Verulega vanmetin árangur

Titillinn fer á loft á miðvikudaginn – Liverpool klúbburinn með fögnuð

Englandsmeistaratitillinn sem Liverpool landaði núna eftir 30 ára bið er miklu stærra afrek en margir virðast vilja átta sig á og einn sá sætasti og besti í sögu félagsins. Enska Úrvalsdeildin hefur aldrei verið sterkari en hún er núna og Liverpool sló þrátt fyrir það hraðamet í að vinna mótið þó við fengjum ekki (Staðfest) fyrr en undir lok júní.

Auðvitað viljum við sjá okkar menn vinna alla leiki og bæta öll met sem í boði eru en það má ekki missa sjónar á því hversu litlu máli þau skipta í samanburði við afrekið sem Liverpool liðið er nú þegar búið að vinna.

Arsenal (eða réttara sagt Liverpool) kom í veg fyrir að stigamet Man City yrði slegið. Arsenalmenn voru á tíma í vetur hræddir um met þeirra frá 2004 þegar þeirra menn fóru taplaust í gegnum heilt tímabil, hversu pointless er það afrek í deild þar sem þú færð 3 stig fyrir sigur og 1 fyrir jafntefli? Liverpool liðið í vetur/sumar var komið með fleiri stig í 34.umferð en ósigrandi lið Arsenal náði tímabilið 2003/04. Liverpool tapaði bara einum leik í fyrra á meðan Man City tapaði heilum fjórum en vann samt mótið. Bæði lið með miklu fleiri stig en ósigrandi lið Arsenal náði 2004.

Ósigrandi lið Arsenal vann einmitt síðasta titil Arsenal og til að setja í samhengi hversu langt síðan það er þá var þetta tímabilið sem Leeds féll. Það vantar ekki fréttirnar núna um ótrúlega langa fjarveru Leeds úr efstu deild. Hressandi að snúa aðeins við skotunum sem hafa beinst að okkur undanfarna áratugi. Kalli Bjarni var nýbúinn að vinna Idol þegar Arsenal vann deildina síðast (o.s.frv).

Höfuðandstæðingur Liverpool í vetur var eitt besta lið í sögu enska boltans. Man City er líklega dýrasta lið í sögu deildarinnar og launin eftir því, Pep Guardiola er með Klopp heitasti bitinn á þjálfaramarkaðnum og eigendurnir eiga bókstaflega botnlausar hirslur af peningum sem þeir dæla í liðið. Guardiola hefur eytt meira nettó í bakverði undanfarin tvö tímabil en Klopp hefur eytt nettó sem stjóri Liverpool. City hefur unnið 32 leiki tvö tímabil í röð og verið með 99 stig að meðaltali. Að þeir séu ekki að taka deildina eins og Bayern gerir í Þýskalandi, PSG í Frakklandi eða Juventus á Ítalíu er magnað í sjálfu sér. Þetta lið hefur gefið örlítið eftir í vetur og fyrir vikið tapað níu leikjum og gert þrjú jafntefli. Norwich, lið sem er skítfallið og var í gríðarlegum meiðslum vann þá í upphafi mótsins. Það má EKKERT gefa eftir í þessari deild og með því rosalega fjárhagslega forskoti sem enski boltinn hefur hafa þessi lið í neðri helmingnum verið að styrkja sig gríðarlega undanfarin ár.

Það geta allir unnið alla og við sáum það fyrr í vetur þegar Watford allt í einu upp úr þurru slátraði Liverpool 3-0, það lið er líka í bullandi veseni í botnbaráttunni. Arsenal sem hefur ekki getað blautan vann Liverpool núna þegar einbeitingin er ekki alveg 100%

Manchester United sem er eitt af þremur tekjuhæstu knattspyrnufélögum heims hefur komist upp með það undanfarin ár að láta eins og liðið sé einhver underdog í deildinni því félaginu hefur verið svo skemmtilega illa stjórnað eftir að Ferguson hætti. Þetta lið hefði alltaf verið í toppbaráttu við max eitt annað lið fyrstu 15-20 ár Úrvalsdeildarinnar.

Chelsea er annað lið sem látið hefur verið með sem eitthvað underdogs félag sem er nú bara að standa sig vel að ná í Meistaradeildarsæti. Þetta er eitt dýrasta lið í heimi og er sem dæmi að eyða helling af peningum þrátt fyrir Covid og eyddi meira í leikmenn á meðan þeir voru í félagsskiptabanni en Liverpool eyddi sem Evrópumeistarar, sama sumarið!

Everton og Leicester eyddu bæði um 100m í leikmenn síðasta sumar og voru ekki með ódýra hópa fyrir. Leicester seldi vissulega á móti og er mun betur rekið félag en þetta sýnir aðeins samkeppnina og markaðinn. Man Utd og Man City eyddu um 130m – 150m.

Nýliðar Aston Villa keyptu leikmenn fyrir um 150m og eru samt að falla! Wolves og West Ham keyptu leikmenn fyrir um 70m. Newcastle, Sheffield United og Southampton voru að kaupa leikmenn fyrir 40m – 60m í sumar.

Það er ekki þar með sagt að sigur Liverpool á þessu tímabili sé einhver underdog story, rétt eins og við höfum sagt undanfarna þrjá áratugi þá á lið af stærðargráðu Liverpool að keppa um stóru titlana, alltaf. Það eru reyndar ekki mörg ár síðan stuðningsmenn annarra liða reyndu að halda því fram að Liverpool væri ekkert svo stórt lengur og væri að lifa á fornri frægð, hef ekki kannað stöðuna á þeirri röksemdafærslu nýlega…

Það kostaði töluvert að setja þetta lið saman og tók 4-5 ár undir stjórn Klopp. Nettó eyðslan á þessum 4-5 árum gera þennan sigur engu að síður ennþá magnaðari. Sérstaklega ef við spáum í samkeppnina á þessum tíma. Man City hefur núna tvisvar komist upp með að brjóta allar FFP reglur og áður en þeir komu var Chelsea búið að gera það nákvæmlega sama og byggja upp lið sem ennþá nýtur góðs af og ennþá í eigu sama aðila.

Vonandi eru afskaplega fáir að halda öðru fram en að Guardiola sé einn af 2-3 bestu stjórum í boltanum í dag. Ekki bara er Klopp að etja kappi við hann heldur er hann að etja kappi við Guardiola með olíusjóði Katar á bak við sig.

Guardiola tók við Man City liði sem var fyrir eitt besta lið deildarinnar og var velgengni liðsins í byrjun að stórum hluta byggð á þeim leikmönnum sem voru fyrir hjá félaginu. Hann hefur þrátt fyrir það fengið að eyða tæplega 500m nettó frá því hann kom. Leikmenn inn fyrir 660m en aðeins þurft að selja leikmenn fyrir 165m. Ekki einn af þeim var stórt nafn sem hann vildi síður missa.

Klopp á sama tíma hefur keypt leikmenn fyrir 70m nettó. Samtals fyrir um 390m en selt á móti fyrir 320m. Hann tók síður en svo við einu besta liði deildarinnar og velgengni undanfarinna ára er að miklu leiti byggð á þessum 390m sem hann hefur notað á leikmannamarkaðnum. Mest er hún þó byggð á honum sjálfum og hæfileikum hans sem þjálfara. Nettó eyðsla Liverpool undir stjórn Klopp er 17,4m á ári sem er fullkomlega galið í núverandi rekstrarumhverfi í ljósi þess að liðið er ríkjandi Heims, Evrópu og Englandsmeistarar. Rétt áður en hann tók við seldi Liverpool einmitt Raheem Sterling sem er einn besti leikmaður City í tíð Guardiola. Kaupin á honum eru t.a.m. ekki partur af þessum 660m sem hann hefur eytt í leikmenn.

Þetta sýnir líka afhverju við ættum að anda aðeins með nefinu þegar kemur að fréttum af leikmannamarkaðnum. Liverpool eru pirrandi á þeim markaði fyrir okkur sem þekkjum bara formúluna að til að vinna þarf að kaupa bestu leikmennina. Liverpool hefur upp að vissu marki gert það en þetta sigurlið er engu að síður byggt upp á leikmönnum sem virka ekki spennandi þegar þeir eru orðaðir við Liverpool.

Gomez frá Charlton, Trent úr akademíunni, Robertson frá Hull, Wijnaldum frá fallliði Newcastle, Henderson frá Sunderland. Meira að segja Van Dijk, Mané, Salah og Firmino komu ekkert frá liðum sem voru á sama kaliberi og Liverpool. Það voru engar rosa flugeldasýningar þegar Salah og Mané voru keyptir þú vissulega hafi þeim verið vel tekið. Liverpool hefur sárasjaldan keypt þá leikmenn sem við erum að óska hvað mest eftir núna og þetta lið var ekki byggt þannig upp.

Auðvitað vill maður samt sjá standardinn hækka ennþá frekar í takti við aukna velgengni. Látum gluggan a.m.k. opna áður en við spáum of mikið í þessu.

Fyrir þetta tímabil rétt eins og flest tímabilin þar á undan sögðum við að sigur í deildinni væri draumurinn og jafnvel krafan og allt annað væri bónus. Það er reyndar ekki langt síðan “við” vorum að tala um að til að byrja með þyrfti Liverpool bara að vinna annanhvorn bikarinn til að fá sigurtilfinninguna aftur. Eða eitthvað á álíka lækkaðs standard nótum. Höfum þetta alveg hugfast núna þegar helvítis titllinn er í höfn.

Stigamet hefði verið ágætt en skiptir í raun ekki nokkru einasta máli, það eru engin verðlaun fyrir að vinna sjö leikina eftir að þú tryggðir þér sigur í deildinni með met fjölda leikja óspilaða. Tapið gegn Arsenal var heldur ekki þess eðlis að liðið væri í hlutlausum og ekki að reyna á sig. Fókusinn er eðlilega aðeins minni og það kostar í þessari deild. Það sáu allir sem horfðu yfirburðina sem okkar menn höfðu í leiknum. Þessi frammistaða er sigur í 95 af 100 skiptum og þetta var eitt af þessum fimm. Þetta er eitt af því sem gerir fótbolta svona skemmtilegan.

Liverpool hefur mjög oft í vetur gert það sem þurfti og ekki mikið meira en það, þetta voru ekkert 27 rúst fyrir Covid. Liðið var hinsvegar gríðarlega hungrað og sýndi nákvæmlega þann karakter sem við höfum grátbeðið um svo lengi. Inn á milli komu leikir eins og núna um daginn gegn Crystal Palace sem náði ekki að snerta boltann inni í teig Liverpool og varla inni á vallarhelmingi Liverpool.

Þetta tímabil er svo ótrúlega flott endurkoma eftir vonbrigðin á því síðasta. Þetta er liðið sem fylgdi loksins eftir góðu tímabili og titilbaráttu með enn betra tímabili og titli. 

25.júní var staðfest að Liverpool væru loksins orðnir Englandsmeistarar á ný og var því auðvitað fagnað eins og vera ber. Stóra stundin og leikurinn sem fjölmargir höfðu sett stefnuna á fyrir Covid er hinsvegar núna á miðvikudaginn. Síðasti heimaleikur tímabilsins er gegn Chelsea og það skiptir engu máli hvernig hann fer. Liverpool er samt að fara lyfta helvítis dollunni á loft.

Því ber heldur betur að fagna og ætlar Liverpool klúbburinn á Íslandi að gera einmitt það. Þeir beina stuðninsmönnum félagsins á heimavöll þeirra fyrir þennan leik sem er Spot í Kópavogi . Endilega kynna sér það og taka þátt.

Stöndum við það sem við lofuðum, verum óþolandi að lágmarki út sumarið. 

Öndum aðeins með nefinu þegar kemur að leikmannamarkaðnu og frammistöðum í þeim leikjum sem eru eftir.

Að minnsta kosti þar til titillinn fer á loft.

 

 

5 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir þennan pistil Einar Matthías og orð í tíma töluð. Það þarf stundum að minna okkur stuðningsmenn á augljósa hluti til að við höldum klárri sýn á staðreyndir fótboltans á Englandi og ótrúlegt afrek liðsins okkar.

    Það er nú þannig

    YNWA

    14
  2. Takk fyrir þetta. Verulega fróðlegt og sýnir svart á hvítu að Liverpool er með góða innkaupastefnu og hve vel hefur tekist til og lítið um mistök í þeim efnum sl ár. Ég er einn af þeim sem tel að kaupin á Andy Robertson hafi jafnvel verið þau bestu af mörgum frábærum og hann kom jú á klink eða einhverjar 8-9 millur. Eins vegna álaganna, meintu eða ímynduðu, sem hvíla á liðinu og tengslana við þá skosku. https://www.liverpool.is/Extra/GuestColumn/Item/637

    47
  3. Ritskoðað – Það er nákvæmlega sama hvað er skrifað í The S*n það er ekki velkomið á þessari síðu né öðrum Liverpool síðum.

  4. Auðvitað er þetta stórkostlegur árangur. En ég er ekki sammála að Chelsea leikurinn skipti engu máli. Þetta er síðasti heimaleikurinn og gegn sterku liði og ég er viss um að leikmenn og Klopp vilja enda þetta tímabil á góðum nótum og sína sitt rétta andlit gegn Chelsea og sýna afhverju Liverpool á skilið að vera meistari.

    3
    • Mér er svosem sama um þetta stigamet og í raun bjóst ég ekki endilega við að Liverpool myndi slá það. Það að vera búnir að sigra deildina þegar svo margir leikir eru eftir er ákveðið spennufall sem tekur pressuna af liðinu. Tómir vellir og þetta langa hlé spila einnig inn í.

      Í ljósi alls hefur mér þótt liðið spila eins og búast mætti við eftir þetta hlé.

      það góða við að ná ekki metinu ætti bara að mótivera liðið fyrir næsta tímabil og það að fá titilinn afhentan á tómum velli ætti að virka hvetjandi til að vinna hann fyrir fullum vell næsta vor.

      Ég fullyrði að Arsenal hefði aldrei farið taplaust í gegnum 2003-4 tímabilið eftir þeir hefðu að stórum hluta verið með 20-25 stiga forskot seinni hluta þess tímabils.

      Þeir enduðu með 90 stig, 11 á undan Chelsea.

      Ef City vinnur þessa 2 leiki sem þeir eiga eftir (WAtford og Norwich) enda þeir með fleiri stig en Chelsea voru með 2003-4.

      1

Arsenal 2-1 Liverpool

Gullkastið – Titillinn á loft í þessari viku