hafa haldið sinni stóísku ró í innkaupaglugga sumarsins en ýmis minniháttar leikmannamál hafa átt sér stað á síðastliðinni viku sem vert er að minnast á.

Fyrst ber að nefna Rafael Camacho sem var seldur til Sporting Lissabon fyrir viku síðan en sú brottför hafði legið í loftinu frá því fyrr í vetur samkvæmt fregnum. Eitthvað var pilturinn ósáttur við sitt hlutskipti hjá LFC og þrátt fyrir að hafa staðið sig vel í þeim tækifærum sem honum bauðst að þá kaus hann að þrýsta á sölu í sumar. Vitandi að einungis eitt ár var eftir af samningi Rafael þá gerði Michael Edwards vel í að fá 5 milljónir punda í reiðufé á borðið ásamt 2 milljóna upphækkunum og framtíðarklásúlum sem gagnast gætu félaginu ef rætist úr stráknum.

Fingrar hafa verið fettir út í upphæðina en hún er líklega vel sanngjörn hafandi séð João Carlos Teixeira samlanda Camacho vera öflugan hjá varaliði LFC en aldrei náð að stíga almennilega upp í aðalliðið þrátt fyrir lánssamninga og að snúa aftur til heimalandsins. Teixeira hafði spilaði fjórum sinni fleiri leiki fyrir meistaraflokk Liverpool en Camacho áður en hann kvaddi klúbbinn og í dag er hann hjá Vitória Guimarães SC og metinn á litla 1 milljón evra. Knattspyrnuheimurinn er grjótharður bransi og það verða ekki allir ofurstjörnur þótt þeir séu efnilegir á yngri árum.

Talandi um brottfarir ungliða þá lét hinn tvítugi Bobby Adekanye sig hverfa á braut að samning útrunnum og hélt suður til Rómaborgar í ljósbláan faðm Lazio en við fengum litlar 240 þús.pund í sárabætur. Liverpool hafði boðið honum nýjan samning fyrir stuttu til að verja hagsmuni sína og munu halda þeirri baráttu áfram með því að kæra Lazio til FIFA fyrir að brjóta reglur um samskipti við samningsbundin ungstirni. Í sjálfu sér var ólíklegt að Adekanye myndi nokkurn tímann spila fyrir LFC þó að vissulega hafi hann verið efnilegur er hann kom frá Barcelona á sínum tíma og tapið því ekki mikið. En að sama skapi er það sjálfsagt mál að senda öðrum liðum þau skilaboð að þeim sé ekki frjálst að stela okkar yngri leikmönnum án þess að við verjumst hraustlega og heimtum sanngjarnt kaupverð og krassandi klásúlur. Prinsippmál.

Stýrivaxtalækkun Seðlabankans í síðustu viku hefur hleypt miklu lífi í lánveitingar og Liverpool voru engir eftirbátar í endurfjármögnun og hafa endurlánað Marko Grujic til Herthu Berlin fyrir næsta tímabil. Að launum hljótum við 2 milljónir punda í eingreiðslu ásamt hugsanlegum 500 þús. punda í bónusa en Berlínarliðið borgar einnig launakostnað á meðan á láni stendur. Vonandi heldur Marko áfram að setja mark sitt á Bundesliguna og koma enn öflugri til baka síðar meir.

Þá höfum við framlengt samning við hinn uppalda 17 ára leikmann Leighton Clarkson en miðjumaðurinn er sérlega góður í föstum leikatriðum og vanmetinn gimsteinn að margra mati. Vert að fylgjast vel með honum ásamt Bobby Duncan, Paul Glatzel og hinum bikarmeisturunum í Liverpool undir 18 ára á næsta tímabili.

Um miðja þessa viku kom mikill kraftur í áhugaverðan orðróm um að Liverpool væri að fá til sín hinn 16 ára Harvey Elliott frá Fulham en hann er að klára sinn samning og vill leita á önnur mið. Elliott þessi hefur á stuttum ferli helst unnið sér það til frægðar að vera yngsti leikmaður til að spila í úrvalsdeildinni en hann gerði það núna í vor hjá fallistum Fulham. Af gömlum Twitter-aðgangi stráksa að dæma þá er ljóst að hann er vel uppalinn sem Púlari frá barnæsku og væri því að uppfylla sinn æskudraum um að spila fyrir Rauða herinn. Hann er örfættur sókndjarfur vængmaður sem skoraði 5 mörk og lagði upp 4 til viðbótar í 18 leikjum í deildarkeppni undir 18 ára í vetur og spennandi væri að sjá hann í okkar röðum.

Einnig láku myndir á alnetið af hugsanlegum seinni varabúning næsta vetrar og er hann í ágætari kantinum að mati pistlahöfundar. Meistari Bobby Firmino sem er að brillera með Brössum í Brasilíu í Copa America tekur sig í það minnsta vel út í honum.

Af slúðri er fátt að frétta en Lovren hefur verið linkaður við nýdæmda AC Milan en Klopp ku vilja halda Króatanum kröftuga fyrir næsta tímabil. Það er helst ef að Lovren sjálfur færi fram á sölu sem að eitthvað myndi gerast í þeim málum en það þykir harla ólíklegt að svo stöddu. Í vikunni voru Liverpool líka linkaðir við tvo óskandinavíska Dani en þeir eru reyndar Spánverjar og heita Dani Ceballos og Dani Olmo. Ekki veit ég hvort þeir séu neitt líklegri en næsti maður til að vera keyptur til Liverpool í sumar en það má stytta sér stundir í gúrkutíðinni við það að spá í spænsk spil sem þessi.

Til að bæta í slúðrið þá var markmannssamloka frá Southampton orðuð við okkur ef ske kynni að Mignolet vildi finna nýtt lið og okkur myndi vanta nýjan varamarkmann. Báðir Forster og McCarthy eru alveg raunhæfir valkostir á bekkinn með úrvalsdeildarreynslu og á fínum aldri. Ef Forster gæti nálgast sitt fyrra form þá væri þetta fundið fé en McCarthy hefur oft verið tengdur við okkur og staðið sig ágætlega á suðurströndinni. Svo væri nú ekki slæmt að bæta í safnið af Saints-mönnum fyrir spurningasmiði framtíðarinnar í pub quiz og víðar.

Að lokum þá var verið að birta lista af þeim leikmönnum sem hefja æfingar á Melwood á morgun en fyrsti æfingaleikurinn er næstkomandi fimmtudag gegn grönnum sínum í Tranmere Rovers. Hinn nýkeypti Sepp er í hópnum en einnig vekur athygli nafnið Arroyo á listanum en þar er um að ræða 19 ára kólumbískan vinstri bakvörð sem kom á bækur félagsins í febrúar 2018. Hann fór strax á láni til varaliðs Mallorca og í Gent fyrir síðastliðið tímabil í þeim tilgangi að vinna í vinnuleyfismálum en hann hefur spilað 16 sinnum fyrir yngri landsliði Kólumbíu. Hugsanlegt er að Klopp vilji skoða gæðin í honum persónulega og þá máta hann sem varaskeifu fyrir Robertson en öll slík plön velta á hinu opinbera í Bretlandi. Hér má sjá kröftuga spretti hjá Arroyo en þó er ofsagt í titli myndbandsins að þeir séu fantastíkir:

Að öðru leyti þá er umræðan opin á þessum sólríka föstudegi og allir hvattir til að láta ljós sitt skína á kommentakerfinu.

YNWA

24 Comments

  1. Lúxuss-vandamálið sem mætir okkur nú í góðærinu, þar sem valinn maður er í hverju rúmi, má orða á þennan hátt:

    Hvað verður um börnin?

    7
  2. Nicolas Pepe frá Lille er mikið orðaður við okkur núna, forseti Lille staðfestir það i nýjustu fréttum hvað er að marka það mun væntalega koma í ljós, þurfum að auka breiddina hja fremstu 3 i liðinu með gæðum…

    2
  3. Partýið er búið. Dolla nr 6 er okkar og nú er tími til kominn að nýta sér meðbyrinn sem við höfum á leikmannamarkaðnum eftir þessa velgengni. Sturridge og Moreno farnir. Fleiri leikmenn orðaðir við sölu og verið að trimma niður hópinn.

    Við þyrftum að bæta við 2 sterkum leikmönnum í hópinn og gefa Brewster, Wilson og einhverjum öðrum krökkum tækifæri. Það er algört tap að fara inn í tímabilið með okkar helstu kaup í formi 17 ára Hollending og munum við fljótt finna fyrir því þegar tímabilið byrjar.

    Koma svo, Klopp. Nýtti meðbyrinn.

    1
    • nokkrar vikur síðan klopp kom í viðtali og talaði að liverpool þyrfi að eiða í sumar til að bæta liðið.

      mjög mikil þögn í kringum griezmann. svona liverpool bragur á því “haltu kjafti” dæmi 🙂

      3
  4. Varðandi Pebe, þá er líklegra að umboðsmaður Pebe hafi haft samband við FSG af fyrra bragði, því það var víst hringt í Lille og þeim sagt að Liverpool væru ekki á eftir leikmanninum.

    Mér finnst eins og það hljóti að koma 1-2 leikmannakaup í sumar. Trúi ekki öðru. Liverpool er í kjörstöðu að fá til sín gæðaleikmenn til að auka samkeppni og breikka hópinn. Markaðurinn er óvenjulega hljóður um þessar mundir en það skýrist í næstu viku hvað sé í gangi þegar Klopp fer í viðtal varðandi æfingarferðir.

    1
  5. Eina vandamálið með Pepe er að hann er að spila í Afríkukeppinni alveg eins og Mane og Salah. Enn mikið væri ég til að klára þau leikmannakaup

  6. Málið með Pepe er að hann er auðvitað að spila í Afríkukeppinni eins og tvær okkar stærstu stjörnur. Svo tel hann ólíklegri útaf því, vegna þess að liðið þarf leikmann til að spila strax, ef Salah og Mane fara alla leið í úrslit með sín lið (sem verður að teljast ansi líklegt).

    1
  7. Góðar fréttir fyrir Liverpool.

    Mo Salah og félagar voru að detta úr leik í Afríkukeppninni sem þýðir að núna getur hann fengið fríið sitt aðeins fyrr og komið þá fyrr til Liverpool 🙂

    10
  8. Sigurður. Þú segir að það sé gott fyrir Liverpool að Salah sé dottinn úr keppni í Afríkukeppninni. Að hluta til getur maður tekið undir það en þó ekki. Ef landsleikir eru svona mikil áþján þá getum við sagt að best sé að engir leikmenn sú valdir í landslið, því jú það kemur sér best fyrir félagsliðin. En auðvitað megum við ekki hugsa svona, landsleikir eru liður í prógrammi góðra leikmanna og verður bara að taka tillit til þess. Við getum þó þakkað fyrir að þessi keppni er ekki á miðju tímabili eins og hún var ef ég man rétt. Miklu nær væri að stytta margar keppnir yfir veturinn, jafnvel deildarkeppnina og allavega CL sem algjört rugl í leikjafjölda að mínu mati. Ef PL lið fara í úrslit í öllum keppnum þá geta þetta orðið 63 leikir að ég held (38 í Pl, 6 í FA, 6 í Db og 13 í CL) og auk þess jafnvel HM félagsliða og Góðgerðarskjöldur.

    5
    • Þetta snýst bara um hvíld og ekkert annað. Ef Salah hefði farið alla leið þá myndi hann missa af byrjun tímabilsins. Salah er búinn að vera á fullu í langan tíma og hefur ekki fengið nauðsynlega hvíld fyrir líkama og sál. Núna fær hann extra daga sem ég tel frábært og hugsaði þetta útfrá Liverpool hagsmunum(enda á Liverpool spjalli). Þótt gleðst maður yfir árangri Liverpool kalla með landsliðum sínum þá vill ég frekar sjá Salah byrja inná gegn Norwich en að vinna Afríkubikarinn.

      12
  9. Óskum okkar frábæru brössum til hamingju með sigurinn í S Ameríku keppninni. Mig langar að varpa fram spurningu: Af hverju er Alisson ekki almennilega inn í myndinni sem leikmaður ársins í heiminum. Alltaf er talað um VvD og Messi sem líklegasta en hvað þarf til fyrir markmann ég bara spyr. VvD og Messi hafa vissulega staðið sig frábærlega en það hefur Alison einnig gert og á framyfir hina Álfubikar þetta árið. Nei, það virðist þurfa allmikið til að markmenn eða varnarmenn fái einhverja svona viðurkenningar, sóknarmennirnir fá þær yfirleitt. Vissulega fékk VvD viðurkenningu fyrir núliðið tímabil en hvað var langt frá síðustu varnarmanni sem var bestur á Englandi ? (kompany 2012) eða markmanni (Schmeichel 99)

    5
  10. Er ekki pínu hroki að bæta ekkert við leikmannahópinn? Vissulega sterkur hópur sem dugði þó ekki til síðast í deildinni amk.

    City búið að fjárfesta í tvær stöður sem þá vantaði leikmenn.

    Sammála með meðbyrinn, það hlýtur að vera eftirsóknarvert að koma til Liverpool núna.

    Held að það væri snjallt að fjárfesta í tveimur toppleikmönnum og klára þessa deild næsta vetur.

    2
    • eftir sem dagarnir líða finnst mér satt að segja ólíklegt að einhver komi annað en krakkar í u21 liðið.

  11. Madur truir bara ekki ordru en ad okkar menn bæt vid allavega tveimur toppleikmonnum asamt vara vinstri Bakverdi fyrir Moreno. Turfum alltaf heimsklassa soknarmann til ad bakka upp tremenningana tarna frammi. Hofum verid rosalega heppnir med meidsli a okkar tremur en getum ekki treyst a ad tad verdi alltaf tannig, sturridge lika farinn nuna. I minum draumaheimi myndi eg vilja Zaha fra Palace mest eda ta tennann Pepe fra Lille asamt Coutinho eda bara vada i Eriksen fra Tottenham sem vill ekki semja og Levy mun aldrei Lata hann fritt næsta sumar, losa ta Lallana ef einhver vill hann, mætti fara fritt min vegna svo rosalega treyttur er eg a honum. Fa tvo ofluga tarna fremst a vollinn og bakvord fyrir moreno og ta erum vid klarlega med lid til ad berjast um alla bikara a næsta timabili. Tad ætti ad vera til haugur af sedlum asamt tvi ad felagid okkar ætti ad vera eitt tad allra eftirsottasta fyrir leikmenn nuna ad vilja koma til og ta er bara ad nyta tad. Eg neita ad trua tvi ad okkar menn ætli ad vera med hroka og gera litid sem ekkert a medan oll onnur topplid eru byrjud eda munu styrkja sig. Tad hlytur ad fara koma vidtal vid Klopp nuna innann skamms tar sem hann vonandi segir okkur eitthvad..

    Eg myndi alveg skoda tad lika ad negla bara Bale fra Real ef hann fæst fyrir litid og bara tessi ofur launakostnadur, frabær leikmadur tegar hann er heill sem yrdi bara betri undir stjorn Klopp.

  12. Eigum við ekki að kaupa Everton? Hversu gaman væri það, þ.e Everton Soares markahæsta leikmann Ameríkukeppninnar.

    2
  13. Sælir félagar,

    hafði samband við Símann til að athuga hvort þeir verði með einhverja leiki á undirbúningstímabilinu en ég gat ekki fengið það staðfest hjá þeim sem ég talaði við.

    Veit einhver hér eitthvað um málið?

    Kannski best að sjá þá leiki á lfctv?

    • Ég veit að Stöð 2 sport (eða allavega einn púllari þar) er að vinna í því að finna sponsora til að sýna LFC æfingaleikina.
      En þeta hlýtur að vera sýnt á LFCtv.

  14. Klopp hefur sýnt það að hann kaupir ekki bara einhvern – hann velur þá mjög vandlega. Núna erum við með nánast fullskipað lið og það yrði enginn hryllingur að fara af stað með lið sem náði 97 stig og vann meistaradeildina í næsta tímabil. Öll viljum við auðvitað að hann hamri járnið á meðan það er heitt og ég held að Klopp vilji það líka en hann er ekki bara að fara að kaupa einhvern for the sake of it.

    Ég held að við sjáum kaup þegar stóru bitarnir í Evrópu verða seldir (Neymar, Griezmann, Pogba osfrv) – það mun hrinda af stað domino hrinu og þá losnar um marga bita sem ég held að Klopp sé að fylgjast náið með.

    2
  15. Hvernig virkar LFCTV? Er þetta áskrift – eða frítt ef maður skráir sig? Hver er ykkar reynsla af þessu?

    • LFCTV er áskrift og hún virkar fínt. Er búinn að vera með hana í mörg ár. Þú getur seð blaðamannafundi fyrir leikina og allskonar viðtöl, það er líka rúllandi sjónvarpsdagskrá með allskonar efni og síðan er hægt að sjá highligths úr leikjum sem og leikina sjálfa.

      1

Löng leið í byrjunarliðið

Evrópumeistarinn Divock Origi skrifar undir nýjan samning!