Hvaða lið er með besta hópinn?

Breidd Man City ofmetin?

Pep Guardiola hefur leynt og ljóst verið með Liverpool svolítið á heilanum undanfarna mánuði og skal svosem engan undra enda aðalsamkeppni Man City um þessar mundir. Botnin tók svolítið úr í sumar þegar hann og aðrir forráðamenn Man City ruku upp til handa og fóta yfir því að Klopp og aðrir tengdir Liverpool væru að tala um eyðslu Man City, ekki síst núna undir stjórn Guardiola. Maður hefði haldið að aðeins Donald Trump væri nógu heimskur til að halda því fram að eyðsla Liverpool og Man City væri eitthvað nálægt því að vera sambærileg en svo var víst ekki.

Liverpool.com gerði nokkuð góða samantekt á eyðslu liðanna undir stjórn Guardiola og Klopp skv. tölum frá Transfermarket.com. Niðurstaðan eftir þann lestur er að við verðum að njóta Jurgen Klopp á meðan hann er hjá okkur því þetta gengur ekki svona til lengdar.

Kaupverð þeirra leikmanna sem Pep Guardiola hefur keypt til Man City er £298m meira en Liverpool hefur borgað á sama tíma. Pep tók nota bene við best mannaða liði Englands á meðan Jurgen Klopp hefur nánast þurft að skipta um lið. Sterling, De Bryune, Silva, Aguero, Kompany, Fernandinho og Otamendi voru allir fyrir hjá City svo dæmi sé tekið. Burðarrásir liðsins undanfarin fjögur tímabil.

Liverpool er búið að kaupa leikmenn fyrir samtals £401m sem er aðeins £103m meira en mismunurinn er á nettó eyðslu félaganna. Manchester City er búið að kaupa leikmenn fyrir £400m meira nettó en Liverpool þessu fjögur tímabil eða £100m á hverju tímabili. Hvernig Liverpool er ennþá samkeppnishæft og jafnvel betra er í raun og veru ótrúlegt. FSG sagði strax frá upphafi að þeir þyrftu að vera gáfaðari en andstæðingarnir á leikmannamarnaðnum, well…

 

View this post on Instagram

 

Boston

A post shared by Linda Henry (@linda_pizzuti) on


Samanburður á hópum toppliðanna 2019/20

Að því sögðu er áhugavert að skoða hópana hjá þessum liðum og bera saman hvar munurinn liggur á breidd liðana. Það er allt að því lögmál að tala um hvað hópurinn hjá City en mikið stærri/betri en hópurinn hjá Liverpool, skoðum það aðeins og höfum bara öll toppliðin með.

Hver hópur hefur sýna styrkleika og breidd á mismunandi stöðum, Klopp og Guardiola leggja t.a.m. ekkert endilega mikið upp úr því að vera með risastóra hópa heldur mun frekar fjölhæfa leikmenn sem geta leyst margar stöður. Það er því mjög erfitt að fylla inn í svona töflu yfir varamenn því að fyrstu varamenn fyrir flestar stöður eru nú þegar partur af byrjunarliðinu.

Markmenn

Liverpool er að sýna það núna að þeir geta leyst tímabil án Alisson. Liverpool og City eru engu að síður mjög svipuð á pappír í þessari stöðu og tvo bestu markmenn deildarinnar. Auðvitað hjálpar það þeim að vera með bestu varnarlínur deildarinnar fyrir framan sig.

De Gea gæti allt eins misst byrjunarliðssæti sitt í landsliðinu til Kepa haldi hann svona áfram, stuðningsmenn United blésu ekki í neina lúðra þegar hann framlengdi um daginn. Hugo Lloris er á niðurleið virðist vera.

Vinstri bakverðir

Af öllum sjö aðal vinstri bakvörðum þessara liða eru aðeins tveir sem hafa verið stöðugir undanfarin 1-2 ár. Robertson og Chilwell. Mendy ætti að vera í sama gæðaflokki en hefur verið meiddur meira og minna síðan hann kom. Rose fer í janúar eða sumar og líklega ekki í sterkara lið en hann er í núna. Shaw var besti leikmaður United í fyrra sem er á mörkum þess að vera hrós. Arsenal var að kaupa mjög spennandi leikmann sem gæti leyst vandræði þeirra í þessari stöðu á meðan Chelsea virðast vera komnir með mun betri bakvörð varnarlega en Alonso. Öll liðin eru ágætlega mönnuð en það myndi enginn skipta á Robertson, ekki glæta.

Öll hin liðin virðast hinsvegar hafa meira hreinræktaða vinstri bakvörð til vara. Hjá Liverpool er James Milner næsti kostur inn í 2-3 mismunandi stöðu. Hann á líklega eftir að spila töluvert þarna í vetur og málið er að hann er ekkert síðri kostur en hin liðin eiga til vara. Besta dæmið er þegar Robertson meiddist bókstaflega á versta tíma í leiknum gegn Barcelona í vor. Þannig að þrátt fyrir að eiga ekki vara vinstri bakvörð er Liverpool líklega samt með besta varamanninn í þessari stöðu.

Hægri bakverðir

Alexander-Arnold er á góðri leið með að endurskilgreina þessa stöðu þannig að nútímabakverðir spila væntanlega Trent hlutverkið í framtíðinni, ekki ósvipað og Makelele gerði á miðjunni. Öll tölfræði hans er miklu nær því sem við þekkjum frá miðjumönnum og sóknarlega er mikilvægi hans í raun meira en þeirra sem spila á miðri miðjunni. Hann er bókstaflega að drepa Carragher frasan um að það dreymi enga um að spila bakvörð þegar þeir verði stórir. Það er augljóst að andstæðingar Liverpool reyna að bregðast sérstaklega við bakvörðum Liverpool á þessu tímabili sem bæði segir eitthvað til um gæði þeirra og eins losar um pláss annarsstaðar á vellinum. Galið í raun að hugsa til þess að hann hélt upp á 21 árs afmælið sitt í vikunni. Það er ennþá vanmetið hversu góður Alexander-Arnold er.

Kyle Walker er frábær leikmaður einnig og (ennþá) ekkert síðri en Trent sem hefðbundinn bakvörður en Walker er líka 29 ára og á hátindi ferilsins, hann var á láni hjá Aston Villa þegar hann var 21 árs, hafði fram að því ekki einu sinni komst í Tottenham liðið sem þá var ekkert í líkingu eins gott og það hefur verið síðan.

Hector Bellerín ætti að vera í sama flokki en virðist hafa staðnað undanfarin ár og er bara í klassa fyrir neðan Trent eins og staðan er í dag. Wan-Bissaka er einnig mjög spennandi leikmaður og gæti orðið mun betri.

Manchester liðin eru með bestu breiddina í þessari stöðu, Cancelo kostaði ekki nema 65m í sumar og á líklega eftir að vinna sig inn í lið Guardiola þegar líður á mótið. United er svo með þrautreyndan Young og efnilegan Dalot. Hjá Liverpool eru varamenn Trent fjöllhæfir leikmenn eins og Milner, Gomrez og Hoever sem allir spila frekar aðra stöðu. Clyne er vissulega ennþá á leikmannaskrá en hefði klárlega farið ef hann hefði ekki meiðst.

Það er hreinlega ekki lagt upp með að hafa varamenn fyrir Robertson og Trent þar sem það er svipað spennandi verkefni og að vera varamarkmaður fyrir Alisson. Adrian á eftir að kynnast dökku hliðum þess hlutverks (vonandi).

Miðverðir

Van Dijk er ekki bara besti miðvörður heimi heldur er hann besti leikmaður í heimi á þessu ári. Að sjálfsögðu myndi Liverpool sakna hans hrottalega en þessi staða er engu að síður mjög vel mönnuð núna þegar allir fjórir eru (tiltölulega) heilir. Rétt eins og með Robertson gegn Barca leysi Liverpool það alveg að vera án Van Dijk einn leik. Þá vantaði nota bene þrjá miðverði og Fabinho var settur aftast til að glíma við einn besta sóknarmann í heimi (Lewandowski). Enn eitt dæmið um breidd innan leikmannahópsins.

Laporte er næstbesti miðvörður deildarinnar og mikilvægi hans augljóst í liði City. Reyndar er ég ekki sannfærður um að hann sé það mikið betri en Gomez og Matip en það er ekki beint hlutlaust mat.

Guardiola taldi eðlilega ekki þörf á einum miðverði til í upphafi móts enda með þrjá heimsklassa leikmenn í þessari stöðu og núna Fernandinho sem 4.kost. Fjarvera Laporte er augljóslega erfið en líklega er mesta áfallið að geta ekki leitað til Kompany, hann spilaði 8 af 11 síðustu leikjum síðasta tímabils sem dæmi. Þeir leikmenn sem City eiga til vara fyrir Laporte kosta flestir meira en aðal valkoostir flestra liða og ætti þeim ekki að vera nokkur einasta vorkun.

Liverpool er betur mannað í þessari stöðu en City og í raun öll hin liðin líka.

Varnartengiliðir

Loksins þegar Liverpool keypti alvöru helvítis varnartengilið var það auðvitað sá besti í bransanum og viti menn, félagið náði sínu besta stigaskori og lyfi Evrópumeistaratitlinum. Auðvitað er ekki skrifað þennan árangur á Fabinho einan en hann tekur miðju Liverpool upp á næsta level og er sá besti í sínu hlutverki, ekki bara á Englandi heldur í heiminum. Helsta samkeppnin var við Fernandinho sem er líklega leikmaður sem hann lítur töluvert upp til.

Þeir sem leysa Fabinho af í liði Liverpool eru svo hinir tveir byrjunarliðsmiðjumenn Liverpool í upphafi tímabilsins. Ef að Keita eða Ox brjóta sér leið inn í liðið á ný höfum við Henderson eða Wijnaldum til vara fyrir Fabinho sem er gríðarlega sterkt.

Rodri hjá Man City er augljóslega alvöru klassa leikmaður en hann á alveg eftir að sanna sig á Englandi. Fernandinho á eflaust efir að spila slatta í þessari stöðu einnig.

Jorginho virðist vera finna mojo-ið sitt aftur undir stjórn Lampard en er töluvert ólíkur leikmaður. Hann spilar líka með Kanté fyrir framan sig sem er hálfgert svindl. Ndoumbele hjá Tottenham er einnig mjög spennandi leikmaður og þeir hafa hörku breidd aftast á miðjunni með Dier, Wanyama og Sissoko alla ennþá á mála hjá félaginu, Held reyndar að Wanyama bókstaflega farinn að mála hjá þeim, ekki er hann að spila.

McTominey og Matic samsetningina er hressandi í samanburði við okkar og jákvætt að United hafi náð að landa framlenginu á samningi sínum við Matic núna í vikunni. Til hamingju United menn. Fred the red er svo allaf til taks ef allt fer á versta veg. Svei mér þá ég held að Leicester hafi betri miðju en United eins og staðan er í dag með Ndidi og Choundry fautann í þessari stöðu.

Miðjumenn

Vonandi er þetta ekki nýtt Aquilani dæmi en ég held ennþá að besti miðjumaður Liverpool (á eftir Fabinho) sé á bekknum, mögulega veit Klopp eitthvað smá meira um þetta en það er vissulega ólíklegt. Naby Keita, draumaprins okkar tölfræðinördana, kostaði 60m og var farinn að sýna afhverju undir lok síðasta tímabils. Rétt eins og einmitt Aquilani ætlar hann bara ekki að hrista af sér endalaus meiðsli. Held ennþá að þarna sé tækifæri fyrir Liverpool að bæta liðið enn frekar enda Keita besti leikmaður félagsins í pressufótbolta. Sama má segja um Ox sem að er mun betri kostur en Wijnaldum eða Henderson í sumum leikjum. Vonandi nær hann fljótlega sama formi og hann var í byrjun árs 2018.

Að því sögðu eru Henderson og Wijnaldum ennþá verulega vanmetnir leikmenn, líka meðal stuðningsmanna Liverpool. Það sem þá vantar sóknarlega bæta bakverðir Liverpool upp fyrir með hjálp varnarlega frá miðjumönnunum. Hlutverk Wijnaldum og Henderson mest allt þetta ár er óhefðbundið því sem við þekkjum.

Ef að Wijnaldum og sérstaklega Henderson hefðu verið jafn lélegir og umræðan um þá segir til um er bókstaflega kraftaverk að Liverpool hafi náð 97 stigum í fyrra og hvað þá unnið Meistaradeildina. Það ætti að vera scary fyrir andstæðinga Liverpool ef það eru menn á bekknum sem geta mögulega bætt spilamennsku liðsins ennfrekar.

Besti miðjumaður deildarinnar er engu að síður klárlega N´golo Kanté, hann er bara svindlkall og aðalástæðan fyrir titlum bæði Leicester og Chelsea. Miðjan hjá Chelsea er sú besta sem Liverpool hefur mætt á þessu tímabili, mikið til þökk sé Kanté.

Það er erfitt að bera saman Kanté og De Brunye en Belginn er þá langnæstbesti miðjumaður deildarinnar þegar hann er heill. David Silva er frábær með honum en vonandi fer eitthvað smá að draga af honum á þessu tímabili, þetta er komið gott.

Skv. Guardiola eiga þeir svo besta unga miðjumann í heimi á bekknum sem gera kaupin á Rodri frekar spes því ekkert fær hann að spila, tek undir með þessari grein, Foden ætti að hypja sig.

Pochettiono á eftir að kveikja aftur á Dele Alli og sjóða saman sína bestu miðju eftir innkaupin í sumar. Mjög vel mönnuð staða á pappír.

Með því að stilla þessu svona upp er svo erfitt að segja að United sé betur mannað en Leicester á miðjunni. Pogba er ekkert að gera merkilegra en Maddison og það sama á sannarlega við í tilviki Lingard og Tielemans. United getur samt vissulega kallað Fred the Red inn á miðjuna.

Vænframmherjar

Stærstu stjörnur liðanna og ljóst að Liverpool stenst allan samanburð mjög vel hvað byrjunarliðið varðar. Salah og Mané vs Sterling og Bernardo Silva er hörkukeppni en stóri munurinn liggur í Mahrez/Sane vs Shaqiri.

Sané var reyndar líklega á leiðinni frá Man City í sumar þar til hann meiddist í leiknum um Samfélagsskjöldinn og verður frá í nokkra mánuði. Það sýnir vissulega breidd City að finna lítið fyrir þeim meiðslum en jafnar breiddina á þessu tímabili. Shaqiri fékk lítið sem ekkert að spila í fyrra en var fyrir áramót ekkert að gera ómerkilegri hluti en Mahrez.

Arsenal er orðið mjög spennandi frammávið en Emery notar sjaldan Aubameyang og Lacazette báða inná í einu sem er nokkuð magnað. Özil virðist vera fjara út hjá félaginu.

Son og Eriksen voru megnið af síðasta tímabili í þessum elítuklassa. Moura og Lamela bjóða upp á fína breidd. Hópurinn hjá Tottenham er sterkari á pappír en í byrjun síðasta tímabils, það er eitthvað annað að hrjá liðið.

Chelsea er á góðri leið með að skipta út Hazard, Willian og Pedro með ungum uppöldum leikmönnum sem þeir hafa átt á lager í nokkur ár. Mount er nú þegar orðin þeirra helsta stjarna frammávið með Abraham. Hudson-Odoi mun klárlega fá alvöru tækifæri hjá Lampard nú þegar hann er kominn úr meiðslum. Pulisic er sannarlega að fá meiri samkeppni en hann líklega bjóst við en þar er enn einn nýr leikmaður. Lampard er ekkert að finna upp hjólið og vill augljóslega byggja upp lið með ungum gröðum leikmönnum sem hlusta á allt sem hann segir frekar en treysta á gömlu hundana sem eru á 8-12 stjóra á tíma sínum hjá félaginu. Þessi byrjun tímabilsins er sú versta undir stjórn Roman en samt hafa stuðningsmenn félagsins sjaldan verið eins spenntir og það er nokkuð ljóst að þetta félag virðist bara stefna uppávið undir stjórn Lampard eins og staðan er núna. Tímabilið er samt vissulega maraþon, Solskjaer var líka algjör galdrakarl eftir átta leiki með United.

United ákvað bara að taka ekki þátt í þessari samkeppni í vetur. Daniel James er flottur leikmaður og hefði líklega komið Leeds upp hefði hann farið þangað í janúar eins og stóð til. Hann er að plumma sig fínt í úrvalsdeildinni…en að henda honum strax inn sem aðalmanni hjá Man United? Martial er svo vissulega búinn að skora tvö og leggja upp eitt í þessum þremur leikjum sem hann hefur spilað.

Framherjar

Það tók fimm ár fyrir aðra en stuðningsmenn Liverpool að átta sig á hversu fáránlega góður Bobby Firmino er fyrir þetta Liverpool lið. Ef að leikkerfið er byggt upp í kringum einhvern leikmann þá er það Firmino. Hann gæti alveg skorað meira eða lagt upp en það kæmi líklega niður á leik liðsins í heild. Mörk og stoðsendingar segja bara hálfa söguna í tilviki Firmino.

Að því sögðu er eiginlega ekki hægt að bera hann saman við venjulega sóknarmenn. Aguero hefur þróað leik sinn að kröfum Guardiola og er besti sóknarmaður (striker) deildarinnar. Hann er einn besti sóknarmaður sem spilað hefur á Englandi og hefur rosalega öflugt back up í Jesus. Líklega bjóst enginn við því þegar Jesus fór frá Braselíu að hann yrði varamaður þetta lengi.

Divock Origi er að vaxa mikið um þessar mundir og kláraði Barcelona (og Tottenham) þegar hann kom inn fyrir Firmino og líklega myndi Klopp finna nýja lausn ef hann þyrfti þess en vonum að til þess komi ekki.

Harry Kane er svosem ekki mikið síðri en Aguero en þarf Tottenham að aðlaga sinn leik of mikið af Kane? Kemur það niður á sóknarleik liðsins í heild? Mynduð þið vilja skipta á Kane og Firmino?

Það er er töluvert gáfulegri spurning en hvort menn vildu frekar Firmino en Lacazette líkt og var til umræðu um daginn. Frakkinn er svo einhæfur að hann kemst ekki alltaf í liðið hjá Arsenal þó vissulega sé hann mjög góður leikmaður. Aubameyang eða Bobby væri reyndar líka betri samanburður.

Chelsea virðast vera að leysa vandræðastöðu eftir að Costa fór með Tammy Abraham sem hefur verið magnaður í byrjun tímabilsins, klárlega kominn til að vera. Giroud sem var að byrja fyrir Heimsmeistara Frakka á Laugardalsvelli er fyrir aftan hann í röðinni hjá Lampard.

Vardy er ennþá aðalmaðurinn hjá Leicester og klárlega betri en allt sem United hefur upp á að bjóða í þessari stöðu. Rashford er svosem engin greiði gerður með þessa miðju og vængmenn með sér loksins þegar hann fær kyndilinn frammi. Það er ekkert algalið að leggja tímabilið upp með Rashford sem fyrsta valkost, en að selja Lukaku til að eiga 12 ára Greenwood í staðin er fullkomlega galið hjá þetta ríku félagi. Getur Fred the Red spilað frammi?

Liverpool vs Man City

Hversu mikið betri er breidd Man City sem er svo miklu betri í allri umræðu?

Varamarkmaður Liverpool er búinn að fá færri mörk á sig en Ederson í vetur. Liverpool er aðeins sterkari í þessari stöðu en bæði lið eiga sannarlega frábæra markmenn.

Liverpool er með bestu bakverði í heimi í dag, bæði í hægri og vinstri bakverði. Þeir eru það í því leikkerfi sem Liverpool spilar, það þarf ekkert að vera og er í raun ólíklegt að þeir væri jafn góðir í öðru liði þar sem lagt er upp með aðrar áherslur en það skiptir heldur engu máli. Man City er mjög vel mannað einnig og með sterkari breidd að því leiti að þeir eru með hreinræktaða bakverði til vara. Hvorugur þeirra er Hames Milner samt.

Van Dijk, Matip og Gomez væru líklega allir byrjunarliðsmenn hjá City á kostnað Otamendi, Stones og Fernandinho. Lovren er ekki heldur fjarri þeirra klassa. Þetta er ekki til að tala niður varnarmenn City, frekar til að benda á hversu góðir miðverðir Liverpool eru. Bæði lið eru að glíma við meiðsli í varnarlínunni og bæði lið virðast finna fyrir því. Samt eru þetta þau lið sem hafa fengið fæst mörk á sig það sem af er tímabili.

Varnarlína Liverpool er betri maður á mann í öllum stöðum og breiddin jafnast sæmilega út. 

Rodri er augljóslega hátt skrifaður hjá Guardiola og þarf að fylla rosalegt skarð í City liðinu sem varnartengiliðurinn Fernandinho skilur eftir sig. Fernandinho gæti nefnilega skilið eftir sig enn stærra skarð en Kompany. Fabinho er í það allra minnsta ekki síðri leikmaður

Henderson – Wijnaldum miðjan sýnir svo hversu ólíkt upplegg stjóranna er á miðjunni í samanburði við De Brunye – Silva miðjuna. Miðjan hjá City er miklu meira sexy en það er ekkert víst að þeir séu mikilvægari eða að skila meiru heilt yfir.

Bekkurinn hjá Liverpool er töluvert meira sexy hinsvegar í samanburði enda okkar De Bryune og Silva í aukahlutverki í byrjun tímabils. Ox og Keita gætu báðir verið búnir að vinna sér sæti í byrjunarliðinu áður en árið er á enda en eru núna á eftir James Milner líka. Lallana er svo þarna að auki til að það sé jafnt í liðum. City er með gríðarleg efni í Zinchenko og Foden en hefur Gundogan sem næsta mann inn.

Miðjan er betri hjá City þegar De Bruyne er heill en breiddin er betri hjá Liverpool. Samanborið við síðasta tímabil gæti eitt ár í viðbót talið hjá Fernandinho og David Silva. Það er meira en að segja það að skipta slíkum mönnum út þó ótakmörkuð fjárráð Guardiola einfaldi verkið töluvert. 

Salah – Mané – Firmino standast öllum sóknarlínum í heiminum snúning, sama má svosem segja um Sterling – Silva – Aguero. Sóknarmenn City hafa meira sóknarþenkjandi miðjumenn fyrir aftan sig.

Sané, Mahrez og Jesus er gríðarlega öflug breidd í samanburði við Shaqiri, Origi og Brewster en það verður ekki tekið af Shaq og Origi að þeir hafa heldur betur staðið sig þá sjaldan þeir fá sénsinn. Brewster er ennþá óskrifað blað en það er vanalega ástæða fyrir því þegar Klopp sýnir leikmönnum þetta mikinn áhuga og traust. Hann treysti á Brewster frekar en að kaupa einhvern í sumar og var klárlega með lengri tíma í huga en bara fyrstu átta umferðirnar. Afskrifum hann alls ekki strax.

Með Sané nú þegar frá megnið af tímabilinu er breiddin svipuð hjá báðum liðum og hún var síðasta vetur, nema Shaqiri og Origi þekkja orðið mun betur sín hlutverk undir stjórn Klopp. 

Getum við ekki hætt að tala um að breiddin sé svona mikið betri hjá Man City?

5 Comments

  1. Virkilega flott grein og er hún mikið hrós við Liverpool liðið og á hvaða stall þeir eru komnir.

    Maður finnst samt alltaf eins og við séum háðari okkar lykilmönnum en þeir sýnum.
    Þeir unnu deildina á síðasta tímabili án De Bruyne og líður manni þannig að þeir geta auðveldari haldið áfram sóknarþunga á meðan að við getum brugðist best við meiðslum í miðvarðastöðu sem þeir geta ekki.
    Þeir vandamál á síðasta tímabili var þegar Fernandinho meiddis þá var engin til að leysa hann af en Rodri er mættur á svæðið en eins og búið er að tala um þá er miðvarðarstaðan vandamál núna.

    Eina sem maður vonar er að okkar ómissandi leikmenn Andy/Trent/Salah/Mane/Firmino haldast heilir(7,9,13) en gæðin fyrir aftan þá eru svo langt í frá sambærileg.

    YNWA

    p.s Djöfull er gott að vera með lið sem er búið til úr Þýsku stáli en ekki botnlausum gullpotti.

    11
  2. Takk fyrir þetta yfirlit Einar.

    Nauðsynlegt og gaman að bera okkar lið saman við önnur lið í deildinni. Sem lið er okkar lið einstakt og samheldið og þökk sé Klopp með það hugarfar. Margir rosalega góðir einstaklingar hjá MC og því miður nánast engir veikleikar. Algjörlega sammála um að að umræðan um miðjumennina hefur verið á köflum mjög ósanngjörn. Árangurinn á síðasta tímabili sannar það svo ekki verður um það deilt að miðjumennirnir hljóta að hafa staðið sig vel. Liðið spilar líka allt öðruvísi en það gerði, gríðarlega sókndjarfir bakverðir sem leggja upp á við bestu miðjumenn. Á sama tíma verða einhverjir miðjumenn, sem gætu hugsanlega séð um hlutverk bakvarðanna, að detta aftar og sinna meiri varnar- og pressuvinnu. Á Gerrard tímanum snérist leikurinn um þann mann og hvað hann gerði í uppleggi, spili, stoðsendingum og jafnvel markaskori. Við vitum líka alveg að Gerrard blómstarði sem aldrei fyrr, og seinna, en þegar Alonso lá djúpur fyrir aftan og hreinsaði upp. Nú er Fabhino kominn aftarlega á miðjuna og verður sterkari og betri með hverjum leiknum og skilur sitt hlutverk líka betur. Það ætti samkvæmt öllu eðlilegu að gefa öðrum miðjumönnum tækifæri á að styðja betur við sóknina og janfvel læða inn mörkum af og til.

    Frammávið hefur Liverpool sennilega, og nokkuð örugglega, aldrei haft aðra eins breidd og getu eins og nú. Auðvitað höfum við átt einn og einn í einu og mesta lagi tvo roslalega frammi, Rush, Fowler, Owen, Torres , Suarez svo einhverjir séu nefndir en sennilega aldrei þrjú stykki í einu í algjörum heimsklassa. Kannski skora miðjumenn okkar svona lítið því þeir hreinlega komast ekki að þegar svona trío er frammi. Síðan má ekki gleyma Milner sem mér finnst á köflum vera vanmetinn. Sennilega er hann fjölhæfasti leikmaður deildarinnar og sá duglegasti um leið. Ekki er vafi að hann er einn af leiðtogum liðsins og sýnir ungu guttunum gott fordæmi með endalausri elju og dugnaði. Gleymist líka stundum að hann kom frítt.

    8
    • Snertir ekki Milner, stundum virðarþeir sem koma frítt fá það inn í launin sín þannig að “staðgreiðslan” kemur kannski inn á tveimur , þremur árum. Er þetta tóm della hjá mér eða hvað, þið spekingar.

  3. Eftir frekar erfiða byrjun var Naby Keita farinn að finna sig ansi vel á síðari hluta síðustu leiktíðar og var búinn að vinna sér fast sæti í byrjunarliðinu þegar hann meiddist. Mér finnst hann bjóða upp á meira sóknar og varnarlega en Hendo/Winjaldum og virtist hin fullkomna tenging á milli Robertson og Mane vintra megin á vellinum.

    Það gæti tekið Keita nokkra leiki að komast aftur í gang en þegar það gerist mun hann styrkja miðjuna umtalsvert.

    Með Alisson og Keita í byrjunarliðinu og nýjum kantmanni í janúar gætum við farið ansi nálægt 100 stigunum.

    Varðandi Chamberlain þá hugsa ég að hann verði einungis í aukahlutverki í vetur. Hann er í raun enn að jafna sig og í raun er ekki hægt að búast við að hann muni þola nokkuð leikjaálag fyrr en á næsta tímabili.

    1
  4. Sma utur dur hérna en nu er eg með snapp sem heitir enskiboltinn og sagdi yfir leiknum i gær ad madur væri ekki mikid ad stressa sig a Íslandi eda íslenskum fótbolta heldur væri enski boltinn tad sem skipti máli og hef eg fengid fulllt af skilaboðum um tetta tar sem folk er ekki sammála mer sem er svo sem alltilagi.

    Hvernig er tetta hja ykkur ?
    Eg tæki td litla deildarbikarinn a Englandi fram yfir Ísland a Em en hvernig hugsid tid tetta ???

    1

Gullkastið – Fullt hús og rúmlega það

Kvennaliðið fær Bristol í heimsókn