Tranmere Rovers 0-6 Liverpool

Mörkin

0-1   Nathaniel Clyne 6.mín
0-2   Rhian Brewster 38.mín
0-3   Rhian Brewster 45.mín
0-4   Curtis Jones 53.mín
0-5   Divock Origi 60.mín
0-6   Bobby Duncan 67.mín

Leikurinn

Byrjunarlið fyrri hálfleiks: Mignolet, Clyne, Phillips, Gomez, Larouci, Milner, Oxlade-Chamberlain, Lallana, Kent, Wilson, Brewster.

Upphaf leiksins var eins og búast mátti við fyrirfram með Liverpool mikið að halda boltanum og Tranmere að liggja aftur. Fyrsta markið var ekki lengi að koma og kom úr óvæntri átt. Á 6. mínútu keyrði Gomez úr vörninni með boltann og nálægt vítateignum fann hann Brewster sem sendi á Clyne í teignum. Nathaniel var ekkert að tvínóna við þetta og kanónaði boltann í skeytin nær með þrumufleig. Glæsilegt mark og góð byrjun.

Stuttu síðar gerði Gomez mistök sem leiddu til ágætis færis hjá Tranmere en Joe bætti fyrir eigin klúður með því að blokka markskotið af stuttu færi í teignum. Frábær sprettur hjá unga bakverðinum Larouci á 10.mín. er hann keyrði inn frá vængnum, átti nett samspil við Lallana og var kominn einn á móti markmanni en sá örfætti treysti sér ekki í hægri fótarskot og endaði með slöku skoti beint á markmanninn.

Leikurinn var líflegur og Harry Wilson keyrði upp völlinn, sendi á Kent sem fékk byltu frá varnarmanninum en Mike Dean dómari sem er grjótharður Tranmere stuðningsmaður var ekki á þeim skónum að gefa víti. Aftur komst Larouci í ágætt færi á 19. mín. og í þetta sinn lét hann vaða með vinstri fæti og markmaðurinn gerði vel að verja fyrnafast lágt skot. Tveimur mínútum síðar átti hættulegasti leikmaður Tranmere, Blackett-Taylor, gott skot fyrir utan teig sem Mignolet þurfti að hafa fyrir að verja.

Að sléttum hálftíma liðnum tóku LFC aukaspyrnu snöggt og Ryan Kent keyrði inn í teiginn en ágætt skot hans fór naumlega yfir slánna. Gott færi. Á 38.mín. slapp Milner upp vinstra megin og krossaði lágan bolta þvert yfir teiginn sem fann en á engan þar. Harry Wilson var hins vegar á hinum vængnum og sendi boltann strax aftur fyrir og þar kom Brewster og skallaði boltann í netið. Vel gert Rhian að vera vel vakandi fyrir seinni fyrirgjöfinni.

Liverpool sýndi þolinmæði og héldu boltanum vel þegar nálgaðist hálfleik en sóttu allt í einu rétt undir lokin. Kent sendi á Milner sem átti ágætt skot fyrir utan teig en markvörðurinn varði til hliðar. Brewster mætti leiftursnöggur í frákastið eins og góðum framherja sæmir og kláraði vel í netið.

0-3 í hálfleik

Byrjunarlið seinni hálfleiks: Jaros, Hoever, Matip, Johnston, Lewis, Fabinho, Jones, Woodburn, Duncan, Glatzel, Origi.

Eins og vitað var fyrirfram þá skipti Klopp öllu liðinu útaf þannig að nýtt og fersk byrjunarlið hóf seinni hálfleikinn. Tranmere skipti við sama tækifæri Darren Potter inná en hann er uppalinn í akademíu LFC og spilaði samtals 17 leiki fyrir aðalliðið á árunum 2004-2006 undir stjórn Rafa Benitez. Okkar menn héldu áfram að stýra leiknum og á 53.mín. gerði Origi vel að vinna sér stöðu hægra megin við vítateiginn. Sendi boltann á Paul Glatzel sem átti flotta fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Curtis Jones kom aðvífandi og slúttaði vel í netið.

Á 56. mín þá keyrði Blacken-Taylor enn og aftur á vörn LFC. Ungliðinn George Johnston braut á honum og víti hefði átt að vera niðurstaðan en af undarlegri ástæðu sleppti Mike Dean tækifærinu til að styðja sitt uppáhalds lið. Stuttu síðar keyrði LFC upp og hættuleg sókn endaði með skoti en Tranmere gerðu gagnárás beint í kjölfarið sem endaði með vörðu skoti hinu megin. Líf og fjör í leiknum.

Á 60. mínútu átti Matip frábæra sendingu inn fyrir vörnina á Divock Origi. Fyrirliðinn átt magnaða móttöku, fór framhjá markverðinum og sendi boltann auðveldlega í netið. Glæsilegt mark og frábærir tveir dagar hjá meistara Divock staðfestir með undirskrift og flottu marki. Mörkin orðin fimm talsins og sléttur klukkutími liðinn.

Hoever keyrði upp hægri vænginn á 67.mín. og valsaði inn í vítateiginn, lagði á Glatzel en boltinn barst þaðan til Bobby Duncan sem skoraði ekta markahróksmark af stuttu færi. Tranmere héldu að þeir hefðu náð að kvitta smá fyrir sig á 70.mínútu þegar Walker-Rice komst inn fyrir og kláraði vel af stuttu færi en markið var veifað réttilega af vegna rangstöðu.

Því miður þurfti Glatzel að fara af velli stuttu síðar vegna meiðsla á hné sem vonandi eru ekki alvarleg. Inná í hans stað kom vara-varamarkvörðurinn Daniel Atherton og spilaði hann í framlínunni það sem eftir lifði leiks og var býsna sprækur í þeirri stöðu. Atherton tókst þó ekki að skora og aðrir leikmenn Liverpool létu líka þar við sitja og hlífðu Tranmere við meiri niðurlægingu.

0-6 fyrir Liverpool lokatölur leiksins

Tölfræðin

Bestu leikmenn Liverpool

Í fyrri hálfleik var Rhian Brewster augljósa ansi sprækur með 2 mörk og stoðsendingu til viðbótar og er hann minn maður leiksins. Larouci var líflegur í vinstri bakverði og hefði geta skorað mark til að toppa frammistöðuna. Milner og Gomez voru fagmannlegir og lögðu báðir sitt af mörkum með marktæku framlagi. Þá fannst mér Kent og Wilson líka vera fínir og skapandi á vængjunum.

Í seinni hálfleik var Hoever mjög flottur í hægri bakverði og Matip og Origi sýndu sín gæði með yfirveguðum leik. Adam Lewis virkaði líka fínn í vinstri bakverðinum og verður áhugavert að sjá hann í þessari stöðu í fleiri æfingarleikjum. Curtis Jones var líka sprækur og undirstrikaði það með góðu marki.

Heilt yfir skiluðu nokkurn veginn allir sínu en það var helst að George Johnston leit út fyrir að eiga ekki heima þarna í hafsentinum og líklegt að Sepp van den Berg taki hans stöðu í næsta leik ef FIFA heimildin verður komin tímanlega.

Næsti leikur er á sunnudaginn kemur gegn Bradford City á Valley Parade.

YNWA

4 Comments

  1. Flottur leikur hjá strákunum í dag. Sérstaklega gaman að sjá Ox og Lallana koma tilbaka og ungu strákana Kent, Brewster og Wilson í fyrirhálfleik. Brewster með mörkin en Kent fannst mér vera mjög sprækur ásamt ungum vinstribakverði (ath ekki Lewis sem var solid í síðari).
    Í síðari hálfleik var Origi sprækur en hefði viljað sjá meira frá Ben.

    Annars snýst þetta um að koma mönnum í gang og að ungir strákar fá að sanna sig. Liverpool liðið er að drukkna í efnilegum strák en Því miður fyrir þá hefur Liverpool sjaldan verið eins góðir og fá tækifæri til að leyfa þeim að spila og gera nýliða misstök.

    Ég er á því að það úrvalsdeildarlið sem væri með Ben, Wilson, Brewster, Kent, og Ojo(Rangers) í liðinu myndi halda sér uppi.

    5
  2. Þessi leikur var prýðileg skemmtun. Nýja leikkerfið hans Klopp 2-1-7 svínvirkaði meðan Milner dró vagninn eins og Prússneskur jálkur.

    8
  3. Hvað er Milner eiginlega samt svona án gríns þetta virkar allt svo auðvelt hjá honum og hann slakar aldrei á ekki einu sinni í æfingaleik.

    Klopp sagði víst nei við Gerrard með lán á Kent aftur sem þýðir að þessir kappar eru líklega að fara stíga á stærsta sviðið og svo nátturlega Brewster sem Klopp talaði um sjálfur að fengi hlutverk þetta tímabilið nú er að grípa tækifærið þegar það gefst og sýna hversu góðir þeir eru.

    Mikil tilhlökkun hjá mér að fylgjast með þeim ungu leikmönnum okkar og svo auðvitað minn uppáhalds leikmaður Trent sem á eftir að verða enn meiri lykilmaður en hann er nú þegar. Mín spá er að mögulega fáum við að sjá TAA á miðjunni í framtíðini ekki það ég vilji sjá hann fara úr bakverðinum hann er einfaldlega sá besti þar í heiminum um þessar mundir! Megi það halda þannig áfram um ókomin ár.

    6

Byrjunarliðið gegn Tranmere Rovers

Vinnan bakvið tjöldin