Liverpool 4 – 3 RB Salzburg

Mörkin

1-0 Mané (9. mín)
2-0 Robertson (25. mín)
3-0 Salah (36. mín)
3-1 Hwang (39. mín)
3-2 Minamino (56. mín)
3-3 Håland (60. mín)
4-3 Salah (69. mín)

Gangur leiksins

Það var sterkt lið Liverpool sem gekk inn á Anfield í kvöld, enda kom ekkert annað til greina en að vinna þennan leik, hafandi tapað fyrsta leiknum í riðlinum. Og okkar menn tóku strax öll völd á vellinum. Það liðu svosem heilar 9 mínútur þar til ísinn var brotinn, en það var nánast bara eitt lið á vellinum í upphafi leiks. Og fyrsta markið var nánast eingöngu eign Mané, með þó velþeginni aðstoð frá afmælisbarninu Firmino. Mané fékk boltann upp við vinstri kantinn rétt fyrir framan miðjulínuna, hljóp rakleitt inn að teig, gaf þar á Firmino sem renndi boltanum rakleitt í hlaupalínuna hjá Mané sem var þá kominn einn í gegn, og hann gerði engin mistök er hann renndi boltanum framhjá Stankovic í markinu.

Mark númer tvö var ekki mikið síðra. Robertson byrjaði sprett af vinstri vængnum og leitaði inn á miðjuna, fann þar Henderson, hann tók léttan þríhyrning við Salah og renndi boltanum svo til hægri á Trent, á meðan hélt Andy sprettinum áfram og var kominn inn að markteig þar sem fyrirgjöfin frá Trent rataði beint í lappirnar á honum og hann gat varla annað en skorað. Annað bakvarðamark, rétt eins og seinna markið í MK Dons leiknum.

Þriðja markið kom svo eftir enn eitt upphlaupið upp vinstri kantinn: Robbo með sendingu í autt svæði uppi í vinstra horninu sem Mané tók við, fór með boltann upp að teig og gaf fyrir á Firmino sem skallaði að marki, það var varið en Salah náði frákastinu og renndi boltanum í markið.

Þegar hér var komið við sögu voru um 10 mínútur eftir af fyrri hálfleik, staðan orðin 3-0 og maður hafði á tilfinningunni að nú myndi liðið bara halda áfram, valta yfir andstæðingana og ná kannski eins og einum 5-0 úrslitum.

En nei, ekki aldeilis.

Það gerðist eitthvað á þessum tímapunkti. Liðið varð kærulaust og værukært, og það hafði strax áhrif fjórum mínútum síðar. Hendo missti boltann klaufalega á miðjum eigin vallarhelmingi, RB menn brunuðu fram með boltann, og Virgil átti sjaldséðan lélegan varnarleik þegar hann leyfði Hwang að ná skoti innan úr teig sem Adrian gat lítið gert við. Staðan 3-1 í hálfleik. Ekki alslæm staða, en það ætlar að reynast okkar mönnum erfitt að ná að halda hreinu á þessari leiktíð.

Það var svipað Liverpool lið sem mætti í síðari hálfleik eins og það sem gekk af velli, a.m.k. svona stemmingslega séð. Menn virtust ætla að halda fengnum hlut án þess þó að hafa agann til þess í varnarleiknum. Og það liðu ekki nema um 10 mínútur þar til staðan var 3-2. Salzburg sóttu fram eftir sókn okkar manna, fengu aukaspyrnu við miðlínu sem þeir tóku hratt og boltinn var skyndilega kominn upp í vinstra hornið, þaðan kom fyrirgjöf inn á teig á svæði þar sem Robertson hefði líklega átt að vera mættur en var hvergi sjáanlegur, en í staðinn var Minamino staddur þar og sendi boltann viðstöðulaust í netið. Nú var einhver ónotatilfinning farin að hríslast um okkur stuðningsmenn, og mönnum leið sjálfsagt ekkert betur að sjá að strax eftir markið var Erling Håland skipt inná. Og hann þurfti ekki langan tíma áður en hann var kominn á blað. Strazburg sóttu núna upp miðjuna, boltinn barst yfir á hægri vænginn, og skyndilega var einn þeirra kominn upp að endalínu, gaf fyrir, boltinn sigldi framhjá Gomez sem hefði sjálfsagt átt að gera betur en var fjarri því einn um að vera sekur um það, og beint í lappirnar á Håland sem var aleinn á markteig og jafnaði 3-3.

Við þetta var ljóst að það þurfti að breyta einhverju. Klopp kallaði Henderson af velli og setti Milner inná. Örskömmu síðar kom svo Wijnaldum af velli og Origi kom inná í staðinn. Þegar þarna var komið sögu var búið að hræra aðeins í skipulaginu: Origi var vinstra megin, Mané hægra megin, Salah uppi á topp og Firmino kominn í holuna. Skömmu eftir skiptin var Mané ansi nálægt því að setja annað mark þegar Trent spottaði hann dauðafrían á nærstöng í hornspyrnu, en Mané náði einhvernveginn að hitta ekki á boltann. Enn og aftur er Trent að sýna hvað hann er séður í föstum leikatriðum, og þá sérstaklega hornspyrnum. En nokkrum mínútum síðar náðu okkar menn forystunni aftur. Eftir talsverðan barning uppi við teiginn hægra megin reyndu Salzborgarar að hreinsa, en Fabinho komst inn í það, boltinn barst til Firmino á vítateigslínunni sem nikkaði boltanum áfram á Salah sem var allt í einu sloppinn í gegn, og hann skoraði mark sem reyndist að lokum vera það sem skildi liðin að. Klopp gerði eina skiptingu til viðbótar í uppbótartíma þegar hann tók Salah út af og setti Keita inná. Liðið náði sem betur fer að halda haus og koma í veg fyrir frekari mörk heimamanna, en maður hefur alveg örugglega séð lið sigla svona leikjum heim á öruggari hátt. Það kom nokkrum sinnum fyrir að liðið var með boltann á síðustu mínútunum en náði að glutra honum frá sér og skapa þar með óþarfa hættu á skyndisóknum. Þetta hefðu betri andstæðingar mögulega náð að nýta sér, en sem betur fer slapp þetta til.

Bestu og verstu menn liðsins

Það er svolítið sérstakt að tala um að liðið hafi ekki verið að spila nógu vel þegar það skorar 4 mörk í einum leik, en það er nú engu að síður staðreynd. Sérstaklega var það á kaflanum frá ca. 36. mínútu fram að jöfnunarmarki andstæðinganna. Þá voru menn bara að gera sig seka um lélegar sendingar, lélegar staðsetningar, og almennt kæruleysi. Þarna fóru fremstir í flokki miðjumennirnir okkar, sem og miðverðirnir. A.m.k. var engin sérstök tilviljun að Henderson og Wijnaldum voru teknir út af. Holningin á liðinu batnaði nú talsvert síðasta hálftímann, þá náðist a.m.k. að loka fyrir lekann í vörninni og það náðist að setja sigurmarkið. En liðið þarf að skoða sinn leik afskaplega vel, enda stutt í næsta leik, og þar er ekkert í boði að sýna svona frammistöðu. Mo Salah er líklega næstur því að hljóta nafnbótina maður leiksins fyrir mörkin tvö, en hann hefur samt oft spilað betur. Næsti maður gæti alveg verið Firmino, enda lagði hann upp a.m.k. 2 ef ekki 3 mörk af þessum fjórum, er sívinnandi og alltaf jafn mikið til í að gefa boltann á Salah eða Mané ef hann hefur minnsta grun um að þeir séu í betra færi en hann.

Liðið fékk núna á sig 3 mörk á heimavelli í fyrsta skiptið síðan í janúar á þessu ári þegar Crystal Palace komu í heimsókn. Sem betur fer skoraði liðið 4 mörk í báðum þessum leikjum, en þetta er klárlega svolítið gult spjald. Við erum líka orðin svo góðu vön með vörnina að þetta kemur jafnvel meira á óvart fyrir vikið. Ef Gomez hefði verið lélegasti varnarmaðurinn í kvöld hefðum við kannski getað skrifað þetta á leikformið hjá honum og á það að Matip sé frá vegna meiðsla, en málið var að van Dijk var ekkert að eiga neinn stjörnuleik heldur. Hann mun sjálfsagt vilja gera betur strax á laugardaginn ef ég þekki hann rétt.

Hvað er framundan

Það er ekki langt í næsta leik, en Leicester koma í heimsókn á laugardaginn. Það var enginn leikur hjá þeim núna í vikunni, og þeir hafa því nægan tíma til að undirbúa sig og mæta á fullu gasi í leikinn. Það kæmi ekki á óvart þó Klopp myndi nota hópinn aðeins af því tilefni, hugsanlega kemur Ox inn á miðjuna, nú eða Keita. Vonandi verður Matip búinn að hrista þetta hnjask af sér. Það hjálpar ekki að Liverpool hefur átt það til að mæta í næsta deildarleik eftir Evrópuleiki með nokkurskonar timburmenn, en ekkert slíkt er í boði á laugardaginn. Svo nú þarf bara að einbeita sér sérstaklega að endurheimt hjá þeim leikmönnum sem spiluðu megnið af leiknum, og hinir mega bara gjöra svo vel og stíga upp ef/þegar til þeirra er leitað.

En þrátt fyrir allt, þá skiptir mestu máli að hafa sótt stigin þrjú. Þetta þýðir að riðillinn er ennþá galopinn, og þá sérstaklega fyrst Napoli náðu aðeins 0-0 jafntefli á móti Genk í Belgíu. Belgarnir munu einmitt taka á móti okkar mönnum í næsta leik í Meistaradeildinni, en sá leikur fer fram eftir 3 vikur sléttar.

Þangað til munum við taka á móti Brendan Rodgers og félögum í fyrsta sinn síðan í október 2015, og vonum að hann fari ekki að skemma skap okkar Púlara í landsleikjahléinu sem svo tekur við.

32 Comments

  1. Aldrei í vafa… Menn tóku sér bara fína kaffipásu til að vera reddí á mót Leicester. Allt í góðu 🙂

    5
  2. Salzburg eru búnir að skora 9 mörk í síðustu 2 leikjum í meistaradeildini má það bara ?

    5
  3. Leikur tveggja leikhluta.

    Það var unun að horfa á okkar menn í þeim fyrri og andstæðingarnir niðurbrotnir. Mané var allt í öllu en maður hefði viljað sjá betri slútt hjá Salah. Ægilega gaman jól og páskar.

    Svo þegar þeir skoruðu þá fann maður að sjálfstraustið ristir ekki djúpt eins ótrúlegt og það kann að virðast. Þetta spútnikklið óð í gegnum vörnina okkar og þar komu líka fram veikleikar. Gómezinn er ekki eins traustur og við vildum hafa hann og það var eins og Virgillinn væri ekki vaknaður.

    Blessunarlega þá bjargaði Salah deginum – hann var ljósglætan í seinni hálfleik.

    Vekjaraklukkan hringir og nú þarf að fara að svketta köldu vatni á fés.

    3
  4. Veit ekki hvað menn eru að væla yfir Gomez hérna fannst frammistaða Van Djik mun verri. Versti leikur Van Djik í Liverpool treyju.

    2
  5. Allir að anda inn og út.
    Þetta var bara rosalegur leikur. Salzburg er einfaldlega með hörkuliði og þeir eiga eftir að berjast við okkur og Napoli að komast áfram. Ég er á því að þetta var ekkert vanmat heldur einfaldlega gekk allt upp hjá gestum í upphafi síðarihálfleik.

    Fyrirhálfleikurinn var bara nokkuð góð en við vorum samt alveg galopnir varnarlega og var greinilega að Dijk saknaði Matip.
    Í síðari einfaldlega gerðist það að okkar menn fengu á sig tvö mörk á 4 mín og öll stemmning með gestunum. Staðan 3-3 og hvað gera okkar strákar?
    Jú þeir einfaldlega skoruðu mark og spiluðu svo fagmanlega út leikinn þar sem gestirnir voru gjörsamlega sprungnir.

    Þetta var mikil skemmtun en okkar strákar byrjuðu af krafti en í stöðunni 2-0 þá var eins og við fórum úr skipulaginu og þetta var eins og handboltaleikur þar sem menn fengu færi í hverju einustu sókn.
    Mér fannst virkilega flott að sjá okkar stráka jafna sig á áfallinu þegar gestirnir jöfnuðu og landa þessum mikilvæga sigri.

    3 stig og menn einfaldlega setja þetta í reynslubankan.

    YNWA – Evrópumeistaranir byrja á sigri á heimavelli og því ber að fagna.

    p.s Það var frekar lélegt að sjá menn kalla strákana aumingja(þótt að þeir eiga slæman kafla) hér á spjallinu þegar gestirnir jöfnuðu og nóg eftir af leiknum en þetta er fótbolti og svona hlutir geta gerst eins og við ættum að vita manna best. Þegar ég hugsa um Liverpool liðið í dag þá er orðið aumingjar ekki ofarlega á lista þótt að framistöðunar geta verið mismunandi.

    25
    • Alvöru stuðningsmenn segja ekki svona hluti um liðið sitt, nema kannski stuðningsmenn manhjú en það er önnur sort.

      Frábær sigur í kvöld gegn mjög sterku liði Salzburg sem greinilega drukku nokkra Red Bull fyrir leikinn. Norðmenn pissuðu á sig þegar Håland skoraði, en gleðin var skammvinn því Liverpool-liðið er maskína sem gefst aldrei upp! Spyrjið bara Suarez og félaga…

      Prógrammið okkar er svaðalegt, leicester, manhú, Genk, spurs og Arsenal og fleiri hressandi leikir.

      P.s. það var gott að napoli gátu ekki sigrað í Belgíu í kvöld. Allt opið upp á gátt eins og vörnin okkar í kvöld 🙂 Við unnum þetta sterka lið en samt líður örugglega mörgum eins og við höfum tapað eða ekki sigrað. Það segir nú bara ansi mikið á hvaða stall við erum komnir á.

      7
  6. Það kom í ljós í dag hversu mikilvægur Matip er orðinn fyrir liðið. Hann og Van Dijk eru búnir að mynda rosalegt miðvarðarpar!

    4
    • A**** hafi það. VVD hefur náð að mynda gott miðvarðarpar við bæði Gomez og Matip. Ekkert því til fyrirstöðu að hann/þeir geti ekki haldið áfram hvoru samstarfinu sem er.

      Þetta var bara slæmur dagur, en góð áminning. Af því að sigur vannst og eins og fyrr sagði þetta nýtist öllum hlutaðeigandi sem góð áminning fyrir komandi framhald í vetur. Stærsta áminningin er, það er ekkert sjálfgefið.

      2
  7. Mikið hafði maður gott af þessu.
    Okkar menn náðu pumpunni minni vel í gang og góð fræsing í öllum kransæðum.
    Það er bara betra.
    Ég ætla ekki að kvarta yfir neinu á meðan við vinnum leiki.
    En mikið söknuðu menn Mapip sem er búinn að vera frábær í skugga Van Dijk.

    Þetta fer í kennslubókina hjá Klopp þar sem menn slökkva á sér eftir stórkostlega frammistöðu og 3-0
    Það má ekki.

    Napoli tapaði stigi á móti Genk, útivellirnir verða erfiðir í þessum riðli svo fullt hús á heimavelli verður að vera krafan.

    En takk fyrir æsing í seinni.
    YNWA

  8. Sælir félagar

    Eins og ég var ánægður með fyrri hálfleik var ég gjörsamlega brjálaður yfir frammistöðunni í þeim seinni. Að liðið skuli koma inn í seinni hálfleikinn eins og leiknum sé lokið eftir áminninguna sem liðuið fékk í lok þess seinni er mér gjörsamlega óskiljanlegt. Kæruleysi, ábyrgðarleysi og agaleysi einkenndi frammistöðu sérstaklega varna rog miðjumanna.

    Henderson átti ekki sending á samherja og var að reyns einhverjar “fansí” hælspyrnur og guð veit hvað. Virgillinn fíor næstum með sitt góða orðspor með frammistöðunni í seinni hálfleik eftir að hafa leikið eins og engill í þeim fyrri. Gomes greyið í ekki nokkurri leikæfingu bar höfuð og herðar yfir Virgilinn í seinni hálfleik. Síðasta markið frá Firmino og Salah bjargaði andliti liðsins og sem betur fer gleymir folk frammistöðunni í seinni hálfleik fyrst leikurinn vanst.

    Að er alveg klárt að ef liðið getur ekki mótiverað sig inn í seinni hálfleik betur en í kvöld þá er eitthvað að. Ekki síst eftir áminninguna sem liðið fékk í lok fyrri hálfleiks. Hvort það er hroki, skortur á virðingu fyrir andstæðingnum eða oftrú á það að men geti ekki tapað leik veit ég ekki. Hitt veit ég að svona frammistaða eins og í fyrri hluta seinni hálfleiks hjá liðinu okkar er ekki boðleg. Minningin frá Napoli leiknum og markið sem liðið fékk á sig í lok fyrri hálfleiks virðist ekki nægja til að liðið taki leiknum af fullri alvöru og leiki eins og það getur leikið.

    Það ern ú þannig

    YNWA

    5
  9. Þetta var sko pjúra blóðþrýstingsleikur, það rýkur ennþá upp úr hausnum á mér!

    1
  10. Annars var helvítis kæruleysi í mönnum. Salah missti boltann svo oft að ég nennti ekki einu sinni að telja það. Plús fáránleg sending beint í fangið á Salzburg sóknarmanni. Og Henderson, elsku drengurinn minn. Hvað er hægt að segja?

    1
  11. Liverpool leikmenn misstu einbeitinguna í stöðunni 3-0. En góð lið vinna leiki þráttt fyrir það. Þeir settu í annan gír eftir jöfnunarmarkið og náðu að klára þetta. þetta er erfiðari riðill en maður hélt í fyrstu.

    2
  12. Spáði 4-2 fyrir leik þannig að þetta getur ekki komið of mikið á óvart. Galið samt að glata niður 3-0 forystu á Anfield og hreinlega bara hætta á köflum. Henderson og Wijnaldum voru afleitir á miðjunni og miðverðir Liverpool hafa ekki átt verri leik í ansi langan tíma. Gomez er klárlega ryðgaður. Eins mátti Salah all verulega við þessum mörkum því hann hefur verið langt frá sínu besta undanfarið og var það í raun i kvöld líka.

    Karakter að komast aftur yfir og klára þetta eftir afleita byrjun á seinni hálfleik.

    Vonandi fara Keita og Ox að koma miklu meira inn í þetta í staðin fyrir tvo af Henderson, Wijnaldum og Milner.

    3
  13. Það kom sigur og það skiptir mestu máli. Umhugsunarefnin eru þónokkur….
    … verulegt kæruleysi eftir að staðan er 3-0. Hefur sést áður.
    … VvD þarf hvíld
    … Comez ekki í leikæfingu og því gott fyrir hann að spila heilan leik
    … liðið okkar fær á sig mark í alltof mörgum leikjum
    … gengur vel að skora
    … Salah sprækur með köflum
    … mikið leikjaálag framundan
    … þessi leikur tók of mikla orku
    … meiðslalistinn
    … 22 leikir í röð án taps á heimavelli í Evrópukeppnunum. Ef það er ekki tilefni til að gleðjast yfir því þá veit ég ekki hvað.
    Annars er ég himinlifandi og bið menn að stilla sig og hrauna ekki yfir liðið (þeir sem það gera) þó ekki vinnist stórsigur í hverjum leik.

    5
  14. manutd mætir Ac Alkmar á morgunn Solskjær hefur mestar áhyggjur af gervigrasinu…..

    1
  15. Þvílik gæði i sigurmarkinu hjá okkur í kvöld….hefði verið geggjað mark þegar Trent tók snöggt horn en Mane mistókst að skalla boltann inn á nærstöng….Trent átti 103 snertingar i leiknum og Robertsson 132 það segir ýmislegt…

    2
  16. Þegar staðan var 3-0 fór maður að hugsa ” hvað verða mörg mörk í leiknum”, ÞAÐ URÐU 7 MÖRK SKORUÐ og við skoruðum ekki öll.. Wijnaldum átti að vera farinn mun fyrr útaf, kom ekkert út úr honum. Matip er greinilega mjög mikilvægur liðinu. Virgil og hann vinna greinilega vel saman. Gomez er bara ekki eins góður og hann var áður en hann meiddist.
    En við virtumst aldrei trúa öðru en að við myndum vinna leikinn, það er kannski breytingin frá því á síðasta tímabili.
    En svona spilamennska gengur ekki lengur, við þurfum að rífa okkur upp á rassinum og fara að fylgja þessu eftir þegar við skorum mörk.

    1
  17. Eitt atriði sem ég bara skil ekki. þú ert með fyriliða í liði, svo þegar, going gets touch, the captein gets going, o-o á móti Sheffield , þá er Hendo tekinn út af og við vinnum 0-1. Í dag á 60. mínútu gerist það sama 3-3, þá er Hendo tekinn út af og við vinnum 4-3. Finnst ykkur ekki einmitt í þessum stöðum, þá væri magnað að að hafa fyrirliða sem er sæmilegur í fótbolta

    2
    • Nee. Satt að segja er ég mun sáttari að við séum með lið sem vinnur flestalla leiki hvort sem fyrirliðinn er inna eða ekki, frekar en að vera háðir 1 manni ( fyrirliðanum) til að koma og “bjarga” einhverju að því að liðið er svo lélegt.
      Skil ekki þetta fyrirliðarúnk. Ef leikmennirnir í liðinu eru sáttir með fyrirliðan, hvaða andskotans máli skiftir það hvað okkur sófahlussunum finnst um hann?
      Hef tildæmis ekki hugmynd hver er fyrirliði man city núna? Man utd? Chelsea? Ekki hugmynd og er skítsama.

      18
    • Sammála þessu. Eins og Hendo sé ekki í rétta stemmaranum upp á síðkastið. Á móti Sheffield stóð hann mikið kyrr og argaði og skammaðist fannst mér, í stað þess að sýna fordæmi. Gat dottið í þann pakka í gær einnig. Konan hans þarf að rífa sig í gang takk.

      1
    • Hendo er bara ekki nógu góður leikmaður, vera má að hann sé duglegur að hlaupa en að hann sé nokkurntímann nægjanlega góður til að vera það sem ríður baggamuninn í leikjum Liverpool mun ekki gerast.
      Fínn karakter og eflaust ljúfast piltur samt.

      3
  18. Þetta var ótrúlega skemmtilegur leikur að fylgjast með og mikil og góð afþreying. Svo unnum við ofan í kaupið. Yfir engu að kvarta.

    1
  19. Á móti SHU var það sóknin sem mætti ekki til vinnu og í kvöld var það vörnin og miðjan hefur í báðum þessum leikjum verið í 50% vinnu þannig að ég er nokkuð viss um að þeir mæti allir til vinnu um helgina og klári þann leik með stæl. Er rosalega ánægður að liðið okkar kláraði þetta en þetta var einhver kaflaskiptasti leikur sem ég hef séð, en ég hef alla trú að liðið mæti allt til vinnu í næsta leik og klár og eigi gott dagsverk og þangað til næstu helgi.

    YNWA.

    1
  20. Sælir félagar

    Ég vona að enginn haldi að ég sé ekki ánægður með sigurinn því það er ég svo sannarlega. Mér finnst líka mikill karakter í liðinu að vinna leikinn eftir að hafa misst hann niður í jafntefli eftir að hafa komist í 3 – 0. Það er mér hinsvegar áhyggjuefni að missa 3 – 0 niður í jafntefli. Eiginlega eins mikið áhyggjuefni eins og ég gleðst yfir sigrinum og þeim karakter sem hann lýsir. Já svona er maður nú skrítinn og ruglaður í þessu geymi. En eins og einhver minnist á hér fyrir ofan þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem svona gerist og ég bara skil ekki af hverju svona gott lið getur látið þetta gerast.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  21. Ekki skrýtið að okkar menn áttu í erfiðleikum í leiknum fyrst við vorum að keppa við tvö lið, Salzburg og Strazburg (Strasbourg)… sorrý Daníel

  22. Mér finnst komið visst kæruleysi í liðið. Það er eins og leikmenn viti að gæðin í liðinu eða á varamannabekknum eru það mikil að þeir munu vinna leikinn. Ef það er ekki byrjunarliðsmaður, þá kemur maður af bekk og klárar leikinn fyrir okkur.
    Ég er nokkuð viss um að leikmenn ætli sér ekki að vera með slíkt hugarfar en eftir svona langa sigurhrynu getur verið ansi erfitt að halda einbeitingu. Málið er að ég hef séð liðið spila svo rosalega vel en nú á dögum virðist liðið sigra þó þeir séu að spila illa.

    Mér finnst Liverpool verði að spila betur en þeir gerðu gegn Sheffield og Salsburg. Við erum evrópumeistarar og liðið hefur margoft spilað fótbolta með slíkum glæsibrag að fá lið í heiminum eiga í okkur. Það er kominn tími á að liðið fari að spila betur.

    2

Liðið gegn RB Salzburg

Upphitun: Liverpool mætir Leicester City