Red Bull hefur undanfarin ár verið gríðarlega áberandi í íþróttaheiminum og hafa verið að færa sig frá því að vera styrktaraðilar í mismunandi íþróttagreinum í það að eiga félögin sjálfir og byggja upp samkvæmt eigin ímynd og hugmyndafræði. Oft með ævintýralegum árangri á skömmum tíma og skapa jafnan ung, hröð og spennandi lið sem höfða einmitt helst til markhóps móðurfélagsins.
Red Bull Salzburg er partur af þessari starfsemi orkudrykkjaframleiðandans en samtals tilheyra um fimmtán íþróttafélög í mismunandi íþróttum Red Bull samsteypunni. Þar af fjögur knattspyrnufélög í þremur heimsálfum.
Markaðslega er vel hægt að skilja ávinning þess að koma á fót öflugu liði í New York enda ört vaxandi íþrótt í Ameríku (því miður). Eins er alveg hægt að sjá tækifærið í þýska boltanum og þá sérstaklega í hinni fornfrægu stórborg í austrinu, Leipzig. Salzburg og Austurríska deildin passar ekki alveg inn í jöfnuna fyrr en maður áttar sig á að Red Bull var stofnað árið 1987 í Austurríki af Dietrich Mateschitz og tælenskum félaga hans. Salzburg var fyrsta knattspyrnufélagið sem Red Bull keypti og umturnaði árið 2005.
Innkoma Red Bull inn í þýska boltann fékk töluverða athygli alþjóðlega þegar Leipzig mætti með látum í Bundesliga enda augljóst að til að koma liðinu svona hratt í gegnum allar fimm deildir þýska boltans var búið að beygja vel allar reglur varðandi eignarhald þýskra liða. Leipzig var og er enn gríðarlega óvinsælt lið í Þýskalandi.
Innkoma Red Bull nokkrum árum áður í Austurríska boltan var þó enn meira brutal og ekki síður óvinsæl. Red Bull keypti réttindi Austria Salzburg sem er fornfrægt félag í Austurríki og tilkynntu í kjölfarið að þeir væru að stofna nýtt félag frá grunni sem ætti sér enga sögu. Búningunum og logo var breytt, þjálfarateymi og starfslið sömuleiðis. Stuðningsmenn þessa 72 ára gamla félags voru síður sem svo tilbúnir að sætta sig við þessa innkomu risafyrirtækis og mótmæltu harðlega í fimm mánuði áður en þeir gáfust upp á Red Bull og stofnuðu sitt eigið félag og hófu leik í neðstu deild. Austurríska knattspyrnusambandið tók fyrir það að afmá sögu félagsins og var henni gerð skil á heimasíðu félagsins seinna. Satt að segja sturluð ákvarðanataka hjá Red Bull sem líklega tekur 1-2 kynslóðir að gróa því ekki bara er Red Bull hatað heilt yfir Austurríki heldur komu þeir helmingi stuðningsmannahópsins upp á móti sér einnig.
Þeir hafa þó lært af þessu því fyrir utan þessa heimskulegu byrjun hefur rekstur knattspyrnuhluta Red Bull verið magnaður, sérstaklega núna í seinni tíð. Dietrich Mateschitz er 53. ríkasti maður í heimi og þó Red Bull Salzburg sé yfirburðalið í Austurríki er það ekki neitt Man City, síður en svo. Þeir neita að kaupa dýra quick fix leikmenn, halda miðaverði nokkuð eðlilegu og leggja ofuráherslu á unglingastarfið. Eitt af helstu einkennum liða Red Bull er að gefa ungum mönnum séns, ekki bara leikmönnum heldur einnig þeim sem starfa utan vallar. Þeir eru mjög opnir fyrir nýjungum og annarskonar hugmyndafræði sem fellur ekki endilega undir normið. Þar fyrir utan er helsta einkenni Red Bull liðanna að spila hraðan, skemmtilegan og spennandi fótbolta. Vafalaust svo að við tengjum hann við Red Bull orkudrykkinn.
Ralf Rangnick
Ári eftir kaupin á Salzburg keypti Red Bull lið í New York sem er öllu auðveldari markaður að koma inná með látum heldur en í Evrópu. Það lið fékk þó að halda sinni sögu en starfar að öllu leiti eftir hugmyndafræði Red Bull og er klárlega ekki eitt af þessu elliheimilum fyrir gamlar stjörnur eins og sum lið MLS deildarinnar eru. Núverandi þjálfari Red Bull Salzburg var áður stóri Red Bull New York þaðan sem hann fór sem aðstoðarþjálfari til RB Leipzig áður en hann tók við í Austurríki.
Ári eftir New York var það neðri deildarlið í Brasilíu og svo árið 2009/10 var það 5.deildar smáliðið SSV Markranstädt í útjaðri Leipzig. 50+1 reglan í Þýskalandi kveður á um að rúmlega helmingur eignarhluta félaga sé í eigu félagsmanna og þannig er það vissulega í Leipzig. Þeir eru reyndar bara 17 og hafa allir sterk tengsl við Red Bull. Dortmund til samanburðar samanstendur af um 140.000 meðliminum sem borga miklu miklu lægri gjald fyrir sína aðila að félaginu.
Markranstädt er 10 km frá Leipzig og var nafni félagsins auðvitað breytt um leið. Einn af leikvöngum HM 2006 var nýr 43.000 manna völlur í þessari hálfrar milljón manna borg sem vantaði lið til að nýta eftir mótið. Þannig að á engum tíma var Red Bull komið með fótinn inn í þýska boltann á nýjum velli í rúmlega 500.000 manna borg og miklu stærra markaðssvæði þar í kring, eina alvöru liðið í austrinu núna. Rétt eins og Wolsburg má ekki heita Volkswagen mátti Leipzig ekki heita Red Bull og því heitir félagið í raun RasenBallsport Leipzig eða RB Leipzig.
Ásamt liði í Gana sem nú er búið að leggja niður var Red Bull þarna komið með fimm knattspyrnufélög í fjórum mismunandi heimsálfum og ágæta hugmynd um hvað þeir vildu gera. Starfsemin var engu að síður ekki nægjanlega skipulögð og skorti sameignlega sýn fyrir öll félögin sem eðli málsins samkvæmt er ekki létt verk að innleiða. Þessu öllu breytti Ralf Rangnick er hann gekk til liðs við Red Bull árið 2012.
Þegar Dietrich Mateschitz hafði samband við Rangnick árið 2012 var meðalaldur leikmanna Red Bull Salzburg 29 ára. Rangnick minnti eigandann á slagorð fyrirtækisins, Red Bull veitir vængi og sagði að ungt fólk tengdi ekki við eldri leikmenn. Hann vildi byggja upp lið á ungum óþekktum leikmönnum sem hægt væri að móta og spila árangursríkan sóknarfótbolta sem passaði betur við ímynd Red Bull.
Þjálfarar og njósnarar Red Bull liðanna fengu nákvæma lýsingu á þeirri tegund leikmanna sem Rangnick vildi sjá spila fyrir félagið og fól þeim að vinna eftir þeirri stefnu í kaupum á leikmönnum og ekki síður í þjálfun þeirra. Það er ekki hægt að fá þá bestu eins og Keita og Mané til Austurríkis nema áður en þeir skapa sér nafn.
Rangnick svo gott sem bannaði afskipti yfirmanna mismunandi deilda Red Bull af rekstri knattspyrnuliðanna og fékk svigrúm til að innleiða sína sýn og stefnu. Hann tók við sem yfirmaður knattspyrnumála hjá bæði Salzburg og Leipzig. Hann einfaldaði strúktúrinn og er í dag viðmiðið þegar kemur að yfirmanni knattspyrnumála um allan knattspyrnuheiminn, sérstaklega hjá samsteypum sem eiga fleiri en eitt lið. Þetta hlutverk á jafnvel betur við hann en að þjálfa, sem hann hefur einnig gert með góðum árangri. Hann var jú orðaður við Liverpool á sínum tíma og það er morgunljóst að FSG veit allt um hann.
Keita og Mané
Eitt besta dæmið um samvinnu liðanna og hugmyndafræði Rangnick er okkar eigin Naby Keita. Rangnick fór sjálfur og horfði á þennan 19 ára strák hjá Istres í neðri deildum Frakklands og samþykkti að borga €1.5m sem var töluverð upphæð fyrir Salzburg og svona óslípaðan leikmann.
Njósnaranet Red Bull undir yfirumsjón Rangnick er eitt það besta í heimi og gerir sjaldan alvarleg mistök en þeir kaupa líka leikmenn sem þeir hafa tíma til að vinna með og leyfa upp að vissu marki að taka út sín mistök. Keita var valinn leikmaður tímabilsins á sínu öðru tímabili í Austurríki og var keyptur til RB Leipzig í kjölfarið sem þá var nýkomið upp í Bundesliga. Hann var þeirra besti maður er liðið sem hafði hafnað í öðru sæti í 2.deild árið áður endaði í öðru sæti í efstu deild árið eftir. Það var bara þrjóska Rangnick sem gerði það að verkum að Keita fór ekki fyrr en ári seinna til Liverpool og kaupverðið var €60m.
Keita fer vonandi að sýna það hjá Liverpool sem hann gerði nánast um leið hjá Red Bull liðunum en hann er klárlega ein af betri kaupum Rangnick. Sadio Mané er hinsvegar besti leikmaðurinn sem farið hefur í gegnum Red Bull netið hingað til.
Salzburg fór að njósna um hann í kjölfar ÓL í London 2012 og tölurnar lofuðu það góðu að Rangnick fór ti Frakklands að sjá Metz spila í frönsku þriðju deildinni. Hann lýsti þeirri ferð svona:
“Sadio played very well, which worked a little against us that day. I remember meeting with Metz’s president after the game. He insisted that they would only sell him for €4 million. That was a huge fee for us, especially for a third-division player in France.”
Mané hefur lýst því sjálfur í viðtölum hversu grænn hann var þegar hann kom til Austurríkis en metnaðurinn var frá upphafi að vinna Ballon d´Or. Þegar vinir hans töldu hann kannski vera að setja markið full hátt sættist hann á að verða Knattspyrnumaður Afríku fyrst. Ætlar einhver að veðja gegn því að hann vinni bæði eftir þetta tímabil?
Mané kom til Salzburg þegar Rangnick var að byrja að koma sinni hugmyndafræði almennilega af stað. Hann var að leita að ungum leikmönnum sem væru viljugir til að pressa andstæðinginn stanslaust og spila sem lið. Rangnick hefur svo gott sem útrýmt öllu sem heitir eigingirni í liðum Red Bull, þetta snýst allt um liðsheildina og spila sem ein heild. Ekki ósvipað því sem við þekkjum hjá Klopp.
Salzburg var klárlega rétti staðurinn til að þróa Mané sem leikmann og á hann þeim sannarlega mikið að þakka en á móti má segja að Salzburg eigi honum einnig mikið að þakka því eins og stjóri hans þá sagði þá á Mané gríðarlega stóran þátt í mótun Salzburg liðsins sem síðan hefur haldið áfram að þróast. Hann var bestur í þessu fyrsta ofurpressuliði Red Bull.
Mané skoraði 23 mörk í öllum keppnum sem kantmaður á sínu öðru tímabili í Austurríki og var undir smásjá fjölmargra liða en hans besti leikur var líklega æfingaleikur gegn Guardiola og félögum í FC Bayern í janúar 2014. Mané skoraði og lagði upp annað í 3-0 sigur Salzburg.
Hann var augljóslega vaxinn upp úr Austurrísku deildinni og þvingaði sölu í gegn sumarið 2014 og skildi ekki á góðum nótum við Salzburg. Hann neitaði að mæta á æfingu og í mikilvægasta leik tímabilsins, undankeppni Meistaradeildarinnar. Hann bar við hausverk fyrir seinni leikinn gegn Malmö og var bannaður frá félaginu. Leikurinn tapaðist 3-0 í Svíþjóð.
Það var enda baulað á Mané þegar Southampton mætti Red Bull Salzburg í æfingaleik árið 2015 og Rangnick hefur sagt að liðsfélagar hans hafi ekki verið ánægðir með hann á sínum tíma þegar hann tók upp á svona skíta aðferðum.
Rangnick hefur undanfarin ár tekið við RB Leipzig þegar þeir eru milli þjálfara og var m.a. stjóri liðsins á síðasta tímabili áður en hinn 31 árs Julian Nagelsmann tók við liðinu. Rangnick var stjóri Hoffenheim á sínum tíma þegar Nagelsmann kom þangað og tók við U17 ára liðinu. Tími Rangnick hjá Hoffenheim og ennþá ævintýralegri uppgangur þess félags var umfjöllunarefnið á þarsíðasta tímabili fyrir leikina gegn Hoffenheim.
Rangnick hætti reyndar í Evrópu eftir veru sína hjá Leipzig og er núna með yfirumsjón með Red Bull liðunum í Ameríku og S-Ameríku sem mættu að mati Red Bull skila betri árangri í þróun leikmanna.
Meistaradeildin – Loksins
Red Bull Salzburg hefur metnað töluvert umfram Austurrísku deildina, þeir eru með einn ríkasta eiganda knattspyrnuliðs í heimi og menn eins og Rangnick og okkar eigin Gerard Houllier í stjórnunarstöðum bak við tjöldin að vinna geggjað starf. Það eru engu að síður takmörk fyrir því hvað er hægt að laða stór nöfn til Austurríkis. Það er aðalástæðan fyrir því að þeir leggja frekar svona mikla áherslu á unga og óþekkta leikmenn og hafa vissulega skapað sér sterka stöðu á nokkrum mismunandi mörkuðum sem gefa þeim forskot. Draumurinn er engu að síður að standa sig á stóra sviðinu og fyrir lið eins og Salzburg er Meistaradeildin aðalatriði. Þetta er fyrsta tímabil félagsins í Meistaradeildinni en það er með ólíkindum að svo sé því liðið hefur oft verið grátlega nálægt því að komast í riðlana.
Eitt árið töpuðu þeir fyrir F91 Dudelange frá Luxembourg! Salzburg hefur einnig tapað úrslitaleik um sæti gegn Hapoel Tel Aviv, Maccabi Haifa og Fenerbahce, tvö ár í röð gegn Malmö. Árið 2016 færðu þeir sig til Króatíu og töpuðu í framlengingu gegn Dinamo Zagreb. Árið eftir sló Rijeka þá út á mörkum skoruðum á útivelli.
Engu að síður toppaði tapið gegn Rauðu Stjörnunni þetta alltsaman árið 2018, liðið sem seinna vann Liverpool í riðlunum. Salzburg gerði vissulega betur en okkar menn í Belgrad og náðu markalausu jafntefli. Heimaleikinn byrjuðu þeir svo með látum og komust 2-0 yfir en töpuðu þeirri forystu niður á einni mínútu í seinni hálfleik og féllu aftur á síðustu hindrun vegna marka á útivelli.
Að þessu sinni komast Salzburg loksins í Meistaradeildina og það sjálfkrafa sem meistarar í Austurríki og geta þakkað Liverpool fyrir það. Liverpool endaði tímabilið í Meistaradeildarsæti heimafyrir og færðist því aukasætið til sterkustu deildarinnar sem var næst á listanum. Salzburg á vissulega sinn þátt í því að hafa fært Austurrísku deildina hærra í UEFA styrkleikalistanum sem nær yfir fimm ára tímabil. Salzburg hefur staðið sig vel í Evrópudeildinni undanfarin ár og komust m.a. í undanúrslit árið 2017.
Þeir hafa enda sýnt það í þessari riðlakeppni að Red Bull Salzburg er líklega komið til að vera. Það er ekkert eðlilegt að Austurrísku meistararnir taki þá Belgísku og pakki þeim saman 6-2 í fyrsta leik. Eins er eitthvað spunnið í lið sem kemur til baka á Anfield eftir að hafa lent 3-0 undir. Þetta er jú besta Liverpool lið sögunnar.
Red Bull Salzburg hefur nýtt þennan áratug sem það tók að komast í Meistaradeildina mjög vel og að mestu leiti haldið sig við þá stefnu sem Ralf Rangnick innleiddi frá 2012. Þeir eru núna klárlega komnir upp á annað level og auðvitað í miklu hærri fjárhæðir en þeir hafa áður unnið með. Þeir eru að vekja verðskuldaða athygli og ljóst að þetta félag verður töluvert meira undir smásjánni næstu misserin óháð því hvort þeir fari áfram í 16-liða úrslitin eða enn á ný í Evrópudeildina. Það segir sitt að stuðningsmenn Evrópumeistara Liverpool eru alls ekkert að horfa á þennan leik sem sjálfsagaðan hlut. Mikið langt í frá.
Erling Braut Haaland og félagar hans hafa enda ekki nema skorað tæplega fjögur mörk að meðaltali í leik það sem af er tímabili í deildinni heimafyrir og 4,5 mörk að meðaltali á heimavelli. Það er fullkomlega sturlað. Þeir höfðu ekki tapað heimaleik í rúmlega 70 leikjum þar til Napoli marði þá 2-3 um daginn.
Liverpool
Það að mæta Red Bull Salzburg úti í einhverju þéttasta leikjaprógrammi sem maður hefur séð er ekkert sérstaklega heillandi verkefni. Rétt eins og á sama tíma fyrir ári síðan er fókusinn miklu frekar á deildina heimafyrir en Meistaradeildina. Ef að það er einhver þreyta í hópnum hjá Liverpool er Salzburg síðasta liðið sem þú vilt mæta. Þetta er stærsti leikur í sögu Salzburg
Just in time for the most eagerly anticipated match in our club’s history against Liverpool FC, we are releasing a bonus episode on https://t.co/3e8NH4QUiv. It also features the legendary half-time talk from Jesse #Marsch and the dream of Enock #Mwepu. #SALLIV pic.twitter.com/UPiUkvoFrX
— FC Red Bull Salzburg EN (@FCRBS_en) December 8, 2019
Þess vegna hefur undirbúningur Klopp fyrir þennan leik gefið mjög góð fyrirheit. Liverpool hefur skipt upp um einn gír í síðustu tveimur leikjum samhliða því að nota breiddinga töluvert. Fimm breytingar fyrir leikinn gegn Everton þar sem við sjáum að Shaqiri er kominn aftur inn í myndina og svo aftur sjö breytingar fyrir leikinn gegn Bournemouth þar sem Naby Keita stimplaði sig heldur betur inn. Það er rándýrt að fá þá inn núna í desember.
Bournemouth leikurinn var svo auðveldur á köflum að líklega var óþarfi að spila síðustu 25 mínúturnar. Curtis Jones þurfti að bíða í u.þ.b. fimm mínútur eftir því að fá sinn fyrsta deildarleik þar sem Liverpool var bara í reitarbolta. Vonandi sparaði mulningsvél Liverpool kraftana nóg til að koma í veg fyrir einhverjar hörmungar í Austurríki.
Við sáum það alveg í fyrri leiknum að þegar Liverpool spilar sinn eðlilega bolta á Salzburg ekki glætu. Það var rosalegt kæruleysi og líklega vanmat að missa niður 3-0 forystu á Anfield. Liverpool undir stjórn Klopp lærir vanalega hratt af slíkum mistökum og þeir vanmeta Salzburg ekki aftur, það er ljóst.
Eftir tvo síðustu leiki er vonlaust að giska á byrjunarliðið en þar sem þetta er stærsti leikur mánaðarins er krafan á að Klopp stilli upp sínu besta liði. Botnlið Watford um helgina er seinni tíma vandamál.
- Hin heilaga þrenning hefur ekki byrjað saman í tvo leiki núna, líklega var Klopp með þennan leik í huga þar.
- Lovren fór útaf gegn Bournemouth og ef hann er tæpur þarf Joe Gomez að koma inn og heldur betur stíga upp. Hann hefur hraðan til að glíma við snögga sóknarmenn Salzburg.
- Keita á skilið að byrja gegn sínum gömlu félögum eftir frábæran leik um helgina en auðvitað eru Ox og Milner einnig líklegir. Wijnaldum spilar ef hann er heill, hann og Lallana voru auðvitað ekki í hóp um helgina vegna smávægilegra meiðsla.
- Adrian spilaði í markinu í fyrri leik liðanna. Gomez var líka miðvörður þá og átti einn sinn versta dag. Fabinho spilaði svo auðvitað einnig þann leik.
Spá:
Þetta bölvaða óþarfa jafntefli gegn þessu ógeðis Napoli liði gerir þennan leik bara fjandi óþægilegan. Liverpool hefur komið allavegana til leiks á útivellli í Evrópu en verðum við ekki að treysta þessu liði áfram? Liverpool er með 73 stig af síðustu 75 mögulegu í deildinni sem er betra en Salzburg er með í Austurríki. Ofan á það hefur Liverpool farið í úrslit þessarar keppni tvö ár í röð.
Liðið er að skipta um gír núna, tökum þetta solid 1-3, Mané með þrennu en bölvaði norsarinn með eitt.
Þetta er úrslitaleikur fyrir bæði lið, þar skilur á milli til að byrja með. Síðan eru það okkar gæði og reynsla á þessu kaliberi sem vega bara svo miklu meira. Sammála 1-3.
YNWA
þetta má,ekki klikka
Takk fyrir mig! Okkar lið eru orðnir mjög sjóaðir í úrslitaleikjum þannig að ég hræðist ekkert en verð samt alltaf flökurt af stressi. Klikkun eða hvað? Tökum þá 1-3!!
Það væri gott að klára þennan leik og komast í 16.liða úrslit en núna er maður samt svo einbeitur á deildinna að dreyma um að 30 ára biðin sé á enda.
Ef við færum í Evrópudeildina þá held ég að Klopp myndi stilla upp hálfgerðu B-liði í þeim leikjum(sem væri samt mjög gott) en hann myndi hvíla suma aðaleikarana sem myndi þýða ferskari fætur í deildarleikina.
= Vill komast áfram fyrst og fremst en það er alveg hægt að finna jákvæða punkta ef það tekst ekki.
Sammála
Takk fyrir þessa fínu upphitun og fróðlegu. Hræddur er ég um að Liverpoolborg færi á hliðina ef einhver yfirtæki félagið og þurrkaði út söguna og stofnaði svo nýtt lið.
Varðandi leikinn er ég svolítið hugsi…
… eftir síðustu leiki er verulega jákvætt hve leikmenn hafa stigið upp sem hafa ekki reglulega verið í byrjunarliðinu.
… miðjan verulega jákvæð og nánast sama hverjir 5-6 spila saman, Hendo, Gini, Ox, Milner, Keita og jafnvel Lallana. Vantar að vísu Fabhino en hans hefur ekki verið. saknað eins mikið og ætla mætti. Hópurinn er það sterkur.
… eins er með sóknina. Heilaga þrenningin hefur góða afleysingamenn í Origi, Shagiri og Ox ef með þarf og er þar ekki í kot vísað.
… mesta áhyggjuefnið núna er miðjan í vörninni með Matip og Lovren meidda. VvD fær ekki langþráð frí en hann hefur leikið tæplega 30 leiki sl 4 mánuði og nánast hverja mínútu með Liverpool og landsliði. Stefnir í 65+ leiki á tímabilinu. Get ekki hugsað það til enda ef hann meiðist.
… þarf að setja fullt gas í þennan Red Bull leik?
… er hræddari við Watford leikinn.
… ég myndi hiklaust láta Origi byrja gegn Red Bull. Er nokkuð heitur og etv besti slúttarinn.
… mest smeykur er maður samt alltaf um meiðsli. Red Bull mun berjast blóðugt í þessum leik.
… hæstánægður ef þessi leikur fer 1-0 sigur. Ef leikurinn tapast er það enginn heimsendir að fara í Evrópudeildina.
Þarf að setja fullt gas í þennan Red Bull leik ?
Já það þarf og það verður gert…Klopp hugsar STÓRT og ætlar að verja Evrópumeistaratitilinn…við erum í óskastöðu í deildinni og með lið sem er svo gott að við eigum að stefna á sigur í öllum keppnum annað er bara kjaftæði….þú getur alveg slakað á Hjalti með deildina við erum að fara að vinna hana RISINN ER VAKNAÐUR
Börkur, almennt er ég drulluslakur. Ég veit að risinn er vaknaður og miðað við getu ættu að koma nokkrir bikarar í vetur. En sagan getur hrætt, ég vill meina að minnsta kosti tvisvar af árunum 2009, 2014 og 2019 hafi Liverpool verið með besta liðið en samt náðist ekki sigur í deildinni. Liverpool virðist þurfa að vera með töluvert betra lið en önnur til að náist sigur í deildinni. Sjáum bara Leicester, Chelsea og jafnvel sumir titlar MU. Berum svo saman Liverpool liðið í fyrra til dæmis. Sennilega besta lið í veraldarsögunni sem nær engum titli í sínu heimalandi. Einu titlarnir á núlíðandi ári eru nefnilega Evrópubikarnir tveir. Ef ég tala hreint út þá langar mig mest í sigur í deildinni, svo FA bikarinn, þar á eftir CL eða Evrópudeildina.
Hvað í veröldinni er merkilegra við FA Cup en Meistaradeildina?
– Meistaradeildin í samanburði við FA Cup er svona eins og Liverpool í samanburði við Coventry City.
– Munurinn fjárhagslega er stjarnfræðilegur
– Framtíðarleikmenn vilja koma til Evrópumeistarana, FA Cup kemst þar ekki einu sinni á blað.
– o.s.frv.
Hver og einn á auðvitað rétt á sinni skoðun, bara skil þetta ekki.
Það verður klárlega ekki tekið þennan leik með hálfum hug, öfugt einmitt við Everton í bikarnum sem maður getur vel séð og skilið ef Klopp notar hópinn.
Einar. Ég skrifaði ekki að FA bikarinn væri merkilegri en CL svo því sé haldið til haga. Mér er líka alveg nákvæmlega sama um hvað öðrum finnst um mikilvægi bikara. En það breytir því ekki að mig langar meira í FA bikarinn heldur en CL. Ástæðan er ekki hvað síst að Liverpool tapaði síðasta úrslitaleik í þeirri keppni og þar fyrir utan eru mörg ár síðan sá bikar kom. Svo nægar eru ástæðurnar fyrir utan að þetta er elsta bikarkeppni í heimi.
Um CL hef ég áður lýst minni skoðun og get alveg ítrekað það hér að mér finnst að peningaöflun ráði þar alltof miklu svo til vansa er. Leikirnir eru alltof margir og möguleikar liða utan topp 5 deilda eru hverfandi. Það ætti ekki að þurfa nema að hámarki 9 leiki til að vinna keppnina en ekki að lágmarki 13 leiki eins og nú er. Ef heldur fram sem horfir þá verða það etv 5-6 lið sem eiga möguleika á að vinna þessa keppni. Álíka spennandi og að vaska upp. Í hinum fullkomna heimi myndi eitt og eitt ár lið af Balkanskaga eða Rússlandi og ég tali nú ekki um frá Hollandi, Portúgal og Belgíu komast í úrslit og jafnvel vinna. Ég get alveg sagt þér það í trúnaði Einar að hef alveg jafn gaman að horfa á okkar menn spila gegn Rauðu stjörnunni eins og gegn Barcelona. Punktur.
Ég er alveg slakur fyrir þennan leik og fyrir því eru margar ástæður.
* Liverpool er þónokkuð sterkara lið en Salsburg. Þetta segi ég án þess að vanvirða andstæðinginn. Þeir eru með mjög gott lið og gætu alveg unnið okkur ef Liverpool spilar ekki á sínum allra mesta styrk og sýnir þeim snefil af miskunn.
* Miðað við hvað róteringar á liðinu bitna lítið á gæðum liðsins, þá hef ég á tilfinningunni að flestir lykilmenn liðsins mæti ágætlega hvíldir og einbeittir fyrir þennan leik.
* Okkur nægir jafntefli og því verður Salsburg að sækja og það hefur ekki reynst vel gegn okkar mönnum.
Annars getur allt gerst í þessum bolta og Salsburg hefur klárlega gæði til að berjast gegn okkur. Það sást berlega í síðasta leik þegar þeir jöfnuðu gegn okkur. Mín tilfinning er að núna er allt annað í gangi vegna þess að Liverpool mætir dýrvitlaust í þennan leik og setur drápsvélina á fullan styrk. Annað kæmi mér á óvart.
Mín skoðun er sú að það eru bara tvær keppnir sem skipta raunverulega máli. Það er meistaradeildin og deildarbikarinn. Evrópumeistaratitillinn á þessu ári gerði Liverpool að stórliði sem allir bera orðið óttablandna virðingu fyrir, Ekki litlu bikarkeppninar í Englandi.
það er eitt að mæta liverpool snemma í riðlakeppni en að mæta liverpool þegar þeir verða að ná í úrslit.
liverpool verða eins og húngraðir úlfar á vellinum á morgun og ég bíðst við að við löndum þessu þægilega.. sýnum að við erum með best vörnina í evrópu og höldum hreinu vinnum þetta 2:0.
Podcast i kvöld?
Ég hafði miklar áhyggjur af þessu einvígi eftir ógeðis jafnteflið við Napoli (það sem ég þoli ekki Dries Mertens). En eins og pistlahöfundur kemur inná, þá er Liverpool búið að skipta um gír í Desember og því allar líkur á að þetta envígi verði einfaldlega klárað með engu rugli. Ef þessi leikur hefði verið í upphafi riðlakeppninnar þá hefði ég bókað tap og einhverja þvælu. En Klopp hefur einfaldlega sýnt okkur það að þegar hann þarf að ná í úrslit, þá gerir hann það. Ég hef því ákveðið að hafa ekki áhyggjur af þessu einvígi, eða ekki eins miklar.
Við verðum að þagga niður í þessum ofmetna Erling Háland, hann er alltof kokkí.