Liverpool – Wolves 1-0

Liverpool freistaði þess að landa sínum áttunda sigri í jafn mörgum tilraunum (tel þá ekki deildarbikarleikinn með) í ansi annasömum desember þegar Wolves, hetjur föstudagsins, kom í heimsókn á Anfield á þessum annars fína sunnudegi.

Það var ekki sama flugeldasýning í boði og við fengum á öðrum degi jóla en þrjú stig engu að síður í erfiðum leik gegn spræku liði Wolves.

0-1  – 42 min, Mané

Fyrri hálfleikur

Leikurinn fór  fjörlega af stað, Salah hefði átt að koma okkar mönnum yfir strax á þriðju mínútu þegar hann skaut yfir úr upplögðu marktækifæri eftir fínt spil og flotta sendingu fyrir frá hverjum öðrum en Trent Alexander-Arnold.

Liverpool var með fína stjórn á leiknum og fékk annað  tækifæri til að komast yfir eftir 14 mínútna leik þegar boltinn barst út í miðjan teig, eftir hornspyrnu TAA, en skot Gini úr miðjum vítateig fór hárfínt yfir, fínt færi.

Liverpool var mikið með boltann næstu 10-15 mínúturnar án þess að skapa sér neitt en Wolves minnti alveg á sig inn á milli og voru óhræddir við að pressa okkar öftustu menn. Aftur voru hornspyrnurnar að skila okkur færum, nú á 35 mínútu þegar Firmino átti fínan skalla rétt við markteig eftir hornspyrnu TAA en boltinn fór hárfínt framhjá.

Þetta Wolves lið er virkilega vel skipulagt og flott fótboltalið. Þeir hafa mikinn hraða í liðinu (og það þrátt fyrir að hvíla Adama Traore lengst af), eru virkilega þéttir fyrir og hafa flotta fótboltamenn sem geta vel spilað fótbolta innan sinna raða (Moutinho, Neves, Jimenez ofl.). Það var þó á 42 mínútu sem að við brutum loksins ísinn og ætti aðdragandi marksins farinn að vera okkur nokkuð kunnulegur. Virgil fékk boltann í öftustu línu, leit upp og sá hlaupið frá Lallana – sendi þennan fína bolta yfir öftustu línu gestanna, Lallana tók boltann með öxlinni (þið vitið, líkamsparturinn sem má spila með enda verið að VAR dæma útfrá honum sem leikfærum líksparti hægri vinstri) en féll við. Það kom ekki að sök því Mané kom á ferðinni og kláraði örugglega í nærhornið áður en Anthony Taylor flautaði markið af og dæmi hendi á Lallana. Við tók 3 mínútna pása til að dæma um hið augljósa – fyrst var látið reyna á hendi, sem þurfti ekki einu sinni endursýningu á. Næst var rangstæða Mané skoðuð, sem var ekki einu sinni nálægt því að vera fyrir innan. Að lokum fóru þeir að skoða hvort að flautið hefði komið áður en Mané skaut á markið og hvort að það hafi verið hendi á Virgil í aðdraganda marksins. Ekkert af þessu gekk upp og því var Taylor “override-aður” og markið látið standa – réttilega. 1-0.

Þegar 47 mínútur voru komnar á klukkuna fengu gestirnir svo hornspyrnu. Mané hreinsaði langt fram völlinn en svo hófst ný sókn hjá gestunum sem lögðu allt kapp á að jafna fyrir hálfleik. Moutinho fékk boltann frá Neves, hljóp upp að endamörkum og sendi fyrir. Firmino náði að koma tánni í boltann en við það náði TAA ekki til knattarins, boltinn barst á fjarstöng þar sem að Neto skoraði með góðu skoti í nærhornið. VAR skoðaði markið í kjölfarið og dæmdi það af sökum rangstöðu. Moutinho var rangstæður í aðdraganda marksins, þegar hann fær boltann. Menn (stuðningsmenn annarra liða) geta því kvartað eins og þeir vilja en það breytir því ekki að hann var rangstæður. Alveg eins og Cody var með stóru tánna inní vítateig sínum á föstudagskvöldið þegar Sterling fékk að endurtaka vítið, Mark Firmino var dæmt af vegna þess að öxlin á honum var fyrir innan – já eða mark Mané gegn Watford fyrir tveimur vikum. Ég er ekki hrifinn af útfærslunni af VAR en að sjá viðbrögð manna yfir réttum dómum (þetta eru réttir dómar báðir tveir) er kjánalegt í besta falli.

1-0 í hálfleik, virkilega verðskuldað enda Liverpool talsvert betri aðilinn fyrstu 45 mínúturnar.

Síðari hálfleikur

Síðari hálfleikur var slakari af okkar hálfu. Þrátt fyrir að Wolves hafi fengið degi styttra í hvíld en okkar menn þá var greinilegt að þessi desember mánuður er farinn að taka sinn toll. Gestirnir komu ákveðnari til leiks og voru í raun betri aðilinn í síðari hálfleik eftir að við höfðum stýrt þeim fyrri.

Á 66 mínútu sáum við eitthvað sem sést sjaldan eða bara ekki. Virgil var allt allt of lengi með boltann, Neto stal boltanum af honum og Wolves komst í stórhættulega sókn en Alisson varði skot Jota í horn. Á þessum tímapunkti voru gestirnar að pressa okkur nokkuð stíft og við áttum í miklum erfiðleikum með að spila okkur út úr pressunni. Jimenez kom inná í kjölfarið og rétt áður hafði Adama Traore verið kynntur til leiks. Lallana vék þarna fyrir Keita, Lallana átti fínan leik – var mjög duglegur og var að skapa usla á milli línanna, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Á 82 mínútu fengu gestirnir fínt færi, Jimenez tók þá boltann niður inn í teig og gerði sig líklegan en Gomez kom þá á fleigiferð og bjargaði á ögurstundu, frábær tækling! Reyndar held ég að Jimenez hafi tekið við boltanum með hendinni en það reyndi ekki á VAR þarna, því betur fer.

Síðustu 10 mínúturnar voru virkilega erfiðar. Wolves sótti og sótti án þess að skapa sér mikið þó. Jú, Moutinho og Adama fengu báðir tækifæri til að skjóta fyrir utan teig. Moutinho skaut hátt yfir en skot Adama fór í varnarmann. Það var svo á 92 mínútu sem að tækifæri Wolves kom (og fór) þegar hár bolti yfir flata vörn Liverpool náði til Vinagre, TAA var að elta hann en féll við. Úr varð því fínasta færi en í stað þess að leggja boltann út í teig skaut Vinagre framhjá við mikinn fögnuð áhorfenda.

1-0 lokastaða, erfiður en virkilega sætur sigur. Þó það hafi legið talsvert á okkur þegar líða tók á síðari hálfleikinn þá áttu gestirnir ekki mörg færi, eitthvað af skotum fyrir utan teig og færið hjá Vinagre í restina. Annars hélt vörnin vel og víst að okkur tókst ekki að nýta færin í fyrrihálfleik þá var sterkt að halda hreinu og landa þremur mikilvægum stigum.

Bestu menn Liverpool

Það reyndi ekki mikið á Alisson en hann varði bæði skotin sem rötuðu á markið í dag. Robertson fannst mér vera heldur slakur, TAA var ögn skárri en Virgil átti ekkert sérstakan dag. Bæði var hann dregin frekar auðveldlega úr stöðu í fyrri hálfleik en einnig átti hann sjaldséð mistök þegar hann missti boltann sem aftasti maður en Alisson bjargaði honum fyrir horn.

Lallana fannst mér koma öflugur inn á miðjuna, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hann var að finna svæði til að athafna sig, var öflugur í pressunni (átti frábæra tæklingu á Adama í síðari hálfleik) og lagði auðvitað upp markið góða, hans fyrsta stoðsending (EPL) síðan í desember 2016! Gini og Henderson skiluðu svo mikilli vinnu, sérstaklega sá fyrrnefndi en þeir þurftu að sópa talsvert upp í dag.

Fremstu þrír áttu rólegan dag. Helst var það Mané sem var ógnandi og skoraði auðvitað markið mikilvæga – en maður leiksins að mínu mati er leikmaður sem ég hef farið langleiðina með að afskrifa í tvígang. Joe Gomez. Var frábær í dag, átti “úrslita” tæklingu á Jimenez í síðari hálfleik ásamt því að sína hve hraður hann er með því að hlaupa uppi Neto í þeim fyrri. Góður leikur í alla staði hjá honum, hann hefur virkilega gripið tækifærið eftir að Lovren meiddist.

Umræðan

  • LiVARpool. Miðað við hvernig viðbrögð manna eru á samfélagsmiðlum þá mætti halda að VAR væri eingöngu beitt í leikjum Liverpool og þá bara Liverpool til góða. Það er enginn að tala um hlutverk VAR í víti City á föstudaginn, marki Pukki gegn Spurs í gær eða þá mark Mané í síðasta heimaleik (Watford), nei. Umræðan (og fyrirsagnirnar) er á algjörum villigötum. Ég er sammála þeim sem segja að innleiðing og framkvæmd VAR á tímabilinu hafi verið stórkostlega gölluð. Ég er bara alls ekki hrifinn af því að mörk séu dæmd af í hverri viku þar sem að axlir leikmanna eru millimetrum fyrir innan fætur varnarmannana þegar skekkjumörk VAR eru nokkrir cm. Það eru samt öll lið að spila eftir sömu reglum og áhrif VAR á leikinn í dag eru þau að:
    • Mark sem var upphaflega ranglega dæmt af Liverpool var leiðrétt og réttilega dæmt löglegt.
    • Mark Wolves var réttilega dæmt af, einfaldlega af því að Moutinho var rangstæður þegar hann fékk boltann. Mér er alveg sama hvort það var 1 mm, 1 cm, 2 cm eða 10 cm. Hann var rangstæður og rangstæðan var jafnvel greinilegri heldur en með Pukki í gær, með Firmino gegn Aston Villa eða Mané gegn Watford. Afhverju að hafa reglur ef það á ekki að fara eftir þeim? Þær hljóta að gilda í báðar áttir, ekki bara þegar þær falla gegn Liverpool.
  • Vilji FA breyta reglunum aftur þá er það alveg gott og gilt, ég jafnvel fagna því! Þær breytast þá líka fyrir alla. Ekki láta þessa umræðu (sem n.b. er mikið mun háværari í kringum Liverpool en nokkuð annað lið) taka athyglina af því hve fáránlega gott fótboltalið Liverpool er orðið. Ég skil það ósköp vel að samfélagið sé óþolandi, enda er Liverpool:
    • búið að tapa einum fótboltaleik síðan snemma i maí 2018! (hefði n.b. alveg kosið að hafa VAR í þeim leik og Kompany fá rautt spjald).
    • búið að safna 98 stigum af 111 mögulegum á árinu 2019 (ásamt því að hirða eitt stk CL titil)
    • með 13 stiga forskot og leik til góða í ársbyrjun 2020.
  • Gomez. Síðan að Gomez kom inn í liðið þá eru Gomez og Virgil búnir að halda hreinu í sex leikjum í röð. Það var talsvert talað um vörn Liverpool í október og nóvember en eftir hans innkomu þá er liðið búið að skella í lás og er nú búið að fá á sig fæst mörkin í deildinni (14), fimm mörkum minna en næsta lið (Leicester & Sheffield United).
  • 50. Liverpool hefur ekki tapað í síðustu 50 deildarleikjum á Anfield. Liðið hefur sigrað 40 þeirra og gert 10 jafntefli. FIMMTÍU! Liðið er sem sagt taplaust á heimavelli það sem af er móts 2019/20, liðið var taplaust á heimavelli allt timabilið 2018/19 og liðið var taplaust á heimavelli allt tímabilið 2017/18. Síðasta tap kom 23 apríl 2017 (1-2 gegn Crystal Palace).
  • Liverpool. 19 leikir, 18 sigrar, 1 jafnteflu, 0 töp. 55 stig af 57 mögulegum. Það verður ekki mikið betra!

Staðreynd dagsins

Þann 29 desember 2010 tapaði Liverpool 0-1 fyrir Wolves á Anfield. Voru þá í 12 sæti, 3 stigum frá fallsæti. Nákvæmlega 9 árum síðar, 29 desember 2019, sigrar Liverpool Wolves 1-0 á Anfield. Eru þá í 1 sæti, 13 stigum frá 2 sæti.

Það er rússíbanaferð að halda með þessu liði eins og við höfum fengið að kynnast á þessum áratug og af nákvæmlega þeirri ástæðu þá fagna ég engu fyrr en sú feita syngur í vor!

Næsta verkefni

Næsta vika er stór, eins og reyndar allar vikur eru þessi misserin. Við hefjum árið með deildarleik gegn spútnik liðii Sheffield United á Anfield 2. janúar  áður en við tökum á móti Everton á Anfield í FA bikarnum þremur dögum síðar, ekki ólíklegt að Minamino fáu e.t.v. einhverjar mínútur í þeim leik.

YNWA

55 Comments

  1. Sælir félagar

    Enn einn sigurleikur okkar manna í höfn. Þrjú stig í sarpinn og nú er bilið í M. City 16 stig og leik til góða. Það verður erfitt að brúa það nema við lendum í enn meiri meiðslum en orðið er. Leichester er 13 stigum á eftir okkur og líkur á að þeir tapi fleiri stigum en M.City það sem eftir er. Ef við vinnum leikin sem við eigum inni og leikinn á 2. í nýári þá eru stigin 19 á MC og 16 á LCFC. Það væri góð staða og þá mundi maður segja að líkur á stóra bikarnum í vor væru orðnar anzi miklar.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  2. Eins og var vitað, þá er Wolves bara þræl gott lið sýndu það vel í dag. Það eina var bara, við vorum betri. Samt var þetta ekkert okkar besti leikur, en eins og með margar hefðir, þá var sigurhefðin sterk hjá okkur. Hreint út sagt frábært.

    YNWA

    7
  3. Þetta var fínn leikur.

    Ég er mjög ánægður með Lallana í leiknum og fyrir mér var hann besti maður vallarins. AÐ hafa svona gæði fyrir utan okkar allra besta byrjunarlið eru þvílík forréttindi, þvi sama hvað segir þá er Lallana toppleikmaður þegar hann er í sínu besta formi og hann virðist vera það um þessar mundir.

    Og svo ég svari einu snillingingnum. sem sagði þetta fyrir leik.

    “Okkar besta lið i dag nema Lallana og ég verð bara að segja að ég skil ekki hvað klopp sér við þann annars ágæta dreng. Ég vill losna við hann og hef lengi viljað það en það er bara ég og mín skoðun.”

    Lifr þú á að éta sokka ?

    Að stilla leikmanni eins og Lallana upp í byrjunarliði er það sem gerir Jurgen Klopp að besta framkvæmdarstjóra í heimi og þig í besta falli “heimsklassa” eftir á skýranda.

    27
    • Það eru alltaf einhverjir sem þurfa að finna eitthvað neikvætt. Þannig hefur það alltaf verið og verður örugglega áfram. Málið er bara að Klopp er hafinn yfir gagnrýni. Þannig er það bara.

      2
  4. Algjörlega magnaður sigur hjá okkur á móti mjög góðu liði. Eitt besta lið sem ég hef séð á Anfield lengi lengi.

    Við erum bara vel smurð vél sem gefur aldrei neitt eftir. Þessi vél er hönnuð af þjóðverja og uppistaðan er þýskt hágæðastál.

    Erum með 55 stig og eigum leik inni. Scums og arsenikk eru líka með 55 stig, til samans 😀

    13
  5. Lallana átti stórfínan leik, einn sinn besta lengi. Gomez var betri en van Dijk í dag og sprettaði eins og Speedy Gonzalez. Mané sömuleiðis, skoraði auðvitað og tvöfaldaði líka mjög vel með Robbo í vörninni til að halda aftur af Traore í seinni hálfleik.

    En nú er þreytan farin að sjást á liðinu. Robertson tók nánast aldrei sína vörumerkis-spretti, TAA var óhittinn og Gini eins og tuska þegar hann loksins var tekinn út af. Keïta stóð sig vel þann stutta tíma sem hann fékk en það verður að segjast eins og er að Salah er eitthvað off. Sennilega bara þreyttur eins og Firmino – og svo sem nánast allir í hópnum.

    En… VIÐ UNNUM!
    Allez Allez Allez!

    7
    • Sammála með þreytuna og vonandi munum við senda unglingaliðið í FA-bikarinn á móti everton. Fín lausn til að hvíla liðið okkar og góð reynsla, sem mun hjálpa þeim að þroskast.

      Það þarf að ,,gefa skít” í þessar bilarkeppnir því þær eru orðnar svo marklausar og trúlega eru þær runnar á dagsetningu í þessu nútíma umhverfi sem fótboltinn er kominn í.

      3
      • Algjörlega ósammála þér Svavar. FA bikarinn er mikilvæg keppni og á að senda nógu sterkt lið til að vinna Everton. Ef á að gefa skít í bikarkeppnirnar á Englandi er alveg eins gott að leggja þær niður og leggjast kylliflatur fyrir bévítans peningaöflunum sem eru að fara langleiðina með að eyðileggja allt.

        3
      • Ég er til í að leggja niður deilarbikarinn nema við notum hana eins og við gerðum núna síðast á móti AV.

        Peningaöflin? Án peninga er ekkert hægt að gera. LFC hefur setið allt of lengi aðgerðarlausir á meðan lið eins og arsenal og manhú hafa byggt upp klúbbana sína og náð árangri. Núna er loksins komið að okkur að fara af stað. Það er nefnilega algjörlega fáránlegt hversu stór stuðningurinn er á heimsvísu hjá LFC, sérstaklega ef miðað er við hversu lengi við stóðum í stað, og núna verður keyrt á fulla ferð og tekið fram úr öllum.

        Aldrei myndi ég sætta mig við það að t.d. missa lykilmenn í meiðsli út af einhverjum bikarleik á móti scunthorpe í 32-liða á meðan CL-leikir væru handan hornsins og toppsætið í húfi í EPL. Umhverfið hefur bara breyst í þessum fótbolta, rómantíkin í kringum bikarkeppnirnar tilheyra meira fortíðinni. LFC er komið á fleygiferð með gríðarlegri uppbyggingu og árangri og þá er mikilvægt að forgangsraða.

        Sjáið t.d. bara að í janúar þurfa lið eins og mc, leiceister og mhjú að keppa tvo undanúrslitaleiki í deildarbikarnum, ofan í allt hitt álagið. Þetta er bara galið 🙂

        Ég myndi alltaf velja CL og EPL fram yfir þessar úreltu bikarkeppnir á Englandi en það er vissulega fínt að nota þessar keppnir til að koma yngri leikmönnum á framfæri.

        6
      • Þá erum við sammála um að vera ósammála um mikilvægi FA bikarsins. En við getum þó verið sammála um að álagið er allt of mikið og þetta bull með tvo undanúrslitaleiki er bara djók svo ekki sé meira sagt. Minn draumur væri sá að fækka leikjum í CL, hafa deildarbikarinn á undirbúningstímabilinu eða þegar liðin eru hvort sem er að leika æfingaleiki og HM væri í mesta lagi annað hvert ár, jafnvel fjórða hvert ár. Þá væri meiri möguleiki á alslemmutækifærum sem eru nánast ómöguleg núna.

        3
      • Hversvegna ekki að leggja þá bara deildarbikarinn niður? Þetta er keppni sem er ekki til í flestum öðrum löndum og er fullkomlega handónýt á Englandi. Man City fékk Burton í fyrra í undanúrslitum enda flest lið að hvíla sína mikilvægustu leikmenn, einvígið fór 10-0 samanlagt.

        1
  6. Að vinna er það eina sem skiptir máli í þessu fáránlegu jólatarnarleikjum þar sem spilað er nánast daglega. Bæði lið greinilega verulega lúin í dag og töluvert af mistökum og dómarinn líklega alveg uppgefin enda hitti hann varla á rétta ákvörðun í leiknum. Meira að segja Van Dijk gerði fáránleg varnarmistök í leiknum!

    Það er engin sem langar meira í þennan titil en Sadio Mané, hungrið í honum er svakalegt markið í dag enn eitt dæmið.

    Flott að komast frá þessu án þess að missa menn í meiðsli (að því er við best vitum). Bara ein breyting frá síðasta leik þannig að líklega þarf eitthvað að breyta gegn Sheffield og töluvert gegn Everton.

    Þetta Wolves lið er þrusuöflugt og klárlega vel þjálfað. Traore, Neves og Jota eru allir 22-23 ára gamlir, hörku verðmæti sem þeir eiga þar.

    12
  7. Gleymdi Henderson!

    Hvernig gat ég gleymt Henderson?

    „Dances with cups”!

    8
  8. Sæl og blessuð.

    1. Traore er hinn nýi Mané (er hann ekki annars yngri?). Vil hann ekki seinna en næsta haust. Má borga fyrir hann haug af seðlum. Bara fear-factorinn í þessu monsteri fer langt með að vinna leiki, svo er hann flinkur og útsjónarsamur. Með verri varnarmenn fyrir framan sig hefði hann smellt lokaskotinu í netið hjá okkur. Sá að Klopp gaf honum extraknús eftir leikinn, sem veit á gott!

    2. Lallana átti einn besta leik lífs síns í dag. Man ekki eftir öðru eins frá honum og skil ekkert í Klopp að taka hann út af (einn af fáum sem spilaði ekki síðasta leik). Hélt hann tæki Salah út af (sjá #3)

    3. Salah verðskuldar allt það besta sem við aðdáendur liðsins höfum upp á að bjóða – þolinmæði, umburðarlyndi og þakkir. En … ég meina … úff … og það voru engir þrír varnarmenn settir á hann í dag. Hann var bara endalaust að missa boltann frá sér, stöðvaði sóknir og ég veit ekki hvað og hvað. Var kannske skiljanlegt þegar Úlfar voru með boltann 25% af leiknum og pökkuðu í vörn – þá var þröng á þingi. En svo þegar þeir sóttu í sig veðrið og maður beið eftir skyndisóknum þá varð ekkert úr neinu. Hefði tekið hann út á 65. mínútu. Mikil þreyta í liðinu og þörf á að fá inn spræka fætur gegn hinum ógnvekjandi United-mönnum sem eru næstir.

    4. Minnugur dómaraskitunnar í Leicesterleiknum í fyrra þegar þeir dæmdu ekki á þá, augljóst víti, þá er maður nokkuð þolinmóður gagnvart VAR. Bæði skiptin voru rétt dæmd en þetta er amk ekki til að auka tempóið í leikjum. Þetta er komið til að vera en þolir alveg smá endurbætur og það má vel skýra betur reglur varðandi flæði leikja og rangstöðu.

    5. Erum við ekki bara annars góð? Fín staða í deildinni og City eru ansi langt að baki okkur. Voru 7 stig í fyrra en núna erum við að tala um næstum 100% meiri mun á þessum liðum. En þetta er ekki búið, fullt af leikjum eftir og eitt tap á næstunni, gefur City byr undir báða vængi og aukna von. Það verður amk. að þrauka lengur áfram á þessu sigrrönni!

    7
    • Þú vilt Adama í Liverpool… ég er ekki alveg viss… er a.m.k. mjög sáttur við að hann sé Úlfur á þessu tímabili… er búinn að taka 6 stig af stolti Manchester borgar í vetur.

      6
  9. Já, rétt skal vera rétt..

    ,,Voru 7 stig í fyrra en núna erum við að tala um næstum 100% meiri mun á þessum liðum.” uuu… það eru víst 14 stig í ár og við eigum leik til góða! Ég biðst velvirðingar á þessu varfærnislega orðalagi 😀

    2
    • 7 stig mest í fyrra yfir áramótin einmitt en næsti leikur sex stiga leikur gegn Man City sem tapaðist. Ótrúlegt að fjögur jafntefli eftir það hafi kostað okkur titilinn. Bara fáránlegt.

      4
      • 7 stig um áramótin í fyrra en titillinn tapaðist á innbyrðis viðureignunum við MC. Við liðið sem þú ert að keppa við máttu ekki lenda undir eins og Liverpool gerði sl tímabil með aðeins 1 stig gegn 4 stigum MC. Finnst það ekki rétt þegar menn kenna einhverjum jafnteflum við önnur lið um að hafa tapað titlinum. Í vetur getum við ekki lent undir gegn MC, í versta falli verða það 3 stig á haus.

        4
  10. stutt og laggott, frábær sigur, lélegur leikur, Henderson, Virgil og Gomez flottir , Robertson lélegasti maður á vellinum. þessi drengur talar og tala en segir ekki neitt, literally speeking

    3
    • Ertu búinn að ákveða hvern þú ætlar að taka fyrir eftir næsta leik ef ske kynni að Roberton og Henderson slysist til að eiga góðan leik?

      Annars fannst mér Robertson góður varnarlega, þó svo hlaupin upp vænginn hafi ekki verið eins mörg og oft áður, en það er desember og leikjaálagið farið að segja til sín. Engu að síður þakkar maður fyrir að besti vinstri bakvöðrur í heiminum í dag er í okkar liði.

      15
    • Skrítin vani að þurfa alltaf að velja lélegasta mann leiksins. Meira að segja VVD átti ekki sinn leik. Þreytan er farin að segja til. Ég er dauðþreyttur á að horfa á alla þessa leiki og með blóðþrýstinginn í botni. Svo mikil er keyrslan í EPL.

      9
      • Algerlega sammála Svavar. Þegar þreytan er orðin mikil eiga alltaf einhverjir lélegan leik. Við því er lítið að gera. Robertson er frábær leikmaður og á alveg inni að honum sé fyrirgefið að vera ekki í toppformi í þessum leik hafandi spilað nánast hvern einasta leik á leiktíðinni

        Það er nú þannig

        YNWA

        7
    • Siguróli ekki veit hvað þér gengur til varðandi Robertson. Svona talar enginn sannur stuðningsmaður félagsins svo líklega ert þú einhverskonar nettröll eða stuðningsmaður annars liðs. Robertson er almennt búinn að vera frábær þó vissulega hafi hann verið upp og niður enda í miklu hlaupahlutverki og hefur ekki fengið mikla hvíld. Veit ekki betur en hjá einhverjum miðlum sé hann í liði ársins hingað til. Hann er ekki slakari en það. Ef þú ert stuðningsmaður félagsins andaðu þá rólega og líttu á björtu hliðarnar sem eru svo sannarlega margar hjá okkar góða liði. Góðar stundir.

      16
  11. Aðeins varðandi VAR þá voru þau Eiður og Margrét Lára með sitthvora hugmyndina.
    Margréta Lára vildi ekki hafa VAR í rangstöðu og Eiður Smári vildi að það væru skórnir sem myndu ráða því hvort það væri rangstæða eða ekki, en ekki reynt að búa til einhverja línu upp í handarkrikann.
    Ég er meira sammála Eið með hans hugmynd.
    Til hvers að reyna að búa til línu upp í hamdakrikann þegar skórinn sést alltaf best.

    9
    • Ég er algerlega á því að fætur eigi að ráða ekki hendur haus eða jafnvel efrihluti líkamans eins og hann leggur sig bara fætur ekkert annað það er auðvelt að sjá fætur strax og VAR hægir ekki niður leikinn. Það eru öll lið búinn að lenda í svona vafarugli og kemur þetta jafn vel fyrir þau öll ef af þessu yrði er ekki Eiður svörtum vel tengdur að hann kemur þessu áfram fyrir næsta tímabil ?.

      YNWA

      2
    • Auðvitað eiga fætur að ráða!

      Ef Ian Rush væri uppi í boltanum núna þá væri hann alltaf rangstæður enda með óvenju gott (og stórt) nef fyrir mörkum.

      3
  12. Hvað ætli Traore kosti hjá Wolves? Spurning hvort þeir svari nokkuð lengur í símann. Klopp sagði í viðtali að hann væri nánast unplayable, gekk frá City og fleiri liðum.
    Chelsea, United, City, Tottenham og sennilega við líka eru að reyna kaupa hann. 100 milljónir?

    1
  13. Trent: Þokkalegur, þó samherjar hans hefi ekki náð að gera sér mat úr nokkrum fínum sendingum.

    Gomez: Maður leiksins að mínu mati. Gomez hefur byrjað 7 leiki af síðustu 8. Af þeim hefur liðiðfengið á sig 1 mark og haldið 6 sinnum hreinu. Ef menn eru geim í smá skemmtun þá mæli ég með að hlusta á podkastið HM í Katar frá 35:20 mínútu og hlusta á rant Magnúsar Þórs þar sem hann afskrifar Gomez og kallar eftir að keyptur verði nýr miðvörður.

    Van Dijk: Var heilt yfir góður þó hann hafi gert sjaldséð mistök. Leikjaálagið augljóslega farið að segja til sín.

    Robertson. Virkaði þreyttur og áætlunarferðir hans upp vænginn voru færri en venjulega og krossarnir slappir. Hins vegar barðist hann eins og hetja og hélt sóknarmönnum Wolves niðri.

    Gini: Ekki sá stöðugasti í bransanum og virtist sprunginn þegar honum var skipt út af. En heilt yfir skilaði hann sínu og uppskar hrós Klopps fyrir dugnað.

    Henderson: Góður heilt yfir, þó ekki jafn frábær og gegn Leicester. Hefur stigið upp í fjarveru Fabinho.

    Lallana: Betri en ég þorði að vona, lagði upp mark og linkaði vel við sóknarmennina allan tímann sem hann var inná. Reyndar pirraðist ég rosalega þegar hann gerðist sekur um Lucas Leiva brot rétt fyrir utan teig seint í fyrri hálfleik. Að gefa Neves svona skotfæri var sérlega óskynsamlegt af leikreyndum 31 árs gömlum leikmanni.

    Salah: Ekki á sínum degi, en hann heldur áfram að koma sér í færi og á meðan það gerist eru mörkin aldrei langt undan.

    Firmino: Þreyttur en duglegur.

    Mane: Langbestur af sóknarmönnunum og ólíkt hinum virkaði hann ekki þreyttur. Varnarvinna hans skal heldur ekki vanmetin. En og aftur tryggir hann okkur 3 stig.

    7
  14. Sælir félagar

    Takk fyrir frábæra skýrslu og umræðu Eyþór. Allt sem þú segir er bæði satt og rétt. Þó má bæta því við að þó vikmörk í VAR-inu séu einhver, t. d. 10 cm þá eru 11 cm rangstaða, þó vikmörkin séu 1 fet þá eru 1 fet og 1cm rangstaða. Það er ekki þessi mæling í reynd sem er vandamálið heldur hin tímafreka framkvæmd sem drepur stemmninguna. Framkvæmdina þarf að bæta með einhverjum hætti en hvernig veit ég ekki.

    Hvað það varðar að allir djöflist á okkur þá er það ekkert nýtt. Samfélagið hefur alltaf orðið fyrir árásum annarra stuðningsmanna og er öfundin undirrótin. Liverpool stuðningsmenn hafa alltaf verið öfundaðir af öðrum stuðningsmönnum fyrir; liðið sitt, samheldni, og hvað allt er frábært í kringum liðið (fyrir utan G og H tímann) Öfundin byggðist upp þegar Liverpool var lang sigursælasta lið enskrar knattspyrnu og henni hefir aldrei linnt síðan.

    Nú þegar horfur eru á að nýir sigurtímar séu að koma hjá liðinu er eiginlega allt brjálað af öfund, ótta (MU menn), ergelsi, jafnvel reiði. Þar fara fremstir í flokki frekar orðljótir MU menn sem óttast að Liverpool fari framúr þeim í sigursæld og svo ýmsir aðrir sem eiga sér lið sem valda endalausum vonbrigðum. Við þessu er lítið að gera nema njóta þess sem liðið okkar hefur upp á að bjóða og hlægja að hinum öfundsjúku.

    Það er nú þannig

    YNWA

    18
    • Takk fyrir að koma bara með stafina af þessum ógeðum sem þú nefndir þarna áður sem má ekki minnast á..það voru klárlega mín verstu ár að horfa á þessi dusilmenni draga klúbbinn niður í svaðið þar var botninum náð bókstaflega.
      Mikið er nú gott að sjá tímana tvenna í þeim efnum.

      Er sammála þér það er ótrúlegt að fylgjast með umræðuni í sambandi við Liverpool. Á síðasta tímabili var það hvernig VAR myndi slátra Liverpool útaf það var svo margt sem við vorum að fá gefins frá dómurum og þvílíka og núna afþví það virkar ekki þá breyttist það í að VAR sé komið til að hjálpa okkur.
      Öfundin er botnlaus tunna það þýðir ekkert að horfa ofaní hana enda er ekkert þar að sjá.

      Það sem þessir sauðir fatta ekki er að Liverpool er með frábæra eigendur og besta þjálfara heims og er orðið að besta liði heims VAR eða ekki VAR skiptir okkur engu máli við höldum áfram að vera bestir.

      Það má svo deila um það hvort að VAR sé að skemma steminguna með þessum millimetra dómum en það er önnur saga.

      8
    • Erum farnir fram úr þeim í sigursæld og vonandi verður aldrei snúið til baka!

      1
  15. Mesta tilhlökkunin núna er að sjá Minamino spila vonandi sem allra fyrst bara í næsta leik helst.

    6
    • ok semsagt leikmenn sem koma 1-2 janúar eru ekki eligble fyrir gameweek 21 samkvæmt EPL þannig í raun væri næsti leikur sem við gætum séð hann nk sunnudag gegn Everton þá ef þetta er rétt.

      6
  16. Gerum okkur eitt ljóst, það er jafn erfitt að vera stuðningsmaður besta liðs í heimi, sem situr á toppnum með 13 stiga forystu og leik inni, eins og að vera að strögglast upp úr miðri deild með misvitra stjóra. Þegar ég segji jafn erfitt, þá á ég við þá sem eru alltaf tilbúnir að gagnrýna ráðandi stjórann, Klopp í þessu tilviki. Til hvers að hafa þennann eða hinn í byrjunarliðinu, ég veit miklu betur sitjandi heima í sófa. Nú er ég ekki að segja það að gagnrýni í orðsins fyllsta eigi ekki að vera til staðar, en getur eiginlega ekki komið til fyrr en að leik loknum. Samt vil ég segja að Liverpool á bestu stuðningsmenn í veröldini, og þeim fer fjölgandi, þannig verum nýjum stuðningsmönnum fyrirmynd. Við styðjum að margra áliti(mitt álit) best rekna félag af þeim stóru í heiminum. En til þess að svo sé, þá þarf algjört kunnáttufólk, hvert á sínu sviði, það höfum við. Brosum út í bæði félagar.

    Óska öllum Liverpoolurum nær og fjær Gleðilegs Nýs Árs.

    YNWA

    18
  17. Ég steingleymdi því á þakka aðstandendum þessarar síðu, þeirra stórmerkilega framlagi í þágu okkar og
    vonandi þeirra sjálfra, því ef ekki væri vegna áhuga þeirra, þá gengur þetta ekki, algörir drifkraftar.

    Gleðilegt Nýtt Ár.

    YNWA

    32
  18. Sússi, hvað þið eruð meðvirkir, krakkinn grenjar og grenjar af því að hann er þreyttur ! kemur málinu ekkert við, Robertson er ekki góður fótboltamaður hvort sem hann er óþreyttur eða ekki.
    er að hæla og mun hæla Henderson eins og hann er að spila í dag. og já ég er Liverpool maður og sé að Robbo vantar gæði í fótbolta, en án bolta er hann góður, horfiðið aftur, hægt á þennan leik og sjáið gæðaleysið í vinstri bakverðinum okkar ?

    1
    • @Siguróli Kristjánsson Vandaðu orðfærið, vertu málefnalegri og virtu reglur kommentakerfis Kop.is

      YNWA

      16
    • Hann tapar ekki tæklingu. Smyr fyrirgjafir eins og Bjornebye á Red Bull og virkar mikill húmoristi og leiðtogi. Ég spyr bara hefuru séð vinstri bakverði okkar hingað til?

      13
    • haha fyrst hélt ég að þú værir að grínast og ég hló svo sá ég að þér var alvara þá varð þetta bara sorglegt.
      Já einmitt besti vinstri bakvörður í EPL síðustu tímabil er bara ekki góður í fótbolta hey ef þú segir það þá hlýtur það að vera rétt.

      Hef ég séð Robertson betri en í síðasta leik ? já klárlega hann var með þreytumerki eins og flestir í liðinu það var engin að brillera á móti Wolves og VVD með sjaldséð mistök líka en að reyna telja okkur trú um að Robertson sé ekki góður í fótbolta er ekki viðræðuhæft.

      Það er engin meðvirkni með Robertson við vitum vel hvað hann er búinn að gera fyrir liðið okkar og það þarf fleiri en nokkra verri leiki til að breyta því.

      9
  19. Andrew Roberson:

    107 leikir, 3 mörk, 23 stoðsendingar fyrir LFC
    Win ratio: 73.83% W:79 D:15 L:13
    Valinn í lið ársins 2019 bæði í PL og CL
    23. sæti á nýja Guardian listanum yfir bestu leikmenn í heiminum.
    Næsti maður í hans stöðu er Jordi Alba í 65. sæti.

    24
    • Andy er án efa einn sá besti í sinni stöðu og jafnvel í sinni óstöðu. Á fáa sína líka og vinnur með liðinu leik eftir leik.

      Klopp ER besti stjóri heimsins í augnablikinu og njótum þess til fulls og afsökum okkur hvergi er við kennum okkur við besta félagslið í heimi.

      Góðar stundir og gott nýtt ár.

      11
    • Takk fyrir þetta afleggjari. Mark eða stoðsending í fjórða hverjum leik. Geri aðrir vinstri bakverðir betur. Hann er einfaldlega frábær og gefur liðinu, ásamt TAA, nýja vídd í sóknarleik liðsins. Fer að jafnast á við Alan Kennedy.

      5
  20. Mitt mark ársins(held það hafi verið skorað snemma á þessu ári), er mark Sane, sem mér finnst magnað allra hluta vegna, mest þó vegna hugsunar á míkró sekúndu. Bolltinn á leið frá marki, Sane einnig, hvað gerir snillingurinn? nú tekur hælspyrnu og skorar, eðli málsins vegna snýr baki í markið. Mér finnst allt of lítið rætt um þetta mark, sérstaklega þegar kemur að mörkum ársins. Það er eins og að smellhitta bolltann af 25-30 metra færi með aðdraganda sé merkilegra, nei mark með hugsun á ofurhraða er mitt mark. Hvað með ykkur kæru félagar, hvert er ykkar mark ársins?

    YNWA

    3
      • Ok Hjalti, en hvenar var það, Mane hefur skorað svo mörg mörk. það sem ég bendi á er hugsun á broti úr sekúndu sem aðeins snillingar hafa, bara að láta sér detta í hug að reyna marktilraun, sem tekst er bara svo frábært.

        YNWA

        1
  21. Gleðilegt nýtt eldrautt ár þetta verðru eitthvað ! Fer á Arsenal vs Liverpool í maí 2020 og ekki væri leiðinlegt ef okkar ástkæra félag væri að tryggja sér titilinn með sigri í þeim leik! Takk fyrir liðið ár YNWA.

    1

Liðið gegn Wolves

Áramótaupphitun: Sheffield United á Anfield