Sumarglugginn – Hvað getur Liverpool gert?

Stuðningsmenn Liverpool hafa líklega aldrei í sögunni haft eins litlar áhyggjur af leikmannamarkaðnum og undanfarna 12-18 mánuði, Óli Haukur var farinn að sofa fyrir tíu á kvöldin síðustu daga janúarmánaðar og setti ekki einu sinni upp gula Jim White bindið sitt.

Það er lítil þörf að styrkja lið sem vinnur alla leiki enda var það tekið ansi bókstaflega í sumar og bara sleppt þeim glugga alveg. Hópurinn er á eins fullkomnum aldri og mögulegt er og nánast allir lykilmenn liðsins eru á góðum langtímasamningum.

Helsta áhygguefni Michael Edwards og félaga í samráði við Klopp er að passa uppá að þessi hópur verði ekki of gamall saman og fái ekki nægjanlega mikið aðhald þegar á þarf að halda. Klopp vill að liðin sín séu hungruð og líklega hefur ekkert lið verið hungraðara en núverandi lið Liverpool.

Fyrsta hugsun Liverpool þegar kemur að leikmannakaupum er að meta hvað er til fyrir í yngri liðunum. Það væri algjörlega í takti við þá þróun sem hefur átt sér stað á þessu tímabili að nokkrir úr U23 ára liðinu komi inn í aðalliðshópinn frekar en að keypt verið í þær stöður.

Stefna FSG frá upphafi hefur verið að búa til leikmenn mun frekar en að kaupa þá. Bæði er það miklu skynsamlegra rekstrarlega en þeir eru ekki síður að horfa á gæði leikmannanna. Liverpool hefur loksins tekist að láta félagið í heild spila eftir nákvæmlega sömu formúlu og innleiða leikstíl sem allir leikmenn félagsins verða að tileinka sér. Jurgen Klopp er hefur jafnvel ennþá meiri trú á þessu módeli en eigendur félagsins og það er ekki til stjóri í heimsfótboltanum með betra CV hvað þetta varðar en Klopp frá bæði Mainz og Dortmund.

Margir af þeim leikmönnum sem urðu heimsfrægir undir stjórn Klopp hjá Dortmund spiluðu sín langbestu ár undir hans stjórn og pössuðu fullkomlega inn í leikstíl sem allt liðið þekkti í þaula. Hann hefur talað um hversu miklu betra það var í sumum tilvikum að fá inn ungan leikmann sem hefur í nokkur ár spilað sama leikstíl og Klopp frekar en að fá nýjan leikmann sem kannski er stærra nafn og betri á pappír en ekkert endilega sem leikmaður hjá Klopp.

Þetta er eðilega miklu erfiðara að innleiða hjá Liverpool enda liðið það besta í heimsfótboltanum í dag en útilokum það alls ekki að arftakar bestu leikmanna liðsins í dag séu nú þegar leikmenn félagsins.

Alexander-Arnold er ágætt dæmi þó ekki sé hægt að ætlast til þess að allir sem nái í gegn úr akademíunni verði jafn góðir og hann. Hann hafði spilað undir stjórn Ljinders í svolítin tíma og vissi hvað hann vildi en næsta kynslóð ætti að vera enn betur skóluð eftir 4-5 ár af Klopp og hans áhrifum á leikstíl félagsins í heild.

Hvort er líklegra sem dæmi, Phillips/Van Der Berg eða Steven Caulker á láni í 6 mánuði? Neco Williams/Ki-Jana Hoever eða haugryðgaður Nate Clyne? Curtis Jones eða leikmaður í Joe Allen klassa?

Hækka standardinn

Það er klárlega stéttarskipting á leikmannamarkaðnum og það er ekki langt síðan Liverpool var á Evrópudeildarfarrými og varla það. Undir stjórn Klopp hefur Liverpool farið eins og Jack Dawson upp á fyrsta farrými sem er tileinkað leikmönnum í Meistaradeildarklassa.

Eftir úrslitaleikinn í Kiev var verslað Alisson, Fabinho, Shaqiri og Keita kom loksins, leikmannakaup í takti við það að liðið spilaði til úrslita í Meistaradeildinni en ekkert mikið meira en það og auðvitað í kjölfar sölunnar á Coutinho. Van Dijk sex mánuðum áður var töluvert statment en ekki meira en svo að hann kom frá Southampton og mikið grín var gert af verðmiðanum. Enginn af Mané, Salah eða Firmino komu sem þær stórstjörnur sem þeir eru í dag.

Síðan þá er Liverpool búið að spila eitt 97 stiga tímabil þar sem félagið spilaði skemmtilegasta fótboltann í Evrópu. Til að toppa það fór liðið aftur í úrslit Meistaradeildarinnar með 4-0 endurkomu gegn Barca og sigri í Madríd. Núna er liðið með 100 stig af síðstu 102 mögulegum eða eitthvað álíka og búið að tapa tveimur stigum í deildinni. Þessi árangur og sú samkeppni sem er fyrir innan liðsins hækkar standarinn á leikmannamarkaðnum myndi maður ætla. Liverpool stendur núna alveg jafnfætis stærstu liðunum og þeir allra bestu horfa alveg eins til Liverpool og hinna elítu liðanna. Hvort viltu t.d. spila í 3-4 ár undir stjórn Klopp eða guð má vita hverjum sem er að þjálfa Barcelona í dag? Liverpool stendur að lágmarki jafnfætis. PSG, Bayern og Juventus spila svo í þannig deild að engin vitiborin maður velur þessi lið framyfir t.d. Liverpool í dag nema peningarnir öskri á þá, sem gerist alveg.

Maður myndi vilja sjá Liverpool fara haga sér aðeins meira eins og allra bestu liðin hafa gert á markaðnum. Kaupa frá beinum samkeppnisaðilum fyrir neðan og/eða berjast um allra mest spennandi bitana.

Á móti komst Liverpool á toppinn með því að vera skynsamara og gáfaðari en andstæðingurinn og er ekki líklegt til að haga sér eins og olíufélag. #Mbappe2020 er blautur draumur sem verður líklega aldrei að veruleika undir stjórn FSG. Minamino á 7m gæti ekki verið dæmigerðari leikmannakaup hjá Liverpool núna þegar liðið hefur bókstaflega aldrei verið í betri stöðu. Það sem meira er maður hefur meiri trú á honum en næsta sóknarmanni sem Manchester United kaupir á 90m.

Minamino er líka gott dæmi til stuðnings akademíunni. Hann er auðvitað alls ekki alinn upp hjá Liverpool en er búinn að vera í fimm ára Kloppfótboltanámi hjá Salzburg. Forritinu sem Edwards notar við að finna leikmenn gæti ekki verið mikið meira sama um nafnið þegar kemur að leikmannakaupum ef hann hentar leikstíl Klopp er það aðalatriðið.

Er hægt að segja það sama um t.d. PSG, Barcelona og hvað þá Real Madríd? Rekstrarmódelið gerir ráð fyrir a.m.k. einni nýrri söluvöru á hverju tímabili. Það er jafnvel mikilvægara en að hann henti þjálfaranum enda verður líklega búið að reka þjálfarann fljótlega hvort eð er.

Hvar og hvenær þarf Liverpool að fara huga að breytingum?

Líklega er stærð hópsins nokkurnvegin eins og Klopp vill hafa hana og því ólíklegt að nýr leikmaður komi inn án þess að annar detti út (þó það gerist ekki endilega á sama tíma). Draumurinn er að skipta núverandi hópi mjög hægt og rólega út án þess að maður verði mikið var við það á næstu 3-8 árum.

Markmaður – Alisson er 27 ára og ég vona að Liverpool þurfi ekki að hugsa um nýjan markmann næstu 8 árin. Höfum samt í huga að Pepe Reina missti sæti sitt í Liverpool liðinu í kringum þrítugt til Simon Mignolet, eitthvað sem maður sá alls ekki fyrir þegar Reina var 27 ára árið 2009. Reyndar held ég að Pepe Reina í núverandi formi sé betri en Mignolet var hjá Liverpool þó hann mætti bara nota vinstri hendi en það er annað mál.

Hægri bakvörður – Er Neco Williams að þróast í að verða nógu góður sem back up fyrir Alexander-Arnold næstu tímabil? Það gæti sparað bæði leikmannakaup og hausverkinn sem það er að ala upp nýjan leikmann, sérstaklega leikmann sem fær lítið sem ekkert að spila. Nate Clyne fer næsta sumar sem losar helling á launaskrá og pláss í hópnum. Ki-Jana Hoever er einnig það mikið talent að líklega verður hann að fá mínútur einhversstaðar og það gæti alveg orðið sem back up í hægri bakverði. Það er rosalega stutt síðan maður fór stressaður inn í tímabil með Alexander-Arnold og Joe Gomez sem einu kosti í hægri bakverði því Clyne var meiddur. Hvað ef Liverpool hefði panic keypt t.d. Cedric Soarez eða Calum Chambers sem back up fyrir Clyne frekar? *hrollur*

Eru fleiri svona víti til varnaðar í núverandi U23 ára liðið? Pottþétt.

Vinstri bakvörður – Laruci og Lewis eru svolítið búnir að missa af partýinu á þessu tímabili enda allaf meiddir. Fyrir mót voru þeir miklu líklegri en Neco Williams sem sýnir hversu fljótt þetta er að breytast. Það er mjög ólíklegt að Liverpool kaupi dýran leikmann í þessa stöðu á næstu árum enda Robertson aðeins 25 ára.

Miðverðir – Van Dijk er 28 ára og Gomez er 22 ára – Vonandi er þetta miðvarðapar Liverpool næstu 5-6 árin og guð hjálpi þeim sem ætlar að spila þá út úr liðinu. Matip er 28 ára og Lovren er 30 ára. Það er engin þörf að hrista upp í þessari stöðu strax og líklegra að næsti kostur inn verði úr akademíunni myndi ég halda. Van Der Berg og Hoever voru báðir byrjaðir að spila fullorðins fótbolta 16 og 17 ára í Hollandi. Phillips gæti jafnvel verið eitt tímabil þar til þeir verða nógu gamlir.

Miðjan – Fabinho er 26 ára en Henderson og Wijnaldum erum báðir 29 ára. Enginn þeirra ætti að gefa eftir næstu ár ef allt er eðlilegt og samkeppnin um þeirra stöður er nú þegar gríðarleg. Naby Keita (24 ára) er líklega hæfileikaríkari en þeir allir og Ox er einhvernvegin ennþá bara 26 ára.

Helsta tækifærið hér er fyrir Adam Lallana sem fer núna í sumar. James Milner er orðin 34 ára og hlutverk hans hefur jafnt og þétt verið að minnka. Liverpool er miklu líklegra til að leita til Curtis Jones en að kaupa tilbúinn miðjumann. Hér væri engu að síður rosalega spennandi að sjá Kai Havertz eða álíka spennandi leikmann bætast við hópinn. Vonandi förum við að sjá arftaka Henderson eða Wijnaldum á næsta eða þarnæsta tímabili.

Sóknarlínan

Það er engin ástæða til að brjóta sóknarlínuna upp á næstu árum og vangaveltur um að Mané eða Salah fari í sumar eða næsta sumar ættu ekki að koma til greina hjá Liverpool. Salah og Mané eru 27 ára og Firmino 28 ára.

Engu að síður hefur maður engar teljandi áhyggjur af því ef einhver af þeim verður seldur. Klopp hefur búið til þannig markamaskínur að það er ekkert víst að sá sem kæmi í staðin yrði verri. Eins held ég að rétt eins og Coutinho myndu þeir allir sakna Liverpool miklu meira en Liverpool þeirra.

Minamino gæti þessvegna sprungið út og komist á sama level og þessir þrír, hann eins og Naby Keita er eins og sérhannaður Klopp leikmaður. Origi verður aldrei aðalmaður hjá Klopp þó hann eigi skilið Ballon d´Or fyrir framlag sitt af bekknum og verður vonandi aldrei seldur. Staða Shaqiri er líklegasta leiðin inn í hópinn núna.

Að öllum líkindum er næsta stórstjarna nú þegar hjá félaginu. Ef að Harvey Elliott er svona góður 16 ára hvernig verður hann eftir 2-3 ár? Þetta er rosalegt efni og mun nær aðalliðinu en önnur rosaleg efni hafa verið undanfarin ár.

Vonandi nær Brewster sem dæmi að verða jafn góður og hann var efnilegur því það er mjög stutt síðan Liverpool var í bullandi basli með að sannfæra hann um að vera áfram hjá félaginu. Væru ekki að standa í því ef það væri ekkert í hann spunnið.

Harry Wilson var rosalegt efni líka 15-16 ára og er t.a.m. yngsti landsliðsmaður Wales, hann hefur samt ekki ennþá spilað deildarleik fyrir Liverpool og aðeins einn bikarleik, hann er að verða 23 ára. Leikmaður í Úrvalsdeildarklassa en verður aldrei partur af aðalliði Liverpool. Sýnir hvað þarf bara til að fá tækifæri.

Það er erfitt að sjá fyrir sér Sancho eða Mbappe leikmannakaup nema einhver af heilögu þrenningunni fari og jafnvel þó það myndi gerast er ég ekki viss um að Klopp vilji svo dýra stjörnu í hópinn nema búa hana til sjálfur.

Mikilvægast af öllu upp á framtíðina að gera er að Klopp er með samning til a.m.k. 2024. Með hann í brúnni er mun líklegra að Liverpool sé að hafna leikmönnum en að þeir séu að hafna Liverpool.

Hvað haldið þið, sjáið þið fyrir ykkur 1-2 stór leikmannakaup næsta sumar eða svipað sumar og síðast? 

 

26 Comments

  1. Ég man ekki eftir liði í þvílíkri stöðu. Auðvitað er mikilvægt að halda hungrinu við með nýju blóði en horfandi á stráka eins og Neco Williams, Curtis Jones og fleiri, ekki bara hvað þeir eru góðir heldur hvernig þeir spila, þá er ekki annað að sjá en hungrið til að fá að taka þátt í hópnum hjá Klopp sé að gera út af við þá.

    2
  2. Sæl og blessuð.

    Það fyndna er, að mig hefur aldrei langað í nokkurn leikmann sem hefur verið keyptur til liðsins eftir að herr Klopp tók við stjórnartaumunum. Sú var ekki raunin þegar mister Rodgers ýtti innkaupakerrunni á undan sér – man hvað maður var spenntur fyrir Lallana, Benteke, Balotelli (sekur), Lambert (úff), Lovren… þetta voru allt gaurar sem höfðu sýnt hvað í þeim bjó og það var ekki annað í kortunum en að leyfa þeim að halda því áfram.

    Svo kom Klopp og ég minnist þess ekki að hjartað hafi tekið aukaslag þegar þeir birtust með pennann í hönd – Mané, Salah, Gini, Robertson, Virgil, Fabinho… af hverju ekki einhver þekkt nöfn??? spurði maður í forundran. Hvar með Griezman, de Ligt, Jong og þessa dúdda… já og ég játa það að svo fátt hef ég lært að ég blúsast smá yfir því að Braut kúturinn skyldi ekki rata í okkar góða lið. Hver getur slegið hendinni á móti 10 mörkum í sjö leikjum – eða hvað hann býður nú upp á?

    svo mórallinn er sá að best er að treysta þessum snillingum fyrir veskinu og einmitt ala upp hungraða, ólma, unga gaura sem eiga svo eftir að pakka stjörnunum saman þegar á reynir.

    8
  3. Takk fyrir þessa flottu samantekt.
    Ég held að það komi enginn leikmaður inn í sumar, amk ekki einhver sem kostar 20+ milljón pund.
    Og mér líður bara vel með það.
    Auðvitað kitlar það egóið að huxa til þess að sjá Mbappe í Liverpool treyjunni, en sé það bara ekki gerast. Líklegra að Coutinio komi “heim”.

    Efniviðurinn í ungu mönnunum sem við sáum á móti Shrewsbury er geggjaður, og þeir munu fá sénsinn frekar en að fara í frekari kaup.
    En hvað veit ég.

    Y.N.W.A

    3
  4. Flott grein Einar

    Ég spái því að við fáum 1 heimsklassa leikmann inn í sumar. Ég spái því að Klopp og félagar kaupi framherja til að veita Salah/Firmino/Mane enþá meiri samkeppni en Origi hefur ekki verið að veita þeim mikla keppni. Það kæmi mér ekki á óvart að við færum bráðum að sjá Firmino sem fremsta miðjumann(oft í frjálsu hlutverki) því að hann væri þá enþá meira í boltan sem er bara hið besta mál og við sjáum Mane/Salah með nýjan framherja með sér.

    Svo er þetta spurning um hvort að Klopp treystir ungu bakvörðum nógu mikið til að leysa af Andy og Trent ef þeir lenda í langtíma meiðslum. Ég held að það væri ekki vitlaus að næla sér í einn solid bakvörð í viðbót.

    Annars reiknar maður einfaldlega með því að liðið okkar heldur áfram að bæta sig. Nánast allir á góðum aldri og maður reiknar ekki með því að margir fari frá okkur spái að Lallana/Shaqiri og jafnvel Origi fari frá okkur í sumar ásamt Harry Willson sem er lánsmaður hjá Bournmouth.

    Ég held að Liverpool eru komnir á þann stað að það verður ekki mjög erfitt að sanfæra leikmenn að koma til okkar(ef það er erfitt að sanfæra þá hefur sá leikmaður ekki haft aðgang að sjónvarpi undanfarinn tvö ár og má bara vera annarstaðar)

    1
  5. Vil engan Mbappe eða álíka fyrir metfé sem álíta sig stærri en klúbinn og geta svo ekkert í nýju umhverfi.
    Er ekki hægt að klóna Milner?
    Bara spyr…

    6
  6. Sælir félagar

    Ég er sammála Sig. Ein. um einn heimsklassa og hann verði hugsaður fyrir Origi sem er alls ekki í Liverpool klassa dagsins í dag. Þá er ég ekki að vanþakka þau úrslitamörk sem hann hefir skorað undanfarnar leiktíðir í deild og meistaradeild. Síður en svo. En ég stend við það sem ég hefi alltaf sagt um hann “hann er ekki nógu góður í fótbolta”. Svo einfalt er það.

    Ég held líka að Klopp og félagar séu búnir að ákveða hver það verður sem kemur. Það verður dýr leikmaður en mun samt ekki kosta 200-3oo millur eins og Mbappe er metin af sínu félagi eða eitthvað slíkt. Nei en leikmaður sem gæti kostað 80 til 90 millur og kemur fyrir þann pening með eða gegn vilja félagsins sem hann er hjá. Sá leikmaður mun nefnilega brjálast ef hann fær ekki að fara þegar Liverpool kallar. Þangað vilja nefnilega allir leikmenn heimsins fara sem eiga þess kost hvar í heiminum sem þeir eru.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  7. Sancho, Haaland, Werner eða álíka leikmaður
    Það kemur ein stjarna og svo aðrir minni spámenn sem verða stjörnur undir stjórn Klopp.
    Lallana, Origi, Shaqiri munu hverfa á brott.

    1
  8. Timo Werner kemur í sumar, getur leyst allar 3 fremstu stöður, flottur leikmaður á réttum aldri. Passar inn í okkar bolta. Einnig kemur sterkur miðvörður, Gomes og Matip flottir en eru meiðslapeysar. Síðan vill Lovren burt.
    Curtis Jones tekur Lallana stöðuna og Minamino er hinn nýji Shag.
    Þetta er er neglt niður, á bara eftir að hringja í siggu kling og fá þetta staðfest.

    9
    • Væri geggjað að fá Timo og spennandi væri að vita hver klásúlan hans er há.
      Annars er hann með samning til 2023 og spurning um að hinkra aðeins til að fá hann ekki á uppsprengdu verði.

      Auðvitað vilja allir leikmenn koma til Liverpool núna og ég væri mjög mikið til í að fá Haaland. Sá gaur er algjört skrímsli og það væri svo hryllilega mikið spark í pík… á manjhú.

      1
  9. Flott samantekt. Sammála um að ekki sé ástæða til að örvænta á leikmannamarkaði á næstunni og tali maður nú ekki um ef eitthvað af þessum ungu guttum verða jafn góðir og þeir stefna í. Reyndar er með þessa ungu bráðþroska leikmenn að sumir þeirra ná aldrei alvöru flugi eða eru útbrunnir fyrir aldur fram eins og við þekkjum með þá Fowler og Owen sem voru náinst komnir í kör eftir 25 ára aldur. Síðan er eitt að standa sig í yngri flokkum og jafnvel að koma inná í einum og einum meistaraflokksleik en að bera uppi heilu leikina í alvöru keppni er bara allt annað mál. Ef heldur sem fram horfir verða Curtis Jones ofl jafnvel tilbúnir í stærri hlutverk eftir ca tvö ár en okkar góði aðalhópur er nú ekki beint kominn að fótum fram og dugar vel sem heild í 2-4 ár í viðbót. Styrkurinn hjá okkar liðið felst ekki síst í hve ungur hópurinn er öðrum liðum til lítillar ánægju gæti maður ímyndað sér.
    Ég hef engann áhuga á þeim franska sem sumir hafa verið að bendla við okkar lið. Draumakaup í leikmanni (þ.e.a.s. ef þarf einhvern) væri fjölhæfur duglegur miðjumaður sem gæti brugðið sér í vörnina í hallærum, þ.e. 10 árum yngri útgáfa af Milner.

    5
  10. Maður sér ekki fyrir sér að það verði mikið keypt. Ef Lovren fær kaupum við væntanlega nýjan miðverð en varla dýran sóknarmanna nema einhver úr tríóinu fari. Salah virðist vera líklegastur af þeim til þess að fara og mér skylst að Federico Chiesa sé liklegastur til að koma þá í staðinn, m.ö.o. enginn af þessum dýru sem blöðin eru að tala um.

    Ég myndi halda að þetta lið ætti að geta gert atlögu að titlinum a.m.k. tvisvar í viðbót án mikilla viðbóta eða meiriháttar breytinga.

    2
  11. Bayern-Leipzig að spila nuna i toppslag….Timo Werner inná…Coutinho á bekk

    1
    • Mér fannst Werner ekki góður í þessum leik. Klúðraði dauðafæri, var með lélegar óþarfa tæklingar og almenna fýlu. Held að hann sé ekki með rétta karakterinn fyrir andlegu hliðina í Klopp-liði.

  12. góða kvöldið ég er með 1 miða til sölu á Liverpool ,palace 21 mars . Luxus sæti og matur og 1 bjór í hálfleik . Glæsilegur leikur hjá okkar liði .,
    þessi 1 miði er við hlið mér 21 mars og það vil engin koma með mér af famely þannig ég neiðist til að selja 1 miða , verð 50 þusund kr .

    væri ekki vera ef viðkomandi er skemmtilegur og hress og væri til í að skoða Liverpool saman ,
    ég verð sér á hóteli og það er ekkert vandamál við bara selja 1 miða langar ekki að hafa hitt sætið aut . væri ekki vera ef viðkomandi sé skemmtilegur og hress.

    ef þvið viljið versla miðan endilega senda mér email á akifridriksson@gmail.com . kv.Áki

    3
    • Það verður lítið mál held ég að selja þennan miða þegar það er staðfest að þessi leikur verður á þessum degi. Liverpool gæti jafnvel tryggt sér titilinn þarna.

      Klopp er búinn að reyna allt til að detta úr leik í bikarnum en það bara gengur ekki og þetta er bikarhelgi fari Liverpool áfram þar 🙂

      1
  13. Er Coutino virkilega að koma til baka ! Blendnar tilfinningar varðandi þessa frétt hann veit klárlega núna hvaða þjálfar og hvaða félag getur bætt hans leik.

    YNWA

    1
  14. Mbappe kaup væri massívt statement. Önnur lið myndu pissa í buxurnar að mæta lfc með hann frammi ásamt bobby í holunni og mane og salah á köntunum. Nike myndi græja stóran hluta af peningahliðinni. Þrátt fyrir 250 til 300 m.p. mögulegan pakka væri þetta fjárfesting sem myndi borga sig in the long run. Svo er vara bakvörður örugglega á dagskrá.

    Býst samt við að Mpabbe endi hjá R. Madrid þar sem Zidane er hans legend.

  15. Sælir félagar

    Havertz er helzta skotmark Klopp samkvæmt nýjasta (og reyndar eldra líka) slúðrinu. Tvítugur markaskorari af guðs náð. Sá einhverstaðar að hann mundi kosta 200 millur en hefi trú á að við fáum hann fyrir helminginn af því. Ég sá líka einhverstaðar að hann hafi gefið því undir fótinn að fara til Liverpool (hver er hissa á því?). Held að hann verði einu kaup okkar í sumar en Origi, Lallana og Shag verða seldir.

    Ég er viss um að enginn úr framlínunni verður seldur þrátt fyrir áhuga ýmissa stórliða á þeim en áðurnefndir menn ásamt Lovren fara. Þetta eru leikmenn sem lítið sem ekkert spila hvort sem er en hægt að fá fyrir þá 20 – 30 millur hvern. Inn í liðið koma svo strákar úr yngri liðum Liverpool þegar hvíla þarf einhverja á miðju, sókn og vörn í unnum leikjum. Með Havertz, Mino og Keita heilan ásamt unglingunum erum við komnir með svakalegan bekk næstu leiktíðir. Ég held nefnilega að Liverpool sé komið á þann stað að gera ein stórkaup á ári í mesta lagi eða engin ella.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  16. Klopp og hans menn eru svo óútreiknanlegir þegar kemur að kaupum að maður er eiginlega hættur að taka öllu slúðri nema sem bara Slúðri. Umboðsmenn vinna í því að bendla hina og þessa við helstu liðin í von um hækkandi verð og fjölmiðar spila með. Muniði Lacasette, Lemar, Pepe ofl ofl. sem LFC átti að hafa svo mikinn áhuga á. En eithvað segjir mér að einhverjir verða seldir og 1-2 koma til okkar í sumar, aðeins augljósara hverjir fara, en hver eða hverjir koma no clue sem betur fer, kannski einhver Fabiniho kaup strax og glugginn opnar, síðan case closed. En skemmtileg pæling samt.

    YNWA

    4
  17. Okey en breytist jafnan í innkaupastefnunni ekki eitthvað þegar LFC fær 20% af hverri seldri treyju?

    Minamino mun t.d. selja mikið fyrir Asíumarkað. Eins myndi það hafa áhrif á treyjusölu ef besti leikmaður heims semur við félagið.

    3
  18. okkur vantar bara leikmenn fyrir framtíðina, það er ekkert sem getur bætt okkur í dag, erum besta lið í heimi, mbappe mun ekki bæta okkur þannig að sóa 200m punda í hann væri heimska.

    kaupa coutinho aftur væri líka bull, hann er það gamann að hann nýtist okkur ekki eftir 3-4 ár, frekar notað peningana í að kaupa unga leikmenn sem munu taka við í framtíðinni.

    ég hugsa að liverpool geri ekkert í sumarglugganum, lallana fer who carez, minamino getur dekkað það, ég held að shaqiri fari hvergi, hafi engann áhuga á að fara.

    origi fer hvergi, þurfum á honum að halda til að valta yfir everton já og ef við skildum dragast á móti barcelona þá er gott að hafa origi til að klára þá 🙂

    harry wilson kemur út láni og verður í hóp á næstu leiktíð, hann er allt of góður til að hafa hann ekki sem backup.

    2
  19. Erum aldrei að fara að kaupa kútinn aftur, við erum ekki everton eða manhjú (sbr. pogba-ævintýrið). Klopp er alveg örugglega búinn að skoða þá möguleika sem hann hefur áhuga á að fanga. Við þurfum ekki einu sinni að efast um það. Mér persónulega fyndist geggjað að fá Mbappe, eingöngu vegna þeirrar staðfestingar að við erum orðnir stærstir og bestir og að bestu leikmenn heimsins vilja koma til okkar! Auðvitað eigum við ekkert að kaupa hann á 200 milljónir. Væri fínt að fá hann þegar samningurinn hans fer að styttast í annan endann. Ég skal líka alveg viðurkenna það að það hefur komið mér (skemmtilega) á óvart hversu lítið Klopp hefur verið að narta í leikmenn frá heimalandinu sínu. Flestir héldu að hann myndi draga með sér nokkra gula og glaða.

    Ég myndi snúa fyrirsögninni við á þessari færslu og segja ,,Hvað vill Liverpool gera í sumar?”.

    6
  20. Takk fyrir flottan pistil.
    Með moneyball í huga:
    Það er líklega Liverpool sem er að reyna að selja Lovren, en ekki Lovren að vilja fara.
    Wijnaldum gæti líka verið seldur, er meira að segja nokkuð líklegt. Hann myndi skila háu verði núna en er ekki nema einum meiðslum frá því að hrynja í verði. Nýtt lið myndi borga honum góð laun og gera hann hamingjusaman í ellinni.
    Afríkumótið gerir það að verkum að bæði verður þörf og líka tækifæri fyrir nýjan framherja að láta ljós sitt skína og vinna sig inn í liðið. Það er alveg spurning hvort það væri áhugi hjá FSG á því að selja annan þeirra Mané eða Salah og draga þannig úr áhrifum af afríkumótinu. Það yrði væntanlega með miklum hagnaði.
    Hin hliðin á moneyball/FSG formúlunni er svo að kaupa tiltölulega óþekkta leikmenn, ekki eldri og ekki mikið yngri en 24 ára sem eru tölfræðilega séð verðmætari en markaðsverðmæti þeirra gefur til kynna.
    Spurning hvort Timo Werner, Kai Havertz, Mbappe, Sancho eða aðrir passi inn í þann flokk.

    1

Meðlimir samfélagsins

Gullkastið – Síðasta Meistaradeildarsætið