Óóó, Sami Sami …

Það er orðið of langt síðan við settum inn smá YouTube-færslu á síðuna. Er ekki við hæfi að bæta úr því með þessari þörfu kennslustund frá Sami Hyypiä, en sá maður er meistari einfaldleikans á grasvelli og minnir okkur hér á það að bestu varnarmennirnir eru þeir sem gera einföldu hlutina best:

Ef Sami spilar gegn Stoke á laugardaginn verður það 700. leikur hans á ferlinum, en þar af hefur hann leikið 478 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum á þeim tíu árum sem hann hefur verið hjá félaginu. Þrátt fyrir að vera orðinn háaldraður – í knattspyrnuárum alltént – hefur Sami ekki gefið mikið eftir og er enn að stanga stöku fyrirgjafir inn í mark andstæðinganna á milli þess að þagga niður í sumum af frægustu framherjum heims á vikulegum basis.

Ég man ekkert í hvaða leik ég sá Sami fyrst spila en ég man hvað mér fannst um leið og ég sá hann á velli. Þetta óþekkta nafn sem gekk til liðs við Liverpool sumarið ’99, en hann var ekki óþekktur lengi. Um leið og menn sáu hann skalla boltann frá eigin markteig og langleiðina fram að miðju var eins og menn gætu andað rólega og loks farið að treysta Liverpool-vörninni eftir nokkurra ára niðurníðslu í boði manna eins og John Scales, Neil Ruddock og Phil Babb. En með tilkomu Hyypiä og félaga hans, Stephane Henchoz, gengu í garð nýjir tímar á Anfield: tímar varnarmúrsins.

Hyypiä á að baki glæstan feril með Liverpool; hann og Henchoz spiluðu stórkostlega á þrennutímabilinu 2000/01 og þegar Henchoz yfirgaf klúbbinn var Jamie Carragher færður í miðvörðinn við hlið Hyypiä. Það er varla ofsögum sagt að þeir tveir voru öðrum fremur lykillinn að sigrinum í Meistaradeildinni vorið 2005 og síðan þá, kominn vel yfir þrítugt, hefur hann einnig náð að smella við hlið Daniel Agger og Martin Skrtel í stöku leikjum svo að það er engu líkara en þeir hafi spilað saman alla ævi.

Sami var fyrirliði Liverpool þangað til gulldrengurinn Gerrard tók við þeirri stöðu og þótt sumir efuðust um framtíð hans þegar Houllier svipti hann bandinu og lét Gerrard hafa það haustið 2003 sannaði Sami enn og aftur gildi sitt með því að bregðast við þeim tíðindum af stakri ró og hefur hann einfaldlega haldið sínu striki síðan þá eins og ekkert hafi úr skorist. Lesið ummæli Phil Thompson, mannsins sem gekk frá kaupunum á Sami ásamt Houllier, þar kemur skýrt fram hvers lags snillingur Sami er og hefur verið fyrir Liverpool.

Allavega, það þarf varla að segja nokkurn skapaðan hlut um Sami. Við vitum öll hvað hann getur og hversu mikilvægur hann er og þótt framtíð hans sé enn í vafa nú þegar hann er ekki lengur í Meistaradeildarhópi Benítez og samningur hans rennur út í sumar er ljóst að ef leiðir skilja loks eftir þetta tímabil verður Sami kvaddur með þeim titli sem hann á skilið frekar en flestir: **goðsögn**.

Ég ætla að njóta þess fram á vorið að horfa á Sami spila, hvað sem verður í sumar. Þvílíkur leikmaður.

Að lokum, þá er hér vídjó af uppáhalds markinu mínu með Sami, en það kom í fyrra gegn Arsenal í Meistaradeildinni. Greyið Senderos átti aldrei séns gegn alvöru risa …

27 Comments

  1. ég tek algjörlega undir hvert einasta orð 🙂

    þvílíkur leikmaður. ótrúlega yfirvegaður, hraðinn er enginn, en klókindin eru gríðarleg. hann er jafnvígur á báðar fætur sem er mikill kostur og hann er eitraðasti maðurinn í enska boltanum í dag þegar kemur að hornspyrnum. sjá þessar finntur hjá manninum, hreyfingarnar, taktinn, blöffin, kraftinn, hæðina, skallagetuna, óaðfinnanlegt! hann er einhvern veginn alltaf þar sem boltinn kemur, reynsla, les leikinn, platar varnarmanninn og stangar svo boltann.

    takið eftir finntunni hans hyypia gegn senderos í videoinu sem KAR setur neðst í færsluna, senderos veit ekki einu sinni að hann sé staddur á anfield eftir þetta mark!

    þvílíkur heiður að fá að horfa á hyypia spila, magnaður varnarmaður og kaupin á finnanum hljóta að komast í topp 5 í sögu klúbbsins.

  2. Ég hugsa að ég hafi sjaldan orðið jafn sammála hverju orði í pistli og ég er núna.

    Þetta er okkar besti varnarmaður síðan hann kom til félagsins. Vissulega hefur hann aðeins misst úr hraða, en klókindin og útsjónarsemin eru þarna ennþá. Þetta er minn uppáhaldsleikmaður, og hefur verið lengi.

    Ég hef engu við þetta aukalega að bæta, nema að ef (líklegt) hann fer í sumar frá klúbbnum, þá er sá klúbbur sem hreppir þjónustu hans í afskaplega góðum málum.

  3. Ég man alltaf hvað ég hló mikið fyrir einhverjum árum þegar sparksérfræðingar fóru að tala um að Sami væri búinn þar sem hann væri búinn að missa allan hraða. Eftir allar þessar vangaveltur komu rótgrónir Liverpool karlar eins og Thompson fram og spurðu : Hvaða hraða?
    Ég grét af hlátri og einhverju absúrdu stolti yfir Liverpool þegar ég las þetta í fyrsta skipti.

  4. Einn besti varnarmadur sem hefur spilad fyrir liverpool. Hann a ekkert nema hros skilid.

  5. Flottur leikmaður og flottur karakter. Verður sjónarsviptir af karli þegar hann fer, en vonandi verður síðasta gjörðin hans að taka við meistarapening frá Englandi, hann á það heldur betur skilið.
    Er ekki enn búinn að útiloka að hann fái nýjan samning, en er sannfærður um að hann á eftir minnst eitt ár á Englandi, eða hjá stórliði á meginlandinu.
    Mest vildi ég auðvitað að hann yrði áfram, sáttur við að vera kominn aftar í röðina…

  6. Það er líkt og KAR bendir á svolítið gleymt í dag hversu vörnin var búin að vera slöpp hjá okkur þanngað til við fengum Hyypia og hinn sí þreytta Henchoz á einu bretti (plús Didi Hamann sem varði þá vel).

    Hyypia var lang besti miðvörður sem spilað hafði með Liverpool síðan Hansen og Lawrenson sáu um þær stöður. Ég er hræddur um að skemmtileg lið Roy Evans hefðu svo sannarlega getað notað Sami Hyypia og þannig náð árangri. Hyypia var óþekktur í svona korter á Anfield enda gríðarlega fljótur að afla sér vinsælda sem hafa ekkert dvínað með árunum, enda hljóta þetta að vera óumdeilanlega bestu kaup sem Houllier gerði á ferli sínum sem stjóri Liverpool.

    Eðlilega fækkar leikjunum aðeins hjá risaklúbbi eins og Liverpool þegar maður er kominn vel yfir þrítugt en ég held að Benitez líti ennþá á Hyypia sem ómissandi hluta af pússlinu. Frábær innkoma Agger og seinna Skrtel hafa aðeins minnkað mikilvægi Hyypia (og það er ekkert sjálfgefið) en ég held að (í tilviki Agger sérstaklega) þá geti Hyypia svolítið sjálfum sér um kennt enda efa ég ekki að finninn hafi aðeins farið yfir þetta með dananum.

    Það að hann hafi ekki verið valinn í hópinn sem tekur þátt í riðlakeppni meistaradeildarinnar held ég að sé ekkert höfuðatriði, hann hefur í staðin spilað heilmikið í öðrum keppnum og oftar en ekki verið okkar hættulegasti maður í sókn og besti maður í vörn. Ég efa ekki að Hyypia verði hjá okkur fram í maí og yrði ekkert hissa að sjá hann fá eitt ár í viðbót. Eins gæti ég mjög vel trúað að hann komi núna inn í CL hópinn hjá okkur, við erum tæpir ef einn miðvörðurinn meiðist líkt og Skrtel gerði og því gott að eiga Hyypia inni. Ef ekki þá efa ég ekki að sá gamli væri alveg til í að gera allt til að bæta síðasta púslinu í verðlaunasafnið sitt, þeim enska.

    Hyypia er afar augljóst dæmi um goðsögn sem er ennþá að spila, það er eitthvað sem segir mér að hann verði áfram hjá klúbbnum í þó nokkuð mörg ár, þó hann verði ekki leikmaður nema í 1-2 ár í viðbót.

  7. Er sammála Babu, það hlýtur að kitla Finnann talsvert að eiga loks raunhæfan möguleika á að verða enskur meistari. Hef ekki nokkra trú á að a) Hyypia vilji fara í janúar eða b) að Benítez hafi nokkurn áhuga á að láta hann fara.
    Svo vonar maður auðvitað hann fái amk eitt ár í viðbót.

  8. Eins og svo oft áður (alltaf? 🙂 nei varla!) er ég nákvæmlega sammála KAR. Ég get ekki ímyndað mér Sami spilandi með öðru liði eftir þetta og ég myndi helst af öllu vilja að hann kláraði feril sinn hjá Liverpool, mögulega svo síðar meir sem hluti af þjálfarateymi … alla vega, þá er þetta hiklaust maður sem fengi peysuna hengda upp í rjáfur hjá mér ef hann væri körfuboltamaður 🙂 Algjör snillingur, áfram Hyypia.

  9. Þessi maður á einfaldlega að klára ferilinn hjá Liverpool og fara svo í þjálfarateymið, nánar tiltekið á hann að sjá um að kenna varnarmönnum hvernig á að lesa leikinn og verjast og svo má hann endilega kenna öllum hinum líka hvernig á að mæta á boltann í hornspyrnum og setja hann á rammann. Þá list kann enginn maður betur en hann.

  10. Tja þessi maður er náttlega Legend. Það hinsvegar kemur skemmtilega í ljós:
    “He never had pace” þ.e.a.s. hann hafði aldrei hraða, bara gott auga fyrir leiknum. Hinsvegar í vídeóinu er klárt að það er fótavinna hans sem skapar honum þá stöðu að vera alltaf á réttum fæti við dekkningar og lestur. M.ö.o. þú þarft að skilja leikinn og lesa hann til þess að vera góður.
    Ég vona að Sami kallinn hafi kjark í fleiri síson með LFC. Vonandi sem flest. Hann á ekki að fara og vera í Stók, Hull eða eitthvað svoleiðis. Vera bara eins lengi og þarf hjá okkur og fara svo að vinna sem varnarþjálfari.

  11. setjann inná gegn stoke til að hreinsa innköstin hjá rory delap…

    algjör legend þessi maður, uppáhalds markið mitt var gegna juventus í meistaradeildinni árið 2005!

  12. Mér finnst að það ætti að vera forgangsvekefni að halda honum innan Liverpool, gera manninn að þjálfara þegarhann hættir. Yrðu rosaleg mistök að missa þennann gullmola frá Liverpool.

  13. Frábær leikmaður og sammála öllu í flottum pistli!
    14. Já algjörlega. Svona menn verðum við að halda innan klúbbsins og hann getur án vafa gert góða varnarmenn enn betri með sínum stíl og sinni þekkingu. Hann talar líka eins og vélmenni sem er gott fyrir alla útlendingana hjá Liverpool!

  14. Gamli Finninn er ekkert annað en FRÁBÆR varnarmaður og ég hef haldið því fram að hann sé sá besti í Enska boltanum í mörg ár. Það má vel vera að menn segja að maður sé blindaður af Liverpool ást en þessi maður er bara fáránlega góður varnarmaður. Hann skorar alltaf reglulega og er mjög hættulegur fram á við og eins og við vitum allir (öll) þá les hann leikinn virkilega vel. Það er vissulega gott að vera með hraða en Sami Hyypia hefur náð langt án þess að vera með mikinn hraða. Hann Á að klára ferilinn hjá LFC og ekki orð um það meir :0)

  15. Það er ekki hægt annað en að elska hann, alger snillingur og hefur reynst ein bestu kaup Liverpool í sögunni.
    Hann sagði sjálfur fyrir að ég held 2 árum síðan að hanns æðsti draumur áður en hann hættir að spila væri að verða Enskur meistari með Liverpool og hann gæti ekki hugsað sér að hætta fyrr.
    Þannig að það er ljóst að hann fer ekki fyrr en í fyrsta lagi í vor 🙂

  16. Sami er legend ! Svo sér maður líka virðinguna sem hann fær frá öðrum leikmönnum í deildinni, það er ekki oft sem maður sér Wayne Rooney standa við hlið varnarmanns og brosa, en það gerði hann við Sami, enda hefur maðurinn einhverja vinalega útgeislun sem erfitt er að standast.

    Svo heyrði ég einhvern tímann í fyrra að Sami væri ekkert í einhverju stríði við þá Skrtel, Agger og hina ungu miðverðina í liðinu heldur væri hann þeirra helsti lærimeistari, það er sannur team-player!

  17. Sami Tuomas Hyypiä er einhver besti miðvörður sem ég hef séð spila. Framlag hans síðustu 10 árin hefur verið ómetanlegt. Hann er jafnvel ennþá meiri hetja fyrir manni þegar maður man eftir, eins og KAR minnist á, vörninni eins og hún var með menn eins og Harkness, Ruddock, Babb, Bjornebye og co. Hann er í meiri metum hjá manni en heimalningar eins og Carra og Gerrard m.a.s. Megi hann lengi lifa og verða þjálfari þegar ferlinum líkur hjá okkur!

  18. Hvað á maður að segja um Sami Hyypia. Þetta er einfaldlega stórkostlegur varnarmaður sem fer í sögubækurnar sem einn allra besti miðvörður í sögu Liverpool.

    Það er svo margt sem er merkilegt við Hyypia. Hann var náttúrulega fyrsti miðvörður Liverpool í hartnær áratug sem gat spilað vörn. Við vitum öll hvaða snillingar voru í vörninni áður en Hyypia mætti á svæðið ásamt Stephane Henchoz sem skilaði líka góðu starfi fyrir klúbbinn.

    Það má heldur ekki gleyma því hvernig kallinn brást við þegar Houllier ákvað að svipta hann fyrirliða stöðunni. Einhverjir hefðu nú látið egóið ráða för en Sami hefur tileinkað sér einkunnarorð Liverpool sem eru auðvitað að það er enginn stærri en klúbburinn sjálfur.

    Ég er allavega þeirrar skoðunar að hann sé jafn góður og hann var fyrir 10 árum en hann getur auðvitað ekki spilað jafn marga leiki og þá. Ég vona svo sannarlega að hann klári ferilinn sinn hjá Liverpool og það með meistaramedalíu um hálsinn. En ég vona að þær verði þá orðnar þrjár og að hann leggi ekki skóna á hilluna fyrr en vorið 2011! Hann er bara 35 ára og fyrir AC Milan eru menn á þeim aldri einfaldlega framtíðarleikmenn 🙂

  19. Sælir félagar
    Flottur pistill, afburðaleikmaður og goðsögn þó ferlinum sé ekki lokið. Frábær leikmaður og þarfnast þess ekki að verið sé að hnýta í “heimalningana”. Hann stendur fyrir sínu án þess.
    Það er nú þannig.

    YNWA

  20. Já, sammála, litlu að bæta við þetta öðru en lítilli sögu.
    Í desember 2007 gerðum við nokkrir félagar góða ferð á Anfield. Sáum okkar menn salta Bolton 4-1. Torres skoraði 2, og Hyypia stangaði einum í netið. Að sjálfsögðu var öllum mörkunum fagnað gríðarlega og saminn var söngur um meistara Hyypia sem var kyrjaður stöðugt eftir leikinn. Hér kemur textinn, sunginn við lagið María, María:)

    Hver er sá sem að aldrei bregst okkur
    Sami Hyypia
    Hver er traustur sem finnskur trukkur
    Sami Hyypia,

    Tekur alla á sprettinum
    skorar alltaf úr hornunum
    Hyypia, Hyypia, Hyypia, Hyypia, Sami Hyypia.

    Stundum er bara svo gaman að vera steiktur…

  21. Maðurinn er bara klassi. Ég á erfitt með að ímynda mér Liverpool án hans.

  22. Flottur Ívar, svona á þetta að vera 🙂

    Annars þarf litlu við þetta að bæta um hann Sami blessaðann. Þetta er bara algjört LEGEND og hef ég orðið þeim heiðri aðnjótandi að kynnast honum aðeins persónulega, og ég get sko alveg sagt það að það spillir ekki fyrir og hefur hann enn hærra til skýjanna í mínum huga. Mikill húmoristi og stórbrotin persóna. Það hefur heldur ekki skemmt fyrir honum að hann er búinn að vera fáránlega góður varnarmaður fyrir Liverpool í 10 ár.

    Respect

  23. Hreint út sagt frábær leikmaður og hefur verið afar dyggur leikmaður í þjónustu Liverpool í áratug.

    Má ekki einnig segja að leikmenn á borð við Carragher, Agger og núna Skrtel séu að njóta góðs af því að hafa leikmann eins og Hyypia sem sér heildarmyndina (í einu og öllu). Hann er pottþétt búinn að beita sér fyrir því að þeir séu búnir að bæta sig og það á sinn eigin kostnað.

Að kaupa eða ekki kaupa

Stoke á morgun