Það var langt frá því sama skemmtun í dag og á síðasta ári þegar liðin gerðu 5-5 jafntefli í þessari keppni. Bæði lið gerðu margar breytingar á liði sínu síðan á mánudaginn en byrjuðu samt með frekar sterkt lið, svona miðað við hvernig Klopp og fyrrum Arsenal stjórar hafa litið á deildarbikarinn. Það sem kom líklega mest á óvart var að Mo Salah byrjaði en það gæti verið því að það er landsleikjahlé framundan en Egyptaland spilar ekki í þessu hléi svo líklega er verið að gefa honum mínútur í kvöld.
Arsenal fengu fyrsta góða færi leiksins þegar boltinn barst til Eddie Nketiah sem var alltof lengi að ná af skoti og náði Adrian að ýta boltanum frá fótum unga sóknarmannsins. Það var síðan lítið að frétta í fyrri hálfleik þar til honum var alveg að ljúka en á 44. mínútu braut Cedric á Diogo Jota þegar hann var að sækja inn í vítateiginn frá vinstri vængnum og vildu leikmenn Liverpool fá víti en dómari leiksins dæmdi aukaspyrnu þar sem brotið hófst fyrir utan teig. Mínútu síðar kom besta tækifæri leiksins þegar Neco Williams átti frábæra sendingu inn á teig þar sem Jota náði skalla á markið en Leno varði boltann út í teig þar sem Minamino kom á ferðinni en setti boltann í slánna með opið markið fyrir framan sig.
Liverpool hófu svo seinni hálfleik mun betur og áttu Van Dijk, Grujic og Jota allir góð tækifæri sem Leno varði vel í marki Arsenal manna. Eftir 60. mínútna leik fóru Van Dijk og Salah af velli og virtist þá vaxa nokkuð trú Arsenal manna sem urðu hættulegri við vikið. Þeir áttu tvö ágæt færi til að klára leikinn sjálfir, fékk Saka boltann rétt við vítateig með tvö samherja með sér en Neco Williams náði að komast í boltann. Seinna var fínn skalli frá Pepe sem Adrian varði vel. Það endaði því markalaust og haldið í vítaspyrnukeppni.
Fyrirliði dagsins James Milner tók fyrsta víti kvöldsins og að sjálfsögðu setti hann sitt í netið. Það var svo í þriðju spyrnu sem fyrsta klúðrið kom þegar Adrian varði frá Elneny en Divok Origi klúðraði strax á eftir honum. Aðrir skoruðu úr sínum vítum og því þurfti að grípa til bráðabana.
Fyrstu spyrnu þar tók Harry Wilson en Leno sá við honum og gat þá Joe Willock tryggt Arsenal áfram. Hann skoraði úr sínu víti og Liverpool því fallnir úr deildarbikarnum í ár.
Bestu menn Liverpool
Marko Grujic á skilið að vera nefndur fyrstur í dag. Hann var mjög öflugur á ósamstilltri miðju og var einna líklegastur til að skora í dag. Hann er hreinlega óheppinn að hafa ekki verið hjá Liverpool fyrr, hann virðist hörku leikmaður en samkeppnin hjá okkur svakaleg þessa dagana. Diogo Jota átti nokkrar góðar tilraunir í dag og bjó til færi fyrir Grujic. Mikil vinnsla í honum og er sannfærður um að hann á eftir að koma okkur vel í ár. Rhys Williams er leikmaður sem maður hafði lítið heyrt af fyrir Lincoln leikinn en hann átti fínan leik í kvöld. Neco Williams átti frekar kaflaskiptan leik. Í fyrri hálfleik átti hann í erfiðleikum en óx inn í leikinn og átti klárlega betri leik í dag en gegn Lincoln.
Vondur dagur
Divok Origi og Harry Wilson fá klárlega að vera hér fyrir að hafa klúðrað vítunum sínum. Wilson fékk óvænt að byrja leikinn og hann vann mikið og átti fína kafla en týndist einnig á köflum þá sérstaklega í seinni hálfleik. Origi kom inn fyrir Salah og það var lítið að frétta úti vinstra megin eftir að hann fór þangað. Minamino klúðraði besta færi okkar í leiknum. Hann var ágætur í fyrri hálfleik en var að koma mjög djúpt að sækja boltann og týndist svo alveg í seinni hálfleiknum. Einnig átti Curtis Jones erfitt í dag en hann fékk lítið svæði til að vinna með.
Umræðupunktar
- Það er erfitt að sjá hvar sumir af þessum strákum fá mínútur núna þar til FA-bikarinn hefst. Einhverjir eru líklegir til að fara en ef það tekst ekki er ólíklegt að við sjáum Grujic, Wilson, Elliott og jafnvel Neco Williams á næstunni. Williams gæti þó líklegastur til að fá mínútur þar sem Klopp hlýtur að hvíla Trent í einhverjum leikjum í þeirri leikjahrinu sem framundan er.
- Þrátt fyrir að hafa stillt upp frekar sterku liði er ég nokkuð viss um að Klopp sé ekki of sorgmæddur að hafa fallið úr leik í þessari keppni. Verðlaunin fyrir sigur í dag var leikur gegn Manchester City leikinn í vikunni fyrir jól. Miðað við hvernig Klopp hefur talað um jólatörnina á Englandi hingað til er ég nokkuð viss um að hann er feginn að þurfa ekki að þurfa senda lið í þann leik.
- Shaqiri tók ekki þátt í dag og er umræðan sú að hann sé líklega á leiðinni til Ítalíu og Brewster var aftur ekki í hóp þannig hann er pottþétt einnig á leiðinni í burtu. Félagskiptaglugginn lokar á mánudaginn og við gætum kvatt nokkra leikmenn fyrir þann tíma.
Næsta verkefni er í deildinni en við mætum Aston Villa á sunnudaginn klukkan 18:15 á Villa Park. Áttum erfitt þar í fyrra þegar við unnum með tveimur mörkum á lokamínútunum en komumst vonandi aftur á sigurbraut þar eftir þetta tap – up the Reds
Glatað að tapa, sem gerist bara á þriggja ára fresti núna, en mikið rosalega er Jota geggjaður leikmaður!
Nei það er nú ekki alveg þannig, Liverpool er búið að tapa þrisvar á rétt rúmlega tveim mánuðum bara fyrir Arsenal…
Ok, á sirka tveggja ára fresti núna.
Jota fær núna heldur betur færi til að sýna sig “ Mané out með Covid ! Djöfulsins helvíti
YNWA.
Adrian, vörnin og Jota góðir. Grujic frábær.
Wilson og Origi mega finna sé nýja klúbba.
Því miður ein mistök hjá meistara Klopp……Origi. Nú held ég að það hljóti að vera fullreynt. Kemur gjörsamlega áhugalaus inn á og áhugaleysið skín af honum í vítaspyrnunni. Auðvitað hefur hann stundum reynst vel en öll líkamstjáning hjá honum í þessum leik var neikvæð. En annars fínasti leikur og ósangjörn úrslit.
YNWA
Sælir félagar
Þessi leikur fór að vonum. Jones og Wilson anzii slappir og mér sýnist lítil eftirsjá í Wilson greyinu. Jones var ekki að sýna af hverju hann ætti að fá möguleika á spila með aðalliðinu. Milner líka slakur og svo einfættur að það er pínlegt. Aðrir sýndist mér vera á pari og strákarnir í vörninni stóðu sig vel. Mér er nokkuð sama um þessa keppni nema til að gefa mönnum tækifæri.Williams strákarnir báðir fínir og Gomes að komast í sitt bezta form. Milner allt í lagi varnarlega en sóknarlega gersamlega vonlaus.
Það er nú þannig
YNWA
Ég fæ ekki skilið hvernig strákur sem varla getur haldið bolta, skorað, tekið víti, pressað, varist, staðsett sig rétt né gert eitthvað smá af viti inná vellinum sé ennþá leikmaður liðsins… þetta var aumingjalegasta upphlaup að bolta þetta víti hans sem ég hef séð. Ég vona að þetta hafi verið síðasti leikur Origi fyrir þetta lið.
Annars heilluðu Rhys Williams og Marco Grujic mig mikið. Geta klárlega verið squad players miðað við þetta í kvöld.
Wilson einnig held ég að hafi spilað sig í annað lið í kvöld.
JOTA ER LEIKMAÐUR.
Þetta var flottur leikur hjá strákunum í kvöld og var það aðeins frábær leikur Leno í markinu hjá Arsenal sem kom í veg fyrir að við færum áfram.
Það góða: Jota lítur virkilega vel út, Grujic átti líklega sinn besta leik hjá Liverpool, R.Willams átti góðan leik í miðverðinum og Adrian átti tvær virkilega flotta markvörslur(+ eina víti). Neco síðarihálfleikur þegar hann fór að stopa Pepe aftur og aftur.
Það slæma: Milner virkar eins og að hans tímar í vinstri bak eru búnir, C.Jones var ekki að heilla í dag, Neco fyriháfleikur þar sem hann var í smá vandræðum.
Það ljóta: Er þetta ekki bara komið gott með Origi? Hann er heldur betur búinn að skrifa nafn sitt í sögu Liverpool en manni finnst að þeirri sögu ætti að fara að ljúka sem fyrst. Wilson er líklega að spila sinn síðasta leik hjá Liverpool, hann var að reyna og það var kraftur í honum en hann er langt í frá að fara að spila með aðaliðinu í deildinni.
Það er alltaf leiðinlegt að tapa en samt er maður ekkert svo svektur að detta úr leik í þessum deildarbikar sem er keppni sem var sett í gang 1960 til að hafa aðra bikarkeppni því að það var alveg pláss fyrir fleiri leiki.
Hjá þessum stórliðum þá eru ALLTOF margir leikir hjá lykilmönnum. Það er deild, það er kominn riðlakeppni í meistaradeild, það er FA Cup sem má alveg taka smá alvarlega og svo hefur fjölgað landsleikjum gríðarlega síðan 1960 með fleiri HM leikjum í undankeppni, EM fleiri leikir í undankeppni og núna þjóðardeild sem tekur af æfingarlandsleiki sem margar stjörnur fengu hvíld í en ekki mikið núna.
Jæja nóg um þetta, næsti leikur er A.Villa á útivelli á sunnudaginn og svo kemur þetta ömurlega landsleikjahlé þar sem maður biður til Fowler að menn koma heilir heim.
YNWA – Jota 🙂
Sæl og blessuð.
Ekki skulum við gráta Óðrík óðalsbónda eins og þar stóð. Þetta er óttaleg prumpukeppni og í næstu umferð hefðum við mætt særðum risum sem hefðu lagt allt og ömmu þess í leikinn. Þá hefðum við annað hvort þurft að spila út sparistellinu eða þá óhjákvæmilega að lúta í lægra haldi með fermingarbörnin og öldunginn Milner.
Annars var það sem ég sá af leiknum mjög flott – hratt spil og hápressa. Hræddur um að Rúnar geti farið að æfa hugleiðslu eþh með þennan Leno í markinu. Svakalegur leikmaður þar á ferð.
En Origi … þinn tími er liðinn. Það er bara þannig. Frumskógurinn hefur ekki pláss fyrir svona dútlara. Tyrkneskt lið bíður eftir þér – vittu til!
Bara sást hvað við erum ofsalega háðir hröðum vængmönnum. Með Milner í þeirri stöðu erum við aldrei að fara að skora mikið…
Liverpool vann rétta leikinn milli þessara liða, það er málið. Grujic og Wilson drengirnir frábærir í kvöld. Þvílík efni. Harry wilson olli mér í kvöld, ég hef alltaf verið mikill aðdáandi hans þangað til núna, sama með Origi. Shaq að fara frá okkur og ég yrði ekki hissa ef þeir báðir væru farnir í lok gluggans. Milner fannst mér bara góður, og ég skil ekki í þeim sem eru að drulla yfir hann hérna. Næsti leikur er villa, sem tapaði fyrir stoke með sitt varalið í kvöld.
Sælir félagar
Það er enginn að drulla yfir Milner HB. Hann átti einfaldlega frekar slakan leik í kvöld og svo sem ekkert við því að segja. Origi er enn og aftur að sanna að hann má fara hvenær sem er. Ekki miklar líkur á því að það fáist miklir peningar fyrir hann. Harry Wilson var afar slakur en þó hafði hann það fram yfir Origi að hann var að reyna grey kallinn en hann bara hefur ekki það sem til þarf. Undan öðrum er svo sem ekki hægt að kvarta nema þá Jones sem einhvernveginn var ekki almennilega tengdur í þessum leik en svoleiðis leiki eiga allir inn á milli.
það er nú þannig
YNWA
Skil ekki umræðuna um Milner. Samkvæmt Liverpool echo fær hann 8 í einkunn, ásamt Grujic og Jota, og átti góðan leik. Hann var sumsé einn af þremur bestu leikmönnum Liverpool að mati L echo. Aðrir fá lægra. Það er greinilega ekki sami leikur sem menn eru að tala um eða hvað?
Er alveg sammála þessu hjá L.Echo. Ég sá reyndar bara síðustu mín í fyrri og svo seinni hálfleikinn en fannst alltaf að þegar einhver pressa var á öftustu leikmenn þá gáfu þeir boltann út á Milner sem leysti málið af yfirvegun.
Var Salah inná?
Grujic flottur og það lið sem fær hann mun prísa sig sælan að fá hann. Vona samt að hann hafi spilað sig inn í plön Klopp. Wilson var spilað úr stöðu og skil ekki alveg þankaganginn þar…var verið að sýna hann fyrir mögulegum kaupendum…ef svo af hverju þá ekki í stöðunni þar sem Salah var?
Af hverju er Origi alltaf settur á vinstri kant þegar hann kemur inná? Hver er backup fyrir Firmino svona án djóks?
Neco var ásamt Grujic bestu menn liðsins. Ömurlegt að detta út því það þýðir færri leiki fyrir squad players sem er alltaf gott fyrir komandi tímabil.
Hefðum unnið þennan leik með JimmyCash í leftback, Milner er búinn þar, samt kóngur hann Millie.
Skýrslan er kominn í hús
Sökum covid…einbeitum okkur að deild og meistaradeild ef varalið okkar getur ekki klárað litlu bikarkeppnir þá tökum við því með reisn og gerum betur í næsta leik….held Klopp mæti með sterkara lið í FA Cup ef ekki þá hefur hann sínar ástæður og ég stið þær sem aðrar sem hann tekur….
*Grujic klárlega að sanna sig, á klára skilið að vera áfram og berjast um sæti í liðini, flott backup á miðjuna og að mínu mati betri og yfirvegaðari leikmaður en Jones og Keita á mörgum sviðum.
*Origi er ekki nógu góður í fótbolta og verður einfaldlega að fara.
*Greyið Harry Wilson fær loksins tækifæri og óheppinn að fá skellinn, það er hins vegar talsvert meira varið í hann en þessi leikur lét í ljós.
*Mér þótti skiptingarnar skrýtnar hjá Klopp og óljóst hvort hann vildi í alvörunni vinna leikinn eða tapa honum. Veikir liðið sem líður á leikinn í stað þess að blása til sóknar og reyna að klára leikinn.
*Minamino er að koma til og fínar rispur hjá honum inná milli, ágætist styrkur í honum en veit ekki alltaf hvað hann á að gera við boltann, aðeins að slípa hann til og við gætum verið að tala um flotttan fótboltagaur.
Jákvætt hvað Rhys Williams stóð sig vel. Virkar hörkuduglegur í loftinu. Gæti orðið feikna leikmaður.
Þurfum að losa okkur við Wilson sem er búinn að eyðileggja bikarkeppnina fyrir okkur. Jafnvel að fá Willock inn í staðinn.
Ef ekki hefði verið fyrir Bernd Leno hefðum við unnið 2-0 að minnsta kosti. Hefði viljað sjá Rúnar í markinu, sem er varmaður fyrir Hannes í íslenska landsliðinu.. Hannes? Sem spilar í einni lægst rönkuðu og gæðaminnstu deild heims?
Í Blood Red í dag er talað um að ef Big Shaq verður seldur (sem er ansi líklegt) þá verður Harry Wilson áfram.
Vissulega lék hann ekki vel en það er fullhart hjá þér að skrifa tapið á hann.
Fannst Milner flottur varnarlega en sóknarlega kom ekki mikið út úr honum, sýndi að við þurfum klárlega að halda okkur við sóknarbakverði okkar ef kostur er. Alltaf leiðinlegt að tapa en á eðlilegum degi og með eðlilega frammistöðu markvarðar andstæðinga okkar þá hefði þessi leikur unnist. En núna er bara að halda áfram og spila okkar besta liði í næsta leik. Jota virkar flottur og tilbúinn en það verður ekki auðvelt að komast í byrjunarliðið með fremstu þrjá þarna ef þeir eru í standi. Origi er því miður ekki að heilla og væri fínt að losa hann undan samningi.
Samkvæmt þessum snillingum að þá erum við verðmætasti fótboltaklúbbur veraldar og er það vel að sér komið, sérstaklega miðað við hrellingarnar sem hafa dunið yfir okkur. Við erum alveg einstaklega vel rekinn klúbbur og öllum öðrum til eftirbreytni. Vonandi náum við að viðhalda þessari frábæru stefnu og árangri.
Maður er hættur að þora að minnast á fótbolta því allir eru svo súrir og öfundsjúkir út í okkur. Þetta minnir mig á gömlu daga þegar við unnum allt.
Hérna er síðan.
https://www.transfermarkt.com/spieler-statistik/wertvollstemannschaften/marktwertetop
Helv, vonandi er Thiago ekki búinn að smita allt liðið. Það munar um minna að missa þennan mann út.
https://www.vg.no/sport/fotball/i/Epo0oo/sadio-mane-har-testet-positivt-for-covid-19
mANÉ með covid neiii
Svakalegt að Covid sé farið að stinga sér niður í klúbbnum okkar.
En hvað er málið með þessa ketti sem koma efst á síðuna þega farið í kommentin ???
Ketti ?
YNWA.