Mikilvægasti leikur tímabilsins framundan!

Það er gömul klisja og ný að tala um næsta leik sem þann mikilvægasta hjá hverju lið fyrir sig. Þetta er þó eitthvað sem á klárlega við í tilfelli Liverpool, því næsti leikur er síðari leikur liðsins í 16. liða úrslitum meistaradeildarinnar gegn Atletico Madrid, leikur sem liðið verður að vinna ef það á að komast í 8. liða úrslit. Og í ljósi þess að liðið er með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar, en fallið úr báðum ensku bikarkeppnunum, þá má segja að Meistaradeildin sé eina keppnin sem eftir er sem einhver spenna er í fyrir okkur fylgismenn Liverpool.

Þessi leikur – eins og reyndar flestir knattspyrnuleikir undanfarið – fer fram í skugga COVID-19 veirunnar. Nú er búið að fresta deildinni á Ítalíu, og leikir í dönsku deildinni fara nú fram fyrir luktum dyrum. Búið er að staðfesta að þrír leikir í meistaradeildinni í þessari viku fari fram án áhorfenda: PSG – Dortmund, Barcelona – Napoli, og Valencia – Atalanta. Hugsanlega verður leikur Bayern og Chelsea fyrir tómum leikvangi. Umræður um hvort slíkt verði tekið upp í deildinni á Englandi hefur verið í gangi í nokkurn tíma. Engin ákvörðun um slíkt hefur verið tekin ennþá, og yfirmaður íþróttamála hefur reyndar gefið það út að slíkt sé ekki í kortunum. Hins vegar er ljóst að tilfellum fjölgar stöðugt á Bretlandi, og það þarf kannski ekki mikið að gerast til að það verði tekin ákvörðun um áhorfendabann. Líkurnar á því að slíkt bann taki gildi áður en leikurinn á miðvikudaginn fer fram eru þó afskaplega litlar, en líkurnar á því að þetta verði síðasti leikurinn í meistaradeildinni (a.m.k. í bili) sem verður leikinn fyrir framan áhorfendur eru hins vegar einhverjar. Það er því vonandi að völlurinn verði gjörsamlega skoppandi á miðvikudagskvöld, hugsanlega verður þetta síðasta Evrópukvöld á Anfield í bili, og því nú eða aldrei fyrir áhorfendur að hafa áhrif. Og ef liðið þurfti einhverntímann á “12. leikmanninum” að halda, þá er það núna.

En hvað þennan vírus varðar, þá er voða lítið annað að gera í stöðunni annað en að við verðum öll dugleg að þvo okkur um hendurnar, og þá er nú ágætt að hafa þessar ágætu leiðbeiningar til hliðsjónar:

Um andstæðingana

Gengi Atletico Madrid upp á síðkastið hefur verið upp og ofan. Frá fyrri leiknum í 16. liða úrslitum hefur liðið leikið 3 leiki í deildinni, gegn Villareal, Espanyol og Sevilla. Af þessum leikjum hefur liðið unnið einn en gert tvö jafntefli, og fengið á sig 4 mörk. Þeim hefur semsagt ekki gengið neitt sérstaklega vel að halda hreinu, sem ættu að vera góðar fréttir, og það þrátt fyrir að aðeins einn þessara leikja hafi verið útileikur.

Liðið getur valið úr nánast öllum sínu bestu mönnum, Joao Felix, Diego Costa og Alvaro Morata eru allir komnir til baka úr meiðslum og gætu spilað, Felix og Morata voru reyndar teknir af velli í síðasta leik. Gimenez er sömuleiðis kominn úr langtímameiðslum en óvíst hvort honum verður teflt fram í jafn mikilvægum leik og þessi er.

Hvað segir tölfræðin okkur um leiki þessara liða? Jú þau hafa mæst 5 sinnum í alvöru keppnum, auk svo einhverra æfingaleikja eins og sumarið 2017. Í þessum 5 leikjum hefur Liverpool unnið einu sinni, Atlético unnið tvisvar, og tvisvar hefur orðið jafntefli. Það er því klárlega tímabært að laga þessa tölfræði aðeins.

Atletico eru í 5. sæti í spænsku deildinni með 45 stig, 13 stigum á eftir toppliði Barcelona. Semsagt, ekki í hæstu hæðum en klárlega í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni.

Okkar menn

Staðan á hópnum sem Klopp hefur yfir að ráða er aðeins skárri en hún var um helgina, því Henderson er farinn að æfa aftur, og það má reikna með að Robertson verði leikfær. Hins vegar er Alisson ennþá meiddur, og gæti vel verið frá í næstu tveim leikjum eða fram yfir landsleikjahlé. Það hefur þó ekkert verið staðfest í þeim efnum. Til að flækja stöðuna enn frekar þá er Kelleher líka meiddur. Það er því ljóst að Adrian verður á milli stanganna, Lonergan á bekknum, og annarhvor Pólverjinn Vitezslav Jaros eða Jakub Ojrzynski í startholunum. Við erum semsagt einum meiðslum hjá Adrian frá því að þurfa að stilla upp liði í 16. liða úrslitum meistaradeildarinnar þar sem markvörðurinn hefur aldrei spilað aðalliðsleik með liðinu, og varamarkvörður á bekknum sem hefur ekki einusinni verið á skýrslu hjá aðalliðinu! Vill einhver taka að sér að pakka Adrian í bómull fram að leik takk?

Það má fastlega gera ráð fyrir að Alisson mæti í þessum bol á Anfield.

Að venju er stóra spurningin hvernig Klopp stillir upp á miðsvæðinu. Er Henderson klár í slaginn eftir 2 vikna pásu til að fara beint í byrjunarliðið? Ég ætla að veðja á það, en yrði ekkert rosalega hissa þó hann byrji á bekknum. Heldur Klopp áfram að reyna að spila Fabinho í stuð? Ég á frekar von á því að Klopp haldi áfram að sýna þolinmæði gagnvart leikmönnum sem hann veit hvað geta, þó þeir hafi e.t.v. ekki sýnt það í síðustu leikjum. Ég myndi því veðja á að Klopp stilli liðinu svona upp á miðvikudaginn:

Adrian

Trent – Gomez – VVD – Robertson

Henderson – Fabinho – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mané

Að sjálfsögðu er alls ekkert ólíklegt að Klopp vilji stilla upp ögn sóknarsinnaðra liði. Hann gæti líka alveg sett Hendo aftur í sexuna og spilað Ox fyrir framan við hliðina á Wijnaldum. Keita gæti mögulega fengið sénsinn í stað Wijnaldum. Nú og svo er Lallana ennþá í uppáhaldi þó svo að tími hans hjá Liverpool sé líklega á enda runninn.

Við biðjum svo ekki um mikið, bara um tveggja marka sigur.

KOMA SVO!!!

10 Comments

  1. Sælir félagar

    Ég hefi ekki áhyggjur af þessum leik ef okkar menn mæta til leiks einbeittir og fullir af sigurvilja. Með Anfield sem 12 mann á þessi leikur ekki að verða vandamál. Þetta er hundleiðinlegt lið sem við erum að fara að spila við en með eðlilegri dómgæslu og miðað við hvað Liverpool liðið er í grunninn miklu betra lið á sigur að vinnast nokkuð örugglega. Ef Klopp stillir bara upp því sterkasta sem hann á völ á er engin spurning miðað við meiðslalista nema á milli Milner og Fabinho. Mín spá 3 -1

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  2. Sannfærður um sigur okkar manna.
    Njótum leiksins í kvöld.

    Gæti orðið síðasti leikurinn í bili.
    Kæmi mér ekkert á óvart að við þyrftum að bíða í nokkrar vikur eftir næsta.

    YNWA

  3. Erum betri en þeir og vinnum þennan leik 2-1. Mané skorar bæði mörkin.
    En annars núna þá er ég kominn með miklar áhyggjur af því að deildin verði blásin af. Leikur City og Arsenal færður (í bili) og að FA geri kannski svipað og Ítalía.. byrji á að fresta öllu fram í apríl en felli það svo alveg niður þegar sá tími er runnin upp.

    1
    • 2-1 væru annars alls ekki góð úrslit því þá falla okkar menn úr keppni á mörkum skoruðum á útivelli.

      8
    • Leikur City og Arsenal er frestað út af því að nokkrir leikmenn Arenal hittu eiganda Olympiakos sem hefur greinst smitaður.

      Það verður alltaf gripið til þess að leika á lokuðum völlum heldur en að blása mótið af.

      Ástandið í Bretlandi er engan veginn eins slæmt og á Ítalíu, sirka 300 hafa greinst smitaðir.

      Hins vegar eru meiri líkur á að meistaradeildin verði blásin af og Evrópumótinu í sumar verði frestað.

      3
  4. Fyrir tveim vikum hlógum við af þessu, en núna gæti þetta verið raunveruleik. Tímabilið er að klárast núna í Mars, UK verður líkt og Spánn og Ítalía lokað á næstu misserum. Vírusinn mun grassera næstu mánuði, það sér því miður ekki fyrir endann á þessu.

  5. Þess vegna er mikilvægt að klára deildina í síðasta lagi á móti CP, þá er ekki hægt að deila um það á neinn hátt hver “hefði ” getað unnið deildina. Restin af liðunum geta svo fundið útúr sínum sætum.
    Að leiknum, þá verður á brattann að sækja en það má ekki vera með klafs eða lúðra boltanum einhvert. Nú þarf að hafa haus í lagi og kæfa madrid.
    Ekkert rugl hér.
    2-0

Gullkastið – #Meistararívor

Byrjunarliðið vs. Atletico Madrid á Anfield Road!